StrætiÞau eru geysilega flink, ungmennin sjö í útskriftarhópi Listaháskólans í leiklist, og í lokaverkefni sínu fá þau gott tækifæri til að sýna það. Í Stræti eftir Jim Cartwright eru ein tuttuguogfimm hlutverk sem þau skipta á milli sín, þó ekki jafnt. Hilmir Jensson leikur til dæmis bara Scullery, náungann sem kynnir okkur fyrir götunni sinni, fátæklegri götu í ömurlegu hverfi í skítapleisi á Norður-Englandi, og fólkinu sem þar býr. Aðrir leika frá tveim og upp í sjö hlutverk.

Flest er fólkið hans Scullerys vandræðafólk, drykkfelldir karlar og lauslátar konur, og þó er Scullery nokkuð stoltur af sínu. Sjálfur býr hann í bíldruslu, en það kemur ekki í veg fyrir að hann haldi partý og taki á móti dömum. Gervið á Hilmi var prýðilegt og fasinu náði hann fullkomlega, en auðvitað er þetta ekki manneskja sem maður vildi eyða kvöldstund með, og nokkuð varð hann leiðigjarn til lengdar.

Raunar má segja það sama um aðrar persónur verksins, þær eru ósköp lítilla sanda og lítilla sæva. En litríkar eru þær, og þar fá leikararnir góðan stuðning frá búningahönnuðinum Filippíu Elísdóttur og Sóleyju Björt Guðmundsdóttur sem gerir leikgervi. Það var oft verulega erfitt að þekkja leikarana bak við gervin, og Stefán Baldursson leikstjóri sá til þess að gervinu fylgdi viðeigandi túlkun.

Jim Cartwright samdi Stræti um valdaskeið Margrétar Thatcher. Þetta var fyrsta leikrit hans, og nýja sýningin er sú þriðja sem ég sé í íslensku leikhúsi. Það er merkilegt hve lítið situr eftir í manni af atburðum og persónurnar renna nokkuð saman. Þó mundi ég vel eftir Joey (Ævar Þór Benediktsson) sem sér enga leið út úr ömurleikanum aðra en svelta sig í hel. Hann snart mann verulega djúpt í þessari uppsetningu. Og hann tekur stúlkuna sína (Anna Gunndís Guðmundsdóttir) með sér þó að hún hafi enga aðra hugsjón en þá að fylgja honum. Ævar Þór gerði afar vel í fleiri hlutverkum, til dæmis var hann frábær gamall karl sem man tímana tvenna. Anna Gunndís fékk líka bæði að leika þá elstu og þá yngstu, gömlu konuna og litlu stúlkuna sem er skilin eftir ein þegar pabbi fer út á fyllirí. Sú litla hæfði henni betur en báðar voru vel skapaðar.

Átakanlega hlægileg er senan þegar fullorðin kona (Svandís Dóra Einarsdóttir) reynir að koma ungum manni (Hilmar Guðjónsson) til við sig og vill ekki sjá að hann er nær dauða en lífi af drykkju. Hilmar lék mörg fleiri hlutverk og var virkilega flottur til dæmis í hlutverki Skinnisins. Svandís Dóra lék fleiri konur í eldri kantinum og gerði það prýðilega. Stelpurnar á djamminu (Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Lára Jóhanna Jónsdóttir) voru ansi skemmtilegar, bæði í byrjun þegar þær búa sig af stað, hvor heima hjá sér, og í lokin þegar þær eru komnar heim til gauranna (Ævar Þór og Hilmar) og fremja sitt frelsandi rítúal með hjálp Otis Redding. Sviðið var eftir Vytautas Narbutas og var við hæfi.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum öflugu krökkum á næstu árum og óskandi að leikstjórar hafi fylgst vel með þeim í vetur. Þau eru til alls vís ef þau fá tækifæri.

 

Silja Aðalsteinsdóttir