eftir László Nagy

Textinn birtist fyrst í bókmenntatímaritinu Stína, 10. árg., 2. hefti, nóvember 2015

Guðrún Hannesdóttir þýddi

 

Hún stóð í fjallshlíðinni hnarreist og hvít, ekki ósvipuð kapellu heilagrar Margrétar* á klettasyllunni ofar í fjallinu. Inni í kapellunni var kuldi og mynd í silfurramma. Inni í hestinum var folaldsfóstur. Fylgjan varpaði skærrauðum geislabaug inn í hlýjan ófullburða munninn.

Þarna stóð arabíska hryssan og beið. Hún hristi sig af og til svo kembdar silkimjúkar lendarnar gengu í bylgjum og fjölmargar freknurnar á húð hennar kipruðust eins og stóð af gullnum baldursbrám. Hún stóð þarna og beið, stóð og starði yfir Bensenyöskóginn, í átt að kirkjuturninum í Iszkáz.

Söngfuglarnir höfðu farið í felur um leið og verkamennirnir í víngarðinum stóðu upp frá stóra eikarborðinu og komu drukknir og slagandi í átt að vagninum. Þeir höfðu þegar raðað sér sitjandi upp á hann og augu þeirra loguðu eins og blóðsprengdar rúður í rökkrinu. Gluggar sem ólguðu af alkóhóli, en þar fyrir innan rasaði hetjulogi dagsins og vildi ekki slokkna. Hesturinn lítur um öxl og sér logandi borg augna þeirra gnæfa yfir sér. Hann hneigir höfuð sitt í mótmælaskyni en hreyfir sig ekki úr stað, þótt svipan djöflist og dansi milli augna hans og þeyti ennistoppi hans til.

Drukknir vínekrumennirnir umhverfast. Breytast í hundraðshöfðingja aftan úr öldum. Galæstir slíta þeir hálm úr næsta þaki. Þeir kveikja eld undir maga hryssunnar og ætla með eldinum að særa fram viðbrögð, svíða hana til heimferðarinnar – út á veginn hvíta sem hefði átt að vera þéttskrifaður vísum og söng.

Mamma stóð í dyragættinni í slitna rósótta kjólnum sínum, barnshafandi, hvít eins og kapella. Hún lyfti höfðinu hærra, svo makkinn næmi ekki við jörð. Stjörnur himnaríkis lýstu í kapp við nýkviknaðar freknur hennar. En hún stóð bara þarna og beið, stóð og starði í átt til fjallsins í svölum fjarskanum. Hún hryllti sig því nú sá hún logandi stjörnu falla ofan af fjallinu og steypast niður í náttsvartan skóginn. Stjarnan var hesturinn í ljósum logum í vindinum með brennandi vagninn í eftirdagi.

Þá féllu leikföngin mín á borðinu um koll. Þá lögðust blessuð dýrin mín gerð úr maískólfum afvelta, með lappirnar upp í loft. Og þá lagði ég frá mér litlu grashörpuna sem ég hafði þrýst að hjarta mínu í síðasta sinn. Því mamma kom með stormluktina; það var engu líkara en hún hefði dregið fram litla bróður minn, sjálflýsandi og reykhærðan út úr maganum á sér. „Þú verður að fara, hugrakki strákur,“ sagði hún. Og ég fór og hélt með báðum höndum um litla hlýja glerbarnið í tinkápunni. Þrýsti því að brjósti mér. Á nafla þess skríkti loginn og skalf eins og við værum á leiðinni til Betlehem. En ég skynjaði hyldýpi hryllingsins fyrir fótum mér.

Ég hljóp framhjá gjammandi hundskjöftum og skelfilegum skögultönnum kirkjugarðsins. Rauðar refafælur blöktu yfir malarnámunni og slógust framan í mig. Beggja vegna vegarins voru morðóðar bogaskyttur í viðbragðsstöðu. Gegnumnístur örvum þeirra náði ég loks að útjaðri skógarins.

Drukknir verkamennirnir voru komnir þangað á undan mér og byrjaðir að flá hestinn í daufu stjörnuskininu. Brennuvargsbrjálæðið var runnið af þeim, í brjósti þeirra voru aðeins eftir af því nokkrar örþunnar, sótsvartar flögur. Andlit þeirra voru einnig svört sem sót. Álútir með svartar grímur bogruðu þeir yfir verki sínu líkt og læknar við uppskurð. Þeir drógu húðina af báðum síðum hryssunnar samtímis eins og þeir væru að losa um tvo stóra hvíta vængi. Ég heyrði snarkið í himnunum. Pabbi fláði ófædda folaldið og mér fannst sem hann væri að fletta húðinni af litla bróður mínum, ófæddum. Þegar mennirnir krupu svona á hnjánum virtust þeir eymdarlega smáir, en skuggarnir sem þeir vörpuðu yfir í blómabrekkuna sýndu að þetta voru furðuverur að spila á spil, stórir og djöfullegir fantar sem höfðu lagt líf mitt undir og spilið væri tapað. Nú ætti ég að drepa pabba! Þetta flaug mér í hug þótt ég væri lítið stærri en luktin. Nú ætti ég í nafni allrar sanngirni að stinga hann eins og hann er vanur að stinga svínin. Núna! Leggja fyrst hælinn á háls honum og draga fram hnífinn. Í huganum var ég þegar búinn að vinna þetta voðaverk og brast um leið í grát yfir annarri eins dauðasynd. Hvorki himinn né jörð fengu huggað mig. Uppi á himninum sá ég skíðlogandi vagninn á hvolfi. Ég sá líka hvernig mjólkurlækirnir streymdu niður til okkar frá hinni ógæfusömu móður og hurfu undir blöð blómanna.

Ég vissi nú að í birtingarmyndum heimsins eru misgjörðir okkar svo kirfilega skráðar að enginn mannlegur máttur fær nokkru sinni afmáð þær.

Pabbi braut saman litlu svörtu folaldshána og lagði hana yfir herðar mér. Í lamandi þögn íklæddist hann aktygjunum, axlaði taumana, bar beislið á höfðinu. Í þessum búningi ljómaði vitundin um syndabyrðina úr augum hans líkt og stjörnur á altari. Mennirnir stilltu sér upp að baki honum með blóðuga húð píslarvottsins í fanginu. Allir drógum við andann þungt, hálfopnum munni. Og lögðum af stað steinþegjandi í nafni guðs og hestsins. Í hverju skrefi glömruðu málmhringirnir og spennurnar, allt skein það í hreinu silfurbliki. En sjálfir vorum við sótugir og gengum niðurlútir sem iðrandi syndarar. Þessi leið mun engan enda taka, næturgangan varir til eilífðarnóns.

Fremstur geng ég og held á lugtinni í mannhæðarháum kuldanum.

 

*Heilög Margrét er verndardýrlingur kvenna í barnsnauð.

 

László Nagy

László Nagy

László Nagy (1925 – 1978) var ungverskt ljóðskáld og þýðandi. „Blóðvitni“ birtist fyrst í ljóðabók hans Zöld Angyal (Græni engillinn, 1965).

Þýðing Guðrúnar Hannesdóttur er gerð eftir sænskri þýðingu Folke Isaksson og Béla Jávorszky.