Það er sjaldgæf hátíðarstund að fá að horfa á Ingvar E. Sigurðsson einan á leiksviði í klukkutíma, eins og nú gefst færi á í Borgarleikhúsinu. Ekki dregur úr ánægjunni að hlusta á hann fara með góðan texta sem þar að auki er innihaldsríkur, gefur okkur landkröbbum innsýn í hugarheim sjómanns á hafi úti, líf hans þar og í landi og leyfir okkur loks að fylgjast með honum og félögum hans í vonlausri baráttu við höfuðskepnuna þegar skipið ferst úti á rúmsjó.

DjúpiðVerkið heitir Djúpið og er eftir Jón Atla Jónasson sem áður hefur m.a. samið leikritið Brim sem öllum er minnisstætt sem það sáu. Jón Atli leikstýrir Ingvari sjálfur; kannski var það óráðlegt þó erfitt sé að ímynda sér að verkið verði betur flutt en gert var á frumsýningunni í gærkvöldi. Hljóðmynd Hilmars Arnar Hilmarssonar var mögnuð, og önnur umgjörð algerlega ásættanleg. Það var eiginlega bara gervið á Ingvari sem truflaði. Sjómaðurinn hans er enginn unglingur en býr þó enn ókvæntur heima hjá mömmu og pabba. Hvers vegna var hann algráhærður og með dándimannslegt skegg? Er það vegna þess að hann komst af og segir okkur frá þegar hann er orðinn eldri maður, eða er það vegna þess að hann segir frá að handan og hefur þá elst við veruna þar – þvert á alþýðutrú sem segir að þar sé maður alltaf á sama aldri og maður var þegar maður fór yfir.

Þetta útlitsmál truflaði ekki undir sýningunni, varð bara umræðuefni á eftir. Það þarf áreiðanlega ekki að hvetja fólk til að sjá þessa sýningu, en ég minni það á að drífa sig: það verða bara átta sýningar (a.m.k. að sinni) vegna anna leikarans erlendis.

Silja Aðalsteinsdóttir