„Hrörnar þöll / sú er stendur þorpi á“ segir í Hávamálum. Upphafssviðið í Óþelló Shakespeares, sem frumsýndur var í gærkvöldi á stóra sviði Þjóðleikhússins, minnti á þessi orð. Á sviðinu stendur tré, beinvaxið og fagurt, í annars gróðurlausri urð. Við fáum að horfa á það drjúga stund og njóta þess að sjá ljósin leika í því og færa það úr laufskrúði sínu – eins og fyrir galdur – áður en Óþelló (Ingvar E. Sigurðsson) kemur með öxi og fellir það. Í sömu svifum skundar inn her manna og skapar nýtt svið í lofti, á veggjum og gólfi – úr kílómetrum af glæru plasti … Það er sjón að sjá. Sviðið er verk Barkar Jónssonar sem ekki bregst fremur venju og magnaða lýsinguna hannaði Halldór Örn Óskarsson.

Þetta upphaf er táknrænt á marga vegu en augljósast er að lesa það þannig að Óþelló höggvi þarna að rótum gæfu sinnar og skapi sér falskan heim, óöruggan heim sem auðvelt er að rjúfa göt á, eins og mörg dæmi eiga eftir að sýna þegar persónur reka hendur og haus gegnum veggi. Samt virðist staða hans trygg í upphafi leiks. Þó að hann sé útlendingur er hann háttsettur í her furstans í Feneyjum, hefur rétt í þessu sigrað her Tyrkja og kvænst hinni íðilfögru Desdemónu (Aldís Amah Hamilton). Hún dáir hann á barnslega einlægan hátt, enda hjartahrein stúlka. Hann hefur nýlega hækkað besta vin sinn í tign, Kassíó (Arnmundur Ernst Backman), sem er reiðubúinn að ganga gegnum eld og vatn fyrir hann. En með því að lyfta einum vakti hann öfund annars. Hin glæsilega, gáfaða og reynslumikla Jagó (Nína Dögg Filippusdóttir) verður æf af reiði við að vera hunsuð á þennan hátt. Og þar eð hún er gersamlega miskunnarlaus ríður hún með snjöllum rógi net utan um Óþelló, Kassíó og Desdemónu, þrengir æ meira að þeim og lætur Óþelló að lokum fremja óafturkallanlegt og ófyrirgefanlegt ódæðisverk í stjórnlausri afbrýðisemi.

Óþello

Þessi einfaldi en þó snilldarlega spunni þráður er skýr í sýningu Gísla Arnar Garðarsson. Þó er persónum fækkað til muna og leikritið talsvert stytt en atriðum sem vísa til nútímans bætt inn í staðinn. Í þeim notar Hallgrímur Helgason þýðandi þó sama bragarhátt og gerir nýju atriðin þannig hálfu fyndnari. Þýðing hans er afskaplega munntöm og skemmtileg en samanburður við frumtextann og eldri þýðingar bíður betri tíma. Satt að segja gætti ég þess að lesa engan texta leikritsins áður en ég fór á sýninguna til að leyfa henni að hafa eigin áhrif hindrunarlaust en þýðing Hallgríms er komin á skrifborðið mitt.

Gísli Örn hefur tekið tvær óvæntar ákvarðanir í þessari uppsetningu. Önnur er sú að breyta Jagó í konu. Mér finnst það ágætlega til fundið, ekki síst af því að Jagó fær ekki verðskuldaðan frama þrátt fyrir metnað til þess og það kannast konur mætavel við. Hin er sú að lita Ingvar ekki brúnan á kroppinn en hjá Shakespeare er Óþelló Mári. Í sýningunni er hann einfaldlega kallaður útlendingur og ekki þurfa þeir að vera brúnir á hörund til að mæta fordómum á okkar dögum, spyrjið bara innflytjendur frá Austur-Evrópu hvar sem er á Vesturlöndum. Eiginlega finnst mér erindi verksins komast sterkar til skila á þennan hátt í okkar samtíma. Hins vegar er Desdemóna dekkri á hörund í þessari sýningu en venjulegur Íslendingur og það á ef til vill líka að segja sína sögu í þessari margslungnu sýningu.

Sýningin á Óþelló er mikið leikhús með dansi, klifri, átökum, áflogum og fimleikum af ýmsu tagi eins og við er að búast af Vesturportsliðum. Þar ber hæst kynþokkafullan dans Desdemónu fyrir eiginmann sinn og gesti hans. Dansinn vann Aldís Amah ákaflega vel, jafnvel í djörfustu atriðum skein af henni það sakleysi sem ætti með réttu að vernda hana fyrir ofbeldi en nægir ekki hér frekar en annars staðar. Aldís er skínandi góð leikkona og fór vel og tilgerðarlaust með textann. Það sama á raunar við allan hópinn, hann skilaði textanum eins og venjulegu mæltu máli þótt bundinn sé. Best var þó að heyra og skilja Nínu Dögg sem fær lengstan texta og heldur sýningunni uppi með frábærri túlkun sinni á illmenninu Jagó. Eins og Ríkharður þriðji dregur Jagó áheyrendur inn í sitt djöfullega plott með eintölum sínum til okkar þannig að okkur finnst við samsek í ódæðinu í leikslok og Nína Dögg fór létt með að heilla okkur upp úr skónum. Samtal Jagó og Desdemónu um eðli og hlutskipti kvenna varð djöfullega fyndið í meðförum þeirra Aldísar og Nínu; og seinna fékk það andsvar sitt í innskoti sem sömuleiðis var andstyggilega fyndið um leið og það var átakanlegt.

Ingvar E. Sigurðsson er dálítið eins og naut í flagi í hlutverki Óþellós, raddbeitingin var annarleg þegar hann var reiðastur og maður missti jafnvel úr setningu og setningu. En þegar allt kemur til alls er hann sannfærandi í hlutverkinu og umfram allt trúir maður á hann í lokin þar sem mest reynir á hann. Arnmundur Ernst er prýðilegur Kassíó, sakleysislegt góðmenni en veikur fyrir áfengi, og Björn Hlynur Haraldsson var alveg dásamlegur í hlutverki Brabantíós, föður Desdemónu. Frábært bragð að láta hann nota séríslenskt „ha?“ þegar hann fær fréttir af atferli dótturinnar. Guðjón Davíð Karlsson er Ráðríkur sem girnist Desdemónu og lendir líka í neti Jagó en Ólafur Egill Egilsson er í hlutverki Emils, eiginmanns hennar. Þetta eru hvort tveggja gamansöm hlutverk sem þeir kumpánar fara létt með. Sama má segja um Katrínu Halldóru Sigurðardóttur sem verður eftirminnileg í sínu eina almennilega atriði í sýningunni.

Þessarar sýningar verður líklega fremur minnst fyrir klæðleysi en klæðnað en búningar Sunnevu Ásu Weisshappel, aðrir en nærföt af ýmsum sortum, voru glæsilegir. Einkum klæddi hún aðalkonurnar tvær af listfengi. Stuðmikil tónlistin var á vegum Björns Kristjánssonar (Borko) og féll vel að anda sýningarinnar. Um sviðið má bæta við að það er mikil lenska þessi misserin í Þjóðleikhúsinu að nota fríttstandandi kassa sem ýmist eru með gagnsæjum veggjum eða eina hliðina opna. Þetta er orðið svolítið einhæft en vissulega komu þeir að góðu gagni í Óþelló.

Þetta er fersk, hressileg og djörf túlkun á snilldarverki Shakespeares og ég hef trú á því að hann hefði sjálfur skemmt sér býsna vel á henni.

Silja Aðalsteinsdóttir