Ljósið og rusliðÍ gærkvöldi var frumsýnt í Tjarnarbíó óvænt og skemmtilegt sviðs- og kórverk, Ljósið og ruslið, eftir Benna Hemm Hemm og Ásrúnu Magnúsdóttur danshöfund. Þetta eru tíu sjálfstæð lög eftir Benna við texta eftir hann líka, þau fjalla um ýmis málefni, misalvarleg. Iðulega stefna þau hressilega saman húmor og depurð, og kórinn, samsettur úr um það bil þrjátíu konum héðan og þaðan, leikur á lögin og túlkar textana á sinn hátt. Hver kona var klædd að sínum smekk og hópurinn var afar litríkur og fjörlegur að sjá.

Sýningin hófst á tveim draumlögum, um það að vilja helst ekki vakna enda draumarnir betri en veruleikinn. Við seinna lagið leystist kórinn upp á sviðinu og konurnar dönsuðu frjálslega syngjandi, hver eins og hugur hennar stóð til. Á undan þriðja laginu var tilkynnt að nú færu þær í frí og það var eins og við manninn mælt: þær settu upp sólgleraugu og lögðust syngjandi á sólarströnd þarna á gólfinu í Tjarnarbíó! Rétt seinna lék allur kórinn á hristur af öllu tagi af miklum móð. Á tímabili varð allt vonlaust og ömurlegt en á næsta augnabliki var dansað af miklu fjöri. Það var sungið um ruslið – ætlaði ég ekki að fara út með það? Spurt hvar klósettið væri og um hvað þú værir að hugsa. Það var sungið um dauðann og fullyrt að baráttan væri töpuð. Kannski væri mögulegt að hringja í vin? Alla vega skaltu alls ekki hafa áhyggjur!

Ekki var að heyra að kórinn væri nýstofnaður, hann söng eins og áratugagamall, margreyndur kór. Benni lék á gítar og fleiri hljóðfæri en með honum í hljómsveitinni voru Sigurlaug Thorarensen, Margrét Arnardóttir og Ása Dýradóttir. Svo söng Benni vitaskuld einsöng með kórnum og mér fannst raddir hans og kvennanna fléttast virkilega fallega saman. Ég geri ráð fyrir því – úr því að annað er ekki tekið fram í kynningarefni – að hann hafi útsett lögin fyrir kórinn og þjálfað hann. Útsetningarnar voru spennandi og útkoman oft alveg frábær, til dæmis í laginu um að vera frosinn og geta ekki komið orðum að því sem mann langar til að segja og laginu þar sem konan ávarpar karlinn og spyr hvort það pirri hann að horfa á hana og hlusta á hana. Það var grátlega fyndið! Kórkonur dönsuðu líka sporin hennar Ásrúnar eins og þrautþjálfaðir dansarar og léku jafnvel betur en til var ætlast.

Það sótti á mig sú hugsun undir sýningunni að það ætti að vera lafhægt fyrir þessi hæfileikabúnt að semja söngleik úr þessu efni, með því að semja söguþráð og bæta við einstaka lagi. Lögin eru mjög sjarmerandi og textarnir verulega hnyttnir. Verkinu var geysivel tekið og áheyrendum var launað klappið með „París norðursins“ eftir Prins Póló í flutningi hópsins. Það var góður endir. Næsta sýning verður 1. febrúar og ég mæli með henni, ekki síst fyrir kórafólk og kóraáhugafólk.

 

Silja Aðalsteinsdóttir