Það var mikið hlegið á litla sviði Borgarleikhússins í gær – enda er það dauður maður sem ekki hlær að Sigurði Sigurjónssyni þegar hann gerir það sem hann kann svo vel. Þetta var á frumsýningu Afans eftir Bjarna Hauk Þórsson, Siggi var einn á sviðinu en höfundur leikstýrði. Verkið er að því er virðist samið í kringum persónu Sigga og hefst á myndasýningu af honum en ýmislegt í því fjallar sýnilega ekki um persónu hans.

AfinnEinleikurinn heitir Afinn, en satt að segja er afahlutverkið alveg úti í horni í verkinu. Einstaka sinnum (tvisvar eða þrisvar) sjáum við samskipti afa og afabarns og það voru bestu atriði kvöldsins þótt örstutt væru. Eiginlega ætti verkið einfaldlega að heita Karlinn því það fjallar um það að eldast út frá sjónarhóli karlmanns. Það er auðvitað í hæsta máta verðugt viðfangsefni en hefði kannski verið meira sannfærandi og ekta ef karlinn á sviðinu væri ekki svona unglegur. Þó var ljóst á viðbrögðum salarins að allir eldri gestir könnuðust mætavel við það sem sagt var frá og sýnt. Þarna fóru miðaldra hjón í fyrsta sinn í frí án barnanna – en lentu svo í íbúð við hliðina á barnmargri fjölskyldu úr Kópavogi með sameiginlegum svölum. Þarna fór karlmaður í læknisskoðun af ótta við lasleika í blöðruhálskirtli. “Félaginn” var líka farinn að “flagga í hálfa stöng” og þurfti hjálp við að komast alla leið upp, en í hvaða apótek á maður að láta senda svoleiðis lyf þegar maður er frægur um allt land? Önnur viðfangsefni voru hversdagslegustu hrörnunareinkenni miðaldra fólks eins og fjarsýni, minnisleysi á nöfn og tölur og svo framvegis og svo framvegis. Þetta varð smám saman hið viðamesta klisjusafn.

Mikið hefur verið gert úr því í kynningu að þeir félagar hafi unnið verkið saman, en nægilega mikið í því minnti á fyrri verk Bjarna Hauks, einkum Pabbann og Hvers virði er ég?, til að áhorfanda yrði ljóst að Bjarni ætti talsvert í því. Til dæmis er kvenpersónan í verkum Bjarna alltaf sú sama, nöldursöm og leiðinleg og hefur lítinn áhuga á kynlífi með karlinum. Stundum var engu líkara en karlinn á sviðinu væri tvær ólíkar persónur. Til dæmis passaði smekklausa ræðan sem Siggi heldur við brúðkaup dóttur sinnar engan veginn við þá geðugu persónu sem hann sýndi okkur oftast nær ella.

En stundum rataðist þeim félögum satt á munn, til dæmis þegar dreginn er upp munurinn á barni og barnabarni. Sko. Barn er eins og bíll sem maður þarf að hugsa fyrir og sjá um á alla vegu, þvo og þrífa og bera á alla ábyrgð. En barnabarn er eins og bílaleigubíll sem maður skemmtir sér með af hjartans lyst og skilar bæði óhreinum og eldsneytislausum!

 

Silja Aðalsteinsdóttir