Leikhópurinn Díó sýnir núna heimildaverkið Piparfólkið eftir Aðalbjörgu Árnadóttur og Ylfu Ösp Áskelsdóttur uppi á lofti í Kornhlöðunni, Bankastræti 2. Mjög fáir komast að hverju sinni svo að ráðlegt er að bíða ekki lengi með að panta miða. Í kynningu segir: „Þegar Aðalbjörg kemst að óvæntu leyndarmáli langafa síns, hefst atburðarás sem er í senn hröð og spennandi. Markmiðið er að gefa hversdagsleikanum epískan blæ og fara örlítið rangt með sagnfræðilegar og persónulegar heimildir.“ Höfundar leika sjálfar aðalhlutverkin en fá óvænta aðstoð við aukahlutverk.

Það fer vel á að leika leikinn í húsi með sögu því hann snýst um þann kafla í sögu Reykjavíkur þegar tekist var á um hvort yrði ofan á í orkumálum, rafmagnið eða gasið. Aðalbjörg og Ylfa Ösp segja þá sögu með nokkurri áherslu á gasið vegna þess að langafinn með leyndarmálið, Guðni Eyjólfsson eða Guðni gas eins og hann var uppnefndur, vann einmitt í Gasstöðinni við Hlemm, stórhýsi sem því miður var rifið en hús stöðvarstjórans stendur þó enn.

Leyndarmál Guðna langafa var að hann orti revíuvísur undir dulnefni og varð afar vinsæll. Þetta tvennt, gasið og revíuskáldskapinn, flétta höfundar skemmtilega saman og vitna ótæpilega í pólitískan brag langafa. Svo kann Aðalbjörg sér ekki læti þegar hún finnur leikþátt eftir langafa sinn og þær setja hann upp, framan af með brúðum í brúðuleikhúsi en síðan taka lifandi leikarar við hlutverkunum. Þeir munu verða nýir á hverju kvöldi en ég var svo bráðheppin að fá að sjá Hannes Óla Ágústsson og Ilmi Kristjánsdóttur glíma við hlutverkin. Leikþátturinn fjallar um ógifta konu, Steinvöru, sem á afmæli og sendir Jónu dóttur sína út til að kaupa bakkelsi og bjóða gesti í afmælið. Jóna tekur ráðin af móður sinni og býður öðrum manni í afmælið, manni sem hún álítur vænlegri kost og notar gamla ráðið til að koma þeim mömmu sinni saman, nefnilega að segja hvoru um sig að hitt sé logandi af ást og girnd!

Brynja Björnsdóttir sér um búninga og leikmynd en Ólafur Ágúst Stefánsson um ljósin en tónlistin er í höndum Georgs Kára Hilmarssonar og Egils Andrasonar. Allt var þetta vel og haganlega unnið.

Piparfólkið er afar hress og hressileg sýning, hlaðin gríðarlegri orku eins og hæfir efninu.

Silja Aðalsteinsdóttir