Það hefur verið svolítið í tísku undanfarin ár að búa til þjóðhöfðingja í sviðsverkum eða sjónvarpi, ég minnist sérstaklega bandarísku seríunnar West Wing þar sem Martin Sheen bjó til nær fullkominn forseta handa Könum (og sem hafði áreiðanlega áhrif á síðustu forsetakosningar vestra) og dönsku seríunnar Borgen þar sem Sidse Babett Knudsen skapar Dönum nær fullkominn forsætisráðherra. Nú er kominn íslenskur forseti upp á svið í Þjóðleikhúsinu og spurningin er: Viljum við svoleiðis?

Ballið á BessastöðumBráðskemmtilegt leikrit Gerðar Kristnýjar með söngvum hennar og Braga Valdimars Skúlasonar, Ballið á Bessastöðum, var frumsýnt í gær á stóra sviðinu við mikinn fögnuð barna og fullorðinna. Sagan er einföld: Forsetinn sem býr á Bessastöðum (Jóhannes Haukur Jóhannesson) hefur svo mikið að gera við að lesa bréf og hlýða skipunum um að klippa á borða og veita verðlaun að hann getur aldrei gert það sem hann langar til. Einn góðan veðurdag koma norsku konungshjónin í heimsókn (Örn Árnason og Anna Kristín Arngrímsdóttir) með barnabarnið sitt, hana Margréti Elísabetu Ingiríði Elísabetu Margréti (Þórunn Arna Kristjánsdóttir). Þetta er ekki opinber heimsókn, konungshjónin ætla fyrst og fremst að ferðast um landið og skoða fossa og fjöll. Á því hefur prinsessan ekki áhuga, hana langar til að skoða íslensk dýr, og það verður úr að hún verður eftir á Bessastöðum hjá forsetanum. Þá verður nú ekki mikill tími til að lesa bréf enda fá þau skötuhjúin erfitt verkefni sem leiðir þau í langt ferðalag um byggðir og óbyggðir.

Þetta er fjörug sýning, full af óvæntum smáum og stórum atriðum og sniðugum lausnum eins og er aðalsmerki leikstjórans, Ágústu Skúladóttur. Leikmynd Guðrúnar Öyahals er litrík en þó stílhrein og búningar Maríu Th. Ólafsdóttur falla vel að henni. Tónlistin er barnslega glöð og skemmtileg og afar gaman að hafa tónlistarfólkið á sviðinu, og sérstakt yndi er að brúðum Bernds Ogrodnik, landnámshænunni, lóunni og kúnni Lilju. Kýrin verður eflaust ein minnisstæðasta persónan í sýningunni. Ég meina það, hún skeit á stóra svið Þjóðleikhússins!

Forsetinn er í meðförum Jóhannesar Hauks svolítið feimnislegur og hjárænulegur eins og lagt er upp til í texta en líka sjarmerandi maður, fjallmyndarlegur og raunar mjög fallegur líka. Hann reynist vera barngóður, hann er hlý og hrifnæm manneskja, en hann er líka skýjaglópur! Ekki er auðvelt að svara því hvort hann hefði neitað Icesave-lögum staðfestingar, eiginlega getur maður séð hvort tveggja gerast þegar hann á í hlut, en hann virkar vissulega líkari Vigdísi en Ólafi Ragnari. Prinsessan er dýrleg stelpa frá hendi höfundar, orkumikil, glöð og ævintýragjörn, og Þórunn Arna skapaði hana algerlega áreynslulaust. Saman eru þau tvö lifandi og heillandi miðpunktur sýningarinnar. Allir aðrir leikendur njóta sín líka á sviðinu en sérstaklega verður að nefna Kjartan Guðjónsson sem var hreint stórkostlegur draugur. Það fór jafnvel um fullorðnar manneskjur þegar hann teygði úr stirðum limum eftir aldir í gröfinni! Lára Sveinsdóttir var yndisleg mývetnsk Auður, Hilmir Jensson tálipur póstþjónn, Örn Árnason frísklegur kóngur („Akkuraat“) og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir innlifuð Gríma bóndi.

Það var auðvitað skemmtilega skipulagt af tilviljuninni að hafa veitingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum kvöldið fyrir frumsýningu. En Gerður Kristný tók sviðsljósinu af fullkominni ró og yfirvegun. Eins og hún væri alvön því að fá bókmenntaverðlaun á miðvikudegi og frumsýna sitt fyrsta leikrit á fimmtudegi!

Silja Aðalsteinsdóttir