Fjalla EyvindurÉg var bæði búin að kvíða fyrir og hlakka til að sjá Fjalla-Eyvind og Höllu í Þjóðleikhúsinu, rosalega spennt að vita hvernig Stefan Metz færi með þessa gömlu klassík okkar sem hver kynslóð verður að fá sína útgáfu af. Það voru útlendingar sem báru þetta verk fram og hófu það til vegs og virðingar upphaflega, á sviði og kvikmyndatjaldi, en nú er langt síðan erlendir leikstjórar hafa fengið að glíma við það. Útgáfa minnar kynslóðar var með Helgu Bachmann og Helga Skúlasyni í Iðnó með minnilega glæsilegum leiktjöldum. Þessi nýja er næstum því eins ólík henni og verða má, útgáfa Mörtu Nordal og Aldrei óstelandi í Norðurpólnum um árið var þó líklega ennþá ólíkari.

En alltaf er þetta sama verkið. Allir leikstjórar bera virðingu fyrir texta Jóhanns Sigurjónssonar þó að þeir stytti kannski eins og Stefan Metz gerði í gær. Það var bara ein lykilsetning sem við söknuðum, setning sem við höldum að Halla hafi ekki sagt á frumsýningu: „Ég get lifað þó honum þyki ekki alltaf eins vænt um mig. En hætti ég að elska hann, þá dey ég.“ Í rauninni þarf hún ekki að segja þetta því þessi fullyrðing liggur undir allri túlkun í sýningunni, en setningin leggur samt áherslu á rómantískan meginþráð verksins, að lifa sé það sama og að elska.

Halla (Nína Dögg Filippusdóttir) er stöndug ekkja og býr búi sínu. Hún hefur ráðið til sín ókunnan mann úr öðrum landsfjórðungi, Kára (Stefán Hallur Stefánsson), og þegar leikritið hefst er hann orðinn ráðsmaður hjá henni, mági hennar Birni hreppstjóra (Steinn Ármann Magnússon) til furðu og ergelsis. Okkur verður ljóst um leið og við sjáum þau saman á sviðinu, Höllu og Kára, að hún er hugfangin af honum. Það er Oddný vinnukona líka (Esther Talía Casey) en Kári hrífst greinilega meira af Höllu. Smám saman verður ást þeirra og girnd nærri áþreifanleg og einu sinni liggur háskalega nærri við að upp um þau komist.

Því samband þeirra er illa séð og ekki eingöngu út af stéttamun. Bæði girnist Björn hreppstjóri líka þessa ekkju bróður síns og svo kemst kvittur á kreik í sveitinni um að Kári sé í rauninni Eyvindur, dæmdur þjófur og strokufangi. Svo fer að Kári játar þetta fyrir Höllu. Hann hafði verið ár á fjöllum áður en hann réðst til hennar og nú ákveður hann að verða aftur útilegumaður – og Halla fer með honum. Seinni hluti verksins gerist á fjöllum og lýsir grimmum lífskjörum útlaga með stöku sólskinsstundum.

Þetta er sterk sýning í einfaldleika sínum. Sviðsmynd Seans Mackaoui er naumhyggjuleg en áhrifamikil. Yfir miðju sviði hangir geysistórt klakastykki eins og áminning um kuldann og harðneskjuna – hið ytra og innra – og veður var eftirminnilega sýnt, bæði á fyndinn og hádramatískan hátt eins og vert er í þessu verki. Innandyra hjá Höllu eru húsgögn varla nein, utandyra eru nettir steinar til að sitja á og einn steindrangi. Annað gat óvænt verið nákvæmt. Einkum var mér skemmt þegar Björn og Kári bjuggu sig undir að glíma í réttunum og settu á sig glímubelti með viðhöfn. Það var góð sena. Búningar eru fremur nútímalegir en átjándualdarlegir.

Leikurinn er jafn og góður. Allir vita hvað þeir eru að gera og hverju þeir vilja ná fram, hávaða- og tilgerðarlaust en oft með léttleika og kómík. Nína Dögg ber fallega uppi sýninguna, einkum seinni hlutann. Halla er yfirveguð í túlkun hennar þrátt fyrir ástríðuhitann, sterkur persónuleiki, heilsteypt og sönn. Stefán Hallur er svalari og fjarlægari í hlutverki Kára nema í ástaratriðum fyrri hlutans, þar skortir ekkert á ástríðuhita hans. En Kári er auðvitað klofinn maður, bæði Kári og Eyvindur, og túlkun Stefáns Halls sýndi það vel.

Önnur hlutverk voru einstaklega vel skipuð. Steinn Ármann gaf Birni hreppstjóra sérstæðan og eftirminnilegan svip og rödd; maður nauðaþekkti þennan náunga. Sigurður Sigurjónsson var afburðagóður Arnes. Atriðið milli þeirra Höllu á fjöllum er að mínu mati besta atriði sýningarinnar. Þar rís verk Jóhanns hæst og þau Sigurður og Nína Dögg lifðu sig makalaust vel inn í það. Ást hennar á Kára og einsemd og óhamingja Arnesar urðu ótrúlega sterk og sár.

Hjú Höllu voru vel sköpuð af Ragnheiði Steindórsdóttur, Esther Talíu, Oddi Júlíussyni, Kristni Óla Haraldssyni, sem var afar líflegur smali, og Þórhalli Sigurðssyni sem var Arngrímur gamli lifandi kominn. Sýslumannshjónin voru í hæfum höndum Pálma Gestssonar og Tinnu Gunnlaugsdóttur en þau hjón skapar leikstjóri úr nokkrum persónum, kemur fyrir miklum texta sem leiðinlegt væri að missa af vegna fækkunar persóna en leikur sér að honum á aðdáunarverðan hátt. Sérstakan þátt eiga svo litlu stúlkurnar í sýningunni, Agla Bríet Gísladóttir, Gríma Valsdóttir, Helena og Hildur Clausen Heiðmundsdætur, og brúðan sem leikur Tótu.

Bestur var þó hlutur Jóhanns Sigurjónssonar. Verk hans stenst gersamlega sem klassík með sínum meitluðu tilsvörum og efni þess og boðskapur eiga enn fullt erindi á leiksvið.

Silja Aðalsteinsdóttir