Íslenska óperan frumsýndi í gærkvöldi glæsilega uppsetningu Benjamins Levy hljómsveitarstjóra og Anthonys Pilavachi leikstjóra á óperunni Évgení Onegin eftir Tchaikovsky. Þetta er upphaflega söguljóð eftir þjóðskáld Rússa, Alexander Púshkin (1799–1837), sem var geysilega vinsælt meðal landa hans en lifir utan Rússlands fyrst og fremst í þeirri mynd sem Tchaikovsky gaf því. Texti óperunnar er eftir Konstantín Shílovskí og er sunginn á rússnesku en textar birtast yfir sviðinu á íslensku og ensku. Þeir voru skýrir og góðir.

Évgení OneginSagan er gamalkunn en þó alltaf ný: Tatjana (Þóra Einarsdóttir) býr á sveitasetri fjarri borgarys hjá móður sinni, hershöfðingjaekkjunni Larínu (Hanna Dóra Sturludóttir), og unir sér best við lestur ástarsagna. Dag nokkurn kemur nýr nágranni í heimsókn, Évgení Onegin (Andrey Zhilikhovsky), og Tatjana verður yfir sig ástfangin. Í ungæðishætti sínum skrifar hún honum ástarbréf og nánast biður hans (það hlýtur að hafa þótt djarft af stúlku á tíma Púshkins) en hann skilar henni bréfinu næsta dag með yfirlætisfullum vandlætingarlestri um einfeldni stúlkna eins og hennar. Á næsta dansleik í sveitinni verður hann ergilegur yfir orðrómnum um sig og Tatjönu og daðrar opinskátt við Olgu systur hennar (Nathalía Druzin Halldórsdóttir) þangað til kærasti hennar – og besti vinur Onegins – ljóðskáldið Lenskí (Elmar Gilbertsson), verður brjálaður af afbrýðisemi og skorar Onegin á hólm. Sú viðureign fer þannig að Onegin drepur Lenskí. Lokaþáttur gerist í stórborginni nokkrum árum síðar þegar Onegin kemur í veislu til frænda síns, Gremíns fursta (Rúni Brattaberg), og hittir þar fyrir sveitastelpuna sem hann hafði hafnað svo ruddalega. Hún er nú gift furstanum, töfrandi yfirstéttarfrú, og Onegin verður yfir sig ástfanginn. Í þetta skiptið skrifar hann henni bréf og biður hana að fara burt með sér en sagan endurtekur sig: hún hafnar honum.

Sagan er heillandi en auðvitað er það tónlistin sem heldur óperunni á sviðum helstu óperuhúsa heims. Hún er seiðandi fögur, bæði sönglesið og aríur, og söngurinn í Eldborg Hörpu í gærkvöldi sæmdi verkinu fyllilega. Þóra Einarsdóttir skein í hlutverki Tatjönu, hljómmikil rödd hennar fyllti Eldborgarsalinn áreynslulaust og tilfinningatjáning hennar var svipmikil og blæbrigðarík. Hún sýndi glöggt þróun persónunnar frá barnslega ástríðufullu stúlkunni í fyrsta þætti til virðulegu furstafrúarinnar í þeim síðasta, en við fengum líka að sjá glitta í ungu stúlkuna í reiðilegum orðum hennar við Onegin undir lokin.

Andrey Zhilikhovsky er rosalega flottur í titilhlutverkinu. Bæði hæfir útlit hans og rödd persónunni og hlutverkinu og svo þróaðist persónan eftir því sem leið á verkið, eins og persóna Tatjönu. Hann er kaldur og hrokafullur, lífsleiður ungur maður í fyrsta þætti; brotinn og vinalaus í þeim síðasta. Það kveikir í honum að sjá hilla undir nýtt líf, ástríkt og gefandi, með Tatjönu en í lokin bíður hans ekkert nema örvæntingin.

Hlutverk Lenskís er aukahlutverk, enda er hann drepinn í miðju verki, en Elmar Gilbertsson gerði það sannarlega að einu minnisstæðasta hlutverkinu, svo frábær var túlkun hans á þessum hvatvísa unga manni. Hann á eina frægustu aríu óperunnar meðan hann bíður þess að Onegin mæti í hólmgönguna og Elmar söng hana eins og sá sem valdið hefur. Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað? spyr hann og veit í hjarta sínu að hann á ekki afturkvæmt af þessum blóðvelli. Það var einn af hápunktum kvöldsins eins og vera ber.

Önnur hlutverk voru ágætlega skipuð. Það sópaði að Hönnu Dóru í hlutverki Larínu og samsöngur þeirra Alinu Dubik í hlutverki fóstrunnar um fortíðina var mjög skemmtilegur; Olga var fjörleg andstæða Tatjönu í túlkun Nathalíu Druzin. Rúni Brattaberg fær auðvitað að syngja eina þekktustu aríu óperunnar á dansleiknum í lokin þegar persóna hans, Gremín fursti, lofar eiginkonu sína með svo fögrum orðum að auðvitað datt stúlkunni ekki í hug að yfirgefa hann eftir þá innilegu ástarjátningu. Rúni fyllti vel upp í hlutverkið og þegar djúpir bassatónarnir endurómuðu um salinn í lok aríunnar fóru gæsahúðarstraumarnir upp og niður hryggsúluna. Hlöðver Sigurðsson var skondinn monsieur Triquet og gerði sér mat úr litlu hlutverki. Óperukórinn var vel skipaður, að venju, enda fær hann margar fallegar melódíur í þessari óperu. Hann söng afskaplega vel undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Og hljómsveitin lék af öryggi undir stjórn Benjamins Levy.

Leikmyndina hannar Eva Signý Berger sem hefur hvað eftir annað vakið athygli á undanförnum árum fyrir snjallar sviðslausnir. Sviðið í Eldborg er frægt fyrir hve erfitt það er en það ögrar auðvitað hugmyndaríku fólki sem kemur – þegar best tekst til – með lausnir sem fá mann til að gapa af undrun og gleði. Þetta tókst Evu Signýju í síðasta þættinum þegar hún breytir sviðinu á „einfaldan“ en snilldarlegan hátt. Það þurfið þið að sjá til að trúa mér. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur miðast við Rússland aldamótanna 1900 og voru vel hugsaðir. Hún dregur skýrt fram muninn á Tatjönu fyrr og síðar, bæði í lit og fatasniði, og mér er til efs að glæsilegri kjóll hafi sést á íslensku sviði en sá rauði í lokin. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar er eitt af hans minnisstæðu listaverkum. Ástarhugur Tatjönu í fyrsta þætti er ekki síst tjáður með ljósabeitingu og það var algert gæsahúðarmóment.

Évgení Onegin eftir Tchaikovsky var fyrsta óperan sem hafði djúpstæð áhrif á mig. Ég sá hana í Kirov-leikhúsinu í Pétursborg fyrir aldarfjórðungi og var ekki söm eftir. Það var auðvitað alveg klassísk uppsetning, búningar og leikmynd miðuð við aldamótin 1800. Eitthvað það vonlausasta sem gagnrýnandi gerir er að nöldra yfir færslu verka í tíma – það er búið að taka þá ákvörðun og henni verður ekki breytt. En ég vil samt segja að sú ákvörðun að flytja þessa óperu til áranna rétt fyrir rússnesku byltinguna bætir að mínu viti engu við hana. Innkoma verkafólksins í fyrsta þætti fannst mér verulega ankannaleg og svo dregur viðbótin í lokin umtalsvert úr áhrifum endisins. Að öðru leyti er ég afar sátt við leikstjórn Anthonys Pilavachi. Hann lætur söngvarana hreyfa sig eðlilega á þessu breiða sviði, það var gaman að sjá Lenskí og Olgu skjótast í felur til að kyssast meðan Larína og Tatjana gerðu sig til fyrir Onegin og átakaatriði eins og slagsmál Lenskís og Onegins í afmælisveislu Tatjönu og hólmgangan eru virkilega vel útfærð. Að öllu athuguðu er sýningin enn einn sigur fyrir Íslensku óperuna.

Silja Aðalsteinsdóttir