Það má teljast djarft að setja upp Sporvagninn Girnd um miðjan ískaldan vetur í Þjóðleikhúsi Íslendinga, þetta heita og sveitta verk sem snýst um ástríður og gerist í þrúgandi hita Suðurríkja Bandaríkjanna. Stefán Baldursson leikstjóri er þó hvergi banginn og hefur með sér þétta sveit kvenna, aðstoðarmanninn Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, leikmyndahönnuðinn Þórunni Sigríði Þorgrímsdóttur og búningameistarann Filippíu I. Elísdóttur. Flókna lýsinguna sér Magús Arnar Sigurðsson um og ágeng og áhrifamikil hljóðmyndin er eftir Elvar Geir Sævarsson. Nýja þýðingu gerði Karl Ágúst Úlfsson.

Leikritið er eitt þekktasta verk Tennessee Williams og fjallar um Blanche DuBois (Nína Dögg Filippusdóttir), sem kannski er magnaðasta kvenpersóna bandarískra leikbókmennta. Í upphafi verksins leitar hún uppi systur sína Stellu Kowalski (Lára Jóhanna Jónsdóttir) í niðurníddu hverfi í New Orleans. Þar býr Stella með eiginmanni sínum Stanley (Baltasar Breki Samper) sem er sonur pólskra innflytjenda og vinnur í verksmiðju. Blanche er komin í „heimsókn“ til Stellu, hún hefur verið leyst undan kennslu í skólanum sínum af því að hún er svo slæm á taugum. Hún á í engan annan stað að venda – búin að brenna allar brýr að baki sér. Þær systur eru af auðugum plantekrueigendaættum þannig að þær hafa sett ofan í veröldinni. Stella horfist í augu við veruleikann og sættir sig við hann – enda er hún vitlaus í töffarann Stanley – en mjög langt er frá því að Blanche sé það. Raunar gengur verkið út á að láta okkur komast að því smám saman hvað Blanche er djúpt sokkin ofan í lygar og sjálfsblekkingu og segja okkur hvað veldur vanlíðan hennar.

Sporvagninn Girnd

Verkið er ákaflega vel skrifað, þéttur og vandlega hugsaður texti sem þýðandinn kemur vel til skila. En efnið er ekki beinlínis nýstárlegt lengur þannig að allt er undir því komið hvernig farið er með það. Hlutverk Blanche er auðvitað sannkallaður hvalreki fyrir Nínu Dögg akkúrat núna. Hún sýndi á aðdáunarverðan hátt vaxandi geðtruflun ungu konunnar; fyrst á hún bara erfitt með að hemja talandann og áfengisneysluna, svo vex stjórnleysið smám saman en er þó furðu agað lengi vel – uns allar varnir bresta. Nína Dögg er makalaust heppin með búningahönnuð sem hefur nautn af því að velja handa henni hin fegurstu klæði – sem stinga glannalega í stúf við nöturlegt umhverfið í íbúðarnefnu Kowalskihjónanna – og allt klæðir það hana jafn vel.

Lára Jóhanna túlkar góðu og elskulegu systurina Stellu af einlægni sem snertir mann djúpt. Hún ver systur sína eins lengi og hún getur, þolir henni afskiptasemi og dónaskap af barnslegri systurást. Ást hennar umvafði líka eiginmanninn sem hún þarf að verja fyrir systurinni, því Blanche fyrirlítur Stanley jafnvel meira en hún girnist hann. Það var ekki eins djúpt á tilfinningum Stanleys í túlkun Baltasars Breka en reiðiköst hans voru sannfærandi og ofstopanum náði hann vel, jafnvel betur en girndinni.

Guðjón Davíð Karlsson lék Mitch, vin Stanleys og kærastann sem Blanche verður sér úti um í hverfinu. Mitch er vænn maður en fullkomin andstæða Blanche, mömmudrengur sem fátt hefur séð eða reynt. Gói fór ákaflega vel með þetta hlutverk þótt ólíkt sé því sem hann er vanur. Það er ánægjulegt að sjá hann glíma við nýstárleg verkefni á nýjum stað. Önnur minni hlutverk voru vel skipuð; Edda Arnljótsdóttir var röggsöm grannkona og leigusali Kowalskihjónanna, Pálmi Gestsson var æði subbulegur eiginmaður hennar, Hallgrímur Ólafsson var spilafélagi þeirra Stanleys og Mitch og Ísak Hinriksson lék ungan rukkara sem vekur gamlar þrár og drauma Blanche. Atriðið milli þeirra tveggja var ótrúlega sterkt og harmþrungið í einfaldleika sínum. Læknateymið var vel unnið hjá Baldri Trausta Hreinssyni og Lilju Guðrúnu Þorvaldsdóttur, einkum bjuggu þau Nína Dögg og Baldur Trausti til eftirminnilega smámynd í lokin.

Sú gagnrýni hefur heyrst á skotspónum (og heyrðist í leikhúsinu í gærkvöldi) að leikararnir í sýningunni séu of ungir fyrir hlutverkin en miðað við fyrirmæli höfundar eru þeir frekar of gamlir. Blanche er til dæmis aðeins þrítug hjá Tennessee Williams – hann er að benda á að kona þarf ekki að vera orðin „gömul“ til að finnast hún vera að missa blómann, ekki síst ef sjálfstraustið er lítið. Stella er fimm árum yngri en Blanche, Mitch á að vera um þrítugt, báðir leikararnir eru eldri. Baltasar Breki er þó líklega heldur yngri en Stanley sem á að vera tæplega þrítugur. En þetta skiptir auðvitað litlu máli, það er verulega upplífgandi að sjá og heyra þetta unga leikaralið blómstra í höndunum á sínum reynda leikstjóra og hvet ég ekki síst ungt fólk til að fara, sjá og njóta.

Silja Aðalsteinsdóttir