Að eilífuEllefu útskriftarnemar af leikarabraut Listaháskóla Íslands frumsýndu í gærkvöldi Að eilífu eftir Árna Ibsen í Smiðjunni undir stjórn Stefáns Jónssonar. Verkið var upphaflega samið fyrir slíkan útskriftarhóp árið 1997 og ég man að sýningin olli mér vonbrigðum af ýmsum ástæðum. Það gerði ekki frumsýningin í gær. Hún var eldfjörug, hugmyndarík í stóru sem smáu og yndi á að horfa frá upphafi til enda (þótt galsinn verði kannski aðeins of á kafla í seinni hlutanum).

Verkið gerist á ritunartíma og er byggt upp í kringum hjónavígslu Guðrúnar Birnu (Katrín Halldóra Sigurðardóttir) og Jóns Péturs (Kjartan Darri Kristjánsson) og snýst ótal hringi utan um atvik fyrir og eftir hana. Utan um þau snúast vinirnir og fjölskyldur sem eru í senn skrautlegar og dæmigerðar. Brúðurin á skelegga móður (Vala Kristín Eiríksdóttir) sem kýs að ganga inn kirkjugólfið með dóttur sinni af því að maðurinn hennar, gauðið Einar (Ólafur Ásgeirsson), hefur verið svo stutt hjá þeim, eins og hún orðar það, og faðirinn hefur aldrei verið inni í myndinni. Brúðguminn á dásamlega taugastrekkta móður (Dominique Gyða Sigrúnardóttir) og hundleiðinlega stjúpann Grútar-Gvend (Albert Halldórsson) sem veifar seðlaveski við hvert tækifæri, tilbúinn að kaupa framgang málsins, þó að stjúpsonurinn sé lítið hrifinn af því.

Vinirnir eru líka skemmtilegur hópur; ekta besta vinkonan Baddí (Kristín Pétursdóttir), sannkallaði harðstjórinn Ella Budda (Þuríður Blær Jóhannsdóttir), Biggi hinn sambandsfælni (Eysteinn Sigurðarson), sambandsspillirinn Súsanna (Dominique Gyða), Palli fylgihnöttur (Baltasar Breki Samper) og lúserarnir Össi (Albert) og Tanja (Vala Kristín). Þá er ótalinn presturinn séra Halldóra sem er snilldarlega leikin af Halldóru Rut Baldursdóttur, og ekki var hún síðri kórstjóri. Loks er svo óvænti gesturinn Slobodan (Baltasar Breki) sem kemur eins og þjófur á nóttu og gerir allt vitlaust. Frábærlega gerð týpa.

Leikritið skiptist í ábyggilega sextíu atriði sem hoppa til og frá í tíma og gerast á ýmsum stöðum bæði innanhúss og utan. Húsbúnaður er í lágmarki og sviðinu haldið sem auðustu til að það sé tiltækt fyrir dans og stökk hvenær sem er. Í staðinn er myndum varpað á bakvegg til að sýna umhverfið. Þetta var rosalega vel heppnað, sérstaklega í öllum senunum frá löngu ferðalagi leynigestsins. Rebekka A. Ingimundardóttir, Egill Ingibergsson og Stefanía Thors eiga heiðurinn af stórskemmtilegu útlitinu, leikmynd, búningum, lýsingu og myndböndum. Árni Rúnar Hlöðversson er höfundur snjallrar tónlistar og hljóðmyndar og gervi Kristínar Thors hjálpuðu leikurunum til að skipta um persónur þannig að í stöku tilvikum var erfitt að tengja sama leikarann við ólík gervi.

Það er ekki dauð sekúnda í þessari sýningu og þó að þráðurinn sé alveg snargalinn er óþægilega auðvelt að hugsa sér að þetta geti gerst einmitt svona í alvörunni. Mér fannst leikararnir hver öðrum betri og hlakka mikið til að fylgjast með þeim á næstu árum.

Silja Aðalsteinsdóttir