HystorySokkabandið frumsýndi nýtt leikrit eftir Kristínu Eiríksdóttur í gærkvöldi á Litla sviði Borgarleikhússins, Hystory, undir stjórn Ólafs Egils Egilssonar. Titillinn er væntanlega leikur að gríska orðinu „huster“, sem þýðir leg og er stofninn í hinu vinsæla orði hystería yfir sefasýki eða móðursýki, og svo enska orðinu „history“ eða sagnfræði. Titillinn er markviss: þetta er geðveik sýning sem vísar í raunverulegan sögulegan atburð.

Sagan í verkinu er þriggja kvenna um fertugt sem hittast um það bil aldarfjórðungi eftir að hryllilegur atburður varð í lífi þeirra. Það er Dagný (Elma Lísa Gunnarsdóttir) sem kallar þessar gömlu vinkonur saman. Þær hafa aldrei talast við eftir atvikið en sumar hafa heilsast á förnum vegi, aðrar ekki. Dagný býr ein, Lilja (Birgitta Birgisdóttir) hefur verið gift Halldóri og á með honum tvö börn en hún er nú fráskilin og ein. Sú þriðja, Begga (Arndís Hrönn Egilsdóttir), er útigangskona. Hvað svo sem það var sem kom fyrir þær þarna þegar þær voru á fermingaraldri þá hefur það greinilega eyðilagt líf þeirra, það sýnir allt þeirra æði þetta kvöld þegar þær hittast loksins.

Þetta er átakanlegt verk en það var hvorki að sjá né heyra á leikhúsgestum í gærkvöldi. Þar ætlaði allt um koll að keyra af hlátri hvað eftir annað, enda var uppsetningin svo grátlega fyndin og leikurinn svo svakalega góður að ég varð ekkert hissa á „uppistandinu“ í lokin. Þær Sokkabandsstelpur bjuggu hver um sig til skýra manneskju með fortíð, þróun til framtíðar og nútíð, auðvitað beint upp úr grimmum texta Kristínar, og maður var ekki fyrr búinn að segja að Birgitta hefði verið æðisleg þegar maður varð að bæta við að Arndís Hrönn hefði verið betri en nokkru sinni og Elma Lísa náttúrlega frábær. Það er gaman að óska þeim og höfundi til hamingju með þessa mögnuðu sýningu og sömuleiðis Evu Signýju Berger fyrir sturlað svið, Valdimar Jóhannssyni fyrir djarfa lýsingu og honum og Högna Egilssyni fyrir flotta tónlist. Mest langar mig þó að klappa Ólafi Agli duglega á bakið og segja: Áfram með þig, strákur!

Silja Aðalsteinsdóttir