Íslenskt menningar- og listalíf missti afar mikið við lát Þorvalds Þorsteinssonar myndlistarmanns og rithöfundar þegar hann féll frá árið 2013, aðeins rúmlega fimmtugur. Þekktasta verk hans, Skilaboðaskjóðan, hefur tvívegis verið sett á svið í Þjóðleikhúsinu og í gærkvöldi var Engillinn, mósaíkverk unnið upp úr ýmsum öðrum verkum Þorvalds, frumsýnt í Kassanum. Það var gæfuspor að fá Finn Arnar Arnarson myndlistarmann og leikmyndahönnuð til að setja sýninguna saman og stýra henni en honum, óvönum leikstjóra, til halds og trausts sem dramatúrg var Gréta Kristín Ómarsdóttir.

EngilinnSýningin byrjar strax þegar við nálgumst Kassann því þá heyrum við alvöruþrungna rödd lesa nöfn fólks úr skattskránni og þakka því fyrir framlag þess til lista og menningar. Það er kannski freistandi að bíða og gá hvort manns eigið nafn verði lesið en nöfnin eru ekki í stafrófsröð þannig að það myndi æra óstöðugan. Fleira er óvenjulegt við þessa leiksýningu því í hléinu bjóða kvenfélagskonur súkkulaði og skrautlegt bakkelsi til sölu til styrktar Kvenfélagasambandi Íslands sem er nírætt í ár.

Leiksýningin sjálf byrjar með hvelli og allir leikendur liggja í valnum þegar „engillinn“ kemur í reykkafarabúningi inn um dyr uppi undir lofti, fikrar sig niður stiga og býr sig til að bjarga konu sem líf leynist í (Guðrún S. Gísladóttir). Þau taka tal saman og konunni verður tíðrætt um hve mikilsverðu hlutverki brunaliðsmenn gegna í samfélaginu. Um þetta ræða þau góða stund – væntanlega meðan húsið brennur! Þetta er eitt af mörgum atriðum í sýningunni úr Vasaleikhúsinu hans Þorvalds sem leikin voru í Útvarpinu á sínum tíma og gefa svo einstaka mynd af sýn hans á mannlífið. Hann er í verkum sínum svo glöggur, svo næmur á hið smáa í því stóra, og svo hrikalega fyndinn.

Þetta er líka ákaflega skemmtileg sýning eins og hæfir slíkum höfundi. Ótalmörg myljandi fyndin atriði má kalla fram í hugann: Eggert Þorleifsson í lögreglubúningi að elta Guðrúnu S. Gísladóttur í stöðumælavarðarbúningi kringum borð og bekki, þrjár skátastúlkur úti í skógi, flugfreyjan (Arndís Hrönn Egilsdóttir) á í hátíðlegum samræðum við farþega í flugvél (Baldur Trausti Hreinsson) og það besta af öllu: Kóngulóarmaðurinn (Atli Rafn Sigurðarson) mundar sig til að taka listrænar ljósmyndir af frægri leikkonu og leikskáldi (Ilmur Kristjánsdóttir). Sum atriðin eru alveg stök en önnur minna á sig aftur seinna. Lengsta verkið segir frá hjónum (Eggert og Guðrún) sem eru að sýna yngri hjónum (Baldur Trausti og Arndís Hrönn) íbúðina sína – kannski er hún til sölu. Þetta verk er alveg tvískipt, fyrst fáum við að sjá þegar Guðrún sýnir Arndísi svefnherbergisskápana, seinna sjáum við það sem gerist hjá Eggerti og Baldri í eldhúsinu á meðan. Smám saman kemur í ljós hvaða mann persónurnar hafa að geyma og það er ekki alltaf fallegt. Í þessu atriði skein stjarna Eggerts ansi skært. Allir fengu leikararnir raunar að láta ljós sitt skína og gerðu það af örlæti og gleði.

Engilinn

Yfir allri sýningunni ríkir svo engillinn sjálfur í sínum reykkafarabúningi. Hann er ekki tíundaður í leikskrá; líklega er hann annars heims.

Finnur Arnar sá að sjálfsögðu um leikmyndina sem var gerð úr á að giska milljón fundnum hlutum sem allir eru til sölu til styrktar kvenfélagasambandinu. Hún kom raunar hvað eftir annað á óvart, reyndist geyma í sér óvænta geima, jafnvel á mörgum hæðum. Þórunn María Jónsdóttir sá um búningana sem voru önnur milljón og vakti iðulega furðu og kátínu hvað leikararnir voru snöggir að skipta; einstaka sinnum á sviðinu fyrir framan okkur. Gervin voru sömuleiðis hrikalega skemmtileg, sumar hárkollurnar verða áreiðanlega ógleymanlegar! Ólafur Ágúst Stefánsson skapaði ótal stemningar með ljósunum sínum og hljóðmyndin var í hæfum höndum Kristjáns Sigmundar Einarssonar og Elvars Geirs Sævarssonar. Tónlist er eftir Pétur Ben og Elvar Geir og auðvitað líka eftir Þorvald sjálfan en hvergi sá ég í prentaðri leikskrá eða á netinu nefnt að í sýningunni syngur Megas úr Ósómaljóðum Þorvalds. Það er makalaus flutningur og full ástæða til að hampa honum.

Silja Aðalsteinsdóttir