Þjóðleikhúsið frumsýndi í gær í Kúlunni Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag eftir Ævar Þór Benediktsson undir stjórn Stefáns Halls Stefánssonar. Þar gefst lítill tími til að halla sér aftur og slaka á því hvað eftir annað þurfa áhorfendur að taka ákvörðun um framhald atburðarásarinnar og sýna vilja sinn með því að styðja á hnapp á eins konar fjarstýringu við sæti sitt. Vilja þeir fara aftur í tímann eða inn í framtíðina? Vilja þeir taka ganginn til hægri eða vinstri? Vilja þeir nota hnífinn eða skálina? Vilja þeir byrja á að skera upp magann eða síðuna? Öllu þessu fylgir talsverður órói því við fáum ekki nema um það bil 3 sekúndur til að hlýða og ég segi það undir eins að þetta er ekki sýning fyrir lítil börn, auk hraðans og kröfunnar um þátttöku er hljóðheimurinn býsna hávær og oft ískyggilegur.

Anna Hönnudóttir (Lára Jóhanna Jónsdóttir) er í öngum sínum. Móðir hennar (Ebba Katrín Finnsdóttir) liggur fárveik á sjúkrahúsi og er ekki hugað líf. Anna verður hugstola þegar hún fær ekki lengur að fara inn á stofu móður sinnar en þar sem hún bíður skýringar á því kemur til hennar sendill (Snorri Engilbertsson) með skrítinn pakka og fylgir honum líka vélmennið Radar (Hilmir Jensson) sem virðist vera bilað. En þegar Anna áttar sig loksins á tækinu lifnar vélmennið við og reynist vera hið alúðlegasta, útskýrir fyrir henni að skrítna tækið sé tímavél og nú geti hún farið hvert sem hún óski sér í tíma og rúmi. Önnu dettur strax í hug að leita móður sinni lækninga, annaðhvort með því að komast að orsök veikindanna í fortíðinni eða finna lækningu í framtíðinni. Þetta er falleg hugsun en sá galli er á að veikindi móðurinnar eru alveg óskýrð þannig að aldrei kemst vit í umræðuna um lækningu. Hins vegar hittast þær mæðgur á tímaflakkinu og gott ef Anna bjargar ekki móður sinni þar úr alvarlegri klemmu. En niðurstaðan eftir ævintýraleg ferðalög Önnu út í geim og aftur á tíma risaeðlanna, til Egyptalands faraóanna og villta vestursins er að tímaferðalög hafi ekkert upp á sig: Það gerist sem á að gerast. (Enda er regla nr 1 fyrir tímaferðalanga: Ekki breyta neinu!)

Inn í tímaferðalagið er vafin saga þeirra mæðgna í formi ævintýris um drottningu og prinsessu sem Ebba Katrín flytur á upptöku ákaflega fallega.

Kúlan er svartur kassi sem fylltur er lífi með litríkum myndböndum Ástu Jónínu Arnardóttur en um leikmyndina sjá Högni Sigurþórsson, Magnús Arnar Sigurðarson og Hermann Karl Björnsson; sá síðast taldi sér líka um kosningakerfið og sértækar tæknilausnir. Allt virkaði eins og það átti að gera í gær og var mun betur nýtt í sýningunni en í fyrra. Búningar eru glannalega margir og misjafnir eins og skiljanlegt er þar sem við hittum fólk á mörg þúsund ára skeiði. Ásdís Guðný Guðmundsdóttir búningahönnuður hefur virkilega fengið að njóta þess sem hún hefur lært og Valdís Karen Smáradóttir fyllir upp í myndina með fjölbreyttum leikgervum. Magnús Arnar lýsir sýninguna og er óhræddur við að nota myrkrið þegar það á við. Tónlistin er eftir Önnu Halldórsdóttur en hljóðmyndin sem oft verður stór persóna í verkinu er eftir Kristin Gauta Einarsson.

Lára Jóhanna og Ebba Katrín eru hinar skemmtilegustu í hlutverkum mæðgnanna, dóttirin svolítið minni í sér og viðkvæmari en ævintýragjörn móðirin. Hilmir var hressilegur senuþjófur í hlutverki Radars sem var áhugaverðasta hlutverkið – enda Ævar Þór sjálfur fyrirmyndin. Snorri og Íris Tanja Í. Flygenring léku ótal hlutverk, meðal annars voru þau bæði bankaræningjar í Villta vestrinu, grameðlur á tíma risaeðlanna, risarottur þegar jörðin er orðin óbyggileg mönnum, íbúar geimskips í framtíðinni og þjónar faraós í Egyptalandi. Þau skiptu um innra eðli og ytra útlit eins og að drekka vatn.

Þetta er fjörug og skemmtileg sýning en það gengur ansi mikið á og stundum fannst okkur félaga mínum að hávaðinn hefði verið ódýr leið til að skapa spennu. Líka fannst okkur að grunnsagan hefði mátt vera skýrari.

 

Silja Aðalsteinsdóttir