Það er virkilega gaman að horfa á strákana í Póker í Tjarnarbíó spjalla, gantast, þrefa, rífast og tuskast. Þeir eru svo eðlilegir á sviðinu þó að það sé þröngt og áhorfendur sitji beggja vegna við það – næstum eins og þeir viti ekki af okkur í kringum sig. Þarna hefur leikstjórinn, Valdimar Örn Flygenring, unnið gott starf því þetta er ekki samhæfður hópur. Þvert á móti koma þeir hver úr sinni áttinni, þrír hafa lært í ýmsum skólum í Bretlandi, einn í Danmörku og tveir hér á Íslandi. Það hefur löngum verið haft á orði að þeir sem læra leiklist annars staðar en hér heima eigi erfiðara uppdráttar í leikhúsunum. Þetta á sér auðvitað sínar skýringar. Meðan nemendur eru hér í námi hafa leikstjórar og leikhússtjórar góðan aðgang að þeim, geta fylgst vel með hvað hver getur og nappað þeim sem efnilegastir virðast í verkefni á næstu árum. Þeir sem læra erlendis eru óskrifað blað þegar þeir koma heim. Verkefni eins og Póker eru þeim því dýrmæt leið til að kynna sig.

Það væri að vísu óskandi að Póker væri svolítið efnismeira verk – en það segi ég kannski fyrst og fremst af því að ég kann ekki póker og vantaði því allmjög upp á skilning hjá mér á seinni hluta leikritsins. Maður áttaði sig nokkurn veginn á því hver var að vinna og hverjir voru að tapa en ýmislegt því tengt var samt ansi óljóst. Þó held ég að þýðingunni sé ekki um að kenna, hana gerði Jón Stefán Sigurðsson, einn leikaranna, og hún var áheyrileg og á eðlilegu talmáli.

Við erum stödd á veitingahúsi, nokkuð fínu og vinsælu að því er virðist, í London á sunnudagskvöldi. Fylgjumst með kokkinum Sweeney (Finnbogi Þorkell Jónsson) og þjónunum Mugsy (Magnús Guðmundsson) og Frankie (Jón Stefán Sigurðsson) undirbúa kvöldið, samskiptum eigandans Stephens (Ellert A. Ingimundarson) við son sinn, spilafíkilinn Charlie (Ingi Hrafn Hilmarsson) og dularfulla gestinum Ash (Þorsteinn Gunnar Bjarnason). Honum býður Charlie að taka þátt í pókerspilinu sem ævinlega fer fram eftir lokun á sunnudagskvöldum.

Eiginlega er allt verkið ein kynning á persónum sem þó verða ekki allar jafnskýrar. Aðallega vill höfundur leikritsins, Patrick Marber (sem frægastur er fyrir Closer eða Komdu nær) sýna okkur áhrif spilafíknar á líf manna. Þau eru býsna slæm eins og við gátum séð fyrir. Sweeney ætlar ekki að spila þetta kvöld af því að hann á loksins að fá að hitta litla dóttur sina daginn eftir og vill ekki vera ósofinn og tuskulegur. Hann spilar samt. Charlie ætlar ekki að spila þetta kvöld því að hann hefur alls ekki efni á því og hjá honum er allt í kaldakoli. Hann spilar samt. Mugsy ætlar að spila og vinna því að hann er búinn að sjá út stað þar sem hann ætlar að setja á fót eigið veitingahús og vantar startkapítal. Manni er nokk sama hvort honum tekst að vinna því það er býsna augljóst að Mugsy hefur ekki það sem til þarf í rekstur fyrirtækis, enda er hann á valdi hagsmuna sem hann hefur ekki grun um. Frankie er viss um að hann vinni af því hann er svo klár í spilinu en áttar sig svo á því að dularfulli gesturinn er öflugri andstæðingur en hann hélt.

Leikararnir gerðu sér allir mat úr efnivið sínum. Jón Stefán var hrokafullur Frankie sem fékk vel á baukinn. Ellert var sannfærandi gömul kempa sem hefur þokkalega stjórn á lífi sínu, fyrirtæki og fíkn en ræður ekki við soninn. Ingi Hrafn var drullusokkurinn Charlie lifandi kominn, Finnbogi fínn sem hinn veiklundaði Sweeney og Þorsteinn andskoti ískyggilegur sem hin óráðna gáta. En sá sem bægði leiðanum frá var ótvírætt Magnús Guðmundsson – sem lærði raunar hérna heima eins og Ellert. Mugsy er fíflið í hópnum, sprelligosinn, og taktarnir sem Magnús sýndi, hélt og þróaði sýninguna á enda voru hreint óborganlegir.

Póker var fyrsta verk Marbers og ber þess augljós merki, eiginlega skaði að hann skuli ekki hafa unnið það áfram af því að hann er kominn með svo góðan grunn. En leikhópurinn Fullt hús gerir Marber og verkinu sóma til með úrvinnslu sinni.

 

Silja Aðalsteinsdóttir