Sviðslistahópurinn Toxic Kings frumsýndi í gærkvöldi spunaverkið How to make love to a man á tilraunaverkstæði Borgarleikhússins, Umbúðalaust, á 3. hæðinni. Hugmyndina spinna þeir út frá gamalli bók með sama titli sem ætluð var konum, að sjálfsögðu, en fannst áhugavert að gá hvort karlmenn gætu líka lært að elska sjálfa sig. Ég held að þeir hafi komist að niðurstöðu og líka að leiðinni þangað en sjón er sögu ríkari!

Sviðið er hrátt og grátt, helstu leikmunir eru haugar af bíldekkjum sem nýtast á ýmsan hátt, m.a. sem heitir pottar og eins konar fótajárn. Þarna setja piltarnir fjórir á svið fjölmargar stuttar sketsur sem bregða ljósi á karlmennskuna. Við hittum fyrir digran og frekan raftækjasala (Ari Ísfeld Óskarsson) og son hans (Andrés P. Þorvaldsson) sem þráir að sleppa undan valdi föðurins en hefur ekki það sem til þarf. Við hittum hóp vina á unglingsaldri sem velta fyrir sér lífinu og tilverunni framundan og ákveða að hittast aftur eftir átján ár á sama stað. Það makalausa gerist: þeir hittast aftur þar og þá en sá fundur verður hastarleg vonbrigði, enda er þeim ófært að opna sig og tala saman eins og þeir gerðu ungir. Ari og Andrés hittast af tilviljun í heita pottinum en ná varla að segja tvær setningar í samhengi milli þess sem augu þeirra dáleiðast af einhverju íturvöxnu sem gengur fram hjá. Sá þriðji (Helgi Grímur Hermannsson) bætist í hópinn og honum verður svo mikið um störur félaganna að hann heldur mergjaða ræðu yfir dóttur sinni þegar heim kemur, varnaðarræðu. Félagarnir þrír hittast vegna hins fjórða (Tómas Helgi Baldursson) og ákveða að ræða alvarlega við hann um drykkjuvanda hans og óviðunandi hegðun en guggna þegar á hólminn kemur. Andrés leggur á ráðin um fyrirlestrahald til að efla sjálfstraust karlmanna og fær Ara í lið með sér en einnig það fer í súginn. Maður getur ekki haldið fyrirlestur um það sem maður trúir ekki sjálfur á.

Þeir voru glettilega fínir, strákarnir, bjuggu til skemmtilega ólíkar týpur og vöktu oft hlátur í salnum með hnyttnum texta og snjöllum lausnum. Það er full ástæða fyrir þá að halda áfram að þróa þetta verk og athuga hvort það getur ekki orðið ennþá þéttara og markvissara.

Silja Aðalsteinsdóttir