Nemar við Sviðslistadeild Listaháskólans sýndu í gærkvöldi leikritið Þvott í Tjarnarbíó. Þetta er einþáttungur, einfaldur í ytri gerð en lúmskur. Höfundur og leikstjóri er Matthías Tryggvi Haraldsson sem hefur áður vakið athygli fyrir leiktexta.

ÞvotturBak við stóra frítt standandi glerrúðu á sviðinu stendur Jens (Árni Beinteinn) við vinnu sína. Hann ber sápulög á alla rúðuna og skefur hana svo vandlega með þar til gerðri sköfu sem hann þurrkar af í tusku við beltið. Þetta gerir hann aftur og aftur. Og aftur og aftur og aftur eins og næsti yfirmaður hans, Styrmir (Hákon Jóhannesson), bendir honum á, svolítið hæðnislega, þegar hann kemur í eftirlitsferð. Báðir vinna þeir fyrir Jósef (Aron Már Ólafsson) sem á rúðuna.

Jens er góður og samviskusamur starfsmaður en þegar honum finnst Styrmir ögra sér svarar hann fullum hálsi og reyndist öflugur baráttumaður fyrir réttindum verkafólks þegar hann tekur loks til máls, hann bendir á hvað starfið sé einhæft og andlaust, þvottavatnið vont fyrir húðina, skafan lítil og meiri freisting að snerta rúðuna, klessa andlitinu upp að henni, anda á hana og teikna í móðuna en að halda rúðunni hreinni. Lýkur þeirra samtali á því að Jens fleygir frá sér sköfunni og gengur á dyr. Þá situr Styrmir í súpunni. Hann hefur misst sinn undirmann og ekkert að gera annað en koma í stað hans og ljúka verkinu því rúðuna verður að þrífa stöðugt. Og þar situr hann fastur því millistjórnandi sem hefur ekki tök á verkafólki, hann verður lækkaður í tign.

Þetta er skemmtilegur leiktexti sem ræðst á garðinn þar sem hann er hæstur þótt stuttur sé, á kapítalismann og vinnuskilyrði undir honum. Boðskapur verksins er auðvitað í aðra röndina kunnuglegur, en þarna er unnið hnyttilega með tákn sem stendur ekki aðeins fyrir kapítalisma heldur eyðslusamt allsnægtasamfélag okkar: að þrífa í sífellu rúðu sem auðvitað er alltaf tandurhrein. Leikmynd Klemens Hannigan er einföld og snjöll, það er lýsing Stefáns Yngvars Vigfússonar líka og tónlist Friðriks Guðmundssonar minnti á regndropa sem leika á þaki. Og leikurinn var fínn. Árni Beinteinn er minnisstæður úr skólasýningum MR á undanförnum árum, hann er eins og fiskur í vatni á sviði. Hákon túlkaði klaufaskap millistjórnandans vel og Aron Már var mátulega hrokafullur stóreignamaður.

Silja Aðalsteinsdóttir