Barnasýningin Kafbátur eftir Gunnar Eiríksson sem var frumsýnd í Kúlu Þjóðleikhússins í gær (ég sá aðra sýningu sem var í dag) er listaverk hvar sem á hana er litið. Sagan er fjörug með fallegum boðskap, þýðing Bergsveins Birgissonar einkar liðleg, leikurinn góður og sviðið hans Finns Arnars Arnarsonar geggjað snilldarverk!

Þetta er dystópía eins og nú er mjög í tísku, bæði í verkum fyrir börn og fullorðna. Sagan gerist um borð í kafbát í framtíðinni þegar löndin hafa verið svo lengi á kafi í sjó að uppfinningamaðurinn Pabbi (Björn Ingi Hilmarsson) getur talið dótturinni Argentínu tíu ára (Birgitta Birgisdóttir) trú um að heimurinn hafi alltaf verið svoleiðis – fólk hafi ævinlega búið í kafbátum. Um borð er líka hrökkállinn Lúkar (Þröstur Leó Gunnarsson) sem skaffar rafmagnið sem knýr bátinn og á aðeins til eitt orð í sinni persónulegu orðabók: búðingur, en getur sagt það á óteljandi vegu!

Feðginin og Lúkar eiga sérstakt erindi á sínu ferðalagi um höfin endalausu, þau eru að leita að sjöunda klumpinum í tímavélina sem mamma Argentínu fann upp á sínum tíma, áður en hún hvarf skyndilega. Þegar tímavélin kemst í gang ætla feðginin að nota hana til að komast aftur fyrir tímann þegar mamma hvarf og hitta hana. Þau eru með sérstaka klumpuleitarvél um borð, æðislegt tæki, og verða ær af gleði þegar þau veiða stóran ísklump. En það er ekki réttur klumpur heldur leynist í honum manneskja úr enn fjarlægari fortíð, sjálf Steinunn langöx (Guðrún S. Gísladóttir) sem slæst í förina. Skömmu seinna veiða þau óvart róbotinn Anon (Kjartan Darri Kristjánsson), Argentínu til mikillar gleði, því að í honum eignast hún vin. Þar með eru þau orðin fimm sem freista þess að finna sjöunda klumpinn og fullgera tímavélina.

Finnur Arnar hefur gersamlega sleppt sköpunargleðinni lausri við að upphugsa innra byrði kafbátsins. Þar var hver hlutur í senn kunnuglegur og framandi á sínum stað: gamalt orgel var stjórnstöð kafbátsins og stýrið var greinilega úr myndarlegu skipi; hitahjálmur af hárgreiðslustofu gagnaðist Lúkari við rafmagnsframleiðsluna, vélin í tímavélinni var rokkur, klumpuleitarvélin var stór ryksuga og kaffivélin trompet – svo fátt eitt sé talið.

Búningar Ásdísar Guðnýjar Guðmundsdóttur eru sömuleiðis úr alls konar endurnýttum efnisbútum. Ævintýralegastur var búningur Steinunnar langöxar og toppurinn stóru hrútshornin sem hún bar á höfðinu. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar og Jóhanns Friðriks Ágústssonar lék á og jók á spennuna í andrúmsloftinu og tónlist þeirra Magnúsar Tr. Eliassen og Steingríms Teague var fullkomlega í takt við það sem fólst í sviðinu og gerðist á því. Þarna var ekkert af tilviljun. Baksviðið er gluggi kafbátsins og gegnum hann horfum við á undursamlegt myndband Heimis Freys Hlöðverssonar af lífinu í sjónum. Þar má sjá að fiskar lifa ekki lengur þar en ýmis svifdýr eru áberandi fyrir utan allt draslið sem hefur drepið lífið í hafinu. Myndbandið gegnir svo stóru hlutverki í lok verksins sem ekki má segja nánar frá.

Val Hörpu Arnardóttur leikstjóra í hlutverkin var ekki heldur tilviljanakennt. Björn Ingi var traustur pabbi og Birgitta lífleg og hlý Argentína. Þröstur Leó naut þess að leika málstola hrökkálinn Lúkar og var bæði brjóstumkennanlegur og fyndinn. Kjartan Darri náði vélrænum hreyfingum Anons eins og þær væru honum eðlislægar. Stórfenglegust var samt Guðrún Snæfríður í hlutverki langöxar, ekki síst við komuna úr ísklumpnum þegar hún er enn á valdi þúsaldagamallar reiði yfir ráni öxar sinnar!

Þegar Anon segir Argentínu að pabbi hennar sé flottur og undarlegur sameinar stúlkan orðin tvö í lýsingarorðið flundarlegur og það á svo sannarlega við um verkið í heild! Innilegar hamingjuóskir með dásamlega sýningu.

Silja Aðalsteinsdóttir