Galdrakarlinn í OzLeikhópurinn Lotta, sem hefur glatt börn og vini þeirra í Elliðaárdalnum á sumrin í áratug, frumsýndi í gær sína fyrstu „Lottusýningu“ frá árinu 2008 í Tjarnarbíó og var geysivel fagnað af troðfullu húsi. Verkið er ekki frumsamin ævintýrablanda eins og hópurinn byrjaði á strax 2009 (segir mér níu ára gamall sérfræðingur minn í Lottu) heldur leikgerð Ármanns Guðmundssonar af hinni lífseigu ævintýrasögu L. Franks Baum um galdrakarlinn í Oz. Franks er þó að engu getið í leikskránni! Leikstjóri er að þessu sinni Ágústa Skúladóttir og Lottuliðar virðast alveg eins frjóir og fjörugir innan dyra og utan.

Þegar óveðrið skellur á Kansas er Dóróthea (Rósa Ásgeirsdóttir) úti að leita að hundinum sínum, honum Tótó. Þá vill ekki betur til en svo að hvirfilbylurinn tekur þau bæði og feykir þeim alla leið til ævintýralandsins Oz. Þar lenda þau alveg óvart ofan á vondu Austannorninni og kála henni og góða Norðannornin (Huld Óskarsdóttir) er svo fegin því að hún gefur Dórótheu silfurskó þeirrar vondu til að létta henni gönguna til Smaragðsborgar. Þar býr voldugur galdrakarl sem Dóróthea ætlar að biðja um að hjálpa sér að komast aftur heim til Kansas. Vondu Vestannorninni (Huld líka) gremst mjög að Dóróthea skyldi fá silfurskóna og eltir hana í laumi til að reyna að ná þeim af henni.

Á leiðinni rekst Dóróthea á þrjá skrítna karla sem slást í för með henni þegar hún hefur komið þeim til aðstoðar – því Dóróthea er bæði væn og hjálpsöm stúlka. Hún losar Fuglahræðuna (Baldur Ragnarsson) við spýtuna sem heldur handleggjum hans beinum út í loftið, hún smyr Pjáturkarlinn (Sigsteinn Sigurbergsson) þannig að hann getur aftur bæði gengið og talað og hún hænir að sér Ljónið (Anna Bergljót Thorarensen) sem er svo huglaust að það er meira að segja skíthrætt við Tótó litla. Allir nýju vinirnir hennar þurfa líka á hjálp galdrakarlsins að halda því Fuglahræðuna vantar heila til að geta hugsað, Pjáturkarlinn er hjartalaus og þráir að geta sýnt sannar tilfinningar og Ljónið langar mikið til að verða hugrakkt. Það vefst nú fyrir galdrakarlinum (Huld enn) að uppfylla þessar óskir enda þurfa þau kannski ekkert á honum að halda þegar allt kemur til alls. Þegar á reynir er Fuglahræðan skynsöm, Pjáturkarlinn hjartahlýr og Ljónið staðfast.

Þetta er sprúðlandi skemmtileg sýning, leikin af gleði og innlifun og falleg á að horfa. Eins og ævinlega hjá Lottu eru búningar fjölbreyttir og litríkir og leikmyndin gerð af hugkvæmni. Hér er ekki byggt hús eins og í Elliðaárdalnum heldur notar hópurinn einfalda fleka sem þau raða upp margvíslega og renna til og frá til að sýna okkur ólíka staði í sögunni. Þessir flekar eru gríðarlega fallega málaðir og skreyttir og umbreyttust stundum eins og fyrir kraftaverk. Kannski var þeim bara snúið við! Leikmyndina gerðu þau Móeiður Helgadóttir og Sigsteinn Sigurbergsson og Sigsteinn sá líka um búningana með Rósu Ásgeirsdóttur. Að venju er mikil músík í sýningunni, hún er eftir Ármann, Baldur, Rósu, Eggert Hilmarsson og Snæbjörn Ragnarsson. Snæbjörn semur líka söngtexta ásamt Önnu Bergljótu, Ármanni og Baldri. Eini gallinn við tónlistarflutninginn var að undirleikurinn var helst til hávær þannig að erfitt var að fylgja textunum almennilega. Þeir hafa inntak sem skaði er að missa af. Hljóðið var á vegum Baldurs og Þórðar Gunnars Þorvaldssonar sem ættu að gá að þessu. Ljósahönnunin var hins vegar prýðileg hjá Kjartani Darra Kristjánssyni.

Ég fór að þessu sinni með báða leikhúsfélaga mína, mikla aðdáendur Lottu. Þeir eiga allar sýningar leikhópsins á diskum og kunna þær meira og minna utanað þannig að þeir gátu sagt mér hver munurinn væri á þessari nýju sýningu og þeirri gömlu. Arnmundur, sá eldri, sem verður bráðum tíu ára, hafði á hreinu allar sýningar hópsins frá upphafi og var verulega ánægður með þá nýju; gaf henni fjórar stjörnur. Aðalsteinn bróðir hans var ennþá örlátari og bætti hálfri við!

Silja Aðalsteinsdóttir