Þetta var almennileg þriggja sýninga helgi af því að ég var fyrst núna að sjá Aladdín hans Bernds Ogrodniks á Brúðuloftinu í Þjóðleikhúsinu. Þar fer Bernd alveg fram úr sjálfum sér í sköpun á töfraheimi Þúsund og einnar nætur með margturna höllum, glitrandi fjársjóðshellum, eyðimörkum, sölutorgum og miklum fjölda brúða af ýmsum stærðum, bæði strengjabrúða og handbrúða. Enda stóðu augu ungra áhorfenda á stilkum alla sýninguna – og jafnvel þeirra líka sem eldri voru.

AladdínSagan af ónytjungnum Aladdín (rödd Ævars Þórs Benediktssonar) sem var útvalinn til að ná töfralampanum úr felustað sínum er öllum kunn. Aladdín er klókur strákur þótt latur sé og lætur töframanninn (Sigurður Skúlason) ekki plata sig til að rétta lampann upp um hellismunnann heldur vill hann komast sjálfur upp fyrst. Töframaðurinn ætlar að koma honum fyrir kattarnef en hirða lampann og hefði eflaust tekist það ef hann hefði líka verið klókur en ekki látið reiðina hlaupa með sig í gönur. Í æsingi lokar hann Aladdín niðri í hellinum – hjá lampanum – þótt hann ætti að vita að fyrr eða síðar muni Aladdín uppgötva galdur lampans og ekki aðeins sleppa út með dyggri aðstoð andans í lampanum (Ágústa Eva Erlendsdóttir) heldur verða voldugasti maður landsins með því að kvænast dóttur soldánsins (Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Sigurður Sigurjónsson). Leikurinn var undir stjórn Ágústu Skúladóttur og var leikinn af bandi en virk þátttaka brúðustjórnandans límdi hann vel saman svo hvergi hattaði fyrir samskeytum.

Bernd einfaldar söguna auðvitað því í upprunalegri gerð er hún geysilöng og flókin. Eitt af því sem hann gerir til einföldunar er að hann lætur andann takmarka óskirnar við þrjár en upphaflega eru engin takmörk á fjölda þeirra – andinn er ævinlega reiðubúinn að hlýða þeim sem hefur lampann undir höndum. En auk aðalpersónanna eru nokkrar skemmtilegar aukapersónur sem fita söguna aftur og auka kómíkina, móðir Aladdíns (Helga E. Jónsdóttir), Achmed götusali (Karl Ágúst Úlfsson), gamansamur betlari (Örn Árnason), hirðmenn og burðarkarlar. Handritið er skemmtilegt og ótalmargt að sjá á sviðinu en sýningin varð samt nokkuð lengri en yngstu börnunum fannst viðunandi, nærri tveir klukkutímar með hléi. Ég held að alla vega ætti ekki að fara með yngri börn en þriggja ára á þessa sýningu, en sá fimm ára sem með mér var naut hennar alveg í botn.

Frábær viðbót við handritið var upphafs- og lokabragur, vel ortur, sem Karl Ágúst Úlfsson á. En Bernd þyrfti að æfa sig svolítið betur, einkum á lokabragnum, til að merking hans skili sér vel.

Það er sannarlega göfugt að halda gömlum ævintýrum lifandi með nýjum kynslóðum, íslenskum eins og Gilitrutt og ekki síður sögum úr framandi heimi eins og Aladdín. Það er svo aukabónus þegar það er gert svona snilldarlega.

Silja Aðalsteinsdóttir