EfiSíðasta sýningin sem ég sá þessa mögnuðu leikhúshelgi var Efi – dæmisaga, nýlegt bandarískt verk eftir John Patrick Shanley, sem var frumsýnt í Kassanum á laugardagskvöldið undir stjórn Stefáns Baldurssonar. Við sáum aðra sýningu í gærkvöldi. Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir gerir einfalda, skýra og markvissa leikmynd og prýðilega þýðingu gerir Kristján Þórður Hrafnsson. Leikritið kemur til okkar hlaðið af frama í heimalandinu þar sem það hlaut öll helstu verðlaun sem sviðsverk eiga kost á, m.a. bæði Tony og Pulitzer árið 2005. Það var kvikmyndað árið 2008 með Meryl Streep og Philip Seymour Hoffman.

Hér heima leika Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Hilmir Snær Guðnason hlutverk systur Aloysius og séra Flynn og er sérstök ástæða til að bjóða Steinunni Ólínu velkomna á svið eftir langt hlé. Verkið gerist árið 1964 í kaþólskri kirkju í New York og barnaskólanum sem þar er rekinn og systir Aloysius stýrir. Þar kennir hjá henni ung kona, systir James (Lára Jóhanna Jónsdóttir), og í fyrsta samtalinu þeirra á milli opinberar systir Aloysius sig sem einstaklega kalda og stíflynda manneskju sem fyrirlítur alla tilfinningasemi. Þetta samtal er skemmtilega óvænt því unga konan býður fram allt sem manni finnst gott og rétt – hún hefur metnað til að vera góður kennari, vill laða börnin að námsefninu, hæna þau að sér og vinna velvilja skólastýrunnar. En systir Aloysius slær þetta allt út af borðinu, maður á ekki að upphefja sjálfan sig með því að sækjast eftir vinsældum og það er beinlínis löstur að vilja vera sáttur við umhverfi sitt.

Sjálfri finnst systur Aloysius gremjulegt hvað hún er valdalaus því í kaþólsku kirkjunni hafa karlar öll völd. Séra Flynn fer í hennar fínustu af því að hann er bæði nútímalega umburðarlyndur og afar aðlaðandi maður, mælskur og vinsæll bæði hjá skólabörnunum og sóknarbörnunum. Í samtali þeirra systranna í upphafi lokkar skólastýran kennslukonuna til að segja frá atviki þar sem séra Flynn kemur við sögu og ýtir undir grunsemdir skólastýrunnar varðandi prestinn. Þar með er grunnurinn lagður undir átök þeirra sem eru meginefni leikritsins. En hefur systir Aloysius eitthvað fyrir sér annað en andúð á þessum vinsæla presti – þessari andstæðu alls sem hún er sjálf? Það er erfitt að hugsa þá ekki um öll þau börn í kaþólskum skólum heimsins sem EKKI fengu að njóta vafans.

Þetta er afar vel samið verk þótt það sé kannski helst til orðmargt eins og hefðin er í Bandaríkjunum, og Stefán Baldursson og lið hans taka það í fullri alvöru. Steinunn Ólína hefur sýnt það í sjónvarpi undanfarið að henni hæfa erfiðar manneskjur og systir Aloysius var afar sterk í túlkun hennar: íhaldssöm svo að jaðraði við fanatík, tortryggin og einstrengingsleg en þó torræð. Er harkan aðeins brynja? Líkamsstaða hennar framan af er svo stirðnuð að mann kennir til en þegar á líður gefur Steinunn í skyn með fasi og svipbrigðum á bak við framkomu þessarar konu sé merkileg og átakanleg saga.

Hilmir Snær beitti persónutöfrunum af smekkvísi í sínu hlutverki en var skemmtilega ólíkur í framkomu við konurnar tvær, systur Aloysius og systur James. Við höldum með honum lengi vel, kannski allan tímann. Kannski er hann bara átakafælinn, vill vera vinsæll og nennir ekki að vinna við aðstæður þar sem hann er ekki dáður af öllum. Kannski er eitthvað annað … þar er efinn.
Lára Jóhanna var sannfærandi í hlutverki ungu kennslukonunnar, svo þrungin af löngun til að vera góð. Hún hefur lært sína lexíu í lokin. Fjórðu persónu verksins, frú Miller sem kölluð er fyrir skólastýruna til að ræða samband séra Flynn og sonar hennar, lék Sólveig Guðmundsdóttir og kom eins og rauð elding inn í svart-grá-hvítan veruleika kirkjunnar. Mjög hressandi.

Það er virkilega gaman að svona orðaskylmingum þegar eins kunnáttusamlega er farið að og í þessari sýningu. Og efinn eltir mann sjálfsagt lengi.

Silja Aðalsteinsdóttir