VerkiðEinþáttungurinn Verkið eftir Jón Gnarr var frumsýnt í Þjóðleikhúskjallaranum í hádeginu í dag. Það hefur ekki gengið alveg nógu vel gegnum tíðina að fá borgarbúa til að koma í hádegisleikhús og mér finnst fallegt af Þjóðleikhúsinu að gefast ekki upp. Haustið 2021 voru sýnd tvö bráðskemmtileg verk í hádeginu í Kjallaranum, Út að borða með Ester eftir Bjarna Jónsson og Rauða kápan eftir Sólveigu Eir Stewart. Seinna verkinu stýrði Hilmar Guðjónsson sem einnig stýrir verki Jóns Gnarr nú með mikilli prýði.

Tveir karlar, Kapek (Pálmi Gestsson) og Ekap (Guðjón Davíð Karlsson) eru staddir í óræðu rými – aðeins hljóðheimurinn gefur í skyn að þetta sé verksmiðja. Þar eiga þeir að vinna órætt verk en þeim gengur illa að koma sér að því verki. Þeir hafa unnið saman mjög lengi. Annar er að vísu nokkru eldri að sjá, en hinn vill ekki viðurkenna að hann eigi neitt inni út á það og ítrekar nokkrum sinnum að hann hafi verið á þessum stað „allan tímann“. Saga þeirra er svo löng að þeir komast af með hálfkaraðar setningar, stök orð eða orðasambönd sem ákveðin svipbrigði og /eða handahreyfingar fylgja og eiga að kalla fram minningar um ákveðin atvik eða persónur úr fortíðinni. Það er greinilega undir hælinn lagt hvort meiningin skilar sér milli þeirra en við og við láta þeir eins og NÚ viti þeir hvað hinn er að tala um! Kapek var sérstaklega feginn þegar honum fannst hann hafa gripið dylgjur Ekaps. Aftur á móti fá áhorfendur ekkert að vita, við verðum bara að búa til okkar eigin sögur út frá þessum óljósu vísbendingum, og það er virkilega skemmtilegt!

Þetta form minnti svolítið á Samuel Beckett og ekki leiðum að líkjast.  Raunar ræður Jón Gnarr alveg við þennan undirfurðulega samtalsstíl og það gerir leikstjóri hans og leikendur líka. Ég er alveg viss um að Ekap vissi alltaf til hvers hann var að vísa í sínum hikandi setningum en ég er líka jafnviss um að Kapek vissi það sjaldnast. Svona töluðu þeir í kross í hálfa klukkustund, gestum Kjallarans til stórrar skemmtunar!

Boðið er upp á léttan og ljúffengan hádegisverð með sýningunni og ég hvet leikhúsáhugafólk eindregið til að nota sér þetta tækifæri til listrænnar nautnar í annars hversdagslegu hádegi.

 

Silja Aðalsteinsdóttir