Einleikurinn Saknaðarilmur var frumsýndur í Kassa Þjóðleikhússins í gærkvöldi. Höfundur og leikari er Unnur Ösp Stefánsdóttir en texta verksins byggir hún á bókum Elísabetar Jökulsdóttur, verðlaunaverkinu Aprílsólarkulda (2020) og Saknaðarilmi (2022). Björn Thors leikstýrir konu sinni af hlýju og innsæi; meistaralega leikmyndina hannaði Elín Hansdóttir og lýsingin sem lék sér svo listilega að henni er verk Björns Bergsteins Guðmundssonar. Búningana sem tjáðu líðan persónunnar furðu skýrt á ólíkum stundum skapaði Filippía I. Elísdóttir. Tónlistin var óáreitin nema þegar voðalegir atburðir urðu í lífi persónunnar eða þegar sérstaklega var vakin athygli á henni; hún var eftir Ólöfu Arnalds og Skúla Sverrisson en auk þeirra kom Aron Þór Arnarsson að hljóðhönnun. Margrét Bjarnadóttir leiðbeindi um sviðshreyfingar sem oft sögðu meira en mörg orð.

Unnur Ösp var þegar í hlutverki þegar áhorfendur gengu í salinn, tók á móti gestum sem Elísabet Jökulsdóttir og bauð okkur velkomin, hress í bragði en búningurinn sýndi að hún var enn að fela sig – síður hvítur kjóll, jakki yfir og langur trefill – flíkur sem tíndust af henni smátt og smátt þegar á leið. Hún talar í hljóðnema til að byrja með, eins og við séum á fundi eða samkomu, en fljótlega gefst hún upp á formlegheitum og býður okkur inn í líf sitt.

Og hvílíkt líf. Margt fólk hefur á undanförnum áratugum skrifað um það hlutskipti að eiga frægt foreldri. Yfirleitt er það illt hlutskipti. Og foreldrar Elísabetar voru báðir landsfrægir. Ég þekkti og dáði móður hennar áður en ég vissi hver faðir hennar var af því að Jóhanna Kristjónsdóttir hafði skrifað eina mína eftirlætisbók, Ást á rauðu ljósi. Síðan varð hún líka þekktur blaðamaður og ferðafrömuður um fjarlæg lönd.  Faðir hennar, Jökull Jakobsson, var þekktasta leikskáld Íslands á tímabili og jafnvel ennþá dáðari af almenningi sem útvarpsmaður. En aðdáendur þeirra hjóna vissu fæstir neitt um tætt sálarlíf þeirra eftir bitra reynslu þeirra úr uppvextinum, alkóhólismann, og þaðan af síður um kuldalegt, snertilaust lífið sem þau buðu börnum sínum þremur.

Það líf opinberaði Elísabet í áðurnefndum bókum. Í Aprílsólarkulda segir hún frá aðstæðum við dauða föður síns þegar hún var nítján ára, söknuðinum eftir honum og sorginni yfir að hafa í raun og veru aldrei tengst honum, örvæntingu og viðvarandi vanlíðan sem endaði í alvarlegu geðrofi. Í Saknaðarilmi segir hún frá erfiðu sambandi við móður sína allt frá fyrstu minningum og fram yfir dauða móðurinnar. Skilningurinn og fyrirgefningin komu ekki fyrr en að henni látinni en frelsuðu Elísabetu þá úr fjötrum beiskju og haturs.

Móðirin er mun sterkari í sýningunni en faðirinn, persónan Elísabet á sviðinu þarf hvað eftir annað að setja ofan í við hana, banna henni að taka svona mikið pláss, segja henni hryssingslega að þetta sé saga sín sem hér verði sögð, ekki saga Jóhönnu. En þó að faðirinn verði ekki eins sterkur í texta er nærvera hans yfir og allt um kring í lífi mæðgnanna sem báðar lifa í skugga hans og forneskju feðraveldisins. Þetta verður óhemju áhrifamikil pólitísk og persónuleg frásögn sem vekur sterkar tilfinningar og nístir mann inn í kviku. Ofan á textann bætist svo leikarinn sem tjáir hann með orðum, svipbrigðum, krampakenndum handahreyfingum og brjálæðislegum viðbrögðum.

Unnur Ösp gerir hið ómögulega á sviðinu: verður unga stúlkan sem gengur í gegnum ömurlega niðurlægingu og kvalir á löngum tíma en kemur að lokum út úr myrkrinu sterk og heil. Það var sálarskúrandi reynsla að horfa á hana berjast, opna huga sinn og hjarta fyrir okkur, berskjalda sig á sviðinu í bókstaflegri merkingu, segja okkur frá svo óbærilegri reynslu að það var oft freistandi að ýta henni frá sér. En hafa að lokum sigur. Margar myndir munu sitja fastar í huganum, kannski lengst myndin af henni í hinu örlagaríka baði – þvílík snilld! Lokadansinn var líka frelsandi eftir alla kvölina.

Saknaðarilmur er systurverk við Vertu úlfur, verðlaunaverkið sem Unnur Ösp skrifaði og leikstýrði eiginmanni sínum í og var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir þrem árum. Hér vinnur sama eðalteymið að flestum þáttum sýningar og svo vel er unnið að engin leið er að biðja um eitthvað annað eða meira. Þeim er öllum óskað til hamingju en hlýjustu hamingjuóskirnar fær Elísabet Jökulsdóttir fyrir hugrekki sitt, hreinskilni og frábæran skáldskap.

 

Silja Aðalsteinsdóttir