Í gærkvöldi var frumsýnt í Kúlu Þjóðleikhússins verk sem að efni og uppsetningu brýtur að ýmsu leyti blað í íslenskri leikhússögu. Verkið heitir Smán og er eftir Bandaríkjamanninn Ayad Akhtar sem hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir það árið 2013. Leikstjóri er Þorsteinn Bachmann en þýðendur eru Auður Jónsdóttir og Þórarinn Leifsson.

Smán

Smán gerist í New York á fáeinum mánuðum í lífi ungra hjóna. Amir Kapoor (Jónmundur Grétarsson) er lögfræðingur á hraðri uppleið á fínni lögfræðistofu; hann hefur hafnað trú feðra sinna, íslam, og kynnir sig sem „trúníðing“. Kona hans Emily (Salóme R. Gunnarsdóttir), björt og ljóshærð, er myndlistarmaður, einnig á uppleið. Hún er mun hrifnari af íslam en maður hennar, einkum þó íslamskri list sem hún vinnur með í eigin listsköpun. Þegar við hittum þau fyrst eru þau að kýta út af máli íslamsks trúarleiðtoga sem er fyrir rétti og Emily vill að Amir skipti sér af sem lögfræðingur af því að annars sé hann samsekur þeim sem setja saklausan mann í fangelsi. Emily fær stuðning frá frænda Amirs, Hussein, sem nú kallar sig því dásamlega nafni Abe Jensen (Hafsteinn Vilhelmsson) og Amir lætur undan þeim. Það verður ungu hjónunum örlagaríkt því vinnuveitendum Amirs hugnast ekki að hann komi fram sem múslimi. Báðir frændur skammast sín fyrir uppruna sinn og vilja afneita honum.

Lengsti þáttur verksins gerist í kvöldverðarboði sem Emily heldur listráðunaut sínum, Isaac (Magnús Jónsson), og Jory konu hans (Tinna Björt Guðjónsdóttir) sem er vinnufélagi Amirs. Þegar umræðurnar undir borðum fara að snúast um trúmál, afstöðu Amirs til Kóransins og hryðjuverkanna 11. september 2001 (frumsýningin var einmitt 11. september) og afstöðu Gyðingsins Isaacs til Ísraels hitnar heldur betur í kolunum. Þegar óviðeigandi kynlífsnálgun bætist svo við springur allt í loft upp.

Í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar (TMM 3 2017) er birt opið bréf sænska rithöfundarins Jonasar Hassens Khemiri til Beatrice Ask dómsmálaráðherra Svía. Bréfið er áhrifamikil lýsing á því hvernig það er að líta út eins og hann gerir sjálfur (gullfallegur en dökkur á hörund) og ganga um götur í Svíþjóð. Ég var nýbúin að lesa þetta bréf þegar ég sá Smán og það var eins og að fá lifandi dæmi upp í hendurnar. Amir má þola sífelldar illa duldar auðmýkingar í lífi sínu og starfi og honum finnst Emily ekki bæta úr skák á heimavígstöðvunum. Á móti kemur að við sjáum og finnum að þótt hann hafi afneitað Kóraninum eru lög hans og reglur greypt í sálarlíf hans; þótt höfundurinn finni til með persónu sinni er hann líka miskunnarlaus í hans garð að því leyti. Þetta dýpkar verkið og gerir það ennþá forvitnilegra.

Smán_2Ég nefndi í upphafi að þessi sýning bryti blað. Þá á ég í fyrsta lagi við að það er óvænt, óvenjulegt og óviðjafnanlegt að fá svona gott og mikilvægt verk upp meðan það er enn ferskt, og auk þess í ágætri þýðingu. En það er líka óvenjulegt að horfa á leiksýningu á Íslandi þar sem þrír leikarar af fimm eru framandi í útliti þótt þeir beri alíslensk nöfn. Jónmundur og Salóme eru hreinlega eins og hvítt og svart, hann dökkur og flottur, hún hvít og fíngerð eins og Dísa ljósálfur! Og Tinna Björt Guðjónsdóttir þarf enga andlitsmálningu til að líta út eins og amerísk blökkukona. Þetta var sýning á því hvað íslenskt samfélag hefur auðgast mikið á því undanfarna áratugi að fá svolitla litablöndu á íbúahópinn. Það fannst auðvitað hvað Magnús Jónsson hafði miklu lengri reynslu og þjálfun en unga fólkið á sviðinu en þau voru heit af ákafa að koma þessu merkilega verki á framfæri og snertu mann djúpt með túlkun sinni.

Umgerðin í Kúlunni er vel heppnuð. Hljóðmynd Borgars Magnasonar var smekklega notuð, sterk og ágeng þar sem það átti við en undir sviðsskiptunum í seinni hluta verksins þyngdist tónninn, varð sár og þunglyndislegur. Örvæntingarfullur. Leikmynd Palla Banine var í senn einföld og umhugsunarvekjandi, búningarnir vel hugsaðir og lýsing Jóhanns Friðriks Ágústssonar góð. Þetta er verk sem áhugafólk um leikhús á ekki að láta fara framhjá sér.

-Silja Aðalsteinsdóttir