Það var sæluvíma yfir gestum Borgarleikhússins í gærkvöldi þegar frumsýnt var í báðum minni sölunum, dansverk á Nýja sviði, leikrit á Litla

sviði; fólki fannst greinilega sem það hefði endurheimt dýrmætan hluta af lífi sínu. Þó voru allir með grímu og ekkert var í boði að drekka annað en kolsýrt te!

Sýningin á Litla sviðinu var Ein komst undan eftir Caryl Churchill undir stjórn Kristínar Jóhannesdóttur, og má ég segja allra fyrst hvað það var hrikalega gaman að sjá þær kankast á, hlæja, þrefa og gráta saman  leikkonurnar fjórar, ekki síst tvær þær elstu, Kristbjörgu Kjeld og Margréti Guðmundsdóttur, en þá síðarnefndu hef ég ekki séð á sviði alltof lengi. Þegar við göngum í salinn sitja saman á sviðinu þrjár aldraðar konur við tedrykkju – sú þriðja er Margrét Ákadóttir – í gróðurlausum og heldur nöturlegum húsagarði. Þær masa saman, rifja upp alls konar minningabrot í belg og biðu, syngja allt í einu lag og segja frá sjálfum sér, stundum hrikalegar sögur, meðan þær þreyja þorrann og góuna. Til þeirra kemur kona sem þær kannast við, frú Jarrett (Sólveig Arnarsdóttir), en það er eins og hún komi úr annarri veröld. Hennar tal hverfist um allt aðra hluti en hinna, óhugnanlegri hluti sem hún segir frá spámannlegri rödd. Heimur gömlu kvennanna er henni framandi og á sama hátt er heimur frú Jarrett gömlu konunum framandi – og þær hafa ekki áhuga á að nálgast hann.

Það hefur nokkuð verið gert úr því í viðtölum um verkið hve aðstæður allar í því eru óljósar. Hvar erum við stödd? Hvaða konur eru þetta? Eru þær lifandi eða dánar? Er heimsendir búinn að vera eða stendur hann yfir? Þessum spurningum vil ég fá að svara á dönsku: Det gør man bedst i ikke at tænke på! Texti Caryl Churchill, sem Kristín Eiríksdóttir þýðir á svo líflega og fallega íslensku að það er eins og verkið sé samið á okkar tungu, er auðugur, dularfullur, fyndinn, sorglegur og hans má njóta hvort sem er á heimspekilegan eða  raunsæilegan hátt. Til dæmis má hugsa sér að manneskja komi inn á elliheimili og hitti fyrir vistmenn sem lifa í fjarlæri fortíð í huga sínum en sjálf komi hún úr grimmum heimi skorts, stríðs og hörmunga. Persónurnar eru hver með sínu móti og taka á sig furðu skýra mynd í ekki lengra verki, og textinn er áhrifamikill þótt hann sé ekki skipulegur og einhlítur; reyndar flaug mér í hug að Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri hefði laðast að honum af því að hann hefði minnt hana á verk Sigurðar Pálssonar, skálds og leikskálds, hennar ágæta eiginmanns.

Allur umbúnaður er vandaður og eftirtektarverður. Leikmyndin og lýsingin eru í höndum Egils Ingibergssonar og Móeiðar Helgadóttur sem eflaust eiga líka magnað myndbandið undir lokin. Ískyggileg tónlistin er eftir Garðar Borgþórsson og hljóðmyndina á Þorbjörn Steingrímsson. Búningar (Stefanía Adolfsdóttir) og leikgervi (Guðbjörg Ívarsdóttir) kvennanna fjögurra eru einstakt augnayndi, einkum vil ég benda á hárgreiðslurnar sem saman gefa góða mynd af hárstíl áranna þegar þessar konur voru upp á sitt besta og einnig þar sker frú Jarrett sig úr hópnum. Hárið gerir ótrúlega mikið fyrir persónurnar og sömuleiðis vakti litasamsetning búninganna forvitni og áhuga. Þetta er gott verk til að sjá í byrjun nýrrar leiktíðar, vekjandi og gleðjandi í senn, fram borið af listfengi, djúpri hugsun og húmor.

Silja Aðalsteinsdóttir