Ég hef verið stór aðdáandi Konunnar við 1000° síðan ég las hana nýútkomna en ekki bjóst ég við að hún myndi þola að fara á svið. Tíu tíma sjónvarpssería kannski eða að minnsta kosti ílöng tveggja kvölda leiksýning eins og Heimsljós og Sjálfstætt fólk en ekki eitt tveggja tíma leikrit. Þetta hefur þó verið gert. Höfundurinn sjálfur, Hallgrímur Helgason, semur leikgerðina með Símoni Birgissyni dramatúrg og Unu Þorleifsdóttur leikstjóra, og hún er sýnd í Kassanum.

Konan við 1000°Leikgerðin hoppar nokkuð á tindunum í bókinni og sumir verða svo í skötulíki að þeir sem ekki hafa lesið bókina vita ekkert hvað var að gerast þegar það er búið. En að því sögðu er full ástæða til að fagna þessu framtaki; leikgerðin skilar kjarna verksins, bæði í texta og túlkun. Guðrún S. Gísladóttir leikur Herbjörgu Maríu Björnsson, þetta óhamingjusama ólíkindatól sem þreyr síðustu mánuðina í lífi sínu í bílskúr í ómerkilegu bæjarhverfi, og Guðrún gerir það betur en hægt er að hugsa sér fyrirfram. Sveiflurnar í skapi og geði þegar hún ýmist rifjar upp skrautlega ævi sína eða fæst við lifandi aðstandendur og aðra voru svo sannfærandi að þær gengu manni að hjarta.

Snilldarbragð var að láta Elmu Stefaníu Ágústsdóttur leika bæði ungu stúlkuna sem er gömlu konunni til aðstoðar í bílskúrnum og hlustar á hana segja sögu sína OG Herbjörgu unga. Elma vann bæði hlutverkin vel en einkum gerði hún betur en vel í hlutverki Herbjargar yngstu, þegar hún hættir að mæta í skólann í Kaupmannahöfn af því henni er strítt svo mikið en sækist eftir samvistum við danskar gleðikonur, þegar hún dvelur á eynni Amrum meðan pabbi hennar er í þýska hernum og móðirin í vinnu langt í burtu og þegar hún týnist í umróti stríðsins og þvælist um Þýskaland alein, unglingurinn. Lengst munu líklega sitja í minninu viðbrögð hennar þegar Massa mamma hennar (Edda Björg Eyjólfsdóttir) yfirgefur hana á Amrum. Samanburðurinn á þeirri björtu, tilfinninganæmu unglingsstúlku og kerlingunni í skúrnum var átakanleg mynd af því hvernig hrikaleg lífsreynsla fer með manneskju. Seinni hluti verksins, stríðslokin og dvölin í S-Ameríku, urðu aðeins of glannalega fyrir skurðhnífnum – fyrir utan áfallið sem Herbjörg verður fyrir í Argentínu, það var vandlega dregið fram.

Þó að þær haldi vissulega sýningunni uppi hvor á sinn hátt, Guðrún og Elma, þá eru þær ekki einar. Fyrir utan Eddu Björgu sem leikur Heike vinkonu á eynni og aðra gleðikonuna auk Mössu, leika Snorri Engilbertsson, Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir og Pálmi Gestsson mörg hlutverk hvert og eitt. Þar er víða falleg vinna. Snorri er einkum í hlutverki föður Herbjargar, forsetasonarins sem varð liðsforingi í her Hitlers. Baldur Trausti lék m.a. þá gagnólíku menn Magnús son Herbjargar og fótalausa manninn Aaron Hitler á aðaljárnbrautarstöðinni í Hamborg. Pálmi var bæði faðir og einn eiginmanna Herbjargar en bestur var hann líklega sem varðmaður á lestarstöðinni í Hamborg. Edda Arnljótsdóttir bjó til nokkrar skemmtilegar týpur en sú langbesta var Ragnheiður („Regnheiður“) tengdadóttir Herbjargar. Þar mættust sannarlega stálin stinn og hallaðist ekkert á með þeim Guðrúnu! Auk ákveðinna hlutverka brá leikhópurinn sér í ótal ótilgreind smáhlutverk í hópsenum.

Konan við 1000° er um hörmungar og viðbjóð stríðs. Til að draga upp skelfilegustu myndir af þeim velur höfundur að hafa unglingsstúlku í sögumiðju. Hún er tólf ára þegar hún þarf að bjarga sér sjálf í hryllingi stríðsins. Hún lifir vissulega stakar sælar stundir – unglingar eru svo ótrúlega lagnir við að laga sig að aðstæðum – en lengst af lifir hún auðvitað í hreinu helvíti þessi einsemdarár. Stríð er helvíti á jörðu. Þess vegna ganga viðbrögð Íslendinganna sem hún hittir heima hjá afa og ömmu eftir stríð svo nærri henni. Og okkur eftir að hafa gengið með henni gegnum þessa reynslu á einni kvöldstund.

Allur umbúnaður sýningarinnar eykur á áhrifamátt hennar. Leikmynd Evu Signýjar Berger er hugkvæm og hagnýt. Verkið er sett upp á tveimur hæðum og gerir það mögulegt að koma öllum þessum fjölda atriða fyrir á grunnu sviði Kassans. Búningar Agnieszku Baranowsku eru smekklegir og við hæfi. Lýsing Magnúsar Arnar Sigurðssonar er vönduð og tónlist Tryggva M. Baldvinssonar áheyrileg. Hljóðmynd Einars Sv. Tryggvasonar, Kristins Gauta Einarssonar og Tryggva kom hvað eftir annað hastarlega á óvart svo að maður hrökk óþægilega við. Það átti vel við og var áreiðanlega viljandi gert.

Silja Aðalsteinsdóttir