Hvíta tígrisdýrið

Hvíta tígrisdýrið / Teikning: Pétur Atli Antonsson

Hinn góði leikhópur Slembilukka frumsýndi í gær í samstarfi við Borgarleikhúsið barnasýninguna Hvíta tígrisdýrið eftir Bryndísi Ósk Þ. Ingvarsdóttur á Litla sviði hússins. Bryndís Ósk hannar líka búninga og leikmyndina sem er engin smásmíði en Eygló Höskuldsdóttir Viborg sér um hljóðmyndina og Kjartan Darri Kristjánsson um ljósahönnun. Leikstjóri er Guðmundur Felixson.

Hér segir frá afar stjórnsamri og eigingjarnri manneskju, Konunni með kjólfaldinn (Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir), sem heldur þrem börnum (sínum?) í gíslingu á háalofti herragarðs nokkurs. Þetta eru orðin stór börn en þau hafa aldrei farið út úr húsi vegna þess að Konan hefur sannfært þau um að fyrir utan séu endalausar hættur. Og ekki nóg með það, í veggjum herragarðsins býr hvítt tígrisdýr sem lætur í sér heyra þegar börnin reyna að andæfa Konunni. Þetta tígrisdýr hafði Konan fengið að gjöf frá föður sínum landkönnuðinum þegar það var lítill hvolpur en núna er það orðið stórt og stórhættulegt, auðvitað. Sjálf er Konan föst við gólfið og getur ekki hreyft sig úr stað.

Krökkunum líður misjafnlega í sinni innilokuðu tilveru. Önnur stúlkan (Laufey Haraldsdóttir) hefur verið svo treg til að fara eftir reglunum að Konan hefur gert hana ósýnilega og hótar jafnvel að láta hana hverfa alveg. Klakadrengnum (Jökull Smári Jakobsson) er alltaf hrollkalt og hann á líka undir högg að sækja hjá Konunni sem er ekki alltaf ánægð með hann þó að hann sé listateiknari. En Gírastúlkan (Þuríður Blær Jóhannsdóttir) er eftirlæti Konunnar enda ákaflega snjöll og sniðug og fer líka alltaf eftir reglunum. Börnin halda sig á mottunni meðan Konan vakir en um leið og hún er sofnuð fara þau á kreik og skemmta sér saman – gera sínar einkauppreisnir þegar eftirlitið slaknar.

Svo kemur vera að utan óvænt og óboðin inn á háaloftið og eftir það verður erfitt fyrir Konuna að halda blekkingunni til streitu.

Þetta er táknrænt verk sem minnti mig skemmtilega á smásögur Svövu Jakobsdóttur með mynd sinni af konunni sem er blýföst í tilveru sinni og ófrjáls um leið og hún skerðir frelsi barnanna. Kannski er sagan nokkuð flókin fyrir börn en meginskilaboðin, nefnilega að maður eigi að láta reyna á styrk sinn en ekki láta draga úr sér kjarkinn og kúga sig til aðgerðaleysis, eru skýr. Vissulega eru hætturnar margar í lífi barna en þau verða að fá að takast á við þær sjálf.

Það var verulega gaman að sjá Guðlaugu Elísabetu á sviði eftir langt hlé og hún fór létt með að skipta úr ljúfmennsku í grimmd á augabragði í hlutverki Konunnar. Börnin báru nöfn sín með rentu og voru hvert öðru skemmtilegra. Háaloftið hennar Bryndísar undir kjólfaldi Konunnar var listilega gert, troðfullt af alls konar dóti og útatað í skotum og kimum fyrir börnin að troða sér í. Ósýnileikinn var ágætlega leystur – við heyrum í stúlkunni, systkini hennar rekast á hana, reikna með henni í leikjum, hún dregur fram stól til að setjast á, hreyfir dyratjaldið, heldur á barefli til að verjast yfirvofandi árás tígrisdýrsins og fleira og fleira án þess að við sjáum hana. Svo þjónar Gírastelpan Konunni með smellnum tækjum sem hún hefur fundið upp því að ekki kemst Konan neitt svona föst í sporunum. Börnin í salnum fá að upplifa sanna leikhústöfra.

 

Silja Aðalsteinsdóttir