Philip RidleyÞað var virkilega gaman að koma í Norðurpólinn, nýja leikhúsið á Seltjarnarnesi í gær. Alltaf er gaman þegar leiklistin fær nýjan vettvang og ekki dregur úr ánægjunni þegar hann er eins aðlaðandi og Norðurpóllinn: Geysistór forsalur með bar, mjúkum sófum og gömlum Sunnudagsblöðum Tímans (!) til að kíkja í meðan beðið er sýningar, tveir miðlungsstórir sýningarsalir, að vísu hvor inn af öðrum þannig að erfitt er að leika í báðum í einu.

Aðstandendur eru þó aðeins of hrifnir af aðstöðunni, allavega drógu þeir heldur lengi að hefja sýninguna í gær. Mér finnst vondur galli á leikhúsum þegar stjórnendur þeirra kunna ekki á klukku og treysti því að þetta hafi verið einsdæmi. Það var líka gaman að sjá gesti nýja leikhússins, unga fólkið sem þyrptist á sýninguna. Leikhúsunum í landinu hefur virkilega tekist að kveikja og viðhalda leiklistaráhuga meðal þegnanna.
Á dagskrá í gær voru Glerlaufin, nýtt verk eftir Bretann Philip Ridley. Þetta er nokkuð dæmigert stofuleikrit þó að það gerist í nokkrum “stofum”: Heima hjá listamanninum Barry (Ólafur S.K. Þorvaldz), heima hjá Steven eldri bróður hans (Jóel Sæmundsson), á skrifstofunni hans og heima hjá móður þeirra bræðra (Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir). Persónur bræðranna virðast nokkuð klárar, Barry er vandræðagripur og gengur flest í óhag, Steven er traustur og gengur allt í haginn. Mamman heldur meira upp á vandræðagripinn en reiðir sig samt á Steven. Enda er hann ríkur og á fallega konu, Debbie (Vigdís Másdóttir), sem nú ber fyrsta barn þeirra hjóna undir belti.

Fyrsta merkið um að ekki sé allt sem sýnist er hvað Steven tekur því fálega þegar Debbie segir honum frá óléttunni. Af hverju reynir hann ekki einu sinni að leika að hann sé glaður? Grunar hann raunverulega að Debbie hafi haldið við Barry? Reyndar skil ég þennan skort á viðbrögðum Stevens ekkert betur eftir að flett hefur verið ofan af öllum leyndarmálum sem þessi litla fjölskylda býr yfir – nema ég fari að búa til mínar einkaskýringar.

Af leyndarmálum er þó sannarlega nóg og ekki má koma upp um þau í svona umsögn. Skal látið duga að segja að þau eru mjög raunveruleg og sannarlega alvarleg, jafnvel óhugnanleg. Nokkuð finnst mér þó vanta upp á að höfundurinn vinni nógu vel úr efni sínu, einkum skortir talsvert á að hann flétti vísanir, til dæmis í glerlauf titilisins, nógu markvisst inn í textann þannig að uppljóstrunin verði fullnægjandi. Kannski er verkið of stutt fyrir þessi óhugnanlegu gömlu leyndarmál. En fróðlegt var að bera saman vinnubrögð Ridleys og landa hans Dennis Kelly í verkinu Munaðarlaus sem var sýnt í Norræna húsinu upp úr áramótum. Það verk fór í klassísku deildina um leið.

Leikararnir fóru ágætlega með hlutverk sín undir stjórn Bjartmars Þórðarsonar. Jóel var kannski dálítið stífur Steven en tvíræðni hans, háðslegum innskotum og óeinlægni náði hann firna vel. Ég var óánægð með búninginn á Debbie fyrst í stað en skildi þegar á leið að hann var hárréttur; þetta er kona sem reynir að klæða sig samkvæmt annarra smekk, ekki sínum eigin, og Vigdís túlkaði þessa bældu persónu vel. Ólafur gerði sér góðan mat úr flókinni persónu Barrys og var á köflum verulega magnaður. En stóra hrósið fær Lilja Guðrún fyrir sannfærandi mynd sína af móðurinni bitru sem telur í sífellu upp alla þá sem hún hefur jarðað, og aldrei er hægt að gera henni alveg til geðs.

Búningar voru vel hugsaðir hjá Thelmu Björk Jónsdóttur og engin ástæða er til að amast við ljósahönnun Arnars Ingvarssonar og tónlistarstjórn Védísar Hervarar Árnadóttur. En ég var ekki ánægð með þýðinguna á verkinu og skil vel að þýðandinn skuli ekki láta nafns síns getið í leikskrá. Textinn var flatur og iðulega óþægilega “enskur” í orðaröð og orðavali. Og ég bendi á að íslenskan á miklu öflugri blótsyrði en fokking – að minnsta kosti til að nota inn á milli.

Loks er full ástæða til að óska Alheiminum og Börnum Loka – og okkur öllum – innilega til hamingju með nýja leikhúsið í höfuðborginni. Megi það lengi lifa.

Silja Aðalsteinsdóttir