Íó – Undirheimaferð stúlku og hrafnsLeikhópurinn Gára Hengó frumsýndi í dag barnaleiksýninguna Íó – Undirheimaferð stúlku og hrafns í Tjarnarbíó. Höfundur er Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, leikstjóri er Aude Busson og Sigríður Sunna Reynisdóttir hannar leikmynd, búninga og brúður.

Við komum inn til Hafrúnar þegar hún er háttuð og á að vera farin að sofa. Hún er óróleg, eirir ekki við að lesa og getur ekki legið kyrr, ekki einu sinni þegar pabbi biður hana að fara nú að sofa. Smám saman kemur í ljós að Hafrún er bæði hrygg og reið ömmu sinni sem fór án þess að kveðja, það er söknuðurinn eftir henni sem heldur vöku fyrir Hafrúnu. Allt í einu svífur hvítur hrafn inn um gluggann hennar. Hún felur sig fyrir honum, dálítið smeyk, svo reiðist hún þegar hann tekur sjalið sem amma prjónaði handa henni og þau togast á um það, togstreitan breytist smám saman í kátan leik og að lokum fellst Hafrún á að fara með krumma út í nóttina. Þá er hún búin að skíra hann Íó.

Næturferðalag Hafrúnar og Íó liggur um himin og jörð, alla leið til tunglsins og niður á botn táraflóðsins djúpa. Svo víða þarf hún að fara til að sætta sig við dauða ömmu sinnar. Sviðsmyndirnar voru gerðar úr miklum efnisströngum, gljáandi gulum fyrir sandinn á tunglinu og hafbláum fyrir táraflóðið og undirdjúpin. Skuggamyndir voru skemmtilega notaðar, bæði til að sýna ferðalag hrafns og stúlku um himingeiminn og til að sýna hrafnaþingið sem varpaði með masi sínu ljósi á atburðarásina. Þeir hrafnar gátu talað mannamál en það gerði Íó ekki, hann krunkaði bara. Það skildist þó alveg jafn vel.

Hafrún er leikin af Grímu Kristjánsdóttur sem er barnsleg á alveg tilgerðarlausan hátt, en á ferðalaginu er hún líka leikin af undurfallegri brúðu. Íó er borinn uppi af Aldísi Davíðsdóttur sem varð merkilega ósýnileg þótt hún væri mun stærri en hrafninn. En hvítir hrafnar eru sjaldgæfir og von að hann stæli senunni. Þetta er fallega hugsað verk og félagar mínir, sex og níu ára, áttuðu sig alveg á efninu. Þeim yngri fannst það nokkuð sorglegt; fór að vísu ekki að gráta en var dálítið hissa á að ekkert annað barn skyldi gera það.

Silja Aðalsteinsdóttir