Þjóðleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi sjónleikinn Allir synir mínir eftir Arthur Miller í nýrri munntamri þýðingu Hrafnhildar Hagalín og undir stjórn Stefáns Baldurssonar. Þetta er ríflega sextugt leikverk, fyrst sýnt 1947. Það gerist árið áður og sprettur beint upp úr darraðardansi heimsstyrjaldarinnar sem þá var nýlokið.

Joe Keller (Jóhann Sigurðarson) verksmiðjueigandi býr við góð efni í ónefndum bæ ásamt konu sinni Kate (Guðrún S. Gísladóttir) og yngri syni Chris (Björn Thors). Eldri sonur þeirra hjóna, Larry, hefur ekki komið til baka úr stríðinu en móðir hans neitar að horfast í augu við að hann hafi fallið. Chris hefur skrifast á við kærustu Larrys, Ann (Arnbjörg Hlíf Valsdóttir), í tvö ár og þegar verkið hefst hefur hann kallað hana heim frá New York til að biðja hennar. En unga parið þarf ekki einungis að kljást við móðurina, sem enn lítur á Ann sem „stúlkuna hans Larrys“, heldur flókna forsögu fjölskyldnanna tveggja sem rís á ný úr djúpinu þegar Ann kemur og seinna George bróðir hennar (Atli Rafn Sigurðarson).

Allir synir mínir

Þegar styrjöldin stóð sem hæst sendi verksmiðja Joes Keller og Steves Deever, föður Ann, frá sér gallaða varahluti í flugvélar. Ef varan hefði ekki verið afgreidd hefði verksmiðjan farið á hausinn og fjölskyldurnar orðið öreiga. En afleiðingin af því að senda vöruna frá sér varð sú að 21 flugmaður fórst með vélinni sinni. Þeir Joe og Steve myrtu í raun og veru 21 ungan orrustuflugmann. Þeir voru dregnir fyrir dóm, og eftir áfrýjun var Joe sýknaður en Steve er enn í fangelsi. Það er þaðan sem George er að koma og er nú algerlega sannfærður um að Joe beri enn meiri sök en faðir hans. Hann vill ekki að Ann giftist Chris og tengist Keller-fjölskyldunni sem hefur farið svona illa með fjölskyldu hans. Átökin harðna stöðugt og ganga nær og nær persónunum uns hámarki er náð. En í uppsetningu Stefáns Baldurssonar er verkið ekki búið þegar það er búið. Hann sendir okkur út í djúpum þönkum um framtíð persónanna. Hvernig munu þær lifa með því sem hefur verið afhjúpað? Er ábyrgðinni í raun og veru létt af þeim?

Allir synir mínir fjallar um að taka ábyrgð á gerðum sínum. Það er kannski smámál að hafa valdið dauða 21 manns í stríði sem drap milljónir, en þeir gátu allir verið synir Joes og Steves – og á vissan hátt voru þeir það að mati Arthurs Miller. Það er boðskapurinn sem verður svo átakanlega sterkur í verkinu.

Sýningin er klassísk, hæg og íþung, gefur manni tilfinningu um að við sjáum hana gerast á rauntíma. Leikurinn er sannfærandi og hver persóna vel mótuð. Jóhann Sigurðarson er marghliða Joe Keller, léttur og sjarmerandi á yfirborðinu en stutt í þyngslin. Í samskiptum við nágrannadrenginn Bert (Hringur Ingvarsson) komumst við að því að hann er alltaf að leika „fangelsisleik“ – sem fer hrikalega í taugarnar á Kate, enda vill hún fyrst og fremst ýta frá sér öllu sem varðar þetta gamla mál. Guðrún S. Gísladóttir var öflugur mótleikari Jóhanns. Afkomendur Joes og Steves sem þurfa að lifa með glæp þeirra voru túlkaðir af vaxandi þunga og sársauka af Birni Thors og Arnbjörgu Hlíf sem bæði gengu manni að hjarta. George kemur svo inn í verkið eins og sprengja og Atli Rafn túlkaði hann af grimmri ástríðu.

Miller leggur sig fram um að búa Kellerfjölskyldunni umhverfi í bænum með nokkrum litríkum aukapersónum sem varpa birtu á aðalpersónurnar frá ýmsum hliðum. Mikil alúð er lögð í þessar persónur sem urðu bráðlifandi á sviðinu þótt þær fái ekki mikið rúm. Baldur Trausti Hreinsson var Jim Bayliss læknir, kominn beint frá Tsjekhov og Ibsen. Edda Arnljótsdóttir var kona hans, eiginkonan sem hugsar fyrst og fremst um hag fjölskyldunnar (eins og Joe og Steve). Vigdís Hrefna Pálsdóttir var Lydia Lubey, kærasta Georges sem giftist öðrum þegar hann var kallaður í herinn og hlær bara þegar hún hittir George – en það var margræður hlátur. Hannes Óli Ágústsson lék Frank, mann hennar, sem hefur í barnalegri góðmennsku viðhaldið von Kate um að Larry væri einhvers staðar á lífi.

Á móti raunsæjum leik stillir Gretar Reynisson táknrænu sviði, afar ólíku sviðinu þegar verkið var síðast sett upp í Þjóðleikhúsinu 1993. En búningar Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur voru bæði í takti við tímabilið og augnayndi fyrir okkur hér og nú. Tónlist Gísla Galdurs var óáreitin en merkingarbær og lýsing Lárusar Björnssonar sömuleiðis.
Allir synir mínir er kannski ríflega sextugt verk en það á ótvírætt brýnt erindi við okkur enn. Og sýningin gerir því sóma.

 

Silja Aðalsteinsdóttir