HvörfSýningin Hvörf sem Lab-Loki leikhópurinn sýnir nú í samstarfi við Þjóðleikhúsið byggist á málskjölum Guðmundar- og Geirfinnsmálsins en beitir sér einkum að þróuninni í yfirheyrslum yfir helstu sakborningum. Merkilegt hefði líka verið að fá að heyra málsmeðferð fyrir hæstarétti  en á það var bara minnt rétt í lokin að þar var stærsti glæpurinn framinn. Allar persónur fá ný nöfn en auðvelt er fyrir þá sem komnir eru nokkuð á legg að átta sig á fyrirmyndunum.

Við erum fyrst kynnt fyrir lögreglumönnunum Geirmundi (Árni Pétur Guðjónsson) og Guðfinni (Friðrik Friðriksson) sem eru í sínum lögguleik á skrifstofunni þegar inn til þeirra er vísað blaðamanninum Fjölni (Stefán Hallur Stefánsson). Í stuttum, snörpum samskiptum lögreglumannanna við hann sjáum við í sjónhending aðferðir þeirra við yfirheyrslur. Það er töfrum líkast hvernig þeir snúa út úr sakleysislegum svörum Fjölnis og eru búnir að gera hann að ötulum dópsala áður en við er litið. Það er líka töfrum líkast hvernig framkoma þeirra og afstaða breytist þegar Geirmundur kemst að því hverra manna Fjölnir er.

Næstu aðilar sem rekur á fjörur lögreglumannanna eru ekki eins heppnir með aðstandendur. Smásvindlararnir Jón Cieslac Zynkutis (Magnús Jónsson), Guðrún Jónsdóttir (Birna Hafstein) og Jón Viðar Rúnarsson (Hilmir Jensson) eiga enga að sem vilja vernda þau eða aðstoða og af því hvað þau eru berskjölduð verða þau upplagt hráefni í þá morðingja sem lögregluna vantar sárlega til að „upplýsa“ tvö mannshvörf og beina málinu þannig í burtu frá mönnum sem það hafði komið nálægt og voru í tengslum við Framsóknarflokkinn.

Næsta rúma klukkutímann fylgjumst við með því hvernig sakamál er beinlínis búið til með stöðugu áreiti og jafnvel pyntingum. Þar var átakanlegast að sjá meðferðina á Guðrúnu sem segir þegar frá líður hvað sem þeir vilja að hún segi til að fá að vera heima hjá barninu sínu. Óhugnanlegasta atriðið í leikritinu fyrir mína parta var heimsókn lögreglumannanna til hennar á jólunum. Allir þessir sex aðalleikarar voru sannfærandi í sínum hlutverkum en Birna náði mestum áhrifum. Það var líka áhrifamikið að fá tvær manneskjur á svið sem léku sjálfar sig, ef svo má segja, töluðu undir eigin nafni um persónur sem komu málinu við.

Hvörf

Hvörf. Friðrik Friðriksson, Mynd: Snorri Gunnarsson. 

Í seinasta hluta verksins dró nokkuð úr styrk þess. Hlutverk Karls Schutz rannsóknarlögreglumanns frá Þýskalandi (Arnar Jónsson) og sakborningsins Jóns Njálssonar (Þorsteinn Bachmann) voru ekki eins vel unnin og hin og aðkoma Jóns Njálssonar að málinu of óljós.

Allur umbúnaður sýningarinnar var spennandi, ekki síst að fá að sitja í gamla réttarsalnum sjálfum sem líka gaf gott rými fyrir átök leiksins. Búningar Evu Signýjar Berger voru hárréttir og tónlist Guðna Franzsonar sterk. Rúnar Guðbrandsson leikstjóri, Sjón og Stefán Hallur eru skrifaðir fyrir leikgerðinni og leikhópurinn allur með þeim. En fyrst og fremst er þetta ástríðuverkefni Rúnars sem hefur sagt í viðtölum að hann hafi verið upptekinn af þessu máli árum saman. Það skilar sér.  Gaman er að fá inn á milli svona samfélagsgagnrýnin verk – og kannski ekki laust við að vera tímabært einmitt þessar vikurnar.

Silja Aðalsteinsdóttir