RisaeðlurnarRagnar Bragason hefur gert „öðruvísi“ utangarðsmenn að efni leikverka sinna – fólk sem af afar ólíkum ástæðum er utan við samfélag okkar „hinna“. Í Gullregni (2012) var það fólk sem alheilbrigt lifir á örorkubótum – kerfinu; í Óskasteinum (2014) voru það smákrimmar sem ætla að ná sér rækilega niðri á kerfinu með einu góðu bankaráni. Í Risaeðlunum, sem nú eru sýndar í Þjóðleikhúsinu, er það fólkið sem flakkar land úr landi og er fulltrúar Íslands í sendiráðum þess erlendis en er löngu slitið úr samhengi við það samfélag sem þau eru fulltrúar fyrir. Ragnar leikstýrir sjálfur sem fyrr.

Sonur sendiherrahjónanna, Elliða (Pálmi Gestsson) og frú Ágústu (Edda Björgvinsdóttir), Sveinn Elliði (Guðjón Davíð Karlsson) er alinn upp á þessu flakki foreldra sinna og kennir því um alvarlega og stórhættulega geðtruflun sína. Í fyrri verkunum voru líka synir sem voru illa skemmdir af óheilbrigðu lífi utan samfélagsins og má segja að hér sé komið raunverulegt erindi Ragnars. Enda má sjá það líka í hans góðu bíómyndum, einkum Börnum og Foreldrum.

Þó að átök foreldra og barns séu í kjarna Risaeðlanna eru ytri atburðir aðrir og yfirborðslegri, nefnilega heimsókn kærustuparsins Bríetar Ísoldar myndlistarkonu (Birgitta Birgisdóttir) og Alberts (Hallgrímur Ólafsson) í sendiráðið. Bríet Ísold er komin til útlanda með listrænan gjörning og henni er mikið í mun að koma sér vel við sendiherrann sem hún er viss um að geti aðstoðað hana fjárhagslega og kynnt hana fyrir áhrifamönnum. Henni veitir ekki að aðstoð því hæfileikarnir eru svona og svona. Elliði sendiherra er meira en fús til að taka smjaðri og daðri þessarar fallegu stúlku og aðrir í boðinu verða svolítið afskiptir. Sendiherrafrúin kann það eina ráð til að ná athygli að kalla á þjónustustúlkuna Li Na (María Thelma Smáradóttir) og skipa henni fram og aftur. Li Na er greinilega talsvert langt gengin með barni og óvíst faðerni þess er enn einn þráður verksins.

Á yfirborðinu er þetta gamanleikrit. Samtöl eru oft fyndin og þessum þjálfuðu leikurum verður mikið úr stökum meinfyndnum setningum, einkum Eddu Björgvinsdóttur sem er þarna í kunnuglegu gervi drykkfelldu yfirstéttarkonunnar. En auðvitað er þetta allt annað en gamanleikrit; þetta er nöturleg mynd af ólánsömu fólki sem lifir í blekkingu um gildi sitt og stöðu. Hér sem fyrr en Ragnar alveg miskunnarlaus við fólk sem hann fyrirlítur en öll eiga leikverkin það sameiginlegt að ungar konur, gjarnan af erlendum uppruna, eru fulltrúar hins góða og heiðarlega í gerspilltum heimi.
Leikurinn var fagmannlegur eins og vænta mátti, hæfilega ýktur þar sem það átti við. Edda fór vel með ýkjurnar; Pálmi varð æ antipatískari uns hann var úr leik; Birgitta flögraði um á sínum græna kjól með fingurna í hárinu. Hallgrímur er hér að leika í þriðja sinn á sviði undir stjórn Ragnars og er eins og heima hjá sér. María Thelma fór afar vel með sinn hljóðláta hlut. Guðjón Davíð kom eins og svarthol inn í upplýsta veröld sendiráðsins, þungur á brún, stífur í hreyfingum, ófær um að sýna yfirborðskurteisi. Sýningin er nokkuð hæg og uppsetningin gamaldags í stíl við heiti verksins.

Halfdan Pedersen gerir viðamikla og nostursamlega unna leikmyndina sem í einu vetfangi flutti mann aftur um áratugi. Á hringsviðinu fórum við herbergi úr herbergi: glæsilegt anddyri sendiráðsins, borðstofa, eldhús, garður. Filippía I. Elísdóttir klæðir persónurnar á mjög viðeigandi hátt og annað ytra útlit, lýsing, hljóðmynd og tónlist sömuleiðis vel unnið.

Silja Aðalsteinsdóttir