Sýningin okkar sem var frumsýnd á Loftinu í Þjóðleikhúsinu í gærdag ber nafn með rentu. Hún er einmitt sýningin þeirra Jóhanns Kristófers Stefánssonar og Tatjönu Dísar Aldísar Razoumeenko sem saman mynda leikhópinn Konsertu. Þau eru sviðshöfundar og tónlistarfólk og bæði semja og leikstýra verki sínu en Karl Ágúst Þorbergsson fær að halda utan um þau sem dramatúrg.

Í rúmlega klukkustund gera þau alls konar sprell sem þeim dettur í hug til að skemmta áhorfendum sínum og líklega sjálfum sér ekki síður, segja og sýna sögur af fólki. Verkið skiptist í marga stutta þætti en fyrst og síðast hittum við Júlíu og Þröst, ungar og fallegar manneskjur sem eru sannferðugar en þó (vonandi) býsna ýktar myndir af sönnu „nútímafólki“, vopnuðu sínum snjallsíma.  Þau eru par og afar ástfangin. Júlía virðist hafa orðið fyrir yfirnáttúrulegri reynslu og nú vilja ákveðin öfl að hún miðli henni til annarra þurfandi, helst í Eldborg Hörpu, og græði fé í leiðinni. Þröstur er með henni hundrað prósent lengi vel en kannski er orðin breyting á því í lokin í kjölfar þróunar á persónu Júlíu.

Inn á milli þessara sögukafla fáum við sketsur af ýmsu tagi; meðal annars taka þau að sér að búa til leiknar auglýsingar fyrir ýmsar sýningar Þjóðleikhússins. Þær voru sumar morðfyndnar en ekki endilega í beinu sambandi við sýningarnar sem þær áttu við. Þau eru ákaflega dugleg að þakka fyrir sig, þakka ráðamönnum Þjóðleikhússins fyrir aðstöðuna sem þau hafa fengið þarna á Loftinu og þakka fyrir alla þá miklu og ómetanlegu hjálp sem þau hafa fengið frá aðilum sem þau töldu upp í endalausri röð. Namedropping dauðans! Smám saman varð þetta dillandi fyndið og hápunkti náði þetta einkenni sýningarinnar í atriði sem þau þökkuðu myndlistarmanninum Ragnari Kjartanssyni.

Þau mega líka þakka leikaranum Hákoni Jóhannessyni sem kom þeim til aðstoðar hvað eftir annað ýmist sem sviðsmaður eða þátttakandi. Einfalda og þénuga leikmynd gerði Hallveig Kristín Eiríksdóttir og fjöldi viðeigandi búninga var á vegum Ernu Guðrúnar Fritzdóttur en hljóðmyndina sáu þeir Guðlaugur Hörðdal Einarsson og Kári Guðmundsson um.

Í kynningartexta leikhússins segir að markmið hópsins sé „að sýna ungu fólki að leikhúsformið sé því viðkomandi með aðferðar- og fagurfræði snjallsímans að leiðarljósi.“ Aldrei að vita nema það geti náðst.

Silja Aðalsteinsdóttir