Um skáldsögur Jenny Colgan, eftirhrunsskvísusögur og veruleikaflótta
eftir Snædísi Björnsdóttur
Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2023
Jenny Colgan er skoskur metsöluhöfundur sem hefur unnið hug og hjörtu lesenda víðsvegar um heim. Bækur hennar þykja almennt einstaklega ljúfar og notalegar og þeim hefur jafnvel verið lýst sem lystaukandi. Colgan er þekktust fyrir rómantískar gamansögur sínar og skvísusögur[1] (e. Chick Lit) en hún hefur einnig gefið út vinsælar barnabækur og skrifað vísindaskáldskap fyrir bresku sjónvarpsþáttaseríuna Doctor Who. Hún er fædd og uppalin í Skotlandi og er nýlega flutt þangað aftur ásamt fjölskyldu sinni eftir að hafa búið í London, Hollandi, Bandaríkjunum og Frakklandi. Colgan vann hjá bresku heilbrigðisstofnuninni NHS um nokkurra ára skeið, en margar skáldsögur hennar eru einmitt tileinkaðar starfsfólki heilbrigðisgeirans, og spreytti sig einnig á uppistandi og teiknimyndagerð áður en hún fann sína hillu og gerðist rithöfundur.
Fyrsta skáldsaga hennar Amanda‘s Wedding kom út í janúar árið 2000 og hlaut afar góðar viðtökur. Síðan þá hefur hún gefið út fjölmargar skáldsögur og unnið til ýmissa verðlauna, til að mynda vann bók hennar Meet me at the Cupcake café Melissu Nathan-verðlaun í flokki rómantískra gamansagna árið 2012 og var meðal tíu söluhæstu bóka á lista Sunday Times. Welcome to Rosie Hopkins‘ Sweetshop of Dreams komst einnig á þann lista og vann auk þess til verðlauna sem besta rómantíska skáldsaga ársins 2013. Bækur Colgan hafa selst í yfir átta milljón eintökum um allan heim og verið þýddar á yfir 15 tungumál, sem undirstrikar ekki síst vinsældir rómantískra gamansagna og skvísusagna.
Á íslensku hafa komið út tólf bækur eftir Colgan í þremur bókaflokkum; um Litla Bakaríið við Strandgötu, um hina ímynduðu Mure-eyju og Sumareldhús Flóru, og að lokum flokknum um Litlu bókabúðirnar í skosku hálöndunum og Edinborg. Bækurnar hafa verið þýddar af Ingunni Snædal, Helgu Soffíu Einarsdóttur og Ernu Erlingsdóttur og eru gefnar út af forlaginu Angústúru.
*
Sætar, ljúfar og léttar. Þetta eru lýsingarorð sem gætu átt við um bollakökur en á þennan máta er skáldsögum Jenny Colgan gjarnan lýst, jafnt af lesendum og höfundi sjálfum.[2] Það á líka einstaklega vel við því bækurnar eru ljúfar aflesturs og þykja sömuleiðis kalla fram vellíðunartilfinningu.[3] Í þeim er lögð megináhersla á heilnæmi og huggulegheit og það er því ekki að undra að þær séu jafnan markaðssettar sem eins konar „dekur“ fyrir lesandann. Í svipuðum dúr hefur þeim verið líkt við konfekt[4] en það vekur einmitt athygli hve oft er sett samasemmerki á milli lesturs og matar í umræðu um bækurnar.
Á íslenskum umræðuvettvangi um góðar bækur eru skáldsögur Colgan til að mynda sagðar „renna mjúkt niður“ en að stundum geti þær þó verið heldur sætar: „þetta er pínu eins og að borða mjög sykraða köku. Mjög gott en ein sneið er alveg nóg.“[5] Hugrenningartengslin stafa sennilega af því hve stórt hlutverk matreiðsla og neysla hvers kyns matar, allt frá steiktum fiski til brauðbolla og súkkulaðis, leikur í bókunum, en matarlíkingarnar gefa þó einnig vísbendingu um upplifun lesenda af sögunum. Þannig dregur líkingamálið fram þau nærandi og styrkjandi áhrif sem lesturinn þykir hafa.
Á áðurnefndum umræðuvettvangi er að auki umhugsunarvert hve oft var mælt með skáldsögum Colgan þegar lesendur auglýstu eftir lesefni sem vegið gæti upp á móti grimmdarlegri hliðum veruleikans.[6] Þannig var til dæmis ítrekað stungið upp á bókum hennar fyrir lesanda sem sagðist vinna við ofbeldismál og langaði því einungis til þess að lesa eitthvað fallegt í frítíma sínum.[7] Bækur Colgan eru jafnan markaðssettar á þeim forsendum að þær gefi lesandum kost á að flýja veruleikann, en þá vaknar upp spurning um það hvað felist í veruleikaflóttanum. Hvaða heimur er það sem verið er að bjóða lesandum inn í og hvað skapar þá vellíðan sem vísað er til í kynningum á bókunum? Hér má benda á að í hugmyndinni um veruleikaflótta er ávallt innbyggð gagnrýni á veruleikann utan bókanna, að því leyti að hún gefur til kynna að í lífi sínu búi lesandinn við ófullnægðar þarfir eða þrár sem svalað er með lestrinum.[8] Það er því áhugavert að rýna í hvað það er sem er svona heillandi við bækurnar – það getur nefnilega sagt okkur sitthvað um samtímann.
Ástin á tímum efnahagslegrar óvissu
Þrátt fyrir að bækur Colgan séu jafnan kynntar sem rómantískar gamansögur hafa þær einnig mörg einkenni skvísusagna (e. Chick Lit). Það getur þó verið vandmeðfarið að skilgreina nákvæmlega hvað skvísusögur eru, enda er bókmenntagreinin á vissan hátt enn í mótun og stöðugri endurnýjun.[9] Yfirleitt er hún þó kennd við póstfemínisma og álitin afsprengi kapítalískrar neyslumenningar 21. aldarinnar. Sumir vilja einfaldlega skilgreina skvísusöguna sem skáldsögu skrifaða af nútímakonu um nútímakonur, en almennt ríkir þó samþykki um að hún hafi til að bera ákveðin einkenni, svo sem kaldhæðni, húmor og að sumu leyti gagnrýnið sjónarhorn á kynjaðan samtímann. Skvísusagan er sömuleiðis oft álitin arftaki ástarsögunnar og hefur jafnvel verið kölluð litla, ósvífna systir hennar.[10]
Hún deilir því fjölmörgum einkennum með forvera sínum en skilur sig þó frá henni að því leyti að í henni hefur ástarsambandið minna vægi og meiri áhersla er lögð á þætti sem snerta stöðu konunnar í nútímanum, svo sem atvinnu hennar og efnahag, vinasambönd og neysluhegðun. Það er lykilatriði í skvísusögum að lesandinn eigi auðvelt með að samsama sig kvenhetjunni og aðstæðum hennar, og ef hann gerir það ekki verður íronían að vera augljós. Kvenhetjan er því ávallt nokkuð venjuleg kona með venjulegar áhyggjur og vandamál sem lesandinn á að geta kannast við og jafnvel speglað sig í. Þar sem konan er í forgrunni í sögunum og tekist er á við almenn og nútímaleg málefni geta skvísusögur þannig auðveldað hinum almenna lesenda (sem yfirleitt er gert ráð fyrir að sé kvenkyns) að vinna úr flóknum tilfinningum og erfiðri reynslu í eigin lífi.[11] Þannig hefur verið sýnt fram á að lestur skvísusagna geti haft jákvæð áhrif á heilsu lesenda sinna og ýtt undir tengslamyndun þeirra við aðra lesendur.[12]
Þegar skvísusagan náði fyrst miklum vinsældum, rétt undir síðustu aldamót, var hún afgerandi hvít, gagnkynhneigð, borgaraleg og vestræn. Síðan þá hafa orðið breytingar á bókmenntaforminu og þó að þessar áherslur hafi ennþá mótandi áhrif á það hvernig, hvenær og af hverjum sögurnar eru skrifaðar hafa orðið til ýmis tilbrigði við hina upprunalegu skvísusagnaformúlu. Þannig má til að mynda nefna suður-amerískar „Chica Lit“, „Sistah Lit“ og indónesískar „sastra wangi“, auk ráðgátu- og glæpasagna í skvísusagnastíl, kristilegar skvísusögur, mömmu-skvísusögur, þorps-skvísusögur og áfram mætti telja.[13] Í hittifyrra kom svo út bókin Detransition, Baby (2021) eftir Torrey Peters sem naut mikilla vinsælda en í henni er hefðbundna skvísusagnaformúlan endurskrifuð og gerð hinsegin.[14] Bækur Jenny Colgan falla að miklu leyti undir þá undirgrein skvísusagna sem gerast í litlum þorpum og segja frá konum um þrítugt sem flytja sig um set – yfirleitt úr stórborg í sveit – og hefja nýtt líf á nýjum stað. Þær setjast að auki ávallt að í litlu og einangruðu samfélagi þar sem þeim gefst hvíld frá stórborgarlífinu og um leið tækifæri til að taka upp nýtt starf og finna sjálfar sig og ástina.
Líkt og menningarfræðingurinn Teresa L. Ebert hefur fjallað um í bók sinni The Task of Cultural Critique má lesa ástarsögur og skvísusögur sem eins konar táknsögur sem ganga út á efnislega hluti og eignir.[15] Sönn ást hangir þannig iðulega saman við traustan efnahag og sjaldnast næst hamingjusamur endir í sögunum nema að þetta tvennt fari saman. Í ástarsögunni, forvera skvísusögunnar, eru eignir yfirleitt bundnar við ákveðinn einstakling, oftast karlmann, og hjónabandið jafngildir þess vegna ekki síst fjárhagslegum ávinningi.[16] Að sama skapi er eignalaus karlhetja jafnan afskrifuð sem álitlegt ástarviðfang á ákveðnum tímapunkti í sögunni en þá liggur greið leið kvenhetjunnar líka oft í faðm annarrar karlhetju, sem reynist svo gjarnan vera hennar eina sanna ást.
Í skvísusögum er þessu aðeins öðruvísi farið, enda eru þær í senn afsprengi póstfemínisma og viðbragð við kapítalísku kerfi nútímans, í þeim er því lögð meiri áhersla á fjárhagslegt sjálfstæði og starfsframa kvenhetjunnar.[17] Í skvísusögum hefur eignin, rétt eins og ástin, verið afmiðjuð og er ekki lengur traustur fasti í tilverunni heldur bæði flöktandi og óstöðug.[18] Hún er að auki ekki bundin við einn tiltekinn karlmann, en þó getur enginn karlmaður verið „hinn eini sanni“ án hennar.[19] Ástin verður þannig að flóknum samningarviðræðum á milli kynjanna þar sem tilfinningalegir jafnt sem fjárhagslegir kostir karlhetjunnar eru vegnir og metnir.[20] Yfirleitt verður hagkvæmasti karlkosturinn fyrir valinu að lokum en valið er þó alltaf réttlætt með ástinni.
Í Litla bakaríinu við Strandgötu fellur aðalsöguhetjan Polly til að mynda upphaflega fyrir sjómanninum Tarnie en þegar hann reynist vera giftur áttar hún sig á því að myndarlegi bandaríski býflugnabóndinn Huckle, sem á bæði fallega landareign og er að auki í hálaunuðu starfi, er rétti maðurinn fyrir hana. Á sambærilegan máta verður Flóra í bókaflokknum um Mure-eyjuna skotin í leiðsögumanninum Charlie sem reynist svo vera lofaður annarri. Um leið og hann hefur verið tekinn út úr myndinni kemst hún á séns með yfirmanni sínum Joel, auðugum Bandaríkjamanni sem hún hefur lengi verið bálskotin í, og ástarsaga þeirra fær að lokum farsæl endalok. Framhjáhald eða undirferli karlhetja er yfirleitt ekki verðlaunað í skvísusögum og kvenhetjan endar ávallt með þeim sem er siðferðislega réttsýnn, góður inn við beinið og kemur vel fram.[21]
Slæmt athæfi, kynferðisleg áreitni eða kynjað ofbeldi fær sömuleiðis sjaldan að viðgangast í skvísusögum og lögð er áhersla á að kvenhetjan sé efnahagslega sem og tilfinningalega betur stödd í lok sögu heldur en í upphafi hennar.[22] Textinn verður því á vissan hátt gjörningur þar sem réttlæti nútímakonunnar, sem samfélagið hefur beitt órétti, er náð fram. Lesandinn hlýtur síðan aðild að þessum gjörningi í gegnum lesturinn og virkni hans í merkingarsköpuninni er gjarnan tryggð með svokallaðri dramatískri íroníu sem kallar fram gjá í textanum á milli lesandans og kvenhetjunnar.[23] Lesandinn veit þá betur en kvenhetjan, getur fyllt í eyðurnar þar sem við á og hefur oft komið auga á „hinn eina sanna“ draumaprins löngu áður en hún áttar sig.[24] Í gegnum lesturinn tekur lesandinn þannig þátt í því að taka femíníska og um leið hagkvæma ákvörðun um hvaða karlhetja henti kvenhetjunni best.[25]
Í skáldsögum Colgan fer ávallt mikið fyrir starfsframa aðalsöguhetjunnar, þær setja á fót fyrirtæki eða taka u-beygju á starfsferli sínum, og sú sjálfsefling sem þær ganga í gegnum helst oftar en ekki í hendur við velgengni þeirra í nýju starfi. Að þessu leyti falla skáldsögurnar einnig að þeirri grein skvísusögunnar sem varð til í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008 og segir frá ráðagóðum konum sem búa yfir miklum frumkvöðlahæfileikum og tekst með skapandi hætti að stofna og/eða halda fyrirtæki á floti á óstöðugum vinnumarkaði eftirhrunsáranna.[26] Störfin sem kvenhetjurnar taka sér fyrir hendur þykja jafnan kvenleg og þær stofna oft ýmiss konar smáfyrirtæki.[27] Þannig hafa bollakökubakaríið og kaffihúsið til að mynda orðið algengar frásagnarmiðjur í sögunum en hvort tveggja kemur fyrir í bókum Colgan.[28] Litla bakaríið við Strandgötu er að mörgu leyti dæmigerð eftirhrunsáraskvísusaga en hún segir frá Polly og lífi hennar sem efnahagshrunið lagði í rúst.[29] Fyrirtækið sem hún hefur rekið í borginni er orðið gjaldþrota, hún hefur misst nánast allar eigur sínar til bankans og sambandið við kærastann hangir á bláþræði. Sárblönk og allslaus flytur hún úr stórborginni í lítið sjávarþorp þar sem hún tekur upp á því að baka brauð og selja þorpsbúum. Starfsemin reynist arðbær og fyrr en varir býðst henni að taka við rekstri bakarísins á staðnum. Með bakstrinum vinnur hún hug þorpsbúa og sest að lokum að í þorpinu til frambúðar eftir að hafa fundið þar bæði sjálfa sig og ástina.
Þessi formúla á einnig við um aðrar bækur Colgan sem segja jafnan frá týpískum eftirhrunsáraskvísum sem hafa nýlega misst vinnuna eða orðið óheppnar í fjármálum. Þær sýna síðan bæði útsjónarsemi og hugrekki þegar þær hefja nýjan starfsferil eða setja á fót smáfyrirtæki á borð við bakarí, kaffihús eða bókabúð. Hugrekki þeirra á viðsskiptasviðinu er síðan verðlaunað með ást og hamingju, og raunar krefst hin hefðbundna skvísusagnaformúla þess að allt fari vel að lokum.[30] Afar fáar skvísusögur brjóta gegn því lögmáli, enda er hætt við því að þá stæðust þær ekki væntingar lesenda og yrði jafnvel hafnað. Þó að skvísusagan sé oft bæði gagnrýnin og kaldhæðin gagnvart samtímanum leyfir formúlan einungis takmarkað svigrúm til ádeilu og hamingjusöm endalokin þjóna ekki síst þeim tilgangi að vera táknræn staðfesting á hugmyndafræðilegum, og ekki síst heterónormatívum, strúktúr samfélagsins.
Skvísusagan getur þannig ögrað ráðandi valdakerfum en hún steypir þeim aldrei um koll. Hún getur sömuleiðis verið valdeflandi fyrir lesendur sína upp að vissu marki um leið og hún styður við ráðandi valdakerfi. Það er ekki síst vegna þessarar innri þversagnar sem bókmenntagreinin hefur fengið mikla gagnrýni en þegar hún kom fyrst fram á sjónarsviðið skapaðist til að mynda mikil umræða um það hvort hún gæti beinlínis haft skaðleg áhrif á lesendur og skaðað áratugalanga baráttu kvenkyns höfunda fyrir aðgengi að hefðarveldi bókmenntanna. Sú gagnrýni hljómar mögulega hálfhjákátleg í dag enda hefur bókmenntagreinin, sem og aðrar afþreyingarbókmenntir, hlotið uppreisn æru á síðari árum og almennt viðhorf gagnvart henni hefur mildast til muna þó að enn eimi eftir af fordómunum.
Jenny Colgan er ein þeirra höfunda sem tóku upp hanskann fyrir skvísusögur og svaraði til að mynda gagnrýni rithöfundarins Beryl Bainbridge á þá leið að „við þekkjum muninn á bókmenntum og afþreyingarsögum. Við þekkjum muninn á foie gras og Hula Hoops [snakktegund], en, þú veist, stundum langar okkur bara í Hula Hoops.“[31] Líkt og Colgan bendir réttilega á eru flestir lesendur, sem og höfundar, skvísusagna vel meðvitaðir um stöðu bókanna sem afþreyingar- og yndislesturs, og leggja hvorki þá kröfu á bókmenntagreinina að hún sé byltingarkennd né sérstaklega pólitísk.
Bakstur fyrir sálina
Þó að bækur Colgan falli að miklu leyti að hefðbundinni formúlu skvísusagna má segja að þær gangi á vissan hátt skrefinu lengra í því að vekja vellíðan lesandans. Þannig fer mikið fyrir lýsingum af notalegum aðstæðum og athöfnum í sögunum og rík áhersla er lögð á heilnæmi og heilbrigði kvenhetjunnar. Í sögunum er að finna augljósa gagnrýni á hraða nútímasamfélagsins, neyslusamfélagið og stórborgarlífið. Sveitin verður undankomuleið og mótvægi við nútímann sem borgin stendur fyrir, og myndin sem dregin er upp af sveitalífinu er áberandi nostalgísk.
Líkt og Mißer hefur fjallað um snýr nostalgía ekki einungis að fortíðinni heldur horfir hún einnig fram á við og er því í raun fantasía um fortíðina sem mörkuð er af þörfum nútímans.[32] Þannig reynist draumur um fortíðina oft vera draumur um framtíð.[33] Nostalgía getur sömuleiðis verið þrá eftir ákveðnum tíma eða stað sem er ekki lengur til og var það mögulega aldrei, en löngunin eftir því að hverfa aftur til þess sem áður var (ekki) gefur til kynna óánægju með samtímann og ósk um breytingar.[34]
Þetta á vel við um bækur Colgan sem draga upp mynd af ímynduðum heimi sem virkar í senn gamaldags og nútímalegur. Lokað og einangrað samfélagið sem kvenhetjan flytur til einkennist ávallt af rólegheitum og einfaldleika, nánd og náungakærleik, og í frásögninni er neysluhyggju samtímans og stórborgarlífinu hafnað, í það minnsta á yfirborðinu. Kvenhetjurnar læra að lifa friðsælu, hófsömu og fábreyttu lífi sem stendur í hrópandi mótsögn við fyrra líf þeirra í stórborginni sem gerði þær óhamingjusamar. Rómantíkin felst ekki síst í nánu og þéttu samfélaginu sem myndar sjálfbæran kjarna, eins konar míkrókosmós. Matur og matreiðsla leika lykilhlutverk í bókunum, líkt og áður hefur komið fram, og rómantík samfélagsmyndarinnar er undirstrikuð með hugljúfum lýsingum af því hvernig kvenhetjan sækir dýrindis hráefni í nærumhverfi sitt.
Matarlýsingarnar eru margar og ítarlegar og það er því ekki að undra að sögurnar séu oft sagðar lystaukandi: „Fiskurinn bragðaðist dásamlega með eingöngu sítrónu, salti og pipar. Polly steikti hann í afganginum af ólífuolíunni og gerði salat, í fyrsta sinn í mörg ár úr stökum kálblöðum en ekki úr fokdýrri pakkningu.“[35] Samfélagið veitir kvenhetjunni þannig það öryggi sem hana skorti í stórborginni, læknar hana af fjárhagsáhyggjunum og sér henni fyrir atvinnutækifærum. Hér fær hún tækifæri til að blómstra og reyna sig í félagsskap álitlegra ungra karlmanna úr þorpinu sem sýna henni óskipta athygli.
Hún lærir sömuleiðis að hlúa vel að sjálfri sér, sjálfsmyndin styrkist og hún verður heilbrigðari, en því veldur öll útivistin, líkamleg vinnan – sem lögð er áhersla á hvort sem kvenhetjan starfar í bókabíl, bakaríi eða á kaffihúsi – hollur maturinn og góður svefninn. Þessar áherslur eru afdráttarlausar í sögunum og ætla má að þær geti haft – eða sé jafnvel ætlað að hafa – heilsusamleg áhrif á lesendur. Á þennan hátt getur frásögnin haft jákvæð áhrif á líf lesandans utan bókarinnar.
Í sögunum er sömuleiðis nánast alltaf að finna lýsingu á því augnabliki þegar tiltekin karlhetja ber kvenhetjuna augum og tekur eftir því að hún er orðin heilbrigðari í útliti og jafnframt fallegri: „Chris var sjálfur sleginn af breytingunni sem hafði orðið á Polly. Hún sýndist limalengri og renglulegri og húð hennar hafði tekið á sig fallegan gulbrúnan blæ af útiverunni. […] Hún leit út fyrir að vera yngri og afslappaðri en áður. Hann fékk smásting af sektarkennd – það hafði víst haft talsvert með hann að gera.“[36] Í augnaráði karlmannsins felst þannig viðurkenning og velþóknun sem kvenhetjan hefur lengi þráð, og þar með sigur hennar. Augnablikið verður táknrænn minnisvarði á vegferð kvenhetjunnar til aukins þroska og sjálfsskilnings.
Að sama skapi verður ímyndað samfélagið að eins konar útópíu þar sem þarfir og þrár nútímakonunnar eru uppfylltar og draumur hennar um fyrirmyndarsamfélag er gerður að veruleika. Í gegnum lesturinn öðlast lesandinn hlutdeild að fantasíunni og frásögnin býður þannig upp á töfrandi heim til að týnast í. Hvort það er aðeins fallegt ævintýri eða frjálslynd fantasía er síðan lesandans að ákveða. Lesturinn verður draumur um veruleika, stundarkorns flótti og sykraður kökubiti sem bráðnar samstundis á tungunni – hlýr en um leið skammvinnur bakstur fyrir sálina.
Tilvísanir
[1] Um skvísusögur og viðtökur þeirra hefur Alda Björk Valdimarsdóttir fjallað nánar í riti sínu um Jane Austen. Alda Björk Valdimarsdóttir, Jane Austen og ferð lesandans (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2018).
[2] Í umfjölluninni geng ég fyrst og fremst út frá þeim skáldsögum í bókaflokkunum þremur sem áður eru nefndir og komið hafa út á íslensku.
[3] Bækurnar eru rómaðar„feel-good“ eða ljúflestrarbækur. „Feel-good“ áhrifin stafa ekki síst af því að bækurnar birta öruggan, réttlátan og oft nokkuð fyrirsjáanlegan heim þar sem lesandinn veit við hverju hann á að búast. Þannig sækja lesendur jafnvel meðvitað í bækurnar til þess að bæta líðan sína eða komast í ákveðið hugarástand. Um þetta hefur María Angélica Thumala Olave fjallað nánar í grein sinni „Reading Matters: Towards a Cultural Sociology of Reading“. Maria Angelica Thumala Olave, „Reading Matters: Towards a Cultural Sociology of Reading,“ American Journal of Cultural Sociology, 6. bindi, nr. 3 (2018), 417—454, https://doi.org/10.1057/s41290-017-0034-x.
[4] Aftan á kápu bókarinnar Jól á eyjahótelinu (2020) staðhæfir rithöfundurinn Jojo Moyes til dæmis að bókin sé „algjör konfektmoli!“ Jojo Moyes er ásamt Jenny Colgan meðal vinsælustu rómantísku gamansagnahöfunda heimsins um þessar mundir.
[5] Bókagull – Umræða um góðar bækur á Facebook, mín eigin óformlega rannsókn..
[6] Sama heimild.
[7] Sama heimild.
[8] Heike Mißler, The Cultural Politics of Chick Lit: Popular Fiction, Postfeminism and Representation, nr. 18, (London: Routledge, 2017): 162, https://doi.org/10.4324/9781315626536.
[9] Heike Mißler, The Cultural Politics of Chick Lit, 154.
[10] Suzanne Ferriss og Mallory Young, Chick Lit: The New Woman‘s Fiction (New York: Routledge, 2006), 21.
[11] Heike Mißler, The Cultural Politics of Chick Lit, 86.
[12] Um þetta hafa m.a. María Angélica Thumala Olave og Madelaine Span fjallað í greinum sínum. Maria Angelica Thumala Olave, „Reading Matters: Towards a Cultural Sociology of Reading,“ og Madeleine Span, „Caring for the Self. A Case-Study on Sociocultural Aspects of Reading Chick Lit,“ Journal of Popular Romance Studies, nr. 11 (2022), http://www.jprstudies.org.
[13] Rocío Montoro, Chick Lit: the Stylistics of Cappuccino Fiction (London: Bloomsbury, 2013), 13.
[14] Torrey Peters, Detransition, Baby (London: Profile Books, 2022).
[15] Teresa L. Ebert, „Chick Lit: Not Your Mother’s Romance Novels,“ The Task of Cultural Critique (Illinois: University of Illinois Press, 2009), 97, https://doi.org/10.5406/j.ctt1xcm1m.8.
[16] Sama heimild, 112.
[17] Sama heimild, 112.
[18] Sama heimild, 107; 114.
[19] Sama heimild, 112.
[20] Heike Mißler, The Cultural Politics of Chick Lit, 97; 153.
[21] Sama heimild, 97
[22] Sama heimild, 97.
[23] Sama heimild, 94; 95.
[24] Sama heimild, 97.
[25] Sama heimild, 97.
[26] Sama heimild, 192.
[27] Sama heimild, 192.
[28] Sama heimild,192.
[29] Jenny Colgan, Litla bakaríið við Strandgötu, þýð. Ingunn Snædal (Reykjavík: Angústúra, 2017).
[30] Heike Mißler, The Cultural Politics of Chick Lit, 92, 161; 179.
[31] Jenny Colgan, „We Know the Difference Between Foie Gras and Hula Hoops, Beryl, but Sometimes We Just Want Hula Hoops,“ The Guardian (London), 24. ágúst 2001, https://www.theguardian.com/books/2001/aug/24/fiction.features11.
[32] Heike Mißler, The Cultural Politics of Chick Lit, 174.
[33] Sama heimild, 174.
[34] Sama heimild, 174.
[35] Jenny Colgan, Litla bakaríið við Strandgötu, þýð. Ingunn Snædal, 88.
[36] Sama heimild, 239.