eftir Katrínu Jakobsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2008

 

I. Villibarnið Lína

Lína Langsokkur er aðalpersóna í þremur sögum eftir Astrid Lindgren sem komu út á frummálinu á árunum 1945 til 1948. Hún hefur verið vinsælt umræðuefni æ síðan enda margbrotin persóna; fyrirmynd barna um heim allan og umdeild meðal foreldra enda fer Lína sínar eigin leiðir.

Titill þessarar greinar vísar til villta barnsins eða villibarns Rousseau. Franski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau setti fram hugmyndir í verki sínu Émile ou de l´éducation sem fyrst kom út 1762 um að börn væru nátengdari náttúrunni en fullorðnir. Eftir því sem þau eltust og fullorðnuðust færðust þau svo nær siðmenningunni. Lýsingar Rousseaus á ungabarninu, sem fyrst og fremst lifir í sjálfu sér, grætur, baðar út öllum öngum og borðar, enduróma við lestur á Línu. Ungabarnið veit ekkert en fæðist með hæfileikann til að læra. Athafnir þess stjórnast eingöngu af náttúrulegum viðbrögðum við umhverfinu. [1]

Í sögunum um Línu Langsokk virðist Lína vissulega standa nær náttúrunni en leikfélagar hennar Tommi og Anna. Lína hefur litla þekkingu á ýmsum kimum siðmenningarinnar – hún hefur heyrt um margt af afspurn en hún kann sig ekki við ýmsar aðstæður sem krefjast lágmarksþekkingar á siðmenningunni. Hún bregst fremur við á náttúrulegan hátt – borðar þegar hún er svöng, sefur þegar og eins og henni hentar, gerir það sem hana langar til – þótt hún hafi auðvitað hæfileikann til að læra. Tommi og Anna eru hins vegar ímynd þægra barna, Anna í fallegum stroknum kjólum með krullur í hári en Tommi vatnsgreiddur og snyrtilegur.

Lína langsokkur

Myndskreyting úr bókinni Þekkir þú Línu Langsokk? / Myndhöfundur: Ingrid Vang Nyman / Saltkråkan AB

Tengingin við Rousseau er þó ekki einungis byggð á þessu. Uppáhaldsbók hans, Róbinson Krúsó, kemur við sögu í öðrum hluta sagnabálksins þar sem fram kemur að hún er eftirlætisbók Tomma og Önnu. Lína gerir lítið úr Róbinson enda er hann ekki hálfdrættingur á við Línu þegar kemur að því að lenda í skipbrotum. Lindgren leikur sér því þarna að því að vísa í Rousseau [2] og hugsanlega má sjá einhvern enduróm af þekkingarleit áðurnefnds Emils í verki Rousseaus þegar Lína ryðst inn í grunnskóla þorpsins til að fá sér kennslu í grunnfögum eins og „fargmöldun“ og öðru slíku.

En í hverju felst villimennskan og náttúran hjá Línu? Og hvernig vegnar villta barninu í siðmenntuðum heimi?

Fyrst þegar við kynnumst Línu býr hún ein og hamingjusöm á Sjónarhóli, litlu og skökku og skældu húsi í jaðri byggðarinnar í þorpinu. Strax þarna erum við komin á jaðarinn – Lína býr á jaðrinum í þorpinu, rétt utan við kjarna siðmenningarinnar en samt nógu nærri til að geta tekið þátt í mannlífinu um leið og hún stendur utan við það. Og það er fleira sem minnir lesendur á að hún stendur utan siðmenningarinnar. Ekki aðeins er húsið hennar skakkt og skælt, ólíkt öðrum húsum sem flest eru hornrétt og snyrtileg, heldur kemur fram strax á fyrstu síðu að Lína er ólík öðrum börnum því að hún átti enga mömmu og engan pabba heldur og það var nú ekki sem verst því þá var enginn til að reka hana í rúmið þegar hún var í miðju kafi að gera eitthvað sem henni þótti ógurlega skemmtilegt og enginn til að neyða ofan í hana lýsi þegar hana langaði miklu meira í karamellur. (Lína Langsokkur, 7).

Þarna erum við minnt á allra besta ástand allra barnabóka sem er fjarvera foreldra þannig að hægt sé að gera eitthvað skemmtilegt og ætti kannski ekki að koma Íslendingum á óvart sem þekkja fræg orð Halldórs Laxness um að „næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en missa föður sinn.“[3] Ekki skal dæmt um hollustuna en í barnabókum virðist foreldraskortur vera ávísun á ævintýri. Eða heldur einhver að börnin í Ævintýrabókunum hefðu lent í ævintýrum ef þau hefðu tilheyrt hefðbundinni kjarnafjölskyldu í staðinn fyrir að vera munaðarlaus með öllu eða eiga einstæða móður sem gat ekki haft þau hjá sér? Og ekki hefði Nancy Drew nokkurn tíma orðið ofurspæjari ef mamma hennar hefði verið á lífi og alltaf verið að passa upp á hana. Í bókmenntunum veitir fjarvera mömmu og pabba börnunum ákveðið frelsi og það hefur Lína svo sannarlega. Mamma er dáin og pabbi hennar siglir um Suðurhöf en var svo vænn að kaupa húsið Sjónarhól og gefa henni væna summu af gullpeningum áður en hann fauk út í sjó og gerðist svertingjakóngur í Suðurhöfum þannig að hún er ekki á flæðiskeri stödd.

Á sömu síðu og þetta kemur fram, þeirri fyrstu í sögunni sem einfaldlega heitir Lína Langsokkur, kemur líka fram villimannseðli Línu en þar segir: „Mamma hennar dó meðan Lína var ennþá ofurlítill angi sem lá í vöggunni sinni og grenjaði svo voðalega að enginn þoldi við nálægt henni.“ (7) Lesandi heyrir í anda öskrin og gæti jafnvel freistast til að draga þá ályktun að mamman hafi hreinlega dáið af hávaða frá þessu voðalega villibarni. Eigi að síður elskar Lína mömmu sína, sér hana fyrir sér sem engil sem kíkir niður um gægjugat á himninum til að gá hvort litla stelpan hennar spjari sig ekki.

Í raun er ekki að undra að Lína sé óttalegt villibarn, alin upp á sjó með vafasömum skipverjum Langsokks skipstjóra sem minna meira á sjóræningja en venjulega sjómenn, og með móður sem kannski er ekki aðeins engill á himnum og þar af leiðandi fjarverandi en hefur einnig ímynd engils í huga dóttur sinnar. Að minnsta kosti útskýrir Lína villimannslegan persónuleika sinn sjálf á þennan hátt þegar kennslukonan sendir hana heim úr skólanum eftir heldur betur ævintýralegan dag: „Sjáðu til, kennari. Þegar maður á mömmu sem er engill og pabba sem er svertingjakóngur og þegar maður hefur sjálfur siglt um heimshöfin alla sína ævi, þá veit maður ekki almennilega hvernig maður á að hegða sér í skóla innan um öll þessi epli og orma.“ (43)

Þetta öskrandi ungabarn, engill alinn upp af sjóræningjum, er sem sagt orðið að lítilli stelpu með rauðar beinstífar fléttur og í allt of stórum skóm. Kjólinn sinn hefur hún saumað sjálf en þar sem bláa efnið entist ekki í heilan kjól má sjá rauðar bætur hér og þar á kjólnum. Og þá eru ónefndir sokkarnir löngu og mislitu eða risastórir skórnir sem Lína hefur svo stóra af ásettu ráði til að geta teygt úr tánum. Þessi litla stelpa flytur inn á Sjónarhól og vekur auðvitað strax athygli nágranna sinna, systkinanna Tomma og Önnu. Þekkt er í ýmsum gerðum bókmennta að skrýtna persónan þarf mótvægi í ofur eðlilegu fólki. Þannig verður skrýtni hennar enn meira áberandi og lesendur eða áhorfendur eru minntir á hversu furðuleg viðkomandi persóna er. Tommi og Anna skapa einmitt slíkt mótvægi þar sem þau eru vel uppalin börn sem hefur verið kennt á siðmenninguna meðan Lína hefur eytt dögum sínum í að sigla um Suðurhöf, fjarri allri venjulegri siðmenningu.

II. Siðmenningunni storkað

Svo fer hins vegar ekki í Línu Langsokk að villimennskan láti undan kröftum siðmenningar og Lína lúti í lægra haldi fyrir hefðbundnum gildum. Villimennska Línu verður sterkasta vopn hennar í sögunum og sú villimennska er það sem enn dregur lesendur að bókunum, 60 árum eftir að sú fyrsta þeirra kom út.

Pippi och Starke Adolf och andra serier

Pippi och Starke Adolf och andra serier

Það er ekki tilviljun að Astrid Lindgren skrifar fyrstu bókina í lok seinna stríðs. Lína Langsokkur er í fullkominni andstöðu við fasismabylgjuna sem hafði riðið yfir heiminn allt frá því í byrjun fjórða áratugar 20. aldar. Lína hafnar regluverki samfélagsins, stekkur inn í það eins og óskrifað blað og heldur sjálfstæði og frumleika á lofti. Hún hafnar aga skólans, reglum um hegðun í kökuboðum eða hvaða regluverki sem er. Þegar hún mætir í kökuboð til móður Tomma og Önnu er hún eins og skrumskæling á fínni frú – með eldrauðir varir og svartar augabrúnir sem hún hefur litað með sóti. Hegðunin er ýkt eins og útlitið; eftir að hafa fengið sér ríkulega af kökum endar hún á að stinga andlitinu ofan í rjómatertu og er því orðin eins og trúður í sirkus – sem hún er kannski einmitt því með hegðun sinni sýnir hún fram á hvílíkur sirkus kaffiboð fínna frúa eru. Lína efast alltaf, spyr alltaf gagnrýninna spurninga og skekur þannig grundvallarstoðir siðmenningarinnar. Þó að Lína sé aðeins lítið barn í litlum bæ í Svíþjóð hefur saga hennar miklu meira gildi en aðeins á þessum litla stað. Hún snýst um baráttu frumleika við hefð, einstaklingshyggju við hjarðeðli, barna við fullorðna, villimennsku við siðmenningu.

En hvernig fer lítið barn að því að skekja þessar stoðir? Jú, áður hefur verið nefnt að Lína er vel efnum búin, á sitt eigið hús og sekk fullan af gullpeningum. En tvennt annað skiptir máli. Lína er gríðarlega sterk. Hún á hest sem hún getur lyft ein og sjálf. Hún ræður við tvo lögreglumenn eins og ekkert sé. Og þegar það kemur sirkus í bæinn hikar Lína ekki við að glíma við manninn sem sagður er sá sterkasti í heimi og ber nafnið Adolf sterki. Þetta gerir hún þó að fulltrúar siðmenningarinnar – þ.e. Tommi og Anna – letji hana mjög til dáða. Í senunni er sirkusstjóri sem er með talgalla og getur ekki sagt err. Hann skorar á áhorfendur að glíma við Adolf sterka og vinna þar með 100 krónur.

Hvað var hann að segja, spurði Lína. Og af hverju talar hann arabísku?
Hann sagði að sá sem gæti kýlt stóra karlinn niður fengi hundrað krónur, sagði Tommi.
Það get ég, sagði Lína. En mér finnst nú hálfljótt að kýla hann niður því hann er svo góðlegur á svipinn.
Nei þú getur það áreiðanlega ekki, sagði Anna. Því þetta er sterkasti maður í heimi!
Maður já, sagði Lína. En ég er sterkasta stelpa í heimi, mundu það!

(Lína Langsokkur, 68)

Og þar með ræðst Lína á eitt af meginnormum vestrænnar siðmenningar sem er að karlmenn séu alltaf sterkari en konur og snýr því á hvolf. Það tekur Línu ekki langan tíma að kýla Adolf greyið í gólfið – einum þrisvar sinnum – og lýkur bardaganum með orðum Línu: „Nú nenni ég þessu ekki lengur, litli minn“ (Lína Langsokkur, 70). Lína storkar siðmenningunni og regluverki hennar stanslaust með hegðun sinni og framkomu og fulltrúar siðmenningarinnar, hvort sem það eru fullorðna fólkið almennt, karlmenn eða lögregluþjónar, standa ráðalausir gagnvart villibarninu.

III. Lína og tungumálið

Pippi pönnukökur

Myndskreyting úr bókinni Þekkir þú Línu Langsokk? / Myndhöfundur: Ingrid Vang Nyman / Saltkråkan AB

Ekki eru það þó endilega aflraunaafrek Línu – sem þó eru mörg og mikil – sem mestu skipta í sögunni. Sá sem er sterkastur er ekki endilega sigurvegari ef ekki fylgir með greind og hugvit. Og hugvitið er í raun sterkasta vopn Línu. Öll hegðun hennar lýsir því að hún tekur ekkert sem gefið og snýr öllu á hvolf ef það hentar henni. Hún sefur með fæturna á koddanum, þeytir pönnukökudeigið með baðburstanum, bakar á gólfinu og skúrar með því að renna sér fótskriðu á skrúbbunum. Og hugvitið sést ekki síst á notkun hennar á tungumálinu sem hún teygir og togar á alla kanta og snýr því öfugt þannig að það verður vopn hennar í uppreisninni gegn siðmenningunni. Öllum spurningum snýr hún á hvolf og beinir orðræðunni í nýjar áttir. [4] Þegar Lína vill kaupa píanó spyr Tommi hvort hún kunni nokkuð á píanó. Hún svarar um hæl: „Ég hef aldrei átt píanó til að prófa það. Og það get ég sagt þér, Tommi, að það spilar enginn á píanó píanólaust nema hafa æft sig ofboðslega mikið áður“ (Lína Langsokkur ætlar til sjós, 120–121).

Skyndilega eru allar hefðbundnar hugmyndir um tónlistarnám í uppnámi. Er hægt að spila á píanó píanólaust og þarf maður þá að hafa átt píanó áður til að æfa sig? Allt í einu sér lesandinn fyrir sér píanóspilandi krakka með ekkert píanó fyrir framan sig. Sama má segja um samskipti Línu og Tomma þegar þau eru ásamt Önnu föst á eyðieyju og Lína vill senda flöskuskeyti um að þau hafi verið neftóbakslaus í tvo daga. Þegar Tommi andmælir stendur ekki á svörum: „Heyrðu mig nú, Tommi! Viltu segja mér eitt! Hvorir heldurðu að séu oftar neftóbakslausir, þeir sem nota neftóbak eða þeir sem ekki nota það?“ (Lína Langsokkur ætlar til sjós, 183)

Lína beitir nýstárlegum röksemdafærslum og sama má segja um notkun hennar á tungumálinu. Þetta sést t.d. í skilgreiningum Línu á veruleikanum en öll notum við tungumálið til að skilgreina allt sem í kringum okkur er. Lína gerir það líka en notkun hennar á tungumálinu sýnir skapandi skynjun á veruleikanum. Þannig er athyglisvert að fylgjast með skilgreiningum Línu daginn sem hún og Anna og Tommi fara saman að safna gripum:

Má maður virkilega hirða allt sem maður finnur?, spurði Anna.
Já, allt sem liggur á jörðinni, sagði Lína.
Spölkorn burtu lá gamall maður sofandi á grasblettinum fyrir framan húsið sitt.
Þessi þarna liggur á jörðinni, sagði Lína. Og við fundum hann. Tökum hann!
Tommi og Anna urðu dauðskelfd.
Nei, nei, Lína. Við getum ekki tekið gamlan mann, það gengur ekki, sagði Tommi. Og hvað ættum við svo sem að gera við hann?
Hvað við ættum að gera við hann? Það má brúka hann til svo margs. Við gætum til dæmis sett hann í lítið kanínubúr í staðinn fyrir kanínu og gefið honum fíflablöð að borða. En ef þið viljið það ekki þá er mér svo sem sama. Mér finnst bara ergilegt ef einhver annar gripasafnari kemur og hirðir hann (Lína Langsokkur, 20).

Eins og íbúar í Undralandi Lewis Carroll tekur Lína allar reglur bókstaflega og ekkert er undan skilið. Svo fer að þau safna ekki gamla manninum en það er kannski ekki skrýtið að fræðimenn hafi tengt Línu við ofurmenni Nietzsches þegar atriði sem þessi eru skoðuð. [5] Þarna hugsar Lína fyrst og fremst um sínar langanir án umhugsunar um réttindi annarra. Hins vegar lætur hún undan Tomma og Önnu, án þess þó að viðurkenna að hún hafi rangt fyrir sér, fremur til að halda friðinn við þessa fulltrúa siðmenningarinnar.

Næsti gripur sem þau rekast á er gamall og ryðgaður blikkdunkur. Þá ræður Lína sér vart fyrir kæti: „Þvílíkur fengur, þvílíkur fengur! Þessi fíni dunkur! Maður á aldrei of mikið af þeim“ (Lína Langsokkur, 20). Tommi og Anna bregðast við með tortryggni en Lína lætur ekki slá sig út af laginu.

Ó það er hægt að nota hann til svo margs. Það er til dæmis hægt að geyma kökur í honum. Þá er hann orðinn fínasti Kökudunkur. Svo kemur líka til greina að geyma ekki kökur í honum og þá er hann orðinn Kökulaus dunkur. Það er auðvitað ekki eins fínt en allt í lagi samt (Lína Langsokkur, 20).

Þegar Lína uppgötvar að dunkurinn er orðinn götóttur af ryði ákveður hún að hann sé líklega svokallaður Kökulaus dunkur en ákveður að setja hann á hausinn á sér og ímynda sér að það sé hánótt. Það fer nú ekki betur en svo að hún gengur á girðingu og dettur um koll með þeim afleiðingum að það glymur í dunkinum á hausnum á henni. Lína dregur umsvifalaust þá ályktun að ef hún hefði ekki verið með þennan bráðnytsama dunk á hausnum hefði hún stórslasast og varfærnislegar ábendingar Önnu um að ef hún hefði ekki verið með dunkinn á hausnum hefði hún alls ekki dottið til að byrja með lætur hún sem vind um eyru þjóta. En nákvæmlega þetta: Að horfa á gamlan ryðgaðan dunk og endurskilgreina hann, nýta hann á nýjan hátt, þetta er það sem hefur Línu upp yfir þennan hefðbundna heim. Hún er laus undan klafa siðmenningar, laus við hinn kassalaga hugsunarhátt hins vestræna heims. Þannig sér hún eitthvað allt annað úr ryðguðu drasli en Tommi og Anna.

Lína beitir tungumálinu oft á óvæntan hátt. Hún getur verið kaldhæðin eins og sést þegar hún bjargar Villa litla undan fimm strákum sem eru að berja á honum. Þá munar hana ekki um að pakka strákunum fimm saman og skammar þá svo fyrir að ráðast fimm saman á einn strák og bætir við: „Og byrjið svo að hrinda lítilli, varnarlausri stelpu. Svei, það er ljótt!“ (Lína Langsokkur, 23) Ég er ekki viss um að strákarnir sem liggja allir óvígir uppi í tré hafi áttað sig á því að þarna á Lína við sjálfa sig og bregður þá óvæntu ljósi á þá staðreynd að auðvitað virðist hún vera lítil og varnarlaus stelpa og það er ljótt að ráðast á minnimáttar. Lína er í stanslausri uppreisn með endursköpun sinni á veruleikanum. Hrekkjusvínin liggja eftir óvíg, ryðgaður dunkur verður hámerkilegt fyrirbæri og svo mætti lengi telja. En fulltrúum siðmenningarinnar líkar sumum hverjum ekkert sérstaklega við þessa sífelldu endursköpun á veruleikanum sem allir eru búnir að koma sér saman um hvernig á að vera.

Siðmenning og villibarn mætast

Um þetta snúast bækurnar um Línu. Stöðugt reynir siðmenningin að ná tökum á villibarninu. Sama hvort það er karlveldið í líki Adólfs sterka eða hrekkjusvínanna fimm. Eða þá skólakerfið sem reynir að temja Línu eða þá lögregluþjónarnir sem reyna að draga Línu á heimili fyrir munaðarlaus börn. Svo ekki sé minnst á hina skelfilegu fröken Rósu sem mætir í skólann og spyr börnin spjörunum úr og gefur þeim gjafir sem standa sig best í utanbókarlærdómi. Allt eru þetta fulltrúar siðmenningarinnar og alltaf skýtur villibarnið þeim ref fyrir rass.

Ekki gefst tóm hér til að rifja upp öll þessi átök (þó að öll séu þau vel þess virði). Lesendur Línu muna örugglega langflestir eftir því þegar Lína fór í eltingarleik við lögregluþjónana tvo sem ætluðu að fara með hana á munaðarleysingjahæli. Leikurinn barst upp á þakið á Sjónarhóli og lauk með því að Lína bar þá á höndum sér út á götu aftur og bað þá vel að lifa. Aðalsenna Línu og lögregluþjónanna er þó ekki kraftalegs eðlis heldur skylmast þau með orðum. Og þar hefur Lína vinninginn því að hún býr yfir hinu óvænta í rökræðulist sinni. Hún fagnar lögregluþjónunum og segir einlæglega: „Lögregluþjónar eru mitt uppáhald. Næst á eftir rabarbaragraut“ (Lína Langsokkur, 27).

Pippi

Myndskreyting úr bókinni Bókin um Línu Langsokk / Myndhöfundur: Ingrid Vang Nyman / Saltkråkan AB

Þarna nýtir Lína óvæntan samanburð til að skilgreina lögregluna í nýju ljósi. Í meðförum Línu missir lögreglan stöðu sína sem samfélagsstofnun og breytist í eitthvert skemmtilegt dót, jafnvel eitthvað sem hægt er að smjatta á eftir kvöldmatinn með rjóma! Þegar lögregluþjónarnir upplýsa Línu um erindi sitt, að þeir séu mættir til að fara með hana á barnaheimili þar sem hvorki má hafa hesta né apa, hristir Lína bara hausinn og segir þeim góðlega að þeir verði að fara eitthvert annað „til að útvega ykkur krakka á barnaheimilið ykkar“ (Lína Langsokkur, 28). Þarna misskilur Lína lögregluþjónana viljandi og lætur eins og þeir séu að biðja hana að taka þátt í góðgerðastarfsemi sem hún getur því miður ekki sinnt. Eftir þetta orðaskak sem leiðist út í kraftakeppni Línu og lögreglunnar gefast lögregluþjónarnir upp og fara aftur í bæinn þar sem þeir segja „ráðsetta fólkinu“ eins og það er kallað að best sé að láta Línu vera, hún yrði hvorki þægileg né þjál í umgengni á barnaheimili. Og líklega er það rétt hjá þeim því að villibörn eru hreint ekki þægileg og þjál á siðmenntuðum barnaheimilum.

Annað eftirminnilegt atvik þar sem siðmenningin reynir að taka yfir Línu er þegar Lína ákveður af eigin hvötum að fara að ganga í skóla. Það gerir hún því henni finnst svo skelfilega ósanngjarnt að hún fái ekkert jólafrí. Þar kemur hins vegar enn og aftur að gagnrýninni hugsun Línu. Hún hefur engan áhuga á að vita hvað Axel og Lísa eiga mörg epli samanlagt en veltir fyrir sér grundvallarspurningum eins og hverjum það sé að kenna ef þau fá bæði magapínu og hvar þau hafi eiginlega stolið eplunum. Lína hefur ekki heldur nokkurn áhuga á að læra stafina en segir í staðinn krassandi sögur af fyrirbærunum sem stafirnir sýna. Og þegar kennslukonan gefst upp á þessum erfiða nemanda og lætur börnin fara að teikna kemur endanlega í ljós að Lína þarf það sem kallað er nú á dögum „einstaklingsmiðuð kennsla“ – hún getur ekki haldið sig við blaðið, hún fer að teikna hestinn sinn og sú mynd teygir sig langt út fyrir blaðið, út á gólf og hún sér fram á að þurfa að færa sig fram á gang þegar hún kemur að rassinum. Lína og kennslukonan kveðjast þó í bestu vinsemd þar sem Lína segir leið að fyrir börn sem eigi foreldra sem eru svertingjakóngur og engill sé ósköp erfitt að vita hvernig maður eigi að vera í skóla – en hún geti eiginlega ekki hugsað sér að vera þarna lengur.

Ýkjur og skarpskyggni

Hinn ferkantaði skóli er allt of lítill fyrir Línu sem sprengir hann utan af sér með orðum og hugsunum. Og hluti af málnotkun Línu eru lygar og ýkjur sem hún er sjálf oft meðvituð um. Þetta kemur til dæmis fram þegar Lína kaupir sér handlegg af gínu og fer í framhaldinu að segja Tomma og Önnu sögur af borg þar sem allir höfðu þrjá handleggi. Hún sér svo að sér og segir sakbitin: „Allt í einu vellur upp úr mér óstöðvandi lygi án þess að ég geti nokkuð að því gert. Í sannleika sagt hafði fólkið í þessari borg ekki þrjá handleggi. Það hafði bara tvo“ (Lína Langsokkur ætlar til sjós, 124). Nema svo heldur Lína áfram í hina áttina og fer að tala um að margir í borginni hafi aðeins haft einn handlegg og sumir engan og klykkir út með þessu:

Ef satt skal segja hef ég hvergi nokkurs staðar séð jafn fáa handleggi og einmitt í þessari borg. En svona er ég. Ég er alltaf að slá um mig með monti og merkilegheitum og halda því fram að fólk hafi fleiri handleggi en það hefur (Lína Langsokkur ætlar til sjós, 124).

Í stuttu máli ýkir Lína í allar áttir og getur ekki hætt þótt hún viti af því. Enda lítur hún ekki á sannleikann sem heilaga stærð, villimaður eins og hún hefur það sem skemmtilegra reynist og jafnvel sannara á einhvern allt annan hátt en hefðbundið er. Því að þótt lesandi efist kannski um fjölda einhentra og óhentra í téðri borg þá fær hann óskaplega sanna mynd af Línu og orðræðuaðferð hennar. Í heimi þar sem lygar barna þóttu stórsynd var hins vegar ekki skrýtið að viðtökur gagnrýnenda og lesenda Línu væru blendnar, þarna var hetja sem hikaði ekki við að ljúga og ýkja daginn út og inn – og það var hreint ekkert mál!

Myndskreyting úr bókinni Þekkir þú Línu Langsokk? / Myndhöfundur: Ingrid Vang Nyman / Saltkråkan AB

En mitt í öllum ýkjunum á Lína það til að sýna merkilega skarpskyggni – t.d. þegar hún refsar herra Rósinkrans fyrir að fara illa með dýrin sín. Þetta gerist í skólaferð sem Lína hefur fengið að fljóta með í. Hún kastar honum upp í loft og brýtur svipuna hans en ber hestana hans heim og dregur kerruna hans líka. Kennslukonan er ánægð með hana og segir: „Til þess erum við hingað komin, að vera góð og vingjarnleg við annað fólk.“ Lína svarar um hæl: „Haha. Til hvers hefur þá annað fólk komið hingað?“ (Lína Langsokkur ætlar til sjós, 149)

Tilraun með sjálfsmynd

Eins og sést er Lína ólík okkur hinum. Hún er sterkari, ríkari og klárari en flestir aðrir. Hún býr á jaðri samfélagsins og storkar lögmálum þess. Yfir henni er ákveðinn tryllingur og hann er dreginn fram þegar hún bítur í berserkjasvepp í fyrstu bókinni sem hefur engin áhrif á hana. Berserkjasveppir kunna að gera venjulegt fólk brjálað en eru eins og dropi í brjálæðishaf Línu. Tryllingurinn birtist enn skýrar þegar Lína kaupir ósköpin öll af meðulum hjá apótekaranum og blandar þeim öllum saman, innvortis og útvortis, og drekkur alla blönduna án þess að verða meint af (Lína Langsokkur ætlar til sjós, 29).

En allan bókaflokkinn svífur yfir henni valið: Val um að vera Reglulega Fín Dama eða sjóræningi … og Lína veit varla hvort hún vill. Reglulega Fínar Dömur mega ekki vera með garnagaul eða stinga hnífnum upp í sig þegar þær borða en samt finnst Línu gaman að klæða sig upp og spássera um bæinn og stynja „Heillandi, heillandi“ (og á þá við sjálfa sig!). Í lok bókaflokksins kemur að raunverulegu vali þegar Lína sem orðin er 10 ára og bestu árin brátt að baki (!) segir Tomma og Önnu að hún telji ekki eftirsóknarvert að verða fullorðin: „Það er aldrei neitt gaman hjá fullorðna fólkinu. Það er á bólakafi í leiðinlegri vinnu, asnalegum fötum, líkþornum og útspari. Það heitir útsvar, sagði Anna. Já, en það er nú allt sama tóbakið hvort sem er, sagði Lína“ (Lína Langsokkur í Suðurhöfum, 299). Enn og aftur erum við minnt á að hún er hafin yfir tungumál hinna fullorðnu. Og bókaflokknum lýkur á því að öll taka þau kúmensúr-pillurnar, sem reyndar minna grunsamlega mikið á gular baunir, en þær eiga að koma í veg fyrir að þau verði fullorðin. Og þau hlakka til að vera alltaf lítil og Lína ákveður að það sé alveg hægt að vera eitilharður lítill sjóræningi.

Lína Langsokkur er tilraun með sjálfsmynd. Hún getur brugðið sér í ýmis gervi, verið trúður, skálkur, fín frú, kraftakall, prinsessa eða traustur vinur. Hún er hvorki góð né vond heldur náttúruafl sem stígur dans á meðan hún bjargar tveimur börnum úr brennandi húsi og verður nánast djöfulleg í lok fyrstu bókar þegar hún flækist um háaloftið sitt með byssu til að skjóta drauga. Hún er ekki þjökuð af oki þess að þurfa að segja sannleikann, teikna myndina á blaðið en ekki út af því, eða hugsa á neinn hátt innan þess ramma sem samfélagið sníður þegnum sínum. Þessi kraftur hefur hrifið börn á öllum tímum, krafturinn til að standa gegn viðmiðum samfélagsins, mynda sér nýjar skoðanir, skapa sér nýtt tungumál og nýja orðræðu.

 

 

Tilvísanir

  1. Rousseau: Émile ou de l’éducation, 40.
  2. Á þetta hefur Vivi Edström bent í bók sinni Astrid Lindgren: A Critical Study, 101.
  3. Halldór Kiljan Laxness: Brekkukotsannáll, 7.
  4. Vivi Edström fjallar um orðaleiki hjá Línu Langsokk í bók sinni, Astrid Lindgren: A Critical Study, 114–118.
  5. Nefna má sem dæmi grein Michaels Tholanders, „Lína Langsokkur sem ofurmenni Nietzsches“.

 

Heimildir

Edström, Vivi: Astrid Lindgren: A Critical Study. Þýdd úr sænsku af Eivor Cormack. R&S Books, Stokkhólmi o.v., 2000. [1. útgáfa 1992.]

Halldór Kiljan Laxness: Brekkukotsannáll. Vaka–Helgafell, Reykjavík, 1994. [1. útgáfa 1957.]

Lindgren, Astrid: Lína Langsokkur. Í Lína Langsokkur. Allar sögurnar. Sigrún Árnadóttir þýddi. Mál og menning, Reykjavík, 2002, 7–108. [1. útgáfa 1945.]

Lindgren, Astrid: Lína Langsokkur ætlar til sjós. Í Lína Langsokkur. Allar sögurnar. Sigrún Árnadóttir þýddi. Mál og menning, Reykjavík, 2002, 109–209. [1. útgáfa 1946.]

Lindgren, Astrid: Lína Langsokkur í Suðurhöfum. Í Lína Langsokkur. Allar sögurnar.

Sigrún Árnadóttir þýddi. Mál og menning, Reykjavík, 2002, 211–303. [1. útgáfa 1948.]

Rousseau, Jean-Jacques: Émile ou de l´éducation. Ritstj. François og Pierre Richard. Éditions Garnier Frères, París, 1961. [1. útgáfa 1762.]

Tholander, Michael, „Lína Langsokkur sem ofurmenni Nietzsches.“ Hallgrímur Helgi Helgason þýddi úr sænsku. Tímarit Máls og menningar, 2001, 3. hefti, 17–25. [Greinin birtist áður í tímaritinu Tvärsnitt, 3. tbl. 2000.]