eftir Ástráð Eysteinsson

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2015

Án auga sem les hana, geymir bókin aðeins tákn
sem ekki ala af sér hugtök, og því er hún þögul.
Vilhjálmur af Baskerville

Svört er ég, og þó yndisleg […]
Ljóðaljóðin

 

Fram að þessu hafði ég haldið að hver bók talaði um hluti, mannlega eða guðdómlega, sem standa utan við bækurnar. Nú varð mér ljóst að ósjaldan tala bækur um bækur, eða fremur væri því líkast að þær ræddust við. Í ljósi þessara hugleiðinga virtist mér bókasafnið enn viðsjálla. Það var þá vettvangur langdregins og veraldlegs hvískurs, umræðu sem varla heyrist frá bókfelli til bókfells, lifandi hlutur, safnker máttar sem mannlegur hugur gat ekki hamið, fjársjóður leyndarmála sem komin voru úr ótal hugum, og höfðu lifað af dauða þeirra sem höfðu fætt þau af sér, eða fleytt þeim áfram.

Svo mælir munksveinninn og sögumaðurinn Adso í skáldsögu ítalska rithöfundarins og fræðimannsins Umberto Eco, Il nome della rosa, sem út kom 1980, eða Nafni rósarinnar eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Thors Vilhjálmssonar sem birtist 1984 og hér er vitnað til. [1]

Ástráður Eysteinsson

Ástráður Eysteinsson

Bókasafnið sem fjársjóður leyndarmála – þetta safn er að einhverju leyti til í huga sérhvers manns; öll göngum við um með lifandi en óreiðukennt safn brota – minninga, mynda, tilfinninga, texta, bóka – sem tala saman í kolli okkar. Bókafólk er stundum spurt um eftirlætisbækur sínar. Svörin eru líklega oft býsna ritstýrt úrval, stundum samkvæmt hugmyndum svarandans um eigin frumleika (hann reynir þá að finna til eitthvað utan alfaraleiðar), eða þau fela í sér staðfestingu á kanón, hefðarveldi, sem er óhjákvæmilega aðfengið og maður á með öðrum. Hugsanlega er auðveldara að gefa einlægt svar sé spurt hvaða verk hafi markað dýpst spor í lestrarreynsluna, eins og minnið heldur henni til haga; semsé hvaða verk hafi verið afdrifaríkust á hverjum tíma. En bókasafnið í huga okkar má líka skoða sem einskonar bókmenntasögu, og þegar farið er að hugsa þannig um „safnkerið“, vaknar spurning um það hvaða bækur geti talist mælistikur á þá bókmenntasögu sem maður „lifir“, vörður á lestrarævi manns, eins misglöggur og sá vitnisburður getur þó vissulega verið um bókmenntalífið á hinum ýmsu skeiðum. Lykilvísbending um vægi slíkra bóka er þá samtal þeirra, ekki aðeins við aðrar bækur, heldur við tímann – við sögulega fortíð og við samtíð lesandans hverju sinni.

Í þeim skilningi er Nafn rósarinnar tvímælalaust mælistika á vegferð þess lesanda sem hér skrifar. Um leið viðurkennir hann verkið sem sameign: vettvang samtals við fjölmarga aðra lesendur. Þetta er verk sem sló í gegn víða um lönd, m.a. á Íslandi, og eignaðist skjótt aðdáendur jafnt í hópi svokallaðra almennra lesanda sem meðal gagnrýnenda og fræðimanna; og jafnvel þeir fræðimenn sem létu sér fátt um finnast hafa vafalaust margir séð í bókinni tímanna tákn. Hún varð nefnilega ein þeirra bóka sem þóttu bera glögg merki „póstmódernisma“, en það hugtak fór sem logi um akur fræðanna á níunda áratug síðustu aldar.

En forsendur fyrir mati manns á verkinu geta verið mismunandi eftir því hvenær spurt er. Í huga sumra er Nafn rósarinnar kannski enn fyrst og fremst póstmódernísk saga frá níunda áratugnum, en hér verður því haldið fram að hún sé umfram allt bókasafn. Hún er margar bækur, ekki aðeins að því leyti að hún er samsett úr heilu safni annarra bóka, heldur getum við nú metið reynsluna af ferð hennar um mannsaldur (á hinum gamla kvarða), semsé í hálfan fjórða áratug, í heimi sem virðist hafa tekið stakkaskiptum. Fyrir rúmu ári, þegar Ríkisútvarpið hleypti af stokkunum vikulegum þætti, „Bók vikunnar“, þætti sem í nafni sínu vísar á tilurð bókasafns, var við hæfi að bók Ecos um heimsbókasafnið skyldi verða fyrst fyrir valinu. Ég var beðinn að koma í þáttinn til að ræða skáldsöguna og það var mér gleðilegt tilefni til að endurnýja kynnin af verkinu, en ég áttaði mig síðan á því að ég var ekki aðeins að lesa bókina aftur, heldur líka að „lesa“ mín fyrri kynni af henni. Bæði ég og bókin höfðum breyst, rétt eins og umheimurinn. Og þessi endurnýjuðu kynni vöktu forvitni mína og ánægju, en það er ekki sjálfgefið, því eins og Stefán Hörður Grímsson kemst að orði í ljóðinu „Að farga minningu“: „Sagnir um öskufall / við endurfundi / hefur margur sannreynt“. [2] Sumar ljúfar stundir er ef til vill best að geyma í gömlu minni og reyna ekki að leita þær aftur uppi með markvissari hætti, en aðrar eru þess eðlis að endurfundir glæða andann og styrkja jafnframt trú manns á að menning geti verið eitthvað sem endist, jafnvel þegar endingin felur í sér vissar breytingar.

Völundarhús og sjálfsaga

Ég er svo heppinn að eiga enn vitnisburð um fyrstu kynni mín af verki Ecos, en ég var þá í doktorsnámi í Bandaríkjunum. Ég las The Name of the Rose sumarið 1984, þ.e.a.s. enska þýðingu Williams Weavers, en hún hafði komið út árið áður og vakið óvenju mikla athygli vestan hafs, þar sem þýðingar hafa almennt átt mjög erfitt uppdráttar. Spássíumerkingar mínar og lausblaðapár ber þess glöggt vitni að ég var um þær mundir að lesa fræðirit Ecos sjálfs um táknfræði. Ég hef greinilega mænt á ýmis ummæli söguhetjunnar Vilhjálms af Baskerville, fjölfróðs, ensks fransiskanamunks og fyrrum rannsóknardómara, um táknheiminn og ráðningu táknanna út frá ákveðinni samhengisrýni og tilgátuferli. Ég efast um að ég hafi leitt hugann að því að þar með var ég, sem sjálfur var nemi í mínum fræðum – og í öðru riti hefur Eco einmitt líkt bandarískum háskólum við klaustur [3] – um sumt í hlutverki miðaldapiltsins Adso, fylgisveins og aðstoðarmanns lærimeistarans enska, sem kominn er í keisaralegu umboði til klausturs á norðanverðri Ítalíu til að taka þar þátt í mikilvægri ráðstefnu um samskipti veraldlegra og trúarlegra valdahópa í Evrópu á því herrans ári 1327.

Vilhjálmur, sem sannar glöggskyggni sína í ráðningu tákna í upphafi sögunnar, er fenginn til að kanna dauðdaga munks nokkurs í klaustrinu, og síðan fjölgar líkunum og ljóst að einhver er á staðnum sem styttir mönnum aldur af einhverjum ástæðum. Þar með er kominn kunnur glæpasagnabragur á verkið og sitthvað minnir á raðmorð hjá Agöthu Christie og annað á rannsóknarvinnu Sherlocks Holmes. Eco er síður en svo að fela þau tengsl, því að með heitinu „Baskerville“ minnir Vilhjálmur á skáldsögu Arthurs Conans Doyles, The Hound of the Baskervilles, þar sem Sherlock Holmes og aðstoðarmaður hans, Dr. Watson, rannsaka og leysa morðgátu. En nafnið „Vilhjálmur“ undirstrikar á hinn bóginn tengsl rannsakandans við Vilhjálm af Ockham, sem uppi var á þessum tíma og sem vitnað er til í skáldsögunni, en hann var einmitt enskur fransiskanamunkur og mikilvægur hugsuður í trúmálum, heimspeki og stjórnspeki og er kunnastur fyrir reglu sína um tilgátur sem kennd er við hann og rakhníf, og snýst um að velja ekki flóknari útskýringar á fyrirbærum en þörf er á hverju sinni.

Með því að tefla saman Vilhjálmi af Ockham og Sir Arthur Conan Doyle bregður Eco á kaldhæðnislegan leik, þar sem miðaldatrúspekingur er fulltrúi rökhyggjunnar í samfloti við nútímahöfund sem sviðsetti rökvísar lausnir í glæpasögum en var jafnframt spíritisti og ákafur leitarmaður skilaboða frá handanheimum. Hvernig sem því er varið, er ljóst að Eco kemur meðvitað í kring samslætti menningarheima, sem gjarnan hefur verið talið einkenni póstmódernisma, og hér má segja að hann geri það yfir tímans haf, með því að leggja glæpasöguna, þetta afþreyingarform nútímans, yfir söguheim mennta og hámenningar á miðöldum. [4] Ekki skrýtið að Eco skyldi vera ákaft spurður um það hvort þessi skáldsaga gæti talist dæmi um „hið opna verk“, en svo heitir fræðibók sem hann hafði birt 1962 (Opera aperta), þar sem hann heldur fram hlut róttækrar, andhefðbundinnar fagurfræði og kennir við „opinn texta“ en „lokaður texti“ er þá hvers kyns formúlubókmenntir og annar texti sem fellur í fyrirfram mótaðar skorður.

Þegar Eco skrifaði litla bók með athugagreinum um Nafn rósarinnar, Postille a Il nome della rosa, fáeinum misserum eftir að skáldsagan kom út, kvaðst hann ekki vilja svara þessari fáfengilegu spurningu, en ljóst er af máli hans í kverinu að hann gerir sér vonir um að hið opna form sé enn virkur fagurfræðifræðilegur þáttur, en að samtímalist þurfi að takast á við ýmis menningarform sem byggja á formúlum, endurtekningum og fastmótuðum hefðum. Hann gerir glæpasögunni sérlega hátt undir höfði í því sambandi og segir hana heimspekilegustu og frumspekilegustu gerð hinna fastmótuðu flétta („plotta“) sem sækja megi fyrirmyndir til. [5]

Nafn rósarinnar (1984)

Nafn rósarinnar (1984)

Miðaldasagan og glæpasagan gefa Eco færi á að fást við ýmis samtímaefni fræðaheims síns í Nafni rósarinnar. Þar sem ég sat í nútímaklaustri mínu og las skáldsögu hans dáðist ég að því hvernig hann útfærir þarna nútímalegar hugmyndir um táknin sem geiga í vísun sinni en grípa í næsta tákn og geta myndað heilt völundarhús ef ekkert stöðvar skriðið. Hið mikla bókasafn klaustursins er hannað í senn sem heimskort og völundarhús og þótt hugmyndir um slík mannvirki megi rekja til fornaldar, eiga þær sér fulltrúa í sögunni, hinn aldna munk Jorge af Burgos, sem tengir þær beint inn í skáldskaparheim 20. aldar. Hann er nefnilega í senn tvífari og andhverfa argentínska rithöfundarins og landsbókavarðarins Jorge Luis Borges – báðir sjónblindir en skarpskyggnir og uppteknir af bókasafninu sem völundarhúsi og heimsmynd í senn. Öndvert við skáldið Borges, sem bregður í sögum sínum á leik með heimildasöfn og heimskort, kostar munkurinn Jorge kapps um að hindra aðgang að ýmissi þekkingu sem bókasafnið geymir, einkum og sér í lagi að síðara bindinu af skáldskaparfræði Aristótelesar, sem taldist glatað en er þarna til í einu eintaki: bókin um hláturinn, íróníuna, kómedíuna; bókin um virðingarleysið gagnvart öllum heilögum sannleika og kennisetningum.

Þarna lendir saga Ecos í óbeinum samræðum við kunna bók rússneska fræðimannsins Mikhails Bahktins um skáldverk Rabelais og um karnevalið og hláturmenningu miðalda. Bók Bahktins kom út á frummálinu 1965 og var mjög til umræðu meðal fræðimanna á Vesturlöndum um það leyti er Eco ritar skáldsögu sína. [6] Kenningar Bahktins um margröddun og samræðutengsl eru jafnframt í bakgrunni „textatengsla“, eins helsta hugtaks póststrúktúralismans frá og með síðari hluta sjöunda áratugarsins. [7] Í þá versjón skáldsögunnar sem ég las fyrst hef ég einmitt párað „intertextuality“ á spássíu við enska gerð textans um samtal bókanna sem vitnað er til við upphaf þessarar greinar. Í fyrrnefndu kveri sínu um skáldsöguna leggur Eco sjálfur áherslu á þessa hlið verksins, jafnvel svo að ætla mætti að verkið væri nær samfellt safn tilvitnana úr ýmsum áttum. Sé þessum skilningi fylgt fast eftir mætti vafalaust telja textatengslin í Nafni rósarinnar til vitnis um sjálfsöguleg einkenni verksins; þetta sé það sem á sumum málum er nefnt „metafiksjón“, saga sem fjallar um sagnagerð og þar með líka um eigin tilurð og samsetningu, og þá erum við komin í nánd við það sem sumir hafa talið listræna blindgötu póstmódernismans: sjálfhverfu og takmarkalitla afstæðishyggju, þar sem erfitt er að ná gagnrýnum tökum á nokkurri túlkun. Þetta er vitaskuld ekki skilningur Ecos sjálfs, þótt hann segist hafa klætt sumar nútímatilvitnanir sínar (t.d. í Wittgenstein) í orðræðubúning miðalda án þess að eftir því hafi verið tekið, en hinsvegar hafi lesendum oftar en ekki þótt hann setja inn tímaskekkjur, semsé síðari tíma hugmyndir, einmitt þar sem hann hafi sótt sér efni beint úr raunverulegum miðaldaritum. Hann telur sig því hafa nokkurn vitnisburð um að samræða miðalda og nútímans í bókinni sé trúverðug, eins og hún verði að vera í sögulegum skáldsögum. [8] Látum því hinn póstmóderníska leik og flaum stemmast hér af sögulegum baksviðum verksins, sem nánar verður vikið að síðar.

Með viðkomu í (mynda)smiðju Thors

Fáeinum mánuðum eftir að ég las söguna á ensku frétti ég að verkið væri væntanlegt í íslenskri þýðingu Thors Vilhjálmssonar. Hún kom út seint á árinu 1984. Ég eignaðist hana þegar ég kom til landsins í sumarfrí 1985 og verkið gekk umsvifalaust í endurnýjun lífdaga hjá mér. Íslendingar telja sig hafa allgreiðan aðgang að eigin miðaldatextum og þau verk eru því vart afvega þegar þýða skal sögu sem á að gerast á þessu langa fæðingarskeiði vestræns nútíma, eins og Umberto Eco lýsir miðöldum. [9] Ekki þarf að lesa lengi í texta Thors til að sjá að heimavöllur þýðandans nær til miðalda. Fyrsti hluti skáldsögunnar er formáli eftir ónefndan höfund, sem reyndar á að vera þýðandi verksins og sá sem býr sögu Adsos í hendur nútímalesenda. Þessi ónefndi þýðandi – sem í þýðingu kallast óhjákvæmilega á við þann sem í reynd þýðir skáldsögu Ecos á annað mál (eiginlega fer sérdeilis vel á því að lesa þetta verk í þýðingu) – kveðst ekki vita hvaðan hann fái hugrekki til að setja verkið fram með þessum hætti: „Proprio non so perché mi sia deciso a prendere il corragio a due mani e a presentare come se se fosse autentico il manoscritto di Adso da Melk.“ Weaver þýðir þetta svo: „I really don‘t know why I have decided to pluck up my courage and present, as if it were authentic, the manuscript of Adso of Melk.“ [10] En Thor þýðir klausuna á þennan veg: „Ekki veit ég hvað fær mig til að kosta hugann að herða og bera þetta á borð eins og um væri að ræða upprunalegt handrit Adso frá Melk“ (10).

Þetta hefði Borges kunnað að meta. Í útleggingu á texta sem hinn meinti útgefandi og þýðandi verksins á ítölsku skrifar – eftir að hafa að eigin sögn þýtt það úr frönsku en handan franska textans ku vera hinn upprunalegi eftir Adso á latínu – bregður íslenski nútímaþýðandinn fyrir sig orðum Þóris jökuls úr Sturlungu („Upp skaltu á kjöl klífa, / köld er sjávar drífa, / kostaðu hug þinn að herða, / […]“) – orðum sem voru sögð og rituð áður en saga Ecos á að gerast. Þannig tekur Thor þátt í þeim leik sem hefst strax í upphafi þegar lesandi mætir orðunum „Handrit, nema hvað“ („Naturalmente, un manuscritto“), sem hafa íronískan og galsafenginn hljóm. Þarna er einhver „rödd“ sem segir okkur að ekkert frumlegt sé á ferðinni, hér sé einfaldlega fylgt þeirri kunnu aðferð að láta skáldsöguna sækja sannferðugleika sinn í handrit sem einhver eigi að hafa fundið. Þetta er sjálfsögulegur gjörningur, kátur performans, í ætt við það sem Thor hafði sjálfur stundað í módernískum skáldsögum sínum á sjöunda og áttunda áratugnum. Raunar er það svo að þegar Adso segir á einum stað í miðjum klíðum í Nafni rósarinnar: „Anzi er þetta flókin saga“ (213), þá hljómar þetta kunnuglega fyrir þá sem lesið hafa skáldsögur Thors; persónur í þeim eiga það til að gera ámóta athugasemdir.

En eftir sviptingarnar í upphafi, þar sem sagan er römmuð svo margfaldlega inn að lesandi gæti haldið að fylgjast verði með atburðarásinni úr sjónauka og auk þess í brögðóttum speglasal, þá kemur sagan þrátt fyrir allt í fangið á okkur. Við fylgjumst með Adso og Vilhjálmi síðasta spölinn á ferð þeirra og komum okkur fyrir með þeim í klaustrinu þar sem við munum dvelja söguna á enda. En veruleiki klausturins er ekki heldur einleikinn, enda er hann numinn af ungum manni sem þarna öðlast nýja og mikla reynslu á sjö dögum, þótt raunar skrifi hann ekki handrit sitt fyrr en löngu síðar, undir ævilok. En jafnframt er þarna lifað við fleiri en einn heim; handanveraldir virðast knýja ákaft dyra ásamt með valdaskaki umheimsins. Og við komum einmitt að endurnýjuðum inngangi í verkið þegar Adso og Vilhjálmur ganga á fyrsta degi um dyr klausturkirkjunnar og Adso lýsir í löngu máli myndum þeim sem ofnar eru í dyraumgjörðina, því að þar er „þögul ræða“ hins „sögulega steins sem allt í einu hafði opnazt sýn og hugmyndaflugi hvers sem í hlut ætti (af því að pictura est laicorum literatura)“. Viðeigandi má telja að á latínu sé hér vísað til þess að myndir séu ritverk leikmanna, því að trúarleg myndgerð í kaþólskum sið var einskonar þýðing boðskaparins fyrir ólæsan almúga á skiljanlegum miðli. En Adso „þýðir“ hinsvegar myndirnar yfir á tungumál, og þótt hann segi að þær hafi sökkt honum „í sýn sem tunga mín á fullt í fangi með að lýsa“, er honum í mun að koma þessari reynslu yfir á tungu – sem jafnframt er ritmál. „Ég sá hásæti tróna á himnum og einhvern sitja í hásætinu. Andlit Þess sem sat var strangt og órætt, augun glennt upp skutu gneistum að jarðnesku mannkyni sem var komið að endalokum síns ævintýris […].“ Í vinstri hendi heldur hann á „innsiglaðri bók“ og í kringum hann á þessari dómsdagsmynd eru fjórar ægilegar skepnur.

Reyndar var ekki hægt að kalla alla ægilega því mér sýndist fagur og mildur maðurinn sem hélt á bók vinstra megin við mig (og hægra megin við Þann sem sat). En hræðilegur virtist mér örn öndverðu megin með gapandi gogginn, reistar fjaðrirnar sem brynhlífar, klærnar öflugar, stórir vængirnir breiddir út. Og við fætur Þess sem sat […] voru aðrar tvær, naut og ljón, hvor ófreskjan um sig spennti bók milli klónna og klaufanna, búkurinn sneri að hásætinu utanverðu en höfuðið að hásætinu sjálfu, líkt og þær yndu sig í herðum og hálsi í hatrömmum dyntum, lendarnar spenntar, limirnir líkt og á dýri sem heyr helstríð, og kjafturinn sundurglenntur vítt, halarnir hringaðir og hlykkjuðust sem slöngur, og enduðu efst í logatungum. Báðar vængjaðar og krýndar dýrðarbaug, og voru þrátt fyrir ógnlega ásýnd ekki heljarverur helur himneskar, og hafi þær virzt skelfilegar var það vegna þess að þær rumdu í lofdýrð Þess sem kemur að dæma lifendur og dauða. (44)

Adso heldur áfram að drekka í sig einstök atriði þessarar myndar, og nú birtast einnig hljóðfæri og steinninn tekur að syngja. „En sem sál mín varð uppnumin af þessum tónaleik sem var jarðneskrar fegurðar og með hátignarlegum yfirnáttúrulegum teiknum og var í þann veginn að bresta í fagnaðarsálm, þá fór augum mínum þannig […] að þau bar að samfléttuðum verunum sem sameinaðar voru miðsúlunni sem bar uppi dyrabjórinn. Hver voru þau og hvaða táknlegum boðskap miðluðu þessi þrjú samfléttuðu ljónapör […]?“ (45–46). Síðar hvarflar „heillað augnaráðið“ að skelfilegri sýnum sem helgast „af sínum táknlega og allegóríska krafti eða vegna þeirrar siðlegu fræðslu sem þær önduðu frá sér: og ég sá kvenveru nakta og holdétna og nautnalega, nagaða af fúlum pöddum og höggormar mjólkdrukku hana og hún paraði sig við ístrumikinn skógarpúka með griffonsfætur“, og þessi efnisgrein flæðir áfram og senn virðast allir „íbúar helvítis“ þarna saman komnir og vitrast Adso, „og sem ég hvarf í leiðslu minna veikluðu skynfæra sem enn voru veikari gjör, heyrði ég máttuga rödd sem lúður gylli og hún talaði við mig og sagði: rita þú í bók það sem þú sér (og það er ég einmitt að gera) […]“ (46–47).

Thor Vilhjálmsson

Thor Vilhjálmsson

Um alla þessa miklu myndlýsingu verður fátt sagt hér. Hún er upprunalega skrifuð af manni sem gjörþekkir helgimyndasmíð og táknfræði miðalda og dregur hana hér inn í nútímaskáldsögu; nýtir sér klassískar hugmyndir um vitranir, leiðslu, heljarsýn, heimsmyndir og veraldarsögur, en gefur jafnframt til kynna að færsla myndarinnar yfir í tungumál verði Adso knýjandi þörf, hugsanlega vegna þess að þarna, í „forgarðinum“, megi sjá ummerki alls sem á sér stað þessa sjö örlagaríku daga: „og ósjaldan gerðist það á næstu dögum að ég hvarf aftur að virða fyrir mér dyraumbúnaðinn fullviss þess að ég væri einmitt að að lifa þá atburði sjálfa sem hann segði frá“ (47). Og áhersla myndarinnar á bækur (sem eru fjórar eins og sjá má) kallast í senn á við bókasafnið, í táknrænum og raunverulegum skilningi, við vitnisburðinn sem Adso skrifar um dagana sjö og um sýn sína til þeirra úr ellinni, og við bókina sem Umberto Eco skrifar. Þannig að þótt Biblían, bók bókanna, sé vitaskuld einn helsti undirtexti þessarar skáldsögu (og sérdeilis Opinberunarbókin), þá vaknar grunur um að bókin innsiglaða sem birtist í dyramyndinni miklu gæti alls eins verið hið týnda bindi um hláturinn og kómedíuna – nú eða eintak af Nafni rósarinnar.

En þar með hef ég raunar nefnt bókina eins og hún birtist okkur á íslensku – í texta sem er höfundarverk Thors Vilhjálmssonar; í verki sem þeir Eco og Thor eiga saman. Tilvitnanirnar hér að framan verða að nægja til sannindamerkis um hversu kjörinn Thor er til að þýða þennan hlaðna og krefjandi texta, ljóðrænan og gustmikinn í senn. Sagan er öll myndrík og í slíkri rittjáningu er Thor í essinu sínu, og raunar er hann líka einn helsti tónsmiður íslenskra frásagnarbókmennta. Ég hef ekki borið texta hans að ráði saman við frummálið, enda ekki mikill ítölskumaður, en það gerði ítalsk-íslenski fræðimaðurinn Viola Miglio í grein sem birtist fyrir nokkrum árum og niðurstaða hennar er sú að Thor takist „að vera tryggur textanum og að gera sig sýnilegan í þeim snilldarstílbrögðum sem einkenna íslenska textann.“ [11]

Sýnileiki

Orðalag Violu er athyglisvert, því að oft virðast þýðingar ekki mjög sýnilegur hluti af bókmenntasögu okkar. Hvaða máli skyldi Nafn rósarinnar skipta í sögu bókmenntasköpunar á íslensku? Íslensk gerð verksins birtist á frjóu skeiði sagnaþýðinga á íslensku; tímabili sem nær frá seinni hluta áttunda áratugarins og a.m.k. fram undir aldamót. Meginsérkenni áratugarins þar á undan (frá og með 1966) felst hinsvegar í módernískum brautryðjendaverkum í frumsaminni skáldsagnagerð, verkum eftir Guðberg Bergsson, Thor Vilhjálmsson, Svövu Jakobsdóttur, Steinar Sigurjónsson og fleiri. Nýraunsæið sem áberandi varð í innlendri sagnagerð á áttunda áratugnum virðist venda sér í þveröfuga átt, en myndin af því sem gerist eftir hin módernísku umbrot í sagnalistinni er flóknari en svo að hægt sé að meta hana út frá skarpri tvíhyggju. Það eru ekki síst hræringar í þýðingum sem skapa deiglu á þessu tímabili endurskoðunar og úrvinnslu og valda því að nú fer ýmsum sögum fram í senn. Nokkur af þekktustu sagnaverkum módernismans birtust á íslensku á umræddu árabili, meira að segja Ulysses eftir James Joyce, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar, en einnig verk sem gjarnan eru talin til aðdraganda módernismans, til dæmis skáldsögur Dostójevskís, flestar þýddar af Ingibjörgu Haraldsdóttur, sem og klassísk verk frá fyrri öldum, t.d. Gargantúi og Pantagrúll eftir fyrrnefndan Rabelais í þýðingu Erlings E. Halldórssonar og Don Kíkóti eftir Cervantes í þýðingu Guðbergs Bergssonar, og síðast en ekki síst heildarútgáfa leikrita Shakespeares í þýðingu Helga Hálfdanarsonar.

Það er líkt og verið sé að sækja ýmis veigamikil brot úr heimsbókmenntunum og færa inn í íslenskan bókmenntaheim – verk sem gjarnan eru talin skipta miklu fyrir skilning á nútímabókmenntum á Vesturlöndum. En á sama tíma eru einnig þýdd nýleg verk. Þótt enn sé margt órannsakað á þessu skeiði, er að sjá sem unnið hafi verið að því að „þétta“ sögu bókmenntanna á íslensku og leita þó um leið uppi „samtímaleika“ í alþjóðatengslum bókmenntanna. Þegar þýðing Guðbergs Bergssonar á Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Marquez birtist árið 1978 voru liðin ellefu ár síðan verkið kom út á spænsku, en áhrif þess voru enn að breiðast út og skýrast, fyrir tilstilli þýðinga á fjölda tungumála, og þessi skáldsaga opnaði mörgum nýja vídd, þar á meðal ungum íslenskum rithöfundum. Nafn rósarinnar var svo einungis fjögurra ára þegar Thor þýddi hana 1984. Þannig þýða tveir af lykilhöfundum módernismans í íslenskri sagnalist nýlegar erlendar skáldsögur þar sem leitast er við að draga lærdóm af módernismanum og tempra hann jafnframt á nýju stefnumóti við sagnahefðir. Í viðtali sem tekið var við Guðmund Andra, son og aðstoðarmann Thors, þegar Nafn rósarinnar var bók vikunnar hjá RÚV, sagði hann að glíman við Eco hefði leyst Thor úr vissum læðingi; hjálpað honum að endurnýja sköpunarkraft sinn á óræðum tíma á ferlinum. [12]

Það er alltaf erfitt að meta áhrif í bókmenntum og öðrum listgreinum og minnir sú viðleitni stundum á djarfan líkindareikning, en sennilegt má telja að skáldsaga Ecos hafi leikið umtalsvert hlutverk í viðgangi glæpasagna og sögulegra skáldsagna síðustu áratugi, og átt þátt í að skapa þessum sagnagreinum aukna athygli og virðingu, hvort sem einstök verk halda sig á hefðbundnum slóðum eður ei. Ecoþýðingin hefur að öllum líkindum gefið Thor byr er hann réðst í sín næstu frumsömdu sagnaverk – Grámosinn glóir (1986) og Náttvíg (1989) – en kann einnig að hafa hvatt hann til eigin fangbragða við miðaldir, svo sem sjá má í Sturlungusögunum Morgunþulu í stráum (1998) og Sveig (2002). Thor er vitaskuld sinn eigin herra í þessum verkum, og mestu líkindin við skáldsögu Ecos eru í hinni fagurfræðilegu afstöðu í Grámosanum og Sturlungusögunum, þar sem frásögn er spunnin um sögulegar aðstæður og atburðarás, en framsetning og stílbrögð eru samt opin og ögrandi, til dæmis í vinnu höfundarins með mörk ytri framvindu og skynjunar, hugarlífs, lífsreynslu.

Endurfundir

Umberto Eco

Umberto Eco

Framar á þessum blöðum vék ég að endurnýjuðum kynnum mínum við Nafn rósarinnar í fyrra. Þá hafði ég ekki skyggnst í bókina síðan snemma á tíunda áratugnum er ég las þýðingu Thors með hópi háskólanema. Klausturheimurinn var gamalkunnur en einnig ferskur, að hluta til vegna þess að hann stjórnast ekki af hagkvæmnishugmyndum hinnar hröðu kynningar, sem hefur haft áhrif á sagnagerð samtímans, en þó vitaskuld enn meir á kvikmyndagerðina. Sagan fer hægt af stað og Eco er djarfur að þétta söguheiminn snemma, ekki síst með allmiklum fjölda persóna, sem sumar eru á vettvangi en aðrar birtast í umræðum um hið sögulega baksvið. Eco hefur raunar nefnt að vinir og ritstjórar sem lásu handrit hans hafi ráðlagt honum að stytta og draga saman efnið á fyrstu hundrað blaðsíðunum; þær væru þungar og krefjandi. Hann kveðst hafa neitað umsvifalaust. Ef einhver ætlaði að koma inn í klaustrið og dvelja þar í sjö daga yrði sá hinn sami að sætta sig við lífstaktinn á staðnum. [13]

En það er líka spennandi að velta fyrir sér hvernig maður „dvelur“ með öðrum hætti í sögum við endurfundi. Maður fylgist öðruvísi með persónum, hugsanlega vegna þess að byggt er á fyrri kynnum, en væntanlega einnig vegna þess að sjálfur hefur maður breyst í tímans rás. Nú velti ég meira en áður fyrir mér samfylgd og tengslum Vilhjálms og Adsos. Þeir eru ferðafélagar og ungi aðstoðarmaðurinn nýtur leiðsagnar hins valinkunna og reynslumikla fræðara. Þarna vinnur Eco með klassískar fyrirmyndir, þ.e. tvo förunauta sem takast saman á við vanda, allt frá Guðdómlega gleðileiknum og Don Kíkóta til sagna af Sherlock Holmes og fleiri nútímapersónum, en jafnframt ýmsar skráðar samræður (spurningar og svör) lærlings og meistara sem rekja má allt aftur til fornklassískrar ritmennsku og menntahefðar. Eco skapar mikla dýpt í þessu sambandi með því að láta Adso vera sögumann, veita okkur aðgang að sýn hans og að því að virðist beinum viðbrögðum hans við atburðum, en minna jafnframt reglulega á að hann skrifi söguna löngu síðar, þegar hann veit að hann á skammt ólifað. Adso virðist hafa átt reglusama munkævi allar götur síðan þeir Vilhjálmur kvöddu hinar rjúkandi rústir á klausturhæðinni, veröld sem hefur liðið undir lok. Vikan í klaustrinu og kaflaskipting skáldsögunnar – og væntanlega mestöll ævi Adsos – eru nákvæmlega mældar í eyktamörkunum sem stýra lífi klausturbúa, en skáldsagan byggir samhliða á gerólíkri tímavirkni. Æviuppgjör Adsos nær í reynd til þessarar einu viku í ónefndu klaustri á Ítalíu og þeirra viðburða sem skóku líf hans en sem hann „slapp“ svo frá inn í reglubundna tilveru sína. Þessi stutti tími verður þannig ævilangur og sýnir afstæði tímans sem mælistiku á lífsreynsluna, þroskann og minnið.

Heimsmálin

Eins og áður sagði eru sterk sjálfsöguleg einkenni á þessu verki Ecos. Þetta er saga sem veit af sjálfri sér og tilurð sinni, bók sem veit að hún sprettur af öðrum bókum. Meintur þýðandi og útgefandi segir í lok formála síns að hann hafi notið þess að láta gamminn geisa og

mér verður það til hugarléttis og hughreystingar að finna hve órafjarri þetta er í tíma […] og glæsilega laust við alla skírskotun til okkar tíma, og hvað tíðina snertir víðsfjarri vonum okkar og vissu.
Því þetta er bók um bækur, ekki um hversdagslega eymd, og þegar hún er lesin getur það leitt okkur til þess að hafa yfir með þeirri miklu eftirhermu Tómasi frá Kempis: „In omnibus requiem quaesivi, et nusquam inveni nisi in angulo cum libro.“ (11)

Þótt það sé vissulega rétt hjá Tómasi að stundum finni maður hvergi raunverulega hvíld nema úti í horni með bók, hafa endurnýjuð kynni af bók Ecos og Thors undirstrikað að þessi formálsorð missa gersamlega marks og eiga að gera það. Í raun grefur formálaritari undan sjálfum sér þegar hann segir í upphafsorðum frá því að hann hafi komist yfir frönsku þýðinguna af handriti Adsos þann 16. ágúst 1968. Næstu daga er hann staddur í Prag og ekki er vikan liðin þegar sovéskar hersveitir réðust „inn í hina vansælu borg“ (7), en hann sleppur með bókarfeng sinn úr landi í tæka tíð, kemst á ástarfund í Vín, sem síðan reynist endasleppur, svo að minnir nokkuð á ástarstund Adsos í eldhúsinu undir bókasafninu síðla árs 1327.

Þetta er bók um bækur, bók um ástir, en sannarlega líka bók um okkar tíma, vonir okkar og óvissu – og um okkar heim á mismunandi tímum. Sögusviðið er klaustur (horn til að lesa bækur) í Evrópu á 14. öld, þar sem geisaði kalt stríð veraldlegra og trúarlegra afla, en bókin talar beint inn í kalda stríðið á síðari hluta 20. aldar, stríð sem stóð enn þegar bókin kom út 1980, en þá skírskotaði hún einnig til þeirrar bylgju hryðjuverka sem gekk yfir Bretlandseyjar, Þýskaland og heimaland höfundarins, Ítalíu, á áttunda áratug 20. aldar. Og þegar maður eldist með bókum kemur glöggt fram hvernig þær lesa tímann um leið og tíminn les þær. Bókin Nafn rósarinnar, bók sem um sumt er „veraldarbók“ að miðaldahætti, er tímavél sem talar líka einkar kröftuglega til þeirrar heimsmyndar sem við búum við nú þegar líður á annan áratug 21. aldar. Evrópa – eftir aldalangt tímabil heimsvaldastefnu og eftir að hafa verið í brennipunkti tveggja heimsstyrjalda – reynir að hefja sig upp í nútímalegri einingu um lýðræði og frið, en fær ekki flúið umheiminn.

Vilhjálmur af Baskerville vísar á einum stað til „heimsmálanna“ (368), en í þeim er oft lítinn mun að sjá á trúarlegum og veraldlegum straumum, enda hverfur sá munur hvort eð er í hatrammri hugmyndafræði, úr hvorri áttinni sem komið er. Hreintrúarmenn af ýmsu tagi fara fram og eru reiðubúnir að fórna sér í heilögum átökum og „hreinsunarverk“ þeirra beinist gegn spilltum heimi andstæðinganna á svo gagngeran hátt að það þurrkar út alla mannúð. Valdamenn finna sér viðræðustað, en samskipti þeirra markast af undirhyggju, áróðri, innantómum fullyrðingum, barnalegum kappræðum sem eru samt baneitraðar; samningatali sem reynist meira sjónarspil og frestun en raunverulegur sáttafundur. Þetta er veröldin sem blasir við okkur í Nafni rósarinnar, en er ekki fjarri okkur á líðandi stund. Klaustrið í sögunni á að heita hlutlaus samningastaður, sem Vilhjálmur hefur sjálfur valið (140), en verður „reykfyllt bakherbergi“ átaka sem eiga sér stað í Evrópu, og breytist svo í dómstól þegar manndrápin á staðnum gefa umboðsmönnum páfagarðs tilefni til að sýna vald sitt.

Hin útskúfuðu

Á nokkrum stöðum er vikið að öfgahópum sem fara um ruplandi og drepandi, og valdið í vestri – aðsetur páfa var þá í Avignon – og fulltrúar þess virðast eiga drjúgan þátt í tilurð slíkra hópa. Adso segir að það sem hann sér í klaustrinu hafi komið honum „til að hugsa að oft verði rannsóknardómararnir til þess að skapa trúvillingana. Og ekki aðeins í þeim skilningi að þeir telji þá vera það þegar þeir eru það ekki, heldur af því að þeir bæla villutrúarsmitið niður með slíku offorsi að það verður til þess að hrinda mörgum til þátttöku í því af einskæru hatri á þeim“ (52). Villutrúarheitið vísar í bókinni til kristinna hópa sem teljast fara afvega og stundum með miklu offorsi, eins og hinn hervæddi hópur sem Dolcino nokkur safnar um sig og minnir ekki lítið á ISIS-flokkinn sem fer um með eldi í nafni annarra trúarbragða í Sýrlandi, Írak og víðar í þessum skrifuðum orðum. Saga Ecos birtir býsna sannfærandi mynd af stemmningunni í slíkum flokkum, aðdráttarafli öfgafullra leiðtoga á hugarlíf fólks sem ekki hefur fundið rótfestu og sem er, eða skynjar sig, á jaðri samfélagsins. Vilhjálmur ræðir við Adso um hina „útskúfuðu“ og hvernig þeir séu með vissum hætti reknir í eina kró (189–191); hvernig kirkjan beiti trúvilluvopninu gegn þeim eftir hentugleikum á meðan veraldleg yfirvöld geti nýtt sér stöðu þeirra á annan hátt. Í sögunni kemur og fram að yfirvöld beini stundum einum jaðarhópi gegn öðrum.

Þegar rætt er um hefðbundin samfélög fyrri alda er gjarnan brugðið upp mynd af lítt hreyfanlegu mannlífi þar sem alþýða manna hafi verið mjög bundin við uppvaxtarstaði sína, fjölskyldu og stétt. Í sögu Ecos er sjónum hins vegar beint að losi á mannlífinu, að flokkum á rápi um héruð, flökkulýð sem minnir á frásagnir af Guðmundi góða og fylgdarliði hans á öndverðri 13. öld, en raunar einnig á flóttamannahræringar okkar tíma. Fátækt, ríkidæmi og eignaleysi er til umræðu í sögunni; það er ýmsum lykilspurning hvort Jesús Kristur hafi átt einhverjar jarðneskar eigur og þetta er hitamál á ráðstefnunni í klaustrinu. Ákveðnir hópar innan Fransiskanareglunnar leggja mikla áherslu á heimsafneitun og líf í fátækt og eignaleysi, en það er boðskapur sem ógnar páfastóli og prestum (223) – því að eignir eru nátengdar stjórnun og yfirráðum. Umræðan í skáldsögunni um eignir og eignaréttinn beinir ýmsum spurningum til lesanda snemma á 21. öld, í heimi þar sem mjög hefur verið gengið á gögn og gæði náttúrunnar en gríðarmiklir eignir hafa hinsvegar safnast á fárra hendur, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða alþjóðlegar fyrirtækja- og fjármálablokkir, svo að jafnvel sverfur að sjálfstæði stöndugra þjóðríkja í efnahagsmálum. Hvernig mun hátta til um völd, hagsmuni (þ.m.t. svokallaða almannahagsmuni) og ákvarðanir í slíkum heimi á komandi tíð?

Kona birtist og hverfur

Er þá enn ónefnt að eignir heimsins og ráðstöfunarréttur skiptist mjög misjafnlega á kynin, jafnvel í þeim heimshlutum sem komist hafa næst jafnrétti. Það eru fyrst og fremst karlar sem eru „eigendur“. Kynjapólítík er sterkur þráður í Nafni rósarinnar sem nútímaskáldsögu. Þótt hún fjalli um stækan karlaheim, þá einblínir hún ekki á hann, því að kona ratar óvænt í inn veröld sögumannsins Adso. Eins og segir með íronísku vinki í persónuregistri aftast í þýðingu Thors: Auk fjölmargra nefndra karla koma fyrir í bókinni „dauðir og lifandi trúvillingar, venjulegt fólk, tveir hestar, og meira að segja ung stúlka, nafnlaus“ (471). Önnur kona birtist þó fyrst á sjónarsviðinu, eins og sjá má í tilvitnaðri lýsingu Adsos á steinmyndinni hér framar, hún og aðrar konur, og kveneðlið eins og því er lýst í trúarlegri orðræðu í bókinni, er tengt lostanum og hinum djöfullegu öflum; konan villir um fyrir karlinum, slævir einbeitingu hans, eitrar hið hreina líf.

Einu nánu kynni Adsos af kvenveru andæfa þessari kvenmynd, þótt ævin dugi honum ekki til að fella þau kynni að heimsmynd sinni. Þessi atburður er miðpunktur skáldsögunnar – og sagan sem játningarit Adsos á öðru fremur uppsprettu sína í þessari einstæðu stund um miðbik hinnar atburðaríku viku – stundinni þegar ástarsagan truflar glæpasöguna. Síðla kvölds finnur Adso fyrir veru í eldhúsinu á jarðhæð bókasafnsins; þetta er fátæk stúlka. Hún hefur fengið kjötmeti frá manni sem hefur væntanlega ætlað að hafa not af henni í staðinn, en hann flýr af vettvangi við komu Adsos. „Og skyndilega birtist mér stúlkan eins og sú svarta en fagra mær sem frá segir í Ljóðaljóðunum“ (230). Adso missir tökin, varnir falla, ástarstund Ljóðaljóðanna endurfæðist, nema hvað nú er það hún („brúðurin“) sem á frumkvæðið: „Og hún kyssti mig kossi munns síns og ástarhót hennar voru yndislegri en vín […]“ (231). Hin dökkleita kona, kannski sólbökuð eftir vinnu í víngörðunum, eins og brúðurin í Ljóðaljóðunum – þótt nútímalesandi kunni í fljótu bragði að skilja litaraftið með öðrum og enn „róttækari“ hætti; hún mætir hinum kuflbúna sveini, og hann afhjúpast og „cuncta erant bona“, allt var gott. En líka framandi og er hann fellur „næstum í öngviti ofan á líkamann sem ég hafði sameinazt skildi ég í síðasta lífsblossanum að í loganum býr ljómandi tærleiki, innborið afl og eldlegur hiti, en hinn ljómandi tærleika á hann svo hann megi lýsa og eldlegan hitann svo hann megi brenna“ (232).

Þessi síðustu orð eru raunverulega brennandi við endurlestur sögunnar, því að Adso á hér þátt í atburðarás sem leiðir til þess að stúlkan er handsömuð af páfagarðsmönnum þegar hún vogar sér aftur á svæðið næstu nótt, kannski vegna þess að hún hafði gleymt matarböggli sínum eftir ástarfundinn. Og með því að bendla hana við svartan kött og svartan hana, tekst dómaranum að draga meintan „svartagaldur“ hennar inn í glæpafárið í klaustrinu og þar með er hún orðin djöfulleg norn. Og eins óskaplegur og bruni klaustursins og bókasafnsins er í bókarlok – sú apokalyptíska lýsing er öll stórbrotin af hálfu þeirra Ecos og Thors – kann það að svíða lesandann og Adso meir að á sama tíma brennur konan eina væntanlega á öðru báli. Páfagarðsmenn höfðu tekið hana með sér. Hún verður brennd á leiðinni, segir Vilhjálmur við Adso, „í einhverju litlu kataraþorpi meðfram ströndinni“ (378).

Hrakföll og fjölmenning

Sú athygli sem hin útskúfuðu og ónefndu fá í sögu Ecos er þáttur í fjölmenningu verksins (sem er þó sem fyrr segir einkum, en ekki algerlega, karlafjölmenning). Klausturbúar og gestir þeirra eru víða að, Jorge er frá Spáni, Vilhjálmur enskur en Adso þýskur. Það mætti ætla að klaustrið væri samevrópskur staður en landamörk koma þó í ljós þegar að kreppir, eins og þegar ábótinn segir það hafa verið rangt hjá sér „að mælast til þess af útlendingi, hversu spakur sem hann væri […] að rannsaka þá hluti sem einungis voru á mínu færi“ (420). Fjölmenning bókasafnsins nær lengra og þangað hefur verið safnað ritum á ýmsum tungumálum og úr fjarlægum heimshornum. En einnig þar eru virk mörk; aðgangi að bókunum er vandlega stýrt og sumar eru á bannlista. Í þessum efnum er Vilhjálmur gagnrýninn og snemmborinn talsmaður upplýsingarinnar. Tæknibrellum er beitt til að hamla aðgangi að bókasafninu. „Vísindunum er beitt til þess að formyrkva fremur en upplýsa“, segir Vilhjálmur. „Ekki geðjast mér að því“ (166).

The Name of the Rose (1986)

Sean Connery og Christian Slater í kvikmyndinni The Name of the Rose (1986)

Eftir því sem maður kynnist Vilhjálmi betur við endurtekinn lestur, þeim mun skýrar kemur í ljós hversu brigðull hann er í lausnalist ráðgátanna, þótt hann hafi vakið hrifningu í upphafi sögu þegar hann segir til um ferð hestsins Brunello með því að ráða í nærtæk tákn. Gáfur hans eru ekki sú snilld lögreglurannsakandans sem iðulega er hampað í glæpasögum. Mistækur og villuráfandi dregst hann inn í og verður óbeinn þátttakandi í atburðarásinni. „Þarna varð Vilhjálmi á í messunni“ skrifar Adso á einum stað (328), og fer vel á íslenska orðalaginu um ein af mistökum táknatúlksins. Og undir sögulok freistast hann enn á ný til kappræðna við Jorge – þær eru raunar snilldarkafli – og gleymir að halda þétt um handritið dýrmæta, sem hann var þó kominn með í hendur, og að huga að öllum aðstæðum eins og glöggskyggn rannsóknarlögregla. Fyrir vikið fer allt úr böndum, Jorge byrjar að éta Aristóteles og eldur verður laus. Skáldsagan er öðrum þræði hrakfallasaga Vilhjálms. Hann játar sig sigraðan í lokin. „Það sem ég hef ekki skilið er afstaðan milli táknanna“, „[ég hef] fylgt eftir eftirlíkingu af reglum, þegar ég hefði átt að vita vel að það er engin regla í alheiminum“ (458–459).

En það sem einnig gerðist var að hann gleymdi sér við að vera manneskja af holdi og blóði. Hann er maður íhyglinnar fremur en skjótra úrræða. Þrá samferðamanna hans eftir „hreinleikanum“ vekur honum ótta og þegar Adso spyr hvað skelfi hann mest við hreinleikann, svarar hann: „Flýtirinn“ (360). Hann er breyskur maður en hann hefur jafnframt umburðarlyndi gagnvart breyskleika annarra og ríkan skilning á fjölbreytileika mannlífsins. Viðhorf Vilhjálms koma skýrt fram í samanburði við vin hans, rétttrúarmanninn Ubertino af Casale – sem segir á einum stað, klippt og skorið: „Hérna megin er kór engla, hinum megin gín við kjaftur helvítis“ (217). Vilhjálmur tekur hins vegar málstað náttúrukönnunar og þekkingar, sem nýta eigi „til að bæta mannkynið“ (64). Og hvað sem líður glöpum hans við rannsókn morðmála, þá standast orð hans um að hann sé að kenna Adso „að bera kennsl á þau teikn sem heimurinn notar til að tala eins og stór bók“ (27). Eins og Adso er Vilhjálmur sérlega vel gerð persóna af höfundarins hálfu. Þótt við verðum að geta okkur til um það hvað á kreiki sé djúpt í hugskoti hans – það reynum við að gera út frá teiknum textans – þá er hann sérlega eftirminnilegur persónugervingur húmanismans, og fellur þá í eitt almennur og fræðilegur skilningur þess hugtaks. Hann fræðir Adso m.a. um framlag Araba til þekkingarheims Vesturlanda og um nauðsyn tungumálakunnáttu í könnun annarra menningarheima (157).

Fjölmenningarlegur hugarheimur Vilhjálms speglast í heimsbókasafninu mikla á klausturhæðinni, nema hvað hann myndi vilja opna öll rit þess betur út í umheiminn, meðal annars þau rit sem bregða á leik með trúarbrögðin (rit sem fara jafnvel með dár og spé um þá þætti þeirra sem aðrir telja heilaga) og ekki síst skáldskaparfræðirit sem greina satíruna, kómedíuna og hlutverk hlátursins. Því eins og Vilhjálmur segir: „Bækur eru ekki gerðar til þess að trúa þeim, heldur til þess að rannsaka“ (296). En þarna lýstur honum saman við helsta talsmann öndverðra viðhorfa, varðmann hinnar „hreinu“ trúar, Jorge af Burgos, sem hikar ekki við að drepa samferðamenn sína til að fyrirbyggja að ákveðin rit fari í umferð. Einnig þarna hittir bók Ecos beint í hjartastað samtímans. Nokkrum árum eftir útkomu Nafns rósarinnar hlaut skáldsaga Salmans Rushdies, Söngvar Satans (1988), fordæmingu Khomeinis erkiklerks Írans fyrir að draga dár að Kóraninum og höfundurinn var lýstur réttdræpur. Rushdie fór í felur, en ráðist var á þýðendur bókarinnar og einn þeirra myrtur. Bókin og allt fárið sem skapaðist í kringum hana kallast kröftuglega á við skáldsögu Ecos. Jorge var mættur til starfa á nýjum stað. Og svo við færum okkur enn nær líðandi stund, þá er ekki langt síðan gríðarlegt uppnám varð vegna spaugmyndbirtinga Jyllands-Posten af Múhameð spámanni og flestum mun í fersku minni þegar ráðist var, í byrjun þessa árs, inn á ritstjórnarskrifstofur franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo. Árásarmennirnir myrtu 12 einstaklinga og særðu nokkra að auki.

Slík grimmdarviðbrögð í nafni trúarbragða er víða að finna í sögu kristninnar og í bók Ecos – einkum kappræðum þeirra Vilhjálms og Jorge – má finna ýmis þau rök sem mest ber á þegar árekstur verður á milli þess sem bókstafstrúarfólk telur til helgidóms og þess sem telst guðlast, svívirðing, satíra, gagnrýni í formi skopfærslu, almennt spaug eða tjáningarfrelsi, allt eftir því hvert sjónarhornið er. Ýmsar spurningar vakna um staði og stundir satíru og spaugs, um tengsl trúarbragða og valds, og um það hvernig hátta megi samskiptum veraldlegra og trúarlegra samfélagshópa – en það er ekki einfalt verkefni í fjölmenningarsamfélögum okkar tíma.

Ekki finnast einhlít svör við slíkum spurningum í bók Ecos, þótt forvitnilegt sé að rekja þræði milli tímasviða í henni; milli miðaldaheims kaþólskunnar, þar sem trúarbrögðin eru enn meginstraumur í samfélaginu, og ritunartímans í veraldlegu samfélagi, þar sem ekki varð séð fyrir að önnur trúarbrögð ættu eftir að verða jafn þungvæg í „heimsmálunum“ og raunin varð (jafnvel þótt trúarbyltingin í Íran hafi átt sér stað skömmu áður en bók Ecos kom út og Khomeini erkiklerkur farinn að láta að sér kveða).

Hin veraldlega snerting

Nafn rósarinnar gerist á trúarvettvangi en hún er veraldleg bók, verk sem gerir ráð fyrir frelsi lesandans, forvitni hans og virkri þátttöku í tilurð og galdri þess merkingarheims sem rís af sögunni og þar með einnig af rústum alls sem brennur og hrynur í henni. Regla klaustursins, tími þess og heimsmynd, mæta óreiðu lífsins og mótsögnum lífsreynslunnar, þótt hún sé ekki heldur án reglna. Táknfræðingurinn Vilhjálmur er stöðugt að leita að „reglu um samsvörun“ (158), vegna þess að hann veit að tákn hafa ekki merkingu án slíkra reglna. En reglurnar eru ekki klappaðar í stein, heldur lifandi rétt eins og það mannlíf sem notar þær til samskipta.

Vilhjálmur birtist í sögunni í senn sem vísindamaður og trúmaður, en ljóst er að þekking og lífsreynsla hafa beint honum frá bókstafs- og hreintrúarstefnu. Adso skrifar að því eldri sem hann verði „og því meir sem ég fel mig vilja Guðs, þeim mun minni mætur hef ég á þeirri greind sem vill vita og þeim vilja sem vill gera: og ég viðurkenni trúna sem hið eina hjálpræði, þá trú sem kann að bíða í þolinmæði án þess að spyrja of mikils“ (367). Árin hafa fjarlægt hann lærimeistaranum enska, en sú „ævisaga“ sem hann skrifar andæfir hins vegar sjálf þessari lýsingu hans. Hér komum við aftur að miðpunkti skráðra minninga hans: „Á einustu jarðnesku ástinni í lífi mínu vissi ég ekki, og vissi aldrei, nafnið“ (379). Í skrifum hans býr einskonar ígildi þess nafns. Rósin er vitaskuld tákn, meðal annars fyrir stúlkuna og ástarreynslu Adsos, en í heiti skáldsögunnar eignast rósin jafnframt „nafn“ sem vísar til alls sem gerðist þessa sjö daga. Segja má að hún ali af sér hugtak þeirrar sögu sem Adso skráir, svo vísað sé til orða Vilhjálms sem ég gerði að einkunnarorðum þessarar ritsmíðar. [14] Í verki Ecos er sú reynsla öll, þótt hún taki einnig til skelfilegra atburða, tjáning og nafngildi jarðneskrar ástar í breiðum skilningi, ástar á mannlífi og leitar eftir þekkingu á sjálfum sér, öðrum og umhverfinu. Sú ást og leit kann að eiga sér reglur en þær eru ekki heilagur sannleiki. Í uppnámi sínu þar sem hann horfir á bókasafnið brenna víkur Vilhjálmur að ótta Jorges við annað bindi Aristótelesar, „vegna þess að það kenndi í rauninni að skrumskæla ásjónu sérhvers sannleika, til þess að við yrðum ekki þrælar uppvakninga okkar. Kannski er hlutverk þess sem ann mönnunum að láta hlæja að sannleikanum, að láta sannleikann hlæja, vegna þess að eini sannleikurinn er sá að læra að gera sig frjálsan af hinni sjúklegu ástríðu til sannleikans“ (458).

Sem þýðir ekki að sannleikur sé ekki til, heldur að hann sé hverju sinni táknlykill, merking, menning sem mannskepnan býr til, mishaldgóðar reglur um hin jarðnesku tengsl, um jörðina sem við fáum að nema og snerta og eiga með öðrum um stundarsakir. Það samband er í senn háð þekkingu og tilfinningum, en einnig ímyndunarafli, skáldskap. Það er þetta sem kyndir undir andúð Jorges á heimspeki og hatri hans á skáldskap. Hann segir að skáldskapur „lifi á lygum“ (108). Að einu leyti gæti Umberto Eco tekið undir þetta. Í meginriti sínu um táknfræði segir Eco að táknfræði lúti að öllu sem hægt sé „að meðtaka sem tákn. Tákn er hvaðeina sem hægt er að meðtaka sem svo að það komi gagngert í stað einhvers annars. Þetta annað þarf ekki endilega að vera til eða að vera einhversstaðar einmitt þegar táknið verður staðgengill þess. Þannig er táknfræði í grundvallaratriðum fræðigrein er kannar hvaðeina sem hægt er að nota til að ljúga. Ef ekki er hægt að nota eitthvað til að ljúga, þá er að sama skapi ekki hægt að nota það til að segja sannleikann: reyndar er alls ekki hægt að nota það til „að segja“. [15] Táknheimurinn er frjór og endalaus. Táknin eru okkur nauðsyn til að skilja og túlka veruleikann, og eiga samskipti um hann – en þau má líka ævinlega nota til að segja eitthvað annað. Þetta er einn helsti drifkraftur skáldskapar og listsköpunar. Það sem sumum finnst erfitt við skáldskap er einmitt hversu torvelt getur verið að segja til um hvenær og þá hvernig hann sé að segja satt í umfjöllun um miskunnuglegan veruleika og framvindu í honum. Þannig beinir skáldskapurinn líka athygli að sjálfum sér og ábyrgð okkar sem lesenda. Ég hef minnst á sjálfsögulega þætti í Nafni rósarinnar. Í nýrri grein í vefritinu Hugrás segir Jón Karl Helgason að vel fari á að nota orðið „sögusagnir“ um „metafiksjón“, sem ég hef nefnt sjálfsögu. Hann sækir orðið „sögusagnir“ í grein eftir Helgu Kress, þar sem hún fjallar um ótta karla við slúður, staðlausa stafi og „stjórnlaust tal“ sem þeir tengi kvenlegri tjáningu. [16] „Sögusögn“ er öðrum þræði bráðsnjallt hugtak um „metafiksjón“, en hinsvegar býr í orðinu ávæningur af lygi, ef svo má segja. Sögusögn er orðasveimur sem ekki er fastur fótur fyrir. En þá erum við reyndar í námunda við framangreint eðli táknanna og frumafl skáldskaparins – hann segir sögur af (lífs)sögum – og skilningur okkar er enn ein sagan. Sögusögn og bókmenntir væru þá samheiti.

Sú fjarlægð frá raunveruleikanum sem virðist búa í orðinu sögusögn og í skýringu Ecos á tákni, er jafnframt lýsing á því bili sem við leitumst stöðugt við að brúa með margvíslegum táknlyklum, ekki síst þeim sem búa eða eru búnir til í tungumálinu. Saga Ecos er bókstaflega morandi af vísunum í tungumál; þar er talað ýmsum tungum, og bókin er lofsöngur til tjáningar, fjöltyngis, þýðinga og skýringa, þó að vægi óskiljanleikans sé einnig viðurkennt. Og bókin er vitaskuld megintákn verksins um leitina að merkingu. „Bækur eru ekki gerðar til þess að trúa þeim, heldur til þess að rannsaka“, svo aftur séu tilfærð orð Vilhjálms um þá lífsrannsókn sem knýr forvitna lesendur til að fletta síðum, tengjast bókinni. Í einni heimsókninni á bókasafnið fylgist Adso með munki nokkrum „fletta fornu riti þar sem blöð loddu saman af raka“; þessi „taumlausa og forvitna ást“ kemur Adso skyndilega óhuganlega fyrir sjónir, munkurinn vætir „vísifingur og þumal með tungunni til að fletta bókinni“, og þannig opnast ritið fyrir „ágangi vatns og ryks svo bókfellið myndi verpast og krukklast undir ánauðinni […].“ (174). Forgengileiki bókanna opinberast Adso þegar mannslíkaminn snertir þær, og kannski líka forgengileiki mannsins sem sækir í sjóði þeirra, leitast við að nema af þeim vísdóm og skemmtan.

Það er nákvæmlega þessi snerting sem Jorge nýtir sér til að myrða meðbræður sína. Hann kemur eitrinu fyrir á spássíum handritsins sem geymir annað bindi af skáldskaparfræði Aristótelesar, og lesendur þess finnast andaðir með svarta tungu – sem er hefðbundið tákn á ýmsum málum fyrir lygi. En einmitt þessi eitraða, svarta tunga flytur okkur sannindi um ástríður og merkingarþunga þessa verks; hún verður margbrotið og um sumt mótsagnakennt tákn um fórnir og baráttu fyrir óheftum skilningi, fróðleiksþrá og frjálsri tjáningu í heimi ofbeldis. [17] Tungan svarta tengist mörgu í táknheimi skáldsögunnar, meðal annars nóttunni – „áhugaverðustu hlutirnir gerast á nóttunni“ segir Vilhjálmur (250) – blindunni (Vilhjálms ekki síður en Jorges), hananum og kettinum og svartagaldi, stúlkunni svörtu og ástinni. Bók Ecos – og þýðing Thors – mælir á þessari svörtu tungu.

 

 

 

Tilvísanir

  1. Umberto Eco: Nafn rósarinnar, þýð. Thor Vilhjálmsson, Reykjavík: Svart á hvítu 1984, bls. 268. Hér eftir verður vísað til þessarar útgáfu með blaðsíðutali í svigum innan meginmáls.
  2. Stefán Hörður Grímsson: „Að farga minningu“, Ljóðasafn, Reykjavík: Mál og menning 2000, bls. 145.
  3. Umberto Eco: „The Return of the Middle Ages“, Travels in Hyperreality, þýð. William Weaver, London: Picador 1987, bls. 59–85, tilvitnun bls. 83.
  4. Sbr. grein mína „Hvað er póstmódernismi? Hvernig er byggt á rústum?“, sem birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar 1988 (4. hefti) og síðar í bókinni Umbrot. Bókmenntir og nútími, Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999, bls. 369–401.
  5. Umberto Eco: Postscript to The Name of the Rose, þýð. William Weaver, San Diego: Harcourt Brace Jovanovich 1984, bls. 73 og 53.
  6. Kafli úr Rabelaisbók Bakhtíns, „Ímyndir veislunnar hjá Rabelais“, hefur birst á íslensku. Mikhail M. Bakhtín: Orðlist skáldsögunnar. Úrval greina og bókakafla, þýð. Jón Ólafsson, ritstj. Benedikt Hjartarson, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 2005, bls. 91–117.
  7. Um textatengsl hef ég fjallað í greininni „Mylluhjólið. Um lestur og textatengsl“, sem birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar 1993 (4. hefti) og síðar í bókinni Umbrot. Bókmenntir og nútími, Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999, bls. 402–416.
  8. Sjá Postscript to the Name of the Rose, bls. 73–77, einkum bls. 76–77.
  9. Eco: „The Return of the Middle Ages“, bls. 64–65.
  10. Umberto Eco: Il nome della Rosa, Mílanó: Bompiani 1984, bls. 15. The Name of the Rose, þýð. William Weaver, New York: Warner Books 1984, bls. xviii.
  11. Viola Miglio: „Tryggð í þýðingum. Nafn rósarinnar á ítölsku og íslensku“, Heimur skáldsögunnar, ritstj. Ástráður Eysteinsson, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 2001, bls. 329–336; tilvitnun á bls. 336.
  12. Bók vikunnar, RÚV – Rás 1, 4. október 2014.
  13. Eco: Postscript to the Name of the Rose, bls. 41.
  14. Þ.e.: „Án auga sem les hana, geymir bókin aðeins tákn sem ekki ala af sér hugtök, og því er hún þögul“ (370).
  15. „Semiotics is concerned with everything that can be taken as a sign. A sign is everything which can be taken as significantly substituting for something else. This something else does not necessarily have to exist or to actually be somewhere at the moment in which a sign stands in for it. Thus semiotics is in principle the discipline studying every which can be used in order to lie. If something cannot be used to tell a lie, conversely it cannot be used to tell the truth: it cannot in fact be used „to tell“ at all.“ Umberto Eco: A Theory of Semiotics, Bloomington: Indiana University Press 1979, bls. 7.
  16. Jón Karl Helgason: „Skáldskaparfræði, speglar og miðaldir“, Hugrás, 14. okt. 2015 (http:// hugras.is/2015/10/skaldskaparfraedi-speglar-og-midaldir/). Helga Kress: „Staðlausir stafir. Um slúður sem uppsprettu frásagnar í Íslendingasögum“, Skírnir, vorhefti 1991, bls. 130–156. Greinin er endurprentuð í bók Helgu, Fyrir dyrum fóstru (1996).
  17. Skrifa mætti langt mál um táknræna umgjörð hinnar svörtu tungu í skáldsögunni. Jorge setur eitur á spássíur rits sem hann telur að geymi vanhelgan og hættulegan, semsagt „eitraðan“, texta. Ljóst er að aðrir líta hinsvegar á þennan texta sem heilsusamlega næringu, einskonar læknislyf. Þegar Vilhjálmur spyr grasameistarann Severino hvort í vinnustofu hans sé eitthvað „sem gæti drepið mann“, er svarið: „Margt. Ég er búinn að segja þér að skilin eru mjög óljós milli eiturs og læknislyfs. Grikkir nefndu hvort tveggja pharmacon“ (106). Hér er Eco í óbeinni samræðu við eina af samræðum Platons, Fædros, þar sem meðal annars er fjallað um tvíbendni „farmakons“ sem tákns um tengsl skrifa og minnis/minninga. Þennan þátt í samræðu Platons tók franski hugsuðurinn Jacques Derrida til umræðu og afbyggingar í kunnri ritgerð, „La Pharmacie de Platon“ í bókinni La Dissémination (1972).