Sigurður Pálsson

Sigurður Pálsson

Eftir Arndísi Þórarinsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2017

 

 

Sjónin er pabbinn en heyrnin er mamman, sagði Sigurður Pálsson í fyrsta tímanum og hvessti augun á hópinn. Auðvitað hreyfði enginn andmælum þó að fæstir botnuðu nokkuð í fullyrðingunni. Andrúmsloftið í stofunni var eins og í helgidómi, við vorum öll komin þarna að fótskör meistarans. Hann hélt því ótrauður áfram. Grundvöllur kenningarinnar reyndist vera sá að sjónin væri frekasta skilningarvitið, það sem virtist ráðandi, en að í eyrunum væri tengingin við tilfinningarnar. Orðin, sagði hann, þyrftu því líka að hafa rödd. Eyrun heyra svo miklu betur en augun.

Þetta hljómaði eins og þvættingur.

En eitthvað hlýtur þó að hafa verið í þetta spunnið, því við endurminninguna glymur rödd skáldsins í höfuðhvolfinu.

Tvö námskeið. Tuttugu Evrópustaðlaðar háskólaeiningar. Þrjátíu vikur, eða þar um bil.

Auðvitað engin persónuleg tenging. Ég var allt of hrædd við þetta brosmilda ljúfmenni til þess að slíkt yrði mögulegt. Fólk sem er svona leiftrandi greint getur nefnilega séð í gegnum mann. Á árshátíð ritlistarnema Háskóla Íslands í vor varð ég óvart sessunautur hans og sat eins og steypt í gler allt kvöldið af ótta við að segja eitthvað sem Sigurði þætti flónskulegt.

Eftir á að hyggja held ég samt að fákæn borðdama sé skárri en leiðinleg. Mea culpa, Sigurður.

En eftir þessi tvö misseri í Árnagarði standa ritlistarheilræðin sem hann var svo örlátur á. Og á regnvotu septembersíðdegi, þegar ilmur af blómkálssúpu fikrar sig um íbúðina, raðast þau upp í höfðinu á mér, eins og prúðir dátar skáldskaparlistarinnar. Flest færði hann í orð, útlistaði og hamraði jafnvel á. Önnur læddust hljóðlaust meðfram hinum.

Hið fyrsta varð augljóst um leið og hann snaraðist inn úr dyrunum: Lúkkið skiptir máli. Hann sagði þetta aldrei, þó að hann grínaðist stundum með skáldafrakkann og árin þegar hann bar alpahúfu á götum Reykjavíkur svo að eftir var tekið. En Sigurður vissi hver hann var. Sá sem veit hver hann er getur dregið upp raunsanna mynd af sjálfum sér til þess að sýna heiminum. Sigurður var alltaf óaðfinnanlegur. Alltaf auðþekkjanlegur. Skar sig úr hópnum.

Og þessu tengt: Réttu úr þér. Sé maður á annað borð kominn í skáldafrakkann gengur alls ekki að bera hann með hálfum hug, þannig maður yrði að athlægi. En tökum eftir því að það dugar ekki að vera hnarreistur á götum úti, þetta þarf líka að gilda við skrifborðið. Telji maður sig ekki eiga erindi er hægt að gera ýmislegt skynsamlegra en að kveðja sér hljóðs. Go big or go home.

Sá sem kann íslensku almennilega getur slett eins og hann lystir. Og ekki orð um það meir.

Sigurður var auðvitað skáld, en með hækkandi sól, á þriðjudögum og fimmtudögum, var hann líka kennari. Það er kúnst að fjalla um verk í vinnslu svo gagn sé að, en það kunni hann. Hrósið var mikils virði, gagnrýnin sanngjörn. Eftir stendur: Óþarfi er að hafa umburðarlyndi gagnvart því sem er lélegt. Réttara er að hafa umburðarlyndi gagnvart því að allir gera stundum eitthvað lélegt. Það þarf að tala um það, horfast í augu við það og annaðhvort henda því eða betrumbæta. Og halda svo áfram. Gætum þó að því að dómharka er ekki góð leið til að lesa eigin texta eða annarra, og raunar stórvarhugaverð. Hún getur nefnilega orðið að kæk – og þá fyrst komumst við í vandræði.

Og í beinu framhaldi: Ekki leita að fullkomnun. Fullkomun er dauðinn, því í henni felst endanleiki. Og ritstífla. Eina markmiðið sem vit er í eru framfarir. Og þarna – á þessum síðasta punkti – var fast kveðið að orði í Árnagarði þó raddstyrkur skáldsins væri á hröðu undanhaldi.

Og í guðanna bænum! Orkan á ekki að fara í að leita að umgjörðinni. Bábiljur um að maður geti bara skrifað á nóttunni, á kaffihúsi, undir berum himni eða við önnur tiltekin skilyrði eru bara hlífiskjöldur yfir hinu innra letiblóði sem vill sofa fram eftir.

Þetta snýst nefnilega, í aðra röndina, um jarðbundin vinnubrögð þegar fengist er við hið óhöndlanlega. Viðráðanleg markmið eru til dæmis annað lykilatriði. Sé ferðinni heitið á Selfoss, fyrir alla muni forðastu að lýsa því yfir að Selfoss sé áfangastaðurinn. Það er ávísun á uppgjöf í Ártúnsbrekkunni. Það má stefna á Selfoss ef ætlunin er að aka hringinn.

Lesum. Hvernig má það vera að mér hafi ekki lánast að hafa þetta efsta heilræðið á listanum, þetta æðsta boðorð, það sem námskeiðin hans Sigurðar gengu öðru fremur út á? Það er auðvitað ófyrirgefanlegur klaufagangur. En það er gott að muna að maður velur sér andlega fjölskyldu. Heimurinn er yfirfullur af fólki sem hefur gert eitthvað brjálað með orðum. Maður stækkar um nokkur númer í hvert sinn sem maður hnýtur um eitthvað nýtt og magnað. Og eina leiðin til þess að verða læs á eigin texta er að lesa texta annarra.

Það er hægt að gefa mikið af sér án þess að leyfa öðrum að taka allt sem þeir vilja. Sigurður var örlátur á sjálfan sig, hugsanir sínar og upplifanir. Hann sagði oft meira en maður átti von á, svo maður sat eftir, undrandi og snortinn yfir því að hafa verið treyst fyrir frásögninni. En hann gætti tíma síns og setti mörk. Annars hefði hann verið étinn lifandi.

Talandi um það. Tungumálið er fullt af næringarsnauðum skyndiréttum. Eins og frasanum um að vera étinn lifandi. Steingerður frasi, löngu úr snertingu við spriklandi myndmál. Það er hlutverk textasmiðs að sprengja upp tungumálið, gera eitthvað nýtt við það, koma lesandanum á óvart með því. Af hverju skyldi fólk annars standa í þessu?

Það þarf ekki að skilja til þess að njóta. Það er líka nautn í því óræða. Menntaskólakennari sem kenndi þér ljóðgreiningu hefur tekið sér bólfestu í hugskoti þínu, alveg óboðinn, og krefur alla texta sem hann fyrirfinnur um svör. Sýndu honum leiðina út í veröldina. Þið verðið bæði hamingjusamari þannig.

Það má samt pæla í tækni. Þó það nú væri, þegar fólk hyggst gera þetta að ævistarfi. Það má velta fyrir sér byggingu, flokka niður helstu mælskubrögð og reyna sig við þau. Þetta er ekki andstæða þess að leggja stund á ósjálfráða skrift eða leiki súrrealistanna, heldur systurverkfæri.

(Það var lán að koma súrrealistunum að hérna, þó ekki væri nema í framhjáhlaupi. Þeir skipta máli. Rétt eins og talnaspekin og ljóðrænir eiginleikar danskrar tungu og fleira sem er ekki beinlínis heilræði og tilheyrir þar með ekki hér. En súrrealistarnir og undirmeðvitundin skipta máli. Því við sitjum öll á gullnámu sem er hægt að opna með því að stunda ofurlitla ósjálfráða skrift. Munum það.)

Tölum sértækt, ekki almennt. Það sem kveikir eld í ímyndunaraflinu eru myndir sem lesandi hefur ekki séð áður. Myndlíking er aktívt fyrirbæri til að skilja veröldina, sagði Sigurður. Og notaði hana sem slíka.

Og þessu nátengt: Hið smáa skiptir máli. Of stór viðfangsefni verða of almenn og yfirþyrmandi. Eilífðin. Ástin. Dauðinn. Tíminn. Smáatriði búa til mynd og myndir kalla fram tilfinningu. Þannig er ljóðlistin stöðugur dans myndlistar og ritlistar. Prófum þetta: Undir skólastofuborði kúra rýrir fótleggir í buxum úr þykku ullarefni, sem nú eru orðnar alltof víðar. Leggirnir eru svo grannvaxnir að þeir eru krosslagðir tvisvar sinnum, bæði við hné og ökla. Vel pússaður skór slær ógreinanlegan takt á korkflísarnar. Svona lagað getur verið miklu áhrifameira en löng saga af krabbameini og feigð. Ef rétt er farið með.

Raunar, ef við ættum að benda á leiðarstefið í þessu öllu saman – sem er þó alls ekki víst að við ættum að gera – þá snýst það um frávik. Díalektískt mótvægi. Orðaleik sem kitlar tungumálið, mynd sem vekur spurningar, eitthvað sem kemur á óvart. Alpahúfu í Reykjavík árið 1967.

En höldum áfram.

Nefndum við ekki rödd áðan? Það er gaman að leika sér með raddir. Góð eftirherma glæðir hverja frásögn lífi og er alltaf viðeigandi. Í fyrstu kennslustund gæti maður enn haldið að skáld yfir miðjum aldri séu svo vönd að virðingu sinni að þau notist ekki við eftirhermur. Þvert á móti. Í annarlok skilur maður að það væri fullkomið ábyrgðarleysi að grípa ekki til eftirhermunnar. Af því að rödd er lykilatriði – og svo verður líka að vera gaman.

Já, það verður að vera skemmtilegt. Og fegurðin er ekki feimnismál. Það er ekki væmni að gleðjast yfir veröldinni. Opnum faðminn. Njótum. Það er eina leiðin til að gera þetta. Það er bannað að skrifa nema upptendraður.

Upptalningin er að klárast. Kennarinn okkar reyndi að rúma niðurstöður áratugarannsóknarstarfa á sviði skáldskaparlistarinnar á einu misseri. Síðar er misserið dregið saman í stuttan lista. Kennisetningarnar þurrkaðar, vakúmpakkaðar, varðveittar. Kannski lítilfjörlegar að sjá, en búnar einhverjum kynngikrafti, eins og skorpin telauf sem geta á andartaki kallað fram angan liðinna sumra af fjarlægum slóðum.

Vonandi.

Kannski býr líka í þeim hugrekki. Stundi maður dveljandi lestur, rannsaki heiminn með myndhverfingum og fagni hinu fagra öðlast maður kannski innri vissu um það hver maður er. Og þá koðnar röddin varla niður í hálsinum þegar maður dettur í lukkupottinn í borðherralottói veraldarinnar.

En það er eitt heilræði eftir. Eitt af þessum óyrtu, sem varð smám saman ljóst í hvert sinn sem minnst var á höfund og Sigurður gat eftir andartaksumhugsun nefnt fæðingarár skáldsins, helsta samferðafólk þess og áhrifavalda. Sagan skiptir máli. Samhengi hlutanna skiptir máli, röð atvika, ártöl, staðir. Ef samhengi orsaka og afleiðinga á að verða lifandi þarf þetta allt að vera til staðar í kollinum á manni – ekki bara í símanum, á Wikipediu eða í rykfallinni fermingargjöf.

Setjum þetta því á okkur, nú þegar blómkálssúpan er tilbúin, því þetta er mikilvægt: Frávikið Sigurður Pálsson, maðurinn í skáldafrakkanum, fæddist á Skinnastað árið 1948. Hann lést í Reykjavík árið 2017.