eftir Ásgeir H. Ingólfsson
Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2021
Saša Stanišić býr í Hamborg, en Hamborg kemur þó harla lítið við sögu í skáldskap hans. Önnur skáldsaga Stanišić, Fyrir veisluna (Vor dem Fest), gerist í Fürstenfeld, pínulitlum þýskum smábæ við pólsku landamærin, en hinar skáldsögurnar tvær hafa fyrst og fremst eina aðalpersónu: Višegrad. Stanišić fæddist árið 1978 í þessari borg í austurhluta Bosníu en þurfti að flýja hana árið 1992, þegar stríðin sem splundruðu gömlu Júgóslavíu hröktu fjölskylduna á brott. Þau fluttu til Heidelberg í Þýskalandi og hann lærði þýskuna fyrst þá, fjórtán ára gamall. 41 árs gamall hlaut hann svo Þýsku bókmenntaverðlaunin, Deutscher Buchpreis, fyrir bókina Uppruna (Herkunft). Þetta var haustið 2019, sama haust og Peter Handke hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Í þakkarræðu sinni gagnrýndi Stanišić Handke harðlega fyrir skrif hans um Júgóslavíustríðin, enda hefur Handke stutt Serba dyggilega og gekk svo langt að gerast sérlegur bandamaður Slobodan Milošević.
„Ég var svo heppinn að ná að flýja það sem Peter Handke lýsir ekki í skrifum sínum,“ sagði Stanišić meðal annars. En hann flúði það þó aldrei alveg – bækur hans fjalla um gamla heimalandið öðru fremur, Þýskaland er í besta falli aukapersóna. Í raun má segja að helsta yrkisefni Stanišić kristallist ágætlega í titli verðlaunabókarinnar:
UPP
RU
NI
Uppruni. Einfalt orð en samt svo flókið – allavega fyrir suma. Það hvernig því er skipt upp á bókarkápunni er vísbending um erindi bókarinnar; að taka orðið í sundur og greina það. Þetta er bók um uppruna sem liggur víða, nánar tiltekið í Višegrad, Oskoruša og Heidelberg.
Stanišić er að hugsa til baka; til fæðingarstaðarins Višegrad, til Heidelberg, þar sem þýski hlutinn af honum varð til, og til Oskoruša, þorpsins þar sem allir heita Stanišić í kirkjugarðinum. Til upprunans. Þetta er of brotakennd saga til að geta beinlínis kallast ævisaga, þetta eru kannski frekar minningarbrot Saša og forfeðra hans. Aðalpersónurnar eru þó alltaf hann og amman, amma Kristina.
Sagan hefst í Višegrad. Þar hefur amman komið auga á stúlku neðar í götunni. „Það er 7. mars 2018 í Višegrad, Bosníu og Hersegóvínu. Amma er áttatíu og sjö ára og ellefu ára.“ (5) Amman er komin með elliglöp, minningarnar orðnar jafn brotakenndar og leifar landsins sem hún fæddist í. Í næsta kafla rifjar Saša svo upp eigin fæðingu og vatnavextina sem fylgdu: „Hún Drína mín er líka taugaveikluð.“ (6) Tíu ára afmælisgjöfin hans var svo að fá að fylgjast með því „hvernig hliðará Drínu lumbraði á brúnni með vorinu í fjöllunum.“ (8)
Ef þetta eru ykkur fyrstu kynni af bosnískum bókmenntum þá er þessi áhersla á ánna kannski kyndug – en Drína er ein aðalpersóna bosnískra bókmennta. Brúin yfir Drínu eftir Ivo Andrić var hryggjarstykkið í bókmenntum gömlu Júgóslavíu og það fæðist enginn í heimabæ þeirrar brúar nema áin láti skoðun sína í ljós.
En þegar unglingsárin banka upp á þá bankar líka stríðið upp á. Fjölskyldan flýr, fyrst Saša og mamma hans, pabbinn kemur hálfu ári síðar en amman verður eftir. Þetta er blönduð fjölskylda, eins og svo margar, amman og pabbinn eru serbnesk en mamman bosnísk. Múslímsk að nafninu til, en bosnískir múslímar eru ekki þeir trúrækustu – lengi fram eftir aldri hélt Saša að trúin snérist eingöngu um að borða ekki svínakjöt.
Fjölskyldan endar í Heidelberg í Þýskalandi, þeirri fornu háskólaborg, en áður en við kynnumst henni almennilega förum við fram í tímann – til ársins 2009 þegar fullorðinn Saša ferðast með ömmu sinni til Oskoruša. Þetta er afskekkt þrettán manna þorp lengst upp í fjöllum sem einu sinni var töluvert fjölmennara, það fækkar svo ört að það er óvíst að nokkur sé eftir þegar þetta ratar á prent.
Þar hitta þau Gavrilo frænda og þar hitti Kristina amma fyrir löngu síðan hann Pero afa í bosnískum hringdansi, þar sem hann steig ítrekað á tærnar á henni, en reyndist betri í að tala. Eða það er allavega ein útgáfa sögunnar, þær eru fleiri. Hér eru alltaf fleiri sögur.
Þangað koma fáir, þangað villtist þó einu sinni bakpokaferðalangur frá Íslandi og endaði í fjórða sæti í dómínó-keppni. Sjálfur hef ég ekki komið til Oskoruša en ég stökk einu sinni út úr rútunni við Višegrad og bankaði upp á hjá Kristinu ömmu og skrifaði um heimsóknina og þá nýútkomna frumraun Saša, Hermaður gerir við grammafón, í hausthefti TMM. Sú saga var líka ævisöguleg að einhverju óljósu leyti en þó ekki nærri því jafn opinskátt og þessi. Þetta var vorið 2008 og því hjó ég sérstaklega eftir þessari línu í Uppruna: „2009 var síðasta góða árið hennar ömmu.“ (19)
Unglingauppreisn flóttamannsins og vatnadísir fortíðarinnar
Hvaðan ertu? Þetta er spurningin sem Saša hefur verið á flótta frá. Þetta er hans stóra tilvistarlega spurning, spurning sem hann forðast að svara. Hann aðlagast þýsku samfélagi og aðlögunin verður hans uppreisn, mótþrói hans beindist gegn tilbeiðslu upprunans og gegn tálmyndinni af þjóðlegri samsemd. (215)
Það að skrifa þessa bók er til marks um að hann sé hættur að flýja en þó ekki til marks um að hann hafi skipt um skoðun. Það er sterkur undirliggjandi þráður um að uppruni manns sé fyrst og fremst spurning um heppni, ekki mannkosti. En þessa gæfu (eða ógæfu) þurfi þó að skoða nánar til að skilja hvernig eigin gæfa og ógæfa mótar mann.
Uppruni hans felst í því að tilheyra bæði tættu fyrrum föðurlandi og tættri fjölskyldu, sem er dreifð víðsvegar um heiminn, sem getur verið óendanlega sárt fyrir gamla konu. Í miðju stríði talar hann við ömmuna í síma, ömmuna sem varð eftir í Višegrad. Hann spyr hvort hún sé einmana. Hún spyr: „Hvenær kemurðu eiginlega?“ (154). Hvenær endar stríðið? Hvenær kemur fortíðin aftur?
Saša á svo vitaskuld fleiri ömmur og afa. Mejrema amma sem spáir í baunir og lestarvörðurinn Muhamed koma við sögu. En Kristina er sú síðasta sem lifir af þessari gömlu kynslóð – og kom þar að auki mikið að uppeldi Saša, hún sá um strákinn þegar foreldrarnir þurftu að vinna eða læra.
Það er eins og þessi hverfandi bær, Oskoruša, kveiki heilt ættarmót í hausnum á honum þegar þau snæða hádegismat í kirkjugarðinum. Allir þessir legsteinar með nafninu hans. Saga Pero afa vitrast manni í gegnum sögu Kristinu og fleiri forfeður, frænkur og frændur koma við sögu. Sérstaklega er Zagorka, systir Kristinu ömmu, eftirminnileg persóna; verðandi geimfari sem lætur á endanum nægja að geitinni hennar sé skotið út í geim.
Að ná sér í hversdaginn
Sumir kaflar bókarinnar eru bréf til útlendingastofnunar Þýskalands sem aldrei voru send. Það er ekki sjálfsagt að fá að vera áfram þegar stríðsólgan hjaðnar, þá upphefst nýtt stríð. Stríðið um að fá að vera. Stanišić-fjölskyldan bæði vinnur þá baráttu og tapar henni. Foreldrar Saša tapa henni og flytja til Bandaríkjanna, þar sem þau fá á endanum miklu betri vinnu en í Þýskalandi, en Saša nær að sannfæra útlendingastofnun; fyrst með því að fara í háskóla og svo með því að gerast rithöfundur. Fyrst þarf hann að vísu að sannfæra þau um að ritstörf séu alvöru starf. Að því loknu er honum bannað að vinna við neitt annað, dvalarleyfið er háð ritstörfum. „Það hentaði vel. Ég vildi heldur ekki vinna við neitt annað.“ (213)
En þótt hann fari í fínan háskóla í Heidelberg og nái á endanum að sanna sig sem rithöfundur á sínu öðru tungumáli þá fjallar Heidelberg-kafli bókarinnar minnst um það, hann fjallar miklu frekar um grunnskólann og ARAL, bensínstöðina sem verður félagsheimili týndra krakka víðsvegar að úr heiminum. „Wojtek, Piero, Rahim, Rike, Olli, Emil. Með þeim og vegna þeirra týndist ég ekki í Emmertsgrund og í Heidelberg. Við gerðum eitthvað úr tímanum og staðnum þótt það væri stundum eintómur fíflagangur.“ (215)
Það sem sameinar þessa flóttamannakrakka eru ekki endilega hörmungar ástandsins sem þau flúðu, heldur miklu frekar það að þurfa að fresta stærri draumum og finna núllstillingu: „Að ná tungumálinu og ná sér í vini. Að ná sér í hversdaginn.“ (148) Já, og kannski að komast heim aftur, einn daginn. Þótt auðvitað reynist það oft of seint, þegar stríðinu slotar er „heima“ oft orðið annar staður. Þarna eru sjö tungumál töluð í röðinni í kjörbúðinni og það býr til samheldni; þau eru öll annars staðar frá.
Þessir krakkar virðast líka hafa verið heppin með skóla; kennurunum er flestum fallega lýst – og örugglega að hluta því að þakka að margir krakkarnir virðast spjara sig ágætlega, eitthvað sem er ekkert sjálfsagt með allar þessar hindranir í veginum. Svo ekki sé talað um Doktor Heima, tannlækninn sem bjargar tönnum innflytjendakrakka sem eru ekki með sjúkratryggingu.
Það er jafnvel ekki alltaf slæmt að vera annars staðar frá, í labbitúr með stelpu sem hann er skotinn í veltir Saša fyrir sér hvort flóttamannaörlög gefi aukastig. En oftast er hann samt þreyttur á að vera ævinlega öðruvísi.
Gaddavírsgirðing í Ungverjalandi
Við gegnum stefnulaust um veröld þar sem allt var enn nafnlaust: göturnar, fljótið, við sjálf. Enginn skildi okkur, við skildum engan. (121)
Svona er fyrsta göngutúr þeirra mæðgina í Heidelberg lýst. Móðirin reynir að róa Saša, láta honum líða vel, en fullorðni sögumaðurinn Saša sér betur að mamman var sjálf alveg jafn týnd, alveg jafn hrædd, alveg jafn ringluð.
Foreldrarnir verða mun frekar fyrir misrétti heldur en hann sjálfur. Börnunum er betur tekið – þau fá „afslátt“ af misréttinu, þau eiga séns, skólinn er athvarf þar sem þau geta undirbúið sig undir þýskan veruleika. Vinnan hins vegar eyðileggur á þér bakið. Undirliggjandi skýring þess er eflaust ekki bara ást á börnum, heldur líka sannfæring um sakleysi þeirra – og um leið sekt foreldranna, var þetta stríð ekki bara þeim að kenna? Um leið veltir maður fyrir sér hvort móttökur hinna fullorðnu mættu ekki hreinlega vera líkari móttökum barnanna; að gefa þeim rými á að aðlagast og þroskast í nýju umhverfi.
Hámenntaðir foreldrarnir eiga í mestu erfiðleikum með að fá vinnu. Saša mætir með þeim í atvinnuviðtöl til að túlka og þar mætir þeim meðaumkunaraugnaráð Þjóðverja „sem vilja vel, en vilja samt ekki.“ (135)
Þannig verður Ameríkuútlegð foreldranna þeim í raun blessun; sú vinna sem þau þó fengu í Heidelberg var í raun að eyðileggja þau. Saša lýsir því líka hvernig uppruninn verður skyndilega til trafala þegar hann eldist, þótt hann sé þá orðin altalandi. Þessir krókar í nafninu reynast hindrun, hjá leigusölum, hjá opinberum starfsmönnum, alls staðar þar sem hann þarf að gera grein fyrir sjálfum sér skriflega. Þangað til hann verður verðlaunaður rithöfundur, þá hætta krókarnir að skipta máli.
Við og hinir, þetta var ný og gömul orðræða í Júgóslavíu þegar Saša er að alast upp. Því eftir dauða Tito þá fóru að heyrast nýjar sögur í ríkjasambandinu.
Nýju sögumennirnir hétu Milošević, Izetbegović, Tuđman. Þeir fóru í langa upplestrarferð til þjóðarinnar sinnar.
Grein: Reiðilestur með hvatningarívafi. (95)
Svona hefst orðræðugreining á uppgangi þjóðernishyggju í Júgóslavíu í upptakti stríðsins, kafli sem ætti að vera skyldulesning í öllum stjórnmálakúrsum um popúlisma og þjóðernishyggju. Þetta er kjarnyrt greining á orðræðunum og aðferðunum sem sundruðu heilli þjóð á altari framapots örfárra manna. En þetta var seint á síðustu öld. Núna eru stríðin annars staðar og móttökurnar aðrar: „Ferðinni lyki við gaddavírsgirðingu í Ungverjalandi.“ (120)
Höfundurinn er mjög meðvitaður um uppgang þjóðernishyggju annars staðar í álfunni og alla þá sem nú koma til Þýskalands og annarra Evrópuríkja í svipaðri stöðu og hann var fyrir 30 árum síðan. Hann er líka mjög meðvitaður um að hann var heppinn. Ekki kannski með að hafa þurft að yfirgefa heimabæinn, en með að hafa lent á góðum stað. Stað þar sem hann gat skapað sér framtíð – og hér og þar um bókina má finna hollar áminning um að ýmsir, sem hefðu vel getað spjarað sig jafn vel, voru einfaldlega ekki jafn heppnir.
Bókin virkar ágætlega sem dæmisaga fyrir nútímann – en þetta er samt fyrst og fremst saga um Júgóslavíustríðin.
Svart hjarta símaklefans
Stríðinu er þó haldið í fjarlægð. Hér er lítið um stríðslýsingar, enda flúði fjölskyldan tímanlega. En það er samt alltumlykjandi, það er harmurinn á bak við allt, sagan sem bjó til aðra sögu handa þeim en þeim virtist upphaflega ásköpuð.
Kápumynd íslensku útgáfunnar er í raun svipmynd af lífi Saša ef hann hefði ekki flúið, ungur drengur í borgarrústum. Ég hitti einu sinni þennan strák líka. Hann hafði spjarað sig prýðisvel, bernskuheimilinu hafði hann breytt í farfuglaheimili sem ég gisti á. En kannski er þetta ekki hann, kannski er þetta hinn, þessi sem ekki lifði.
Saša minnist síðasta dans foreldranna fyrir stríð, hann sér stríðsglæpamenn á vegg frænda síns og gerir ekki athugasemdir, veit að stríðshetjur og stríðsglæpamenn eru flokkar með hættulega mikla skörun á ákveðnum stöðum. Hann rifjar upp ættingja sem entist aldur til að upplifa bæði heimsstyrjöldina síðari og Júgóslavíustríðin.
Hans upplifun af stríðinu var úr fjarska, úr símaklefa í Heidelberg með rifinni símaskrá og svörtu hjarta sem krotað var á gluggann. Stundum var ekki svarað, lengi. „Í margar vikur vissum við ekki hvort sá sem við vildum tala við gæti yfirleitt talað lengur.“ (68) Svona er stríð úr fjarlægð.
Þegar stríð er í fjarlægri framtíð vitnast það okkur svo í skólabókunum, jafnvel án þess að við tökum eftir því. „Ofbeldi er ljósmóðir sérhvers gamals samfélags sem ber nýtt undir belti,“ (117) les móðirin í lest, þá ung stúdína í marxískum fræðum.
Stríð minnir líka oft ekkert á stríð þegar það er að klæða sig í herklæðin. Bara hversdagslegir draugar sem maður berst gegn en trúir ekki að verði þær risavöxnu ófreskjur sem þær þó verða ef þær eru nógu vel fóðraðar. Það var óðaverðbólga og kreppa í Júgóslavíu löngu fyrir stríð, en fólk hélt upp til hópa áfram að lifa sínu hversdagslífi. „Kreppan hafði verið þolanleg fyrir mömmu – fyrir flesta – þangað til hún varð lífshættuleg.“ (118) Það er ágætis áminning fyrir okkur í kóf-kreppu heimsins; að hún getur svo auðveldlega breyst í eitthvað miklu verra ef við fóðrum skrímslin of mikið.
Þótt Júgóslavíustríðinu sé löngu lokið þá lifir það enn. Spillingin er skilgetið afkvæmi þess – ekki að þetta hafi verið óspillt land fyrir, en eftir stríðið hafa ófáir stríðsherrar haldið sínum völdum með einum og öðrum hætti og halda spillingunni gangandi. Þetta sér móðirin best:
Hún sér: áhugaleysið, það ónýta, það hálfkaraða, frændhyglina, niðurníðsluna, hið eilífa rökkur, hinn eilífa gærdag. Hún hatar. Að síðasti eigandi Albos yfirgaf skrifstofu sína einn morguninn með plastpoka fulla af reiðufé, sneri tvisvar aftur til að bera burt fleiri poka, fram hjá þegjandi verkafólkinu við þegjandi saumavélarnar. (246)
Gagnvart þessum kringumstæðum fær Saša hálfgert samviskubit ef hann er spurður hvernig hann hafi það og neyðist til að segja: „Ég hef það fínt.“ (257)
Að yrkja borg upp á nýtt
Uppruni er líka bók um skáldskap. Þennan balkneska skáldskap sem ber iðulega með sér sitt eigið töfraraunsæi, ólgu í blóðinu og óútreiknanlega framtíð sem og fortíð. Þjóðsögurnar eru allt um lykjandi og um leið hversdagslegar; fyllibyttan Huso sem renndi sér með þeim niður sleðabrekkuna verður ein slík goðsögn. Hér kvikna goðsögur um flesta. Þær kvikna um langömmuna Rumšu, vatnadísina sem söng langafann til sín. Langafann ferjumanninn, ferjumanninn sem kunni ekki að synda.
Hversdagslegir atburðir fá á sig goðsagnakenndan blæ. Snemma í bókinni er hreint stórkostleg lýsing á undanúrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða árið 1991 á milli Rauðu stjörnunnar í Belgrad og Bayern München. Risa lands æsku hans og risa framtíðarlandsins: „Á mikilvæga leiki söfnuðust hundrað þúsund manns á Makarana-völlinn okkar í Belgrad, þar af að minnsta kosti fimmtíu þúsund geðsjúklingar. Alltaf kviknaði í einhverju, alltaf sungu allir.“ (12) Skömmu síðar tóku geðsjúklingarnir yfir, kveiktu í landinu og söngurinn þagnaði.
Upptalning á stjörnum liðsins er upptalning á framtíð sem aldrei varð. Hefði kjarni þessa liðs ekki orðið heimsmeistari fyrir Júgóslavíu, ef stríðið hefði aldrei orðið? Það var alveg nógu sterkt til þess – en aðalmálið er samt þetta: sú eftirá-von var táknmynd um veröld sem aldrei varð, veröld sem virtist þó vera framtíðin vorið 1991. Þangað til það kviknaði í púðurtunnunni. Íþróttirnar eru víðar í sögunni, fyrst og fremst til að bregða upp mynd af bernsku- og unglingsárunum. Þar bregst raunar afskaplega fimleg og falleg þýðing Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur á einum stað, maður hittir nefnilega ekki úr aukaköstum í körfubolta.
Þetta er bók sem manni dettur ósjálfrátt í hug hafi verið samin fyrst á serbó-króatísku – nema í þau skipti sem maður er bókstaflega minntur á að hún er skrifuð á þýsku. Það er bæði höfundi og þýðanda til hróss og til merkis um að góðar bókmenntir geta lifnað á öllum tungumálum og í gegnum öll tungumál.
Við sjáum í bókinni svipmyndir af því hvernig Saša verður að skáldi. Hvernig þýskukennarinn hans nappaði hann við að skrifa ljóð þegar hann átti að vera að hlusta á kennarann tala um ljóð, og varð í kjölfarið (óformlega) fyrsti ritstjórinn hans. En hann lærir ekki minna af sögum jafnaldra sinna á ARAL-bensínstöðinni. Krakkarnir eru óborganlega fyndin og skemmtileg, en það sem meira er um vert, þykir þeim undurvænt um hvert annað, af því öll þurfa þau að finna nýja vini í nýju landi.
Við sjáum Piero, vin Saša, uppveðraðan eftir að hafa lesið Sléttuúlfinn eftir Hermann Hesse og uppgötvað hvernig bækur geta talað til sín, jafnvel verið um hann sjálfan. Skyndilega verður þá sérsvið Saša mikilvægt; Piero vill meðmæli. Hann er samt sjálfur enn að átta sig á þýskum bókmenntum, getur bara mælt með Brecht, Kafka og Fallada.
Maður finnur um leið fyrir skyldleika við fleiri listamenn. Þjóðskáldið Ivo Andrić er undirliggjandi, það þarf varla að nefna hann, hann streymir með Drínu sjálfri. Sömuleiðis minnir sumt á þekktasta leikstjóra Balkanskagans, Emir Kusturica, en maður myndi ekki hafa hátt um það við höfundinn, sem skýtur létt á Kusturica snemma í bókinni og úthúðar honum seinna meir, enda Kusturica sannarlega umdeildur heima fyrir, bæði fyrir myndirnar og ekki síður fyrir pólitískar skoðanir (sem margir telja sig greina í myndum hans) og vinfengi við vafasama serbneska ráðamenn.
Stanišić má þó einnig tengja við önnur innflytjendaskáld, eins og þýsk-tyrkneska leikstjórann Fatih Akin, hvers bestu myndir eru iðulega einhvers konar flakk á milli Þýskalands og Tyrklands, bókstaflegt og metafórískt, sem og palistínsk-ættaða danska ljóðskáldsins Yahya Hassan. Saša er langt í frá sami villingur og Yahya, en það má alveg ímynda sér Yahya sem einn vina hans á ARAL-bensínstöðinni.
Sagnaáráttuna sækir hann svo til forfeðranna sem voru alltaf að segja sögur og eins var hann alinn upp af Hollywood rétt eins og við vestrænir jafnaldrar hans, þótt hann hafi óvenju ungur þurft að sætta sig við döbbuðu útgáfuna, eða eins og hann lýsir þýsku sjónvarpskvöldi: „Bruce Willis talar þýsku. Þú skilur Bruce Willis alveg þokkalega. Bruce Willis líður ekki sem best líkamlega. „Yippie-ya-yeah, Schweinebacke,“ segir hann og berst fyrir fjölskyldu sína.“ (132)
En Saša Stanišić er líka skáld vegna þess hvaðan hann kemur. „Mér virðist sem ég standi vegna sögu þessarar borgar, Višegrad, og vegna hamingju bernsku minnar í skuld sem ég þurfi að greiða með sögum.“ (193) Hann flytur aldrei aftur heim en hann fer þangað samt alltaf aftur. Í sögu eftir sögu snýr hann aftur og játar að jafnvel sögurnar sem gerast annars staðar eigi samt alltaf við Višegrad. Hann flytur aldrei aftur heim en þótt hann þurfi ekki lengur að útskýra hvers vegna, þá er hann samt alltaf að því – eins og seinbúið viðbragð við því að hafa verið rifinn upp með rótum árið eftir að Rauða stjarnan varð Evrópumeistari.
„Þessi borg verður aldrei aftur það sem hún einu sinni var,“ (246) segja þeir sem enn búa í Višegrad og það er harmur borgarinnar við Drínu. En Saša getur reynt að yrkja nýja borg í hennar stað. Eitthvað sem aldrei mun takast – en tilraunin leiðir hins vegar af sér fjandi góðan skáldskap. Sagan flakkar um í tíma og rúmi, af miklu öryggi færs sagnamanns, enda segir Saša snemma: „Útúrdúrinn er mín aðferð til að skrifa.“ (36) Það gerir hann með sögum af sjálfum sér á mismunandi æviskeiðum og ótal sögum af forfeðrunum – og stundum er hans leið til að skrifa einfaldlega að lýsa horfnum heim með setningum eins og þessari: „Laugardagskvöldið í nóvember 1987 reykir.“ (187)
Goðsögurnar eru þó ekki bara fólk sem fortíðin breytir í vatnadísir, hér eru líka snákar og drekar, eitur og eldur, örlög Júgóslavíu í raunverulegum og óraunverulegum kynjaskepnum; eitrið sem draup nógu lengi til að drekarnir fyndu lyktina og komu fljúgandi og spúðu sínum eldi.
Að skora dreka gleymskunnar á hólm
Þetta er líka saga um ellina og elliglöp. Elliglöp í landi sem er hægt og rólega að gleyma því að það hafi nokkru sinni verið til. Það er dásamleg frásögn um miðja bók um Júgóslavíudaginn. Sá dagur er 29. nóvember á ári hverju og þá „hittast Júgóslavar, sem eru ekki til lengur, á táknrænum, Júgóslavíuþrungnum stöðum.“ (87)
Þarna getur fólk sameinast um sameiginlega fortíð, sem og sameiginlega framtíð sem aldrei varð. „Ef Tito væri á lífi væri Júgóslavía í dag eins og Sviss, bara ekki eins stíf.“ segir einn og annar heldur sig í fortíðinni og flytur fyrirlesturinn „Josip Broz Tito og sannleikurinn um „þursabitið“ hans á 40. afmælisdegi hinnar miklu sósíalísku októberbyltingar.“ (90) Þetta er útihátíð gamals fólks sem var rænt æskunni og framtíðinni, þannig að það rígheldur í fortíðina.
Ellin er auðvitað söm við sig alls staðar. Við fáum svipmynd af bónda sem selur allt búféð og er búinn að reikna út að hann geti lifað af peningunum það sem hann á ólifað, en svo lifir hann óvart alltof lengi. Þegar Saša spyr frétta segir amman kjarnyrt: „Síðan þú varst hérna síðast hefur enginn dáið eða misst glóruna.“ En það var áður en hún fór að missa minnið. Sem var ein kveikjan að bókinni. „Þegar Kristina amma mín fór að týna minningum byrjaði ég að safna þeim.“ (63)
Heimurinn er vitaskuld allur fullur af elliglöpum og við sem höfum horft upp á aðstandendur fá elliglöp ofan í sykursýki glottum ósjálfrátt við setningu á borð við: „Amma má ekki borða allt, í laumi borðar hún allt.“ (255) Af því þegar minnið fer kemur líka prakkarinn oft upp í fólki aftur, mótþrói æskunnar lætur aftur á sér kræla þegar allir eru skyndilega farnir að segja þeim fyrir verkum aftur.
Elliglöpin ríma líka óþyrmilega við fósturjörðina. Júgóslavía er land gleymskunnar, land sem er ekki lengur til og þeir sem kalla sig samt enn Júgóslava verða sífellt eldri, minningin fölnar og sífellt færri munu halda Júgóslavíudaginn hátíðlegan.
Í gegnum síðustu heimsóknir hans til ömmunnar fara svo kynslóðirnar að renna saman. Hann prófar jakka afa síns á meðan amman dottar, mátar sig við forfeðurna. Finnur gamla mynd úr eigin átta ára afmæli sem hann sýnir eigin syni. „„Hver er þetta?“ Ég bendi á strákinn í prjónavestinu. „Þetta er ég,“ segir sonur minn.“ (107)
Sjálfur rennur hann saman við Pero afa sinn, amman í tímavél elliglapanna kallar á hann, hann Pero, hann Saša, sem skyndilega hafa runnið saman. Og ég hugsa til baka, þegar ég var í heimsókn hjá Kristinu Stanišić. Sú einfalda tilviljun að ég hafði hitt Saša í fimm mínútur hinum megin í álfunni og beðið hann um hugmyndir fyrir væntanlegt Balkanskagaferðalag og fengið heimilisfang að launum varð til þess að ég gekk óvænt inn í hlutverk týnda sonarins. Saša var annars staðar en ég varð óvænt tenging hennar við hans heim. Heim skáldskaparins, heim vestursins, heiminn handan þess heims sem við vorum stödd í þá.
En það var árið 2008, árið fyrir síðasta góða árið hennar. Elliglöpin voru ekki farin að láta á sér kræla, sem sýnir kannski að það hvernig hún ruglar saman ættingjum eru ekki bara elliglöp heldur líka óskhyggja, hún sér þá hver í öðrum og vill særa til sín fortíðina. Þannig er hún enn skörp í hausnum þegar hún stillir Saša upp fyrir myndatöku, óvenju ákveðin um hvar nákvæmlega hann stilli sér upp – og það er ekki fyrr en löngu seinna að hann finnur mynd af afa sínum á nákvæmlega sama stað í nákvæmlega sömu stellingu.
Þegar líður að lokum bókarinnar áttar maður sig svo enn betur á því hvernig hún er í raun framhald af Hermaður gerir við grammafón. Þar er aðalpersónan Aleksandar sjálfskipað hirðskáld hins ófullgerða, bókin er viljandi ókláruð, viljandi full af lausum endum. Sundruð þjóð verður að sundraðri bók. Uppruni er alls ekki jafn tætt, þótt hún þvælist á milli tímaskeiða og tíma þá klárar hún setningarnar sínar.
En í lokin gerbreytist sagan. Við höfðum fengið um það örfáar vísbendingar; þegar hann reynir sig við hlutverkaleiki á unglingsárum og í blábyrjun sögunnar þegar hann uppgötvaði þá tegund ævintýrabóka sem eru gagnvirkar að hætti Þinnar eigin sögu-bókanna sem Ævar Þór Benediktsson hefur verð duglegur að færa íslenskum börnum.
Ein slík saga er Drekabælið, síðustu 60 síður þessarar bókar. Ómögulegt er að kjafta frá endinum þótt ég vildi, af því þeir eru margir og hver og einn lesandi velur sér sinn eigin endi. Ef þú lýgur ferðu á blaðsíðu 342, ef þú segir satt ferðu á blaðsíðu 295.
Þetta eru tilgátur um ömmu, tilgátur um líf sem er lokið. Rithöfundur að reyna að endurskrifa endann, aftur og aftur. Þangað til hann bjargaði öllum drögunum úr ruslakörfunni. Þetta er eðlilegur endir rithöfundar sem nýtur sín í útúrdúrum og eðlileg frásögn um elliglöp þar sem hefðbundinn frásagnarmáti hefur runnið sitt skeið á enda.
Það má alveg láta einn endi duga, þann sem maður rambar á fyrst, því allir endarnir fylgja bæði innri lógík og hafa samsvörun við bókina í heild. En það er líka hægt að fara fram og aftur eins og ég gerði og prófa alla mögulega enda, allar mögulegar leiðir að endanum. Þá áttar maður sig líka betur á því hvað hvert val segir um mann sjálfan, hvernig maður myndi sjálfur bregðast við mismunandi aðstæðum og þar með stytta söguna eða lengja; sögu sem við vitum samt að getur bara endað á einn veg. En spurningin er samt: flýrðu drekana eða gengurðu á hólm við þá? Um leið fer maður að spyrja sig; hvenær er maður að velja út frá því sem maður telur sig vita um sjálfan sig og hvenær er maður að velja út frá því sem maður telur sig vita um Saša?
En eftir að hafa teiknað upp leiðakort yfir alla mögulega endi þá get ég sagt ykkur eitt: Endarnir eru alls níu talsins og það er ómögulegt að komast að fjórum endum sögunnar nema með því að svindla, þegar maður er búinn að prófa allar hinar leiðirnar. Ég er að tala um blaðsíður 323, 324, 344 og 350, fyrir þá sem vilja ítarlegri leiðbeiningar. Þarna má finna hinn raunverulega endi sögunnar, sem og hina raunverulegu byrjun – en það á kannski við um þá alla.
Lykilspurningin er einföld: „Hvað gerist næst?“ (328)
Svarið? Kannski þetta: þú getur valið. Sem er ekki svo lítil lífsgæði fyrir þá sem mannkynssagan leyfði ekki að velja, fyrir þá sem þurftu að hoppa á næsta reit þegar stríð og óáran veraldarsögunnar splundraði fjölskyldum þannig að örlög þeirra hættu að vera ein saga og varð margar, oftast án þess að þau hefðu nokkru sinni verið spurð.