Eftir Davíð Hörgdal Stefánsson
Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019
Styrkur Jóhanns Jóhannssonar sem tónskálds var gríðarlega margslunginn og ein ástæða þess að Hollywood tók honum svo opnum örmum var t.a.m. sú tilhneiging hans að vera ekki of bókstaflegur og fyrirsjáanlegur; í stað þess að skrifa kvikmyndatónlist eftir kunnuglegri forskrift og láta hana tjá viðeigandi tilfinningar með bókstaflegum (og þar með fyrirsjáanlegum) hætti kafaði Jóhann djúpt í DNA-uppbyggingu hverrar kvikmyndar og vann þaðan. Þetta skapaði hljóðheim sem býður hlustandanum upp á eigin úrvinnslu á tilfinningunum, í stað þess að þær séu mataðar ofan í hann með klisjukenndum tónbrellum sem löngu hafa sannað sig. Þessi vinnubrögð má segja að eigi við allt höfundarverk Jóhanns, allar götur frá Englabörnum, og allra mögnuðustu augnablikin í tónlist hans birtast okkur þegar snertingin við þennan kjarna er öflug og þegar sköpunarboginn verður langur og samfelldur; þegar snerting við einn kjarna nær að flæða náttúrulega og kröftugt yfir í næsta kjarna og úrvinnslan fléttast saman. Það er þetta sem gerir IBM 1401 og Fordlândia að meistaraverkum; þau hanga saman á sterkri grunnhugmynd sem lyftir og hliðrast og þróast áður en hún tengir við næstu hugmynd sem lyftir enn hærra, eins konar tónlistarlegri raðfullnægingu þar sem unnið er til fulls úr hverjum fasa áður en sá næsti tekur við.
Útgáfa Orphée, þriðju stúdíóplötu Jóhanns Jóhannssonar árið 2016, vakti hjá mér gríðarlega eftirvæntingu og fyrstu hlustanir á henni eru ógleymanlegar, eins og tæpt var á í fyrri hluta þessarar umfjöllunar. Samt er það svo að í dag vekur hún blendnar tilfinningar. Þótt Orphée sé á flestan hátt framúrskarandi og metnaðarfull plata vantar þessa þróun og stigmögnun innan hvers lags. Platan samanstendur af fimmtán lögum í styttri kantinum (langlengst er upphafslagið „Flight From the City“, sex og hálf mínúta) og er því mun sundurleitari en flest annað í höfundarverki Jóhanns. Hvert lag hefur svo sannarlega margt með sér, falleg grunnstef og/eða knýjandi dramatík, en að undanskildu „Flight From the City“ og síðustu þremur lögum plötunnar eru lögin fálmandi og ekki unnin til fulls. Þá er ekki átt við að þau séu hálfkláruð af hálfu Jóhanns eða að kastað hafi verið til höndum, heldur að hvert lag feli í sér kjarna sem fékk ekki að þróast til fulls.
Þegar litið er yfir höfundarverk Jóhanns Jóhannssonar í heild sinni má auðveldlega greina átök eða flakk á milli eintóna hljóðmynda og melódískrar frásagnar á stærri skala. Jafnvægið þarna á milli er mest á sólóplötunum hans, en annað gildir um kvikmyndatónlistina. Á sólóplötunum getur hann leyft melódísku angurværðinni að spretta upp úr dróninu þegar hann vill, en í kvikmyndatónlistinni er hann bundinn af myndrænni framvindu og beinum eða óbeinum kröfum frá leikstjóra, framleiðendum og kvikmyndinni sem heildstæðu listaverki.
Hugsanlega er ósanngjarnt af mér að leggja mat á sumt í höfundarverki Jóhanns sem frístandandi tónlist; þetta er eftir allt saman tónlist sem er samin til hliðar við framvindu og stemmningu hverrar kvikmyndar. Kannski er „tómið“ sem ég skynja gjarnan í kvikmyndatónlistinni afrakstur af því að Jóhann hlustaði grannt á það sem kvikmyndin vildi segja, það sem kvikmyndin þurfti. Tilfinningin er samt sú að guðdómlegur brennipunkturinn sem hann fann í kringum 2000 og skilaði verkum á borð við Englabörn, IBM 1401 og Fordlândia hafi smám saman truflast þegar sköpunarkraftur Jóhanns dreifðist og fleiri ólíkir kraftar toguðu í hann. Orphée er að vissu leyti þessu marki brennd og í viðtali sem ég heyrði við Jóhann þegar platan kom út nefndi hann einmitt að platan hefði verið samin á löngum tíma í fálmandi ferli á milli annarra verkefna. Þegar þú semur sjálfstætt verk ertu sjálfs þíns herra og getur, eins og Jóhann gerði, sótt eldinn inn í kjarna einnar, sterkrar grunnhugmyndar. Það er það sem gerir IBM 1401 og Fordlândia að svona öflugum tónverkum – sterk grunnhugmynd sem þeytist í löngum boga í margar áttir. Kvikmyndatónlist þarf á hinn bóginn að móta eftir minni kjörnum: Hverju atriði eða aðstæðum í myndinni. Við þessu er ekkert að segja og Jóhann lék þennan leik af miklu listfengi, svo miklu að hann hafði varanleg áhrif á kvikmyndatónskáld um allan heim með því að færa mörkin á milli hljóðmyndar og kvikmyndatónlistar til.
Vegna þess hve fallega og fullkomlega hlaðin tónlist Jóhanns er öllu jöfnu skilar hlustun á Orphée því upplifun um glötuð tækifæri. Engu að síður er Orphée plata af kalíberi sem er langt fyrir ofan gæði margra annarra tónskálda sem starfa á svipuðum slóðum og Jóhann gerði og þess vegna hljómar gagnrýni af þessu tagi ankannalega, jafnvel fyrir sjálfum mér. En það segir líka sína sögu um gæðin sem Jóhann var fær um að skila með sköpunarþrótti sínum. Hann var fær um að fljúga alla leið til sólarinnar, en í Orphée er eins og eitthvað vanti upp á langflugið.
Epíkin sem aldrei varð
Og kannski vantaði raunverulega eitthvað. Kannski hafði Jóhann náð einhverju persónulegu hámarki, í tónlist sinni og lífi sínu; það er ekki gott að segja og sérstaklega ekki séð utan frá og eingöngu í gegnum greiningu á tónlistarferli hans. Það sem rennir kannski frekari stoðum undir slíkar vangaveltur er hið undarlega ár 2017. Eftir velgengni í Hollywood, Golden Globe-verðlaun, tvær tilnefningar til Óskarsverðlauna auk ótal annarra verðlauna stefndi í epísk tíðindi þegar fréttist að Denis Villeneuve hefði verið fenginn til að leikstýra Blade Runner 2049, framhaldi hinnar goðsagnakenndu Blade Runner frá árinu 1982, og að Villeneuve myndi vinna sína fjórðu Hollywood-mynd með kjörtónskáldi sínu, Jóhanni Jóhannssyni. Hver var líka betur til þess fallinn að spinna við tímamótatónlist Vangelis úr Blade Runner en Jóhann, framsækið, áræðið og ungt tónskáld sem hafði nýtt raftónlistaráhrifin frá Vangelis í eigin tónlist og var bæði yfirlýstur aðdáandi og einlægur áhugamaður um sci-fi-kvikmyndir? Villeneuve, Vangelis, Blade Runner, epík, framtíðin, sci-fi, mannvélar, stór örlög, Jóhann Jóhannsson. Þetta var kokteill sem gat ekki klikkað.
Og samt klikkaði allt. Skömmu fyrir frumsýningu myndarinnar var tilkynnt að tónlist Jóhanns væri ekki að finna í myndinni heldur hefðu tónskáldin Hans Zimmer og Benjamin Wallfisch verið fengnir til verksins. Þetta vakti mikla athygli og furðu, til að byrja með voru svör fá og óljós, en að lokum lét Villeneuve hafa eftir sér að á lokasprettinum hefði hann viljað færa sig nær upprunalegri tónlist Vangelis.
Málið var og er allt hið undarlegasta og fréttir hermdu að Jóhanni væri samkvæmt samningi ekki heimilt að tjá sig um málið. Eftir stendur epísk stórmynd sem varð betri en flestir þorðu að vona, með tónlist sem stenst allar gæðakröfur en í samanburði við upprunalega tónlist Vangelis er sköpunarverk Zimmers og Wallfisch þó harla rislítið. Vangelis leyfir syntaheiminum að leika algert og afgerandi aðalhlutverk á meðan tónlistin í Blade Runner 2049 liggur miklu meira í bakgrunninum, með einstaka synta-risi. Eftir standa líka margar spurningar: Hvers vegna náðu Jóhann og Villeneuve ekki að leysa málið, eftir að hafa unnið saman að þremur myndum í góðu bræðralagi? Varð rannsakandi andi Jóhanns of djúpsigldur fyrir Villeneuve; fór hann of langt frá þeim kjarna sem Villeneuve vildi styðjast við? Studdust Zimmer og Wallfisch að einhverju leyti við tónlist Jóhanns? Að hve miklu leyti? Hvernig hljómaði tónlist Jóhanns við Blade Runner 2049? Munum við einhvern tímann fá að heyra hana eða er hún að eilífu bundin í þagnarákvæði og lagaflækjur?
Ár þagnarinnar
Fyrir Jóhann Jóhannsson varð árið 2017 því sannkallað ár þagnarinnar. Samhliða því að vinna í Blade Runner 2049 skrifaði hann tónlist fyrir annað gríðarspennandi verkefni, kvikmyndina Mother! eftir Darren Aronofsky með Jennifer Lawrence og Javier Bardem í aðalhlutverkum. Eftir öflugan feril við jaðarmyndir (Pi, Requiem For a Dream, The Wrestler, Black Swan) hafði Aronofsky leikstýrt Russell Crowe í stórmyndinni Noah árið 2014 en hún olli vonbrigðum, bæði í miðasölu og gæðum. Því var nýrrar myndar beðið með mikilli eftirvæntingu, ekki síst vegna leikaravalsins, en það þótti sæta nokkrum tíðindum að Jennifer Lawrence hefði tekið að sér hlutverk í mynd þessa sérstaka og gjarnan súrrealíska leikstjóra. Um svipað leyti og tilkynnt var um brotthvarfið úr Blade Runner 2049 bárust síðan fregnir af því að Jóhann hefði ákveðið, í samráði við Aronofsky, að nota alls ekki tónlistina sem hann hafði samið. Samkvæmt ýmsum heimildum kom hugmyndin frá Jóhanni sjálfum. Þegar Mother! var nánast tilbúin þótti honum tónlistin einfaldlega vera of mikið fyrir myndina, sannfærði Aronofsky um að sleppa henni og þess í stað hófust þeir handa við að móta einstaka hljóðmynd, án eiginlegrar tónlistar.
Fyrir aðdáendur Jóhanns er þarna komið annað mögulegt meistaraverk, sveipað dulúðarþoku. Eða er Mother! kannski, þegar upp er staðið, strípaðasta listaverk Jóhanns … tónlist án tónlistar? Tónlistin þegar þögnin talar? Þegar heimurinn tjáir sig? Umhverfishljóð og rafhljóðvinnsla voru jú lengi lykilþáttur í tónlist Jóhanns; þótt tónlistin í Sicario hafi t.a.m. oft yfir sér stafrænan blæ lét Jóhann hafa eftir sér að nánast öll hljóðin í þeirri tónlist væru einfaldlega umhverfishljóð sem unnin væru og bjöguð með stafrænum hætti.
Ýmsir hafa haft á orði hversu mikla hógværð Jóhann hafi þurft að sýna til að vilja draga sitt eigið sköpunarverk út úr alþjóðlegri stórmynd. Víst er að ekki hefðu allir listamenn getað leikið þetta eftir, bæði vegna eigingirni og egós en ekki síður á nýtingarforsendum: Ég fer ekki að henda margra mánaða vinnu út um gluggann. Í þessari ákvörðun sést glögglega hvernig Jóhann leit á sig og sitt framlag sem hluta af miklu stærri heild. Hann var alla tíð mikill kvikmyndaáhugamaður, hafði skýra sýn á kvikmyndalistina og vissi fátt betra en að ræða um kvikmyndir – þetta hafa ótal vinir og kollegar staðfest. Á bakvið ákvörðunina um að sleppa tónlistinni úr Mother! stendur því Listamaðurinn Jóhann Jóhannsson, sá sem veit að heildarbragur listaverksins er það eina sem skiptir máli.
Millispilið í The Mercy og Maríu Magdalenu
Þótt árið 2017 hafi reynst ár þagnarinnar fyrir aðdáendur sat Jóhann langt í frá aðgerðalaus og afrakstur þeirrar vinnu leit dagsins ljós að honum látnum. The Mercy í leikstjórn James Marsh (The Theory of Everything) var frumsýnd um það leyti sem Jóhann féll frá þann 9. febrúar 2018 og Mary Magdalene var frumsýnd mánuði síðar. Hvorug þessara mynda féll í kramið hjá gagnrýnendum né áhorfendum og þær hverfa líklega hljóðlega í gleymskunnar dá, en aðra sögu er að segja um Mandy, súrrealíska og ofbeldisfulla kvikmynd grísk-sænska leikstjórans Panos Cosmatos með Nicolas Cage í aðalhlutverki, en hún var frumsýnd í september 2018. Mandy er sjónrænt kvikmyndalistaverk, eiginlega engu líkt, og þar tók Jóhann sitt síðasta listræna stökk með afgerandi beygju frá fyrri stíl og einstökum hljóðheimi.
The Mercy er sönn saga um breska uppfinningamanninn Donald Crowhurst sem tók þátt í Golden Globe-siglingakeppni The Sunday Times árið 1968, þar sem keppt var um að sigla einn síns liðs umhverfis hnöttinn. Crowhurst var áhugasiglingamaður og freistaðist til þátttöku vegna ríflegs verðlaunafjár, en hann var giftur, fjögurra barna faðir og fyrirtæki hans stóð tæpt. Crowhurst áttaði sig fljótt á því að hann hefði hvorki getu né bátakost til að sigra í keppninni og fór því að ljúga til um eigin framvindu með fölsuðum gögnum, myndum og orðsendingum í gegnum talstöð. Eftir að hafa fengið ótal hamingjuóskir í gegnum talstöðina – þegar allt leit út fyrir að hann myndi sigra – virðist Crowhurst hafa fengið bakþanka; um það vitna ítarlegar skipsbókarfærslur hans og játningar á eigin gjörðum, skráðar niður í taugaáfalli eða geðrofi sem leiddi að líkindum til þess að hann kastaði sér fyrir borð og fannst aldrei.
Þetta er sterkur og áhugaverður efniviður, hlaðinn dramatík, og að sama skapi forvitnilegur vegna tengingar við fyrri vangaveltur Jóhanns í Fordlândia um oflæti og ofurtrú mannsins á sjálfan sig. Donald Crowhurst og Henry Ford passa báðir mjög vel inn í þá jöfnu, en eitthvað gerir að verkum að hér er tónlist Jóhanns almennt rislítil og fókusinn veikur. Að hluta til stafar þetta af því að tónlistin er samtíningur úr ýmsum áttum: Af 22 lögum í myndinni eru tíu af eldri plötum Jóhanns (Orphée, Free The Mind, Copenhagen Dreams og Englabörnum) og fáar nýjar víddir er að finna í frumsömdu lögunum. Sumt minnir á Sicario og annað á The Theory of Everything, en almennt er hljómurinn holari og úrvinnslan grynnri.
Öðru máli gegnir um tónlistina úr Mary Magdalene með Rooney Mara og Joaquin Phoenix í aðalhlutverkum, en meðhöfundur hennar er sellóleikarinn og tónskáldið Hildur Guðnadóttir, helsta samstarfskona Jóhanns til margra ára. Þar fer miklu heilsteyptara verk þar sem að mörgu leyti er sleginn nýr tónn, þótt í grunninn sé mest unnið með fremur strípaða strengjatónlist. Platan byrjar rólega með kunnuglegum stefjum og nær góðu flugi með „Messiah“, mjúkri og angurværri tónsmíð þar sem frásögnin er nógu lokkandi til að lifa sjálfstæðu lífi. Næsta lag, „The Goats“, er skyldast Sicario með slagverki og drungalegum, drónandi hljómum; virkilega vel heppnuð og skuggaleg tónsmíð. Á ferli sínum notaði Jóhann sjaldan hefðbundnar söngraddir en á þessari plötu kemur vel í ljós að sú nálgun var vannýtt auðlind; lögin „Ravine“ og „Crucifixion“ eru til marks um það og lokalagið, „Resurrection“, er sérlega sterkt. Þar liggur söngurinn fyrst framarlega en eftir því sem líður á lagið verður hann bjagaðri og meira tölvuunninn, eins og Jóhanni einum var lagið. Mestu tónlistartíðindin á þessari glæsilegu plötu felast líklega í laginu „Golgotha“, öflugum strengja- og orgelbræðingi sem nær miklum hæðum.
Rokkhringnum lokað
Á heimsvísu verður Jóhanns Jóhannssonar alltaf minnst sem framsækins tónskálds sem hafði varanleg áhrif á fremur staðnað listform, Hollywoodkvikmyndatónlistina. En þótt rokkið hafi ekki verið áberandi þegar ferill Jóhanns fór á verulegt flug var jaðarrokk upphafspunkturinn á ferli hans og var aldrei langt undan. Í þessu ljósi er áhugavert að skoða síðustu kvikmyndatónlist Jóhanns úr hinni sérkennilegu en kynngimögnuðu Mandy eftir Panos Cosmatos.
Öllu jöfnu einkennist tónlist Jóhanns af einhverju sem kalla mætti „angistarfegurð“ þar sem tónlistin er uppfull af fallegum og tilfinningaríkum laglínum og hljómum, sem berjast um athygli við djúpan og harmrænan hljóðheim og rafræna upplausn og bjögun. Þótt stöku lög hafi miðlað aggressjón (t.d. í Sicario og Arrival) er þungamiðjan alltaf fegurð og mýkt, aldrei væmin en mjög oft átakanlega falleg. Í Mandy bregður hins vegar svo við að fegurðin er í farþegasætinu en draugalegt djöflaeitur leiðir för. Kvikmyndaunnendur biðu þessarar myndar með nokkurri eftirvæntingu í lok árs 2018; ekki aðeins var þetta síðasta kvikmyndatónlistin sem Jóhann Jóhannsson samdi heldur hafði Cosmatos komið sér ærlega á kortið sem listrænn og áræðinn leikstjóri með fyrstu mynd sinni, Beyond the Black Rainbow (2010). Ekki minnkaði spennu- og óvissustigið þegar fréttist að Nicolas Cage myndi leika aðalhlutverkið, en árin þar á undan hafði hann annaðhvort leikið í vandræðalegum hörmungamyndum eða stórkostlegum meistaraverkum.
Mandy fellur í síðari flokkinn, á því leikur enginn vafi. Ég var svo lánsamur að ná einni af örfáum sýningum á myndinni í Bíó Paradís og það er upplifun sem gleymist seint. Red er hæglátur skógarhöggsmaður sem býr úti í skógi ásamt Mandy, konu sinni, en hún ver sínum dögum við listsköpun og lestur fantasíubóka. Samband þeirra er náið og fallegt, en leiðtogi sértrúarhóps fær Mandy á heilann eftir að hafa séð hana á göngu í skóginum, gengið brýst inn til parsins og endar á því að pynta og brenna Mandy fyrir framan Red. Knúinn af heimagerðu LSD, vodka, kókaíni og djöfullegri hefndarheift tekur Red til við að elta sértrúarhópinn uppi með sérsmíðaðri exi og vélsög; blóðið vellur og geðveikin ágerist jafnt og þétt uns Red murkar lífið úr öllum óvinum sínum og keyrir inn í sólarlagið með drauginn konu sína sér við hlið.
Mandy er hægfljótandi, litríkt, martraðarkennt og aggressívt listaverk; helreið inn í hyldýpi ofbeldis og geðveiki og á sama tíma óður til tíðarandans á fyrri hluta níunda áratugarins, bæði í tæknibrellum, áferð, takti – og tónlist. Myndin hefst á lokaorðum Douglas Roberts, sem var tekinn af lífi árið 2005 fyrir mannrán, nauðgun og morð: „When I die, bury me deep, lay two speakers at my feet, wrap some speakers around my head, and rock and roll me“. Og það er einmitt það sem myndin gerir; hún hristir og veltir öllu um koll og áhorfandanum eru engin grið gefin.
Myndin er knúin áfram af áferð, stemmningu og tóni, enda grunnsagan einföld og stutt. Cage á stórleik ásamt öðrum leikurum, filteranotkun leikstjóra og kvikmyndatökumanns er áberandi, en tónlist Jóhanns leikur að minnsta kosti eitt aðalhlutverkanna og er nánast ómögulegt að ímynda sér þessa mynd með annarri tónlist. Það sem er fréttnæmt er hversu ólík tónDav íð Hörgdal Ste fánss on 80 listin úr Mandy er öðrum verkum Jóhanns; drónandi gítarrokkhljómar eru alltumlykjandi og bjagaðir syntar draga fram í hlustandanum sérkennilegt og oft óþægilegt tilfinningaróf.
Þegar Jóhann féll frá hafði vinna hafist við næstu stórmynd, Christopher Robin með Ewan McGregor í aðalhlutverki, en Mandy lifir áfram sem síðasta kvikmyndaverk Jóhanns. Þegar upp er staðið blasir við að þessi blíði snillingur, sem kunni betur en flestir að miðla djúpum, fallegum og sárum tilfinningum, var á sama tíma þjakaður af fíkn og tómi. Hann gekk á sig með neyslu fíkniefna, gekk frá sér, eins og margir hafa gert og munu gera. Og eðli forvitninnar er sterkt – því verður ekki hjá því komist að velta fyrir sér tengslum svartholsins við fegurðina. Hvort svartholið og ólgan virkaði ekki eins og uppspretta í leitinni að fegurðinni? Það var nánast líkamlega sárt að horfa á Mandy í myrkrinu í Bíó Paradís og hlusta á epíska sýrutónlist Jóhanns. Tilhugsunin um manneskjuna Jóhann, á kafi í eigin sköpunarmætti og neyslu, að taka inn í skynfæri sín djúpsúrrealísk myndskeið myndarinnar og sækja inn í sjálfan sig og eigin reynslu það allra myrkasta og sárasta; sú tilhugsun var nánast yfirþyrmandi harmræn. Vegna þess að Jóhann var miklu meira en atvinnutónskáld; hann var listamaður af lífi og sál og það þýðir að hann var alltaf allur undir, alltaf allur með í för. Allt það fallegasta. Allt það svartasta. Allt það týndasta.
Leikstjórinn / Listamaðurinn
Þótt Mandy hafi slegið lokatóninn í Hollywood-ferli Jóhanns er tíðinda þó að vænta. Samstarfsfólk Jóhanns vinnur nú hörðum höndum að því að fullgera aðra kvikmynd hans, Last and First Men, og er stefnt á frumsýningu síðar á þessu ári. Miðað við brot úr myndinni sem ég hef fengið að skoða er þar á ferðinni magnað listaverk sem setur Jóhann á stall sem þungavigtar kvikmyndagerðarmann og því er full ástæða til að rýna betur í myndina í samhengi við fyrri mynd Jóhanns.
Í End of Summer frá árinu 2014 leika mörgæsir, fjöll, borgarísjakar og umhverfishljóð aðalhlutverkin, en myndin er afrakstur 20 daga ferðar Jóhanns og föruneytis til Suðurskautslandsins með 16 mm filmuvél að vopni. Útkoman er dáleiðandi, svarthvítur hálftími; stutt en áhrifamikil ferð á heimsenda, dregin hægfljótandi og langdregnum línum sem krefjast fullrar og óskoraðrar athygli áhorfandans. Þetta er eyðimynd um samfélag á mörkum þess þekkta þar sem engar vísbendingar er að finna um mannlega tilvist. Hver föst uppstilling er eins og ævaforn rammi með landslagsmálverki, en samt er hreyfingin stöðug og varfærin, í tónlistinni, í vindinum, í hafinu, og auðvitað í mörgæsunum sem lalla um þennan einkaheim sinn eins og myndlíking fyrir mannfólkið.
Á ferli sínum fékkst Jóhann ítrekað við „eyðilendur“ og rústir af einhverju tagi, t.a.m. í Fordlândia þar sem útópía Henrys Ford lifir eftir í rústunum og í teiknimyndinni Varmints þar sem samfélagið er að leysast upp. Hringferli útópíu og dystópíu er efniviðurinn. Gamaldags skrásetningaraðferðin í End of Summer – 16 mm filman – og statísk notkun hennar minnir líka á heimildamyndina Corpus Camera og jafnvel aðrar þekktari myndir á borð við Maður og verksmiðja eftir Þorgeir Þorgeirson og hina sovésku Maður og myndavél, þótt í báðum þeim síðarnefndu sé mun meiri narratíva. Engu að síður er eðli þessara mynda fyrst og fremst að sýna frekar en að útskýra og túlka; tilvist manna og hluta er látin skýra sig sjálf og hlutverk áhorfandans er að mæta inn í augnablikið sem vitni fremur en greinandi.
Tónlistin í End of Summer er unnin í samstarfi við Hildi Guðnadóttur og Robert A.A. Lowe og styður listilega við fábrotið (en langt í frá leiðigjarnt) myndefnið; hún sveiflast bæði hægt og rólega eins og vindurinn sem við heyrum í og vaggar ákveðið eins og öldur hafsins. Almennt er undirtónninn þungur og í síðari tveimur lögunum fer fram ansi magnaður leikur með tölvubjagaðar raddir, allt að því spuni sem felur í sér mun meiri tilraunamennsku en vant er í tónlist Jóhanns og á greinilegan skyldleika við raddleikinn sem einkenndi tónlistina úr Arrival. End of Summer er sérlega vel gerð kvikmynd, ljóðræn og hægfljótandi en á sama tíma ágeng og óþægilega nærgöngul, ekki síst eftir því sem líður nær lokum myndarinnar og ágangur tónlistarinnar eykst þar til sumrinu lýkur með fallegu sólsetri.
Þannig minnir End of Summer á sviðslistaverk Ragnars Kjartanssonar, þar sem framvinda er í aukahlutverki en leikmynd, uppstilltar aðstæður og tónlist Kjartans Sveinssonar leika þeim mun stærri hlutverk. Munurinn á milli þessara tveggja listamanna er þó töluverður og á meðan Jóhann vinnur með ósnortna náttúru notast Ragnar við ýktar sviðsmyndir og hlægilegar/harmrænar aðstæður sem endurteknar eru út í hið óendanlega. Báðir þvinga þeir samt fram það sem kalla mætti ofurvægi augnablikstilvistar þar sem sjálft listaverkið er það sem er að finna í augnablikinu, handan hinnar listrænu úrvinnslu. Þetta er andstæðan við listræna mötun þar sem sögu eða boðskap er troðið ofan í áhorfandann; hér eru skapaðar takmarkaðar aðstæður sem kalla fram sterk en þó opin hughrif, sem verða til þess að áhorfandinn neyðist til að setja sjálfan sig inn í verkið, ekki ósvipað því hvernig bandaríska tónskáldið John Cage notaði þögnina til að draga fram umhverfishljóð og hljóð sem áheyrendur sjálfir gáfu frá sér og urðu þannig hluti af tónverkinu hverju sinni.
Endalok mannkyns og fornleifafræði framtíðarinnar
Is the beauty of the Whole really enhanced by our agony? And is the Whole really beautiful? And what is beauty? Throughout all his existence man has been striving to hear the music of the spheres, and has seemed to himself once and again to catch some phrase of it, or even a hint of the whole form of it. Yet he can never be sure that Dav íð Hörgdal Ste fánss on 82 he has truly heard it, nor even that there is any such perfect music at all to be heard. Inevitably so, for if it exists, it is not for him in his littleness.
But one thing is certain. Man himself, at the very least, is music, a brave theme that makes music also of its vast accompaniment, its matrix of storms and stars. Man himself in his degree is eternally a beauty in the eternal form of things. It is very good to have been man. And so we may go forward together with laughter in our hearts, and peace, thankful for the past, and for our own courage. For we shall make after all a fair conclusion to this brief music that is man.
– lokaorð skáldsögunnar Last and First Men eftir Olaf Stapledon
Ef margt í höfundarverki Jóhanns Jóhannssonar einkennist af hægfljótandi massa er óhætt að segja að í kvikmyndinni Last and First Men nái massinn nýjum þéttleika. Og grunnurinn er ekki smár í sniðum: Framtíðarendalok mannkyns. Jóhann hafði lengi viljað gera stórt kvikmyndaverk en það var ekki fyrr en hann rakst á ljósmyndabók um Spomenik-minnisvarðana í fyrrum Júgóslavíu sem hugmyndin kom til hans, fullmótuð og tilbúin. Spomenik-minnisvarðarnir voru reistir í valdatíð Títós til minningar um síðari heimsstyrjöldina og baráttuna gegn fasisma. Þeim var ætlað að sameina þjóðina í útópísku ríki Títós; af þeim sökum mátti ekki notast við neinar vísanir í trúarbrögð og því var bæði stuðst við nútímalega höggmyndalist (mínímalisma) og leitað í menningararfleifð Maya og Súmera. Á fimmtíu ára tímabili voru reistir þúsundir minnisvarða um alla Júgóslavíu, sumir mannhæðarháir en aðrir mikilfenglegir og á stærð við fimmtán hæða fjölbýlishús. Eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur voru margir minnisvarðanna eyðilagðir en ótal þeirra standa þó enn. Jóhann ferðaðist í mánuð um fyrrum Júgóslavíu með 16 mm tökuvél ásamt norska kvikmyndatökumanninum Sturlu Brandth Grøvlen og útkoman er ójarðnesk skrásetning á þessum undarlegu höggmyndum. Markmiðið var að skrásetja eðli minnisvarðanna og láta undarlegar línur þeirra og fleti njóta sín, en slíta þá jafnframt úr samhengi við umhverfi sitt með því að beina tökuvélinni til himins eða taka upp í þoku og rökkri.
Þegar tökum var lokið vildi Jóhann bæta nýju frásagnarlagi við myndina og leitaði fanga í gamalkunnugum vísindaskáldskap í skáldsögunni Star Maker eftir breska rithöfundinn Olaf Stapledon, sem aftur leiddi hann að Last and First Men, epískri vísindaskáldsögu Stapledons sem hefst á okkar tímum en fjallar um átján ólíkar gerðir mannkyns, tvo milljarða ára fram í tímann. Þarna var kominn efniviður sem rímaði vel við ójarðneskt og ósymmetrískt yfirbragð hinna júgóslavnesku höggmynda, sem margar hverjar líta út eins og geimskip eða byggingar úr öðru sólkerfi. Á meðan End of Summer er áhrifamikil í einfaldleika sínum er Last and First Men stórfengleg í víðáttu sinni; um þetta vitna umfjallanir gagnrýnenda, en Last and First Men var sýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Manchester árið 2017, auk þess sem verkið var flutt í Barbican Center í London í desember 2018. Samkvæmt samstarfsfólki Jóhanns er þó enn unnið að lokagerð myndarinnar og formlegrar frumsýningar er að vænta árið 2019.
Svarthvít filma, vélstýrður fókus á myndavélinni, þoka, mistur, ofurhæg dolly-skot meðfram höggmyndunum sem draga fram abstrakt smáatriði þeirra og gefa þeim nýjar og síbreytilegar birtingarmyndir; allt blandast þetta við tignarlega og endurtekningarsama tónlist Jóhanns og vélrænan lestur leikkonunnar Tildu Swinton á tveimur síðustu köflum skáldsögunnar. Útkoman er kynngimögnuð. Á meðan End of Summer var orðlaus og áhorfandanum bauðst að fylla upp í rýmið með sjálfum sér eru höggmyndirnar notaðar hér til að skapa í honum ókennileg hughrif. Takturinn í kvikmyndatökunni hægir á allri skynjuninni, tónlistin dregur mann innar og innar og innar þannig að heimspekilegur texti Stapledons um örlög og eðli mannkyns stingst inn af fullum þunga.
Efnislega fléttast ótal þræðir úr höfundarverki Jóhanns inn í Last and First Men; ástríða hans gagnvart kvikmyndum og vísindaskáldskap, oflæti mannsins, sveiflan á milli útópíu og dystópíu, mörkin á milli manns og vélar. Og ekki síst þessi sífellda leit hans upp á við, burt úr þessari jarðvist, upp og út í geim, til sólar og enn lengra. Þótt ræturnar séu oft jarðbundnar og liggi jafnvel djúpt í jörðu (ræktun gúmmítrjáa í Fordlândia, námurnar í Miners‘ Hymns, ógnarlegir steypuklumparnir í Júgóslavíu) liggur leiðin ávallt upp á við. Við þetta bætast sýnileg áhrif frá meisturum kvikmyndasögunnar og ýmsir gagnrýnendur sem fjölluðu um sýningarnar tvær á Last and First Men vísa t.d. til hægðarinnar í 2001 eftir Stanley Kubrick og Solaris eftir Andrei Tarkovsky.
Það er býsna ófullkomin greining sem byggir á 12 mínútna broti úr 80 mínútna kvikmynd, sem auk þess er hugsuð fyrir lifandi flutning, margmiðlunarlausnir og ljósabúnað, en þetta treysti ég mér þó til að segja: Last and First Men tryggir stöðu Jóhanns sem framsækins kvikmyndaleikstjóra og Listamanns með stórum staf. Með ótrúlegum tónlistarferli sínum sýnir Jóhann að þarna fór maður sem átti nóg eftir í sínum ranni, en að sama skapi sannar Last and First Men að í honum bjó kvikmyndaleikstjóri með skýra og metnaðarfulla sýn, leikstjóri sem var rétt nýbyrjaður að þreifa á eigin getu og hæfileikum.
Fegurðin hjá svartholinu
Þótt hér hafi verið farið mörgum orðum um höfundarverk Jóhanns Jóhannssonar er listinn yfir önnur minna þekkt verk og áhrifavalda allt að því endalaus. Hann vann heldur ekki í tómarúmi heldur átti sér traust samstarfsfólk sem hafði án nokkurs vafa mikil og bein áhrif á það sem við köllum „tónlist Jóhanns Jóhannssonar“. Satt að segja er Jóhann rannsóknarefni í heila bók um það hvernig vinnusamur, alvörugefinn og glaðlyndur tónlistarmaður sem átti rætur í íslenskri nýbylgju fann sig á ýmiss konar krossgötum í tónlistarsögunni, megnaði að draga saman ólíka þræði, verða lykilmaður í að þróa nýja tónlistargrein og breyta þróun kvikmyndatónlistar með varanlegum hætti.
Margt er enn framundan og arfleifð Jóhanns Jóhannssonar virðist vera í góðum höndum vina hans og fjölskyldu, þótt End of Summer sé hvergi fáanleg fyrir áhugasama aðdáendur, Last and First Men bíði enn formlegrar frumsýningar og tónlistin úr myndinni sé væntanleg. Samkvæmt heimildum vinnur umboðsmaður Jóhanns í Bandaríkjunum að því ásamt dóttur hans að gefa út áður óútgefið efni, t.a.m. úr minna þekktum heimildamyndum, og viðræður standa yfir um útgáfu tónlistarinnar úr Mother! Það eru því vonir til þess að viðamikið höfundarverk Jóhanns stækki enn frekar á komandi árum og aðdáendur öðlist þannig enn betri innsýn í sköpunarþrótt hans.
***
Við uppljómumst þegar við hlustum á tónlist; þegar við hlustum á söngkonu syngja titra raddböndin í okkur sjálfum og ekkert áreiti í heiminum virkjar jafnmargar heilastöðvar samtímis og tónlist. Þetta gildir um alla tónlist – og eftir því sem tónlistin er nær hinum logandi kjarna tilfinningarinnar, þeim mun meiri verða áhrifin. Kannski er það þess vegna sem ég er svona upptekinn af muninum á sólóplötum Jóhanns og kvikmyndatónlistinni; vegna þess að ég finn ekki jafn sterkt fyrir því sem hann var, á löngum köflum, fær um að miðla. Jóhann bjó yfir magnaðri tengingu við einhverja ósnertanlega vitund sem hrærðist af krafti um í honum, blandaðist saman við mannsins flóknu tilveru, það hrærðist og teygðist og túlkaðist að lokum í tóna sem innihéldu þegar best lét hárfína blöndu af fegurð og angist.
Við erum öll manneskjur, við hugsum og skiljum eða teljum okkur skilja, við sjáum og heyrum og snertum og skynjum og teljum okkur finna til, en þegar upp er staðið skiljum við varla okkur sjálf, þess vegna leitum við í listina og þess vegna fagnar öll okkar tilvist þegar við heyrum sannleika annarrar manneskju hljóma. Allar þessar flækjur birtast í tónlist og kvikmyndum Jóhanns Jóhannssonar, fegurð lífsins og harmur heimsins og vonin þeim við hlið; allt bundið saman á þeirri trú að sköpunin sé besta leiðin til að skilja heiminn og sjálfan sig.
Við vitum núna hvernig andlát Jóhanns bar að garði, hvort sem okkur líkar betur eða verr; hann lést úr langvarandi neyslu áfengis og fíkniefna. Og kannski skipta endalokin ekki öllu máli, heldur það að Jóhann Jóhannsson virðist hafa lifað öll sín fullorðinsár í spennuþrungnu samspili ástríðu, vinnusemi, fegurðar, fíknar og harms. Við eigum öll okkar leiðir til að lifa í sæmilegum friði með eigin djöflum og leiðirnar til að fást við þá eru jafnmargar og birtingarmyndirnar. Miðað við tilfinningaþungann í verkum Jóhanns var hann að minnsta kosti að hluta til knúinn áfram af eigin sorta, hvort sem við köllum það harm, sorg, kvíða eða fíkn. Mátturinn í listinni er óumdeilanlegur – hvort sem hann heilar með fegurð eða kveikir ástríðu. Jóhann bjó yfir gríðarlega sterkri tengingu við þennan mátt; hann vann markvisst og sleitulaust með hann um áratugaskeið, til að við hin fengjum notið þess að upplifa það sem hann fann og komst í snertingu við. Líklega var hver einasta plata Jóhanns sjálfstætt ferðalag inn í rangala tónlistar og eigin tilfinningalífs, hvert ferðalag á nýjum forsendum inn í margslunginn hljóðheiminn sem hann sjálfur hafði skapað með margra ára tilraunum og þróunarvinnu. Kannski ferðaðist hann eftir allt saman þangað til að týna sjálfum sér – og vonandi týndi hann sjálfum sér nógu mikið til að finna sig. Vonandi hittir hann sjálfan sig handan við þennan efnisheim; við hin höldum áfram að njóta sköpunarverka hans um ókomna tíð, því að tónlist hans og kvikmyndir munu áfram snerta fólk og kveikja í þeim eigin sköpunarloga.
Því að þannig er lögmálið: Það sem er opið snertir og opnar enn meir – og hringrás sköpunar heldur áfram, sama hversu lengi mannkynið lifir. Það er hægt að lifa fyrir fegurðina, jafnvel þótt nálægðin við svartholið sé mikil, og það er líka hægt að deyja úr harmi.
* * * * *
Fyrri hluti þessarar greinar birtist 1. hefti TMM 2019, en hún er einnig aðgengileg hér á vefnum.