eftir Elmar Geir Unnsteinsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2022 [1]

Elmar Geir Unnsteinsson

Elmar Geir Unnsteinsson, vísindamaður við Háskóla Íslands og dósent við University College Dublin. / Mynd: ©Kristinn Ingvarsson

 

Á Íslandi hefur lengi tíðkast, og tíðkast enn, að falsa menningarleg verðmæti. Fölsunin felur sögulegan veruleika og útrýmir sérkennum höfunda eða tímaskeiða í nafni ímyndaðra þæginda neytandans eða hugmynda um að tungunni eða grunnskólanemum stafi hætta af fjölbreytileika. Einna merkilegast kann að þykja hversu eðlileg og töm þessi þöggun er okkur. Þegar ljóð Jónasar Hallgrímssonar eru endurútgefin er sérkennum tímans og höfundarins eytt án nokkurra skýringa. Breytingin er bara sjálfsögð; afl náttúrunnar frekar en mannanna verk. Ritstjórar skrifa yfirleitt að ljóðin hafi verið „valin“ eða þeim „raðað“ en ekki að þau hafi verið endurskrifuð með nútímastafsetningu, sem væri réttara, en nú er sú staðreynd flestum hulin.

Forlagið gefur nú út verk Halldórs Kiljan Laxness „með nútímastafsetningu“ og sagan, eða fölsunin, endurtekur sig. Í þessum útgáfum er hvergi tekið fram hver breytti stafsetningunni, né í hverju þær eru fólgnar. Lesandi fær orðskýringar í kaupbæti og þeim fylgir eftirmáli og nafn höfundar. En hver er höfundur stafsetningarinnar, fyrst það er ekki nóbelsskáldið? Á kápu er nefnt að með þessu móti sé Laxness „aðgengilegri fyrir lesendur“. Svo kann að vera. En er þetta fullnægjandi skýring sem vegur þyngra en varðveisla höfundarverksins í sinni upprunalegu mynd, fyrir þorra lesenda? Var ekki einhver ástæða fyrir því að Halldór kaus að skrifa ekki með nútímastafsetningu? Skiptir það kannski engu máli?

 

Jónas og forræðishyggjan

Helga Kress (2011) hefur greint frá heimildum sem benda sterklega til þess að orðalagi hafi verið breytt í einu af þekktustu ljóðum Jónasar Hallgrímssonar, Ég bið að heilsa. Sennilegt þykir að margar breytingar hafi verið í óþökk höfundar en það er erfitt að vita fyrir víst. Sem dæmi má nefna að í seinni hluta ljóðsins fær orðið söngvari að fjúka og í staðinn kemur vorboði. Líkt og Helga bendir á breytist hér myndmál ljóðsins verulega og sennilega tapast mikilvægur hluti af meiningu skáldsins. Enduprentanir hafa nánast alltaf fylgt breyttum útgáfum.

Ég rifja þetta upp hér til þess að gera mikilvægan greinarmun. Almennt og yfirleitt eru þær breytingar sem Helga útlistar þess eðlis að útgefendur, í þessu tilviki Fjölnismenn, hafa tilhneigingu til að færa rök eða nefna ástæður fyrir þeim. Vitanlega þýðir það ekki að ástæðurnar hafi alltaf verið góðar. Til dæmis var söngvarinn sem slíkur ekki til vandræða í ljóði Jónasar að dómi Fjölnismanna, heldur einungis orðið söngvari, sem talið var danskur innflytjandi. Óháð því er talið eðlilegt að ástæðurnar séu tilgreindar og tjáðar höfundi eða öðrum. Til hægðarauka má kalla breytingar af þessu tagi umtalsefni, enda er talið eðlilegt að þær séu gerðar að slíku. Öðru máli gegnir um allar aðrar breytingar, nefnilega þær sem gerðar eru í hljóði án þess að nokkur ástæða þyki til að þær séu ræddar almennt eða bornar upp við höfund. Þennan flokk breytinga má því kalla forræðisefni.

Áður en lengra er haldið skal þrennu haldið til haga. Í fyrsta lagi tekur greinarmunurinn aðeins til réttnefndra breytinga. Breyting felst í því að atriði sé fært í annað horf en höfundur ætlaði sér, jafnvel þótt ætlunin sé mögulega ókunn þeim er breytir. Til dæmis er val á leturgerð og blaðsíðutal líklega sjaldnast breyting í þessum skilningi. Í öðru lagi hefur greinarmunurinn normatíft gildi. Það er að segja, ritstjóra ber að ræða ástæður fyrir sumum breytingum en öðrum ekki. Hinar fyrri nefnum við umtalsefni en hinar síðari forræðisefni. Ímyndum okkur til dæmis að söngvara Jónasar hefði verið skipt út fyrir vorboða án þess að nokkur ástæða hefði verið gefin eða hugsuð yfirleitt. Þá hefði umtalsefni verið ranglega meðhöndlað sem forræðisefni. Í síðasta lagi er vert að minnast á að það getur verið afar erfitt og jafnvel ómögulegt að vita hvar mörkin liggja í hverju tilfelli fyrir sig. En það er þekkingarfræðilegt vandamál því við gerum ráð fyrir að mörkin liggi einhvers staðar þótt við vitum ekki endilega hvar.

Í tilfelli Jónasar kann að virðast augljóst að stafsetning hafi ávallt verið flokkuð sem forræðisefni. En það er reyndar ekki alveg svo skýrt. Fyrst þurfum við að komast að niðurstöðu um það hvort um réttnefndar breytingar er að ræða. Ef til vill hafði Jónas engan skýran ásetning um stafsetningu ýmissa orða eða hugsaði sem svo að aðrir kynnu betur að fást við slíkt en hann. Til að einfalda málið mun ég gera ráð fyrir að ritháttur sem helst sá sami í Fjölni og í Ljóðmælum Jónasar frá 1847 gefi sterka vísbendingu um ætlun höfundar. Vissulega er það mikil einföldun en hér er listi með nokkrum völdum dæmum:

  1. Í ljóðum sínum hafði Jónas alltaf eitt n í himinn í nefnifalli, bæði með og án greinis. Til dæmis í Ferðalokum: himin glaðnaði (Fjölnir 1845: 55, Ljóðmæli 1847: 165) og í Ísland: himininn heiður og blár (Fjölnir 1835: 21, Ljóðmæli 1847: 50).
  2. Í Gunnarshólma skrifar Jónas hinumegin föstum standa fótum en ekki hinum megin (Fjölnir 1838: 32, Ljóðmæli 1847: 64).
  3. Í Um hana systur mína ritar Jónas fyrrum átti jeg falleg gull (Fjölnir 1847: 21, Ljóðmæli 1847: 168). Hann skrifar ekki ég eða eg, þótt fyrri rithátturinn sé einnig mjög algengur í öðrum ljóðum hans.
  4. Í Heylóar-kvæði eða Heílóar-vísu er loft ritað með p en ekki f: lopt (Fjölnir 1836: 28, Ljóðmæli 1847: 53).
  5. Í frægri lokavísu Ferðaloka ritar Jónas aldregi en ekki aldrei (Fjölnir 1845: 57, Ljóðmæli 1847: 167). Seinni orðmyndin er þó algengari hjá Jónasi sjálfum.

Listinn yrði alltof langur ef hann ætti að vera tæmandi en hér hef ég valið nokkur dæmi úr mjög þekktum kvæðum sem hafa verið endubirt ótal sinnum. Að minnsta kosti síðan 1938 hafa ljóð Jónasar nánast undantekningarlaust verið prentuð þannig að atriðum 1 til 4, og öðrum sambærilegum atriðum, er breytt. En síðasta atriðinu er hins vegar aldrei breytt. Af hverju fær aldregi að standa en ekki jeg, lopt, hinumegin og himin?

Tökum til dæmis útgáfusögu Skólaljóða, sem nota átti til kennslu í grunnskólum. Þórhallur Bjarnarson gaf þau út fyrst 1901 en fimmta og síðasta útgáfa hans er frá 1920. Þar er atriðum 3 og 4 breytt í öllum prentunum en 1 og 2 haldast óbreytt. Ferðalok var ekki prentað (Þórhallur Bjarnason 1901, 1905, 1909, 1913, 1920). Nýju skólaljóðin koma svo út á vegum Jónasar frá Hriflu og annarra árin 1924–1926. Þar er atriði 2 breytt en 1 og 5 ekki (Jónas frá Hriflu 1924, Ármann Halldórsson o.fl. 1926). Árið 1938 koma svo út Skólaljóð á vegum Ríkisútgáfu námsbóka, sem Jón Magnússon „tók saman“. Þar er gerð breyting á atriði 1 og himinninn verður loksins heiður og blár fyrir fullt og allt. Auk þess fær breyting Jónasar frá Hriflu á atriði 2 að halda sér: ritað er hinum megin en ekki hinumegin. Þegar hér er komið sögu er opinber stafsetning orðin níu ára gömul og nokkuð ljóst að Skólaljóð 1938 eru birt með mjög miklum, ótilgreindum breytingum (Jón Magnússon 1938). Þessi ríkisbúningur ljóðanna hefur síðan haldist svotil óbreyttur, að zetunni undanskilinni.

Viðmið og reglur, svo ekki sé talað um opinber lög, hafa að hluta til þann tilgang að afmarka svið forræðisins. Til dæmis var ýmsum viðmiðum umturnað í kórónuveirufaraldrinum. Ef einhver rétti fram hönd sína og bjóst við handabandi gat ég rétt fram olnbogann í staðinn og breytt samskiptaforminu án þess að nefna þyrfti nokkra ástæðu. Gera má ráð fyrir að ástæðan, hin nýja regla, sé öllum kunn og óþarfi að nefna hana. Áður en faraldurinn reið yfir hefði ég þurft að gefa skýringar á athæfi mínu; olnbogaband flokkaðist sem umtalsefni. Nú mætti hins vegar flokka það sem forræðisefni. Þegar réttritunarreglur voru gerðar opinberar á Íslandi árið 1929 var stafsetning gerð að forræðisefni í mun meira mæli en áður hafði tíðkast (sjá, t.d. Jón Aðalsteinn Jónsson 1959). Enda höfðu útgefendur og aðrir núna ástæður, opinberar reglur, og því óþarfi að rökstyðja hverja breytingu fyrir sig. Þetta skýrir að einhverju leyti hvers vegna ljóð Jónasar eru jafnan gefin út með opinberri stafsetningu án þess að ástæða þyki til að nefna það sérstaklega. Athyglisverð undantekning er viðhafnarútgáfa Tómasar Guðmundssonar (1945) á hundrað ára dánarafmæli skáldsins en þar segir í formála:

Þá hef ég talið mér skylt að færa rithátt kvæðanna, þar sem því varð við komið, til lögboðinnar stafsetningar, en einatt gert það með vondri samvisku. (s. vii)

Samviska margra er sama marki brennd þótt fáir gangist við því opinskátt. Í prentun Tómasar má vitaskuld finna allar breytingarnar á listanum hér fyrir ofan, nema þá síðustu, enda sker aldregi sig úr af ýmsum ástæðum. Bragarháttur Ferðaloka kallar á fjögur atkvæði í línunni „fær aldregi“ sem fækkaði í þrjú ef henni yrði breytt í „fær aldrei“. Ef nútímaprentanir á ljóðum Jónasar eru skoðaðar er auðséð að breytingar eru ekki gerðar ef þær eru taldar hafa áhrif á bragarhátt kvæða. Bragfræði hefur hins vegar lítið sem ekkert að segja um breytingar 1 til 4.[2]

Af ofansögðu má ráða að sú ímynd sem þorri Íslendinga geri sér af Jónasi Hallgrímssyni sé að öllum líkindum á þá leið að hann hafi stafsett nákvæmlega eins og ríkið og grunnskólakennarar boða hverju sinni. Í meira en öld hafa ljóð hans verið færð í ríkisbúning án nokkurs umtals og sérkenni tungumálsins, bæði hans eigin og þess sem almennt tíðkaðist um hans tíma, eru látin hverfa. Vitanlega hefur þetta verið gert með góðum hug og háleitar hugsjónir í brjósti, til dæmis þá að gera sem flestum kleift að lesa textann vandræðalaust hverju sinni. Eftir sem áður er um allsherjarfölsun að ræða

 

Ásetningur Halldórs Laxness

Halldór Kiljan Laxness var í ýmsum skrifum sínum sammála því sem áður er sagt. Hann nefndi Völuspá, Njálu, Passíusálmana og ljóð Jónasar Hallgrímssonar sem dæmi um „óbrotleg minnismerki sjálfrar sögunnar“ (1942: 330). Einnig skrifar hann í grein sem birtist fyrst árið 1941 („Málið“) að hann hafi í tuttugu ár talið sig hafa skrifað nokkurn veginn þá stafsetningu sem Jónas notaði á síðasta æviári sínu (1942: 225). Hér verður sýnt fram á að Halldór hafi alls ekki litið á stafsetningu eða málfar bóka sinna sem mögulegt vildarefni annarra, svo sem útgefenda eða ritstjóra. Þvert á móti taldi hann stafsetninguna til höfuðeinkenna sinna sem skálds. Í hans augum er stafsetning þannig umtalsefni en ekki forræðisefni. Af þessum sökum sætir furðu að heildarverk Halldórs sé nú gefið út með nýrri stafsetningu – klædd í fánalitaðan ríkisbúning – án þess að gerð sé grein fyrir ástæðum eða aðferðum. Sumum kann að þykja niðurstaða þessa kafla augljós og ekki þess virði að færa sérstök rök fyrir henni. En það vill svo til að gögnin eru áhugaverð í sjálfu sér og ekki á allra vitorði, að því er ég fæ best séð. Gögn málsins má tilgreina í þremur liðum.

Í fyrsta lagi er vert að ræða breytinguna sem verður á prentuðum bókum Halldórs um miðbik fjórða áratugarins. Sennilega er flestum gleymt að Halldór gaf sjálfur út tvær gjörólíkar útgáfur af Sölku Völku og Sjálfstæðu fólki. Fyrstu útgáfur bókanna eru prentaðar með opinberri stafsetningu þess tíma og tilhneigingu til að rita orðliði af ákveðnu tagi með bilum. Í fyrstu útgáfu er prentað eins og, niðri í, einhvern tíma, o.s.frv. en orðin ekki látin renna saman í eitt. Þegar Halldór gefur síðan út Ljós heimsins 1937, fyrsta bindi Heimsljóss, virðist afstaða hans til þessara atriða hafa gjörbreyst. Hér fær lesandinn að sjá kiljönskuna í öllu sínu veldi, enda létu viðbrögðin ekki á sér standa. Halldór var t.a.m. sakaður um ýmsar villur sem stöfuðu af „… kæruleysislegri meðferð móðurmálsins“.[3] Um nokkur einkenni kiljönskunnar verður rætt í næsta kafla.

Því hefur verið haldið fram að Halldór hafi á þessum tíma tekið upp nýja stafsetningu en það er ekki rétt. Í greininni „Málið“ segist hann hafa samþykkt að bækur sem voru að einhverju leyti kostaðar af Menningarsjóði yrðu prentaðar með skólastafsetningu. Þetta gildir um fyrstu útgáfurnar á Sölku Völku og Sjálfstæðu fólki. Þegar bækurnar voru síðan endurútgefnar var textanum breytt í samræmi við handrit og réttritun kiljönskunnar. Þetta er sú mynd textans sem flest okkar þekkja nú til dags. Með annarri útgáfu fylgir stuttur eftirmáli. Því miður nefnir Halldór breytingarnar ekki berum orðum þar en hann skrifar að hann hafi viljað fanga íslenskt alþýðumál, enda eigi íslenskan „höfuðsetur … hjá snauðasta dalafólki og umkomulausu vinnufólki í sveitum“ (1952: 472). Með kiljönskunni öðlast mynd textans á hinni prentuðu síðu einhvern framandi blæ sem erfitt er að lýsa og hefur líklega mjög ólík áhrif á lesendur en hefur hingað til verið eytt algjörlega í þýðingum og hverfur að einhverju leyti líka í upplestri. Breytingar Halldórs á prentuðum verkum sínum, oft mörgum árum síðar, eru óyggjandi sönnun þess að stafsetningin var meðvitaður, vel ígrundaður og stöðugur ásetningur höfundarins. Í „Málið“ skrifar Halldór að „hin opinbera skólastafsetníng, [eigi] vægast sagt illa við stíl þessara bóka,“ og vísar þar til Sölku Völku og Sjálfstæðs fólks (1942: 225). Við höfum ekki sambærilega staðfestingu í tilfelli Jónasar.

Halldór hafði lengi þurft að sæta opinberri gagnrýni fyrir tök sín á íslenskri tungu. Í hvassyrtum bókadómi um Undir Helgahnúk, þriðju bók Halldórs, skrifar Guðmundur Gíslason Hagalín að höfundurinn kunni „ekki eins vel íslensku og flestir sæmilega greindir alþýðumenn“ (1924: [2–3], sjá einnig Sveinn Skorri Höskuldsson 1973: 23-35). Þótt það þyki varla nýnæmi í dag er vert að nefna, með hæfilegri furðu, hversu eðlilegt það var lengi vel að eyða bókadómum í upptalningar á ýmiss konar misfellum, hversu ómerkilegar sem þær eru. Mögulega hefur verið skortur á heilbrigðri efahyggju eða sjálfsgagnrýni um flóknar spurningar á borð við: Hvað er íslenska og hvað felst í því að kunna tungumál? Hver ákveður hvaða stafsetning er rétt og hvaða orð eru íslensk? Af hverju ætti skáldverk endilega að fylgja þeirri ákvörðun eins og einhver kennslubók?[4] Árið 1924 var stafsetning ekki orðin opinber á Íslandi, þó að svokölluð blaðamannastafsetning hafi verið birt í auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu árið 1918, en um hana ríkti lítil sátt (Jón Aðalsteinn Jónsson 1959: 110–111).

Í öðru lagi skal staldrað við útgáfu Halldórs og félaga á nokkrum Íslendingasögum, sérstaklega Laxdælu, Njálu og Hrafnkötlu. Sagan af því þegar hann var kærður fyrir útgáfuna á grundvelli laga sem voru beinlínis sett honum til höfuðs er vel þekkt og verður ekki endurtekin hér. Jón Karl Helgason (1998: 4. kafli) færir rök fyrir því að Halldór hafi einfaldlega verið að gera það sem hinn svokallaði íslenski skóli, með Sigurð Nordal í fararbroddi, hafði þegar lagt til. Hann vildi gefa sögurnar út með hefðbundinni stafsetningu síns tíma. Sigurður var ekki gagnrýndur svo harkalega fyrir þessar hugmyndir, þaðan af síður ákærður. Enda var Halldór í raun ákærður vegna þess að hann gaf sín eigin skáldverk út á kiljönsku og var því ekki talinn hæfur til verksins. Talið var að Laxdæla kæmi ef til vill út á kiljönsku en ekki með ‚lögboðinni‘ stafsetningu en sú varð ekki raunin. Halldór var fyrstur til að gefa sögurnar út með hér um bil þeirri stafsetningu sem notuð er nú til dags með það að markmiði að kynna þær fyrir nýjum íslenskum lesendum.

Halldór gerir grein fyrir tilgangi útgáfunnar á ýmsum stöðum og líklega má taka orð hans trúanleg. Hann sagðist vilja sýna fram á, svo ekki yrði um villst, að Íslendingasögurnar hefðu verið skrifaðar á íslensku en ekki dönsku.[5] Ég skil þetta þannig að sögurnar séu vel læsilegar öllum almenningi sem kann nútímaíslensku, ef aðeins eru gerðar hæfilegar en kerfisbundnar breytingar á orðmyndum og stafsetningu. Íslendingar geta ekki lesið handritin sjálf án mikils erfiðis, svo mikið er víst, en þeir geta heldur ekki lesið sér til ánægju þær útgáfur sem færa stafsetninguna nær öðrum norðurlandamálum. Hér verður ekki lagt mat á það hvort Halldór hafi haft á réttu að standa, enda má vel velta því fyrir sér af hverju hóflegar breytingar í danska átt myndu þá ekki líka sýna að sögurnar hefðu verið skrifaðar á dönsku. Hvernig leggjum við dóm á það hversu miklar breytingar á frumtextanum megi gera án þess að tungumálið breytist?

Nú kemur loksins að aðalatriði málsins. Stundum er sagt að vel sé réttlætanlegt að prenta sögur Halldórs Laxness með nútímastafsetningu vegna þess að hann hafi sjálfur viljað prenta Íslendingasögurnar með nútímastafsetningu. En þessi hugsun er rökleysa. Halldór stóð fyrir útgáfu á Laxdælu með opinberri stafsetningu, mikið rétt, en á sama tíma gaf hann út sín eigin höfundarverk á kiljönsku. Hann gerði því sannarlega greinarmun á þessu tvennu og kaus sjálfur að Heimsljós skyldi ekki stafsetja á sama hátt og Laxdælu. Ennfremur verður ekki séð að tilgangur Halldórs geti átt við hér. Það er að segja, tilgangur Forlagsins er ekki að sanna að Sjálfstætt fólk sé skrifuð á íslensku en ekki dönsku, enda er það öllum ljóst. Það er því afar hæpið að benda á útgáfur Halldórs á Íslendingasögunum því til stuðnings að kiljanskri stafsetningu sé tortímt. Aftur á móti er vissulega rétt að Halldór veitti sjálfur leyfi fyrir sérstökum skólaútgáfum á nokkrum verka sinna og stundum hefur verið bent á það sem rök fyrir breytingunum. En auðvitað er þetta hæpin ályktun, af svipuðum ástæðum, því skólaútgáfa er einfaldlega ekki það sama og heildarútgáfa verka Halldórs sem mun stýra upplifun og hugmyndum allra nýrra lesenda næstu ár eða áratugi.[6]

Í þriðja og síðasta lagi vil ég taka saman í stuttu máli einn þátt í fagurfræðilegri kenningu Halldórs, sem ég tel að hann setji fram sem almenna réttlætingu á stíl sínum og stafsetningu. Ég byggi túlkunina á nokkrum efnisgreinum í „Málið“ og „Höfundurinn og verk hans“ (Halldór Kiljan Laxness 1942). Góð listaverk þurfa að hafa sérstöðu og sérkenni sem greinir þau frá hversdagslegum fyrirbærum sem hafa einungis almenna eiginleika. Halldór notar sem dæmi muninn á skáldverki og sendibréfi og virðist vilja meina að gott sendibréf þurfi aðeins almenna eiginleika þegar kemur að stíl og málsniði. Góð hæfni í réttritun, sem kennd er í grunnskólum, er það eina sem þarf til að geta ritað gott sendibréf. Listrænn hæfileiki eða einstök rödd væru til trafala. Því er þveröfugt farið með skáldskap. Ekki er nóg með það að skáldsaga þurfi sérstakar persónur eða manngerðir, og sérstakan söguþráð eða stemningu, heldur þarf hún líka „sitt sérstaka mál“ (1942: 214). Sköpunarstarfinu eru settar miklar skorður ef tilbrigði málsins eru engin, vegna þess að allt mál verði að fylgja hinum almennu reglum sendibréfastílsins. Sumar persónur í skáldsögu segja ef til vill „sona“ en aðrar „svona“, sumar „svo sem“ en aðrar „sussum“, rétt eins og sögumaður bókar segir stundum „eingu“ og stundum „aungvu“, stundum „dáldið“ og stundum „dálítið“.

Í sem stystu máli taldi Halldór að fjölbreytilegt og tilbrigðaríkt mál væri best til þess fallið að ýta undir góða listsköpun, en að áhersla á réttritun og reglufestu leiddi til andlegrar fátæktar og leiðinda. Hann kallaði þetta stundum orðfæðarstefnu og hafði áhyggjur af því hvert réttritunarstaglið myndi leiða. Nú hefur það auðvitað leitt til þess að allt höfundarverk hans sjálfs er gefið út samkvæmt prinsippum orðfæðarinnar. En það er reyndar ekki tilgangur minn hér að sýna fram á að þessi fagurfræðilega kenning Halldórs, og sú hugmynd að fjölbreytni í stafsetningu ýti undir listrænan þroska upprennandi skálda, séu réttar og sannar. Ég set fram þessa túlkun hér til þess eins að sýna fram á, svo ekki verði um villst, að Halldór vildi ekki gefa verk sín út með þeim hætti sem nú er gert. Það er ekki nóg með að hann hafi haft skýran og stöðugan ásetning um stafsetningu, heldur hafði hann þróað fagurfræðikenningu sem var heimspekileg réttlæting fyrir því hvernig hann gekk frá sínum texta. Það ætti að vera óþarfi að benda á það hér en slíkri kenningu er ofaukið að mínum dómi. Það er að segja, listaverk á ekki að þurfa heimspekilega réttlætingu.

Af ofansögðu má draga þá óvefengjanlegu ályktun að Halldór Kiljan Laxness taldi stafsetningu til grunneiginleika verka sinna. Kiljanskan er að minnsta kosti jafn mikilvæg höfundinum og orðavalið, sem Fjölnismenn töldu til umtalsefna þegar ljóð Jónasar Hallgrímssonar voru gefin út. Fyrir sumum höfundum kann stafsetning að vera einfalt forræðisefni ritstjóra, í líkingu við leturgerð eða spássíulengd, en það er klárlega ekki tilfellið hér. Útgefendur hafa ábyggilega áhyggjur af dvínandi vinsældum skáldsins og vilja kynna þessi meistarverk fyrir sem flestum og þannig fæðist sú hugmynd að kiljanskan skuli hverfa. En er ekki einfaldlega eðlilegt að áhuginn, og salan, minnki með árunum? Sennilega er tímabært að hampa öðrum höfundum frekar en að afskræma höfuðskáld þangað til neytendum hugnast varan, hversu líklegt sem það nú er.

 

Tilgangur kiljönskunnar

Í vissum skilningi er það söguleg tilviljun að við skrifum ekki kiljönsku. Það er að minnsta kosti söguleg tilviljun að sum einkenni kiljönskunnar séu ekki hluti af nútímaréttritun. Konráð Gíslason reyndi en mistókst að koma tillögum sínum um breytingar á stafsetningu til leiðar. Hann vildi fylgja framburðinum og brjóta ýmsar rótgrónar venjur á bak aftur. En vananum er auðvitað ekki breytt svo glatt. Kiljanskan er fjarri því eins mikil breyting á vananum, miðað við stafsetningarvenjur Íslendinga við upphaf tuttugustu aldar, og hin svokallaða fjölnisstafsetning Konráðs (Gunnlaugur Ingólfsson 2017). En ef Njála hefði verið skrifuð af einhverjum með sömu hugmyndir og Konráð þá værum við á öðrum stað og það er vissulega einkenni sögulegra tilviljana.

Hvað sem því líður er ljóst að Halldór skrifaði bækur sínar á kiljönsku og leit á það sem hluta af listrænni tjáningu sinni. Kiljanskan leyfir ákveðinn breytileika í stafsetningu tiltekinna orða og sá breytileiki getur haft mikilsverð áhrif á inntak verksins. Til þess að sýna fram á þetta skulum við byrja á að gera greinarmun á innri tilbrigðum og ytri tilbrigðum. Ytri tilbrigði felast í því að Halldór hafi skrifað verk sín á kiljönsku en ekki með nútímastafsetningu. Það er að segja, á sama tíma og hann skrifar einginn eða kanski í handriti Heimsljóss er líklegt að einhver annar skrifi enginn eða kannski í Tímariti Máls og menningar. Ytri tilbrigði geta þjónað ýmsum tilgangi en með þessu gat Halldór kallað fram í hugum lesenda nokkuð skýran greinarmun á máli verksins og máli annarra á sama tíma. Ytri tilbrigðum er fullkomlega eytt með því að prenta verk hans í ríkisbúningi.

Ég hef þó meiri áhuga á innri tilbrigðum, því þau eru oft mikilvægari sem tjáningartæki höfundar innan hvers skáldverks fyrir sig. Innri tilbrigði þjóna til dæmis þeim tilgangi að tjá mállýsku- eða framburðarmun á milli persóna verks, eða á milli söguhöfundar verks og persónanna. Um þetta eru til fræg dæmi í bókmenntasögunni. Í skáldsögunni Beloved eftir Toni Morrison (1987; Ástkær 1988) tala persónurnar mállýsku sem stundum er kölluð AAVE (African-American Vernacular English) þótt sögumaður geri það ekki. Á sama hátt hafa höfundar tjáð mikilvægan greinarmun á persónum, t.d. varðandi stétt, kyn, eða kynþátt, með því að birta mállýsku- eða framburðarmun í beinni ræðu. Það er afar erfitt að ímynda sér Beloved og The Bluest Eye (1970) eftir Morrison, eða The Color Purple (1982; Purpuraliturinn 1986) eftir Alice Walker með öðru málsniði en AAVE, enda myndi slíkt augljóslega vera hrein og bein þöggun á höfundunum. Enn augljósara dæmi eru innri tilbrigði í To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee (1960). Það væri auðvitað galið að breyta stafsetningu þeirrar bókar þannig að mállýskumunur ólíkra persóna hyrfi.

Hvað með Laxness? Breytir ólíkt málsnið persóna kannski engu þegar hann er annars vegar? Ég held reyndar að svo sé og að þegar innri tilbrigðum hjá Halldóri sé eytt sé beinlínis verið að ráðskast með sjálft inntak og merkingu verksins sem á í hlut. Það er jafnvel ástæða til að ganga enn lengra og velta því upp hvort í þessu geti falist þöggun, því Halldór beitir mögulega innri tilbrigðum, alveg eins og Toni Morrison, til að ljá undirokuðum hópum samfélagsins sérstaka rödd. Líkt og áður er getið vildi Halldór tjá og fanga hugsanir og tilfinningar fátæks fólks á Íslandi. Þetta gerði hann meðal annars með því að birta framburðar- eða mállýskumun með beinum hætti, til þess að raddir þessara hópa fengju að heyrast hérumbil milliliðalaust. Ef þessum tilbrigðum er eytt eru raddir þessa fólks, að svo miklu leyti sem Halldóri tekst að koma þeim á blað, þaggaðar niður.

Orðið enginn er afar tilbrigðaríkt í kiljönsku. Til dæmis birtist það í et. þgf. hvk. sem aungvu, eingu eða aungu. Í et. þf. kvk. birtist það sem einga, aungva eða aunga. Og svo mætti lengi telja. Það sem mestu skiptir er að ólíkar myndir orðsins birtast oft í sama verkinu eða sama kaflanum. Þannig getur verið að eitthvað skipti aungvu í einni efnisgrein en að annað skipti eingu í þeirri næstu. Í 30. kafla Sjálfstæðs fólks, hinni kiljönsku útgáfu, má finna eftirfarandi:

  • … en hún hafði einga ánægju af slíkum félagsskap … (1952: 189)
  • Að lokum vissi hann sér aungva bjargarvon … (1952: 190)
  • Hann átti aungvan bróður og heldur aungva litla systur … (1952: 191)

Í 22. kafla er talað um eingar æðrur en í 33. kafla um aungvar huggandi vonir. Í nýrri útgáfu með nútímastafsetningu eru þetta engar æðrur og engar vonir. Að sama skapi á maðurinn sér enga bjargarvon og konan hefur enga ánægju. Drengurinn átti líka engan bróður og heldur enga systur (Halldór Kiljan Laxness 2019). Stundum segir sögumaður solítið en stundum svolítið og það sama gildir um persónur verksins. Þessum innri tilbrigðum er eytt með öllu í nýrri prentun bókarinnar. Önnur dæmi mætti telja til, eins og eftirfarandi:

  • sona/svona verður alltaf svona
  • oní/ofaní verður alltaf ofan í
  • sosum/svosem verður alltaf svo sem

Auðvelt væri að fiska eftir fleiri dæmum af þessu tagi.

Mörgum er minnistætt þegar Halldór svaraði gagnrýnendum á þá leið að ekkert orð sé skrípi, standi það á réttum stað. Hann nefnir óalgeng orð úr fórum Þórbergs Þórðarsonar – tildragelsi, pípí, bumbulpe – og segir að þótt tiltekið orð eigi ekki að vera „almennt mál“ þá:

… miðlar það kanski í eitt einstakt skifti, eða fáein tiltekin skifti í einni bók, nákvæmlega því sem það á að miðla og ekkert orð getur miðlað annað á þeim stað. Þannig eru orð til í bókum, sem aðeins eiga heima á einum stað, í einu sambandi og síðan hvergi framar. (1942: 214)

Sama hugsun hlýtur í sumum tilfellum að eiga við um stafsetningu orða. Það er að segja, fyrir höfund eins og Halldór getur tiltekin stafsetning átt við aðeins á einum stað og svo aldrei aftur, innan sömu skáldsögunnar. Ég leyfi mér að fullyrða að dæmi um innri tilbrigði af þessu tagi hljóti að vera mörg í verkum hans. Eftir stutta leit fann ég eitt slíkt. Í Sjálfstæðu fólki stendur á einum stað altogsumt í einu orði. Í öllum öðrum tilfellum sem ég hef fundið þetta orðalag, bæði í Sjálfstæðu fólki og annars staðar, eru orðin þrjú slitin sundur. Í 47. kafla stendur: „En þetta var ekki altogsumt. Jólin eru hátíð allra gersema“ (1952: 296). Svo stendur til dæmis í 54. kafla: „… loksins hafði kaupfélagið af honum alla viðskiftavini, það er alt og sumt …“ (1952: 339). Í greininni um orðskrípin segir Halldór, í tengslum við þýðingu sína á Vopnin kvödd, að þessi „samdráttaraðferð“ sé:

… mjög vel fallin til að auka hraða stílsins og hnitmiða merkíngu, þarsem sundurslitaaðferðin purpar stílinn óþarflega, einsog andstuttur maður tali, auk þess sem hún spillir merkíngu. (1942: 222)

Svo nefnir hann nokkur dæmi um að merking orðasambanda verði ólík eftir því hvort orðin eru samtengd eða slitin sundur.

Hér verður enginn dómur kveðinn upp um það hvort þetta sé allt satt og rétt hjá Halldóri, enda gildir það einu. Því verður hins vegar ekki neitað að ætlun hans sem höfundar var líklega að hafa altogsumt ritað með þeim hætti á þessum eina stað í bókinni, til að miðla einhverju sem ekki verður miðlað með öðru móti. Vitanlega tortímir nýjasta útgáfa verksins þessum innri tilbrigðum án þess að það sé gert að umtalsefni eða rakið til ábyrgðarmanns.

Því skal haldið til haga að ég hef ekki bent á neitt skýrt og greinilegt dæmi þess að breyting á stafsetningu hafi fært beina ræðu persónu úr undirokuðum þjóðfélagshópi nær framburði eða mállýsku ráðandi stéttar. Mögulega eru dæmi um þetta í beinni ræðu hjá Sölku Völku eða Bjarti í Sumarhúsum en ég er ekki nógu viss um túlkun mína á einstökum tilbrigðum til að fullyrða um slíkt. Það væri mjög áhugavert að finna dæmi um þetta, enda væri þá unnt að varpa frekara ljósi á tilgang stafsetningartilbrigða Halldórs. Hins vegar skiptir þetta litlu fyrir niðurstöðu mína í þessum kafla.

 

 

Þjóðnýting skáldverka

Hvað gerir það að verkum að við teljum mikilvægt eða réttlætanlegt að breyta stafsetningu Halldórs en það virðist ekki hvarfla að okkur í öðrum tilfellum? Byrjum á einfaldri tilgátu sem reynist að endingu ófullnægjandi. Ef við berum saman höfundarverk Halldórs og verk annarra höfunda frá svipuðum tíma er alveg ljóst að málsnið hans, kiljanskan, er fjær skólastafsetningunni en málsnið hinna. Það hljómar ósennilega að ákveðið yrði að gefa Þórberg Þórðarson út aftur eingöngu til þess að losa hann við zetuna. Enda var zeta lengi hluti af lögboðinni stafsetningu og þykir sumum eflaust eðlilegt að hún fái þá að standa. Önnur tilbrigði hjá Þórbergi væru kannski líka léttvæg fundin af sömu ástæðu.[7]

Það er margt við þetta svar að athuga en ég bendi hér á nokkur markverð atriði. Við vitum ekki fyrir víst, því það hefur ekki verið rannsakað vísindalega svo ég viti til, að kiljanskan sé meira fráhrindandi en stíll Þórbergs. Því stendur þetta bara sem sennileg tilgáta. Zeta er flestum nýjum lesendum framandi bókstafur. En kiljanskan fylgir að miklu leyti framburði í því að útrýma óþarfa samhljóðum og leyfa breiða sérhljóða á undn ng og nk. Það er vitaskuld einföldun að segja að kiljanskan fylgi framburði því tengsl framburðar og stafsetningar eru afar margslungin og flókin. Aftur á móti verður því ekki neitað að kiljanskan fagnar einmitt þeim atriðum sem grunnskólakennarar þurfa að kenna nýjum notendum íslensks ritmáls. Þetta er vísbending um að nýir íslenskir málnotendur hafi tilhneigingu til að fylgja reglum kiljönskunnar að nokkru marki – til dæmis varðandi svokallaða ng– og nk-reglu – og því þurfi að vinna markvisst gegn þeim reglum til að kenna nemendum opinbert ritmál. Ekkert barn sem stígur fyrstu skref sín í notkun íslensks ritmáls hefur tilhneigingu til að nota zetu í samræmi við gömlu reglurnar. Hér er því grundvallarmunur á stíl Þórbergs og kiljönsku, því kiljanskan geymir örlítið sannleikskorn úr máltökunni.

Málið er því skemmtilega flókið, leyfi ég mér að fullyrða. Kiljanska er framandi þeim sem hafa tamið sér nútímastafsetningu en að einhverju leyti eðlileg fyrir þá sem eru að læra ritmálið. Það er því mögulegt að kiljanska sé minna fráhrindandi fyrir mjög unga lesendur en þá sem eldri eru, en það vitum við ekki fyrir víst. Eitt er hins vegar alveg víst og má vel ráða af ofansögðu, nefnilega að þeir sem telja réttritun barna mikilvæga munu líta gjörólíkum augum á Halldór og Þórberg. Annar ýtir mögulega undir stafsetningu sem börn gætu auðveldlega tamið sér en hinn ekki. Niðurstaðan er sú að skólum stafi aðeins hætta af öðrum þeirra.

Í þessu samhengi vakna samt aðrar spurningar. Það eru nefnilega til höfundar sem ganga jafn langt eða lengra en Halldór í að breyta málsniðinu miðað við venjur fullnuma ritmálsnotenda. Besta dæmið sem ég þekki til er Steinar Sigurjónsson sem skrifaði einhvers konar kiljönsku.[8] Heildarverk Steinars voru endurútgefin af Ormstungu árið 2008 og grunar mig að engum hefði svo mikið sem dottið í hug að breyta stafsetningu hans.

Skýringin kann að vera svo augljós að ekki sé þess virði að ræða það. Auðvitað hefur Steinar engan veginn sömu vigt eða áhrif sem höfundur á Íslandi og Halldór. Lesendahópurinn er því miklu minni og Steinar ef til vill talinn ólíklegur til að draga til sín nýjar kynslóðir af áhugasömum lesendum.

Oft geyma augljósar skýringar djúpar og vel faldar hugsanavillur. Stöldrum við yfirlýstan tilgang Forlagsins með því að tortíma kiljönskunni. Eina réttlætingin sem ég hef fundið í ritunum sjálfum er að með því sé Halldór gerður aðgengilegri fyrir lesendur. Slík réttlæting á að sjálfsögðu alveg jafn vel við Steinar Það eru nefnilega einhver öfugmæli í þessu öllu saman. Þrátt fyrir allt er Halldór langvinsælasti höfundur sinnar kynslóðar og því ætti að sæta furðu að réttritunin sé honum til trafala. Réttara væri að hjálpin væri veitt þeim sem raunverulega þurfa á henni að halda. Því skal þó til haga haldið að ég hef mínar efasemdir um að breytingin stoði nokkuð í vinsældakeppninni, þannig að þetta stagl er að lokum marklítið.

Hin augljósa skýring á því að texti Halldórs er klæddur í ríkisbúninginn er því ekki alveg svo augljós. En þá kemur loks að síðasta málinu á dagskrá og kannski því mikilsverðasta, því ólíkt Halldóri geymi ég besta kaflann þar til síðast. Ég held nefnilega að svarið við spurningunni um muninn á endurútgáfusögu Halldórs og annarra íslenskra höfunda frá tuttugustu öld leynist í ákveðinni hugmyndafræði um menningarleg verðmæti. Við metum það svo, leynt eða ljóst, að verk Halldórs geymi menningarlegar gersemar sem enginn annar nútímahöfundur hafi náð að skapa. Hvaðan okkur er komin þessi hugmynd er ekki aðalatriði hér en Íslendingingar eru þó alvanir að setja upp goggunarröð listamanna eftir því hversu vel þeim gengur í útlöndum. Halldór gerði það býsna gott í útlöndum sem skýrir líklega sérstöðu hans í hugum margra landsmanna.

Hér nota ég orðið „hugmyndafræði“ til að vísa til safns skoðana, langana, tilfinninga og hugrenningartengsla sem útskýra að einhverju leyti athafnir fólks og viðbrögð við ýmsum félagslegum aðstæðum. Hugmyndafræði getur verið meðvituð eða ómeðvituð en hún virðist alltaf búa yfir einhverju röklegu samhengi, þar sem eitt leiðir af öðru. Hún getur líka verið jákvæð, neikvæð eða hlutlaus í siðferðilegum skilningi. Í raun má segja að einhver hugmyndafræði sé öllum samfélögum nauðsynleg, því hún er hluti af því sem skýrir hvað þykir sjálfsagt í hverri menningu fyrir sig. Við komum fram við fólk á ákveðinn hátt vegna þess að við deilum, að einhverju marki, hugmyndum um það hvernig eigi að koma fram. Oft er hugmyndafræði dulin og þá er nauðsynlegt að koma orðum að henni svo unnt sé að leggja mat á hana. Þá getur vel komið í ljós að duldar skoðanir og sjálfsögð viðbrögð séu gagnrýniverð. Til dæmis má skilja rasisma eða kvenhatur sem hugmyndafræðileg fyrirbæri.[9]

Hugmyndafræðin sem skýrir hvers vegna Halldór með nútímastafsetningu virðist réttlætanlegt eða gott verkefni hefur þegar komið fram að nokkru leyti í þessari grein. En ég tel að hana megi fanga og einfalda í þremur liðum.

 

Hlutdeild

  1. Sum listaverk öðlast sess sem menningarlegar gersemar þjóðar. Þetta þýðir að verkin eru talin hafa einstakt listrænt gildi á heimsvísu. Dæmi um þetta eru ef til vill Íslendingasögurnar, bókmenntir Laxness og Jónasar Hallgrímssonar, tónlist Bjarkar, myndlist Kjarvals o.s.frv.
  2. Fólk hefur sterka tilhneigingu til að skýra tilurð slíkra gersema með því að vísa til ytra umhverfis, t.a.m. ímyndaðra þjóðareinkenna, náttúru eða veðurfars.
  3. Umfjöllunarefni listaverkanna einkennast, eða virðist einkennast, af þessum sömu þjóðareinkennum. Þess vegna er sjálfur efniviður listamannsins fenginn frá þjóðinni að henni forspurðri.
  4. Þjóðin á því einhverja hlutdeild í tilurð og efniviði verkanna. Halldór var mjög snemma kallaður „óskabarn þjóðarinnar“ og svipaðra tilhneiginga gætir augljóslega varðandi Björk, Kjarval og aðra. Jón Sigurðson og Eimskipafélagið báru stundum þennan titil áður en Halldór hlaut hann að einkagjöf. Þjóðin er foreldrar en höfundurinn barn.

Þjóðnýting

  1. Menningarlegar gersemar eru notaðar til þess að skapa, viðhalda og móta þjóðarímyndina og miðla þekkingu á milli kynslóða.
  2. Þessi ímynd er hluti af sjálfsmynd og ímynd þjóðarinnar út á við. Það er að segja, við teljum listaverkin gegna mikilvægu hlutverki í að upplýsa Íslendinga um sín eigin þjóðareinkenni, sögu og náttúru. En þau upplýsa einnig alþjóð um hið sama. Með stolti segjumst við vera bókaþjóð.
  3. Því þarf að leggja sérstaka alúð við gersemar á borð við höfundarverk Halldórs Laxness. Þjóðin glatar einhverju mjög mikilvægu ef hún hættir að lesa Sjálfstætt fólk. Enda eigum við ekkert annað Nóbelsprýtt óskabarn.
  4. Gersemar eru því þjóðnýttar öðrum listaverkum fremur. Það er að segja, þeim er beinlínis beitt til að viðhalda ákveðinni þjóðarímynd. Margir íslendingar trúa því, geri ég ráð fyrir, að Íslendingarsögurnar hafi verið skrifaðar á íslensku, án þess að átta sig á því að hve miklu leyti sú trú er byggð á áróðri, útgáfustarfsemi eða þeirri ákvörðun að hafa opinbera stafsetningu að sumu leyti í samræmi ritvenjur handritanna, frekar en ritvenjur sem tíðkast höfðu síðanr. Sem dæmi má nefna að hinni svokölluðu ng- og nk-reglu var hvorki fylgt í stafsetningu Rasmusar Rask né í almennri ritun allt frá miðöldum. Sú regla var gerð opinber með auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu árið 1918 og hefur verið fylgt alla tíð síðan (Jón Aðalsteinn Jónsson 1959, s. 78, 110). Ein ástæða til að bregða frá almennri venju þess tíma kann að hafa verið sú að elstu gerðir Íslendingasagna voru taldar fylgja ng- og nk-reglunni.

Forræði

  1. Þjóðin ræður stafsetningu sinni eins og foreldrar hafa forræði yfir börnum sínum.
  2. Málstýring sem felst í því að viðhalda venju margra áratuga samkvæmt opinberri forskrift er yfirleitt ekki skilin sem málstýring. Hún er sjálfsagt forræðisefni sem óþarfi er að gefa ástæður fyrir.
  3. Ólíkt litavali Kjarvals eða tónavali Bjarkar er stafsetning ekki einfalt vildarefni höfundar, enda gilda þar reglur og tiltölulega skýr mörk eru á milli réttrar og rangrar stafsetningar.
  4. Þjóðnýting á verkum Halldórs og annarra rithöfunda er því mun líklegri til að leiða til afskræmingar höfundarverksins en þjóðnýting á tónlist eða myndlist. Þannig leiðir hún líka til sögufölsunar.

Hlutdeild þjóðar í verkum þegna sinna er auðvitað áhugavert viðfangsefni í sjálfu sér. Þjóðir upplifa sig sem sigurvegara þegar lið sem ber fána þeirra vinnur einhverja íþróttakeppni. En tengslin eru vitanlega að miklu leyti hugmyndafræðileg. Það sama á við þegar menningarlegar gersemar eru annars vegar. Það vill bara svo til að stafsetning er forræðisefni, að minnsta kosti í hugum margra Íslendinga, og því fær ekki einu sinni óskabarn þjóðarinnar einhlítum vilja sínum framgengt. Mögulega er samræming og sérkennaleysi stundum álitið aðalsmerki menningarlegra gersema. Allsherjarregla krefst þess að tjáningunni – þegar hún öðlast sess sem almannaeign í hugum fólks – séu settar skorður svo trúa megi ákveðinni ímynd af Íslendingum sem einstakri sagnaþjóð. Sagnaþjóð sem á í sífelldu og óbrotnu samtali við sinn aldagamla sagnaarf. Þjóðin er meðhöfundur þegar sjálf þjóðarímyndin er í húfi og Halldór hefur verið þjóðnýttur til að viðhalda þeirri ímynd.

 

Lokaorð

Sagan segir að einhver hafi ætlað að þýða Finnegans Wake (1939) eftir James Joyce og verið spurður úr hvaða tungumáli bókin yrði þýdd. Enda er ekki alltaf ljóst á hvaða máli bókin er skrifuð. Þegar Sjálfstætt fólk var þýdd á ensku var byggt á fyrstu útgáfu bókarinnar, sem Halldór leyfði að yrði gefin út með opinberri stafsetningu. J.A. Thompson þurfti því ekki að velja hvort þýtt yrði úr kiljönsku eða ríkisíslensku. Það væri ekki jafn erfitt að þýða kiljönskuna og málið á Finnegans Wake en enginn hefur þó reynt það svo ég viti til.

Vel má hugsa sér nokkrar einfaldar breytingar á enskri stafsetningu sem kölluðu fram svipuð áhrif og kiljanskan í texta Halldórs. Til dæmis mætti fella niður tvöfalda samhljóða þar sem slíkt er hægt: siting í stað sitting, stoped í stað stopped, wel í stað well, smalpox í stað smallpox, weding í stað wedding, stuborn í stað stubborn, o.s.frv. Svo mætti sameina orð með óhefðbundnum hætti: haveto í stað have to, inanycase í stað in any case, lessthan í stað less than. Með þessum hætti mætti kalla fram framandleg hughrif kiljönskunnar. Og hvur veit? Kannski yki breytingin enn á vinsældir Halldórs meðal enskumælandi lesenda. Um það veit ég ekki. En ég veit ekki heldur hvort tortíming kiljönskunnar í íslenskum prentunum auki vinsældirnar hér heimavið.

 

 

 

Heimildir

  • Elmar Unnsteinsson. 2022. Talking About: An Intentionalist Theory of Reference. Oxford: Oxford University Press.
  • Fjölnir. 1835, 1936, 1938, 1945, 1947. Ársrit handa Íslendíngum. Brynjólfur Pétursson, Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason og Tómas Sæmundsson gáfu út. Kaupmannahöfn: J.D. Kvistur.
  • Guðmundur Gíslason Hagalín. 1924. „Bókafregn. Halldór Kiljan Laxness: Undir Helgahnúk.“ Vísir 26. maí.
  • Gunnlaugur Ingólfsson. 2017. Fjölnisstafsetningin. Hliðarspor í sögu íslenskrar stafsetningar. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Halldór Kiljan Laxness. 1931–1932. Salka Valka. Fyrsta útgáfa. Reykjavík: Helgafell.
  • Halldór Kiljan Laxness. 1934–1935. Sjálfstætt fólk. Fyrsta útgáfa. Reykjavík: Helgafell.
  • Halldór Kiljan Laxness. 1937. Ljós heimsins. Fyrsta útgáfa. Reykjavík: Helgafell.
  • Halldór Kiljan Laxness. 1942. Vettvángur dagsins. Önnur útgáfa (1962). Reykjavík: Helgafell.
  • Halldór Kiljan Laxness. 1951. Salka Valka. Önnur útgáfa. Reykjavík: Helgafell.
  • Halldór Kiljan Laxness. 1952. Sjálfstætt fólk. Önnur útgáfa. Reykjavík: Helgafell.
  • Halldór Kiljan Laxness. 2007. Halldór Laxness: Úrvalsbók. Halldór Guðmundsson valdi. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
  • Halldór Kiljan Laxness. 2019. Sjálfstætt fólk. Tólfta útgáfa, með nútímastafsetningu. Orðskýringar eftir Gunnar Skarphéðinsson. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
  • Haslanger, Sally. 2012. Resisting Reality: Social Construction and Social Critique. Oxford: Oxford University Press.
  • Helga Kress. 2011. „Söngvarinn ljúfi. Um myndir og orð í kvæði eftir Jónas Hallgrímsson.“ Ritið 11: 85–107.
  • „Íslenskan á síðustu bók Halldórs Kiljan.“ Morgunblaðið 16. nóvember 1940.
  • Jón Aðalsteinn Jónsson. 1959. „Ágrip af sögu íslenzkrar stafsetningar.“ Íslenzk tunga 1:71, 119.
  • Jón Karl Helgason. 1998. Hetjan og höfundurinn. Reykjavík: Heimskringla.
  • Jónas Hallgrímsson. 1945. Ljóðmæli. Ritstj. Tómas Guðmundsson. Reykjavík: Helgafell.
  • Jónas Hallgrímsson. 1847. Ljóðmæli. B. Pjetursson og K. Gíslason gáfu út. Kaupmannahöfn: J.D. Kvistur.
  • Manne, Kate. 2018. Down Girl: The Logic of Misogyny. New York: Oxford University Press.
  • Nýju Skólaljóðin – úrvalsljóð handa börnum og unglingum, síðara hefti. 1924. Jónas frá Hriflu gaf út. Akureyri: Bókafjelagið.
  • Nýju Skólaljóðin handa börnum og unglingum, fyrra hefti. 1926. Ármann Halldórsson, Hjörtur Kristmundsson og Stefán Jónsson gáfu út. Akureyri: Bókafjelagið.
  • Sigurjón Jónsson. 1941., „Um auglýsingaskrum og ‚ilmandi skáldskap‘“, Lesbók Morgunblaðsins 19. jan.
  • Skóla-ljóð kvæðasafn handa unglingum til að lesa og nema. 1901. Þórhallur Bjarnarson gaf út. Fyrsta prentun. Reykjavík: Sigfús Eymundsson. Önnur prentun 1905, þriðja prentun 1909, fjórða prentun 1913, fimmta prentun 1920.
  • Skólaljóð. 1938. Jón Magnússon valdi. Reykjavík: Ríkisútgáfa námsbóka.
  • Sveinn Skorri Höskuldsson. 1973. „Sambúð skálds við þjóð sína“, í Sjö erindi um Halldór Laxness, ritstj. Sveinn Skorri Höskuldsson. Reykjavík: Helgafell, s. 23–35.

 

Tilvísanir

[1] Ég þakka Jóhannesi Bjarna Sigtryggssyni, Helgu Kress, Þórdísi Eddu Jóhannesdóttur, Arngrími Vídalín, Nönnu Teitsdóttur og Sigþrúði Gunnarsdóttur fyrir ýmsar góðar ábendingar og yfirlestur.
[2] Ég þakka Þórdísi Eddu Jóhannesdóttur fyrir ábendingar um áhrif bragfræðinnar í þessu samhengi.
[3] Hér eru nokkur dæmi um meint kæruleysi Halldórs úr nafnlausri grein frá 1940: gvöð, ku, sosum, soldið, dáltið, bánkuseðill, fóviti, múndering, að undirvísa, dopulmorð, edjót, á sínum tíma, útaf fyrir sig. Sjá „Íslenskan á síðustu bók Halldórs Kiljan“ (1940: 5–6). Einnig er vert að kynna sér viðbrögð Sigurjóns Jónssonar (1941).
[4] Seinni hluta fyrstu spurningarinnar hef ég reynt að svara að einhverju leyti í bók minni Talking About (Elmar Unnsteinsson 2022). En hér er punkturinn einfaldlega sá að svörin við þessum spurningum séu fjarri því að vera augljós.
[5] Halldór margendurtekur þessa ástæðu sína fyrir útgáfunni. Til dæmis: „… ég álít það íslenskt landvarnamál, að sá sannleikur sé innrættur þjóðinni, að mál fornrita fvorra sé í meginatriðum það, sem vér enn notum“ (1942: 232, sjá líka ss. 234, 236, 238). Sjá einnig Jón Karl Helgason (1998: 4. kafli).
[6] Sem dæmi um stað þar sem minnst er á rökin í þessari efnisgrein, þótt þau séu ekki útfærð í neinum smáatriðum, má nefna Halldór Guðmundsson (Halldór Kiljan Laxness 2007: 7). En rökin hafa heyrst í tali fólks á milli um langt skeið.
[7] Sigþrúður Gunnarsdóttir hefur bent mér á að zetunni sé reyndar útrýmt þegar tækifæri gefst, til dæmis þegar Guðrún frá Lundi var endurútgefin. Ég játa í barnslegri einfeldni minni að mér þykir það alveg stórmerkilegt. Stafsetning með zetu er opinberlega viðurkennd stafsetning tiltekins tímabils í sögu íslensks ritmáls, þannig að hér er ekki verið að útrýma stílviðmiðum einstaklings heldur viðmiðum og venjum sem voru opinberar og kenndar í skólum.
[8] Ég þakka Arngrími Vídalín fyrir að benda mér á verk Steinars Sigurjónssonar í þessu sambandi.
[9] Sjá t.d. Sally Haslanger (2012: 17–21) og Kate Manne (2018). Kate Manne notar einmitt túlkun sína á persónu Bjarts í Sumarhúsum til að varpa ljósi á stöðu undirokaðra hópa (2018: 240–245).