eftir Dagnýju Kristjánsdóttur
Úr Tímariti máls og menningar, 4. hefti 2020.
Heimilin hafa lengst af verið undanskilin opinberri og pólitískri umræðu af því að þau eiga að vera griðastaður einstaklings og fjölskyldu. Samt á ofbeldi gegn konum og börnum sér oftast stað þar. Umræða um heimilisofbeldi og misnotkun á börnum var að mestu þögguð allt fram á níunda áratug síðustu aldar. Hún var bannsvæði. Kynferðisleg misnotkun á börnum er glæpur samkvæmt lögum og siðferði og þar fléttast saman flóknar og þversagnakenndar tilfinningar bæði hjá geranda og þolanda.
Þagnarmúrinn sem umlukti kynferðislega misnotkun á börnum og áhrif hennar var rofinn undir lok 20. aldar og í upphafi nýrrar aldar. Hræðileg mál komu upp á yfirborðið og vöktu mikla umræðu sem efldi þá reiði og réttlætiskennd sem leiddi meðal annars til #MeToo-byltingarinnar og kröfunnar um að ekkert skyldi undan skilið, ofbeldismenn skyldu afhjúpaðir og látnir svara til saka.
Trúlega hefur enginn nútímahöfundur gengið lengra en Halldór Laxness í að sýna og segja frá því kynferðislega ofbeldi og óhugnaði sem getur fylgt því að úthluta körlum/feðrum valdi yfir konum og börnum í krafti kyns og eigna.[1] Það kemur skýrt fram í skáldverkum hans allt fram á sjötta áratuginn hve ráðvillt börnin verða þegar þau eru stödd í atburðarás sem þau vita að er óviðurkvæmileg þó að þau viti ekki hvers vegna. Það kemur líka fram að hinir fullorðnu gerendur undirbúa atlögu sína að þeim oft vel og réttlæta hana fyrir sér. Börnin eru aðlöðuð og samþykk, treysta gerandanum og halda jafnvel að þau séu elsk að honum. Það hve lítið hefur verið rætt um þessa samfélagsádeilu í verkum Halldórs og hve lengi hún var þögguð á sér ekki rætur í verkum hans heldur fyrst og fremst í lesendum þeirra og viðtökunum við verkunum.[2]
Að öllum líkindum hafa margir vitað af ósæmilegri meðferð á börnum og unglingum í gamla bændasamfélaginu en um það var ekki talað nema úr yrði dómsmál. Öðru hverju glittir í harðræði og misnotkun á börnum í bókmenntatextum frá fyrri hluta aldarinnar sem leið, til dæmis hjá Gunnari Gunnarssyni og Þórbergi Þórðarsyni, en höfundar veigra sér við þessu umræðuefni og um það er ekki er fjallað.
Því áhrifameiri sem lýsingarnar í bókum Halldórs Laxness voru, því fastar var þagað um þær og kynferðislegt ofbeldi gegn börnum hélt áfram að vera bannsvæði í skáldverkum og opinberri orðræðu allt fram á áttunda áratug aldarinnar sem leið. Þá byrjuðu brestir að koma í þagnarmúrinn.
Brestir í þagnarmúrinn
Í Þjóðviljanum þann sjötta maí 1983 birtist grein með yfirskriftinni: „Eru kynferðisbrot gegn börnum ekki hættuleg?“ Greinina skrifaði móðir en dóttir hennar og vinkonur dótturinnar höfðu verið misnotaðar kynferðislega af sama manninum. Hann hafði í upphafi tælt telpurnar til sín með peningum, gjöfum og sögum um gagnkvæma gleði barna og fullorðinna af kynferðislegum tilraunum. Þetta væri talið fullkomlega eðlilegt og væri mikið stundað. Síðar nægði honum að hóta því að segja foreldrunum frá hvað þær hefðu gert.[3] Maðurinn hafði stundað þessa iðju árum saman og verið kærður áður, fórnarlömb hans voru orðin á þriðja tug telpna á aldrinum 12–15 ára. Móðirin sem skrifaði greinina segir um áhrif þessa á telpuna: „Auðvitað er ekkert í lagi hjá dóttur minni eða vinkonum hennar. Og það verður aldrei neitt í lagi.“[4]
Móðirin hafði kært brotið til yfirvalda fyrir hönd dótturinnar eftir að hún sagði frá og maðurinn játaði brot sitt strax. Hann hafði þá verið hnepptur í tveggja vikna varðhald, rannsóknarlögreglan fór fram á framlengingu en ríkissaksóknari lét hann lausan á þeim forsendum að hann væri „ekki hættulegur“. Í fimm mánuði hafði barnaníðingurinn því gengið laus og móðirin biður Þjóðviljann að krefja yfirvöld opinberlega svara við spurningu sinni: Hvers vegna er maðurinn úrskurðaður „ekki hættulegur“? Fulltrúinn sem svarar Þjóðviljanum segir svona mál vera viðkvæm, flas sé ekki til fagnaðar og vert að fara að öllu með gát. Í ljósi þess að refsirammi almennra hegningarlaga fyrir brot af þessu tagi var að hámarki 12 ára fangelsi og alvarleiki brotsins þar með lagður að jöfnu við manndráp var „rósemi“ yfirvaldsins óskiljanleg móðurinni og trúlega flestum lesendum.[5]
Ég bjó í Noregi þegar ég las þessa grein. Umræðan um sifjaspell og misnotkun á börnum geisaði í norskum fjölmiðlum. Mikið var talað um hina áhrifamiklu bók Herbjørg Wassmo: Huset med den blinde glassveranda[6] sem tilnefnd var til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1981. Þar segir frá „ástandsbarninu“ Þóru, dóttur norskrar konu og þýsks hermanns. Henni er nauðgað reglulega af fósturföður sínum sem er að hefna sín á Þjóðverjum með því að níðast á barninu. Pandóruboxið hafði sem sagt verið opnað í Noregi. Mér blöskraði svo grein móðurinnar og spurningin í yfirskrift hennar að ég skrifaði grein sem birtist í einu dagblaðanna á Íslandi.[7] Ég vissi að þetta var jarðsprengju- og bannsvæði og var ekkert rótt þegar ég sendi greinina frá mér, enda engin hetja.
Rauðsokkahreyfingin hafði látið til sín taka í umræðu um kynferðislegt ofbeldi gegn konum, ekki síst á heimilunum.[8] Kvennaathvarfið hafði verið opnað 6. desember 1982 og þangað komu konur og börn á flótta undan misþyrmingum á heimilunum en þar var áherslan fyrst og fremst lögð á ofbeldi gegn fullorðnum konum. Kvennalistinn tók síðar þennan málaflokk upp á arma sína og tímaritið Vera var öflugt í að fræða konur í greinum og viðtölum um eðli og afleiðingar kynbundins ofbeldis, bæði gegn konum og börnum. Stígamót voru opnuð 8. mars árið 1990 og ollu algjörum straumhvörfum í þessum málaflokki. En umræður um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum höfðu verið þaggaðar allt fram til þess tíma. Á spjallþræði í dagblaðinu Stundinni, 31. maí 2015, segir Lóa Gunnars þessa sögu frá árinu 1984:
Kvöld eitt sat ég með mömmu og sagði henni að í norska sjónvarpinu hefði verið umfjöllun um sifjaspell kvöld eftir kvöld og m.a. viðtöl við þolendur þess. Mamma varð mjög sjokkeruð og sagði – „Guði sé lof að það sé ekkert svona hér hjá okkur“![9]
Smám saman varð þó ljóst hve mikið reyndist vera af „svona“ hjá okkur, sprungur í þagnarmúrnum urðu æ fleiri og hann brast með áhrifamiklu bókmenntaverki: Myndinni af pabba. Sögu Thelmu sem rithöfundurinn Gerður Kristný skráði eftir Thelmu Ásdísardóttur og kom út árið 2005.[10] Gerður Kristný hafði þá unnið sem blaðamaður á tímaritinu Mannlífi. Hún hafði lagt sérstaka áherslu á viðtöl og greinar um kynferðislega misnotkun og ofbeldi gegn konum og var ötull og hugrakkur málsvari þeirra. Bókin sem hún vann með Thelmu hefði áreiðanlega ekki sýnt jafn mikið innsæi í söguna sem sögð var án þessarar reynslu.[11]
Tíu árum síðar, árið 2015, lýsir Gerður tilurð bókarinnar í viðtali á vef Ríkisútvarpsins undir yfirskriftinni: „Vissi hvað þetta var rosalega hættulegt.“ Undirtitillinn var: „Ef við ætlum ekki að segja frá því að það sé verið að pynta karla, konur og lítil börn, þá er þetta starf ekki til mikils.“[12] Hún segir í viðtalinu að þær Thelma hafi ekki getað séð fyrir hvort einhver eða enginn myndi lesa bókina, þær hafi samt verið sammála um að hana þyrfti að skrifa en hvorug sá fyrir þær flóðgáttir af umræðu og uppljóstrunum sem áttu eftir að fylgja verkinu.
Hér verður fjallað um þessa bók og fjórar aðrar bækur kvenna sem komu út á tímabilinu 2005–2013. Þetta eru Myndin af pabba (2005), Ekki líta undan. Saga Guðrúnar Ebbu, dóttur Ólafs Skúlasonar biskups (2011), Hljóðin í nóttinni (2014), Mörk: Saga mömmu (2015) og Manneskjusaga (2018). Bækurnar rúma frásagnir ólíkra einstaklinga, þær lýsa börnum af ólíkum stéttum, með ólíka möguleika en öll hafa þau orðið fyrir kynferðislegri misnotkun sem hefur haft djúp áhrif á allt þeirra líf. Hér verður spurt hvort hægt sé að greina sameiginlegan kjarna sem sagt er frá, eða þagað yfir, eitthvert hreyfiafl í hinum ólíku frásögnum sem knýr merkingarþrá þeirra áfram?
Myndin af pabba
Thelma Ásdísardóttir er miðdóttirin í hópi fimm systra, dætra Stefáns Guðna Ásbjörnssonar. Í bókinni lýsir hún uppvexti sínum í gömlu, gulu húsi við Hringbraut í Hafnarfirði á áttunda og níunda áratugnum. Gerður Kristný skráir söguna eftir henni og segir það hafa verið sambland af því að skrifa hefðbundna skáldsögu og viðtal. Þær Thelma hafi hist vikulega, veturinn 2003 til 2004, og rætt saman. Hún hafi síðan unnið úr viðtölunum við Thelmu, dómskjölum, dagbókum og sendibréfum og samstarfið hafi gengið mjög vel. Áður hafði Thelma fengið samþykki móður og systra fyrir því að segja sögu þeirra og draga ekkert undan.[13]
Í greininni „Skáldað um líf“ fjallar Gunnþórunn Guðmundsdóttir um einkenni sjálfsævisagna og vitnar í ævisagnafræðinginn Philippe Lejeune sem segir að í sjálfsævisögunni sé höfundur, sögumaður og aðalpersóna einn og sami maðurinn og það sé einkenni þeirrar bókmenntagreinar.[14] Viðtalsbækur eru alls ekki einföld undirgrein ævisagna. Myndin af pabba hefur undirtitilinn „Saga Thelmu“ og Gerður Kristný er skráð höfundur sögunnar. Bókin er þannig samstarf tveggja „höfunda“, skrásetjarans Gerðar og sögumannsins Thelmu. Í mastersritgerð sinni Söngkonan, listakonan og heimskonan. Um þrjár íslenskar viðtalsbækur (2008) fjallar Vala Georgsdóttir um hið nána samband sögumanns og skrásetjara í slíkum samstarfstexta. Sé sagan skráð af öðrum aðila þarf hann að gæta þess að rödd sögumannsins hljómi skýr og persónuleg en þurrka sig, skrásetjarann, út af fremsta megni. Um leið þarf hann að verða eins náinn söguhetju sinni og hægt er. Þetta krefst yfirvegunar og gagnkvæmrar virðingar. Þetta getur líka kostað átök því tvo sögumenn/höfunda textans getur greint á um hver sannleikurinn er. Eða hvað skuli sagt og yfir hverju þagað. Í góðum viðtalsbókum getur þannig orðið til spenna milli skrásetjara og sögumanns, undirtexti, sem opnar túlkunarmöguleika fyrir lesanda eins og fagurbókmenntatextar gera. Vala Georgsdóttir vitnar í Ingólf Margeirsson sem segir að það liggi í augum uppi að góður skrásetjari þurfi að vera góður spyrjandi en nauðsynlegast sé samt að vera góður hlustandi.[15]
Gerður Kristný setur höfundarmark sitt á sögu Thelmu, hún forðast tilfinningasemi, segir frá í lágmæltum, svolítið fjarlægum stíl, yfirleitt lýsandi fremur en útskýrandi, einkum þegar fjallað er um versta ofbeldið. Frá öllu er sagt „samkvæmt bestu vitund og minni“, stundum styrkt af gögnum eins og bréfum og nokkrar ljósmyndir af fjölskyldunni prýða bókina. Gunnþórunn Guðmundsdóttir segir:
Ljósmyndir eru þær persónulegu heimildir um hversdaginn sem allar fjölskyldur nú á tímum eiga í fórum sínum og sem við notum dags daglega til að sanna tilvist okkar. Það er því ekki nema von að þær séu sjálfsævisöguhöfundum hugleiknar. Þær eru uppspretta minninga og sögusagna og eru oft notaðar á mjög frjóan hátt …[16]
Hjá Thelmu Ásdísardóttur tengjast ljósmyndir oftast draumum föðurins um að verða atvinnuljósmyndari þó hann hefði enga menntun á því sviði. Hann reyndi á tímabili að auglýsa sig sem tískuljósmyndara og umboðsmann ungra stúlkna sem vildu gera það gott en nauðgaði 13 ára fyrirsætu og var dæmdur til fangelsisvistar. Eftir nauðgunarmálið fundu ljósmyndaradraumar hans sér aðallega farveg í klámmyndum sem hann tók af konu sinni og barnungum dætrum.
Stefán Guðni tekur stundum fallegar fjölskyldumyndir[17] en í augum þess sem veit hvernig líf fjölskyldunnar raunverulega var miðla þær aðeins lognu yfirborði. Stefán hafði lag á að koma sér í fjölmiðla og dagblaðið Vísir tók viðtal við hann um gullfiskarækt sem hann hafði fengið tímabundinn áhuga á og fjárfesti töluverða peninga í. Lýsing Thelmu á því hvílík plága þessi gullfiskarækt var fyrir fjölskylduna dregur upp aðra mynd. En sannlega stillti fjölskyldan sér upp á myndinni sem fylgdi viðtalinu.[18]
Á þessum tíma var fjölskyldan bágstödd, eins og venjulega, litlu telpurnar báru út blöð og faðirinn var byrjaður að fara með Thelmu eina, átta ára gamla, í barnavændisferðir að næturlagi. Þannig eru þær fáu myndir sem eru í bókinni vissulega heimildir en á bak við fallegt yfirborð býr sannleikur sem hvorki mátti sýna né tala um.
Þegar Thelma segir Gerði Kristnýju sögu sína hefur hún unnið við að hjálpa fórnarlömbum kynferðisofbeldis nokkra hríð og aflað sér mikillar faglegrar þekkingar á málaflokknum. Það er trúlega sameiginleg ákvörðun þeirra Gerðar Kristnýjar að fara alla jafna ekki út í nákvæmar lýsingar á ofbeldinu heldur láta lesanda um að ímynda sér það.
Ógnarstjórn
Bókin Myndin af pabba hverfist um föðurinn, Stefán Guðna Ásbjörnsson (1931–1999). Samskipti hans við fjölskylduna eru efni bókarinnar. Móðirin og systurnar fimm eru fórnarlömb hans og búa með honum á áttunda og níunda áratug aldarinnar sem leið.
Stefán fellur undir allar skilgreiningar „harðstjóra“. Reiðiköst hans eru óvænt og óútskýranleg, oftast tengd vímuefnum en ekki endilega. Þá ræðst hann á móðurina og gengur í skrokk á henni af mikilli hörku í augsýn dætranna sem óttast oft um líf hennar. Hún er kjölfestan í lífi þeirra og fyrirvinna fjölskyldunnar.[19] Stundum snýr faðirinn við blaðinu, segir dætrunum sögur af ímynduðum frægðarferli sínum og ævintýrum sem mest eru soðin upp úr bíómyndum. Ef ekki er hlegið á réttum stöðum eða eitthvað ber út af getur refsingin orðið mild, en hún getur líka orðið grimmileg. Hann drepur stundum eitthvert af gæludýrum stelpnanna í refsingarskyni. Enginn getur séð fyrir hvar hann lætur til skarar skríða næst þegar honum misbýður eitthvað eða hver verður fyrir því. Allir eru stöðugt að reyna að lesa í viðbrögð hans. Öllum er haldið óöruggum og þannig vinnur hið skýlausa vald, það er tilviljanakennt og enginn öruggur.[20] Drifkraftur og meginþema frásagnarinnar í Myndinni af pabba er þörf þolendanna fyrir merkingu og orsakasamhengi í tilveru sína af því að hvort tveggja skortir.
Þegar kvöldar fer Stefán stundum með einhverja eða einhverjar af barnungum dætrum sínum í leigubíl í partý til annarra karla á miðjum aldri og selur þjónustu þeirra í barnavændishring sem hann tilheyrir. Hann fær borgað í brennivíni, pillum eða peningum. Að hans mati á hann börnin og konuna og má gera það sem honum sýnist við eigur sínar. Þjáningar barnanna eru skemmtiefni í hringnum. Skömmin yfir þessu er slík að systurnar reyna allt sem þær geta til að fela ástandið, enda óttast þær ekkert meira en að fjölskyldan verði leyst upp og þær aðskildar. Það hefur faðirinn sagt þeim að muni gerast. Þetta er jafnframt algengt mynstur hjá ofbeldismönnum sem misnota börn og reyna að tryggja sér þögn þeirra með pyntingum og hótunum. Þeir vita hvað samfélaginu finnst um það sem þeir gera börnunum og verða að treysta því að hin afbrigðilega ást fjölskyldunnar verndi þá. Þetta fellur undir þriðja þrep kynferðislegs ofbeldis gegn börnum eða aðlöðun barnsins, sem nánar verður fjallað um síðar.
Bókin hefst á kafla þar sem tvær af systrunum hittast við dánarbeð föðurins. Thelma reynir að segja honum að hún hafi fyrirgefið honum það sem hann gerði henni. Hún endurtekur síðan fyrirgefningu sína með öðrum orðum og tekur þá fyrri aftur með hinni nýju. Síðast setur hún bréf í kistu hins dána föður þar sem hún segir honum að öll reiði í garð hans sé horfin en eftir það, í lok fyrsta kaflans, segir hún að myndin sem hún hyggst draga upp af pabbanum hefði trúlega ekki fallið honum í geð. Henni sé sama um það, því að ekki hafi hann spurt þær systur leyfis, barnungar, þegar hann tók af þeim klámmyndir til sölu.
Lokakafli bókarinnar gerist á undan fyrsta kaflanum í tíma og bókin er þannig sögð í endurliti. Þar er lýst heimsókn Thelmu til föðurins sem er orðinn veikur af krabbameini og á ekki langt eftir. Uppgjör milli feðginanna fer þar fram. Thelma spyr föður sinn beint: „Hvers vegna misnotaðirðu mig?“ Hann koðnar niður í sjálfsmeðaumkvunarvæl; hann var svo veikur, enginn hjálpaði honum, lúpulegur biðst hann fyrirgefningar en dóttirin verður enn reiðari því að hún sér enga iðrun.[21]
Það er heldur ekki hægt að svara spurningu Thelmu og þess vegna er hún svo harmræn. Engin ástæða og engin merking er með þeim grimmdarverkum sem barnaníðingar geta haft í frammi við börn. Þeir einangra börnin til að komast að þeim og „afmennska“ þau til að réttlæta fyrir sjálfum sér það sem hentar þeim að gera. Með „afmennska“ er átt við að þeir verða að afmá persónueinkenni barnanna og gera þau að framlengingu á sjálfum sér. Girnd gerandans er drifkraftur þess sem hann gerir en nálgun hans að börnunum og það sem hann gerir þeim er fyrirfram skipulagt, baktryggt, klámfengið og tilfinningakalt. Barnið skiptir í raun ekki máli heldur hvort það er aðgengilegt. Þess vegna er tilgangslaust að spyrja: Hvers vegna gerðirðu þetta? Hið illa á sér enga útskýringu aðra en sína eigin heimsku, það er fáránlegt, siðlaust, röklaust og í raun hryllilega lágkúrulegt, eins og Hannah Arendt segir í ritgerð sinni um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann í Jerúsalem.[22]
Heyrðu ekkert, sáu ekkert, sögðu ekkert …
Þegar Myndin af pabba. Saga Thelmu kom út og holskeflan af blaðaskrifum, viðtölum og vitnunum reið yfir fannst mörgum eitt það óhugnanlegasta við hana vera hve margir íbúar Hafnarfjarðar reyndust hafa vitað af því sem var að gerast í gula húsinu við Hringbraut. Í blaðaviðtalinu „Skömmin er ekki mín“ er Thelma spurð að því hvað hún vildi að hefði verið gert og hún svarar:
Ég hefði viljað að pabbi hefði verið fjarlægður af heimilinu eða mömmu gert mögulegt að fara með okkur eitthvað annað. Þar áttu félagsmálayfirvöld að koma inn í. Ég vildi óska að menn hefðu ekki lokað augunum allir sem einn. Það var kannski erfitt eða umfram getu fólks og þekkingu að grípa inn í en ég hefði samt viljað að fólk hefði ekki látið staðar numið heldur ögrað sér svolítið og bjargað okkur. Það átti einfaldlega að bjarga okkur.[23]
Í M.A.-ritgerð í blaða- og fréttamennsku sem ber nafnið Þegar fjölmiðlar þegja fer Áslaug Einarsdóttir í saumana á þessu máli.[24] Eins og áður sagði nauðgaði Stefán Guðni Ásbjörnsson 13 ára gamalli stúlku árið 1964. Hann hafði auglýst eftir fyrirsætum vegna tískuljósmynda og þessi barnunga stúlka svaraði auglýsingunni. Foreldrar hennar kærðu, Stefán var handtekinn og öll dagblöðin sex (Morgunblaðið, Tíminn, Vísir, Mánudagsblaðið, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn) fjalla um málið. Þarna ræðst ókunnur maður á unglingsstúlku og svívirðir hana og það getur samfélagið alls ekki liðið.[25] Stefán er sakfelldur og hlýtur eins og hálfs árs fangelsisdóm.[26] Hann afplánar aðeins hluta af honum „vegna andlegrar vanlíðunar“.[27]
Þegar hann kemst næst í blöðin á árunum 1970–1972 beinast sjónir fjölmiðla að honum vegna auglýsinga um ný fyrirsætunámskeið og „kynlífsmiðlun“, auglýsingin er á ensku. Það er Mánudagsblaðið sem tekur málið upp og bendir á að dæmdur barnaníðingur sé að auglýsa ljósmyndun og í framhaldi af því beinast sjónir yfirvalda að gula húsinu. Þá hafði sjö ára dóttir Stefáns, sú elsta, sagt vinkonu sinni að faðirinn misnoti bæði hana og yngri systur hennar tvær og selji aðgang að þeim. Hún heldur fast við framburð sinn í yfirheyrslu barnaverndarnefndar og saga hennar er talin trúverðug. Málið er þar með orðið opinbert en stofnanir samfélagsins bregðast börnunum: löggæslan, barnaverndaryfirvöld og skólinn. Sömuleiðis hið félagslega umhverfi telpnanna: fjölskyldur foreldranna, nágrannar, fjölmiðlar og leigubílstjórar sem keyrðu smástelpurnar til barnaníðinganna og heim aftur á næturnar. Enginn greip inn í og stoppaði það sem var að gerast. Allir brugðust.
Hér verður þessi ótrúlega og hörmulega saga ekki rakin frekar en vísað á ritgerð Áslaugar Einarsdóttur sem fylgir sögu málsins eftir í dómskerfinu allt til enda og leiðir sannfærandi rök að því að meðferð þess hafi verið spillt og ósannfærandi. Sönnunarbyrði i sifjaspellamálum er alltaf erfið en hér lá málið óvenju ljóst fyrir. Stefán Guðni Ásbjörnsson var sýknaður þó að dóttir hans bæri vitni og sömuleiðis besti vinur hans sem tók þátt í barnaníðinu. Hann játaði glæp sem þeir Stefán frömdu saman og var dæmdur en Stefán neitaði og slapp.[28]
Fjölmiðlar höfðu engan áhuga á afdrifum málsins og meðferð þess í dómskerfinu sem þó var bæði óskiljanleg og ósannfærandi. Þeir þögðu. Áslaug Einarsdóttir vitnar í erlendar rannsóknir sem sýna að fjölmiðlar veigra sér við að tala um glæpi eins og sifjaspell og misþyrmingar á börnum innan vébanda fjölskyldunnar. Það er þægilegra ef utanaðkomandi maður ræðst á konu á götu úti.[29] Sýknudómur Stefáns kostaði dætur hans og konu meira en tíu ár til viðbótar í helvíti.
Hljóðin í nóttinni
Björg Guðrún Gísladóttir skrifar bók sína, Hljóðin í nóttinni (2014), í fyrstu persónu og hefur í viðtölum talað opinskátt um hana sem sögu af eigin lífi.[30] Hún ólst upp í Höfðaborginni, frægu fátækrahverfi í Reykjavík, á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar og gekk í Laugarnesskóla.
Björg er næstelst af systkinum sínum. Móðir hennar hafði eignast fimm börn með þremur mönnum þegar hún var 27 ára. Elsta barnið, sonur, ólst að mestu upp hjá móðurömmunni en með föður Bjargar eignaðist móðirin aðra dóttur og tvær með þriðja manni sínum, sjómanninum. Hún vann úti og vann mikið en öfugt við sögu Thelmu er ekki hægt að segja að hún hafi verið kjölfestan í fjölskyldunni. Hún gefur börnunum að borða og þvær af þeim en tekur ekki ábyrgð á velferð þeirra. Hún „á sig sjálf“ og virðist rugla sjálfshyggju sinni og skapofsa saman við kvenfrelsi og sjálfstæði.
Móðirin er bráðlynd og sambönd hennar við karlmenn full af átökum og ofbeldi. Drykkjulátum og slagsmálum síðasta eiginmannsins, sjómannsins, og móðurinnar, með tilheyrandi fúkyrðum, öskrum, brothljóðum og lögregluheimsóknum, er lýst. Átökin gera börnin skelfingu lostin og öryggislaus og vitneskja nágrannanna bætist ofan á skömmina sem fyrir var. Þó að börnin þrái lausn frá óöryggi og ofbeldi geta þau ekki annað en deilt ótta foreldranna við að fjölskyldan verði leyst upp og þau lendi hjá ókunnugum. Barnaverndarnefnd er „óvinur“ fjölskyldunnar eins og hjá Thelmu og hennar fjölskyldu í Hafnarfirðinum.
Þegar mest gengur á, móðirin læsir sig inni í stofu og ölóður sjómaðurinn byrjar að brjóta veggi til að komast að henni, verður stúlkubarnið, sex ára, svo hrætt um líf mömmu sinnar að þegar maðurinn gefst upp og fer leggst barnið til svefns á gólfinu fyrir framan svefnherbergisdyr móðurinnar til að vernda hana. Móðirin hleypir henni aldrei að sér en gerir til hennar miklar kröfur. Björg verður að taka að sér móðurhlutverk gagnvart litlu systrunum þremur. Það gefur lífi hennar tilgang og reglufestu mitt í öllu ruglinu og síðar segir hún að það hafi „bjargað sér“ – en það rænir hana samtímis bernskunni. Eins og Thelma og systur hennar getur hún ekki hætt á að neinn jafnaldri sjái heimilislífið, ekki trúað neinum fyrir því sem á gengur, og hún getur aldrei boðið öðru barni heim.
Eitt af því ömurlegasta í bókum Bjargar og Thelmu er lýsingin á stéttaskiptingunni sem börnin upplifa á eigin skinni hvern dag. Börnin í Höfðaborg eru fátæk og bera það með sér. Foreldrarnir geta ekki verndað þau og allt þeirra umhverfi segir þeim að þau séu réttlaus. Þau verða því tilvalin bráð fyrir menn sem leggjast á börn. Eitt af því sem einkennir annað þrep kynferðislegrar aðlöðunar er að tryggja aðgang að börnunum með því að koma sér vel fyrir í samfélagi þeirra eins og áður er sagt. Menn með þessar hneigðir sækja oft í störf eins og sumarbúðaumsjón, íþróttaþjálfun, kennslustörf eða aðra vinnu með börnum. Björg er sett í tossabekk eins og öll Höfðaborgarbörnin. Kennarinn hennar er hinn landsþekkti barnavinur og fjölmiðlamaður Skeggi Ásbjarnarson sem margar kynslóðir af börnum í Laugarneshverfinu elskuðu og dáðu af því að hann ræktaði hæfileika greindra barna. En hann hafði enga trú á tossum. Björg lýsir því í bók sinni hvernig hann sagði tossunum að horfa á bækurnar sínar á meðan hann káfaði á völdum drengjum í lestrartímum.[31] Drengjunum sem hann girntist var boðið í „aukatíma“ heim til hans og hótað með Breiðuvík ef þeir hlýddu ekki. Sumir þeirra lentu þar.
Skósmiðurinn í hverfinu ginnir til sín smástelpur með sælgæti og misnotar þær, fullir karlar og skrýtnir bera sig fyrir framan börnin og þau tileinka sér grófan og klámfenginn orðaforða yfir kynlíf og líkama. Í sögu Bjargar kemur fram þrá hennar eftir ást og viðurkenningu mömmu sinnar en hvorugt stendur henni til boða. Löngu seinna reynir hún að ræða þetta við móðurina sem segir dótturinni að það hafi verið pabbi hennar sem vildi barn: „Mig langaði ekki í annað barn, ég átti nóg með bróður þinn. Eftir að ég átti þig, fannst mér alltaf að þú værir meira barnið hans en mitt. Ég átti þig fyrir hann.“[32] Hún segir líka að dóttirin hafi verið meiri „vinkona“ en dóttir fyrir sér – þær hafi sem sagt verið „tvær stúlkur“ líkt og Sigurlína segir um þær mæðgurnar í Sölku Völku.
Telpunni þykir þess vegna tvöfalt vænna um pabba sinn sem er góður vinur sjómannsins sem mamman giftist og kemur heim með honum. Hann gistir hjá þeim. Þar misnotar hann dótturina í fyrsta sinn og „allt breytist“. Seinna gerir bróðir hans það líka, telpan er þá níu ára og hugsar: „Þeir voru svo margir; pabbi, bróðir hans, skósmiðurinn, kennarinn og dónakarlinn, sem var alltaf að sniglast í kringum okkur krakkana. Voru allir karlar svona?“[33] Algengt framhald af þessari spurningu hjá fórnarlömbum ofbeldis er: Hvað hef ég gert, af hverju leita þeir á mig? Eins og Thelma fer Björg ekki í smáatriðum ofan í það sem þessir fullorðnu menn gera henni en gefur það í skyn.
Háir jafnt sem lágir
Einhvers staðar í vitund þeirra illfygla sem sveima kringum börnin sem komu úr Höfðaborginni hefur kannski verið sú hugsun að öllum væri sama um þessi börn, það væri búið að skemma þau hvort eð var og þau munaði ekki um einn kepp í sláturtíðinni. Sannarlega getur stéttbundin mannfyrirlitning af þessu tagi ekki gilt um sjálfa dóttur biskupsins yfir Íslandi og hún getur ekki orðið fyrir slíku ofbeldi? Eða hvað?
Það varð mörgum áfall þegar Guðrún Ebba Ólafsdóttir steig fram og sakaði föður sinn, Ólaf Skúlason biskup, um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi alla sína barnæsku og fram á unglingsár. Faðir hennar dó árið 2008 og árið eftir sagði Guðrún Ebba biskupi og biskupsritara sögu sína og lagði fram bréf þar sem hún fór fram á að kirkjan efldi forvarnir sínar, fræddi starfsmenn sína um alvöru slíks ofbeldis gegn börnum og tæki opinbera afstöðu með börnunum því að misnotkun á þeim væri synd. Biskupsstofa lagði bréf hennar „í salt“ en þegar fjölmiðlar urðu þess áskynja kom málið fyrir sjónir þjóðarinnar. Það reyndist ekki koma öllum á óvart því biskupinn hafði komið víða við.
Í bókinni Ekki líta undan[34] skrásetur blaðamaðurinn Elín Hirst sögu Guðrúnar Ebbu þar sem hún rekur misnotkun föðurins á sér. Hún er frumburður foreldranna, fallegt barn og skýrt, full af sjálfstrausti og lífsgleði. Hún er mikil „pabbastelpa“, lítur mjög upp til föðurins enda „vinnur hann“ hjá Guði og túlkar vilja hans. Framaferill séra Ólafs innan kirkjunnar er hraður og velgengni fjölskylduföðurins, vinsældir og dugnaður tryggir velferð fjölskyldunnar allrar á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar. Móðirin er prestsfrú sem gegnir líka stóru hlutverki í framaferli séra Ólafs.
Heimilislífið snýst allt í kringum föðurinn sem er mislyndur, ef hann er í góðu skapi eru allir glaðir, ef í vondu skapi „þurfti hann á stöðugri hvatningu og uppörvun að halda og fannst allir vera á móti sér.“[35] Hann skiptir fólki í vini eða óvini eftir hollustu við sig. Hann er mikill „kvennamaður“, konur sem eru hrifnar af honum eru frábærar en hinar fá það óþvegið í ummælum hans við fjölskylduna og hann getur verið mjög eitraður. Hann heldur framhjá konu sinni með sóknarbarni í hverfinu, allir vita það en hann kemst upp með þetta og allt annað sem hann vill. Náðarsól Guðs skín á prestsheimilið og sólskinsbarnið Guðrún Ebba dafnar í Ísaksskóla.
Faðirinn eys ást sinni og aðdáun yfir hana í upphafi, hún er sérstök og útvalin, þau eru svo lík og í sjálfsást sinni skilur hann ekki á milli sín og hennar. Hann gefur henni gjafir og er stoltur af henni. Hún tilbiður hann. Hann byrjar að misnota hana unga, hún segist hafa lifað í tveimur heimum sem henni hafi tekst merkilega vel að halda aðskildum: „Í öðrum heiminum var ég pabbastelpa, sjálfsörugg og dugleg og hafði félagana og skólann en í hinum var ég einmana, varnarlaust fórnarlamb sifjaspella. Það er gífurleg togstreita fyrir barnssálina þegar sá sem segist elska þig mest er einnig sá sem meiðir þig mest.“[36]
Í sögu Thelmu og Bjargar kemur fram að misnotendur óttast að börnin segi frá því sem fram fer heima hjá þeim og er ekki vel við að þau eigi trúnaðarvini eða umgangist aðra en fjölskyldumeðlimi. Þetta á ekki við um hina vinsælu og félagslyndu Guðrúnu Ebbu. Þegar hún fer í skólann skilur hún „hitt barnið“ eftir heima. Hún er svo aftengd eigin þörfum (e. disassociated) og leyndarmál föðurins svo stór hluti af henni sjálfri að síðar, þegar aðrar konur stigu fram og kærðu biskupinn fyrir kynferðislega áreitni, var hún ein þeirra sem afneitaði ásökunum þeirra og barðist við hlið föðurins til að halda uppi nafni hans og heiðri.[37]
Þegar Guðrún Ebba segir Elínu Hirst sögu sína hefur hún losað sig við margvíslega áráttuhegðun og fóbíur, alkóhólisma, lyfjamisnotkun, lotugræðgi og fleiri alvarlegar afleiðingar af kynferðislegri misnotkun í bernsku. Hún hefur jafnframt verið ráðgjafi í meðferð fórnarlamba kynferðisofbeldis í sjálfshjálparhópum, eins og Thelma Ásdísardóttir og Björg, og unnið með og fyrir ýmiss konar samtök sem hjálpa fórnarlömbum sifjaspella. Í bókinni endurspeglast mikil yfirsýn yfir brotasviðið og ítarefni er í bókarlok, heimildaskrá og nafnaskrá og bókin hefur þannig yfirbragð fræðirits. Sögumaðurinn og blaðamaðurinn, Elín Hirst, fléttar líka fræðikenningar og greiningu á sifjaspellum og afleiðingum þeirra saman við þroskasögu Guðrúnar Ebbu.
Gerandinn?
Í því merka greinasafni Hinn launhelgi glæpur. Kynferðisbrot gegn börnum (2011) sem Svala Ísfeld Ólafsdóttir ritstýrði segja Anna Kristín Newton og Þórarinn Viðar Hjaltason að fræðimönnum sé mjög í mun að finna skýringu á því hvað fær menn til að leggjast á börn. Þau segja að flestir hallist að fjölþáttakenningum og að yngri kenningar um nálgun kynferðislegra misnotkunarmanna, aðlaðara, að börnum og aðlöðun þeirra (e. grooming) byggi flestar að einhverju leyti á kenningum Finkelhor frá 1984. Hann talar um fjögurra þrepa aðdraganda kynferðisbrota gegn börnum. Í fyrsta lagi þarf einstaklingurinn að hafa áhuga á því að brjóta gegn barni, hann þarf að örvast kynferðislega af börnum eða hafa tilfinningalega þörf fyrir að umgangast börn. Í öðru lagi þarf hann að yfirstíga þær hömlur sem halda aftur af honum. Oftast þarf brotamaðurinn að sannfæra sjálfan sig um að lítið barn beri engan skaða af því að stunda kynlífsathafnir með fullorðnum. Í þriðja lagi þarf að vinna traust þeirra sem líklegastir eru til að vernda barnið, einkum foreldrum, til þess að skapa aðstæður þar sem brot geta farið fram og draga úr líkunum á að barninu sé trúað ef það segir frá. Fjórða og síðasta skilyrðið sem Finkelhor setti fram er að einstaklingurinn þarf að draga úr mótþróa barnsins með því að laða það að sér eða vera tilbúinn til að beita ofríki við framkvæmd brotsins. Séu þessi skilyrði fyrir hendi telur Finkelhor auknar líkur á að brot gegn barninu verði framið.[38]
Samantha Craven, Sarah Brown og Elizabeth Gilchrist forðast hugtakið barnaníðingur (e. pedophile) og rökstyðja það svo að klíníska skilgreiningin að baki því sé mjög þröng og eigi ekki við um alla sem girnist börn. Að auki sé hugtakið hlaðið fordómum, svo sem þeim að allir barnaníðingar séu þekktir, gamlir, ógeðsleglegir menn sem ráðist á börn og nauðgi þeim. Þetta beini athygli frá ofbeldi á heimilunum og þeirri staðreynd að átta af hverjum tíu misnotuðum börnum þekkir ofbeldismanninn og hefur oft myndað tilfinningatengsl við hann.[39]
Í doktorsritgerð Knut Hermstad Glæpur og sjálfsmynd kemur fram að það er erfiðara fyrir fanga sem hafa brotið kynferðislega gegn börnum að horfast í augu við glæp sinn ef þeir eiga að gegna nöfnum eins og barnaníðingur eða „perri“. Þeir segjast gjarna fyrirlíta „pedófíla“ og skilja ekki hvernig „svoleiðis menn“ hugsa. Í þeirra augum er mikill munur á að taka ábyrgð á því sem þeir „gerðu“ og því sem þeir „eru“. Flestir höfðu þeir lágt sjálfsmat og þó að þeir væru fjölskyldumenn var sambandið við eiginkonurnar ekki lengur tilfinningalega fullnægjandi, að þeirra mati. Undirgefni og aðdáun dætranna efldi sjálfstraust þeirra og þeir töldu sér trú um að þær hefðu líka kynferðislega gleði af sambandinu. Í fangelsinu voru þeir samt ekki lausir við áhyggjur af að hafa skaðað dæturnar.[40]
Ekkert af þessu tagi virðist hafa haldið aftur af föður Guðrúnar Ebbu þegar hann byrjar að misnota hana barnunga. Það er alveg ljóst á reiðilegum viðbrögðum hans, þegar hún neyðir hann til uppgjörs vegna sifjaspellanna undir lokin, að hann skilur ekki af hverju hún á sitthvað vantalað við hann:
Hann öskraði á mig í símann. Það var djúp fyrirlitning í röddinni þegar hann spurði mig hvað ég væri að rifja upp einhver eldgömul mál. Svona lauk símtalinu. Það var í síðasta sinn sem ég talaði við föður minn.[41]
Þessi „eldgömlu mál“ skipta engu máli í hans augum. Hann veit um hvað hún er að tala en iðrast einskis. Hann hefur verið mjög varkár og úthugsað aðgengi sitt að barninu á heimilinu en er ef til vill kærulausari þegar hann er að misnota hana í bílnum á opnu svæði í hverfi þar sem hann er sóknarprestur. Það gerir hann aðeins í myrkrinu á veturna. Barnið hlýðir öllu sem hann biður um. Það elskar pabba sinn – en ekki á sama hátt og hann hana.
Eins og allir sögumennirnir sem hér hafa komið við sögu ræðir Guðrún Ebba um erfiðleika við að lifa eðlilegu kynlífi og njóta þess þegar hún er fullorðin og komin í fast samband. Hún segir sálfræðingnum sínum frá minningu sem hún hefur ekki þorað að nefna við nokkurn mann og er djúpt á. Það er minning um „sprengingu“ í kollinum á henni sem tengist misnotkun föðurins og hefur „líklega verið fullnæging“.[42]
Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, segir að ein af mikilvægum ástæðum þess að banna kynmök fullorðinna og barna undir 15 ára felist í því að börnin verði mjög ráðvillt um hvar mörkin liggi, meðal annars hvað sé að gerast í líkömum þeirra. Þau geti örvast við gælur en samt alls ekki samþykkt eða viljað það sem er að gerast, líkaminn „svíkur“ þau:
Ung börn hafa ekki forsendur til að skilja að þau stjórna ekki líkamlegum viðbrögðum sínum, ekki frekar en þau ráða því hvort húð þeirra roðnar við hita eða ekki. Undantekningarlaust þjást þau af sektarkennd, sjálfsásökunum og skömm. Þau fá viðbjóð á líkama sínum sem þeim finnst vera skítugur.[43]
Þetta gerist hjá hálfstálpaðri telpu sem fær fullnægingu án þess að vita hvað „hún hefur gert“ fyrr en löngu seinna. Aðlaðarinn getur notað þetta gegn barninu og sagt því að það hafi notið kynmakanna og þráð þau. Barnið er þannig gert „samsekt“ í kynferðislegu ofbeldi gegn sér og jafnvel eru börn sögð hafa dregið hinn fullorðna á tálar. Börn eru kynverur en þau eru ekki meðvituð um hvað í því felst og hvað felst í kynlífi fullorðinna. Sá skilningur verður til smám saman og er afturvirkur þannig að kynferðisleg misnotkun í bernsku getur orðið mjög skaðleg fyrir sjálfsmynd hinnar ungu konu. Guðrúnu Ebbu tókst að bæla þennan skilning svo lengi að skaðinn varð enn djúptækari. Allar ævisögurnar sem hér er fjallað um segja frá því hvernig stúlkubörnin læra að aftengja sig líkama sínum í misnotkuninni og hvílíkri sorg þessi viðbrögð geta valdið í síðari kynferðissamböndum þeirra við menn sem þær elska.
Faðir Thelmu Ásdísardóttur er sakbitinn og biður hana grátandi að fyrirgefa sér og segist vita að það sem hann gerði hafi verið rangt en tekur þá yfirlýsingu jafnharðan aftur og segist hafa verið veikur og þar með ekki ábyrgur. Hann iðrast einskis og það er nokkuð ljóst að dóttirin trúir honum ekki þegar hann segir annað. Hann virðist vera siðblindur og ekki hafa nokkur mörk gagnvart því sem hann gerir dætrum sínum og eiginkonu. Aðgangur hans að börnunum er greiður því hann vinnur ekki úti, móðirin vinnur baki brotnu fyrir heimilinu. Börnin gera allt sem hann krefst því þau eru hrædd við hann.
Faðir Bjargar verður sömuleiðis flóttalegur og segir: „Ég veit að ég er að gera eitthvað rangt. Mér líður ekki vel fyrst á eftir en svo fer það bara … Ég hætti að hugsa um það.“[44] Eins og öll hin börnin skilur Björg ekki hvernig pabbinn, sem er svo góður við hana og sem hún veit að elskar hana á sinn hátt, skuli geta brugðist henni svo ömurlega.
Mörk
Æviminningabókin Mörk er saga Guðbjargar Þórisdóttur, skráð af dóttur hennar, Þóru Karítas Árnadóttur.[45] Guðbjörg var bókmenntafræðingur og Þóra Karítas er menntuð í ritlist. Bókin er sett saman úr löngu viðtali Þóru við móður sína, heimildavinnu hennar, eigin hugleiðingum og skálduðum köflum. Hún er brotnari frásögn en hinar bækurnar þar sem báðir sögumennirnir eru í raun aðilar að sögunni og um sumt er hún enn ónotalegri aflestrar en aðrar sögur sem fjallað hefur verið um hér.
Guðbjörg er misnotuð af afa sínum frá bernsku og langt fram á unglingsár. Fjölskylda hennar býr á efri hæð lítils timburhúss í vesturbænum sem er kallað Mörk. Hún býr þar í skjóli afans, hann er ekkill sem hefur skotið skjólshúsi yfir fjölskyldu sonarins en býr sjálfur á neðri hæðinni með eldri syni og dóttur sinni sem hefur tekið við heimilishaldinu.
Guðbjörg veit að hún er lík ömmu sinni og í löngu misnotkunarsambandi afans við hana verður hún eins konar staðgengill hennar.[46] Laumuspilið og hinn ógeðslegi fasti fundarstaður hennar og afans skilja hana eftir með mikla sjálfsfyrirlitningu. Sögumaðurinn hefur sterka þörf fyrir að skilja hvers vegna afinn gerði henni þetta? Var þetta henni að kenna? Hvað vakti fyrir honum, hver var hann?
Jón, afi hennar, var verkstjóri í fyrirtæki sem sá um innflutning á timbri og sementi.[47] Hann var mikilvægur maður á eftirstríðsárunum þegar allir bæjarbúar voru að byggja og naut samfélagslegrar virðingar. Hann var hlýlegur við tengdadóttur sína og börn hennar en faðir þeirra vann mikið og var sjaldnast heima þegar þau voru að alast upp á fimmta og sjötta áratugnum.
Jón byrjar á að taka stúlkubarnið út úr barnahópnum, gera það útvalið eftirlætisbarn með miklum sælgætisgjöfum, meðal annars heilli vatnskönnu fullri af karamellum sem hann færir henni þegar hún er veik.[48] Hún er fimm ára. Sætindi eru munaðarvara hjá fátækum fjölskyldum og veikur blettur hjá barninu sem verður himinlifandi. Skömmu síðar byrjar afinn svo að misnota barnabarnið og móðirin kemur að honum þar sem telpan stendur með nærbuxurnar á hælunum í herbergi karlsins. Telpan stendur af sér spurningar hennar, afinn gefur henni gjafir og fjölskyldan býr áfram í húsinu hans eins og ekkert hafi í skorist. „Ég var karamellumella,“ segir hún við sálfræðing sinn löngu síðar og hann setur hljóðan yfir þeim tilfinningum sem þar brjótast fram.[49]
Barnið veit ekki hvað er í gangi og skilur ekki merkingu þess að móðirin þrífur hana með sér, hálfklædda, í ofboði og æðir með hana upp á loft. En hún skilur að eitthvað mikið er að og sér geðshræringu móðurinnar sem hún elskar og vill alls ekki styggja. Hún er ráðvillt og þorir ekki að segja neitt, móðirin lætur málið niður falla og báðar áttu eftir að harma það síðar. Skömmin er sterkasta tilfinning Guðbjargar í æsku, eins og hinna söguhetjanna sem fjallað hefur verið um hér, og skuggi hennar verður æ dekkri eftir því sem sjálfsfyrirlitning hennar vex og „þátttaka“ hennar í því sem gerðist verður þungbærari.
Guðbjörg og Þóra Karítas hafa ákveðið að segja frá ofbeldi Jóns á ófegraðan hátt í bókinni. Lýsingarnar eru afar líkamlegar og ganga nærri lesanda, eins og þegar Guðbjörg litla er nýbyrjuð í skóla, sjö ára, og biður um að fá að fara á klósettið, en er nýkomin þaðan. Kennarinn segir nei og barnið pissar á sig fyrir framan bekkinn:
Ég vissi það ekki fyrr en löngu síðar að ég var komin með blöðrubólgu sem olli mér miklum vandkvæðum og krafðist tíðra klósettferða. Nú tel ég ljóst að þetta hafi verið ein afleiðingin af ofbeldinu því það var ekki gott fyrir mig að hafa lúkurnar á afa mínum sífellt í klofinu á mér. Hann var oft með óhreinar hendur, langar og beittar neglur og oftast með tóbak undir nöglum. Ég man að mér fannst mjög vont þegar neglur hans voru langar. Þá meiddi hann mig.[50]
Í Ekki líta undan er sagt í myndhverfingum og hálfsögðum sögum frá þeim kynlífsathöfnum sem faðirinn lætur dótturina taka þátt í. Í sumarbúðum sem hún fer í getur hún ekki komið niður hafragraut af því að henni finnst hann of slímugur og litlaus. Hún óskar þess þegar faðirinn stöðvar bílinn í myrkrinu að „höndin mín sé lömuð og að ég sé algjörlega tilfinningalaus og ég get verið það þegar ég þarf að gera eitthvað sem er óeðlilegt við pabba …“[51] Lesandi getur vel getið í eyðurnar.
Í Myndinni af pabba er öll frásögnin kæld niður en þagnað á stöðum sem eru yfirgengilegir, eins og þegar faðirinn þvingar útvalda dóttur hverju sinni til að sofa í hjónarúminu í myrkvuðu svefnherberginu meðan hann er á drykkjutúrum, móðirin sefur í stofunni. Dóttirin fær ekki að víkja af vettvangi og telpurnar eru andlega og líkamlega örmagna.[52] Aðeins einu sinni í Myndinni af pabba fær lesandi nákvæma lýsingu á athöfnum barnaníðinganna en það er þegar faðirinn deilir Thelmu með vini sínum í fyrsta sinn, hún er fimm ára.[53] Annars er frásögnin hröð, lýsingarorð spöruð og hryllingurinn gefinn í skyn.
Hljóðin í nóttinni er orðfleiri bók og tekur jafnframt sterkar til orða. Það er auðveldara að sjá afstöðu hins sjálfsævisögulega sögumanns til sinna nánustu og þeirrar andlegu grimmdar sem hún er beitt og vegur ef til vill þyngra en sú líkamlega. Hún endurskapar þá ruddalegu orðræðu og hörku sem hún elst upp við en jafnframt samfélagslegt óréttlæti. Í stöku köflum verður textinn tilfinningasamur. Eins og hinar stúlkurnar glímir hún við erfiðar afleiðingar misnotkunarinnar á fullorðinsárum.
Mörk er eins og sambland af þessum þremur aðferðum. Frásögnin er dreifðari en hjá hinum, ekki aðeins söguhetjan heldur öll stórfjölskylda sögumanns er í kastljósinu í leit að heildarmynd og skýringum. Farið er fram og til baka í tíma eins og hjá Guðrúnu Ebbu og stundum dreifist frásögnin fullmikið milli ættarsagna, vinnustaða og greiningakafla. Guðbjörg er uppeldisfrömuður og á sama hátt og Thelmu, Björgu og Guðrúnu Ebbu er henni í mun að saga hennar komi öðrum konum til hjálpar, komi í veg fyrir kynferðislega misnotkun á börnum og hjálpi þeim sem hafa orðið fyrir henni að skilja og greina eigin reynslu og finna leiðir til að lifa með henni. Guðbjörg og Þóra Karítas hafa sett sig vel inn í ný fræði um sifjaspell og ræða barnagirnd og aðlaðara fordómalaust og fræðilega, sem og aðlöðun þeirra á börnunum.[54]
Bókin miðlar vel því vaxandi líkamlega ógeði sem barnið hefur á afanum með auknum þroska og óþoli yfir tvöföldu lífi sínu og óseðjandi þörfum gamla mannsins. Hún talar um mikla sælutilfinningu sem fylgdi því þegar hún var lítil að vera í félagsskap afans af því að hann var eini maðurinn sem þekkti leyndarmál hennar og henni fannst hún aðeins „heil“ með honum.[55] Þetta endurómar líka í sögum hinna sögumannanna sem fjallað hefur verið um og eins og þær allar heldur Guðbjörg að hún sé eina barnið sem misnotarinn leiti fróunar hjá. Á meðan barnið þegir mun það ekki komast að öðru. Það er kjarninn í þeim blekkingarvef sem ofinn er um barnið á þriðja stigi aðlöðunar.
Manneskja
Framan á bókinni Manneskjusögu eftir Steinunni Ásmundsdóttur (2018)[56] er ljósmynd, rifin og morkin á köntunum. Eitthvað virðist hafa hellst yfir hana, kaffi eða rauðvín, og einhver hefur reynt að þurrka sullið burt, með því fer niðurandlit stúlkunnar á myndinni en það breytir litlu, blettir eru alls staðar og það sést eiginlega ekki hvað er á myndinni hvort eð er. Þetta er eins og táknmynd fyrir líf Bjargar, aðalpersónu bókarinnar. Foreldrarnir, Matthildur og Guðmundur, höfðu ættleitt dreng og nokkrum árum síðar litla telpu, fimm mánaða gamla, sem fær nafnið Björg. Barnið reynist ekki alveg heilbrigt og fósturforeldrarnir skilja ekki viðbrögð þess eða doða. Nokkrum árum síðar fæðist þeim sjálfum dóttirin Sigrún.
Matthildur tekur eftir því að Björg litla virðist þjást af tilfinningahungri en ekki geta tekið á móti þeirri ást sem hún vill gefa henni. Ljósmóðirin, sem er henni innan handar þegar barnið kemur til hennar, bendir á að líkamleg viðbrögð telpunnar eru stundum ófyrirsjáanleg: „Hún spyr hvort blóðmóðir barnsins muni hafa drukkið á meðgöngunni og segir að börn drykkjukvenna beri þess stundum merki, þau þroskist ekki alveg eðlilega og andlitsfallið sé ögn þesslegt.“[57]
Eins og svo mörg fósturbörn hugsar Björg mikið um og þráir að sjá blóðforeldra sína. Ekki er talið ráðlegt að hún fái að hitta illa farna móður sína og hálfsystkin en foreldrar hennar leyfa henni að fara, fjórtán ára gamalli og líkamlega bráðþroska, til blóðföðurins sem er bóndi sem býr með aldraðri móður sinni. Hann er frægur fantur og túradrykkjumaður og fljótlega nauðgar hann dótturinni á hrottafenginn hátt en henni tekst að flýja og kemst grátt leikin á næsta bæ. Eftir nokkra hríð kemur í ljós að faðirinn hefur gert hana ófríska og foreldrar hennar láta eyða fóstrinu. Björg á samt eftir að leita aftur til þessa manns og taka upp nafn hans. Enginn skilur hvers vegna en í sögunni segir að þegar hún vann þegjandi við hlið hans að bústörfum hafi hún verið alsæl. Það hafi verið hamingjusamasta skeið ævi hennar. Svo hógvær er hugmynd hennar um það góða líf sem kynni að vera henni ætlað.
Öll ævi stúlkunnar er merkt ógæfunni, hún fer inn og út af geðdeildum, eignast þrjú börn sem eru tekin af henni, sekkur djúpt ofan í vímuefnanotkun, endar sem útigangskona og deyr fyrir fimmtugt. Fjölskylda hennar, einkum yngri systirin Sigrún, horfir hjálparvana og örvilnuð á hana verða sjálfseyðingarhvöt sinni að bráð en það er ekki hægt að hjálpa henni eða ná til hennar. Manneskjusaga er afskaplega vel skrifuð bók, beygir hvergi hjá en fylgir stúlkunni og fjölskyldu hennar eftir allt til hins ömurlega endis.
Fremst í bókinni er eftirfarandi tileinkun/hliðartexti: „Bókin er skáldævisaga og byggð á raunverulegum atburðum. Nöfn og staðir í bókinni eru uppspuni höfundar.“[58] Hugtakið „skáldævisaga“ vísar yfirleitt til sögu sem er á mörkum tveggja bókmenntagreina eða ævisaga skrásetjara með skáldlegu ívafi. Manneskjusaga er sögð í þriðju persónu, sögumaður er augljóslega ekki Björg, en mögulega yngri systir hennar, Sigrún, sem er þá eins konar vitni að tortímingu Bjargar og varanlegu „hugrofi“ hennar.
Allar bækurnar sem hér hefur verið talað um segja frá langvarandi misnotkun stúlkubarnanna þar sem hugrof gera þeim kleift að lifa af. Það er regla en ekki undantekning. Aðeins ein þessara sagna er sjálfsævisaga en hinar eru skráðar af rithöfundum eftir sögu þolendanna. Rúnar Helgi Vignisson hefur smíðað hugtakið „sannsögur“ eða „óskáldaðar sögur“:
„Það eru fjölbreyttar bókmenntir sem falla innan greinarinnar og oft blandast ólíkar tegundir innan einnar bókar,“ segir Rúnar Helgi […] „Auðvitað er oft erfitt að ganga úr skugga [um] hvað er satt. Stundum er auðveldara að nálgast sannleikann í gegnum skáldskapinn heldur en hitt,“ segir Rúnar Helgi. „Skáldskapurinn gefur oft frelsi og svigrúm til að fara alla leið. Þannig að menn glíma auðvitað mjög mikið við það í sannsögunni: hvernig get ég verið sannur, eða sönn? […]
Það reynist sérstaklega erfitt þegar skrifað er um viðkvæm málefni. „Það hafa verið skrifaðar bækur um það úti í heimi á undanförnum árum. Fólk er alltaf að glíma við þessar siðferðisspurningar: hvað má ég segja, er þetta mín saga? Vegna þess að það koma alltaf einhverjir aðrir við sögu. Einstaklingurinn er aldrei afmarkaður.“[59]
Þetta lýsir vel bókunum sem hér hafa verið ræddar og sýnir hve viðkvæmar þær eru því að viðfangsefni þeirra er reynsla barna sem til skamms tíma var þögguð, enda fólgin í henni „ákæra“ sem varðar alla þá sem áttu að vernda barnið. Það er of auðvelt að væna þau um lygi eða tala um „falskar minningar“, eins og Guðrún Ebba Ólafsdóttir mátti þola eftir útkomu bókar sinnar.[60]
Að lokum
Ævisögurnar sem hér hafa verið ræddar fjalla um kynferðislega misnotkun á telpum. Í Hljóðin í nóttinni segir Björg frá þjáningum drengjanna sem misnotaðir voru „í beinni útsendingu“ af kennaranum. Faðir hennar segir henni frá misnotkun bróðurins á sér og þó að Guðbjörg hafi ekki vissu fyrir því að afi hennar hafi misnotað drengi grunar hana það. Ýmislegt bendir til að fleiri strákar séu farnir að segja frá því ef þeir hafa orðið fyrir ofbeldi og misnotkun sem hafði áhrif á sjálfsmynd þeirra.[61] Þannig steig Hallgrímur Helgason, rithöfundur, fram í sannsögunni Sjóveikur í München og sagði frá nauðgun sem hann varð fyrir árið 1981. Viðbrögðin við sögu hans eru um margt sambærileg við tortryggni og skítkast sem Guðrún Ebba varð fyrir, en síður Thelma, Guðbjörg eða Björg. Viðbrögðin sýndu að öðrum körlum fannst Hallgrímur á einhvern hátt vera að svíkja lit; karlmenn nauðga en er ekki nauðgað.[62] Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur er ennþá eina íslenska skáldsagan sem beinlínis fjallar um kynferðislegt ofbeldi gegn dreng.
Í samnorrænni rannsókn, þar sem Hrefna Ólafsdóttir stjórnaði íslenska hlutanum, má sjá athyglisverða tölfræði um það hve algeng kynferðisleg misnotkun á börnum er og hve fast þolendur þegja um hana.[63] Átakanlegt er að sjá að þó að þriðjungur barnanna hafi sagt einhverjum fullorðnum frá misnotkuninni voru aðeins 1% gerenda kærðir.[64] Hrefna Ólafsdóttir segir í umræðukaflanum í rannsókn sinni:
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ástæður þess að þolendur sögðu ekki frá voru ótti og ógn, bæði bein og óbein, ásamt skömm, sektarkennd vegna þess að sökin væri þeirra og vanþekkingar á að um refsiverðan verknað væri að ræða. Þessar sömu ástæður koma líka fram í öðrum rannsóknum.[65]
Niðurstöður sömu rannsóknar segja að í 68% tilvika hafi ekki verið notuð líkamleg þvingun og „mild þvingun“, eins og að ýta þolanda eða halda honum niðri, í 29% tilfella. Í tveimur tilfellum var þolandi barinn og í einu tilfelli var um mjög grófa þvingun að ræða. 54% þátttakenda lýsa gerandanum sem glaðlegum og vinalegum.[66]
Hér að framan hefur að mestu verið talað um trámatíseruð börn sem búa við óskiljanlega harðstjórn, barnavændi, ofbeldi og gróteska vanrækslu. En myndin sem þar er dregin upp á sér enn flóknari hliðar, eins og birtist skýrt í Hljóðin í nóttinni þegar sögumaður segir:
Ég vissi ekki hvað ég átti að halda. Þótti pabba ekki vænt um mig? Ef honum þætti vænt um mig, myndi hann þá gera svona við stelpuna sína? Líklega er honum alveg sama um mig. Það er erfitt að hugsa um að pabba sé sama um mig, hann er sá eini sem er góður við mig og sýnir mér ávallt hlýju.[67]
Sú ákvörðun er ekki í boði fyrir átta ára barn að afskrifa einu manneskjuna sem er góð við það og sýnir því alltaf hlýju þó að hún brjóti gegn því. Faðir Thelmu hefur flókið kerfi til að umbuna dætrunum ef þær þóknast honum. Thelma ítrekar það oft hvað henni og eldri systrunum hafi þrátt fyrir allt þótt vænt um hann þegar hún var lítil og Guðrún Ebba undirstrikar sömuleiðis hve mjög hún dáðist að pabba sínum forðum.
Í bókinni Hinn launhelgi glæpur skrifa Berglind Guðmundsdóttir og Sjöfn Evertsdóttir um hugræna atferlismeðferð fyrir börn með áfallastreituröskun.[68] Til að hægt sé að greina börn með áfallastreitueinkenni, samkvæmt greiningarstuðli Bandarísku geðlæknasamtakanna, verða þau að hafa eftirfarandi einkenni sem falla í þrjá flokka: 1. Endurtekin upplifun atburðarins (e. Reexperience: a.m.k. eitt einkenni), 2. Reynt að forðast áreiti sem tengist áfallinu og doði í viðbrögðum (e. Avoidance and numbing; a.m.k. þrjú einkenni) og 3) ofurárvekni (e. Hyperarousal; a.m.k. tvö einkenni), og þessi einkenni eiga ekki að hafa verið til staðar hjá barninu fyrir áfallið.[69]
Áfallastreituröskun brýst oft fram í margs konar geðrofum, martröðum þar sem áfallið er endurlifað og í kjölfarið kemur þunglyndi, skömm og sektarkennd, reiði eða viðbjóður. Líka óútreiknanleg reiðiköst, sjálfskaðahegðun og árásargirni. Því yngra og vanmáttugra sem barnið er þeim mun meiri líkur eru á að það bregðist við yfirþyrmandi ótta eða sársauka með hugrofi og þeim mun alvarlegra og endurteknara sem ofbeldið er, því sterkari verður vanlíðan barnsins og áfallastreitueinkennin.[70] Þessi hegðun er óskiljanleg flestum í umgengishring barnsins ef þeir vita ekki um trámað og afleiðingar þess.
Sálfræðingurinn Susan A. Clancy skrifaði bókina The Trauma Myth.[71] Hún var að ljúka sálfræðinámi við Harvard háskóla og vann ásamt öðrum að stórri rannsókn á brotaþolum kynferðislegrar misnotkunar í bernsku. Smám saman komst hún að þeirri niðurstöðu að brotaþolarnir sem hún tók viðtöl við veigruðu sér við að segja að þeir hefðu orðið fyrir áfalli (tráma) við misnotkunina en þeim fannst að ætlast væri til þess. Nánast öll brotin voru framin af fjölskyldumeðlimum eða -vinum. Börnin höfðu verið ráðvillt og vissu ekki hvaðan á þau stóð veðrið en þau löguðu sig að væntingum hinna fullorðnu, mynduðu tilfinningatengsl við þá og létu leiða sig inn í þann einkaheim sem búinn var til kringum þau og „aðdáanda“ þeirra. Tilfinningarnar sem þau höfðu bundið við gerandann skiptu þau miklu máli.[72] Fæst þeirra voru í sálrænu áfalli, segir Clancy, og þau upplifðu misnotkunina ekki sem nauðgun eða áfall meðan á sambandinu við aðlaðarann stóð.[73] Áfallið kemur síðar, afturvirkandi og á lengri tíma þegar þau skilja með auknum þroska í hverju þau tóku þátt og með því kemur skömmin og sektarkenndin sem getur eitrað líf þeirra og heilsu og kostað miklar þjáningar.
Það liggur í augum uppi að börn geta ekki verið samþykk kynferðislegu samneyti við einn eða neinn af því að þau eru ekki ákvörðunarbær um ráðstöfun líkama og sálar. Þau eru ekki „samþykk“ því að taka þátt í neins konar kynferðislegu athæfi með fullorðnum – það er sjálfsblekking kynferðislegra brotamanna. Þau eru áttavillt og skilja ekki til hvers er ætlast af þeim og hvers vegna. Þau gera mögulega það sem þau eru beðin um eða talin á að gera af því að þau vilja geðjast þeim fullorðna. Þau grunar mögulega að þetta sé ekki rétt en ekki hvaða afleiðingar það eigi eftir að hafa fyrir þau sjálf og gerandann.
Susan A. Clancy segir að kenningar Freuds um ödipusarduldina í upphafi aldarinnar sem leið hafi opnað fyrir „undankomuleið“ frá raunverulegri misnotkun stúlkubarna, kynferðisleg þrá eftir föðurnum hafi átt að vera dulvituð ósk þeirra. Því hafi áfallastreituröskunarmeðferðin, sem kom fram sem kenning og meðferðarform um 1980, verið svo frelsandi fyrir femíníska fræðimenn. Með því að flokka misnotkun á börnum sem kynmök gegn vilja þeirra og þar með nauðgun flokkaðist hún sem tráma, og skyldi meðhöndlast eins og náttúruhamfarir og stríðsskaðar.[74] Ef börnin höfðu ekki upplifað misnotkunina sem hrollvekjandi áfall meðan hún átti sér stað, heldur verið aðlöðuð og svikin til að samþykkja hana, bætir þessi flokkun skömm og sektarkennd ofan á það sem fyrir var. Þess vegna eiga sálfræðingar og fræðimenn að hætta að tala um kynferðislega reynslu barna sem „tráma“ því það eykur kvöl þolendanna og stenst ekki fræðilega, segir Clancy.[75]
Susan A. Clancy var vöruð við því áður en hún gaf út bók sína að þetta umræðuefni væri jarðsprengjusvæði og litið yrði á hana sem talsmann barnaníðinga ef hún talaði gegn trámakenningunni og sú varð líka raunin.[76] Það er mislestur á bók hennar, sem er þó um margt yfirlýsingaglaðari en hún stendur undir, að mínu mati.[77] Og hver sem kenningin er verður eftirfarandi viðvörun Sæunnar Kjartansdóttur seint of oft undirstrikuð:
Einhverjir kunna að halda að sé barn ekki „meitt“ sé enginn skaði skeður. Aldurs síns og þroska vegna hafi það ekki forsendur til að „skilja“ hvað sé rangt við kynferðislegar athafnir og það jafnvel njóti þeirra. Viðhorf af þessu tagi lýsa mikilli vanþekkingu á næmi, innsæi og viðkvæmni barna sem hafa engar forsendur til að vinna úr flóknu samspili ótta, leyndar, örvunar, sársauka og sérkennilegrar hegðunar fullorðins fólks. Þá er veigamikil ástæða fyrir banni kynlífs á milli barna undir 15 ára aldri og fullorðinna að hún er hlaðin merkingu um hvar mörk liggja, þ.e.a.s. hvað sé leyfilegt og hvað bannað, hver megi hvað og hver ekki, hvað sé rétt og hvað rangt. Sé þessi helgi brotin er raunveruleikaskyn, sjálfsvirðing og geðheilbrigði barnsins í húfi.[78]
Fjöldi greina um mikilvægi aðlöðunar brotamanna í nálgun þeirra að börnum bendir til þess að athygli fræðimanna beinist nú meira að nauðsyn þess að grípa inn í aðlöðunarferlið, sem leiðir til misnotkunar, áður en skaðinn er skeður. Eins og gefur að skilja er þetta afar vandmeðfarið því erfitt er að sjá hver hefur illt í hyggju og börn eru brothætt. Kynferðisbrotamenn hafa til dæmis í auknum mæli notað sér internetið til að nálgast stálpaðri börn undir fölskum nöfnum og myndum og síbreytilegum farvegum.[79]
Í upphafi þessarar greinar var spurt hvort hægt væri að greina sameiginlegan kjarna sem sagt er frá, eða þagað yfir, eitthvert hreyfiafl í hinum ólíku frásögnum sem knýr merkingarþrá þeirra áfram? Allar bækurnar, sem hér hefur verið fjallað um, sýna mikinn sársauka vegna blekkingarinnar og lyganna sem felast í aðlöðuninni. Ofbeldismaðurinn gerir barnið að trúnaðarvini, kvartar yfir að enginn sé góður við hann, hann sé einmana og því sé sambandið við það sérstakt og veiti honum meiri gleði og unað en allt annað. Barnið lætur lokkast en allt reynist þetta vera lygi og yfirbreiðsla, það eina sem fyrir aðdáandanum vakir er að nota barnið til að svala fýsnum sínum. Telpan trúgjarna var ekki sú eina, þær voru fleiri. Hringurinn dýrmæti sem Steinþór gaf Sölku Völku er ómerkilegt glingur, hreppstjórinn í Paradísarheimt vill „hafa þær ungar“, biskupinn kallar áralanga misnotkun á dótturinni „eldgamalt dót“, afinn í Mörk biðst ekki fyrirgefningar af því að hann iðrast einskis, heldur stráir sælgæti sínu og sígarettum víða og misnotar líka önnur börn í næstu húsum.
Allar telpurnar spyrja í vanlíðan sinni og sorg: Hvernig gat hann gert mér þetta? Og þær spyrja: Hvers vegna lét ég þetta gerast? Þær vita svarið. Þær lýsa aðlöðun sem tengir þær við ofbeldismanninn í ást eða ótta eða afbrigðilegri blöndu hvors tveggja. Allar fá mikið áfall þegar það rennur upp fyrir þeim að þær voru ekki elskaðar heldur misnotaðar. Að þögn þeirra gerði ofbeldismanninum kleift að eyðileggja líf annarra barna líka sem hefði kannski verið hægt að bjarga ef þær hefðu ekki verndað hann, ef þær hefðu þorað að segja frá og vitað að á þær yrði hlustað og misnotkunin stöðvuð.
Aðlaðarinn gerir börnin samsek og ábyrg, bæði fyrir eigin misnotkun og annarra barna, og því fylgir illbærileg skömm og sekt hjá barninu. Þetta er sá sameiginlegi kjarni allra sannsagnanna sem hér hefur verið fjallað um og hin sársaukafulla spurning þeirra allra er: Var þetta mér að kenna? Svarið við því er það eina sem er einfalt – auðvitað er misnotkun ekki barninu að kenna heldur þeim fullorðnu sem brugðust því.
Tilvísanir
[1] Ásókn karla í barnungar konur er endurtekið efni hjá Halldóri. Sjá Dagný Kristjánsdóttir, „Að missa og finna aftur sína Paradís“, Ekkert orð er skrípi: Um ævi og verk Halldórs Laxness, Jón Ólafsson (ritstj.) Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2002, bls. 196.
[2] Soffía Auður Birgisdóttir, „Hvað er kona af konu fædd? Getur hún aldrei orðið frjáls?: Um samband móður og dóttur í Sölku Völku“, Tímarit Máls og menningar, 1992, 3. hefti, bls. 9–19.
[3] Allt þetta eru vel þekktar aðferðir sem meira en helmingur þeirra sem misnota börn beita. Samantha Craven, Sarah Brown og Elizabeth Gilchrist, „Sexual Grooming of Children“, Review of literature and theoretical considerations. Journal of Sexual Aggression, 2006, 12(3), 287–299. https://doi.org/10.1080/13552600601069414. Hér bls. 295.
[4] „Eru kynferðisbrot gegn börnum ekki hættuleg?“ Þjóðviljinn 6. maí, 1983, bls. 6.
[5] Nú er hámarksrefsing fyrir gróft brot gegn börnum 16 ára fangelsi. Almenn hegningarlög, kafli XXII, grein 202.
[6] Á íslensku heitir bókin: Húsið með blindu glersvölunum, Hannes Sigfússon íslenskaði, Reykjavík: Mál og menning, 1988.
[7] Dagný Kristjánsdóttir, „Um viðkvæm mál: Skammgóður vermir að taka bara fyrir eyrun“, Þjóðviljinn, 14. júní, 1983, bls. 13.
[8] Rauðsokkahreyfingin lét misnotkun barna á heimilunum ekki til sín taka.
[9] Lóa Gunnars, athugasemd á Facebook-síðu Stundarinnar 31. maí 2015, sótt 11. júlí 2019 af https://www.facebook.com/stundin/posts/858637040891377/.
[10] Gerður Kristný, Myndin af pabba: Saga Thelmu. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2005.
[11] Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson hafa skrifað tvær áhugaverðar greinar um feril Gerðar Kristnýjar sem talsmanns kvenna sem sættu ofbeldi, misnotkun og svikum. Um þær orti hún ljóðabækurnar, Blóðhófni (2010), Drápu (2014) og Sálumessu (2018). Sjá Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson, „Átti hún ekki alltaf inni hjá þér ljóð?“ Són 15/2017, bls 45–61 og „Ég veit hvað höfuð þitt vó en þekki ekki síðustu hugsunina. Ofbeldi, ábyrgð og femínísk fagurfræði í Drápu eftir Gerði Kristnýju“, Ritið 3/2017, bls. 17–43.
[12] Björg Magnúsdóttir, „Vissi hvað þetta var rosalega hættulegt“, Viðtal við Gerði Kristnýju, RÚV, 4. október 2015.
[13] Þormóður Dagsson, „Í skugga velsældar. Myndin af pabba eftir Gerði Kristnýju“, Viðtal við Gerði Kristnýju, Morgunblaðið 22. desember 2005.
[14] Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Skáldað um líf“, Skírnir, 1/2003, bls. 109–125, hér bls. 123.
[15] Vala Georgsdóttir, Söngkonan, listakonan og heimskonan. Um þrjár íslenskar viðtalsbækur, lokaverkefni til M.A.-gráðu í almennri bókmenntafræði, 2008, hér bls. 82.
[16] Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Skáldað um líf“, hér bls. 119.
[17] Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, „Skömmin er ekki mín“, Viðtal við Thelmu Ásdísardóttur, Tímarit Morgunblaðsins 9. október 2005.
[18] E.A., „Byrjaði allt með einni afmælisgjöf“. Viðtal við Stefán Guðna Ásbjörnsson, Vísir 18. september 1975, bls. 7.
[19] „„Áfall að horfa á pabba berja mömmu“: Systurnar Thelma Ásdísardóttir og Ruth Ásdísardóttir bjuggu við ofbeldi alla sína barnæsku“, Morgunblaðið 23. maí 2013.
[20] Flest allt sem sagt er um Stefán Guðna bendir til þess að hann hafi verið siðblindur maður og margir sem að málum hans hafi komið hafi verið vitandi um það. Nanna Briem geðlæknir útskýrir þessa flóknu og mótsagnakenndu persónugerð á skýran og alþýðlegan hátt í greininni „Siðblinda“, Læknablaðið 6/2010.
[21] Gerður Kristný, Myndin af pabba, bls. 230–231.
[22] Hannah Arendt, „Banality and Conscience: The Eichmann trial and its implications“, The Portable Hannah Arendt, Peter Baehr (ritstj.), London: Penguin Books, hér bls. 365.
[23] Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, „Skömmin er ekki mín“, viðtal við Thelmu Ásdísardóttur, Tímarit Morgunblaðsins 9. október 2005.
[24] Áslaug Einarsdóttir, Þegar fjölmiðlar þegja, Lokaverkefni til M.A.-gráðu í blaða- og fréttamennsku,
2014.
[25] Sama rit, bls. 28.
[26] Sama rit, bls. 30.
[27] Sama rit, bls. 59.
[28] Sama rit, bls. 37–41.
[29] Sama rit, bls. 66. Sjá einnig: Jón Fannar Kolbeinsson, „Kynferðisbrot gegn börnum“, Lokaverkefni til M.L.-gráðu í Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, 2008.
[30] Friðrika Benónýsdóttir, „Hvernig á að jarða barnaníðing“, Fréttablaðið 8. mars 2014, bls. 28 og „Kynferðisofbeldið blettur á sögu skólans“, heimasíða RÚV, 6. mars 2014.
[31] Björg Guðrún Gísladóttir, Hljóðin í nóttinni, Reykjavík: Veröld, 2014, bls. 74–75.
[32] Sama rit, bls. 184.
[33] Sama rit, bls. 116.
[34] Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Ekki líta undan. Saga Guðrúnar Ebbu, dóttur Ólafs Skúlasonar biskups, Elín Hirst skráði, Reykjavík: JPV, 2011.
[35] Sama rit, bls. 27.
[36] Sama rit, bls. 38.
[37] Sama rit, bls. 114–122.
[38] Anna Kristín Newton og Þórarinn Viðar Hjaltason, „Umfang kynferðisbrota gegn börnum: Mat á gerendum og meðferð“, Hinn launhelgi glæpur: Kynferðisbrot gegn börnum, Svala Ísfeld Ólafsdóttir (ritstj.), Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2011, bls. 529–546, hér bls. 532–533.
[39] Samantha Craven, Sarah Brown og Elizabeth Gilchrist, „Sexual Grooming of Children“, hér bls. 288. Natalie Bennett og William O’Donahue forðast þetta hugtak líka í greininni: „The Construct of Grooming in Child Sexual Abuse. Conseptual and Measurement Issues“, Journal of Child Sexual Abuse 23, 8/2014, bls. 957–976.
[40] Knut Hermstad, „Forbrytelse og selvforståelse. Et bidrag til forståelsen av en gruppe menn dømt til fengsel for seksuelle overgrep, i lys av terapi, etikk og strafferett.“ Doktorsavhandling, Institutt for arkeologi og religionsvitenskap, Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet, 2006. Meirihluti manna sem ákærðir eru fyrir kynferðisbrot neita sök og fá ekki dóm. Það er vert að benda á að doktorsritgerðin byggist á eigindlegri rannsókn, þrettán djúpviðtölum við dæmda kynferðisbrotamenn. Átta af þeim höfðu farið í meðferð en fimm ekki.
[41] Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Ekki líta undan, bls. 80.
[42] Sama rit, bls. 159.
[43] Sæunn Kjartansdóttir, „Gleymt en geymt. Langtímaafleiðingar kynferðisofbeldis gegn ungum börnum“, Hinn launhelgi glæpur, bls. 297–315, hér bls. 310.
[44] Björg Guðrún Gísladóttir, Hljóðin í nóttinni, bls. 213.
[45] Þóra Karítas Árnadóttir, Mörk: Saga mömmu, Reykjavík: JPV, 2015.
[46] Sama rit, bls. 126.
[47] Sama rit, 18–19.
[48] Bennett og O’Donahue nefna margar kannanir sem sýna að um og yfir 55% barna hafa þegið „mútur“ eða gjafir frá mönnum sem eru „að aðlaða þau“, Natalie Bennett og William O’Donohue, „The Construct of Grooming in Child Sexual Abuse“, bls. 964–966.
[49] Þóra Karítas Árnadóttir, Mörk, bls. 67.
[50] Sama rit, bls. 84.
[51] Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Ekki líta undan, bls. 50.
[52] Gerður Kristný, Myndin af pabba, bls. 113–115.
[53] Sama rit, bls. 36–39.
[54] Þóra Karítas Árnadóttir, Mörk, bls. 85–95.
[55] Sama rit, bls. 118–119.
[56] Steinunn Ásmundsdóttir, Manneskjusaga, Reykjavík: Björt bókaútgáfa – Bókabeitan, 2018.
[57] Sama rit, bls. 10.
[58] Sama rit, bls. 5.
[59] Jórunn Sigurðardóttir, „Eru sannsögur bókmenntir framtíðarinnar“, viðtal við Rúnar Helga Vignisson, sótt 15.9.2020: https://www.ruv.is/frett/eru-sannsogur-bokmenntir-framtidar.
[60] „Hafna lýsingum Guðrúnar Ebbu – standa með Ólafi“, Vísir 7. nóvember 2011.
[61] Björg Guðrún Gísladóttir, Hljóðin í nóttinni, bls. 214–217.
[62] Hallgrímur Helgason, „Að þegja eða segja“, á málþinginu Heggur sá er hlífa skyldi? Málþing um samfélagslega ábyrgð gagnvart þolendum kynbundins ofbeldis, föstudaginn 4. nóvember 2016.
[63] Hrefna Ólafsdóttir, „Börn þvinguð til kynlífs: Rannsókn á kynferðislegri misnotkun á börnum“, Hinn launhelgi glæpur, bls. 235–269.
[64] Sama rit, bls. 263.
[65] Sama rit, bls. 263.
[66] Sama rit, 262.
[67] Björg Guðrún Gísladóttir, Hljóðin í nóttinni, bls. 92.
[68] Berglind Guðmundsdóttir og Sjöfn Evertsdóttir. „Hugræn atferlilsmeðferð fyrir börn með áfallastreituröskun í kjölfar kynferðisofbeldis“, Hinn launhelgi glæpur, bls. 355–376.
[69] Sama rit, bls. 358.
[70] Sama rit, bls. 360.
[71] Susan A Clancy, The Trauma Myth: The Truth About the Sexual Abuse of Children and Its Aftermath, New York: Basic Books, 2009.
[72] Samfarir höfðu verið hafðar við fimm prósent af þeim 200 manneskjum sem Clancy tók viðtöl við.
[73] Susan A. Clancy, The Trauma Myth, bls. 22.
[74] Sama rit, bls. 12–13.
[75] Sama rit, bls. 141–147.
[76] Susan Pinker, „Review: The Trauma Myth by Susan A Clancy“, The Globe and the Mail 19. febrúar 2010.
[77] Hún skammar til dæmis allt fræðasamfélag sálfræðinga fyrir að gangast ekki inn á „kenningar hennar í kaflanum „The Politics of Sexual Abuse“ og gefur yfirlýsingar eins og: „I realize that many people committed to helping victims of sexual abuse do not really care about the truth surrounding the actual event. The trauma theory’s inaccuracy does not matter to them.“ Susan A. Clancy, The Trauma Myth, bls. 108.
[78] Sæunn Kjartansdóttir, „Gleymt en geymt“, bls. 310.
[79] Natalie Bennett og William O’Donohue „The Construct of Grooming in Child Sexual Abuse“; sjá einnig Anne-Marie McAlinden, ‘Grooming’ and the Sexual Abuse of Children. Institutional, Internet and Familial Dimensions, Oxford, Clarendon Studies in Criminology Series, 2012.