eftir Sigþrúði Gunnarsdóttur

Katie Paterson og Framtíðarbókasafnið í Ósló

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2022

 

 

„Velkomin á áttunda ár þessa hundrað ára langa listaverks. Takk fyrir að taka þátt í því með okkur,“ sagði listakonan Katie Paterson í Nordmarka-skóginum í útjaðri Óslóar í nýliðnum júnímánuði, þangað sem tveir höfundar voru komnir um mislangan veg til að afhenda handrit að bókmenntaverkum. Síðar sama dag voru handritin svo læst ofan í skúffu sem ekki verður opnuð næstu 92 árin. Þetta voru Norðmaðurinn Karl Ove Knausgård og Tsitsi Dangarembga frá Simbabve. Með þeim hefði átt að vera þriðji höfundurinn, hinn bandarísk-víetnamski Ocean Vuong, en það var tímanna tákn að hann átti ekki heimangengt vegna Covid19 – farsóttarinnar sem bar ábyrgð á því að engin athöfn hafði verið haldin í skóginum árin tvö á undan. Fulltrúar Vuongs voru þó á staðnum, þrír búddamunkar sem fluttu skóginum blessun með dáleiðandi söng, auk þess sem fluttir voru friðar- og baráttusöngvar frá sunnanverðri Afríku og Draumkvæðið, norsk leiðsla frá síðmiðöldum.

Hundrað ára langa listaverkið sem um ræðir nefnist Future Library, Framtíðarbókasafnið. Því var ýtt úr vör í þessum sama skógi árið 2014 og nær hámarki sínu árið 2114 þegar hulunni verður svipt af eitt hundrað bókmenntaverkum sem skrifuð verða á jafnmörgum árum. Norska sendiráðið á Íslandi bauð fulltrúa Tímarits Máls og menningar að sækja afhendingarathöfnina og dagskrá henni tengdri og fær fyrir það innilegar þakkir. Þessi grein er afrakstur ferðarinnar og byggir meðal annars á því sem þátttakendur verkefnisins sögðu í pallborðsumræðum, ávörpum og einkaviðtölum. Athöfnin í skóginum var bæði falleg og áhrifarík og er aðgengileg öllum á Vimeo.

List í almannarými

Katie Paterson

Katie Paterson

Framtíðarbókasafnið er annað tveggja listaverka sem tengjast gríðarmikilli uppbyggingu í Bjørvika-hverfinu í Ósló, hitt er borgarbýlið Flatbread Society/Losæter sem full ástæða er til að gúgla og lesa sér til um. Að sögn listakonunnar, hinnar skosku Katie Paterson, er hjarta verkefnisins í skóginum þar sem áðurnefnd athöfn fór fram. Þar var allstórt svæði rutt vorið 2014 og plantað í staðinn eitt þúsund grenitrjám. Þeim er ætlað að vaxa í hundrað ár en þá verða þau felld og unninn úr þeim pappír. Á meðan trén vaxa er lesmálið sem prentað verður á pappírinn skrifað – einn texti á ári. Höfundurinn sem valinn er hverju sinni hefur alveg frjálsar hendur, verkið má vera af hvaða tagi sem er, um efni að eigin vali og á því tungumáli sem er höfundinum tamast; og engin lengdarmörk eru – hvorki lágmark né hámark. Það eina sem höfudurinn skuldbindur sig til að gera er að halda verkinu fyrir sig og segja aldrei frá innihaldi þess. Enginn les verkið þegar því er skilað og ekkert er gefið upp um það nema titillinn. Þannig tilkynnti Tsitsi Dangarembga við athöfnina í skóginum að textinn hennar bæri titilinn Narini and her donkey (Narini og asninn hennar) og lét þess getið að í Simbabve þýddi kvenmannsnafnið Narini eilífð. Verk Karls Ove Knausgård ber titilinn Blindeboken (Blindubókin). Áður höfðu fimm höfundar afhent texta í safnið, kanadísk skáldkonan Margaret Atwood reið á vaðið vorið 2015 og á eftir henni komu Bretinn David Mitchell, okkar íslenski Sjón, hin tyrknesk-breska Elif Shafak og síðust til að sleppa inn í skóginn áður en covid19 gerði hlé á athöfnunum þar var kóreski höfundurinn Han Kang. Þangað dró hún á eftir sér hvítt klæði talsvert langa leið í algerri þögn og sveipaði því loks utan um handritið. Þetta táknaði að hennar sögn í senn ævarandi tengsl þess við skóginn og svefninn langa sem það ætti fyrir höndum. Þannig setur hver höfundur sinn svip á afhendingarathöfnina og engin leið er að vita hvort þeir gefi með því vísbendingu um innihald texta sinna.

Fram til þessa hafa handritin verið sett í örugga geymslu en í sumar var framtíðardvalarstaður þeirra formlega opnaður, The Silent Room – Þögla herbergið, á efstu hæð nýja borgarbókasafnsins í Ósló, Deichman Bjørvika. Þess má geta að safnið er í glæsilegri byggingu sem tekin var í notkun 2020 og Alþjóðasamtök bókasafna völdu í fyrra besta bókasafn í heimi. Þar hvíla handritin hvert í sinni skúffu þar til þeirra tími kemur. Þögla herbergið er reist úr sextán þúsund smágerðum viðarkubbum sem skornir voru úr trjánum sem felld voru fyrir pappírsskóginn. „Ég var glöð að við gátum notað þessi tré, af því að þó að það hafi verið kominn tími til að ryðja skóginn – og þótt ég viti að það er órjúfanlegur partur af allri skógrækt – var erfið tilhugsun að trén þyrftu að víkja og að við legðum undir okkur plássið þeirra,“ segir Katie Paterson, sem hannaði rýmið í samvinnu við arkitektana Atelier Oslo og Lund Hagem.

Þögla herbergið minnir helst á helli eða grafhýsi þótt ljós viðurinn geri yfirbragðið hlýlegt. Gengið er upp á viðargólf, inn um ávalt dyraop og eftir örstuttum og mjóum gangi sem sveigir strax skarpt til vinstri. Þar sést inn í litla hvelfingu sem lýsist upp af eitt hundrað, láréttum glerraufum. Það eru framhliðar skúffanna sem handritin hvíla í. Með fram veggjum hvelfingarinnar er bekkur sem hægt er að setjast á í kyrrðinni, úr ljósum viði eins og allt annað í rýminu. „Við vissum alltaf að herbergið yrði lítið, 12 fermetrar, en samt vildum við að í því fælist ferðalag,“ segir Katie. „Fólk á að geta stigið inn án þess að sjá handritin. Síðan sveigir leiðin og skúffurnar blasa við. Í hönnunarferlinu skoðuðum við sérstaklega helga staði, hof og rými þar sem fólk stundar hugleiðslu. Framan á hverri skúffu er handgert gler og í það er grafið nafn höfundarins og titill handritsins. Það er það eina sem tilheyrir okkar tíma. Allt annað þarf maður að ímynda sér.“ Öllum höfundunum sem þegar hafa afhent handrit í Framtíðarbókasafnið var boðið að vera við opnun Þögla herbergisins eða senda fulltrúa sinn þangað til að koma textunum fyrir í réttri skúffu og segist Katie hafa verið djúpt snortin við að fylgjast með því.

Handgerður lykill gengur að hverri skúffu fyrir sig og þegar handriti hefur verið komið fyrir er lykillinn settur í geymslu hjá mestu gersemi bókasafnsins, Biblíu Aslaks Bolts, erkibiskups í Niðarósi; handriti sem líklega var skrifað um miðja þrettándu öld. Þannig tengjast fortíðin og framtíðin órjúfanlegum böndum. Katie Paterson segir að fyrir tilviljun snúi herbergið að skóginum þar sem trén í pappírinn vaxa hægt og rólega og hún útilokar ekki að með tíð og tíma verði komið þar fyrir öflugum sjónauka svo að hægt verði að kíkja á trjátoppana úr Þögla herberginu. Þannig tvinnast sífellt ólíkir þættir verksins saman og allt hefur yfirbragð ævintýris eða leiks.

 

Steingervingar og stjörnuryk

Í verkum sínum horfir Katie Paterson (f. 1981) iðulega bæði til fortíðar og framtíðar. Hún bendir í sífellu á hvernig tíminn líður og náttúran breytist en efnið sem veröldin er gerð úr stendur þó flest af sér og getur orðið uppspretta einhvers nýs. Meðal nýrra verka hennar sem sýnd voru í Galleri F15 í Moss nú í sumar er -there lay the Days between- (2021), tæki sem telur fjölda sólarupprása frá tilurð heimsins. Lesendum til upplýsingar stóð talan í 2378000019114 daginn sem afhendingarathöfnin fór fram þann 12. júní síðastliðinn. Í verkinu First Light (2022) endurskapar hún lit fyrstu stjarnanna á léttum tjöldum sem blakta við alla glugga gallerísins, á veggteppinu Evergreen (2022) má sjá fínlega útsaumaðar allar þekktar plöntur heimsins sem hafa dáið út og málverkið Endling (2021) sækir liti sína í senn úr fimm milljarða ára gömlu stjörnuryki og ginkgo-trjánum í Hibakujumoku sem stóðu af sér kjarnorkusprengjuna í Hiroshima. Á sýningunni mátti líka sjá eitt þekktasta verk Paterson, Fossil Necklace (2013) – festi gerða úr eitt hundrað og sjötíu steingervingum sem mótaðir eru í kúlulaga perlur og standa hver og einn fyrir einhvern meiri háttar viðburð í sögu lífsins á jörðinni á borð við andartakið þegar fyrstu lífverurnar opnuðu augun, fyrstu lífverurnar skriðu á land og önduðu að sér lofti, fyrstu blómin tóku á sig lit; „öll þessi andartök sem leiddu til þess að við urðum til,“ segir Katie. Einhverjir lesendur Tímaritsins eru kannski svo heppnir að hafa barið festina augum því að hún var meðal verka Paterson sem sýnd voru í Nýlistasafninu í Marshall-húsinu vorið 2021.

Evergreen (2022)

Evergreen (2022). © Ingleby Gallery / Katie PatersonÚtsaumsverk sem sýnir hverja einustu plöntu jarðar sem hefur dáið út. Heimurinn fer nú af manna völdum í gegnum sjötta tímabil fjöldaútdauða í jarðsögunni. Jurtir lögðu grundvöllinn að nánast öllu lífi á jörðinni en þó hafa meira en tvöfalt fleiri plöntur dáið út en fuglar, spendýr og skriðdýr samanlagt. Evergreen var unnið í samvinnu við fremstu jurta- og plöntufræðinga heimsins sem söfnuðu öllu tiltæku myndefni af útdauðum plöntum veraldar.
Aðferð listaverksins, útsaumurinn, er mikilvæg handverksaðferð sem oftar en ekki sækir efnivið sinn til náttúrunnar og einkennist af einfaldleika, samfélagi og fegurð. Evergreen sýnir náttúrunni lotningu og syrgir það sem er, eða verður senn, glatað að eilífu.

 

Að verkum Paterson koma oft sérfræðingar af ýmsu tagi. Fjöldi jarðfræðinga og steingervingasafnara aðstoðuðu hana við gerð Fossil Necklace og listakonan ráðfærði sig við meira en eitt hundrað stjörnufræðinga á meðan hún vann verkið All the dead stars (2009) þar sem hún kortlagði á gríðarstóra málmplötu allar stjörnur alheimsins sem hafa dáið. Tilgangurinn var þó ekki stjarnfræðilegur heldur eitthvað mun nærtækara, að sögn listakonunnar: „Þetta var virkilega táknrænt fyrir mig vegna þess að þarna öðlaðist ég í fyrsta skipti djúpan skilning á stöðu jarðarinnar í alheiminum. Hún birtist ekki bara, hún varð til úr stjörnum sem dóu, hún varð til úr þessu gríðarmikla endurvinnslukerfi geimsins, úr tunglum og sólkerfum og vetrarbrautum. Ef þessar stjörnur hefðu ekki dáið værum við ekki til. Ég er að reyna að ná utan um þennan gríðarmikla tíma sem við erum grundvölluð á. Hann virkar svo ofboðslega fjarlægur en hann er samt í okkur, lifandi í líkama okkar. Öll verkin mín fela í sér einhverja slíka skynjun á tíma. Frá milljörðum ára til hundrað áranna í Framtíðarbókasafninu, sem er í rauninni mjög stuttur tími til að vinna með.“

Það er skemmtilegt fyrir okkur að verkið sem fyrst vakti alheimsathygli á listakonunni spratt úr íslenskri náttúru. Í Vatnajökull (the sound of) (2007–8), sem Katie gerði á meðan hún var enn í námi, gafst fólki um allan heim kostur á að hlusta á hljóðið í bráðnandi jökli í gegnum síma. Katie varð fyrir djúpum áhrifum af íslenskri náttúru og langaði að leyfa fólki að tengjast með áþreifanlegum hætti náttúrufyrirbæri sem væri í senn fornt og lifandi, „og breyttist svo hratt að það væri hægt að hlusta á það. Ég vildi leyfa fólki að heyra framgang tímans,“ segir listakonan. Fjöldi fólks um allan heim hringdi í Vatnajökul mánuðina sem listaverkið stóð yfir, ekki síst frá heitustu stöðum jarðarinnar.

Það blasir við að hugmyndirnar sem Katie Paterson byggir verk sín á eru stórar og umfangsmiklar – og hana skortir ekki hugmyndir! Það sýnir bók hennar A Place that Exists only in Moonlight (2019) sem geymir safn hugmynda (prentaðra með stjörnuryki – nema hvað!) sem Katie segir að séu allar á mörkum þess að vera framkvæmanlegar, sumar óframkvæmanlegar með öllu en flestar á þessum áhugaverðu mörkum. Ef vel er að gáð má sjá að Framtíðarbókasafnið á rót sína í einni af þessum hugmyndum. Hún hljóðaði svona: Skógur ólesinna bóka sem vex í heila öld (A forest of unread books growing for a century). Þegar uppbyggingin í Bjørvika-hverfinu hófst og auglýst var eftir listaverkum sem hverfst gætu um stað og tíma rifjaðist hugmyndin upp fyrir Katie. En listakonunni fannst hún þurfa að undirbúa sig. „Ég ólst upp í Skotlandi umvafin trjám en mér fannst að ef ég ætlaði að flytja hugmyndina til Noregs yrði ég að hafa tilfinningu fyrir norskum skógi. Þess vegna hringdi ég og spurði hvort ég gæti einhvern veginn komist út í norskan skóg og það var ekkert mál. Hugmyndin var ekki fastmótuð í huga mér, ég sá fyrir mér trjáhringi eins og kafla í bók – tengdi trén við bækur og bókasöfn, ímyndaði mér hvernig skógur yrði bókasafn og að bókasöfn hefðu áður verið skógur. Þannig að þetta var einhvers konar sýn en það þurfti að móta hana áður en hún yrði að nokkru meira og til þess þurfti ég að komast út í skóg.“ Og út í skóg fór hún – stærsta skóg sem Noregur hefur upp á að bjóða. Þar var hún í viku, alein í kofa án vatns og rafmagns, og mótaði hugmyndina sem kannski var framkvæmanleg eftir allt saman. Allavega kolféllu stjórnendur verkefnisins fyrir henni þó að hundrað ára ramminn hafi í fyrstu þótt ansi djarfur.

Katie segir að hugmyndin um Þögla herbergið hafi verði hluti af verkefninu frá byrjun þó að það hafi ekki opnað fyrr en nú í sumar og bætti við að örlítil kraftaverkasaga tengist því. Snemma í ferlinu héldu þær Anne Beate Hovind, verkefnastjóri Framtíðarbókasafnsins, fund með þáverandi borgarbókaverði, Liv Sæteren. Þær kynntu hugmyndina fyrir henni, þar á meðal drauminn um að handritin fengju sinn eigin stað í safninu sem þá var verið að byggja. „Þá ljómaði hún öll og sagðist sjálf hafa séð fyrir sér að einhvers staðar í nýja safninu yrði herbergi fyrir óútgefna texta. Ekki hefði unnist tími til að skipuleggja það rými en plássinu fyrir það hefði alltaf verið haldið frá. Þannig að ef ekki hefði verið fyrir þessa sýn Liv hefði kannski ekki verið pláss fyrir Þögla herbergið í safninu.“

Í umræðum um list Katie Paterson benti David Mitchell, Framtíðarbókasafnshöfundur númer tvö, á það hvernig henni væri lagið að raungera hið ósýnilega, meðal annars tímann. „Hún gerir tímann sýnilegan í verkum sínum,“ sagði hann. Sjálf segir Katie að Þögla herbergið og skógurinn séu áþreifanlegi hluti Future Library-verksins en það sem ekki sjáist sé þó ekki síður mikilvægt: „Svo mikið af list er fyrst og fremst efnisleg en þetta verk er reist á orðum og hugmyndum. Nú er Þögla herbergið komið en kjarni verksins er þó ósýnilegur. Það finnst mér svolítið skemmtilegt.“

 

Listskjálfti með öflugar rætur

Eitt af því sem er sérstakt við Framtíðarbókasafnið sem listaverk er hvernig það sameinar fleiri en eina listgrein og einnig önnur svið. Meðal þeirra sem tóku til máls á athöfninni í skóginum var skógfræðingurinn Jon Karl Christiansen sem lýsti því hvernig trjánum sem plantað var vorið 2014 reiddi af, sagði að þau væru nú búin að ræta sig vel og farin að vaxa hratt, allt að 50 sm á hverju vaxtartímabili. Hann vakti einnig máls á því að fleiri tré væru á svæðinu en hefði verið plantað þar. Innan um grenitrén þúsund yxu nú harðger lauftré, svokallaðir landnemar sem hvarvetna styngju sér niður þar sem skógur hefði verið ruddur. „Nú þarf að taka ákvörðun,“ sagði hann. „Á að leyfa þeim að vera eða fjarlægja þau? Ef þau verða fjarlægð verður til þéttur, dimmur greniskógur eins og sá sem var áður á svæðinu. En við gætum líka leyft nógu mörgum lauftrjám að halda sér til þess að skógurinn verði blandaður. Þá yrði meiri birta og fjölbreytni. Hvað segir þú, Katie? Þetta er þitt listaverk,“ sagði hann sposkur. „Leyfa þeim að vera,“ svaraði hún án þess að hugsa sig um.

Við sama tækifæri sagði Katie að Framtíðarbókasafnið væri eins og ættartré sem sífellt bættist við. „Á hverju ári söfnumst við hér saman og göngum hvert í annars spor. Þannig býr Future Library til samfélag sem margar hendur taka þátt í að skapa og tengir okkur sem lifum núna við þau sem eru enn ófædd. Karl Ove Knausgård og Tsitsi Dangarembga hafa rétt í þessu afhent mér handrit sem ætluð eru ófæddri kynslóð og þau verða prentuð á þessi tré. Þvílíkur heiður, þvílík gjöf.“ Sjálfir lýsa höfundarnir djúpu þakklæti fyrir að hafa verið valdir í hópinn. Í skilaboðum sem Ocean Vuong sendi og lesin voru upp á afhendingarathöfninni sagði meðal annars: „Að fá að taka þátt í þessu verkefni er hápunktur ferils míns, ekki sem höfundar heldur sem manneskju.“

Katie fullyrðir að þessi breiða skírskotun sé eitt af því sem heillar fólk við Framtíðarbókasafnið. „Þetta er meira en myndlist. Þetta er líka arkitektúr og bækur – og öll elskum við bækur, og þetta er náttúra. Svona verkefni hefði aldrei gengið upp sem einstaklingsframtak, þetta er í grunninn svo kollektívt. Þetta er lifandi verkefni, síbreytilegt og alltaf að koma á óvart. Það er viðkvæmt og á hreyfingu en, eins og skógfræðingurinn sagði svo fallega, rótarkerfið er vel mótað. Og það held ég að eigi líka við í yfirfærðri merkingu, ræturnar eru komnar og það fyllir mig öryggi og stolti.“

Öryggið felst þó ekki síst í því að í ár var undirritaður samningur við Óslóarborg til hundrað ára um að borgin hýsi verkefnið og fylgi því til enda. „Af öllu því fallega sem átti sér stað í skóginum var það samningurinn sem grætti mig,“ sagði Katie. „Vegna þess að það er stórmál að semja til hundrað ára. Borgin hefur aldrei gert neitt þessu líkt áður. Og þetta snýst um meira en verkefnið, þetta er traustsyfirlýsing um framtíðina, við erum að horfa til afkomenda okkar og gefa þeim pláss. Mér finnst raunverulega að borgin sé að segja: Við leggjum okkar traust á framtíðina. Við leggjum okkar traust á verkefnið og það sem það stendur fyrir.“

David Mitchell segist fagna hverri fjölgun í hópnum: „Tilgangur listarinnar er að tengja fólk saman. Þannig er „við“ Framtíðarbókasafnsins alltaf að stækka.“ Hann tekur líka undir að það sé sérstök tilfinning að taka svona þátt í verki annars listamanns: „Það er eins og Katie hafi sett af stað jarðskjálfta sem sendir frá sér svo öflugar bylgjur að hún veit ekki einu sinni sjálf hvaða afleiðingar þær eiga eftir að hafa. Nei, köllum þetta listskjálfta (artquake), það er betra orð. Þetta er listaverk sem sameinar fólk og það er gott í sjálfu sér. Stundum finnst mér líka eins og ég sé greifingjahárin í penslinum sem Leonardo da Vinci málaði með. Og þá hugsa ég: Bíddu við, Katie, þú ert búin að breyta mér í greifingjahár!“

 

Bókmenntir gera allt samtímalegt

Það var óhjákvæmilegt að spyrja höfundana hvernig það sé að skrifa fyrir ófædda lesendur sem engin leið sé að vita hvaða reynsluheim munu hafa. Karl Ove Knausgård segist hafa reynt að hugsa ekki öðruvísi um þetta verk en önnur sem hann hefur skrifað: „Það sem ég skrifa getur ekki orðið eins stórt og þetta verkefni. Það sem ég skrifa getur ekki fjallað um framtíðina almennt. Þess vegna reyndi ég að skrifa bara eins og venjulega og hugsa ekki um þetta.“

Tsitsi Dangarembga tekur í sama streng: „Mér fannst best að hugsa um að gera mitt besta núna og trúa því að úr því að ég er manneskja og tengi við efnið núna að þá muni aðrar manneskjur líka tengja við það og vonandi í framtíðinni líka.“ En annað segir hún að veki áhuga sinn við tímann í verkinu: „Það er hvernig það þvingar okkur til að hugsa á annan hátt um samtímann og hvernig sá samtími mun leiða okkur inn í breytta framtíð.“ Hún segir að ástandið í Simbabve hafi óhjákvæmilega haft áhrif á það hvernig hún nálgaðist verkefnið. Í pólitískum óstöðugleika og spillingu vilji margir horfa til fortíðar og halda því jafnvel fram að ástandið í landinu hafi verið betra á nýlendutímanum en það er nú. Það segir hún að sé dauðadæmdur hugsunarháttur. Þjóðinni sé nauðsynlegt að horfa fram á við og leysa þau vandamál sem við blasi án ímyndaðrar fortíðarsýnar og eitt af því sem hún hafi hugsað um meðan á skrifunum stóð væri hvernig samband Evrópu og Afríku yrði þegar textinn hennar birtist loks lesendum. Um það sé allt á huldu og blikur á lofti en hún vonar að textinn hennar geti þá mögulega aukið skilning manna á milli.

Í pallborðsumræðum eftir afhendingarathöfnina hörmuðu margir að fá ekki að lesa handritin sem þegar hafa verið afhent safninu, og raunar er það eitt af því sem Framtíðarbókasafnið hefur verið gagnrýnt fyrir, að láta skrifa alla þessa texta sem enginn af þeim sem nú fylgist með framgangi verksins fái nokkurn tíma tækifæri til að lesa. Þessu andmælti Tsitsi Dangarembga og benti á hvað þessi hugsunarháttur væri rótfastur í vestrænni forréttindahugsun: „Útilokun er mér svo eðlileg. Ég verð að hugsa um hvað ég geti nýtt úr samtímanum til að gera framtíðina betri. Okkur er ekki ætlað að fá allt strax.“ Þannig ljær hver nýr höfundur Framtíðarbókasafninu nýja og einstaka rödd sem getur ekki annað en mótað það til frambúðar. Gagnrýnisröddunum má líka svara með því að sannarlega er margt í verkinu aðgengilegt nú þegar, auk skógarins og Þögla herbergisins, sem opið er öllum sem sækja Deichman-bókasafnið heim, má finna á heimasíðu verkefnisins hugleiðingar höfundanna sem afhent hafa texta í safnið og ritgerðir sem skrifaðar eru í tilefni af útnefningu hvers höfundar fyrir sig.

David Mitchell hlær þegar hann fær spurninguna um framtíðarlesendurna, augljóslega ekki í fyrsta sinn: „Það fyndna við að taka þátt í þessu verkefni er að það er alltaf verið að spyrja okkur um tíma, um framtíðina, en ég hef engin svör. Það eina sem ég veit er að ég get í raun og veru alls ekki séð inn í framtíðina. Og enginn getur það. Ég held að ef einhver hefði verið spurður árið 1922 hvernig hann héldi að heimurinn yrði árið 2022 þá hefði verið fátt um svör. Hann gæti ekki einu sinni skilið 85% af þeim störfum sem fólk fæst við í samtímanum.“ David segist þó fagna því að verkefnið bjóði honum að tala við framtíðarlesendur, fólk sem má búast við að hugsi nokkurn veginn eins og hann sjálfur þótt það lifi gerólíku lífi. „Stundum þegar ég geng um miðaldabyggingar rýni ég í ufsagrýlurnar og hugsa um steinsmiðinn sem gerði þær. Af hverju var hann að þessu? Var það af djúpri trúarsannfæringu eða bara til að afla sér lífsviðurværis. Hugsaðirðu einhvern tíma um mig, spyr ég hann. Og ef þú gerðir það, hvað hugsaðirðu þá? Datt honum yfir höfuð í hug að 600 eða 700 árum síðar myndi einhver eins og ég rýna í verkið hans og velta fyrir mér af hverju það var búið til. En það er gaman að tala við framtíðarlesendur, segja: Halló! Ég veit ekki hver þú ert en ég vona að þér líki sagan mín.“

Eitt af því sem við þó vitum er að bókmenntir standast tímans tönn. Í þakkarávarpi sínu gerði Karl Ove Knausgård áðurnefnt Draumkvæði að umtalsefni. Þar segir frá manni sem sefur í heila 13 daga, yfir alla jólahátíðina, og þegar hann loksins vaknar segir hann frá því sem hann sá á meðan hann svaf. „Galdurinn er að við heyrum enn í honum mörg hundruð árum síðar,“ segir Karl Ove. „Það eru töfrar bókmenntanna, þær gera allt samtímalegt. Og galdurinn við þetta verkefni er að það gerir framtíðina að samtíma okkar og okkur að samtímafólki framtíðarinnar.“

Tsitsi Dangarembga bendir þó á augljósan mun á handritum Framtíðarbókasafnsins og bókum sem lesnar eru löngu eftir að þær eru skrifaðar: „Eldri bókmenntum sem við lesum núna var ekki ætlað að ferðast í gegnum tíma. Í þessu verkefni eru textarnir settir í eins konar tímahylki – svolítið eins og flöskuskeyti eða skilaboð út í geiminn – og það gerir Framtíðarbókasafnið alveg einstakt.“

Segja má að tíminn skilgreini Framtíðarbókasafnið meira en nokkuð annað. Frá upphafi var því ætlað að standa í hundrað ár og allan þann tíma er það að vaxa, trén vaxa í skóginum og á hverju ári fjölgar handritunum í Þögla herberginu um eitt. Þó er engin leið að skipuleggja svona verk út í hörgul og Katie Paterson segir að ekki sé búið að ákveða nákvæmlega hvað muni gerast árið 2114 þegar skógurinn verður höggvinn og handritin gefin út: „Það er ekki hægt. Við erum búin að reyna en það er ekki til neins. Við getum ekki ímyndað okkur hvernig tæknin verður eftir hundrað ár.“ Á hinn bóginn segist hún treysta því að í grunninn verði mannskepnan ekki svo mikið breytt og vísar í það sem Andri Snær Magnason segir í bókinni Um tímann og vatnið: „Hann heldur því fram að við séum öll tengd forfeðrum okkar og afkomendum í að minnsta kosti sjö kynslóðir. Svo langan tíma spannar líf okkar. Svo að í staðinn fyrir að sjá fyrir sér sci-fi framtíð – eitthvað eins og úr Back to the Future – þá munum við einfaldlega halda áfram að sitja og tala við barnabörnin okkar. Þess óska ég mér fyrir árið 2114. Ég er viss um að það verður búið að finna upp fullt af ótrúlegum hlutum en við verðum ennþá afkomendur forfeðra okkar, og við munum enn segja hvert öðru sögur, og bækur verða ennþá til og skógurinn verður ennþá til, og þetta er í rauninni mjög raunsæ framtíðarsýn.“

 

Hundrað ára löng bæn

Omar Samy Gamal, aðstoðarborgarstjóri Óslóborgar fyrir menningarmál og íþróttir, lýsti hugmyndinni um Framtíðarbókasafnið við afhendingarathöfnina með þessum orðum: „Í hjarta skógarins er borg. Í hjarta borgarinnar er bókasafn. Í hjarta bókasafnsins er framtíðin. Skógurinn og borgin, bókasafnið og framtíðin er það sem við eigum saman. Við deilum náttúru, bókum og von – og því megum við ekki gleyma. Framtíðarbókasafnið er tákn sem minnir okkur á sameiginlega von okkar og ábyrgðina sem við berum saman á því að berjast fyrir heimi sem endist lengur en við munum lifa. Heimi sem er betri en sá sem við tókum við.“ Þetta er í anda þess sem margir segja almennt um verk Katie Paterson, að þótt þau skírskoti óhjákvæmilega til loftslagsvárinnar og annarra ógna við líf mannsins í samtímanum séu þau í grunninn reist á von. Þannig telur hún sólarupprásir en ekki sólsetur með áðurnefndri talningarvél og veggteppið hennar um útdauðu plönturnar ber heitið Evergreen – Sígrænt. Þannig halda plönturnar græna litlum þó ekki sé nema í huga okkar. Aðspurð segist hún hvorki vera svartsýn né bjartsýn um framtíðina en bæði ringluð og djúpt hugsi. Hún segir þó að flestum finnist felast von í verkefninu um Framtíðarbókasafnið en á þeim átta árum sem það hefur staðið hafi hún orðið vör við áhugaverða breytingu: „Fyrst var ég spurð hvort ég héldi að fólk myndi enn hafa áhuga á prentuðum bókum eftir hundrað ár, en síðan fór þetta að snúast við og ég var spurð hvort enn yrði til eitthvert fólk eftir hundrað ár til að lesa textana.“

Mögulega stuðlar verk eins og Future Library að því að við hugsum betur um umhverfið og náttúruna. „Fæst okkar hugsa um hvernig heimurinn verður eftir hundrað ár,“ sagði Tsitsi Dangarembga, „en þegar maður setur sig í þessar stellingar blasir við að gjörðir okkar hafa meiri áhrif á morgundaginn og það sem síðar kemur heldur en við höfum kannski hugsað út í. Þess vegna held ég að þetta verkefni hafi góð áhrif á það hvernig við tengjum við tímann.“

„Framtíðarbókasafninu hefur verið líkt við hundrað ára langa bæn fyrir framtíðinni,“ sagði listakonan við athöfnina í skóginum. „Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við víkkum út skynjun okkar á tímanum. Framtíðarkynslóðir eru ósýnilegar augum okkar en við tengjumst þeim með gjörðum okkar. Höfundar Future Library-verkefnisins hafa lýst því sem trúaryfirlýsingu óháð trúarbrögðum, ævintýri, auðmjúkri hneigingu, yfirlýsingu um bjartsýni sem felst í því að trúa á framtíðina.“

Stjórn verkefnisins hefur með höndum að velja höfunda og þegar athöfnin fór fram í sumar hafði sá næsti ekki verið útnefndur. „Við biðjum fólk ekki um handrit mörg ár fram í tímann,“ segir Katie. „Það myndi sannarlega auðvelda líf okkar að skipuleggja þetta lengra fram í tímann en heimurinn breytist svo hratt. Bara í fyrra vorum við spennt fyrir ákveðnum höfundi en núna er andrúmsloftið allt annað en það var þá og mér finnst að verkefnið verði alltaf að bregðast við samtíðinni og miðla henni til framtíðarinnar. Þess vegna erum við ekki búin að bjóða næsta höfundi að taka þátt og það er áhætta, við vitum það, sérstaklega fyrir höfunda sem þurfa góðan tíma til að skrifa.“

Sigþrúður Gunnarsdóttir

Í þessu ljósi er áhugavert að ímynda sér bókasafnið þegar það loksins lítur dagsins ljós. Það verður ekki einungis samþjöppuð hundrað ára bókmenntasaga sem á sér enga hliðstæðu heldur frjáls tjáning þeirra höfunda aldarinnar sem þóttu endurspegla samtíma sinn sérlega vel og settu sig auk þess allir í þær stellingar að tala við lesendur í framtíðinni. Enginn ritstjóri eða útgefandi kemur að verkinu sem þarf að hafa áhyggjur af sölu þess eða markaðssetningu, og höfundarnir geta skrifað án þess að leiða hugann að viðbrögðum samtímafólks síns – almennra lesenda, gagnrýnenda eða þeirra sem á einn eða annan hátt tengjast því sem skrifað er um. Það er eitt af því sem gerir Framtíðarbókasafnið að einstöku listaverki, því að ekki gátu þátttakendur í pallborðum eða almennum umræðum um verkið í sumar látið sér detta nokkuð í hug sem minnti á þetta makalausa framtak.

Þegar maður hefur sökkt sér í verk Katie Paterson er óhjákvæmilegt að fyllast eftirvæntingu yfir því sem hún gerir næst og í samtali við Anne Beate Hovlind sagði hún frá því sem er fyrirferðarmest í stúdíóinu þessa mánuðina, gríðarmiklu verki sem pantað var fyrir höfuðstöðvar Apple í Kísildal: „Fyrir það ætlum við að safna sandi úr öllum eyðimörkum jarðarinnar og gera úr honum gler í fimm hundruð handgerðar súlur. Verkið verður þungt og stórt en líka næstum ósýnilegt af því að allar súlurnar verða gegnsæjar. Þó verða þær hver með sínum lit í samræmi við ólíkt efnainnihald sandsins. Við erum að horfa til baka, til þjóðanna í Mesópótamíu til forna sem uppgötvuðu hvernig hægt væri að gera gler úr sandi, en blöndum saman eldfornum og nútímalegum aðferðum til að vinna með gler. Og tíminn er farinn að verða naumur. Ég fæ ekki hundrað ár til að ljúka þessu verki!“ segir Katie að lokum og hlær.

Fæst eigum við líklega eftir að sjá glersúlurnar í Kísildal en gaman verður að fylgjast áfram með listsköpun Katie Paterson, rétt eins og höfundahópi Framtíðarbókasafnsins stækka og trjánum í skóginum vaxa.