Guðrún Inga Ragnarsdóttir

Guðrún Inga Ragnarsdóttir / Mynd: Gassi

eftir Guðrúnu Ingu Ragnarsdóttur

úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2014

Ég man skýrt eftir þessum degi. Ég keyrði Brynju til augnlæknisins á dimmum janúarmorgni. Við vorum bæði í nýjum dúnúlpum sem við höfðum fengið í jólagjöf. Áður en við lögðum af stað skóf ég héluna af bílrúðunum meðan Brynja sat í farþegasætinu með hettuna yfir hausnum og hendurnar milli læranna. Henni var kalt og hún var stressuð. Það var samt engin ástæða til þess að kvíða þessari minniháttar aðgerð, sem læknirinn hafði framkvæmt mörg hundruð sinnum áður án nokkurra vandkvæða. Það voru engar líkur á að eitthvað færi úrskeiðis og Brynja hlakkaði mikið til þess að losna við gleraugun. En auðvitað var ekki þægileg tilhugsun að láta krukka í augun á sér.

Við keyrðum til læknisins og settumst niður í biðstofunni. Brynja seildist í tímarit en í stað þess að lesa það braut hún uppá hornið á einni blaðsíðunni. Síðan þeirri næstu og svo koll af kolli. Ég tók tímaritið af henni, kreisti á henni höndina og sagði henni að slaka á. Þegar hjúkrunarkonan kallaði hana inná stofu óskaði ég henni góðs gengis og smellti á hana kossi. Aðgerðin tæki ekki nema hálftíma og ég ákvað að fá mér morgunkaffi í bakaríinu á neðri hæð þjónustumiðstöðvarinnar á meðan.

Ég man að ég fékk mér latte og sérbakað vínarbrauð. Og ég man hvað afgreiðslustúlkan sem færði mér bakkelsið var ótrúlega sæt. Hún var svo falleg að ég skildi ekki hversvegna hún var að vinna í bakaríi. Hún gæti auðveldlega fengið meira spennandi vinnu bara út á útlitið. Verið fyrirsæta, leikið í auglýsingum, nú eða bara unnið í tískubúð, það hlaut að minnsta kosti að vera skárra en að afgreiða kaffi og sætabrauð til morgunfúlla kúnna sem flestir voru á leið í eða úr apótekinu eða heilsugæslustöðinni og báru jafnvel kvilla sína utan á sér, miðað við fólkið sem sat við borðin í kringum mig þennan morgun.

Ég daðraði örlítið við stelpuna þegar hún færði mér kaffið. Alveg ósjálfrátt. Svo stóð ég sjálfan mig að því að glápa á rassinn á henni þegar hún gekk aftur að afgreiðsluborðinu. En mér leið ekkert illa yfir því. Ekki vottur af samviskubiti, þótt kærastan mín lægi á efri hæð byggingarinnar og léti sneiða af sér hornhimnurnar á sömu stundu. Ekki vegna þess að ég væri einhver flagari, heldur var ég, eins klént og það hljómar, einfaldlega yfir mig ástfanginn af Brynju. Allt frá því að ég hitti hana fyrst var ég svo heltekinn af henni að ég vissi að ég myndi aldrei vilja vera með neinni annarri konu. En þar sem ég var í eðli mínu fagurkeri fannst mér stundum gaman að horfa á fallegt kvenfólk, það var alveg meinlaust. Þessi gullfallega afgreiðslustúlka var bara eins og blóm í miðjum moldarbing þennan grámyglulega morgun, blóm sem maður getur ekki staðist að virða fyrir sér, jafnvel þefa aðeins af.

Ég mundi svo vel eftir þessari bakarísstelpu að ég þekkti hana aftur þegar ég sá hana í Kringlunni mörgum árum síðar. Þá var hún að skoða barnaföt með einhverjum álíka myndarlegum manni. Ég man ekki hvort hún var með framstæðan kvið eða ekki, enda var mér nákvæmlega sama. Ég þekkti hana bara aftur af sömu ástæðu og ég mundi eftir öllum fjandans smáatriðunum sem tengdust þessum degi. Deginum sem markaði upphafið að endalokum okkar Brynju.

Að hálftíma liðnum fór ég aftur upp á biðstofuna og settist niður. Stuttu síðar kom Brynja fram. Það var farið að birta úti og hún var með einnota sólgleraugu á nefinu. Ég kyssti hana á kinnina og fylgdi henni út í bíl. Brynja var dálítið ringluð eftir kæruleysispilluna og þegar heim var komið fór hún beint inn í svefnherbergi og lagði sig. Læknirinn hafði mælt með því að hvíla augun og sofa úr sér lyfjamókið. Þegar hún vaknaði mátti hún búast við smá óþægindum, augnþurrki eða erfiðleikum með að fókusera. Óþægindin kæmu til með að hverfa á næstu dögum, það var einstaklingsbundið hversu langan tíma það tæki, allt frá einum degi uppí viku, sjaldan lengur.

Brynja var hörkutól. Hún var stálhraust og samviskusöm og ég mundi ekki eftir því að hún hefði nokkurn tímann tekið sér veikindafrí. Fyrr en þennan dag. En hún var auðvitað ekkert veik, bara nýkomin úr einfaldri aðgerð sem oftast var framkvæmd á ungu og hraustu fólki. Hún yrði komin á lappir innan skamms og gerði ráð fyrir því að fara í vinnuna daginn eftir. En mig langaði að nýta tækifærið á meðan hún var „lasin“ heima til þess að dekra örlítið við hana. Hún átti það skilið. Ég hafði ákveðið að vinna heiman frá og þegar ég hafði klárað verkefni dagsins fór ég og keypti í matinn. Ég ætlaði að elda eitthvað ljúffengt handa okkur.

Brynja svaf allan daginn. Ég vakti hana ekki fyrr en maturinn var kominn á borðið, indverskur pottréttur ásamt hrísgrjónum og salati. Hún settist við borðið og brosti syfjulega.

„Girnilegt.“

„Hvernig er sjónin?“ spurði ég.

Hún virti mig fyrir sér og pírði augun.

„Bara góð. Soldið erfitt að fókusera samt.“

„Svafstu vel?“

Brynja kinkaði kolli og fékk sér á diskinn.

„Þessi kæruleysispilla hefur alveg slegið mig útaf laginu. Svafst þú lengi?“

„Ég? Nei, ég svaf ekki neitt.“

„Sofnaðirðu ekkert? Það var samt voða gott að fá þig uppí.“

„Hvað meinarðu? Ég steig ekki fæti inní svefnherbergi á meðan þú svafst þessum þyrnirósarblundi.“

Brynja hætti að tyggja. Hún horfði rannsakandi á mig.

„Ekki láta svona. Þú fékkst þér líka blund.“

Ég hristi höfuðið og hló.

„Þig hefur dreymt það.“

Brynja hrukkaði ennið.

„Ekki fíflast í mér,“ sagði hún, óvenju alvarlegum rómi.

„Ég er ekkert að fíflast, ég lagði mig ekki neitt.“

„Vá, maður,“ sagði Brynja og rótaði í matnum með gafflinum. „Ég get svarið að ég fann fyrir þér við hliðina á mér. Þú tókst utanum mig og allt.“

„Það er ekkert annað,“ sagði ég. „Kæruleysispillan hefur greinilega verið aðeins of sterk …“

Brynja brosti dauft.

„Nema Nonni í kjallaranum hafi skriðið uppí á meðan ég fór út í búð,“ bætti ég við.

„Voða fyndinn,“ sagði Brynja og stakk uppí sig kjötbita.

 

Við horfðum aðeins á sjónvarpið eftir kvöldmatinn en Brynja varð fljótlega þreytt í augunum. Ég setti uppáhaldsplötuna hennar á fóninn, lét renna í bað fyrir hana en stóðst síðan ekki freistinguna að rífa mig sjálfur úr spjörunum. Baðkarið var í smærra lagi fyrir okkur bæði en okkur tókst samt, eins og venjulega, að koma okkur furðulega vel fyrir, hún lá í fanginu mér og ég reyndi að einbeita mér að því að nudda á henni axlirnar, þótt hendurnar leituðu ósjálfrátt á brjóstin.

Ég sofnaði um leið og við skriðum uppí rúm. Ég svaf eins og steinn og vaknaði ekki fyrr en vekjaraklukkan hringdi klukkan átta morguninn eftir. Þá var Brynja farin fram, þótt við værum vön að vakna á sama tíma. Hún sat við eldhúsborðið, í náttslopp með kaffibolla fyrir framan sig og var þreytuleg að sjá.

„Hva… ertu bara vöknuð?“

Hún andvarpaði.

„Já, ég svaf svo svakalega illa í nótt.“

„Æ, æ,“ sagði ég og kyssti hana á ennið. „Ég hefði kannski átt að vekja þig fyrr í gær. Þú svafst auðvitað allan daginn þannig að það er ekki skrítið að þú hafir sofið lítið.“

„Það var ekki málið. Mig dreymdi bara svo skelfilega illa.“

„Nú?“

Brynja yppti öxlum. „Æ, ég veit það ekki. Ég var ekki vakandi en samt varla sofandi, einhvernveginn föst á milli svefns og vöku. Ég hef aldrei upplifað þetta áður, þetta var mjög óþægilegt. Svo fannst mér bara eins og einhver væri inní herberginu. Fyrir utan þig náttúrlega.“

„Æ, svona martraðir eru ömurlegar.“

Brynja kinkaði kolli. „Mér fannst eins og einhver reyndi að toga í mig eða eitthvað. Mjög krípí. Ég veit ekki hvað ég hefði gert ef ég hefði verið ein heima. Ég klessti mér alveg uppvið þig, þá leið mér aðeins betur. Þú steinsvafst auðvitað, hraust hástöfum.“

Brynja leit á mig og brosti dauflega. „Ég ætla að vera heima í dag. Ég er ekki í stuði til þess að fara í vinnuna.“

„Mér líst vel á það. Þú hefur gott af því að hvíla þig aðeins. Hvernig er sjónin annars?“

„Mjög fín. Það er magnað að fara á fætur og sjá bara allt. Ég sé betur en ég gerði með gleraugunum. Ég sé húsnúmerið á húsinu hérna á móti,“ sagði Brynja og kinkaði kolli í átt að glugganum. „Svo sé ég hverja einustu bólu og hrukku á þér,“ sagði hún og blikkaði mig.

Ég fékk mér kaffi og ristað brauð og lagði síðan af stað í vinnuna. Um hádegið íhugaði ég að hringja heim til þess að athuga hvernig Brynju liði, en ákvað að láta vera með það. Ég vildi ekki vekja hana ef ske kynni að hún svæfi.

Ég kom ekki eins miklu í verk í vinnunni og ég hefði viljað. Samt fór ég talsvert fyrr heim en vanalega, það var ekki laust við að ég hefði smá áhyggjur af Brynju. Ég var því ánægður að sjá hana brosa til mín um leið og ég gekk inn í íbúðina. Hún sat í sófanum inní stofu og hafði greinilega hvílt sig vel, var búin að klæða sig og leit mun betur út en um morguninn. Á sófaborðinu stóð tekanna ásamt tveimur bollum og skál með kexkökum.

„Tylltu þér hérna hjá okkur,“ sagði Brynja.

„Okkur?“

„Þetta er Sverrir, unnusti minn,“ sagði hún og kinkaði kolli í átt að stólnum við hlið sér.

„Hvaða húmor er þetta?“ spurði ég.

„Hvað meinarðu?“ Brynja saup á teinu. „Ætlarðu ekki að heilsa frænku minni?“

„Hvaða frænku?“

„Sólveigu, ömmusystur minni. Hugsaðu þér, hún bankaði bara uppá í dag.

Ég vissi ekki einu sinni að amma hefði átt systur!“

Brynja var afleit leikkona. Hún gat ekki logið fyrir fimmaura, en gleði hennar yfir þessari frænku virtist vera ósvikin. Það vakti með mér óhug.

„Brynja, þetta er ekki fyndið.“

„Sestu niður og spjallaðu við okkur. Hún Sólveig er búin að segja mér ótal sögur frá því að þær amma voru litlar.“

„Brynja, hættu þessu!“

„Hverju?“

„Það er engin fjandans frænka hérna, ekki hræða mig svona! Fyrst þessar ofskynjanir í nótt, síðan þetta.“

Brynja hætti að brosa. Hún náfölnaði. Og þegar hún fölnaði svona, þá hvítnaði ég. Hún missti tebollann og teið slettist út um allt, á buxurnarhennar, sófann og gólfið. Ég settist niður við hlið hennar og tók utanum hana. Sagði henni að slaka á en hún heyrði það tæpast fyrir öskrunum í sjálfri sér.

 

„Þú hefur örugglega bara fengið vitlausan lyfjaskammt,“ sagði ég þegar við lágum í sófanum um kvöldið og horfðum á bíómynd. „Læknirinn hefur eitthvað misreiknað sig. Það er heldur ekki eðlilegt hvað þú svafst lengi eftir aðgerðina.“

„Ég ætla rétt að vona það,“ muldraði Brynja. „En þú getur ekki ímyndað þér hvað þetta var raunverulegt.“

 

Brynja svaf vel um nóttina. Ég svaf hinsvegar ekki eins vel. Ég var stöðugt að rumska og athuga hvort það væri ekki örugglega allt í lagi með Brynju, en hún svaf eins og ungbarn. Enda vaknaði hún einstaklega hress en ég var hinsvegar óvenjusyfjaður.

„Ég svaf mjög vel,“ sagði hún meðan hún hellti uppá. „Engar martraðir. Mikið er ég fegin, ég kveið því að fara að sofa í gærkvöldi.“

„Það er nú gott,“ sagði ég og settist við eldhúsborðið.

„Þú hefur örugglega rétt fyrir þér. Læknirinn hlýtur bara að hafa gefið mér vitlausa pillu, eða kannski of stóran skammt.“

„Jamm,“ sagði ég og geispaði. Brynja leit á mig.

„Finnst þér að ég eigi að hringja í hann?“

„Hvern?“

„Lækninn.“

„Er það ekki óþarfi?“

„Jú, kannski. Ég fer í tékk hjá honum í næstu viku. Ég nefni þetta kannski við hann þá.“

„Jájá. Reyndu bara að hugsa ekki of mikið um þetta. Það lenda allir í því að fá einhverjar ofskynjanir einhverntímann á lífsleiðinni. Það er ekkert til að hafa áhyggjur af.“

„Nei, nei. Kannski ekki.“ Brynja rétti mér rjúkandi kaffibolla og brosti.

„Ég sé ennþá skýrar en í gær. Þetta er alveg frábært. Hefði eiginlega átt að fara í þessa aðgerð miklu fyrr. Veistu hvað það er þægilegt að geta bara vaknað og þurfa ekki að fálma eftir gleraugunum?“

„Það er nú gott,“ sagði ég og dreypti á kaffinu.

 

Þreytan setti mark sitt á vinnudaginn. Ég hélt mér gangandi með kaffi en lá hálfdottandi fram á skrifborðið stuttu eftir hádegi, þegar síminn minn hringdi.

„Sæl, elskan,“ svaraði ég, því ég hélt að þetta væri Brynja að hringja úr vinnusímanum. En það var Jóhanna, samstarfskona hennar.

„Sæll, Sverrir. Jóhanna hérna.“

„Já, sæl. Afsakið, ég hélt þú værir Brynja.“

„Já, ekkert mál. Hérna … hefur hún eitthvað hegðað sér undarlega undanfarið?“

Ég snarvaknaði.

„Ja … sko. Hún varð dálítið rugluð eftir þessa laseraðgerð þarna í fyrradag. Dreymdi illa og … já, hún var örlítið ringluð í gær. En hún svaf mjög vel í nótt og var bara hress og kát í morgun. Hvers vegna spyrðu?“

„Tja … hún hefur ekki verið sjálfri sér lík í dag. Eða … hvað skal segja. Hún hefur verið að tala við sjálfa sig. Svo þegar ég gerði góðlátlegt grín að henni núna rétt áðan, þvertók hún fyrir það. Sagðist hafa verið að tala við viðskiptavin. Fyrst hélt ég að hún væri að grínast en mér varð fljótlega ljóst að henni var full alvara.“

„Hvað ertu að segja?“ tautaði ég. Mér var orðið illt í maganum.

„Já, ég veit ekki hvað gengur að stúlkunni. Ég held að það væri best að hún tæki sér frí það sem eftir er dagsins.“

„Ég kem og sæki hana.“

„Þakka þér fyrir. Kannski er þetta bara þreyta. Það er stundum merkilegt hvað smávægilegar aðgerðir geta haft mikil áhrif á mann.“

Ég kvaddi Jóhönnu og fletti síðan uppá númerinu hjá augnlækninum. Ég þurfti að bíða dálítið lengi á línunni og var orðinn óþolinmóður því mig langaði að sækja Brynju sem fyrst.

„Sjónlausnir, Guðmundur.“

„Já, góðan daginn. Sverrir Tryggvason heiti ég. Kærastan mín fór í aðgerð hjá þér núna í fyrradag, Brynja Björk Jóhannesdóttir.“ Læknirinn hugsaði sig um augnablik.

„Brynja, já. Einmitt.“

„Hún hefur verið dálítið ringluð eftir aðgerðina. Hefur séð einhverjar sýnir.“

„Sýnir? Hvernig þá?“

„Ja … þetta hljómar dálítið undarlega. En hún virðist sjá fólk sem er ekki til staðar.“

Læknirinn þagði augnablik.

„Nú átta ég mig ekki alveg á því hvað þú átt við. Sumir sjúklingar upplifa einhverskonar sjóntruflanir rétt í byrjun, en það er yfirleitt fljótt að lagast. Sér hún tvöfalt? Ég hef heyrt þeirrar aukaverkunar getið, en hún er mjög óalgeng.“

„Nei, nei. Þetta eru engar sjóntruflanir … eða … mér þykir hæpið að kalla það svo. Þetta eru sýnir. Ofskynjanir. Okkur datt helst í hug að þetta væru einhver eftirköst af þessari róandi töflu sem hún fékk fyrir aðgerðina. Mig langaði að spyrja þig hvaða efni voru í töflunni og hvort þú vissir um dæmi um aukaverkanir af þessu tagi?“

„Jahá,“ sagði læknirinn og dró seiminn. „Það er ekkert annað. Ég efast um að þetta tengist aðgerðinni nema hún hafi verið eitthvað óeðlilega kvíðin fyrir henni. Þá gæti þetta verið spennufall. Annars er ég enginn geðlæknir. Ég efast að minnsta kosti um að þetta tengist lyfinu. Þetta var ósköp saklaus valíumtafla, ég veit ekki dæmi þess að hún valdi ofskynjunum.“

„Getur nokkuð verið að hún hafi óvart fengið einhverja aðra töflu? Eða stærri skammt en vanalega?“

„Nei, það er alveg útilokað. Hver sjúklingur fær bara eina töflu, þær eru kyrfilega merktar og geymdar í læstum lyfjaskáp. Það er ekki möguleiki á neinum ruglingi.“

„Jæja. Hún kemur víst í skoðun til þín í næstu viku. Geturðu kannski haft augun opin gagnvart einhverju óvenjulegu?“

„Jájá. Það gerum við alltaf. Er hún ekki annars bara sátt við sjónina? Ég sagði henni að hringja í mig daginn eftir ef hún yrði vör við óvenjumikinn augnþurrk eða óþægindi. Hún hefur ekki gert það, þannig að ég býst við að allt hafi gengið að óskum.“

„Jújú, sjónin er fín.“

„Það var nú gott. Jæja, ég verð að rjúka, það bíður sjúklingur. En ykkur er velkomið að hringja hvænær sem er ef það vakna einhverjar fleiri spurningar.“

Ég kvaddi lækninn, sagði vinnufélögunum að ég yrði að sækja Brynju því hún væri eitthvað slöpp, hljóp útí bíl og ók af stað í vinnuna hennar. Hún beið í anddyri byggingarinnar og settist inn í bílinn fýld á svip.

„Hvernig hefurðu það?“ spurði ég.

„Ég er bara drullufúl. Jóhanna hringir í þig og biður þig um að sækja mig, eins og ég sé einhver smákrakki eða gengin af göflunum. Af hverju ræddi hún ekki bara við mig? Ég hefði getað komið mér sjálf heim, fyrst hún vildi endilega losna við mig.“

„Svona, róleg. Hún bað mig ekkert um að sækja þig, ég bauðst til þess.“

„Æ, kommon, hún ætlaðist til þess. Þessvegna hringdi hún í þig.“

„Þetta var ekkert illa meint hjá henni, elskan. Þessar ofskynjanir eru ennþá í gangi, rétt eins og í gær. Þá er best að fara bara heim að hvíla sig.“

Brynja þagði. Hún þagði langleiðina heim og ég taldi réttast að spyrja hana ekki út í ofskynjanirnar fyrr en við höfðum komið okkur vel fyrir heima, helst eftir að hún var búin að leggja sig, borða vel og drekka nóg af vatni. En þegar ég beygði inn götuna okkar fór hún að snökta.

„Svona, ástin mín. Þetta er allt í lagi.“

„Nei. Þetta er ekkert allt í lagi. Veistu, ég afgreiddi viðskiptavin í dag. Talaði við hann heillengi, ráðlagði honum með lífeyrissjóð. Síðan kom Jóhanna og spurði hversvegna ég væri að tala við sjálfa mig, og ég hló bara að henni. Hélt að hún væri að grínast. Hann sat þarna við hliðina á henni, Friðrik hét hann, alveg jafn ljóslifandi og hún. Ég sagði henni að gefa mér augnablik, ég þyrfti að sinna þessum kúnna. Þá fór hún, eflaust eitthvað að slúðra á kaffistofunni um það hversu klikkuð ég væri, áður en hún hringdi í þig.“ Ég lagði bílnum fyrir framan blokkina okkar, sneri mér að Brynju og leit í grátbólgin augun á henni. Mér dauðbrá, ég hafði sjaldan sé hana jafn skelfingu lostna. Ég greip í höndina á henni.

„Síðan fletti ég upp kennitölu mannsins,“ sagði hún og saug upp í nefið. „Hún var ógild. Hann dó árið 2005.“

Ég fékk gæsahúð. Sagði ekkert. Strauk bara höndina á Brynju. Reyndi að róa hana, þótt ég væri sjálfur mjög órólegur.

„Þá fór hann bara, hann Friðrik, um leið og ég spurði hann út í kennitöluna. Hann vildi ekki tala um það. Síðan hringdi ég í pabba. Spurði hvort amma hefði átt systur sem hét Sólveig.“ Brynja snökti. „Hún átti systur. Sólveigu, sem dó árið 1991. Amma dó náttúrlega áður en ég fæddist og eftir það fjöruðu tengsl pabba við þessa frænku sína bara út. Ég heyrði aldrei minnst á hana.“

„Vá, maður.“

„Ég veit. Þetta eru engar ofskynjanir. Þetta er alvöru, dáið fólk. Þessi Friðrik var til, Sólveig var til. Hvað í fjandanum er í gangi? Hvað á ég að gera?“

„Við skulum bara taka eitt skref í einu, elskan,“ sagði ég, því ég vissi ekkert hvernig ég ætti að bregðast við. „Nú förum við bara inn og tökum því rólega.“ Ég sleppti hendinni á Brynju og við stigum úr bílnum og gengum inn í íbúðina.

 

Næstu dagar voru erfiðir. Brynja tók sér veikindafrí og sat tímunum saman fyrir framan tölvuna, gúglandi eins og brjálæðingur. Hún aflaði sér upplýsinga um laseraðgerðir og allar mögulegar og ómögulegar aukaverkanir þeirra. Hún las sér til um drauma, sýnir og skyggnt fólk. Sérstaklega reyndi hún að hafa uppá reynslusögum fólks sem varð skyggnt á því sem næst einni nóttu. Hún lá yfir þessum greinum, vakti langt fram eftir og svaf oftar en ekki illa á næturnar. Þegar ég var í vinnunni hafði ég stöðugar áhyggjur af henni einni í íbúðinni. Ég reyndi þó að láta það ekki bitna á vinnuafköstum mínum. Það gekk upp og ofan.

Ég fór með henni í eftirskoðunina hjá augnlækninum. Hún bað mig samt um að bíða á biðstofunni, hún kærði sig ekki um að líða eins og smákrakka, eins og hún orðaði það. Ég beið heillengi eftir henni, las nokkur gömul Séð og heyrt blöð spjaldanna á milli, þar til hún kom loks út í fylgd augnlæknisins. Hún hélt á einhverju bréfsnifsi. Læknirinn tók í höndina á henni og sagði: „Gangi þér vel.“ Hún svaraði ekki, yppti bara öxlum, kinkaði síðan kolli til mín og gekk út. Ég stóð upp og leit örstutt í augun á lækninum. Hann brosti dauflega til mín. Það var eiginlega ekki bros, meira svona tilraun til þess að létta aðeins á stemningunni. Ég gekk út á eftir Brynju.

„Hvað sagði læknirinn?“ spurði ég þegar við vorum sest inní bíl.

Hún svaraði ekki.

„Brynja?“

„Ja, hann skoðaði í mér augun, mældi sjónina og svona. Hann sagði að aðgerðin hefði heppnast ótrúlega vel. Ég sé skýrar en flestir sem hafa farið í svona aðgerð. Skýrar en flestir almennt. Ég gat lesið neðstu línuna eins og ekkert væri.“

„Það er frábært.“

„Alveg stórkostlegt,“ sagði Brynja með kaldhæðnistón. Hún leit út um gluggann og þagði.

„Þú varst heillengi inni hjá honum, eitthvað hljótið þið að hafa rætt meira.“

Brynja rak upp óp og kipptist við í sætinu.

„Þvílíkur glanni!“

„Ha?“

„Náðirðu númerinu?“

„Eh … það var enginn bíll.“

Brynja andvarpaði. Ég yrði að gæta þess að hún settist ekki undir stýri á næstunni.

„Hvað sagði augnlæknirinn?“ endurtók ég.

„Hann var aðallega í því að svara spurningum.“

„Hvaða spurningum?“

„Ég spurði hann hvernig í ósköpunum stæði á því að ég, sem hef aldrei upplifað neitt yfirnáttúrulegt áður, væri allt í einu orðin skyggn, akkúrat frá sama degi og ég fór í þessa aðgerð. Að það gæti ekki verið tilviljun.“

„Hverju svaraði hann?“

„Hann sagði að það væri tilviljun. Síðan spurði ég allskonar spurninga, út í tækin og hvaðan þau komu. Það var greinilegt að hann var orðinn dálítið þreyttur á þessu spurningaflóði. En mér fannst eitt dálítið merkilegt, hann er með glænýtt lasertæki, ég var fyrsta manneskjan sem lagðist undir það.“

„Nú, já.“

„Eitthvað nýjasta nýtt frá Svíþjóð. Hann gaf mér linkinn á heimasíðu fyrirtækisins sem framleiðir það. Eða … ég bað hann auðvitað um linkinn.“

„Ókei. Og hvað ætlarðu að gera við þær upplýsingar?“

„Ég veit það ekki!“ hvæsti Brynja svo hvellt að mér dauðbrá. Ég heyrði hana gnísta tönnum. Hún þagði augnablik.

„Síðan vísaði hann mér til geðlæknis,“ sagði hún og kreisti pappírssnifsið sem hún hélt á.

 

Brynja settist beint fyrir framan tölvuna þegar heim var komið. Hún las allt sem hún gat um þetta sænska fyrirtæki sem framleiddi tækin, sögu þess, fólkið sem kom því á fót, hvar það var staðsett og svo framvegis. Ég skildi ekki hvers vegna hún var að eyða tíma í þetta, en hafði mig ekki í að spyrja hana út í það. Ég horfði annars hugar á sjónvarpið allt kvöldið, á meðan Brynja sat stóreyg fyrir framan tölvuskjáinn.

„Mundu að blikka augunum. Það er mikilvægt eftir svona aðgerð,“ sagði ég, en uppskar ekkert nema illt augnaráð.

 

Mér tókst að draga Brynju frá tölvunni daginn eftir. Við fórum í sund og létum líða úr okkur í nuddpottinum og gufunni, áður en við fórum í mat til vinafólks okkar. Brynja gleymdi sér alveg, hún skemmti sér ljómandi vel og var hrókur alls fagnaðar. Þegar heim var komið opnaði ég rauðvínsflösku og setti músík á fóninn. Við höfðum ekki stundað kynlíf síðan fyrir aðgerðina. Ég var fullkomlega meðvitaður um að Brynja væri undir miklu sálrænu álagi og í ofanálag þjökuð af svefnleysi, og ætlaði því að láta kvöldið snúast algerlega um hana. Góð fullnæging var jú alltaf endurnærandi. Þegar rauðvínsflaskan var hálfnuð færðist fjör í leikinn, við fórum inn í svefnherbergi þar sem ég dró fram nuddolíuna, Brynja tíndi af sér spjarirnar og lagðist á magann í rúmið. Ég settist klofvega yfir hana og byrjaði að nudda hana. Hún var með guðdómlegan líkama sem ég fékk aldrei nóg af, en ég fann að hún hafði grennst dálítið sem hún mátti varla við. Þegar hún sneri sér við lagðist ég niður og við kysstumst. Þegar ég færði mig neðar til þess að gæla við annað brjóstið rak hún upp óp.

„Hvað?“ sagði ég.

Hún reis upp við dogg og krosslagði armana yfir brjóstin.

„Perri!“ æpti hún.

„Ha, ég? Hva…“ Brynja leit ekki á mig heldur skimaði í kringum sig með samanherptar varir.

„Helvítis perrinn þinn!“ Hún hvessti augun. „Og þið allir! Viljiði koma ykkur út!“

„Brynja! Hvað er í gangi?“

„Það er allt fullt af einhverjum köllum hérna,“ sagði hún án þess að líta á mig. „Þrír, fjórir, fimm. Drullisti út!“

„Hva…?“

„Út!“

Augu hennar skutu gneistum. Hún kreppti hnefana. Ég dró sængina ósjálfrátt yfir reistan liminn og horfði yfir ósköp hversdagslegt svefnherbergið. Ég hafði aldrei verið jafn ringlaður. Brynja sendi plakatinu á veggnum, hurðinni og kommóðunni illt augnaráð. Fljótlega slakaði hún aðeins á, handleggirnir sigu svo brjóstin blöstu aftur við. Hún leit á mig.

„Það voru einhverjir kallar hérna. Gamlir og sveittir karlpungar. Svona steríótýpískir dónakallar. Oj bara.“

Ég kom ekki upp orði. Horfði bara stórum augum á Brynju. Hún hallaði sér fram og kyssti mig. Ég ýtti henni laust frá mér og spurði:

„Hva? Viltu halda áfram?“

„Já. Ég læt ekki einhverja dauða perverta skemma fyrir mér. Þeir eru farnir. Ég rak þá út.“

Ég hefði auðvitað átt að stöðva leikinn en ég var ennþá svo graður að ég gerði bara eins og Brynja sagði. Það var fínt til að byrja með, sirka fimmtán mínútur af forleik og urrandi losta. Ég lá með andlitið á milli læranna á Brynju þegar stunurnar í henni breyttust í öskur.

„Getiði ekki látið okkur vera? Djöfulsins, andskotans dónaskapur er þetta, megum við ekki eiga smá einkalíf!“ Brynja stökk uppúr rúminu og smeygði sér í náttslopp. Hún baðaði út höndunum. „Út! Út!“

Hún vildi reyna aftur en mér fannst það ekki góð hugmynd. Sagðist vera of drukkinn og fór að sofa.

 

Brynja sat fyrir framan tölvuna þegar ég fór á fætur daginn eftir. Hún var í náttsloppnum með úfið hár og kaffibollann innan seilingar.

„Hvernig svafstu?“ spurði ég.

„Illa,“ svaraði hún. Ég settist niður á móti henni. Hún leit á mig:

„Sorrí með mig í gær. Herbergið fylltist bara af áhorfendum.“

„Já, ég … þetta var nú meira …“ byrjaði ég og hrukkaði ennið. „Segðu mér aðeins betur frá því. Hvernig voru þessir menn?“

„Gamlir og æ … bara krípí gaurar. Hugsaðu þér, perrarnir hrökkva uppaf og komast í paradís. Geta bara gengið inní hvaða svefnherbergi sem er og fylgst með.“

„Voru þeir semsagt að fylgjast með okkur? Ertu viss?“

Brynja hnussaði.

„Ójá. Ég er viss. Eða … þeir voru allavega að glápa á mig. Þú fékkst ekki eins mikla athygli.“

Ég klóraði mér í höfðinu. Brynja festi augun aftur á tölvuskjáinn.

„Ég var að lesa frásögn konu frá Liverpool sem sér svona perverta þegar hún er að gera það. Stundum líka þegar hún fer í bað.“

„Má ég sjá?“

Brynja sneri tölvunni að mér og við blasti mynd af miðaldra konu í verulegri yfirþyngd, með eldrautt, krullað hár og hringi á öllum fingrum.

Ég nennti ekki að lesa greinina og fór í sturtu. Mér veitti ekki af að hressa mig aðeins við.

 

Veikindafríið dróst á langinn en Brynja hafði nóg fyrir stafni. Hún gat setið endalaust fyrir framan tölvuna og sankað að sér upplýsingum. Ég mannaði mig upp í að spyrja hana hvort hún vildi ekki panta sér tíma hjá geðlækninum. Í fyrstu móðgaðist hún og talaði ekki við mig í heila kvöldstund, en að lokum tókst mér að sannfæra hana um að það væri góð hugmynd. Allskonar fólk færi til geðlæknis, það væri gott að ræða við einhvern hlutlausan aðila sem hefði hugsanlega einhverjar skýringar á þessu.

 

Eitt föstudagskvöldið, þegar mér fannst Brynja hafa hangið heima í allt of marga daga í röð, bauð ég henni með í starfsmannapartí. Hún hafði stundum farið með mér í gleðskap hjá vinnunni og þekkti því flesta vinnufélaga mína, en þetta teiti var aðeins stærra, þar sem það var haldið með fleiri deildum. Ég sannfærði hana um að koma með, hún hefði gott af því að lyfta sér aðeins upp. En það var slæm hugmynd. Og þó. Kannski það sem þurfti til, eftir þetta kvöld varð ég meðvitaðari um það hversu alvarlegt ástandið var orðið. Brynja leit stórkostlega vel út og var skemmtileg og skrafhreifin eins og venjulega, en hún átti það til að spjalla út í loftið. Þá hnippti ég í hana og hún snarþagnaði. Og þegar kunningi minn úr fjármáladeildinni heilsaði henni að fyrra bragði svaraði hún honum ekki. Hann var reyndar kominn vel yfir miðjan aldur, í brúnum tweedjakka með flösu á öxlunum, þannig að kannski var það skiljanlegt. En þegar ég tók í höndina á honum áttaði hún sig, brosti fallega til hans og kynnti sig. Þetta var þreytandi fyrir okkur bæði, þannig að við fórum snemma heim.

Þegar heim var komið höfðum við samfarir í fyrsta sinn eftir aðgerðina. Við höfðum reynt nokkrum sinnum en þegar Brynja þurfti stanslaust að öskra á mennina sem birtust fyrir sjónum hennar og reka þá út úr svefnherberginu, þá var erfitt að einbeita sér. Það var turnoff, svo ekki sé meira sagt. Þetta kvöld fullyrti hún að nú værum við loksins bara tvö. En hún gat ekki logið að mér. Hún fór að dæmi konunnar frá Liverpool, ætlaði að loka augunum og reyna að venjast nálægð karlanna. Þeir höfðu alltaf verið þarna hvort sem er, hún hefði bara ekki séð þá áður. En það varð henni ofviða, í miðjum klíðum öskraði hún upp yfir sig og brast í grát.

„Oj, bara, nú eru þeir miklu fleiri! Helvítis klámsjúklingar!“

 

Brynju líkaði ágætlega við geðlækninn til að byrja með, og þótt ég vissi ekki nákvæmlega hvað þeim færi á milli sagðist hún vera búin að fara í ótal próf og ekkert þeirra benti til þess að hún ætti við alvarlega geðveilu að stríða. Læknirinn átti erfitt með að greina hvað amaði að henni. Brynja hélt því auðvitað fram að hún væri orðin skyggn eftir laseraðgerð á augum en læknirinn átti skiljanlega erfitt með að trúa því. Hann vildi setja hana á lyf gegn ofskynjunum og róandi töflur við svefnleysinu. Brynja þvertók fyrir það, en ég hvatti hana til þess að prófa. Það sakaði ekki að prófa.

Lyfin gerðu lítið gagn. Svefnlyfin hjálpuðu örlítið, en sýnirnar jukust bara ef eitthvað var. Brynja gerði tilraun til þess að fara aftur að vinna, en átti allt of erfitt með að gera greinarmun á dánu fólki og lifandi. Það kom ósjaldan fyrir að hún eyddi dýrmætum tíma í að sinna kúnnum með úreltar kennitölur. Svo ekki sé talað um hversu illa það leit út, að hún sæti svona og blaðraði út í loftið. Hún var send heim og sagt að halda sig í veikindafríinu. Ég gerði mitt besta til þess að fara með henni út, það hlaut að vera gott fyrir hana að skipta aðeins um umhverfi, en það var meira að segja erfitt að ganga niður Laugaveginn. Hún var sífellt að stíga til hliðar og víkja fyrir einhverju ósýnilegu fólki. Einusinni fórum við á hálftómt kaffihús en Brynja fullyrti að það væru engin sæti laus. Þetta varð alltaf erfiðara og erfiðara. Ég vissi ekki hvað ég átti til bragðs að taka.

 

„Ég er búin að kaupa mér miða til Svíþjóðar,“ sagði Brynja enn daginn þegar ég kom heim úr vinnunni.

„Hvað segirðu?“

„Ég ætla að fara til Gautaborgar og heimsækja þetta fyrirtæki sem framleiðir lasertækin.“

„Brynja mín …“

„Hvað?“

„Þú hlýtur að sjá að það er alger vitleysa.“

„Af hverju? Ég var fyrsta manneskjan sem lagðist undir þetta nýja tæki. Ég er viss um að það er engin tilviljun og ég ætla bara að skoða þetta fyrirtæki og ræða við starfsfólkið.“

„Æi, Brynja. Mér líst ekkert á að þú farir ein þarna út.“

„Hversvegna ekki? Ég hef ferðast ein um hálfan heiminn. Heldurðu að ég geti ekki farið í smáheimsókn til Svíþjóðar?“

„Þetta er öðruvísi.“

„Sorrí. Búin að panta farið. Ég er meira að segja búin að bóka gistiheimili.“

„Ég fer með þér.“

„Ekki að ræða það, Sverrir. Ég er búin að leggja nógu mikið á þig. Þú hefur gott af því að losna aðeins við mig á meðan ég reyni að finna einhvern flöt á þessu rugli.“

Ég vissi að það þýddi ekki að þræta við hana. Brynja fór út í heila viku og ég var á nálum allan tímann. Ég bað hana um að hringja í mig á morgnana, yfir miðjan daginn og aftur á kvöldin áður en hún fór að sofa. Hún stóð við það, nema stundum gleymdi hún að hringja á daginn. Þegar ég spurði hana hvernig gengi var fátt um svör. Ég reyndi að ergja mig ekki á því. Þegar hún kæmi heim þá gætum við talað almennilega saman, undir fjögur augu.

 

Mér hálfbrá þegar ég sótti Brynju á flugvöllinn. Hún var náföl og þreytuleg, með dökka bauga undir augunum. Ég faðmaði hana að mér og andaði að mér líkamslykt hennar. Það var alltaf svo góð lykt af henni, í þetta sinn blandaðist hún þó daufum keim af svitalykt og óþvegnu hári. Brynja var þögul í bílnum á leiðinni heim en ég vildi ekki kæfa hana með spurningaflóði. Hún þurfti greinilega á góðri hvíld að halda.

Ég komst aldrei almennilega að því hvað hefði átt sér stað úti í Svíþjóð. Brynja var óttalega fámál og þreytuleg fyrstu dagana eftir heimkomuna og þótt ég væri forvitinn taldi ég best að hún segði mér frá ferðinni að fyrra bragði. Sennilega hafði hún orðið fyrir vonbrigðum, það hafði eflaust lítið komið út úr þessu. Hverjar voru svosem líkurnar á öðru? Ég efaðist stórlega, eðli málsins samkvæmt, um að hún hefði fengið einhverjar haldbærar upplýsingar. Það reyndist rétt hjá mér. Þegar Brynja fór loks að tala um ferðina var það eins og að hlusta á dauðvona krabbameinssjúkling tjá sig um lúpínusafa og afrískar nálastungur. Það voru engin rök, lítil von. Hún hafði komist að því að fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, einhver Sven-Åke Sundkvist, hafði látist eftir erfið veikindi sama dag og hún fór í aðgerðina. „Það gæti tengst eitthvað,“ sagði hún. „Ég meina, forstjórinn deyr sama dag og ég leggst undir leysigeislann, það er nú dálítið merkilegt.“ Ég vissi eiginlega ekki hvað ég ætti að segja. Þetta var svo fjandi langsótt. En þegar manneskja verður fyrir því óláni að verða skyggn eftir laseraðgerð á augum var ekki nema von að tilraunir til þess að leita skýringa á þeim ólíkindum væru alveg jafn ólíklegar. Brynja hafði einnig komist að því að húsnæði fyrirtækisins hefði eitt sinn verið sláturhús. „Ég meina, sláturhús er hús dauðans, kannski hefur einhver orka að handan smogið inn í framleiðsluna.“

„Talaðirðu við starfsfólkið?“ spurði ég.

„Starfsfólkið tók mér ekki vel,“ svaraði Brynja dauflega. „Mér þótti vænlegra að tala við hina.“

„Hina?“

Brynja kinkaði kolli.

„Ertu að tala um hina framliðnu?“

„Þeir eru opnari fyrir þessu.“

 

Brynja hélt sig heimavið næstu vikurnar, hún var hætt að eyða jafnmiklum tíma fyrir framan tölvuna og áður, kannski vegna þreytu, kannski vegna þess að hún var einfaldlega búin að gúgla allt. Hún var lent í einskonar vítahring svefnleysis, svaf illa sem olli því að hún var sífellt þreytt og hélt sig því að mestu í rúminu. Einu skiptin sem hún fór út úr húsi var til þess að hitta geðlækninn sinn. Ég keyrði hana bæði og sótti, og bað hana vinsamlegast um að loka augunum á meðan á ferðinni stóð því annars var hún ein taugahrúga og ég á nálum út af engu. Framliðnir ökumenn voru greinilega mun glannalegri en aðrir, þeir höfðu jú engu að tapa. Til hvers að halda sig undir hámarkshraða?

Einn daginn fékk ég símtal. Ég var staddur í vinnunni, á kafi í einhverju verkefni. Brynja hafði verið í nokkuð góðu jafnvægi um morguninn þegar ég kvaddi hana. Hún hafði sofið eitthvað um nóttina, sem var ekki sjálfgefið, og þegar ég vaknaði var hún komin á fætur og búin að útbúa morgunverð handa okkur. Ég sagðist ætla að koma heim með Take Away. Ég vissi því ekki betur en að hún væri í ágætisyfirlæti heima. En annað kom á daginn. Símtalið kom frá geðdeild Landspítalans. Ég hlustaði með öndina í hálsinum á hjúkrunarfræðinginn á hinni línunni. Brynja hafði verið færð á geðdeildina með valdi og sprautuð niður með róandi lyfjum. Hún var undir ströngu eftirliti því hún taldist hættuleg sjálfri sér og öðrum. Ég brunaði að sjálfsögðu beint niður á spítalann. Brynja lá í hvítu sjúkrarúmi, óþekkjanleg í lyfjamókinu. Í þessu ástandi var eitt víst: hún var hvorki hættuleg sjálfri sér né öðrum. Ég reyndi að tala við hana en fékk engin viðbrögð nema óskiljanlegt muldur.

Ég ræddi við lækni og hjúkrunarfræðinga. Þeir höfðu tekið skýrslu af Guðmundi augnlækni. Brynja hafði gert sér ferð uppí Sjónlausnir stuttu eftir hádegi, og beðið um að fá að hitta Guðmund. Hann var ekki laus til viðtals, vinnudagur hans var alveg fullbókaður. Þegar hún sagði erindið vera mjög áríðandi fékk hún þó leyfi til þess að bíða á biðstofunni. Hún gæti átt von á þónokkurri bið, allt upp í rúman klukkutíma. Henni þótti það ekkert tiltökumál, settist niður og fletti tímaritum í rólegheitunum, þar til Guðmundur kom fram í fylgd sjúklings sem var nýkominn úr aðgerð. Þá spratt Brynja uppúr stólnum og reif einnota sólgleraugun af sjúklingnum. „Sérðu þennan,“ hrópaði hún og benti á auðan stól í biðstofunni. „Þennan með hattinn, þennan sem er að fletta Mogganum.“ Sjúklingurinn, örlítið ringlaður eftir kæruleysispilluna, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Brynja leit í nýskorin augun á honum: „Nei, þú sérð hann ekki, er það? Þú ert bara í góðum fíling, ánægður að vera laus við gleraugun, ha? Ég er búin að hafa samband við fullt af fólki sem hefur farið í laseraðgerð en ég er sú eina sem varð fokking skyggn!“ Hún sneri sér að augnlækninum: „Hvað eigum við að kalla þetta? Aukaverkun? Þú getur bætt því við í bæklinginn þinn, þú þarna helvítis skottulæknir!“ Guðmundur kallaði í hjúkrunarkonuna og saman reyndu þau, án árangurs, að róa Brynju. Hún sló Guðmund og æpti: „Gerðu mig nærsýna aftur!“ Hún greip penna sem stóð á afgreiðsluborðinu og beindi honum að öðru auganu á sér: „Gerðu mig nærsýna aftur! Annars sting ég úr mér augun!“

 

Eftir nokkurra vikna dvöl á geðdeildinni, með tilheyrandi viðtölum, rannsóknum og tilraunum með lyfjagjafir, fékk Brynja loks að fara heim. Ég tók mér frí í vinnunni til þess að sinna henni. En það gekk ekki. Ég gat það ekki einn. Ekki heldur með góðri aðstoð fjölskyldna okkar beggja. Brynja þoldi ekki þá vorkunn sem hún fékk frá fólki, hún þoldi ekki að vera talin geðsjúk og sótti því í annan félagsskap. Ég gerði mitt besta til þess að halda henni okkar megin en smátt og smátt dróst hún lengra inn í heim hinna framliðnu. Fyrir henni voru þeir jafn raunverulegir og aðrir. En þeir skildu hana.

 

Tíu ár eru liðin. Ég er hamingjusamur maður. Ég á yndislega eiginkonu, tvö frábær börn og hið þriðja er á leiðinni. Konan mín valdi nöfnin á börnin okkar. Því er komið að mér að velja nafn á ófæddu stúlkuna okkar. Mig langar að nefna hana Brynju, en ég veit að konan mín tæki það ekki í mál. Ég ætla því að nefna hana í höfuðið á móður minni, en hún fær seinna nafnið Björk, eins og Brynja. Ég segi konunni minni bara að mér finnist það fallegt nafn.

Vísindin mæla öll gegn því að það séu nokkur tengsl á milli laseraðgerðar Brynju og skyggnigáfunnar, sem smám saman þróaðist út í alvarlega geðsýki. En ég upplifði þetta með henni. Ég veit hversu skýr Brynja var í kollinum allt þar til að hún fór í þessa aðgerð, og ég veit hversu snögglega allt breyttist eftir hana. Þó að þetta sé eina dæmið í veröldinni, þá veit ég. Ég veit, þótt enginn annar trúi því og ég held áfram að heimsækja Brynju á Kleppspítalann einusinni í mánuði, þó að konunni minni sé það þvert um geð. Því Brynja gat ekkert að þessu gert. Hún var óheppin. Sennilega ein óheppnasta kona í heimi. Á vitlausum stað á vitlausum tíma. Þegar konan mín ætlaði að fara í laseraðgerð, grátbað ég hana um að sleppa því. Ég bauðst til þess að sjá um linsukaup það sem eftir var ævi hennar, ráða besta stílista landsins til þess að hjálpa henni að velja gleraugu, ég bauðst jafnvel til þess að pússa gleraugun hennar til æviloka. En allt kom fyrir ekki. Hún fór. Og það var auðvitað góð ákvörðun. Eins og hjá flestum sem fara í þessa blessuðu aðgerð. Nema Brynju.

Ég elska konuna mína en það er annarskonar ást. Lengi vel trúði ég því að hún væri jafndjúp og ást mín til Brynju, en það voru smáatriðin sem gerðu mér ljóst að svo var ekki. Það pirrar mig þegar konan mín hendir kaffikorginum í vaskinn. Brynja gerði það sama en ég tók varla eftir því. Brynja hraut stundum og mér fannst það bara sætt. Núna geymi ég eyrnatappa í náttborðsskúffunni. Og þegar ég horfi á eftir öðrum kvenmönnum fæ ég samviskubit, því mér finnst eins og það sé ekki alveg meinlaust. Einusinni var það meinlaust.