Um Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur*

Eftir Xinyu Zhang

Úr Tímarit Máls og menningar 3. hefti 2019

Hátíðarfyrirlestur Hugvísindaþings í hátíðarsal Aðalbyggingar. Frægur bandarískur fræðimaður var að tala um Shakespeare og samtímann. Í miðjum fyrirlestri skimaði ég í kringum mig og sá að ég var sá eini í salnum sem ekki var hvítur.

 

I. Allegóría eða klisja?

Þótt ég sé bundin trúnaði um einstök mál, þá get ég þó sagt að raunveruleikinn er miklu ýktari en getgátur um hann. [1]

Ör

Ör (2016)

Skáldsagan Ör er tvískipt; fyrri hlutinn heitir „Hold“ og gerist á Íslandi, en síðari hlutinn heitir „Ör“ og sögusviðið er þá ónafngreint stríðshrjáð land. Sögumaður er Íslendingurinn Jónas Ebeneser sem er óhamingjusamur og hefur nýlega verið tilkynnt að hann sé ekki blóðfaðir dóttur sinnar. Hann telur lífið vera algerlega tilgangs- og merkingarlaust og íhugar að fremja sjálfsvíg í þessu stríðshrjáða landi til að komast hjá því að valda öðrum, ekki síst „dóttur“ sinni, vandræðum. Smám saman kynnist Jónas íbúum landsins, lífsbaráttu þeirra og lífsvilja, og hann hverfur ekki aðeins frá þeirri hugmynd að fyrirfara sér, heldur tekur hann líka að sér að hjálpa konum og börnum að lagfæra skemmdir og byggja hús. Hann snýr þó að öllum líkindum aftur til Íslands í lok skáldsögunnar. Ör hefur hreppt bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin (2016) og bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs (2018).

Margt í Ör minnir á fyrri verk höfundarins, sérstaklega Afleggjarann (2007) sem einnig hefur hlotið mikið lof víða um heim. Texti Auðar Övu er stílfærður og myndrænn og býr yfir „leikrænni dýpt“ í krafti allegórískrar frásagnaraðferðar og táknanotkunar.[2] Ólíkt kristilegum allegóríum frá miðöldum eru skáldsögur Auðar Övu ekki endilega bundnar einhverju einu heilsteyptu merkingarkerfi, heldur bregða þær upp stökum táknum úr mismunandi merkingarkerfum – t.d. tölum, litum, nöfnum, blómum[3] – svo að merkingin verði margræð og ýmsir túlkunarmöguleikar opnist. Hér má geta þess, þótt ekki sé endilega um bein textatengsl eða áhrif að ræða, að slík frásagnaraðferð var mjög áberandi í verkum nokkurra franskra rithöfunda á sjöunda og áttunda áratugnum, þ.á m. Michel Tournier, Patrick Modiano og Jean-Marie Gustave Le Clézio, en á undan þeim hafði Marguerite Yourcenar þróað álíka aðferð. Þá er líka ástæða til að minna á hið alþekkta Nafn rósarinnar (1980) eftir Umberto Eco þar sem táknfræðin er samofin söguþræðinum.

Táknin í skáldsögum Auðar Övu eru ekki aðeins hlaðin leikrænni og táknrænni merkingu, heldur orka þau líka sem meðskilningur (sýnekdóka) svo að óræður söguheimur, sem er einskonar metarými eða metasamfélag, verður heill í krafti ímyndunar og þekkingar lesenda á þessum merkingarhlöðnu táknum; sá menningarheimur sem býr þeim að baki lifnar sömuleiðis við. Í raun fá lesendur lykla (kóða) að ýmsu sem ekki er sagt berum orðum, til að mynda um það hvar sagan á sér stað. Þegar lesendur fá kóða á borð við rósir og klaustur í Afleggjaranum, þá dettur þeim ef til vill í hug að sögusviðið geti verið Suður-Evrópa, en höfundurinn lætur hjá líða að veita nákvæmar upplýsingar um söguheiminn, svo skáldskapurinn geti að vissu leyti leikið lausum hala.

Líkt og í Afleggjaranum er ekki alveg ljóst í hvaða landi sögupersónur í Ör eru staddar. Hvar á jarðkringlunni liggur þetta stríðshrjáða land sem Jónas fer til í skáldsögunni? Er það eitthvert land í Evrópu líkt og dómnefnd Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs gerir ráð fyrir,[4] jafnvel eitthvert land á Balkanskaga, til að mynda Kósóvó?[5] Er það Palestína, Sýrland eða kannski Jemen?[6] Eða er kannski „engin leið fyrir lesandann að átta sig á því í hvaða landi hann er nákvæmlega eða jafnvel hvaða heimsálfu“ eins og Jón Yngvi Jóhannsson heldur fram í grein um táknheiminn í Ör?[7] Til að komast að niðurstöðu þurfum við aðeins að rýna í þá kóða sem sögumaðurinn veitir okkur í skáldsögunni.

En í raun er sagan með afar skýra heimspólitíska tilvísun og er ennfremur sett í samhengi við félagslegan veruleika samtímans. Landið sem Jónas heimsækir er ljóslega stríðshrjáð: „Á endanum vel ég land sem var lengi í fréttum vegna stríðsátaka [borgarastríðsátaka] en er horfið af sjónarsviðinu eftir að vopnahlé komst á fyrir nokkrum mánuðum“, segir hann í sögunni,[8] og það er sitthvað fleira sem einkennir landið.

  • Fornleifar – hrörlegar: „ … hér voru eitt sinn rústir frá tímum Rómverja en nú eru hér bara rústir“ (bls. 70); „leifar af fornu baðhúsi [sem reist var fyrir 600 árum (bls. 132)] og frægar mósaíkmyndir sem höfðu fundist þegar verið var að grafa fyrir hótelinu“ (bls. 82);
  • Náttúra – frumstæð: „Yfir arninum hangir málverk af skógi og fyrir miðri mynd stendur pardusdýr sem horfir út úr myndinni og veiðimaður sem horfir á dýrið með óttalaust blik dirfskunnar í augum“ (bls. 80); „Hafið er nær en ég gerði ráð fyrir og lyktin af því er eins og af vel þroskuðum, sætum ávöxtum“ (bls. 109);
  • Matargerð – suðræn: „Kúmen, er svarið“ (bls. 97); „Það er boðið upp á hunang á brauðið og mér verður hugsað til þess sem stóð á netinu um býflugnarækt í sveitinni“ (bls. 119).

Er nokkuð hægt að álykta af þessum kóðum um hvaða land sé eiginlega að ræða? Og hvaða máli skiptir það að kortleggja þetta land og tímasetja söguna? Jú, skáldsagan Ör virðist ekki vera staðlaus tilraun um stríð, heldur á hún býsna brýnt pólitískt erindi við samfélagið og samtímann, enda eru stríð veruleiki sem ratar í fjölmiðla nánast á hverjum degi, og útgangspunktur skáldsögunnar okkar stríðshrjáða veröld. Auður Ava hefur þó ýjað að því að skáldsagan gerist hvergi, er það virkilega svo?[9]

Þetta stríðshrjáða land gegnir reyndar tveimur hlutverkum: Annars vegar er það rými þar sem eftirköst stríðsátaka eru afhjúpuð og heimspólitíkin er tekin til umræðu (þ.e. hin félagslega hlið skáldsögunnar), og hins vegar er það rými þar sem Íslendingurinn Jónas ætlar í upphafi að svipta sig lífi en fær síðar að kynnast hörmungum heimsins frá fyrstu hendi (þ.e. hin persónulega hlið skáldsögunnar). Spyrja má af hverju Jónas geti ekki farið til Danmerkur eða Þýskalands til að fyrirfara sér í stað þess að fara endilega til stríðshrjáðs lands. „Það virðist ákjósanlegt, ég gæti verið skotinn á götuhorni eða stigið á jarðsprengju“, segir hann (bls. 62). Heimurinn skiptist þannig í tvennt: stríðshrjáð lönd og friðsæl lönd. Það þýðir því ekkert fyrir Jónas að fara til annars friðsæls lands sem tilheyrir hinum vestræna velferðarheimi, heldur þarf hann að fara til lands sem er í alla staði ólíkt Íslandi – og getur komið honum á óvart (sbr. bls. 66).

Skáldsagan gerist þá alls ekki hvergi. „Spurningin er hvert ég vilji fara“, segir Jónas (bls. 62), en þá er átt við hvaða samfélagsrými sé algjör andstæða hins vestræna velferðarsamfélags og í hvaða landi hann geti verið algjör útlendingur.[10] Með hliðsjón af þessum áhuga (e. motivation)[11] sögupersónunnar, og kóðunum hér að framan, þá liggur svarið í augum uppi: Andspænis vestrinu er nú teflt fram austrinu (annað dæmi um tvenndarhyggju af hálfu höfundarins). Hrörlegar fornleifar, frumstæð náttúra, framandi matargerð – við þurfum ekki að vitna í löngu máli í skrif Edwards Said um oríentalisma til að átta okkur á því að þessir kóðar eru af austrænum toga.[12] Tilvísun skáldsögunnar til heimspólitíkur í samtímanum gefur einnig í skyn að um austrið sé að ræða, einkum Miðausturlönd og Balkanskaga.[13]

Austrið hefur verið sviðsett af Vesturlandabúum sem framandi og dularfullt sjónarspil og er ennþá kynlegt viðfang hins vestræna augnatillits. Austrið hefur verið hlutgert, rómantíserað og kvengert af vestrinu og þannig birtist það einmitt í skáldsögunni Ör.[14] Myndefni mósaíkveggmyndarinnar á hótelinu eru „naktir kvenlíkamar“ (bls. 130): „við okkur blasa holdmikil, þrýstin kvenmannsform; lítil brjóst eins og hálfar sítrónur, grannt mitti, breiðar mjaðmir“ (bls. 132), en annar hótelgestur en Jónas, undirförull bissnissmaður, stelur einmitt þremur brjóstum úr mósaíkmyndinni (bls. 197).

Hef ég nefnt að allar sögupersónurnar í þessu stríðshrjáða landi – leigubílstjórinn, leikkonan, vertinn á veitingahúsinu, Fífí, Maí, Adam – tala nánast eins og heimspekingar eða skáld um lífið, dauðann og merkingu tilverunnar? Ég læt nægja að nefna eitt dæmi hér: „Sorg er einsog glerbrot í hálsi“, segir Maí (bls. 151). Reyndar er slíkur rómantískur og tilgerðarlegur talsmáti eitt almennasta einkenni sögupersóna Auðar Övu, en þá aukapersóna fremur en aðalpersóna. Aukapersónurnar mynda eins konar „umgjörð um aðalsögupersónurnar“, eins og Gerður Bjarnadóttir heldur fram í meistararitgerð sinni.[15] En þær eru oftar en ekki holdgervingar einhverra staðalímynda og hugmynda, m.ö.o. skortir þær þann sjálfsveru-leika sem aðalpersónurnar búa yfir – enda eru þær einungis rómatíseraðar hlutverur sem mynda eins konar bakgrunn, á meðan sjálfsverur, þ.e. aðalpersónurnar, eru settar í forgrunn. Í tilviki Ör er austrið bakgrunnur þar sem hetjudraumur vestrænnar sjálfsveru í forgrunninum rætist, og einmitt í þessum skilningi má segja að sagan gerist hvergi (sbr. nmgr. 9) – hvergi í raunveruleikanum, en augljóslega í hinu ímyndaða austri. Þannig er skáldsagan líka svipt pólitísku gagnrýnisafli sínu að verulegu leyti, úr því að hinn stríðshrjáði veruleiki veraldar okkar er látinn víkja fyrir dramatískri spennu.

Meðferð Auðar Övu á austrinu afhjúpar eitt helsta einkennið – ef ekki gallann – á frásagnaraðferð hennar. Eins og hér hefur komið fram virka táknin og kóðarnir í skáldsögum hennar oft sem meðskilningur (hluti fyrir heild) sem örvar vitsmuni lesenda um tiltekinn menningarheim. Menningarheimur er stærra hugtak en þjóð-menning eða lands-menning, og í þeim skilningi er sögusvið í skáldsögum Auðar Övu ekki endilega eitthvert ákveðið land, heldur tiltekinn menningarheimur.[16] En hættan við aðferð hennar felst einkum í því að hún velur þau tákn sem sérkenna umrædda menningu, en þannig er hún í rauninni meðvitað eða ómeðvitað að hlutgera og rómantísera þá menningu sem hún lýsir. Þetta einkenni sést oftar en ekki í skáldsögum Auðar Övu, þó í mismunandi formi. Í Afleggjaranum og Ör felst hlutgerving/rómantísering í því að hampa einstökum menningarhlöðnum táknum en þegar Auður Ava skrifar um vestræna menningarheiminn hefur hún ekki sambærilega pólitíska byrði á bakinu, auk þess sem hún þekkir þá menningu afar vel sem listfræðingur – öðru máli gegnir hins vegar um austrið, eins og bent var á hér að framan.

Í Ungfrú Ísland (2018) er til dæmis að finna aðrar birtingarmyndir af hlutgervingu og rómantíseringu en í Ör (þó reyndar í sama anda), sem felst í því að njörva veruleikann og meira að segja söguna niður í nokkrar erkitýpur, svo sem homma sem á bágt í samfélaginu, skáldkonu sem fær ekki að njóta sín sem slík, húsmóður sem er fangi innan heimilisins og karlmann sem skilur ekki þrár og drauma kvenna; þannig smættar höfundurinn „heiminn niður í viðráðanlega stærð“, svo að notuð séu orð sögukonunnar Maríu á einum stað í Undantekingunni.[17] Sögusvið Ungfrúr Ísland er Ísland árið 1963. Hekla, sögukona og aðalsögupersóna, sem dreymir um að verða viðurkennt skáld, segist harmi slegin yfir íslensku samfélagi: „Örlög hennar [skáldkonu sem fyrirfór sér] voru í senn víti til varnaðar og eina fyrirmynd mín að kvenkynsrithöfundi“ (leturbr. mín).[18] En velta má fyrir sér hvort þessi svarthvíta samfélagsmynd sem sögukonan – og söguhöfundurinn – bregður upp sé svolítið fjarri sanni og hvort sögusviðið sé þannig „rómantíserað“. Nefna má í þessu sambandi nokkrar áberandi íslenskar skáldkonur á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar: Ástu Sigurðardóttur („Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“, 1951), Sigríði Einars frá Munaðarnesi (Milli lækjar og ár, 1956), Arnfríði Jónatansdóttur (Þröskuldur hússins er þjöl, 1958), Vilborgu Dagbjartsdóttur (Laufið á tjánum, 1960), Jakobínu Sigurðardóttur (Kvæði, 1960) svo ekki sé minnst á sögur, ljóð og þýðingar kvenna sem birtar voru í tímaritum og blöðum.[19]

Ungfrú Ísland

Ungfrú Ísland (2018)

Hér djarfar fyrir frásagnaraðferð Auðar Övu sem líkja má við hreinsun: Til að „draga merkingu og stefnu úr þessum kaotíska heimi“ býr hún til „hliðarheim, míkrókosmos, sem er ólíkur stóra heiminum að því leyti að hann „meikar sens““;[20] hún hreinsar meira að segja aðeins til í raunveruleikanum svo að hún geti rutt sínum eigin boðskap braut.[21] En áttar Auður Ava sig ekki á því að hin fagurfræðilega hreinsun hennar er sömuleiðis pólitísk hreinsun sem afmáir þær raunverulegu raddir sem fengu að óma í sögunni? Að hún þaggar niður í þessum dýrmætu röddum á meðan hún þykist vera að gefa „þeim raddlausu rödd“?[22] Hún freistar þess að beita öfgakenndri íróníu sem hún ætlast víst til þess að lesandinn beri skyn á: Alger bæling samfélagsins er einmitt ástæða fyrir einstakri snilld Heklu, alger hlutlægni hennar þýðir sömuleiðis alger huglægni. Hún undirstrikar í gegnum alla söguna hvernig samfélagið kúgaði hæfileikaríka einstaklinga, en hún hunsar alveg hvernig þeir veittu samfélaginu hamslaust viðnám til að láta í sér heyra. Þá kemur í ljós að í þessari skáldsögu er kúgarinn í raun og veru ekki samfélagið, heldur höfundurinn sjálfur. Á kostnað hvarfs raunverulegu sögunnar verður írónía skáldsögunnar til – eða er írónían einmitt fólgin í því að í skáldsögu sem afmörkuð er af sögulegum ramma er hvergi að finna sögu?

Homminn, húsmóðirin, kærasti Heklu sem titlar sig „skáld“ og jafnvel skáldkonan sjálf virðast vera frekar strangar staðalímyndir sem skortir sögulega dýpt og afl og reynast þá vera innihaldsrýr og jafnvel eintóm tákn um þetta tiltekna tímaskeið. Þessar sögupersónur eru því líkt og líflausir leikmunir sem mynda eins konar sögulegt og félagslegt baksvið[23] fyrir eitthvert sögulaust melódrama (eða frekar goðsögn?): A Star is Born. Enda þurfa þær að vera líflausar til þess að ofurhetjuskapur söguhetjunnar geti rétt „meikað sens“. Auður Ava bregður þannig upp einvíðri sögu til að endurrita hina margvíðu sögu; útkoman er þó svarthvít og steríl flatmynd sem getur ekki framkallað hinn litríka og lifandi raunveruleika. (Með þessum orðum vil ég auðvitað ekki hneppa skáldskapinn í fjötra veruleikans, heldur undirstrika eftirköst frásagnaraðferðar sem slíkrar – sem þolir illa sögulegt efni.) Fredric Jameson hefur haldið því fram að menning á póstmódernískum tímum einkennist af flatneskju (e. flatness), dýptarleysi (e. depthlessness) og dofnandi kenndum (e. waning of affect) gagnvart sögunni,[24] en koma þessi einkenni ekki alveg heim og saman við Ungfrú Ísland? Er skáldsagan ekki álíka „daufdumb“ (e. deafness) andspænis sögulegum veruleika og póstmódernismi að viti Jamesons? Heppnast sögulausar skáldsögur Auðar Övu, þ.e. Rigning í nóvember (2004), Afleggjarinn og Undantekningin, ekki miklu betur en sögulegri og pólitískari skáldsögur hennar, þ.e. Ör og Ungfrú Ísland? (Eða eru skáldsögur hennar aldrei sögulegar og pólitískar, heldur fyrst og fremst goðsagnakenndar? Mínímalískt sögurými, öfgakennd andstæðuöfl, hreinar steríótýpur, rík siðferðiskennd. Umfjöllun um hinn goðsagnalega púls í verkum Auðar Övu – og í íslenskum nútímabókmenntum almennt, Halldór Laxness, Svava Jakobsdóttir og Einar Már Guðmundsson koma mér m.a. í hug – bíður betri tíma. Goðsagnir eru aftengdar tilteknum raunveruleika, enda skapaðar til að miðla einhverjum almennum, samt hugmyndafræðilegum, boðskap og merkingu. En þó að ég skilji að Ör og Ungfrú Ísland geti verið goðsagnir sem slíkar, hvers vegna virka þær þá ekki á mig, þennan asíska menntamann? Hvað kemur í veg fyrir að ég lesi verkin sem goðsagnir? Af hverju vil ég endilega lesa einhvern tiltekinn félagslegan veruleika og hugmyndafræði samtímans úr þeim? Það dugir, og þýðir, því ekkert að skamma lesendur fyrir „siðferðisleysi“, „skilningsleysi“ og „ástarleysi“, eins og Auður Ava ýjar að í einu viðtali.)[25]

Erkitýpurnar í Ungfrú Ísland eru holdgervingar þeirra svarthvítu hugmynda sem Auður Ava hefur um sjöunda áratuginn á Íslandi, en hvaða hugmyndir hefur hún þá um stríð og austrið, og hvaða hugmyndir ætlar hún að vekja hjá lesendum sínum með skáldsögunni Ör? Hana sárvantar beina upplifun og nægilega þekkingu af hvoru tveggja og Steinunn Inga Óttarsdóttir hefur einmitt bent á að „grunnsagan af þroska og friðarumleitunum Jónasar [sé] hvorki nógu dramatísk eða sjokkerandi til að hreyfa við lesanda sem horfir á hörmungar stríðsins frá fyrstu hendi á netinu í beinni útsendingu“.[26] Líkt og í fyrri verkum sínum nýtir Auður Ava sér einhverjar almennar og loðnar hugmyndir sem hún gerir ráð fyrir að allir muni hafa – í þessu tilviki um stríð og austrið. En fyrir hana (eins og fyrir móður Jónasar, sbr. bls. 21 og 24), eru stríð – og austrið – þó ekkert annað en texti sem maður les á hverjum degi en hefur aldrei upplifað sjálfur.[27] Og þegar austrið er annars vegar skrifar Auður Ava sig beint inn í hina fordómafullu og klisjukenndu oríentalísku orðræðu sem hefur lengi ráðið ríkjum sem leiðar- eða metafrásögn (fr. grand récit)[28] – frásögn sem notuð er til að útskýra aðrar frásagnir – í vestrænum heimi.

 

II. Ljúf friðardúfa eða hvítur nýlendukúgari?

Enda þótt verði að byggja hann upp frá grunni, sé ég í hendi mér möguleikana og hvernig megi bjarga honum[29]

Ef útskýra má hlutgervingu, kvengervingu og rómantíseringu Auðar Övu á austrinu sem hentugar og saklausar aðferðir til að smíða framandi sögurými, fremur en meðvitað menningarlegt yfirlæti (þó að slík „saklaus“ ómeðvitund staðfesti einmitt að menningarlegt yfirlæti sé samgróið vestrænni hugsun annarsvegar og vanþekkingu höfundarins á austrinu hinsvegar), hvernig eigum við þá að útskýra ótvíræða yfirburði Vesturlandabúans Jónasar yfir Austurlandabúunum í þessu stríðshrjáða landi? Einfaldlega sem „forréttindi fólks, réttindi þess og skyldur í heiminum“, einsog sagt er í rökstuðningi dómnefndar Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs?[30] Hvaða forréttinda nýtur fólk – hér er greinilega átt við Vesturlandabúa – andspænis Austurlandabúum?

Heimurinn er reyndar tvískiptur í augum höfundarins, í ljósi þess að gefið er í skyn að forréttindi Jónasar séu einkum fólgin í því að hann tilheyri landi „er þekkir hvorki sverð né blóð / en lifir sæl við ást og óð / og auð, sem friðsæld gaf“, svo vitnað sé í frægar ljóðlínur Huldu. Vera Knútsdóttir ræðir þetta efni í umfjöllun sinni um skáldsöguna: „á meðan það er val Jónasar að leggjast í ferðalög, er það nauðung margra milljóna flóttamanna í heiminum í dag. Og á meðan hans bíður hótel, og gestgjafar sem taka honum opnum örmum, mæta flestir flóttamenn lokuðum dyrum og skilningsleysi.“[31] En Jónas er ekki alltaf þögull áhorfandi eins og hann vill lýsa sér (sbr. „Ég þegi. Ég er góður í að þegja“, bls. 108), heldur lætur hann hendur standa fram úr ermum: Hann hefur borvél meðferðis út í heim og fer að taka til hendinni á hótelinu. Fríða Ísberg telur þess vegna að skáldsagan Ör kenni okkur að „sérhver einstaklingur geti látið að sér kveða“ (leturbr. þar).[32]

Þannig á Jónas ekki aðeins val, heldur býr hann einnig yfir völdum. En hinkrum aðeins við – er Jónasi ekki lýst sem karlmanni sem er „fráskilinn, gagnkynhneigður“ og „valdalaus“ (bls. 33, leturbr. mín)? Auður Ava hefur aldrei útskýrt nákvæmlega hvað vald er í augum hennar, en það virðist sem með orðinu valdalaus eigi hún við venjulegt fólk, þ.e. fólk sem gegni ekki opinberu embætti.[33] Hún virðir þá að vettugi það sem Foucault kenndi okkur fyrir löngu: Völd eru ekki kyrrstæð verkfæri sem einskorðast við miðlægar stofnanir, heldur gera þau vart við sig alls staðar og gegnsýra allt samfélagið. Völd eru framkölluð – og er miðlað áfram – í samskiptum og tengslum milli manna; þau eru líkt og alltumlykjandi vefur eða net sem allir eru flæktir í.[34] Þetta þýðir að þeir sem telja sig valdalausa gegna kannski einmitt hlutverki hins hlýðna netahnúts og tileinka sér völdin án þess að gefa því nokkurn gaum – það er eiginlega þeim og meðvirkni þeirra að þakka að völd geta virkað óhindrað áfram í samfélaginu. Í þessu sambandi vil ég minna á að Jónas er gagnkynhneigður hvítur karlmaður, og hann reynist vera engan veginn valdalaus, heldur býsna valdamikill, eins og sjá má í samskiptum hans við fólkið í stríðshrjáða landinu sem ég ætla að ræða síðar í þessum kafla.

Samskipti, undirstrika ég. Þeir sem búa yfir miklum völdum á einum stað virðast kannski ekki vera eins valdamiklir á öðrum, rétt eins og hvernig Jónas sem virðist vera frekar valdalaus í íslensku samfélagi reynist vera valdamikill í stríðshrjáða landinu. Segja má að í upphafi verksins eigi hann enga móður (móðir hans er elliær og gleymin), enga eiginkonu (hann er fráskilinn) og enga dóttur (hann er a.m.k. ekki líffræðilegur faðir hennar). Sá sem er ekki lengur sonur, eiginmaður og faðir virðist vera jaðarsettur og jafnvel útskúfaður úr vestrænu samfélagi að mati höfundarins – svoleiðis karlmaður gegnir engu hlutverki í hversdagslegu lífi og er meira að segja ofaukið innan samfélagsstrúktúrsins. Í stríðshrjáða landinu stendur Jónas(i) þó aftur og hann stígur frá jaðrinum nær miðju, m.a. fyrir atbeina borvélar sinnar.

Ég ætla ekki að fjalla alveg strax um yfirganginn sem býr að baki þeirri hugmynd að liðleskja úr vestrænu samfélagi geti orðið bjargvættur og máttarstólpi austræns samfélags – um þetta hefur Gréta Sigríður Einarsdóttir rætt í ritdómi sínum.[35] Ég ætla heldur ekki að fjalla um borvél Jónasar sem er greinilegt fallostákn, heldur vitna fyrst í svar Auðar Övu þegar hún var einmitt spurð um merkingu borvélarinnar: „Já, en fyrst og fremst er hún vopn, Jónas, eigandi borvélarinnar notar hana til að hjálpa. […] Hann er týpan sem hjálpar konum, ekki týpan sem eyðileggur.“[36] Rökstuðningur dómnefndar Norðurlandaráðs endurspeglar þessa skoðun höfundarins: „Meðan á ferðinni stendur rennur upp fyrir honum að allir eiga sér verkfærakassa og geta valið hvernig þeir beita verkfærunum.“[37] (Við getum valið, við getum látið að okkur kveða, við getum notfært okkur þá möguleika sem hin „hlutlæga“, „raunverulega“ og „saklausa“ geta og hæfni okkar bjóða upp á. En fáum við hér ekki nákvæmlega óbeina/praktíska (fremur en beina/verufræðilega) skilgreiningu á völdum? Ég vil ítreka að Foucualt kenndi okkur fyrir löngu að geta, samskipti og völd fléttast einatt saman; þegar ég tala um völd, tala ég þá alltaf um samþættingu þrennunnar. Ég leyfi mér því að hrapa beint að völdum núna:)

„Já, við Vesturlandabúar vitum að við búum yfir miklum völdum“ – vitið þið það? „En við ætlum nú að beita völdum okkar til að hjálpa ykkur Austurlandabúum sem eigið um sárt að binda“ – réttið þið hjálparhönd og eru þessi völd ykkar? Áherslan í umfjölluninni er þannig færð frá hinum mikla valdamismun á milli vesturs og austurs yfir á eins konar húmanískan góðvilja. Völdin sjálf virðast hér ekki skipta mestu máli, heldur hvernig þeim er beitt. En þegar völdin eru aftengd pólitík er hinn raunverulegi, pólitíski og efnahagslegi uppruni vandræða Austurlanda sömuleiðis hunsaður og tekinn úr pólitísku samhengi, svo að Vesturlandabúar geti sætt sig við völd sín – getur nokkur lagt hald á völdum? – og friðað með því samviskuna: „Við vitum að þetta er kannski efnahagslegum og pólitískum yfirráðum Vesturlanda að kenna“ – vitið þið það? „En við höfum gert það sem við getum til að bæta fyrir það“ – hafið þið gert það?[38]

Ég gæti nú spurt eins og völvan: „Vituð ér enn, eða hvat?“ En hefur Jónas ekki hjálpað fólkinu? Hvernig í ósköpunum get ég – Austurlandabúi – verið svona vanþakklátur? Er Jónas ekki, eins og Auður Ava segir, góður gaur sem hjálpar fremur en eyðileggur? Til að svara þessum spurningum vil ég fara smá krókaleið. Ég ætla að bera saman skáldsöguna Ör og vestra (e. Western), þ.e. bandarískar kúrekamyndir, til að varpa ljósi á samband Jónasar við landið stríðshrjáða.

Vestrinn var afar vinsæl kvikmyndagrein í Bandaríkjunum, sérstaklega á árunum 1940–1970. Dæmigerður söguþráður þeirra er á þá leið að aðkomumaður kemur einsamall til róstusamrar sveitar, upprætir þar alla glæpastarfsemi og öðlast þar með virðingu bæjarbúa og mikla kvenhylli.[39] Þegar nánar er að gáð er hægt að greina fast frásagnarmynstur sem næstum allar kúrekamyndir fylgja (stjörnumerktir liðir eru ekki nauðsynlegir).

  1. Hetjan sækir heim samfélag.
  2. Íbúum samfélagsins er ókunnugt um hetjuna.*
  3. Í ljós kemur að hetjan býr yfir einhverjum óvenjulegum hæfileikum.
  4. Íbúarnir verða þess áskynja að munur er á milli þeirra og hetjunnar; henni er skipaður sérstakur sess.
  5. Íbúarnir sætta sig ekki alveg við hetjuna.
  6. Hagsmunaárekstur á sér stað á milli glæpahyskisins og íbúa samfélagsins.
  7. Glæpahyskið er sterkara en íbúarnir; um veikt samfélag er að ræða.
  8. Traust vinátta er á milli hetjunnar og eins meðlims í glæpahyskinu.*
  9. Glæpahyskið ógnar samfélaginu.
  10. Hetjan forðast að taka þátt í átökunum.*
  11. Glæpahyskið ögrar vini hetjunnar.*
  12. Hetjan berst á móti glæpahyskinu.
  13. Hetjan sigrar það.
  14. Samfélagið er hólpið.
  15. Íbúarnir sætta sig við hetjuna.
  16. Hetjan missir eða lætur af hendi sína sérstöku stöðu.[40]

Þessi uppbygging gildir nánast óbreytt um skáldsöguna Ör.

  1. Jónas kemur til stríðshrjáða landsins (bls. 69).
  2. Fólkið þar veit ekki neitt um Jónas (bls. 69–85).
  3. Jónas hreinsar pípulagnir á hótelinu og afhjúpar þannig óvenjulega hæfieika sína sem handlaginn maður með borvél (bls. 85–90).
  4. Borvélin spyrst út. Fólkið kynnist hæfileikum Jónasar sem eru meiri en þess sjálfs (vertinn biður Jónas t.d. um að smíða vængjahurð fyrir sig; systkinin Maí og Fífí ætla að ráða Jónas í lagfæringar á hótelinu; bæjarbúar biðja hann að aðstoða sig við hitt og þetta). Jónasi er skipaður sérstakur sess í landinu (sbr. „Mister Fix“, „Mister Miracle“, bls. 153) (bls. 90–144, 147–158).
  5. Fólkið er ekki alveg sátt við Jónas: „Það gætu verið einhverjir sem vilja ekki að þú sért að skipta þér af því sem þeir gera“ (bls. 159); „Það gæti skapað vandamál. […] Já, það kemur ekki nógu vel út. Að þú hjálpir bara konum. Það er ekki endilega vel séð. Það eru ýmsir sem eru sárir yfir því“ (bls. 163–165); fólkið heldur að hann hafi „special mission“ og sé „á vegum tiltekins manns – Williams“ (bls. 179, leturbr. þar).
  6. – 12. Árekstur verður á milli Jónasar og „glæpahyskisins“. Í fyrra skiptið á milli Jónasar og hins gestsins á hótelinu (bls. 145–146), vegna þess að sá síðarnefndi hafði afskipti af barninu Adam, þ.e. syni Maí. Jónas hótar honum: „Þú kemur ekki nálægt drengnum“ (bls. 146). Í síðara skiptið á milli Jónasar og bæjarbúa sem ræðst á hann (bls. 166–182). Um er að ræða erlendan spákaupmann sem hagnast á stríðum annarsvegar, og innfæddan „ofbeldismann“ sem ver land sitt gegn grunsamlegum útlendingum hinsvegar. Báðir eru þeir sterkir og boða ofbeldi: „samfélagið er veikt“ (bls. 101).
  7. – 15. Jónas lætur „ofbeldismennina“, þ.e. hinn gestinn og „árásarmanninn“, vinna fyrir sig (sbr. bls. 160, 182–188). Hinn gesturinn segist kunna „ágætlega“ við Jónas (bls. 175). Stráknum sem ræðst á Jónas „þyki[r] það leitt“, „ætlar ekki að gera þetta aftur“ og „vill bæta fyrir misskilninginn“ (bls. 183). Hinn gesturinn er handtekinn í lok skáldsögunnar (bls. 197).
  8. Jónas yfirgefur landið og fer aftur til Íslands (bls. 201).

Við skulum kalla þennan söguþráð „að bjarga heiminum“, en inn í hann fléttast þó annar söguþráður sem ég ætla að nefna „að bjarga sjálfum sér“. Höfundurinn felur Jónasi m.ö.o. tvíþætt verkefni: Annarsvegar að bjarga landinu og laga samfélagið, hinsvegar að bjarga sjálfum sér og endurheimta lífsvilja sinn (frá „Ég veit ekki hver ég er. Ég er ekkert og ég á ekkert“, bls. 27, til „Ég er enn til“, bls. 181). Hvort tveggja heppnast í lok skáldsögunnar eins og söguhetjunni tekst sitt í flestöllum vestrum: Jónas hjálpar fólkinu að byggja hús (sbr. bls. 156–160), en hann fær líka að sofa hjá innfæddri leikkonu (bls. 193–194) og nýtur viðurkenningar dóttur sinnar enda þótt hann sé ekki kynfaðir hennar (sbr. bls. 171–174). Í austrinu tekst söguhetjunni Jónasi þannig að bjarga sjálfum sér út úr þeim áföllum sem hann varð fyrir í íslensku, þ.e. vestrænu og nútímalegu, velferðarsamfélagi.

Hvað getur þessi samanburður á milli Ör og vestra leitt í ljós? Ég ætla ekki að ganga svo langt að fullyrða að skáldsagan sé formúlukennd eins og bandarískar kúrekamyndir. Ég hef meiri áhuga á þessu sameiginlega frásagnarmynstri, eða segjum þeirri merkingarformgerð sem skáldsagan og vestrar deila. Merkingarstrúktúr í vestrum er býsna áhugaverður. Kvikmyndirnar byggjast allar upp á andstæðuparinu inni/úti (e. inside/outside).[41] Kúrekinn er aðkomumaður; hann tilheyrir engan veginn sveitarsamfélaginu í byrjun kvikmyndarinnar en ýmist aðlagast hann því eða yfirgefur það í lokin. Sá annarleiki (e. heterogeneity eða otherness) sem hann kemur með inn í samfélagið verður m.ö.o. afmáður eða rekinn burt í lok kvikmyndarinnar. En í hverju felst þessi annarleiki? Kúrekarnir eru oftar en ekki góðar skyttur, en á meðan byssan er dýrmætt björgunarafl boðar hún sömuleiðis ómælt ofbeldi. Eins og söguhetjan segir í kvikmynd Georges Stevens, Shane, frá 1953: „A gun is a tool, Marian; no better or no worse than any other tool: an axe, a shovel or anything. A gun is as good or as bad as the man using it.“ Hetjan segir svo við strák í lokasenunni sem er einnig ein frægasta senan í bandarískri kvikmyndasögu: „Now, you run on home to your mother and tell her … tell her everything’s alright. There aren’t any more guns in the valley.

Það eru ekki fleiri byssur í dalnum, enda er sjálfur Shane síðasta byssan. Þessi þversögn milli friðar og ófriðar, björgunar og ofbeldis, afhjúpar aðgerðarökvísi hetjunnar í vestrum – hetjan boðar lög handan laganna eða segjum ólögleg lög. Sveitarsamfélagið getur ekki lagað sig sjálft, menningin getur ekki tamið það ofbeldi sem hún hefur í för með sér. Björgunarafl byssunnar er því ofbeldiskennt, ómenningarlegt og meira að segja ólöglegt, en staðurinn þarf einmitt á hinu ofbeldiskennda, ómenningarlega og ólöglega að halda til að friður geti komist á. Aðgerðarökvísi hetjunnar felst í því að beita ofbeldi gegn ofbeldinu, en að því leyti er hetjan ekki mjög ólík glæpamönnunum. Þetta minnir svo á að landnám Evrópumanna og stofnun Bandaríkjanna byggðist fyrst og fremst á grimmdarlegum morðum á frumbyggjum og ránum á eignum þeirra; bandarískar kúrekamyndir eru í þeim skilningi enn ein fegruð sjálfsfrásögnin um hinn blóðuga og ofbeldiskennda uppruna ríkisins og löghelgun á honum. En þegar verkefni ofbeldisins er lokið, þá þarf víst að hrekja það burt og snúa sér aftur að menningunni. Þetta er ástæðan fyrir því að kúrekinn verður að yfirgefa sveitina í lokin eða laga sig að samfélagi hennar.

Aftur að skáldsögunni Ör. Til að byrja með er Jónas algjör útlendingur í stríðshrjáða landinu eins og hér hefur komið fram. Fólkið þar er forvitið um hann og jafnframt svolítið tortryggið gagnvart honum og erindi hans í landinu: „Ég tek eftir að strákurinn gjóar á mig augunum annað slagið á meðan hann sinnir konunni [leikkonunni]“ (bls. 80); „Það kemur hingað enginn án erindis“, hefur Maí sagt (bls. 149). Fífí þykist í fyrstu ekki vita neitt um fornleifarnar í landinu, þ.e. mósaíkmyndirnar (sbr. bls. 90–92 og víðar). En eftir að það spyrst út að Jónas sé með borvél hverfur tortryggni fólksins í hans garð smám saman. Fífí lætur Jónas til að mynda skoða mósíakvegginn eftir að þau Maí hafa ráðið hann í lagfæringarvinnu (bls. 131). Jónas vill þó ekki þiggja atvinnutilboðið í fyrstu: „Ég segi henni það sem ég hef áður sagt, að ég sé hvorki smiður né pípulagningamaður. Og ekki heldur rafvirki“ (bls. 123). „En þú ert með borvél,“ svarar Maí. Borvélin er það sem vantar í landinu og það sem fólkið þar kann ekki að meðhöndla. Hún er því ekki ósvipuð byssunni í vestrum, enda eru báðar tákn um björgunarafl sem hvergi er að finna í menningu og samfélagi viðkomandi bæjar – tákn um hin ólöglegu lög eða lög handan laganna. Með hliðsjón af því að landið sem Jónas kemur til er kvengert eins og bent var á hér í upphafi, þá liggur í augum uppi að borvélin er greinilegt tákn um fallos, en svar Maí „þú ert með borvél“ má túlka sem reðuröfund sem höfundurinn sæmir fólkið í landinu. Hér er þó ekki um „öfund“ stelpu út í strák að ræða, heldur „öfund“ hins fátæka og stríðshrjáða austurs út í reður – tækni, þekkingu og völd – hins sterka, friðsæla og háþróaða vesturs.

„Það vantar karlmenn“, segir Maí, „og verkfæri. […] Það hvarf heil kynslóð karlmanna“ (bls. 123). Ég geri mér grein fyrir því að í stríðshrjáðum löndum vantar sannarlega karlmenn, en hvers vegna heldur Maí að þar vanti verkfæri? Þegar vertinn á veitingastaðnum biður Jónas um að smíða fyrir sig vængjahurðir segir Jónas honum að hann sé ekki smiður og „þess utan ekki með réttu verkfærin“ (bls. 98). Og vertinn svarar: „Ekkert mál, […]. Þú ert handyman og ég redda verkfærum“ (bls. 99, leturbr. þar). Hvernig eigum við að túlka þetta atriði? Ef það vantar í raun og veru ekki verkfæri eða maður getur reddað þeim sjálfur, af hverju þarf Jónas þá að vera með nefið ofan í öllu í bænum? Sláandi er líka að sjá að fólkið þar kann ekki að hreinsa pípulagnir. „Vatnið er tært, segir hún [Maí] undrandi. […] Hún er forviða“ (bls. 89). En Jónas telur slíka hreinsun létta og einfalda: „Já, það var nóg að skrúfa sturtuhausinn af og skola sand og leir innan úr honum“ (bls. 89, leturbr. mín). Kann fólkið þarna ekki að gera svo einfalda hluti? Ætlar það að bíða endalaust eftir því að vera bjargað af öðrum? Það virðist því eins og landið sé ekki einungis stríðshrjáð, heldur hlægilega vanþróað að ætlun höfundarins. Skilaboðin eru skýr: Við Vesturlandabúar verðum að bjarga ykkur Austurlandabúum, vegna þess að þið eruð ekki færir um að bjarga ykkur sjálfir![42]

Verkefnið að bjarga heiminum er þannig sett í forgrunn. Höfundurinn undirstrikar vanþróun landsins til að réttlæta færni, getu og þar með völd Jónasar. Söguhetjan getur gert það sem bæjarbúar eru ekki færir um og þannig táknar hann það utanaðkomandi afl sem samfélagið skortir (sbr. „Það er gott að fá utanaðkomandi auga“, segir Fífí á einum stað, bls. 148, leturbr. mín). En ekki má gleyma því ofbeldi sem fylgir björguninni í vestrum. Á meðan Jónas bjargar og hjálpar fólkinu, aðallega konum (bls. 153), getur hann líka af sér ofbeldi. Rifjum nú upp orð vertsins: „Það gæti skapað vandamál. […] Já, það kemur ekki nógu vel út. Að þú hjálpir bara konum. Það er ekki endilega vel séð. Það eru ýmsir sem eru sárir yfir því“ (bls. 163–165). Vegna Jónasar verður til einhvers konar klofningur milli karla og kvenna í bænum, en þessi orð eru fyrirboði um „árásina“ á Jónas sem er ákveðinn hápunktur skáldsögunnar, því eftir hana er ekki lengur litið á hann sem útlending, heldur þegn í samfélaginu. Konurnar eru „í uppnámi og með tárin í augunum“ (bls. 168) og „árásarmaðurinn“ biðst afsökunar. Árásarmaðurinn er innan gæsalappa, enda kallar enginn hann það annar en Jónas. Á hinn bóginn má jafnvel segja að „árásarmaðurinn“ sé uppreisnarmaður gegn erlendum afskiptum af landinu. En nú elska allir Jónas og enginn myndi hafa neitt á móti honum lengur, því „ofbeldismaðurinn“ segist ekki ætla að „gera þetta aftur“ (bls. 183). Hann ræðst á Jónas út af einhverjum misskilningi: „Þeir töldu að þú værir annar“ (bls. 175), „á vegum tiltekins manns“ (bls. 179, leturbr. þar). Jónas er því ekki einhver annar, heldur viðurkenndur í samfélaginu. Þannig réttlætir höfundurinn þann klofning sem Jónas og borvélin hans hafa valdið og afmáir annarleika hans í þessu stríðshrjáða landi.

Eftir „árásina“ verður Jónas sannarlega miðlægur í samfélagi bæjarins. Fyrir atbeina borvélarinnar leggur hann bæinn undir sig, temur alla bæjarbúana, truflar sjálfstæði fólksins við að byggja upp sitt eigið líf og bælir niður uppreisn heimamannsins. Hann er orðinn stjórnandi eða „frelsari“ bæjarins eins og Jón Yngvi Jóhannsson kemst svo skemmtilega að orði.[43] Eða kannski frekar þrælahaldari sem sér um dreifingu samfélagseigna? „Þessa, þessa og þessa, segi ég og hann staflar þeim upp hjá búslóðinni. […] Ég gef fylgdarmanni mínum til kynna að ég taki grammófóninn með mér á hótelið og að hann eigi að halda á plötusafninu. – Ég kem aftur með konurnar á morgun, segi ég“ (bls. 187–188). Þegar allt kemur til alls, með tilliti til yfirráða Jónasar yfir bænum og fólkinu, lýsir skáldsagan Ör þá ekki einmitt landnámi Íslendingsins Jónasar á þessu austræna svæði?[44] Snýr hin húmaníska nýlendustefna ekki aftur í nafni framþróunarinnar, góða viljans og ástarinnar?[45] Líkt og í bandarískum kúrekamyndum, þá sjáum við misræmi milli aðgerðar og frásagnar – stofnunar nýlendu á kostnað sjálfstæðis heimamanna landsins og sjálfsfrásagnar Jónasar sem réttlætir og fegrar ofbeldið og völdin með því að setja björgunaraflið í forgrunn. „Það vantar handlagna karlmenn sem eiga borvél“ (bls. 173), segir hann. Eitt vantar þó ekki: sjálfhverfni Vesturlandabúans.

 

III. Pabbi kemur heim og karlmaður verður til

Viltu láta karlmann í bókinni þinni segja: Að vera faðir og eiginmaður mótaði mig og gaf lífi mínu tilgang og merkingu[46]

„Já, það eru líka karlmenn í heiminum sem þurfa á hjálp að halda“, segir vertinn (bls. 164), en Auður Ava hefur einnig sagt það í viðtölum (sbr. nmgr. 34). Höfundurinn reynir af fremsta megni að draga upp mynd af Jónasi sem særðum, auðmjúkum og „valdalausum“ karlmanni sem er sárt leikinn í nútímasamfélagi. Í skáldsögunni er að finna fjölmörg dæmi sem undirstrika ýmist eymd og vesöld eða viðkvæmni og mildi karlmanna: „Særð gæs er makalaus og fjölgar sér ekki“ (bls. 20); „Það er ótrúlegt þegar maður sér þennan stóra mann í dag að hugsa til þess hvað hann var viðkvæmur“ (bls. 23); „Það er gott fyrir karlmann að hafa einhvern til að opna sig við“ (bls. 31). Svo virðist sem höfundurinn vilji afbyggja í Ör (og reyndar í fleiri verkum) hina ríkjandi karlmennsku og syngja óð til þessara mjúku og viðkvæmu karlmanna.[47] Karlmennskan er víst afar margræð, og ofbeldi hins eitraða karlveldis er ekki einungis fólgið í því að kúga konur, heldur einnig hinsegin og öðruvísi karlmenn. En hvernig karlmennsku gerir Auður Ava ráð fyrir sem hinni ríkjandi?

Við skulum skoða nokkur dæmi í Ör þar sem söguhöfundur, sögumaður og sögupersónur tjá hugmyndir sínar um karlmennsku:

Hann [flúrarinn] hefði getað bætt við, eða hvaða karlmann dreymir ekki um að vera ránfugl, einn að lóna í útsýnistúr yfir veröldinni; yfir uppistöðulónum, frárennslisskurðum og mýrum, í leit að bráð að hremma? (Bls. 16, sögumaður.)

… efi ófyrirleitinnar karlmennsku sem er nátengd þeirri snilligáfu sem dugar best til að heyja stríð og vinna lönd. (Bls. 28, kaflafyrirsögn, þ.e. rödd söguhöfundar.)

Nei, ég [Jónas] þyrfti að skjóta mig, að tæta sundur holdið með stálkúlu til að finna fyrir líkamanum. Það er það sem karlmenn gera. (Bls. 36, sögumaður.)

Þegar ég er með þér, langar mig að vera hetjan sem mig dreymdi um sjö ára; fullkominn maður sem drepur. (Bls. 99, kaflafyrirsögn.)

Þetta er ekki tæmandi listi yfir umfjöllun um hina ríkjandi karlmennsku í skáldsögunni, en ég sé ekki betur en að Auður Ava haldi að dæmigerðir eða fullkomnir karlmenn séu þeir sem ræna, eyðileggja og drepa, en Jónas sé hins vegar algjör andstæða slíkrar karlmennsku: „Ég er þó ekki karlmaður sem eyðileggur, heldur lagfæri ég og geri við það sem er bilað“ (bls. 61, ath. setningagerðina „ekki … heldur“). Jón Yngvi bendir réttilega á að „[í] sögunni er karlkynið […] ekki gefið eða ómarkað eins og það hefur lengst af verið í vestrænni menningu og bókmenntum heldur er það uppspretta vandamála sem tengjast karlmennsku sem kyngervi sérstaklega.“[48] Með kyngervi á Jón Yngvi auðvitað við hið félagslega karlkyn sem miðað er við það sem karlmaður segir, gerir og lætur (performar), svo vitnað sé í kenningar Judith Butler,[49] en það myndar einnig eins konar „viðmið sem athafnir, orð og hugsanir persónanna eru borin saman við, bæði af þeim sjálfum og óhjákvæmilega af lesandanum.“[50] Höfundurinn stillir m.ö.o. fyrst upp einhverjum hugmyndum sem ríkjandi félagslegum viðmiðum og reynir síðar að afbyggja þær með því að láta karlinn gera það sem ekki er talið vera karlmannlegt.

Þessi hugmynd reynist þó ekki vera eins róttæk og hún hljómar. Hin ríkjandi karlmennska sem Auður Ava gerir ráð fyrir byggist á vissri eðlishyggju: karlmenn eru sterk og grimm rándýr sem drepa og eyðileggja (sbr. líka 29–30). Þetta er svokölluð líffræðihyggja (e. biologism) sem er fjarri „eindreginni mótunarhyggju“,[51] svo að vitnað sé aftur í orð Jóns Yngva. Ég trúi því að flestir lesendur muni jafnharðan átta sig á því að þetta sé afskaplega stíf staðalímynd um karlmenn, en hér glittir í díalektík Auðar Övu. Karlmaður er rándýr sem drepur og eyðileggur (tesa) – Karlmaður er friðardúfa sem bjargar og lagar (antitesa) – Karlmaður er venjulegt fólk, sumir spellvirkjar en flestir bjargvættir (syntesa). Með antitesunni telur Auður Ava sig hafa varpað gagnrýnu ljósi á tesuna og þar með afbyggt hana svo að syntesan eða boðskapur skáldsögunnar komi fram. Antitesan virðist hafa umturnað tesunni – en hvað ef friðardúfan er sjálft rándýrið? Í slíkum dæmum, þar sem tesan og antitesan eru báðar afstrakt og öfgakenndar, getur tesan að lokum snúist upp í andhverfu sína, þ.e. antitesuna.[52] Þá getur hin mesta ást verið hatur, hið besta líka hið versta, og hin mesta eyðilegging kannski einmitt endurbyggingin og hið mesta ofbeldi í raun björgunin (sbr. síðasta kafla).

antitesa sem Auður Ava teflir fram gegn tesunni er þannig langt frá því að vera róttæk, enda áttar hún sig ekki á því hvernig hin ríkjandi karlmennska er móthverfa við frávik sín í stað þess að vera einungis í andstæðu við þau, svo ekki sé minnst á að hvort tveggja tilheyrir í raun og veru sama rammanum (e. frame), þ.e. karlveldinu.[53] Þá er engin furða að Jón Yngvi skuli komast svo að orði: þrátt fyrir að hlutverk Jónasar sé „hefðbundið hlutverk karlmanna í vestrænum samfélögum“ og uppfylli „að einhverju leyti […] ráðandi karlmennsku“, mótast sjálfsmynd hans samt „af frávikum frá hefðbundinni karlmennsku“.[54] Snúum þessu við: Á hinn bóginn má segja að þrátt fyrir að Jónas sé frávik frá hinni ríkjandi karlmennsku, sé hann engu að síður fulltrúi hennar. Þá vil ég halda því fram að gagnrýni og afbygging Auðar Övu á kyngervi séu misheppnaðar, enda afbyggi hún einungis vissa tegund af karlmennsku fremur en karlveldið sem heild.

Við skulum víkja aftur að skáldsögunni og kanna hvernig Jónas er meðvirkur með hinni ráðandi karlmennsku og ekki síst karlveldinu, eða segjum feðraveldinu fyrst hann er svona upptekinn af dóttur sinni. Hér að framan var fjallað um hið tvöfalda verkefni sem höfundurinn felur Jónasi: að bjarga heiminum og að bjarga sjálfum sér. Hvað felst í því að bjarga sjálfum sér? Eða hvernig getur Jónas bjargað sjálfum sér? Hér hefur komið fram að Jónas missir lífsvilja sinn vegna þess að hann er að vissu leyti útskúfaður úr íslensku samfélagi – hann telur sig verkefnalausan og án hlutverks, enda er hann ekki lengur sonur, eiginmaður og faðir: „Ég veit ekki hver ég er. Ég er ekkert og ég á ekkert“ (bls. 27); „Hlutverki mínu er lokið“ (bls. 57). Síðastnefndu sjálfsmyndirnar tvær virðast skipta sköpum fyrir Jónas. Hann undirstrikar oft að hann sé hættur að stunda kynlíf með konum (sbr. bls. 35–36), auk þess sem hann rifjar upp farsælt kynlíf sitt þegar hann var yngri (sbr. bls. 46–49 og víðar).[55] Hann elskar dóttur sína af öllu hjarta og þó að hann viti mæta vel að hann sé ekki raunverulegur faðir hennar þykist hann samt vera það: „Ég held ekki að nokkur raunverulegur faðir hefði getað verið stoltari en ég. Strika út „raunverulegur“ og held bara faðir eftir“ (bls. 64, leturbr. þar). Í bréfi sem hann skilur eftir leggur hann aftur hald sitt á dótturina: „Þinn pabbi“ (bls. 64, leturbr. þar).

Ég sé ekki betur en að hér sé látið í veðri vaka að eina leiðin fyrir Jónas til að endurheimta lífsvilja sinn og stöðu í samfélaginu sé að verða aftur eiginmaður (eða karlmaður sem stundar kynlíf) og faðir. Vert er að nefna að verkefnin tvö hefjast samtímis: „Úr því að ég hef þegar tilkynnt leikkonunni að ég verði hér enn þegar hún kemur aftur eftir rúma viku, þarf ég að hafa eitthvað fyrir stafni. Þess vegna segi ég: – Ég vil gjarnan hjálpa ykkur. Ég get ekki gert allt, bæti ég við, en ég get gert eitthvað“ (bls. 124). Þannig séð skiptir það Jónas meira máli alveg frá upphafi að bjarga sjálfum sér en að bjarga heiminum, enda þiggur hann atvinnutilboðið fyrst og fremst vegna þess að hann hefur „þegar tilkynnt leikkonunni“ það – þó að í skáldsögunni, eins og hér hefur komið fram, sé verkefnið „að bjarga heiminum“ alltaf sett í forgrunn.

Leikkonan gegnir lykilhlutverki í því að gera Jónas aftur að eiginmanni eða karlmanni sem stundar kynlíf. Við skulum ekki gleyma því sem Jónasi dettur í hug eftir að ráðist hefur verið á hann: „mér er kalt en ég næ að hugsa mjög skýrt: Ef leikkonan biður mig að sofa hjá sér þegar hún kemur aftur úr ferðinni, segi ég hiklaust já“ (bls. 167). Og hann fær sannarlega að sofa hjá henni þegar hún kemur aftur (bls. 11–12, 193–194). Á meðan leikkonan gegnir hlutverki „eiginkonu“ Jónasar gegnir Maí hlutverki „dóttur“ hans þrátt fyrir að hún sé trúlega hrifin af honum: „Dóttir mín er á sama aldri og þú“ (bls. 138, sbr. líka bls. 173). En Maí á son sem heitir Adam. Líkt og aðalpersónan í Afleggjaranum lifir Jónas tímabundið hamingjusömu lífi sem fylgir í kjölfar þess að stofna til eins konar kjarnafjölskyldu: „Hann [Adam] hefur skapað tvær manneskjur, lítinn karlmann og stóra konu og staðsett þær undir grænni sól. Það er fyrsti dagur í heimi“ (bls. 144), svo ekki sé nefnt að Jónas er að byggja hús fyrir mæðginin: „Það er líka fyrir þig þetta hús, segi ég. Og fyrir Adam“ (bls. 180). Hér sjáum við annað dæmi um hvernig verkefnið „að bjarga heiminum“ heyrir í rauninni undir hitt verkefnið „að bjarga sjálfum sér“.

Í þessu sambandi er tímabært að minna á hugtakið póst-kólónískur kvíði (e. post-colonial anxiety) sem breski miðaldafræðingurinn Alaric Hall hefur nýtt sér til að greina íslenskar hrunbókmenntir.[56] Að hans mati kvíða Íslendingar mjög því að tilheyra ekki hinum svonefnda fyrsta heimi en rekja má þann kvíða til nýlendusögu landsins. Þess vegna hafa Íslendingar verið uppteknir af því að staðfesta og sanna stöðu sína sem fyrsta heims þjóð með því að stilla sér upp sem algjörri andstæðu þriðja heimsins eða vanþróaðra landa.[57] Skáldsagan Ör er einmitt ágætt dæmi um póst-kólónískan kvíða Íslendinga,[58] en fleiri nýlegri dæmi eru kvikmyndin Kona fer í stríð[59] og hljómsveitin Hatari.[60] Að senda Íslending út í heim til að bjarga honum þarf þannig ekki endilega að þýða að íslenska þjóðin hafi nokkurn alvöru áhuga á heimsmálum – þó að ég trúi að þau séu mörgum Íslendingum hugleikin – en eins og hér hefur komið fram er viljinn að baki slíkri áætlun kannski líka fólginn í því að milda eða bægja frá sér póst-kólónískum kvíða og öðlast þar með eins konar ímyndaða þóknun. Með þessu er ekki átt við að nú séu Íslendingar allir imperíalistar eða að Ísland sé heimsveldi, heldur vil ég umfram allt benda á hvernig Íslendingar kynnu að ímynda sér sig sem slíka og hvernig Auður Ava finnur hjá sér köllun þeirrar pólitísku dulvitundar (sem flæðir nú á Íslandi) og skrifar sig beint inn í þessa sjálfsímynd(un) Íslendinga – og kannski líka minn eigin póst-kólóníska (eða póst-þróunar-?) kvíða sem Kínverja – með skáldsögunni Ör.

En aftur að Jónasi. Hann er viðurkenndur af „raunverulegri“ dóttur sinni undir lok skáldsögunnar. Dóttirin, Guðrún, hefur innilegar áhyggjur af honum: „Röddin er grátklökk og hún segist hafa orðið frávita af áhyggjum þegar hún fann bréfið og ég var horfinn“; „Mamma er líka áhyggjufull, bætir hún við […] – Já, mamma líka. Henni er ekki sama um þig, bætir hún við eftir smá hik“ (bls. 171–172). Þegar hér er komið sögu hefur Guðrún komist að því að Jónas er ekki faðir hennar: „Já, ég veit. Fyrst var ég reið, en núna skiptir það engu máli. Ég á engan annan pabba en þig. […] – Á ég að skipta um pabba eftir tuttugu og sex ár? Ætlarðu virkilega að afneita mér? Og skilja mig eina eftir?“ (bls. 172–173, leturbr. mín, tökum eftir þessum snúningi: ekki er lengur um að ræða dóttur sem hefur svikið og afneitað föður með líkama sínum, heldur föður sem getur afneitað dóttur með öllum sínum táknrænu yfirburðum). Þar með tekst Jónasi að endurreisa lífsvilja sinn með því að verða aftur karlmaður sem stundar kynlíf og faðir sem á dóttur. Enda þótt hann sé ekki líffræðilegur faðir hennar, þá er hann orðinn táknrænn faðir sem er í vissum skilningi jafnvel sterkari en sá líffræðilegi.

Einhver kynni að vilja forvitnast um hvort hér örli ekki á íróníu af hálfu höfundarins sem beinist gegn Jónasi og ráðandi karlmennsku. Ákvörðun Jónasar um að fyrirfara sér með fallosi sínu, þ.e. borvélinni (bls. 67), er sannarlega írónísk. En um leið grefur hin ljóðræna frásagnarrödd, sem undirstrikar svo innilega sársauka Jónasar og tilvistarkreppu, sífellt undan þeirri íróníu (sbr. „Ég er þá farinn. Til fundar við sjálfan mig“, bls. 67): Hvernig getum við lesendur, og höfundurinn, sá húmanisti, haft svona örvæntingarfullan karl að athlægi? Síðari hluti skáldsögunnar er þá alveg laus við íróníu, enda er endurreisn (karl)mannsins Jónasar og endurkoma hans til hinnar hefðbundnu karlmennsku ekki vitund írónísk að viti höfundarins ef marka má viðtalið: „Á móti stríði og þjáningu, sem er vissulega viðfangsefni bókar[innar], tefli ég ljósinu og einhvers konar endurlausn, upprisu og von.“[61] Þetta er þá eitt af því sem stingur mest í augu: Af hverju í ósköpunum þurfa öðruvísi karlarnir í skáldsögum Auðar Övu að verða aftur venjulegir í sögulokin? Til hvers er hún að skrifa um svoleiðis karla ef þeim eru ekki sköpuð öðruvísi örlög?

Auður Ava sendir karlana til framandi landa í leit að tilgangi lífsins en þeir átta sig á því að heima er best – til hvers er hún þá að skrifa þessar sögur um „pabbi fer að heiman en kemur aftur heim“? (sbr. líka „Eigum við að koma heim til afa?“ í lok Afleggjarans).[62] Ég sé ekki betur en að þetta þema sé skýr metafóra – eða segjum allegóría – um (endur)komu feðraveldisins. Skáldsagan Ör snýst að mestu leyti um hvernig Jónas endurheimtir völd sín sem karlmaður sem leggur hald á konur. Eins og bent var á hér á undan afbyggir Auður Ava einungis ákveðna tegund af karlmennsku en lætur allt karlveldið afskiptalaust; hún festir Jónas meira að segja aftur inn í þann samfélagsstrúktúr sem syngur óð til feðraveldisins. Karlpersónur hennar búa enn yfir þeim forréttindum sem karlveldið úthlutar þeim, og helgispjöll (e. transgression) þeirra mynda ekki nein ný lög og reglu (e. order).[63] Svo ekki sé minnst á þá deyfð sem nánast allar sögupersónur Auðar Övu búa yfir – deyfð sem felst í því að engar þeirra hafa gert neina alvöru uppreisn gegn ríkjandi samfélagsnormum. Þvert á móti eru þær blýfastar í óhagganlegum samfélagsstrúktúr: faðir er alltaf faðir (Afleggjarinn, Ör), eiginkona er alltaf eiginkona (Undantekningin), skáldkona er þó aldrei skáldkona og hommi getur ekki gert neitt annað en veinað (Ungfrú Ísland). Eina persónan sem „þarf ekki föður til að komast að því hver [hún] er“[64] er utangarðsdvergurinn Perla í Undantekningunni – sá sem hefur alltaf staðið á jaðri samfélagsins.

Karlveldið hefur verið sjálfsagður hluti af samfélaginu, svo sjálfsagður að við virðumst stundum gleyma því. Femínískar hreyfingar hafa sannarlega dregið úr mætti þess en einungis að takmörkuðu leyti. Kínverska fræðikonan Dai Jinhua minnir á að femínískir fræðimenn megi ekki láta sér nægja að benda á augljósustu birtingarmyndir karlveldisins í samfélaginu, heldur þurfi þeir að kanna í hvaða nýjum og lúmskari formum það gerir vart við sig. Hún varar sérstaklega við hinum auðmjúka föður sem hefur verið nokkuð algengt minni í kvikmyndum og bókmenntum síðustu misseri, til að mynda í kvikmyndum Christophers Nolan, Inception (2010) og Interstellar (2014). Í þessum verkum er ekki lengur að finna hinn sterka, almáttuga og stranga föður, heldur særðan, ráðvilltan og ástríkan. Hann opinberar máttleysi sitt og gagnrýnir sjálfan sig, en hann er engu að síður ákallaður til að bjarga og stjórna – einmitt með þessu móti tekst honum að endurreisa völd föðursins og taka upp aftur hina miðlægu sjálfsveru-stöðu. Þannig er ástin beittasta og hentugasta tækni hans; í nafni ástarinnar endurheimtir karlmaðurinn yfirráðin, temur konur og ekki síst dætur sínar og ginnir þær aftur inn í valdaformgerð karl- og feðraveldisins – þó ekki lengur í gegnum auðþekkta harðstjórn, heldur tilfinningabönd.[65] Er þetta ekki það sem Auður Ava lætur Arnljót og Jónas gera í Afleggjaranum og Ör: að (endur)reisa feðraveldið í gegnum tilfinningabönd? Eða er þetta einmitt írónía af hálfu höfundarins? Skáldsagan Ör sýnir okkur hvernig faðir verður til, en hefur höfundurinn beitt nokkurri alvöru íróníu eða gagnrýni við það? Nei, er mitt svar. Faðirinn Jónas verður til – á kostnað sjálfstæðis dóttur sinnar, en sama rökvísi býr að baki því að hvítur bjargvættur verður til – á kostnað sjálfstæðis heimamanna.

En er Ör ekki líka skáldsaga um stöðu kvenna, eins og Auður Ava segir í einu viðtali?[66] Er þar ekki einmitt að finna umfjöllun um það efni? „Í fyrrakvöld horfði hann [Svanur] á heimildamynd um umskurn kvenna og í gærkvöldi á fréttaskýringaþátt um konur og stríð“ (bls. 29). „Mér er sem ég heyri rödd Svans: – Ef þú værir kona, yrði þér nauðgað fyrst“ (bls. 62). Leikkonan ætlar svo að gera heimildarmynd um landið sitt sem á að fjalla um „hvernig konur reka samfélögin eftir stríð“ (bls. 122). En um hvaða konur er hér að ræða? Af hvaða stéttum og kynþáttum? Við vitum það ekki. Kannski hefur stríðið lagt allan stétta- og kynþáttamun í rúst, en höfundurinn hefur greinilega meiri áhuga á að bregða upp heildarmynd af konum, fólkinu og landinu. Jónas tekur einmitt eftir því að „hann [vertinn] líkt og fleiri bæjarbúar talar iðulega í fleirtölu“ (bls. 140).

Indverska fræðikonan Chandra Talpade Mohanty hefur bent á að á bak við framsetningu á þriðja heims konum sem einsleitum hópi fórnarlamba sitji sjálfsöruggar vestrænar konur sem haldi aftur á móti að þær sjálfar myndi einsleitan hóp af glæsilegum menntuðum einstaklingum sem séu algjörlega ólíkir þeim hinum[67] – „Hjálpum þeim, enda eru þær öðruvísi en við!“ Önnur indversk fræðikona, Gayatri Chakravorty Spivak, hefur fjallað um áhuga og þekkingarframleiðslu vestrænna fræðimanna og rithöfunda á austrinu og borið fram hina frægu spurningu: Geta undirmálsverur (e. subaltern) talað?[68] Svarið er nei, enda virðist áhugi vestrænna fræðimanna og rithöfunda ævinlega beinast að þeim sjálfum og þeir lenda alltaf í samanburði á milli sín og hinna.[69] Þegar þeir tala um hina, búa þeir þá til sem andstæðu sína, svo að þeim geti sjálfum liðið vel í samanburði við ömurleika hinna. Þegar þeir tala um hina, tala þeir alltaf fyrir hönd þeirra, en það kemur ekki til mála að það sem hinir segja fái virkilega að heyrast. Þegar þeir tala um hina breyta þeir alltaf hreinum hinum (e. absolutely) í tamda hina (e. domesticated)[70] og leggja þá undir sig. Þegar þeir tala um hina, tala þeir heldur betur um sjálfa sig. „Við sem vitum og gerum ekki neitt, erum hin seku“, er skoðun nágranna Jónasar, sem hann hefur einnig tekið undir sjálfur (bls. 30). En hafið þið virkilega áhuga á okkur fremur en ykkur sjálfum? Mér er nú spurn.

 

Gagnrýni þessi er hugmyndafræðileg ekki síður en bókmenntafræðileg, persónuleg ekki síður en fræðileg. Sérhver einstaklingur er óhjákvæmilega meðvirkur þeirri hugmyndafræði sem hann er alinn upp við. Tekið skal því fram að undirritaður er kínverskur, karlkyns, íslenskufræðingur.

 

*Íslenska stafrófinu er þakkað fyrir framlag sitt til þessarar greinar, enda frumefni eftirfarandi texta sem og nafna þeirra sem hafa átt í samræðum við mig þegar verið var að semja greinina.

 

Tilvísanir

[1] Auður Ava Ólafsdóttir, Undantekning (de arte poetica), 2. útg., Reykjavík: Bjartur, 2013 [2012], bls. 33.

[2] Ástráður Eysteinsson, „Andstuttur samtími og brot úr heimsmynd: Glefsur um íslenskar sögur fyrr og síðar“, kínversk þýð. Xinyu Zhang, World Literature [世界文学] 6/2018, bls. 104–128. hér bls. 124.

[3] Sjá Björn Þór Vilhjálmsson, „Líkamar, rósir, dauði“, Tímarit Máls og menningar 4/2008, bls. 101–107; Jón Yngvi Jóhannsson, „Loðir heimurinn saman á táknum? Um Afleggjarann og Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur“, Tímarit Máls og menningar 1/2018, bls. 20–33.

[4] Sbr. „Í Ör kynnumst við miðaldra karlmanni sem ferðast til stríðshrjáðs Evrópulands í þeim tilgangi að fyrirfara sér, með verkfærakassa í farteskinu“, Norden.org, https://www.norden.org/is/news/audur-ava-olafsdottir-hlaut-bokmenntaverdlaun-nordurlandarads-2018.

[5] Fredrik Wandrup, „Vakkert om en suicidal handyman fra Island: Om å møte en virkelighet som gjør selvmordet overflødig“, Dagbladet.no, 13. desember 2018, https://www.dagbladet.no/kultur/vakkert-om-en-suicidal-handyman-fra-island/70551054.

[6] „Ör – Auður Ava Ólafsdóttir“, Rúv.is, 15. febrúar 2019, http://www.ruv.is/frett/or-audur-ava-olafsdottir; Kristján Guðjónsson, „Ég er að skrifa ljós gegn myrkrinu“ [viðtal við Auði Övu Ólafsdóttur], Dv.is, 5. nóvember 2016, https://www.dv.is/fokus/menning/2016/11/05/eg-er-ad-skrifa-gegn-myrkrinu/. Í viðtalinu nefnir Auður Ava stríð í Sýrlandi og Jemen, en í útvarpsþættinum heldur Úlfar Bragason því fram að sagan gerist í Palestínu.

[7] Jón Yngvi Jóhannsson, „ Loðir heimurinn saman á táknum?“, bls. 22.

[8] Auður Ava Ólafsdóttir, Ör, Reykjavík: Benedikt, 2016, bls. 62. Hér eftir verður vitnað til þessarar heimildar með blaðsíðutali innan sviga í meginmáli.

[9] „Jeg sendte ham af sted til Nowhere, fordi Nowhere er Everywhere …“, segir Auður Ava við danskan blaðamann. Sjá Klaus Rothstein, „Ikke meget at grine af“, Rothstein.dk, 2. nóvember 2018, http://www.rothstein.dk/2018/ikke-meget-at-grine-af/.

[10] Sbr. líka orð sögumanns Afleggjarans, „Ég er ennþá útlendingurinn, samt er ég að byrja að taka eftir lífinu í kringum mig“, Auður Ava Ólafsdóttir, Afleggjarinn, 3. útg., Reykjavík: Bjartur, 2016 [2007], bls. 145.

[11] Meir Sternberg, „Mimesis and Motivation: The Two Faces of Fictional Coherence“, Poetics Today 3–4/2013, bls. 329–483.

[12] Edward W. Said, Orientalism, 3. útg., London: Penguin Books, 2003 [1978].

[13] Litið hefur verið á Balkanskagann sem menningarlegt austur, eins og lesa má um í nokkrum smásögum eftir franska rithöfundinn Marguerite Yourcenar í Austurlenzkum sögum, þýð. Thor Vilhjálmsson, Reykjavík: Mál og menning, 1991 [1938 á frönsku].

[14] Í smásögunni „Í draumi manns“ eftir Svövu Jakobsdóttur kemur skýrt fram að austrið er hlutgert, rómantíserað og kvengert af Vesturlandabúum, sérstaklega vestrænum karlmönnum. Í augum – eða meira að segja draumum – þeirra er austrið þögul og erótísk vera, hlýðin og undirgefin, en þannig er líka hin fullkomna brúður sem brúðguminn í smásögunni hefur ímyndað sér og reynt ennfremur að breyta sinni brúði í: „Japönsk geisha með svart uppsett hár í gljáandi silkislopp hafði setið á strámottu á gólfinu með hljóðfærið [samisen] á hnjánum og spilað og sungið tregablandna ástarsöngva fyrir karlmann sem lá í rúmi og hlýddi á. Rödd hennar hafði risið og hnigið á víxl í innilegri seiðandi tjáningu uns tilvist hennar var hvergi nema í þessum söng og þegar sál hennar og líkami voru orðin eitt í huga karlmannsins sem hlustaði á, tók hann hvort tveggja til sín“, Gefið hvort öðru …, Reykjavík: Iðunn, 1982, bls. 44. Meðvitundina um að ímyndun Vesturlandabúans um austrið (og konur) sé karllæg og yfirlætisfull – svo og það íróníska ljós sem Svava varpar á þá ímyndun – er þó hvergi að finna í Ör, eða hvað?

[15] Gerður Bjarnadóttir, Kynjaveröld: Þrjár skáldsögur Auðar Övu Ólafsdóttur, Óprentuð M.A.-ritgerð í kynjafræði, Reykjavík: Háskóli Íslands, 2012, bls. 38.

[16] Sbr. „Det är inget speciellt land som nämns, utan en metafor för eller en blandning av många föreställningar om ett krigsdrabbat land“, Úlfhildur Dagsdóttir, „Språket är möderneslandet: Samtal med NR-litteraturpristagaren Auður Ava Ólafsdóttir“, þýð. Ylva Hellerud, Nordisk tidskrift 1/2019, bls. 71–78, hér bls. 76.

[17] Auður Ava Ólafsdóttir, Undantekningin, bls. 137.

[18] Auður Ava Ólafsdóttir, Ungfrú Ísland, Reykjavík: Benedikt, 2018, bls. 27.

[19] Sjá líka Dagný Kristjánsdóttir, „Árin eftir seinna stríð“, Íslensk bókmenntasaga, IV. bindi, ritstj. Guðmundur Andri Thorsson, Reykjavík: Mál og menning, 2006, bls. 419–661; Silja Aðalsteinsdóttir, „Formbylting og módernismi“, Íslensk bókmenntasaga, V. bindi, ritstj. Guðmundur Andri Thorsson, Reykjavík: Mál og menning, 2006, bls. 19–174; Soffía Auður Birgisdóttir, „Brúarsmiður – Atómskáld – Módernisti: Þrjár nýsköpunarkonur í íslenskri ljóðagerð“, Ljóðaárbók 1989, ritstj. Berglind Gunnarsdóttir, Jóhann Hjálmarsson og Kjartan Árnason, Reykjavík: Almenna bókafélgið, 1989, bls. 50–65.

[20] Kristján Guðjónsson, „Ég er að skrifa ljós gegn myrkrinu“.

[21] „Jag ger röst åt dem som är marginaliserade i samhället och inte har någon röst. Samtidigt justerar jag vissa snedvridningar. Rensar upp lite i världen. Att berätta en historia innebär att röja upp lite i världens kaos och ge det en betydelse. Det innebär också att ge det som är litet och vardagligt ett större värde“, Úlfhildur Dagsdóttir, „Språket är möderneslandet“, bls. 74.

[22] „Ég held að það hafi í upphafi verið löngunin til að gefa þeim raddlausu rödd. Ég hef tekið eftir hvernig orð eru notuð í samfélaginu og hversu mikilvægt valdatæki þau er – ekki bara til að byggja brýr á milli manna heldur enn frekar til að ná völdum og réttlæta þau. Sumir ráða yfir tungumálinu, en þeir geta haft slæman málstað að verja. Ég hef hins vegar sérstakan áhuga á þeim sem hafa ekki rödd en hafa engu að síður svo mikið fram að færa – til samfélagsins og heimsins. Strax í upphafi tók ég því afstöðu með slíkum persónum á jaðrinum“, Kristján Guðjónsson, „Ég er að skrifa ljós gegn myrkrinu“.

[23] Auður Ava hefur reyndar mjög takmarkaðan áhuga á sögulegum veruleika, sbr. „[e]n þótt í bakgrunni séu raunverulegir atburðir, staðir og jafnvel fólk, þá er þetta ekki söguleg skáldsaga heldur hreinræktuð skáldsaga. […] Hér glittir í stóru söguna í bakgrunni en einnig hún er huglæg afurð hins skapandi huga“, Árni Matthíasson, „Frumleiki höfunda felst í göllunum“ [viðtal við Auði Övu Ólafsdóttur], Morgunblaðið 1. nóvember 2018, bls. 72–73, hér bls. 72.

[24] Fredric Jameson, „Póstmódernismi eða menningarleg rökvísi síðkapítalismans“, þýð. Magnús Þór Snæbjörnsson, Af marxisma, ritstj. Magnús Þór Snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson, Reykjavík: Róttæka sumarútgáfan, 2012 [1991 á ensku], bls. 236–301, hér bls. 243, 246–247.

[25] „It’s something I never preach, though, it’s something that the reader finds or does not find“, sjá Hannah Jane Cohen, „Auður Ava Ólafsdóttir: There’s No Such Thing As An Innocent Text“ [viðtal við Auði Övu Ólafsdóttur], The Reykjavík Grapevine, 7. júní 2019, https://grapevine.is/icelandic-culture/literature-and-poetry/2019/06/07/audur-ava-olafsdottir-theres-no-such-thing-as-an-innocent-text/.

[26] Steinunn Inga Óttarsdóttir, „Mannsholdið er svo viðkvæmt …“, Kvennablaðið.is, 19. desember 2016, https://kvennabladid.is/2016/12/19/mannsholdid-er-svo-vidkvaemt/.

[27] Fredric Jameson hefur bent á að skáldsögur um stríð virðist vera mjög svipaðar og til séu einmitt einhverjar staðalímyndir um stríð, á meðan framsetningin á stríðinu sjálfu sé óhugsanleg, sjá „War and Representation“, PMLA 5/2009, bls. 1532–1547, hér bls. 1533, 1547. Um textaleika austursins sjá Edward W. Said, Orientalism, bls. 85 og víðar.

[28] Sbr. Jean-François Lyotard, Hið póstmóderníska ástand, Skýrsla um þekkinguna, þýð. Guðrún Jóhannsdóttir, Reykjavík: Háskólaútgáfan, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008 [1979 á frönsku].

[29] Auður Ava Ólafsdóttir, Afleggjarinn, bls. 129.

[30] Norden.org.

[31] Vera Knútsdóttir, „Kærkomin bók sem allir ættu að lesa“, Rúv.is, 9. nóvember 2016, http://www.ruv.is/frett/kaerkomin-bok-sem-allir-aettu-ad-lesa.

[32] Fríða Ísberg, „Fixing broken things“, TLS, 29. janúar 2019, https://www.the-tls.co.uk/articles/public/icelandic-film-and-fiction/?fbclid=IwAR1_UvyIKvgiJ1DF4Uw7X4hBmNkZWnLGaMu5DVZzgIb_-BuH16P6Mvgv5ek. Á ensku segir, „one person can make a difference“.

[33] Sbr. „Ég skrifa oft um velmeinandi venjulegt fólk sem lendir í óvenjulegum aðstæðum. Bæði karlmenn og konur. Það eru ekki allir karlmenn sem hafa völd. Flestir eru bara venjulegt fólk. Margir karlmenn eru týndir. Og þeir þjást líka alveg vegna afglapa kynbræðra sinna. Söguhetjan í Ör er þessi dæmigerði handlagni karlmaður sem getur lagað allt nema sjálfan sig“, Kristjana B. Guðbrandsdóttir, „Það er ekki til saklaus skáldskapur“ [viðtal við Auði Övu Ólafsdóttur], Fréttablaðið.is, 3. nóvember 2018, https://www.frettabladid.is/lifid/a-er-ekki-til-saklaus-skaldskapur.

[34] Sjá Michel Foucault, Discipline and Punish: The Birth of the Prison, þýð. Alan Sheridan, 2.útg., New York: Vintage Books, 1995 [1975 á frönsku]; „The Subject and Power“, Critical Inquiry 4/1982, bls. 777–795 o.fl.

[35] „Þar fyrir utan má ég til með að bæta við að hugmyndin um að fólk í forréttindastöðu fari til landa þar sem aðstæður eru erfiðar, kynnist fólki sem lent hefur í skelfilegum atburðum, læri af þeim og „lagi“ vandamál sín með því að hjálpa þeim er hvorki frumleg né sérstaklega áhugaverð“, Gréta Sigríður Einarsdóttir, „Synt gegn meginstraumnum – leiðindaathugasemdir um Ör og önnur vinsæl skáldverk“, Starafugl.is, 16. desember 2016, https://starafugl.is/2016/synt-gegn-straumnum-leidindaathugasemdir-um-or-og-onnur-vinsael-skaldverk/.

[36] Þýðingin er fengin af „Samtal í veislusal“, Bókaskápur Ástu S., 2. nóvember 2018, https://bokaskapurastus.wordpress.com/2018/11/02/samtal-i-veislusal/. Í frumtextanum segir, „Men først og fremmest ligner den et våben. Jonas bruger sin boremaskine – som skulle bruges som forberedelse til hans planlagte selvmord – til at hjælpe Mia og de andre kvinder i den lille by, der har noget, som de gerne vil have repareret, noget som er blevet ødelagt eller forsømt på grund af krigen. Og da han får muligheden for at reparere, får han også selv mere livsmod. Han er typen, der hjælper kvinder, ikke typen, der ødelægger“, sjá Klaus Rothstein, „Ikke meget at grine af“.

[37] Norden.org.

[38] Þetta minnir á það sem Slavoj Žižek hefur kallað „afneitun í gegnum hlutadýrkun“ (e. fetishistic disavowal) í Living in the End Times, London og Brooklyn: Verso, 2010, bls. 9 og víðar. Maður beinir sjónum sínum að tilteknum hlutum til að halda sig í öruggri fjarlægð frá trámatískum veruleika og skauta yfir hann. Með þeim hætti afneitar maður þekkingu sinni um þann veruleika og þykist ekki vita neitt um hann. Í tilviki Ör er borvél Jónasar einmitt notuð sem slíkt tákn til að afpólitísera algjöra yfirburði Vesturlandabúans og raunveruleg vandræði stríðshrjáðs fólks.

[39] Will Wright, Sixguns and Society: A Structural Study of the Western, Berkley, Los Angeles og London: University of California Press, 1975, bls. 32. Á ensku segir, „a lone stranger who rides into a troubled town and cleans it up, winning the respect of the townsfolk and the love of the schoolmarm“.

[40] Sama rit, bls. 41–48.

[41] Sama rit, bls. 49. Um hugmyndafræði vestra sjá líka Dai Jinhua, Film Criticism [电影批评], Beijing: Peking University Press, 2004, bls. 105; Franco Moretti, „Day and Night: On the Counterpoint of Western and Film Noir“, Far Country: Scenes from American Culture, New York: Farrar, Straus and Giroux, 2019, bls. 66–93.

[42] Í oríentalískri orðræðu er austrinu einmitt lýst sem vanþróuðu og frumstæðu svæði, „Oriental history […] was useful in portraying a region of great age, and what had to be left behind. […] As primitivity, as the age-old antetype of Europe, as a fecund night out of which European rationality developed, the Orient’s actuality receded inexorably into a kind of paradigmatic“, Edward W. Said, „Orientalism Reconsidered“, Cultural Critique 1/1985, bls. 89–107, hér bls. 94.

[43] Jón Yngvi Jóhannsson, „Loðir heimurinn saman á táknum?“, bls. 32. Ég held að með því að nota einmitt þetta orð – þó í kristilegu samhengi – impri Jón Yngvi einnig á þeirri hvít-bjargvættarkennd (e. white saviour complex) sem gegnsýri skáldsöguna.

[44] Handlagnir karlmenn sem byggja hús – í þessu sambandi er gaman að rifja upp smásögur Svövu Jakobsdóttur þar sem húsbygging og þjóðernistilfinning fléttast saman: „Slíkir tímar höfðu ekki komið yfir Ísland síðan á landnámsöld því að alla vantaði hús. Og þessi sameiginlega þörf landsmanna fyrir hús tengdi þá traustum böndum: þjóðin var samtaka byggingalið“, „Eldhús eftir máli“, Veizla undir grjótvegg, Reykjavík: Helgafell, 1967, bls. 65–72, hér bls. 67 (sbr. líka söguna „Myndir“, bls. 73–82). Boðar skáldsagan Ör þá nýja landnámsöld Íslendinga?

[45] Sbr. líka Aníbal Quijano, „Coloniality and Modernity/Rationality“, Culture Studies 2–3/2007, bls. 168–178; Walter D. Mignolo, The Darker Side of Western Modernity: Global Futures, Decolonial Options, Durham og London: Duke University Press, 2011, bls. 2.

[46] Auður Ava Ólafsdóttir, Ungfrú Ísland, bls. 164.

[47] Sjá Jón Yngvi Jóhannsson, „Loðir heimurinn saman á táknum?“, bls. 22–26; Einar Falur Ingólfsson, „Óður til karlmannsins“ [viðtal við Auði Övu Ólafsdóttur], Morgunblaðið, 8. desember 2007, bls. 3. „Það er fjallað um karlmannlega viðkvæmni og ýmislegt sem ég tengi við karlmennsku. Fyrir mér er karlmennska annars ofboðslega langt frá því að spóla um á stórum dekkjum. Þá er eitthvað að í þroska viðkomandi einstaklings. En ég er líka að skoða kvenleikann og markalínuna á milli kynjanna. […] Líkt og í fyrri skáldsögum hef ég sérstakan áhuga á hinum frábrugðna og að það séu þversagnirnar sem geri okkur mannleg“, segir Auður Ava í viðtalinu.

[48] Jón Yngvi Jóhannsson, „Loðir heimurinn saman á táknum?“, bls. 25.

[49] Sbr. Judith Butler, Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity, 2. útg., New York and London: Routledge, 1999 [1990]; Bodies that matter: On the Discursive Limits of “Sex”, London og New York: Routledge, 1993, sjá einkum bls. 15–16.

[50] Jón Yngvi Jóhannsson, „Loðir heimurinn saman á táknum?“, bls. 25.

[51] Sama rit, bls. 25.

[52] Sjá Slavoj Žižek, The Most Sublime Hysteric: Hegel with Lacan, þýð. Thomas Scott-Railton, Cambridge og Malden: Polity Press, 2014 [2011 á frönsku], bls. 66–67. Á ensku segir, „position of an extreme is not simply the negation of the other; it is, in its abstraction of the other, the other itself. At the moment where an extreme tries to radically oppose itself to the other, it becomes the other.“

[53] Um ramma sjá Slavoj Žižek, Event: Philosphy in Transit, London: Penguin Books, 2014, bls. 7–32. Žižek skilgreinir atburð (e. event) sem algjör rammaskipti: „a change of the very frame through which we perceive the world and engage in it“, bls. 10 (lebturbr. þar).

[54] Jón Yngvi Jóhannsson, „Loðir heimurinn saman á táknum?“, bls. 24.

[55] Sbr. líka „Þessi fínlega nálgun á karlmennskuna er með hápunktum bókarinnar en því miður er hún dregin jafnskjótt niður með því að hamra á því hvað langt sé síðan grey maðurinn fékk að sofa hjá. Hann veit upp á dag hvað er langt síðan, fer vel ofan í saumana á því hvað hann fékk mikið að ríða þegar hann var ungur og þegar hann loksins fær að sofa hjá aftur er það svo mikilvægt að það er tvítekið! Kynlíf er vissuleg mikilvægur partur af lífinu en klisjan að það sé ekki búið að „laga“ karlmanninn og sjálfsmyndina fyrr en hann fær að sofa hjá er ekkert sérstaklega spennandi, allra síst þegar nálgunin er svo klaufaleg“, Gréta Sigríður Einarsdóttir, „Synt gegn meginstraumnum“.

[56] Alaric Hall, Útrásarvíkingar: The Literature of the Icelandic Financial Crisis (2008–2014), Earth, Milky Way: Punctum Books, væntanlegt. Drög að ritinu er að finna á Academia.edu, https://www.academia.edu/35340298: „mainstream Icelandic culture cultivates an anxiety as to whether Icelanders really belong to the First World, and situates neoliberalism as a marker of belonging to this club. Of course, by lots of measures – among them standards of living, access to low-carbon energy, gender equality, and sexual freedom – Iceland is close to the cutting edge of what dominant Western discourses label ‘modern’: Icelandic culture may fall short of progressives’ aspirations for modernity on all these parameters, but less so than most of its competitors (even since the Crash)“, bls. 50; „the ongoing importance to the Icelandic self-image of abjecting foreign others, and particularly others from the post-colonial world“, bls. 65. Í kaflanum styðst Hall við rannsóknir Kristínar Loftsdóttur, Eiríks Bergmanns o.fl.

[57] Alaric Hall notar orðið þriðji heimurinn án þess að útskýra það nákvæmlega, en ég get samt alveg tekið undir það orðalag, þrátt fyrir alhæfingu, einsleitni og hugmyndafræðilega fordóma. Við Hall notum þá orðið fyrst og fremst í þeim tilgangi að lýsa þeim ímyndaða mismun sem Íslendingar vilja stilla upp á milli sín og vanþróaðra hinna, sem hafa verið titluð sem þriðji heimurinn, þó að úrelt sé (nú er gjarnan talað um norður og suður). Þannig notum við Hall, eins og Fredric Jameson, orðið einungis í lýsandi (e. descriptive) merkingu þess, sjá „Third-World Literature in the Era of Multinational Capitalism“, Social Text haust/1986, bls. 65–88, hér bls. 67.

[58] Sbr. „Ein af grundvallarspurningunum sem liggja að baki þessari bók er spurning sem brennur á mörgum Íslendingum: hvað get ég gert til að bæta heiminn? Þetta sat í mér eftir að ég heyrði fyrrverandi innanríkisráðherra segja í samhengi flóttamanna eitthvað á þá leið að Íslendingar vildu bjarga öllum heiminum og það strax í dag! Sem gagnrýni var þetta þó ekki gersneytt væntumþykju, svona væri þetta bara! Auðvitað er það fámennið – okkar mesti styrkur og veikleiki – sem gerir það að verkum að við eigum svona erfitt með að horfa í augun á manneskju og segja „farðu!“. Samhjálpin hefur verið það sem hefur bjargað þessu samfélagi í gegnum tíðina. Það hefur vissulega breyst en ég held að samkenndin sé samt enn mjög rík hjá stórum hluta Íslendinga. Ég fór því að velta fyrir mér hvort þetta væri það sem [við] hefðum fram að færa til umheimsins, fyrir utan listir og bókmenntir. Ég ákvað því að búa til þennan miðaldra, handlagna Íslending – Jónas þýðir dúfa og Ebeneser hinn hjálpsami – og senda hann út í heim. Hann er friðardúfa“, Kristján Guðjónsson, „Ég er að skrifa ljós gegn myrkrinu“.

[59] Í lok kvikmyndarinnar öðlast konan sálarró með því að ættleiða úkraínska stúlku, sem bergmálar sögulok Undantekningarinnar þar sem María, aðalsögupersóna, ættleiðir stúlku frá stríðshrjáðu landi. Kvikmyndin fékk kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, sjá https://www.norden.org/is/nominee/kona-fer-i-strid-island.

[60] Um Hatara sjá Nína Hjálmarsdóttir, „Að eigna sér baráttu annarra – Hatara í Eurovision“, Stundin.is, 23. febrúar 2019, https://stundin.is/grein/8474/.

[61] Kristján Guðjónsson, „Ég er að skrifa ljós gegn myrkrinu“.

[62] Auður Ava Ólafsdóttir, Afleggjarinn, bls. 271.

[63] Sjá Slavoj Žižek, Event, bls. 102.

[64] Auður Ava Ólafsdóttir, Undantekningin, bls. 142.

[65] Dai Jinhua, „The Missing Mother: A New Strategy for Paternity Narrative in Movies“, Journal of Hainan Normal University (Social Sciences) [海南师范大学学报(社会科学版)] 8/2015, bls. 94–107.

[66] Kristján Guðjónsson, „Ég er að skrifa ljós gegn myrkrinu“.

[67] Chandra Talpede Mohanty, „Under Western Eyes: Feminist Scholarship and Colonial Discourse“, boundary 2 3/1984, bls. 333–358, hér bls. 337. Sjá líka „Under Western Eyes Revisited: Feminist Solidarity through Anticapitalist Struggles“, Signs 2/2003, bls. 499–535. Er María í Undantekningunni, sem er iðin við hjálparstarf og bjargar „fórnarlömbum á jarðsprengjusvæðum“ (bls. 201), ekki einmitt svoleiðis kona? Auk þess sem aðalsögupersónur í skáldsögum Auðar Övu einkennast allar af þessum glæsileika – allar eru þær afar fallegt fólk í útliti.

[68] Gayatri Chakravorty Spivak, „Can the Subaltern Speak?“, Marxism and the Interpretation of Culture, ritstj. Cary Nelson og Lawrence Grossberg, Basingstoke: Macmillan, 1988, bls. 271–313. Þýðinguna „undirmálsvera“ er að finna í grein eftir Bjarna Bjarnason, „Venus Helena: Laxness, Drakúla og Makt myrkranna“, Skírnir vor/2017, bls. 115–137, hér bls. 122. Spivak endurskrifar sumt af greininni í A Critique of Postcolonial Reason: Toward a History of the Vanishing Present, Cambridge og London: Harvard University Press, 1999, og viðurkennir að undirmálsverur hafa talað, einmitt þar sem þaggaðniður í þeim, með líkömunum sínum, en þrátt fyrir það fær rödd þeirra ekki að heyrast – þess vegna geta undirmálsverur ekki talað, enda er aldrei hlustað á þær; þær eru fangnar í ógöngum (aporia) en þær veita einnig hamslaust viðnám með líkönunum sínum: „Between patriarchy and imperialism, subject-constitution and object-formation, the figure of the woman disappears, not into a pristine nothingness, but into a violent shuttling that is the displaced figuration of the “third-world woman” caught between tradition and modernization, culturalism and development. […] exemplum of the woman-in-imperialism would challenge and deconstruct this opposition between subject (law) and object-of-knowledge (repression) and mark the place of “disappearance” with something other than silence and nonexistence, a violent aporia between subject and object status”, bls. 304.

[69] Sbr. ósamræmi í skáldsögunni: „Öll þjáning er einstök og ólík […] og þess vegna er ekki hægt að bera hana saman“ (bls. 150); „Mínar rispur eru smávægilegar, hlægilegar“ (bls. 149). Björn Þór Vilhjálmsson segir í ritdómi sínum um Ör: „Hættan sem Auður stofnar frásögninni er að fyrri hluti skáldsögunnar þoli illa eða ekki ómælanlega þyngd og byrði hörmunganna í þeim seinni. Ennfremur óttast lesandinn að Jónas öðlist meðvitund um það hversu hlægileg hans vandamál eru í samanburði við eftirköst borgarastríðs, þjóðarmorðs og nauðgunarbúða. Óttast vegna þess að „þroski“ af slíku tagi væri verri en meðvitundar– og skilningsleysi fyrra tilvistarstigsins. Í slíkri „sviðsmynd“ væri síðari hluta skáldsögunnar stillt upp sem eins konar heilsubótarferð fyrir Jónas sem þurfti aðeins dálitinn katastrófutúrisma til að stilla viðmiðin upp á nýtt og setja góssenlandið Ísland í perspektíf. Þar með væri jafnframt látið af sjálfsvígshugsunum“, Hugrás.is, 23. febrúar 2017, http://hugras.is/2017/02/feigdarflan/. – Hvað þessi orð í viðtengingarhætti lýsa skáldsögunni vel. En Björn Þór heldur áfram: „Auður teflir djarft en hún uppsker í samræmi við það. Höfundur stillir ekki upp auðveldum samanburðarlíkönum heldur lyftir frásögninni upp þannig að skáldsagan sem heild svífur hátt yfir tvenndarhyggjunni sem rædd er hér að ofan, og það er gert með heimspekilegu viðhorfi, vitsmunalegri úrvinnslu, miklum húmor og gegnheilli afstöðu þar sem möguleika hugverunnar á tilvistarlegri reisn er haldið til haga, hvort sem vitundin sem um ræðir sprettur úr öryggi og velsæld eða hörmungum og stríði.“ – Ó veröld ný og góð.

[70] Gayatri Chakravorty Spivak, „Three Women’s Texts and a Critique of Imperialism“, Critical Inquiry 1/1985, bls. 243–261, hér bls. 253. Á ensku segir, „No perspective critical of imperialism can turn the Other into a self, because the project of imperialism has always already historically refracted what might have been the absolutely Other into a domesticated Other that consolidates the imperialist self.“ Sjá líka A Critique of Postcolonial Reason, bls. 130.