Eftir Stefán Jón Hafstein
Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2011
Það eru ekki margir 300 þúsund manna hópar í heiminum sem búa við jafn mikinn auð og Íslendingar. Er þá átt við hópa sem mynda samfélag sem stendur undir nafni. Stöku olíuríki skákar okkur í auði á mann; þjóðartekjur eru hærri sums staðar annars staðar. Ef leitað er að félagsheild sem hefur yfir vel afmörkuðu og nægu landrými að ráða, miklum náttúruauðævum og gæðum í formi vatns, orku og menningarsögu sem skapar samfélagsvitund, þá eru fáir jafn vel settir á jarðarkringlunni. Enda hafa Íslendingar verið ofarlega á lista Sameinuðu þjóðanna yfir ríki sem búa við mesta hagsæld, og jafnvel komist í efsta sæti. Samt logar samfélagið stafna í milli. Þetta sundurlyndi ógnar velsæld Íslands. Samfélagsgerðin gæti hrunið og Ísland orðið ríkislíki þar sem örfáir útvaldir éta upp auðævi landsins. Í húfi eru gríðarlegir efnahagslegir og menningarlegir hagsmunir að vel takist til við að endurreisa Ísland eftir Hrunið og hið Nýja Ísland verði réttnefni.
Í þessari grein set ég fram tillögur að því hvernig megi skoða rætur Hrunsins í stærra samhengi og frá víðara sjónarhorni en á andapolli íslenskra stjórnmálaflokka hverju sinni. Ég er alls ekki sannfærður um að rekja megi rætur Hrunsins til „nýfrjálshyggju“ á fyrsta áratug nýrrar aldar eins og margir vilja. [1] Ég er ekki heldur sannfærður um að bankahrunið á Íslandi í október 2008 hafi einvörðungu verið óviljaverk bankafúskara sem illu heilli komust yfir óhóflegt lánsfé erlendis, þótt það sé birtingarform Hrunsins ásamt vanhæfni þeirra stjórnmálamanna og stofnana sem áttu að gæta almannahagsmuna. Rætur þess liggja dýpra. Þá tel ég að margvísleg mistök vinstri manna og félagshyggjufólks á árunum fyrir Hrun hafi átt sér mun lengri forsögu en bara í daðri við „blairisma“ eins og núverandi formaður Samfylkingarinnar hefur látið að liggja – og margir fleiri. [2] Setja má fram þá tilgátu að Hrunið á Íslandi hafi verið óumflýjanlegt, það sé bara söguleg tilviljun að það varð með þeim hætti sem birtist okkur. Undirrótin var víðtæk spilling á Íslandi sem ristir dýpra en gott er að viðurkenna. [3]
Frjálshyggjuhrun?
Enginn efi er á því að heimshrunið sem varð 2007–2008 átti rætur í skefjalausum uppgangi fjármálakapítalisma og stigvaxandi áhættusækni. Vissulega smitaði þetta Ísland. Viðskiptahömlum var létt af fjármálafyrirtækjum og nánast óskiljanlegar fjárglæfrafléttur urðu til. En svona kreppur eru ekkert nýnæmi heldur hluti af hinu alþjóðlega kapítalíska kerfi. Það þarf ekki nema nýstúdent úr máladeild til að skilja það. Josep Stiglitz (Making Globalization Work) og Niall Ferguson (The Ascent of Money) gefa hnattræna og sögulega yfirsýn um endalausar kreppur fjármálakerfisins sem er orðið svo háþróað í tækni sinni og hömluleysi að hvorki þjóðríki né þau sjálf ráða við. Ferguson er reyndar svo alúðlegur að bjóða upp á sálrænar en ekki bara hagrænar skýringar á hrasgirni fjármálakerfisins og er það einkar fróðleg lesning á niðurlagi bókar sem kom út um miðbik ársins 2007, þegar fæstum var ljóst að enn ein kreppan var að skella á. En stjórnmálamenn og fjármálafurstar halda eilíft að síðustu kreppunni hafi verið náð og „lærdómar“ nægir. Þetta er nefnt hér til að benda á að það þarf enga yfirburðamenn eða sérþekkingu um umheiminn (svo sem um fjármálakreppuna í S-A Asíu undir lok 20. aldar) til að skilja að ástandið á Íslandi eftir 2000 var stórhættulegt. [4] Þá er ég ekki að tala um „viðvörunarbjöllur“ frá Danske Bank og öðrum útlendum dónum, heldur bara vitneskju sem liggur fyrir – alls staðar. Jafnvel í fréttatímaritum. The Economist birti forsíðugrein árið 2002 um að eignabólan sem þá var að hefjast gæti aldrei staðist. Það þarf því ekki mikið til, og jafnvel innanlands voru menn eins og Þorvaldur Gylfason og nokkrir fleiri sem skrifuðu í sama anda. Sú fáfræði sem einkennir hagstjórnarmistökin á Íslandi eftir 2000 skrifast engan veginn á „frjálshyggju“ sem hugmyndafræði. Við erum að tala um hreint og klárt fúsk. Ásgeir Friðgeirsson kallar það „hrun vitsmuna“, í lýsingu á því hvernig heilbrigð skynsemi og betri vitund véku fyrir dellunni sem óð uppi. [5]
Mitt svar er: Hagsmunir.
Herfangið var í boði og menn hegðuðu sér eins og hver annar skelfir hlaðborðanna: Fyrstir koma fyrstir fá. Fúskinu var gefið yfirbragð hugmyndafræði og kennisetningar og „alvöru pólítíkur“… [6]
Hvort það var ríkisstarfsmannahópurinn sem kenndi sig við Eimreiðina eða hluti af honum sem trúði því í alvöru að Ísland væri á leið til markaðsvæðingar skiptir engu máli. „,Þú kannt að láta það heita eitthvað,“ sagði Kári, vinur minn heitinn, faðir Einars rithöfundar, þegar honum líkaði við sögurnar, og þannig var um „frjálshyggjuna“ á Íslandi. Þetta barst með sunnanvindinum síðustu tvo áratugi 20. aldarinnar og tók á sig mynd „hugmyndafræðilegrar“ baráttu sem frjálshyggjumenn töldu sig hafa sigrað í við fall Berlínarmúrsins, kjör Davíðs Oddssonar og einkavæðingarferlisins sem byrjaði undir forystu Alþýðuflokksins löngu fyrir daga gróðærisins brjálaða.
Frá sjónarhóli leikmanns er (ný)frjálshyggja hugmyndafræði sem hvetur til minni ríkisafskipta, aukinnar markaðs- og samkeppnisvæðingar, ábyrgðar einstaklingsins á gerðum sínum í stað félagslegra lausna og almennt talað: Auðhyggju. Í stjórnartíð Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde var þetta flest þverbrotið: Ríkisafskipti jukust stórkostlega, skattar sem hluti af þjóðarframleiðslu fóru upp, ríkisstarfsmönnum fjölgaði um nær 50% síðustu 10 árin fyrir Hrun, ríkisstofnunum um nokkra tugi, samþjöppun og réttnefnd einkavinavæðing réðu för en ekki samkeppnisvæðing. [7] Mörg sveitarfélög fóru sömu leið og greindi ekki að þau sem lutu stjórn Sjálfstæðisflokksins eða annarra. [8] Eitt megineinkenni á stjórn Sjálfstæðisflokksins áratuginn fyrir Hrun er útþensla ríkisbáknsins. Tímabilið einkennist þó vissulega af einum þræði frjálshyggjunnar, sem er auðhyggja. Ójöfnuðurinn sem stórjókst á Íslandi á sama tíma er ekki hugmyndafræðilegt keppikefli frjálshyggju í sjálfu sér þótt stundum sé hann óhjákvæmilegur fylgifiskur. Hvers vegna mótstaðan klikkaði er svo löng saga, en í stuttu máli voru það „pólitísk uppkaup“ arðræningjanna. Ég hef mína tilgátu um þau og kem að síðar. [9]
Enn, þremur árum eftir Hrunið, eru íslenskir vinstrimenn í slag við frjálshyggjuna þegar þeir ættu að einbeita sér að spillingunni. Því hún er kjarninn í íslensku leiðinni.
II. Íslenska leiðin, spilling í skjóli auðs
Í öllum þeim ósköpum sem dundu á kringum Hrunið sat ég suður í Afríku og las sögu nýfrjálsu ríkjanna þar. Þau eru flest örlítið yngri en íslenska lýðveldið, stofnuð í kringum 1960, og af mun meiri vanefnum. Ég hélt lengi vel að Ísland með „sína sterku lýðræðishefð“ og nýfrjálsu ríkin í Afríku og víðar væru ósambærileg. Eftir því sem fleiri steinum var velt í Hruninu, og allt fram á þennan dag, og meira og meira ógeð kemur í ljós, verður manni hugsað til afríska ástandsins. Hvar tæma menn seðlabanka? Hvar eru auðlindir settar í fárra manna hendur? Hvar eru ríkisfyrirtæki afhent klíkubræðrum? Hvar eru kjánasamningar gerðir við erlenda auðhringi? Hvar var Kalda stríðið notað í auðgunarskyni fyrir fáa útvalda? Á haustmánuðum 2008 varð mér stundum illt að lesa The State of Africa eftir sagnfræðinginn Martin Meredith samtímis fréttum að heiman. Bókstaflega illt.
Hér er stutt endursögn um afríska stjórnmálamenn frá Meredith þar sem hann lítur yfir sviðið hjá nýfrjálsu ríkjunum á tilteknum tímapunkti:
Völd þeirra teygðu sig inn í alla kima samfélagsins. Þeir kusu síður að stjórna eftir skráðum reglum, stjórnarskrá eða föstum skorðum í regluverki stofnana, heldur með því að byggja upp stórt úthlutunarkerfi (patronage) sem skóp þeim veitingavald og hollustu. Þingin voru fyllt af stuðningsmönnum sem höfðu sannað sig með hlýðni. Verkalýðsfélög og bændasamtök (hér vantar atvinnurekendafélag fyrir íslenska samhengið) voru sveigð undir hið pólitíska valdakerfi. Pólitísk umræða fór fram með slagorðum og lofsöngvum sem enginn tók alvarlega. Tækifærið til að sölsa undir sig auð og veitingarvaldið yfir honum bjó til það „sement“ sem nægði til að festa völd í sessi. Til ráðstöfunar voru ekki bara störf í ráðuneytum, á þingum, og í stjórnsýslu, heldur í ríkisfyrirtækjum þar sem ríkið var einn stærsti atvinnurekandinn og handhafi hlunninda. Verktakar og fyrirtæki fengu aðgang í gegnum kerfið, ákvarðanir voru iðulega teknar í gegnum persónuleg tengsl með viðeigandi skuldbindingu á báða bóga. Veitingarvaldið teygði sig frá æðstu ráðamönnum út í héruð og sveitir. Á hverju stigi voru „stóru mennirnir“ sem kunnu á kerfið, sköffuðu stuðningsmönnum vinnu og verkefni gegn pólitískum stuðningi. Til að viðhalda stuðningi þurfti að tryggja meiri úthlutun. Valdi voru settar fáar skorður, það safnaðist á fárra hendur, ákvarðanir teknar eftir geðþótta en ekki með samráði við þá sem gerst vita og kunna.
Er nokkur furða að manni hafi orðið illt? Og svo kom staðfestingin á Íslandi frá þeim allra innvígðasta og innmúraðsta í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis: „Þetta er ógeðslegt samfélag, engin prinsipp, engar hugsjónir. Það er ekki neitt, bara tækifærismennska og valdabarátta.“ [10] Rannsóknarnefndin sjálf tók undir þessa lýsingu með eigin orðum: Engin reglufesta og slóð ákvarðana óljós og ógagnsæ hjá fáum útvöldum. Nákvæmlega.
Samtvinnaðir bölvaldar
„Böl náttúruauðæfanna“ er vel þekkt þversögn sem hagfræðingar hafa bent á og er alþekkt víða í hinni auðugu Afríku. Stysta leiðin að auði liggur að náttúrugóssinu. Allt snýst um tak á „auðlindarentunni“. Þar skipta pólitísk völd, úthlutun gæða, hollustukerfi og „ættbálkabönd“ mun meira máli en verðleikar og hæfni. Hagfræðingar kunna að skilgreina hvernig auðlindaarðurinn (rentan) skapar misgengi í hagkerfinu, það snýst um að fleyta rjómann ofan af herfanginu sem náttúran gefur, en ekki um skapandi atvinnuvegi, vel rekin fyrirtæki, auðsköpun í krafti mannvits. „Frjáls“ samkeppni fær ekki þrifist, hvorki milli atvinnugreina né fyrirtækja. „Ruðningsáhrifin“ gegn nýsköpun eru bæði hagræn og pólitísk. Hin pólitíska hagfræði bendir svo á að þessu samfara rísi upp arðránskerfi þar sem miklu meira er upp úr því að hafa að „spila rétt“ en vinna vel. Sambönd og úthlutun eru mikilvægari en verðleikar og framsókn í fjölbreyttu atvinnulífi. Kannast einhver við Ísland?
Undir þessum kringumstæðum snúast stjórnmálin um herfang, aðgang að auðlindum og því hvernig afrakstri er dreift milli valinna hópa sem eru undirstaða stjórnmálavalds. Þessari hringrás þarf að viðhalda með stigvaxandi arðráni og yfirbyggingu klíkuvelda sem verða æ þyngri á fóðrum.
Það mætti ætla að í okkar einsleita og smáa þjóðríki séu kjöraðstæður til að koma í veg fyrir böl margra afríkuríkja – ættbálkaskiptinguna (tribalism). Samkvæmt henni kemur ættbálkurinn fyrst, þorpið, staðurinn, frændur og vinir – hópurinn. Abstrakt hugmyndir eins og „almannahagsmunir“, „gagnsæi“, „stjórnsýsla“ „valddreifing“ eru merki um miklu þroskaðri samfélög þar sem búið er að setja regluverk um samskipti í stjórnmálum, efnahagslífi, félagsmálum og menningu. [11] Ísland er miklu nær ættbálkasamfélaginu. Þetta sjáum við í hegðun stjórnmálaflokka, landshlutaafla í gegnum „heimamannasyndrómið“ þar sem hollusta við hjörðina kemur á undan hugmyndafræðilegum átökum eða verðleikum. Hollusta er forsenda þess að fá að njóta afraksturs. [12]
Höfðingjaveldi er skýrt einkenni á svona kerfi. Höfðinginn kemst í úthlutunarstöðu (ráðherra, landsbyggðarþingmaður, formaður, stjórnandi í úthlutunarnefnd, stjórn Byggðastofnunar eða annarri sjóðastofnun). Fólk þarf að biðla til höfðingjanna, í stað þess að gagnsætt kerfi skipi því rétt sem það sækir. Höfðingjar vilja ekki að almenningur hafi réttindi, heldur sæki til þeirra persónulega og fái úthlutað af náð. Verðmætum og vegtyllum er dreift af höfðingjum sem ríkja í krafti „ættbálksins“ [13]. Því ógleggra sem regluverkið er og ógagnsærra því betra fyrir höfðingjaveldið. Eitt af lykilatriðum í því er að valdsskorður séu óskýrar og viðurlög nánast engin, svo auðvelt sé að taka áhættuna af því að skandalísera öðru hverju. [14]
Þessi kerfi lifa ekki í stöðnun og verða sífellt fyrir áreiti. Á Íslandi höfum við ekki her eða lögreglu sem lemja niður mótmæli og drepa fólk. Við höfum ekki séð taumlausa einkagróðamenn við pólitísk völd í anda afrískra „keisara“ sem sópa þjóðarauði í einkafjárhirslur erlendis. (Sjálftöku þekkjum við hins vegar innan úr kerfinu (eftirlaunafrumvarpið alræmda) og fleira sem kemur kerfinu í vörn). [15] Á Íslandi og í mörgum öðrum þróunarríkjum (við vorum formlega skilgreint þróunarland fram á áttunda áratuginn) varð gagnrýnin svo megn að höfðingjaveldið varð að skipta um taktík. Klíkukapítalismi (crony capitalism) varð ofaná. Frá sjónarhóli ríkjandi valdaflokka, t.d. Sjálfstæðisflokksins, er þetta rökrétt: Breyta opinbera styrkjakerfinu (sem aðrir flokkar gátu stundum notað) í einkastyrkjakerfi þar sem Flokkurinn var miðpunktur. Frjálshyggjan var kjörin yfirbreiðsla til að gefa þessum aðgerðum hugmyndafræðilegt vottorð. Spillingin var einkavædd. Þetta var auðvelt við kringumstæðurnar hér á landi eftir aldamót eins og Gunnar Karlsson sagnfræðingur lýsir skilmerkilega í grein sinni „Til varnar lýðræði“ í TMM (maí 2010):
… í samfélagi okkar er afar sterkur valdhafi sem lýtur ekki valdi lýðsins, og það er vald fjármunanna, auðvaldið. Meginskyssa Íslendinga og meginástæðan til þess hruns sem hér varð er að auðvaldinu var allt of lengi þolað að ríkja yfir ríkisvaldinu […]. … á áratugunum í kringum aldamótin 2000 fékk (Sjálfstæðis) flokkurinn nýtt tækifæri til að keyra hagkerfi okkar út í ógöngur. Hann eignaðist samstarfsflokk sem var búinn að missa allt samfélagshlutverk og þar með stefnu, aðra en að hlaða undir flokksgæðinga. Svolítil hlutdeild í ókeypis fiskveiðikvóta og gefins ríkisbanki nægðu til þess.
Klíkukapítalismi felur í sér að á yfirborðinu eru opinber völd og pólitísk áhrif innan úthlutunarkerfsins lögð niður og færð í hendur „einkaframtaks og markaðar“. Í nafni réttlætis. [16] En þess er gætt að aðferðin lúti lögmálum úthlutunarkerfisins og rjúfi ekki þau mikilvægu tengsl sem höfðingjaveldið hafði komið sér upp. Ísland á tímum einkavæðingar er erkidæmi um þetta. Þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, Styrmir Gunnarsson, lýsti þessu beint með Landsbankann þar sem hann sagði að einkavæðing hans hefði farið fram með því skilyrði að Sjálfstæðisflokkurinnn væri í „talsambandi“ við bankann. Enda framkvæmdastjóri flokksins gerður að bankaráðsformanni, saga sem best ætti heima í Simbabwe af öllum ríkjum. Enn eigum við Styrmi Gunnarssyni skuld að gjalda með kafla hans um sægreifaveldið í þeirri annars slæmu bók: Umsátrið. Sá kafli er afhjúpandi í stuttu máli og lýsir vel hvernig pólitíska valdið færir úthlutun auðæva á fárra hendur og verður svo sjálft háð þeim sem véla með þau. Með efnahagslegu veldi sægreifanna langt umfram annað fólk í landinu í skjóli einkaréttar til að nýta auðlindina öðlast þeir pólitísk völd og herða enn frekar þennan hnút sníkjulífs milli úthlutunar og hollustu. Skrattinn hittir að lokum ömmu sína: Þiggjandinn verður veitandanum sterkari.
Hvers vegna ríkisbákn?
Leiðin frá hreinu úthlutunarkerfi til klíkukapítalisma kallar ekki nauðsynlega á þenslu í ríkiskerfinu eins og Sjálfstæðisflokkurinn rak á veltiárunum. Þvert gegn hugmyndafræðinni. Það gerir hin pólitíska nauðsyn hins vegar. Margvísleg „pólitísk uppkaup“ eru framkvæmd gegnum ríkiskerfið til að tryggja það „sement“ sem Meredith talar um. Á Íslandi snýst þetta fyrst og fremst um millistéttina á kosningaárum. Ríkisvaldið er framkvæmdaarmur flokksins og ríkissjóður kosningasjóður. [17] Ég viðurkenni að lengi vel skildi ég hreinlega ekki þá „mannvonsku“ sem mátti sjá magnast á veltiárunum fram að Hruni. Ein lítil Barna- og unglingageðdeild var að þrotum komin samtímis gegndarlausu sukki í gæluverkefnum ríkisins, svo dæmi sé tekið. Ástæðan var einfaldlega kaldrifjuð en rökföst ákvörðun um að hliðra þannig auði í íslensku samfélagi að til yrði nægilega sterk og eigingjörn millistétt að hún tæki aldrei sénsinn á því að kjósa einhvern annan flokk en flokk hinnar sterku íslensku krónu. Og svo auðvitað gæðingaeldið í stóru og smáu. Það er því engin innri mótsögn milli klíkukapítalisma og útþenslu ríkisbáknsins – en hvorugt er merki „frjálshyggju“.
III. Ísland sem rányrkjubú
Tilgáta mín er því sú að löngu fyrir bankaruglið hafi verið búið að leggja grunn að hruni á Íslandi. Hér þróaðist spillt stjórnmálalíf í hagkerfi þar sem náttúruauðævum var sóað og rjóminn fleyttur endalaust þar til grunlausir útlendingar stóðu uppi með 7400 milljarða tap á því að lána inn í þetta hagstjórnarsukk – og gjaldmiðillinn aðeins 0,01% af upphaflegu verðgildi.
Förum hratt yfir sögu hins unga lýðveldis, sem aðeins varð til 16 árum á undan fyrsta Afríkuríkinu, Gana.
Það fékk í vöggugjöf mestu þróunaraðstoð á mann sem þekktist meðal stríðshrjáðra þjóða Evrópu og hafði þó sloppið að mestu við stríðsskaða. Það var hins vegar landfræðilega staðsett á viðkvæmum þyngdarpunkti næsta stríðs, Kalda stríðsins, og mjólkaði þessa nýfundnu auðlind – hernaðarlegt mikilvægi – óspart. Af veru bandaríska hersins spruttu mikil auðævi sem komu beint og fyrirhafnarlaust upp í hendur þjóðar innar eins og gullgæs. Valur Ingimundarson metur herstöðina á sínum tíma til 18–20% af útflutningstekjum. [18] Nokkrum fjölskyldum var úthlutaður einkaréttur á viðskiptum við gæsina (Íslenskir aðalverktakar) en þess gætt að pólitíska úthlutunarverkið fengið sinn hlut til dreifingar gegnum ríkisbankakerfið. [19]
Hafta- og skömmtunarstjórnin á Íslandi frá því fyrir stríð og fram undir Viðreisnarstjórn er svo alræmd fyrir spillingu að ekki þarf að rekja. [20] Aðeins nægir að minnast á hugtakið „helmingaskipti“ milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem ég hygg að fáir mótmæli í dag. Það sem má velta fyrir sér er hins vegar hvernig þetta kerfi spillti, ekki bara stjórnmálaflokkum, -mönnum og lýðræðisþróun í landinu – heldur þjóðinni allri, sem lærði að lifa við og með spillingunni. Olíusala, heildsalaumboð með tyggjó eða leikföng – allt varð að gulli í skjóli einokunarleyfa. „Sambönd“ var það sem hið unga lýðveldi ræktaði, ekki lýðræði.
Á verðbólguárunum sá bankakerfið um að brenna upp sparnað alþýðufólks með því að úhthluta gegnum klíkubankanna því fé sem aldrei þurfti að borga aftur að raunvirði. [21] Ekki hefur þjóðin fyrr unnið sína fyrstu alvöru sjálfstæðisbaráttu, þorskastríðin, en gegndarlaus ofveiði og rányrkja (niðurgreidd af opinberum skömmtunarsjóðum) verður afsökun fyrir því að hreinsa til og búa til nýja stétt auðmanna á Íslandi: Sægreifana.
LÍÚ-veldið eignast sinn eigin stjórnmálaarm í öllum flokkum (með beinum og óbeinum úthlutunum) þar sem forréttindakerfið nærir sig sjálft á kostnað þjóðarinnar. Ætli það hafi ekki verið hin dæmigerðu 3% sem nutu góðs af? (Talan er fengin úr bók Merediths sem segir að yfirleitt séu elítur og forréttindastéttir ekki mikið stærri en svo). Sagnfræðingar munu að líkindum sýna hvernig þarna slitnar þjóðfélagssáttmálinn og hreint siðrof verður í smáum kjarnasamfélögum við strendur landsins.
Þegar hér er komið sögu er landbúnaðarkerfið orðið sjálfgengisvél, heljarmikil niðurgreiðslumaskína sem Framsóknarflokkurinn byggir tilveru sína á gegnum SÍS; ógrynni fjár er dælt frá almenningi út í gegnum smákóngaveldi inn í innstu dali og út á ystu nes. (Loks hrynur það veldi en auður sem safnað var með félagslegum styrk gufar upp eins og fyrir sjónhverfingu inn í klíkukerfi). Samtímis eru allir flokkar jafn sekir um þann tilgangslausa fjáraustur sem fer í gegnum alls konar „landsbyggðarstyrki“ sem eru ódulbúin hollustukaup í kjördæmum sem hafa tvöfalt eða þrefalt atkvæðavægi á við vaxandi þéttbýli.
Þegar loks orkusalan getur mögulega orðið arðvænleg útflutningsgrein er hún skipulögð gegnum pólitíska úthlutunarkerfið og látin niðurgreiða höfðingjaveldið; Kárahnjúkavirkjun er reist með veði í skattfé almennings því hún stenst ekki markaðskröfur þótt hún fullnægi þörf stjórnmálastéttarinnar fyrir hollustukaup. Kapphlaupið um að bræða ál og setja öll orkuegg þjóðarinnar í þá einu körfu er kapphlaup smákónganna með tilheyrandi skóflustungum. [22]
Undir lok 20. aldarinnar hefði þetta kerfi átt að vera komið að niðurlotum því lítið var eftir afgangs nema opna 1–2 álver í völdum kjördæmum og byrjað að skuldsetja útgerðina miskunnarlaust til að mergsjúga og flytja gróða undan sköttum í felufélög erlendis. Þá opnaðist óvænt ný auðlind: Erlent lánsfé. [23] Allt í einu má auka verðmæti íslensku bankanna og fyrirtækjanna margfalt, þau eru látin sjúga upp erlend lán eins og hvern annan makrílstofn með lýðveldið sjálft að veði.
Svo kemur hið óumflýjanlega Hrun. Það sem leit í fyrstu út eins og fjármálahrun hefur síðan afhjúpað spillingardýki þar sem ekki stendur steinn yfir steini. [24] Sjálfsmynd þjóðarinnar hrynur.
En myndin sem við blasir er miklu dekkri en bara óstjórn á öllum sviðum. Íslenska kerfið byggir á þaulskipulagðri andstöðu við verðleika.
IV. Gegn lýðræði, gegn verðleikum
Hvers vegna að rifja upp þessi almæltu tíðindi úr sögunni? Fyrst, til að minna okkur á að Hrunið í október 2008 var ekki bara óveður frá útlöndum, eða vegna framgöngu óráðvandra manna, heldur rökrétt niðurstaða af áratuga langri óstjórn. Í öðru lagi til að undirstrika að endurreisn Íslands er ekki bara spurning um „frjálshyggju“ andspænis „norrænni velferð“ heldur spurning um að endurreisa lýðveldið á lýðræðislegum háttum. Í þriðja lagi til að greina betur þann vanda sem nú er við að glíma, því gamla kerfið leiddi yfir okkur galla sem verður að taka á.
Stjórnmálakerfið er gjaldþrota. Úrslit sveitarstjórnarkosninganna 2010 sýndu að í öllum stærstu sveitarfélögum landsins hafnaði almenningur gamla fjórflokkakerfinu, sem formaður Samfylkingar lýsti „dautt“ á kosninganótt. Níutíu prósent þjóðarinnar vantreysta Alþingi. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar hefði með réttu átt að kalla á afsögn Alþingis (sem átti að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu í undanfara Hrunsins), en varð þess í stað enn eitt bitbeinið með tilheyrandi klofningi þingsins og virðist ekki ætla að leiða til annars en að gera Geir Haarde að allsherjar blóraböggli. [25] Könnun í ágúst 2011 sýnir full komna fyrirlitningu almennings á öllu stjórnmálakerfinu. Raunar var stjórnmálakerfið rúið trausti löngu fyrr og það er rétt að muna ef menn vilja minnast „gullaldaráranna“. [26] Það stjórnmálakerfi sem þróaðist í íslensku spillingunni er handónýtt, því það byggir tilveru sína og framgang stjórnmálamanna á henni. Þeir sem ekki vilja taka þátt í „geiminu“ er útilokaðir. Hæfileikar miðast við hollustu og sköffun, framgangur við að samsama sig kerfinu. Þeir hæfustu hrynja af. En afleiðingin er verri. Þeir sem sanna sig í „geiminu“ og komast til æðstu metorða gera það í krafti hæfileika sem hafa ekkert að gera með góða stjórn á landi. Hæfni til að komast langt í pólitík sannar ekkert um getu til að ráða ráðum um hag lands og þjóðar. Þetta tekur á sig ótrúlegar myndir hin síðari misseri þegar óumflýjanlegt uppgjör stendur yfir. Reynsluleysi og vanþekking er talin haldbær málsvörn fyrir stjórnmálamenn og embættismenn sem áttu að gæta fjöreggs Íslands.
Alls staðar þar sem svona afránskerfi ræður veikir það efnahagslífið og fyrirtækin, því verðleikar eru verðminni en sambönd og klíkuskapur. Við fáum verri fyrirtæki með lélegri stjórnendur en ella. Þegar þessi innanmein grassera áratugum saman er ekki von á góðu. Íslenskir kapítalistar fá ekki þann skóla sem þeir þurfa eins og sannaðist með eftirminnilegum hætti þegar þeir stungu sér í djúpu laugina. Persónuleg gjaldþrot þeirra og fyrirtækjahrun nálgast heimsmet. Að þessu leyti eiga íslenskir stjórnmálamennn og fjármálamenn samleið.
Spilling veikir stjórnsýsluna. Höðingjaveldið byggir úthlutun á ógagnsæi og eftiráreglum; stjórnsýslan – lög og reglur, eftirlitsstofnanir og aðrar þróaðar aðferðir við að auka gegnsæi og réttlæti – ætti að setja lélegum stjórnmálamönnum skorður og lágmarka þann skaða sem þeir geta valdið. Hún verður þvert á móti handbendi þeirra. Það gerist með því að raða „sínum mönnum“ á pósta og tryggja að regluverkið sé ekki til staðar eða virki ekki – og sé alveg örugglega án viðurlaga. [27] Á Íslandi voru jafnvel ekki einföld grundvallaratriði tryggð, eins og að halda fundargerðir, minnisblöð eða skýrslum til haga. Hámenntað fólk.
Spillingin veikir lýðræðisþroska því almenningur fær skömm á kerfinu en samsamar sig því einnig í sjálfsbjargarviðleitni. Íslenski kjósandinn er ekki undanþeginn ábyrgð á þessu framferði áratugum saman. Hann kaus sægreifakerfið, hann kaus „fjölskyldukort“ Framsóknarflokksins, hann kaus mennina sem gáfu bankana. Ekki af heimsku. Heldur af því að hann var vanur því að þetta væri leiðin til að tryggja sér mola. Og meðan nóg var til skiptanna var það vissulega leið. [28]
Þegar litið er yfir sviðið: Stjórnmál, atvinnulíf, stjórnsýslu, þá vinnur þetta kerfi í heild gegn verðleikum. Þetta er kjarni málsins og veldur stöðnun á mörgum sviðum á Íslandi. Okkur leiðst að umbera fúsk af því að hér var „almenn velmegun“ – byggð á stigvaxandi skuldsetningu og rányrkju. [29]
Smæðin gerir illt vera
300 þús manna þjóð getur ekki átt nema einn góðan fótboltamann í einu, og hann verður aðeins góður með því að spila með bestu liðum heims. Pepsídeildarmenn verða aldrei heimsklassamenn. Eins er þetta í stjórnmálum, bisness, menningu og félagsmálum: Fólkið okkar fær ekki nægilega agaða skólun á mikilvægum sviðum. Með fullri virðingu fyrir Vöku og Röskvu í Háskóla Íslands þá eru þessi stuðboltafélög ekki æfing í landstjórn. Þetta fámennisböl Íslands kemur ofan á spillingarkerfið. Þetta er auðvelt að sýna með dæmum: Listamenn okkar lifa við alþjóðleg viðmið og verða að bera sig saman við það besta, þeir fá ögun og hvatningu utan frá. Í náttúruvísindum geta fræðimenn okkar ekki kjaftað sig í gegnum fræðin því agi kemur með vísindalegum kröfum og aþjóðlegri rýni. Í fjölmiðlum, pólitík og bisness geta menn kjaftað sig í gegnum kerfið og komist til verulegra álna og áhrifa umfram raunverulega getu – passi þeir að spila rétt. [30]
Afleiðingin af þessu skipulagða and-verðleika samfélagi er mjög slæm fyrir Ísland vegna smæðar samfélagsins. [31] Heilbrigð samkeppni, ögun og þjálfun sem menn sækja til að nýta verðleika sína þrífst ekki. Fyrirtækin eru rekin af vel tengdum pabbadrengjum, stjórnmálin af sérhæfðum valdafíklum, kerfið af þiggjendum og sporgöngumönnum – en ekki sjálfstæðum leiðtogum. Íslenski samfélagsskólinn er fámennur, veikur og letjandi. [32] Hér glímum við ekki bara við það að pólitískum venslamennum er hyglað – smátt og smátt læra hinir að ekkert þýðir að bjóða fram krafta sína. Við fáum ekki bara kerfi sem upphefur þá löku heldur rekur burt þá hæfu. Niðurstaðan er rökrétt: Öll pólitík verður persónupólitík. Ef til vill er höfuðgallinn við kenninguna um frjálshyggjuhrunið að gleyma þessu grundvallaratriði í íslenskri stjórnmálamenningu: Hún er óskiljanleg ef menn vita ekki hver er hvurs og hvurs er hvað. [33]
Sagan er rík af svona dæmum: Smám saman rís hátimbrað sköffunarkerfi sem getur verið ákaflega ríkt í skjóli náttúruauðlinda sem virðast óþrjótandi en er dæmt til þess á endanum að hrynja undan yfirbyggingu forréttinda og arðráns þegar ekki verður lengra komist.
V. Villtist vinstrið?
Í hinu þrönga samhengi flokkastjórnmálanna árin fyrir Hrun er skiljanlegt að fólk eins og Jóhanna Sigurðardóttir kenni um undanlátssemi við vingulsháttinn í Tony Blair, að Jón Baldvin Hannibalsson efist um Samfylkinguna í samanburði við eigin formannstíð í Alþýðuflokknum, að Stefán Ólafsson prófessor geri upp við frjálshyggjuna og Ingibjörg Sólrún lýsi henni eins og „tilraun sem mistókst“. Sundurlyndið og úrræðaleysið á vinstri kantinum nær miklu lengra aftur en nemur „frjálshyggjuvæðingunni“. Undir lok 20. aldar var vinstri kanturinn kominn gjörsamlega í þrot, og átti það skýringar langt aftur, líklega allan lýðveldistímann. [34] Er ekki vandi vinstrimanna einfaldlega sá að allan þennan tíma hafa þeir í senn barist gegn „helmingaskiptaspillingunni“ en samsamað sig henni líka þegar tækifæri gáfust? Með orðum Vilmundar Gylfasonar: Gengið samtryggingunni á hönd? Í Kenýu hefur þetta stjórnarandstöðuhugarfar verið kallað „our turn to eat“; þegar menn loksins komast til valda breyta þeir ekki spillingarkerfinu heldur drífa sig í að hrifsa nóg af herfanginu meðan færi gefst. Hugarfar herfangarans gegnsýrir allt pólitíska kerfið. Það er fróðlegt að horfa til Írlands og bera saman við Ísland því þar eins og annars staðar eiga menn um sárt að binda vegna áralangrar óstjórnar. Írar og Íslendingar voru líkast til tvær fátækustu þjóðir Norður-Evrópu fyrir hundrað árum. Báðar tóku efnahagslega kollsteypu nýlega með svipuðum hætti og sams konar afleiðingum. Engar þjóðir skulda Alþjóða gjaldeyrissjóðnum viðlíka upphæðir og Írar og Íslendingar. Í báðum löndum kemur í ljós að áratugum saman hafa gjörspillt stjórnmál grafið undan samfélagsgerðinni með einn meginvaldaflokk eilíft við kjötkatlana. Pólitískur vanþroski og spilling leiddi til ógæfu. Vangaveltur um veika fyrirstöðu vinstrimanna árin fyrir Hrun eru utan ramma þessarar ritgerðar, en svarið liggur hugsanlega í því sem gerist næst: Rísa menn undir því verkefni að endurskapa lýðveldið? Eða ætlum við bara að opna búðina eins fljótt og hægt er fyrir „business as usual“? [35]
Nýja Ísland óskalandið?
„Nýja Ísland – óskalandið, hvenær kemur þú?“ var heiti greinar sem ég skrifaði um þarsíðustu áramót. [36] Þar benti ég á að upplausnin og úlfúðin í kjölfar Hrunsins væri ekki tilviljun. Hún er leið gömlu valdaklíkunnar til að viðhalda forréttindum sínum. Ísland er svo auðugt að það er fyllilega þess virði að slást fyrir því. Það vita hagsmunaklíkurnar. Upplausn er aðferð. Henni er beitt miskunnarlaust þessi misserin til að koma í veg fyrir kerfislegar umbætur. Ég benti á tvær vonarglætur: Rannsóknarnefndina, hvernig niðurstöður hennar yrðu meðhöndlaðar, og stjórnlagaráðið.
Það er slæmt að núverandi stjórn hafi ekki kosið að fylgja eftir rannsóknarskýrslunni með frekari úttektum. Mikil ítarvinna er eftir: Óháð úttekt á lífeyrissjóðunum; önnur á stjórnum sparisjóðanna sem eiga að nafninu til að vinna fyrir fólkið; rannsókn á starfsháttum og framgöngu Alþingis í undanfara Hrunsins þarf auðvitað að fara fram utan sala Alþingis sjálfs. Mikill flór er ómokaður. [37] Ef það er skoðun ráðamanna að ekki megi „ýfa fleiri sár“ er það misskilningur. Enn er of margt á huldu. Eitt dæmi nægir úr íslenskum samtíma þremur árum eftir Hrun. Hér er frásögn Eyjunnar.is (júlí 2011) af málefnum Sparisjóðs Keflavíkur þar sem ríkið (skattgreiðendur) og Landsbankinn (skattgreiðendur) takast á um stóran skell:
Árið 2008 jukust innstæður sjóðsins um hartnær þriðjung, eða 16 milljarða króna. Að stórum hluta var um að ræða innstæður í eigu sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir og eftir bankahrun […] Mánuði fyrir bankahrun hafði Fjármálaeftirlitið unnið skýrslu þar sem fram kom að sjóðurinn hefði lánað alls ellefu milljarða króna til 80 einkahlutafélaga og einstaklinga án haldbærra veða eða trygginga. […] Meðal lántakendanna voru starfsmenn sjóðsins og stjórnarmenn, og einnig sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og aðilar tengdir þeim. […] Ljóst er að þessi lán fást ekki endurgreidd nema að litlu leyti og mun kostnaður við að bæta Landsbankanum upp bókfært mat þeirra lenda á ríkissjóði …
Spilling heltekur samfélög. Ótal mektarmenn koma að málum í einhverju sem leikmanni sýnist handrit að glæpamynd. Áttatíu manns á Suðurnesjum með ellefu milljarða að láni án veða með framlögum frá sveitarfélögum?
Hafi ljósin verið slökkt í einhverjum herbergjum eftir skýrslu Rannsóknarnefndar má sjá bjarma frá Stjórnlagaráði. Ráðið er vitnisburður um pólitískt hugrekki, fyrst og fremst forsætisráðherra, sem talað hefur um stjórnlagaþing lengur en elstu menn muna. Að koma þessu í verk er afrek. Og að ráðið skuli með margvíslegum hætti, og einróma, taka á mörgum göllum í íslensku stjórnarfari er frábært. Þessi vinna má ekki koðna niður, en á því er talsverð hætta. Kaldhæðnislaust þá hefur Aþingi sýnt að það er til alls líklegt þegar drepa þarf málum stjórnlaga á dreif.
Stjórnlagaráð og vinnan sem það skilaði með málefnalegum hætti setur stjórnmálaflokkum og -mönnum ný viðmið. Að taka mikilvæg málefni upp úr skotgröfum stjórnmálanna virkar. Þetta er aðferð sem ég hef áður lýst stuðningi við:
… Lýðræðisvæðing hefur að markmiði að setja valdi að ofan skorður. Með henni eru sett almenn markmið um að efla og næra félagsauð á sem flestum stigum samfélagsins. Við viljum færa vald til fólksins, við viljum setja almennar leikreglur um lýðræðislega hætti – en fela borgurum að þróa og útfæra þær aðferðir sem gagnast best. Við viljum ekki pólitíska forsjá sem vinnureglu. Við viljum samræðu- og sáttastjórnmál. [38]
Hlutlæg dæmi um hvernig svona gerist má nefna. Nokkur framfaramál í íslensku samfélagi hafa orðið utan við stjórnmálakerfið. Því saga Íslands er ekki svartnætti og margvísleg jákvæð þróun hefur orðið. Tökum jafnréttismál kynjanna. Miklar framfarir hafa orðið á þeim vettvangi síðustu 20–30 ár, knúðar fram af kröfu samfélagsins og eldhuga úr röðum kvenna. Vitundarvakning um ofbeldi og sérstaklega kynferðislegt ofbeldi hefur orðið, utan við hina hefðbundnu stjórnsýslu, stjórnmálavafstur eða dómstóla. Aftur: Kraftur fólksins. Samkynhneigðir hafa unnið þrekvirki í að breyta samfélaginu. Á eigin forsendum og á eigin vegum. Umhverfisverndarsinnar hafa sótt mjög á og komið náttúruvernd á dagskrá. Alkóhólistar og fíkniefnasjúklingar hafa náð undraverðum árangri í að bæta samfélagið með því að samtök þeirra hafa kennt okkur um hvað málið snýst. Sömuleiðis samtök eins og Hugarafl og Blátt áfram. Sú menningarlega fjölbreytni sem ríkir á Íslandi er gott vitni um krafta sem hægt er að leysa úr læðingi. Öll þessi mál hafa sprottið upp úr samfélagi okkar utan við kulnaðar smiðjur stjórnmálaflokkanna. [39] Smám saman hafa þeir lagað sig að og tekið upp þau baráttumál sem nú hafa stórbætt íslenskt líf. [40] Þessi dæmi, og vinna stjórnlagaráðsins, vísa veg um aðferðir sem má nota kerfisbundið til að opna samfélagið. Virkja aflið í fólkinu. Laga kerfið svo það verði farvegur fyrir lýðræðislegan þroska. Setja höfðingjaveldinu skorður. Greina vald frá hagsmunum.
Stóra verkefnið er hvorki meira né minna en lýðræðisvæðing Íslands.
VI. Næstu skref
Í núverandi andrúmslofti má byrja á stjórnarskrá, Ríkisútvarpinu, lífeyrissjóðunum, valddreifingu til sveitarfélaga (sem verða að vera nægilega stór og burðug), ná lýðræðislegri sátt um vernd og nýtingu náttúruauðæva og skilgreina þá þætti í samfélagsgerðinni sem hvetja til og umbuna verðleikum. Allt miðar þetta að aukinni hagsæld á breiðum grundvelli, en ekki nauðhyggju um hagvöxt. [41] Hægvöxtur væri nær lagi núna. Og aukinn jöfnuður. Jöfnuður er þjóðhagslega hagkvæmur. Ekki bara af biblíusögulegum ástæðum í anda miskunnsama Samverjans, heldur af því að heilsugæsla, menntun, almenn vellíðan og þátttaka allra í agnarsmáu gangverki þjóðar borgar sig einfaldlega – í peningum. Við eigum gríðarleg auðævi og það þarf einstakan brotavilja til að stofna þeim í hættu – aftur. Hreinir og skýrir efnislegir hagsmunir standa til þess að miðjan í íslensku samfélagi láti ekki ræna sig. [42] Pólitísk uppreisn frá miðju getur einangrað öfgafyllstu hagsmunaúlfana sem stefna landinu í hættu. Slík uppreisn hefur það markmið að tryggja almenna hagsæld en gefa hana ekki eftir þeim sem vilja slíta sundur frið í þágu sinna eigin þröngu stundarhagsmuna. Til þess eru lýðræðislegar leiðir færar.
Tilvísanir
- Sjá til dæmis aðgengilega grein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrv. formanns Samfylkingarinnar í TMM í feb. 2010, margvísleg skrif Stefáns Ólafssonar við Háskóla Íslands, og auðvitað margra fleiri í kjölfar Hrunsins. Þessi tvö nægja sem dæmi um forystufólk í stjórnmálum og fræðum sem lagt hefur til umræðunnar og neglt Hrunið við nýfrjálshyggju. Ingibjörg gengur m.a.s. svo langt að taka sérstaklega fram að engin sérstök spilling umfram það sem gengur og gerist hafi einkennt Ísland í þessu samhengi.
- Nær væri að fjalla um „Þriðju leiðina“ sem Verkamannaflokkurinn gerði að sinni og Stefán Snævarr lýsir ágætlega í TMM í maí 2010, „Krataávarpinu“, en þar er að finna þá nútímalegu jafnaðarstefnu sem t.d. Samfylkingin ætlaði alltaf að fylgja og ætti að tileinka sér.
- Höfundur kýs að setja ýmislegt hér fram í tilgátuformi því að hann er hvorki sagnfræðingur, hagfræðingur né sérfræðingur um íslensk stjórnmál. Þá eru hér alls konar alhæfingar á breiðum grundvelli því að efnið kallar á miklu ítarlegri greiningu en ein tímaritsgrein leyfir. Beðist er forláts þar sem skautað er létt yfir í stórum dráttum.
- Josep Stiglitz skrifaði skýrslu fyrir Seðlabanka Íslands árið 2000 og varaði við ýmsum hættumerkjum. En það þurfti ekki hagfræðing til. Erlendur fræðimaður sem kom til Íslands 2006 ók um borgina og sagði: „Alltof margir byggingakranar“. Það sáu fleiri en ekki þeir sem þurftu.
- Ásgeir Friðgeirsson skrifar í TMM í nóv. 2010 að þetta sem gerðist hafi verið „hrun vitsmuna“. Þótt hann reki vel og ítarlega það sem ég nefni hér, að vitneskjan um hvernig afstýra mátti Hruninu hafi í raun legið fyrir, þá er ég ekki viss um að ég taki undir að þegar allt hrundi sem hrunið gat (stjórnmál, hagfræði, krónan, fjölmiðlar, eftirlitsstofnanir og margt fleira samtímis) að það hafi verið andlegt skammhlaup. Ég er meiri efnishyggjumaður og tel að í stað hruns vitsmuna hafi þetta verið valdarán hagsmuna – sem létu greipar sópa meðan færi gafst.
- Fúsk er alltof saklaust hugtak um það sem þarna gerðist þó að hluta hafi það verið svo. Þetta var skipulegt rán. Auðvitað ekki með það að markmiði að allt færi á versta veg, heldur af fullkomlega skammsýnum og eigingjörnum hvötum.
- Enn mun einhver til sem heldur því fram að afhending Búnaðarbankans til Finns Ingólfssonar og Ólafs Ólafssonar í Samskipum með VÍS í meðgjöf hafi verið „markaðsleg“– en varla nema einn ritstjóri. Styrmir Gunnarsson hefur staðfest að Björgólfsfeðgarnir hafi fengið Landsbankann í pólitískum tilgangi; en leita þarf lengra aftur til að sjá sömu fingraför: SR-mjöl? Íslenskir aðalverktakar? Svona aðferðir eru ekki af frjálshyggjutoga og fráleitt að kenna henni sem hugmyndafræði um rán um hábjartan dag.
- Raunverulegir frjálshyggjumenn eins og þeir sem skrifa á andriki.is hafa horn í síðu ríkisstjórna undir forystu Sjálfstæðisflokksins: „Hvernig á flokkurinn að vera trúverðugur í gagnrýni sinni á skattahækkanir og eyðslugleði vinstri stjórnar þegar hann er sjálfur búinn að hækka skatta og útgjöld“ var spurt 2009, og bent á að 2006–2008 varð methækkun á ríkisútgjöldum upp á 35%, eða 120 milljarða. (Tilvitnun tekin úr Fréttatímanum 19. ágúst 2011).
- Nokkur umræða hefur staðið um hvort „frjálshyggja“ hafi einkennt stjórnarhætti á Íslandi áratugina fyrir Hrun og hallast ég nokkuð að máli Atla Harðarsonar um að bæði sé hugtakanotkunin allmikið á reiki, og síðan að tímabilið hafi alls ekki uppfyllt þau skilyrði sem gera verði um frjálshyggju. Sjá til dæmis ritdóm hans um „Eilífðarvélina“, bók sem tekur á mörgum
„frjálshyggjuþáttum“. (http://this.is/atli/textar/ymislegt/Um_Eilifdarvjelina.htm.) Guðni Elísson svarar Atla ágætlega í maíhefti TMM 2010. Ég er samt ekki sannfærður um að þær kenningar sem Guðni rekur um að einkavæðingin hafi beinlínis kallað á aukin ríkisumsvif, eins og voru hér á landi, séu alveg skotheldar. Ef Sjálfstæðisflokkurinn á val kýs hann frekar stundleg pólitísk uppkaup en að halda sig við hugmyndafræðilega línu. Og það er það sem hann gerði, ríkið varð framkvæmdaarmur og kosningasjóður flokksins. - Styrmir Gunnarsson skuldar okkur ennþá bókina þar sem hann útskýrir þetta.
- Nota bene: Ég er ekki einn af þeim sem bendi á ótiltekin „útlönd“ eða „lönd sem við viljum bera okkur saman við“ sem fyrirmynd um þroska, þau eru eins og dæmin sanna gjörspillt mörg á ýmsa lund. Það sem við sjáum þessi misserin er ótrúleg afhjúpun á „vestrænum lýðræðisríkjum“.
- Þar sem ég hef kynnst stjórnmálaflokkum er hollustan ótrúlega hörð krafa, miklu harðari, tel ég, en fólk átti sig almennt á. Auðveldast er að átta sig á þessu þegar þögnin verur allsráðandi, eða þegar gagnrýnendur á eitthvert innanflokksapparat fá til tevatnsins – ekki vegna röksemdanna heldur afstöðunnar yfirleitt. Hollustan birtist líka stundum í skringilegu hjarðeðli. Eftir
síðustu borgarstjórnarkosningarnar þar sem Samfylking og Sjálfstæðisflokkur guldu afhroð mættu oddvitar flokkanna á kosningavökur til að flytja „sigurræður“. Og var klappað lóf í lófa af viðstöddum. - Stjórnmálaflokkarnir hafa rík einkenni ættbálks að mínu mati, frekar en hugmyndasmiðju, en þá umræðu geymi ég. Líkast til er núverandi Framsóknarflokkur hreinræktaðasta birtingarmynd „veiðimanna og safnara“ á stjórnmálamörkinni.
- Bent hefur verið á að rekja megi þessa hugsun allt aftur til þjóðveldisaldar og goðorðanna, Íslendingar hafi fært gamla höfðingjaveldið í nýjan búning hverju sinni en aldrei skilið við grundvallarhugsunina. Í uppgjörinu við Hrunið hefur mikið borið á gagnrýni á „formannaræði“ sem er nákvæmlega það sem hér er talað um. Rannsóknir á vinnubrögðum og -aðferðum Davíðs Oddssonar munu að líkindum leiða í ljós að í honum hafi höfðingjaveldið komist á efsta stigið, án þess að því sé slegið föstu hér, en eins og vitað er tileinkuðu fleiri sér sömu vinnubrögð.
- Maður óttast reyndar að eitthvað verulega slæmt eigi eftir að koma upp í þessu efni síðar. Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna einstakir stjórnmálamenn í þröngum hópi kusu að gera kunningja sína að ofurauðmönnum, prívat og persónulega. Hvað gekk þeim til? Var enginn persónulegur ávinningur neins staðar í þessu? Vonandi ekki, en hingað til hefur maður ekki séð neitt sem bendir til að Íslendingar séu heiðarlegra fólk en gengur og gerist.
- Það voru ekki ýkja margir á móti einkavæðingu ríkisbankanna á sínum tíma enda flestum fullljóst hvers konar svikamylla þeir voru. En ekki tók betra við.
- Í áðurnefndri TMM grein lýsir Ingibjörg Sólrún ágætlega hvernig þetta gerðist eftir kosningarnar 2003 og eftir hvaða leiðum flokkurinn herti tök sín gegnum ríkisapparatið. Sem „aðferð“ er þetta ekkert nýtt í sögu Sjálfstæðisflokksins, bara miklu fágaðri leið að sama marki og Guðni Th. Jóhannesson rekur í ævisögu Gunnars Thoroddsens um það hvernig pólitísk hagsmunagæsla
fór fram. - Viðtal í kvikmyndinni Draumalandið.
- Í viðtali við mig á Rás 2 sagði Thor (Ólafsson) Thors, fyrrum stjórnarformaður, að þeir hefðu geymt peninga Aðalverktaka í Landsbankanum á „slankekur“ (megrunarkúr) á verðbólguárunum. Hann átti við að þeim fáu kanagreifum sem höfðu einkaréttinn hefði ekki liðist að taka allan arðinn, pólitíska veldið hefði sogið hluta af gróðanum til sín og lánað áfram gegnum bankann – vitanlega til að skapa víðtækari „hollustu“ í atvinnulífinu þrátt fyrir þessa nöktu mismunun. Í fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar á 10. áratug síðustu aldar varð síðan mikið uppnám í röðum hægrimanna þegar eigendur Aðalverktaka reyndu að leysa til sín enn meiri hagnað með brellum enda brottför hersins þá fyrirsjáanleg í kjölfar falls Berlínarmúrsins; í fyrsta sinn í áratugi rataði hermangið á síður Moggans.
- Þessi ár lifa enn í skrautlegum munnmælum fólks sem lifði og Jakob F. Ásgeirsson gerði skil í bók sinni um haftaárin.
- Sú kynslóð stjórnmálamanna sem senn hverfur af sjónarsviðinu hefur verið öflugasta sjálftökulið allra tíma á Íslandi. Þau borguðu ekki námslánin sín, þau borguðu ekki húsnæðislánin, þau tóku sér ríflegri eftirlaunarétt en aðrir fá, og afnámu erfðaskatt um það leyti er foreldrar þeirra kvöddu heiminn!
- Þetta gekk nú ekki þrautalaust. Rétt fyrir lok 20. aldar fólst markaðssetning Íslands í ritinu Lowest Energy Prices (Lægsta orkuverð) þar sem lofað var lágmarksveseni út af umhverfismálum. (Sjá t.d. myndina Draumalandið.) Í dag felst arðsamasta virkjun Íslendinga í því að reyna að semja um hækkað orkuverð álvera til samræmis við það sem gengur og gerist á markaði.
- Það er Gunnar Smári Egilsson sem á heiðurinn af þessari samlíkingu. Óafvitandi um hvor annan rituðum við áramótagreinar í Fréttablaðið sem birtust 28. og 29. des. 2009. Þar kynnti ég fyrst þessa hugmynd um Ísland sem rányrkjubú og Gunnar Smári lýsti því á mjög svipuðum nótum hvernig Íslendingar hefðu litið á erlent lánsfé einkabanka sem hverja aðra auðlind sem
þyrfti að eyða – að venju. - Átökin á hægri væng stjórnmálanna síðasta áratuginn fyrir Hrun endurspeglar tilraunir íslenska höfðingjaveldisins til að temja auðkýfinga sem áttu ekki lengur neitt undir því. Höfðingjaveldið hafði ekki lengur vald yfir auðlind sem kom utan að.
- Ferill Geirs Haarde er afleitur og ekki bæta úr tilraunir til að lýsa honum sem bjargvætti í rústunum, hins vegar er það fráleit niðurstaða Alþingis að hann einn skyldi hengdur út.
- Árið 2005 skrifaði ég litla ritgerð þar sem á það var bent að samkvæmt könnunum var vantraust almennings á þingi og flokkunum komið á hættustig. Í ágúst 2006 skrifaði ég grein í Morgunblaðið þar sem sérstaklega var rakið hvernig tengsl fjármála og stjórnmála ógnuðu lýðræðinu. Allt var þetta ljóst löngu fyrir Hrun.
- Gunnar Helgi Kristinsson við HÍ telur sig geta fullyrt með rannsóknum að 40% af mikilvægum opinberum stöðum séu skipaðar gegnum pólitískar veitingar. Ef við reiknum með að í helmingi tilfella hefði fengist hæfari stjórnandi má reikna með að fimmti hver maður sé tjónvaldur í ríkiskerfinu með því að halda frá meiri hæfileikum en ella hefðu fengist. Þetta er óhemju hátt
hlutfall. - Hér tala ég af reynslu sem kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík. Þrýstihópar og einstaklingar eru greinilega orðnir mjög útsmognir að „leita leiða“ innan smákóngakerfisins; nokkuð sem sannfærir mig enn frekar um hve djúpstætt vandamálið er og erfitt að vinda ofan af því. Fyrir marga virkar kerfið einfaldlega mjög vel.
- Menn hafa talsvert velt vöngum yfir því hvers vegna „almenningur lét glepjast“ þar til íslensk heimili urðu þau skuldsettustu í heimi. Einfalda svarið er klikkað hágengi krónunnar. Þau „skilaboð“ sem neytandinn fékk á launamarkaði voru einföld: Þú ert með sterkasta gjaldmiðil í heimi, farðu og kauptu það sem þú vilt. Lánaflóðið kom svo ofan á, og þar ofan á eignabólan – en allt er þetta samtengt.
- Dæmi um mótvægi eru sem betur fer til: Eitthvert albesta fyrirkomulag sem Ísland hefur komið á er Lánasjóður íslenskra námsmanna, því hann tryggði ekki bara jöfn réttindi til náms heldur skóp fámennri þjóð tækifæri til að senda fólk til náms við bestu háskóla í heimi með litlum tilkostnaði. Þannig stækkaði Ísland óbeint og færði okkur hámenntað atgervisfólk á ýmsum
sviðum með reynslu af stóra heiminum. - Einar Steingrímsson stærðfræðiprófessor á heiðurinn af þessu hugtaki: and-verðleika samfélag. Sjálfur var ég svo barnalegur að halda að kerfið ynni bara gegn verðleikum. En það REFSAR stundum fyrir verðleika, því verðleikar ógna þeim sem sitja fyrir á fleti í krafti kerfisins. Besta leiðin til þess er útilokun. Ég geng ekki svo langt að fullyrða að samfélagið sé gegnsýrt af svona tossabandalögum, en þau má finna ótrúlega víða.
- Svo maður vitni í „ríki sem við viljum bera okkur saman við“ þá hafa þau stærðina til að vinna gegn andverðleikastefnunni hjá pólitísku klíkunum; menn hafa val um vettvang og geta sannað sig annars staðar. Ef ekki vill betur. Jafnvel ögrað kerfinu. Hjá okkur er mun hættulegra og persónulegra að fara út fyrir rammann. Þetta er góð röksemd fyrir því að Ísland gangi í bandalag með öðrum þjóðum og „stækki“ reynsluheim og æfingavöll komandi kynslóða.
- Hér er stór akur óplægður. Góð innsýn í þennan heim fæst í grein Hallgríms Helgasonar í TMM (nóv. 2010), „Draugur Group“. Einnig Guðna Elíssonar, „Árið núll“, í sama hefti.
- Í Alþingiskosningunum 1995 (eftir fyrsta kjörtímabil Davíðs Oddssonar á forsætisráðherrastóli) buðu vinstrimenn upp á mikið úrval: Alþýðuflokk, sem var klofinn í Þjóðvaka, Alþýðubandalag sem var klofið að rótum en hékk saman á nafnspjaldinu, og Kvennalista. Þau skíttöpuðu öll og Framsókn og íhald náðu saman með samtals 40 þingmenn af 63. Úrvalið til vinstri fékk 23. Þetta var ári eftir stórsigur R-listans í Reykjavík. Þá loks varð mönnum ljóst að samfylking var eina svarið.
- Alls ekki má gera lítið úr því hversu uppbyggingu úr rústunum miðar. Það nánast ofurmannlega verk sem beið eftir Hrunið hefur verið unnið svo að nú blasir við mun betra ástand í efnahagslegu tilliti. Á sínum tíma var engum til að dreifa nema Jóhönnu og Steingrími að bretta upp ermar og vandséð hverjum hefði tekist betur til en þeim, fyrstu skrefin eftir Hrun, þrátt fyrir allt, eins og staðan er nú.
- Sjá t.d. www.stefanjon.is
- Rétt áður en þessi grein fór í prent var skýrt frá rannsókn á falli sparisjóðanna, hún hefst þremur árum eftir Hrun og þegar langt er liðið á kostnaðarsaman björgunarleiðangur skattborgaranna.
- Stefán Jón Hafstein, (2005): „Breytum rétt, leið jafnaðarmanna til móts við 21. öldina“; sjá www. stefanjon.is
- Rammaáætlun um náttúrunýtingu, sem kom loks út í ágúst 2011 er að stofni til gott dæmi um hvernig á að vinna mál – en hvers vegna í ósköpunum 50 árum of seint? (Það er ekki tilviljun í rányrkjubúinu).
- Á næstunni fara fram úrslitapróf um getu stjórnmálakerfisins. Meðferðin á tillögum stjórnlagaráðs verður mikilvæg; rammaáætlun um virkjanir gæti orðið grunnur að þjóðarsátt, en líka fjallabaksleið fyrir næsta umhverfisskúrk sem vill „affriða“ í anda Sivjar Friðleifsdóttur. Innan flokka er gerjun, Samfylkingin ætlar að setja sér umbótareglur haustið 2011, framkvæmd en ekki orð verða metin. Þar munu menn horfa til þess sem varð um tillögur Framtíðarhópsins og plaggsins um Fagra Ísland. En umfram allt mun orðstír núverandi ríkisstjórnar lifa í þeim siðbótarverkum sem hún á enn eftir að koma í framkvæmd.
- Vegna þess að ég minntist á Stefán Ólafsson prófessor áður má minna á víðtækar skilgreiningar hans á hagsæld andspænis þröngum kröfum um sívaxandi hagvöxt. Þessi aðferð er löngu viðurkennd innan Sameinuðu þjóða-kerfisins og miklu víðar þótt Samtök atvinnulífsins og ASÍ vilji ekki við kannast.
- Hér verða vinstrimenn og félagshyggjufólk að átta sig á að það á samleið með stórum hópi þeirra sem kosið hafa Sjálfstæðisflokkinn. Og ögurstund er runnin upp hjá mörgum Sjálfstæðismanni: Kjarninn í flokknum sem virðir hin gömlu gildi á enga leið með auðræðinu – og því síður gamla kvalræðinu.