eftir Þorleif Hauksson
Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2021
Sumarið 2019 var þess minnst að 50 ár voru liðin frá útkomu fyrstu ljóðabókar Steinunnar Sigurðardóttur. Í fyrirlestri sem Steinunn flutti í dagskrá í tilefni af þessum tímamótum velti hún fyrir sér orðasmíð í íslensku ljóðmáli. Á afmælisárinu kom út ljóðabókin Dimmumót, og eitt af því fyrsta sem blasir við þegar þeirri bók er flett eru einmitt áhrifamiklar skáldlegar nýmyndanir orða. Þegar ég fór að glugga í ljóðabækurnar níu sem á undan fóru, allt frá þeirri fyrstu sem kom út 1969, kom í ljós að þessi tilhneiging hefur verið ríkjandi í allri ljóðagerð Steinunnar en á ólíkan hátt og í mismunandi mæli.
Steinunn hóf feril sinn sem ljóðskáld og var búin að gefa út þrjár ljóðabækur og sú fjórða í burðarliðnum þegar Tímaþjófurinn, fyrsta skáldsaga hennar, kom út. Það var árið 1986, sautján árum eftir útkomu fyrstu ljóðabókarinnar. Frásagnarstíll þeirrar bókar er reyndar einkar ljóðrænn. Söguhetjan, Alda Ívarsen, segir frá í fyrstu persónu og iðulega hrjóta henni ljóð af munni sem blandast inn í söguþráðinn. Í raun á þetta einnig við kynsystur hennar sem eru sögumenn annarra skáldsagna í fyrstu persónu: óhreinataus-skúffuskáldið Hörpu Eir í Hjartastað og jafnvel Maríu Hólm í Gæðakonum. En í ljós kemur að ekki aðeins ljóð þeirra heldur einnig frásögnin sjálf fyrir þeirra munn er full af hnyttnum, persónubundnum nýmyndunum orða. Í lauslegri yfirferð skráði ég 140 slík orð úr Tímaþjófnum, fór síðan í Gæðakonur og fann 226 orð og loks 68 orð í einum kafla í Hjartastað.
Það er ekkert áhlaupaverk að reyna að kortleggja orðasmíð í ljóðmáli Steinunnar. Í ljós kemur fjöldi margvíslegra eindæmis- og fádæmisorða. Flest eru samsett nafnorð, bæði stofn- og eignarfallssamsetningar. Nánar til tekið hef ég skráð 90 dæmi um stofnsamsett nýyrði og 172 dæmi um eignarfallssamsetningar í ljóðunum. Sá listi er prentaður í lok greinarinnar. Langflest nýyrðin eru nafnorð. Ég hef skráð tuttugu og tvö lýsingarorð en aðeins fimm atviksorð: draumleiðis, dagleiðis, farmtíðarljóst, hraðleiðis, undurgrátt, og tvö sagnorð: hrottast og unaðshrylla. Meðal einkenna ljóðanna eru einnig óhefðbundnar hliðskipanir lýsingarorðseinkunnar og nafnorðs. Þetta er séreinkenni á ljóðunum og hliðstætt nýyrðunum að því leyti að þar er tveimur óskyldum orðstofnum skeytt saman. Um slík orðasambönd hef ég skráð hjá mér 158 dæmi og mun reyna að fjalla um einhver þeirra hér á eftir.
Hér er rétt að slá ákveðinn varnagla. Skráning nýyrða og fádæmisorða ákvarðast af tilfinningu minni og eftir atvikum uppflettingum á vefnum timarit.is og/eða ritmálssafni Árnastofnunar. Í fyrrnefndum fyrirlestri Steinunnar kom fram að hún hefði í kennslu sinni í ritlist við Háskólann lagt áherslu á nýyrðasmíð og nýyrðarýni, „með áherslu á Jónas sjálfan og Stein sjálfan“. En auk þeirra tveggja vitnaði hún í skáldin Vilborgu Dagbjartsdóttur, Arnfríði Jónatansdóttur, Einar Benediktsson, Jóhann Sigurjónsson, Snorra Hjartarson og Sigfús Daðason, ásamt eigin ljóðum. Í fyrirlestrinum varpaði Steinunn fram þeirri spurningu hvort íslenskt mál hafi þann eiginleika umfram önnur tungumál að geta aukið orðaforða sinn með frjóum hætti, sem komi ekki síst ljóðskáldum til góða. Dæmin úr ljóðum hennar sjálfrar gefa eindregna vísbendingu um að svo sé.
Öllum þessum nýyrðum verða auðvitað ekki gerð nein fullnægjandi skil í lítilli tímaritsgrein. Í heild bera þau vitni um næma máltilfinningu skáldsins, þar sem orðin virðast spretta fram sjálfkrafa þegar þeirra gerist þörf. Iðulega verða þau svo eðlileg í samhengi sínu að lesandi áttar sig oft ekki á að þau séu ný. Með vissri alhæfingu má segja að þrjú þemu séu miðlæg: ástin, náttúran/umhverfið og tíminn í víðum skilningi. Þessi stef fléttast saman á mismunandi hátt.
Flaumósa jafndægur og frábitnir sandar
Fyrsta ljóðabók Steinunnar nefndist Sífellur og hlýtur að teljast óvenju þroskuð og merkileg frumraun, ekki síst ef haft er í huga að skáldið var aðeins nítján ára við útkomu bókarinnar. Eitt sem vekur athygli eru mikil áhrif frá módernistum, ekki síst Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, en jafnframt sjálfstæð rödd og persónuleg. Sjálft heitið, Sífellur, er nýyrði, sem er jafnframt gefið líf inni í bókinni. Þarna getur að líta orð eins og fegurðarátt, fossfoss, laufblár, lauflangur, ljósprik, margalda, margfeldni, svartblóm, vökuhellir, þangveltur, Þingvallalaus. Þá eru einnig dæmi um lýsingarorðseinkunnir sem eru settar í óvænt samhengi: fljótandi ástarleikir, fráleitt bros, glettilega gul örlög, sumarlangur vegur.
Með þriðju ljóðabókinni, Verksummerkjum, verða ákveðin þáttaskil. Ljóðin eru úthverfari, lausbeislaðri, óþvinguð af hefð og vana, sem birtist ekki síst í ljóðmálinu. Í fyrri hluta bókarinnar, sem hér kemur einkum til álita, verða dagarnir óstýrilátir og ófyrirséðir og náttúran til alls vís og umbreytist eftir tilfinningasveiflum ljóðmælanda. Hér má sjá orð eins og afturúrhlíðar, allslitaður, ágústþungi, blómsturtjörn, dýragrasaugu, furðuvegir, hrottast, ísnálaþoka, næturaugu, næturhaf, sólarlagsbarn, undurgrátt; og hliðskipanir eins og allslitað blóm, flaumósa jafndægur, frábitnir sandar, gagnsæir tindar, gloppóttur himinn, glóandi engi, hoppandi sumar, stanslaus friður, viðskila vötn.
Í því sem hér fer á eftir verður fjallað um orðasmíð Steinunnar út frá mismunandi efnisflokkum. Allar ljóðabækur hennar skiptast innbyrðis í nokkra ljóðaflokka eða syrpur, sem vitnað verður til. Nýmyndanir orða verða yfirleitt einkenndar með skáletri.
Ástarljóð
Ástin birtist í margvíslegum myndum í ljóðum Steinunnar. Upphafsflokkurinn „Tvöþúsund steinar“ í bók hennar Kartöfluprinsessan (1987) fjallar um tímabundin og fallvölt samskipti tveggja, verustaði þeirra og viðskilnað. Í ljóðinu Andartakið notar hún líkinguna – og nýyrðið augnhiminn: „Ég varpaði geislum / á dimman augnhimin þinn // Ég meðtók endurkast þeirra, / einnig orðanna hljóðan // og elskaði þig / þetta augljósa andartak“. Eitt einkenni ástarljóðanna er tilfinning um hverfulleika ástarinnar, auk þess sem myndum náttúrunnar er gjarnan brugðið upp sem táknrænum bakgrunni hennar „Í steindauðri laufbreiðu / undir bikuðum greinum / varstu hortugur viðfangs“, segir í upphafi ljóðsins Viðskilnaður í sama ljóðaflokki, og í framhaldinu: „Þú varst ekki gæfusmiður / heldur barsmiður ólukkunnar. // Fautalegir voru taktar þínir í nóvembergarðinum.
Flokkurinn „Lagstúfar úr stóru söngbókinni“ í ljóðabókinni Kúaskítur og norðurljós (1991) geymir samkvæmt fyrirsögninni ljóð ólíks efnis. Hér er Sjóferðabænin, kveðjuljóð til þess sem er á förum og er elskaður í tíma og ótíma; ljóðmælandi býðst til að vera „himintungl þitt, / það sem alltaf er, en sést bara stundum, /vaxandi, dvínandi, hálfmáni, nýmáni, / stútfullur hnöttur sem styðst við Esju.“ Ljóðið Hugmynd felur í sér tilraun ljóðmælanda til að endurheimta „á dimmu lofti“ mynd af sjálfri sér úr fortíðinni, sem máluð var „í stanslausri birtu“. Þetta gefur tóninn fyrir tvo síðustu ljóðaflokka bókarinnar þar sem gengið er á hólm við minningar og staði sem þær tengjast. Þessir flokkar, „Minningar með vetrarlagi“ og „Ferða-lög“ fjalla um ástarsambönd, viðskilnað, minni og gleymsku. Fyrri flokkurinn hefst þannig: „Þetta er dagur til að harma það sem ég hef gleymt: / höndum okkar saman, himni sem roðnaði.“ Staðurinn rifjast upp, það var „undir fjörukambi í mars“. En nú er aðeins eftir „minning um skammgóða hönd í hendi /… / haglél á himni sem brenndi vanga / í stað þeirra tára sem síðar féllu“.
Í ljóðaflokknum „Hugástir“ í samnefndri bók (1999) birtast laustengdar myndir, tilfinningar ljóðmælanda gagnvart hinum elskaða sem ekki verða tjáðar með beinum orðum. Hann er henni framandi á sama hátt og undur í eyðimörk: „Syngjandi sandur / sveimandi andar / og sálnaþjófar // Eyðimerkurbjörn og bláar kindur / hundeltar af snjóhlébörðum“. Innganga elskhugans í salinn veldur umróti í sálinni eins og hljómsveit sem rífur sig upp í hæsta styrk eftir strengjagutl og trommutrill; leiðir þeirra liggja sundur og saman í skrykkjóttum draumi eftir glitrandi teinum; árin milli þeirra eru „hlaðnir veggir / sem seigir draumar klifra yfir í björtu“. Hér koma einnig fyrir nýyrðin indælishaf, júníkvöldsól, miðnæturskíma, tímagrjót, og orðasamböndin kringlótt og voðfelld sál, ratvísir fingur, þófamjúk tegund.
Fyrsti og lengsti hluti Ástarljóða af landi (2007), „Ástarljóð“, skiptist í fimm flokka. Í þeim fyrsta eru „Upphafsljóð fyrir eilífa byrjendur“. Annar flokkurinn nefnist „Ást í nýju borginni“. Þar blómstrar ástin, „einkum ef hinn elskaði er alls ekki í borginni“. Hin ástfangna reynir að ná áttum: bítur í ókunnuga tertusneið, ást hennar brýst út í óheyrilegri tilfinningu, hún unaðshryllir sig, stígur blíðlegum fæti á torgin eða reikar hugföngnum fótum þangað sem hinn elskaði verður augunum áþreifanlegastur. Og ástin breiðir úr sér yfir borginni eins og innihaldsríkt þrumuský. Í flokknum „Dagdraumaklasi“ renna dagdraumar ástarinnar saman við náttúruna og umhverfi borgarinnar; blómin eru sólgyllt, lækurinn er jarðvöðuls-kríli sem göslast fram eftir glansandi steinum; mislyndur, gaddaður lækur sameinast syngjandi kátum fugli í margradda söngl. „Ljóð úr ljósaskiptum“ fjalla af angurværð um fyrirheitnu ástina, þá ást sem er „Útilokuð. / Alls staðar nema í draumum og ljóði“ – og jafnvel líka þar. Undirtónn allra þessara ljóða er vitundin um hverfulleika ástarinnar, og í síðasta flokknum, „Ljóðum fyrir lengra komna“, er fjallað af kímni og kaldhæðni um „haust-ástir“ og „syndaspeki“. Nýmyndanir og hliðskipanir sem ekki er áður getið eru þessi: aðfarakoss, ástar-ós úthafsins, ástkonuskyldur, blaðmjúkir fingur, blátt framhald himins, blindar elskhugahendur, staðgott blíðviðri, syndahlé, uppáhaldsmunnur. Í „Siglingaljóðum“ í upphafi bókarinnar Af ljóði ertu komin (2016) er líf ljóðmælanda sýnt í mynd endilangrar manneskju sem flýtur í áralausum bát „með andlit mót himni“, þar sem „undirdjúpin eru fyrirheitið land“. Fjölbreytilegar skýjamyndir náttúrunnar sem fyrir augu ber eru ekki viðfang í sjálfum sér, heldur eru þær sýndar sem birtingarmyndir ástarinnar í hverfulli ævi manneskjunnar, með örfínni vísun í útfararsálm Hallgríms: „Allt eins hefur þú elskað eins og óþægðarhnoðri /sem leysist upp hraðar en augað nemur og fyrr en frá verði sagt.“ Og allt kemur siglandi: „Síðbúna Ástin á manndrápsfleyi, / Kæruleysispramminn. / Óstöðvandi gufuskipið Sorg. / Dauðinn á tundurspillinum. / Kemur Vonin höktandi á laskaða sanddæluskipinu. / Og Unaðurinn á flotholtinu samsíða.“
Angurværð, sorg og söknuður er ríkjandi tilfinning. Hið sama á við næstu bók, Að ljóði munt þú verða (2018), eins og sést á þeim orðum sem mynda bakgrunn ljóðanna: harðneskjuhraun, hávaðafljót, hrímveröld, ístungl, kolaðir skýjabunkar, rykgrár óendanleiki, skörðótt dagsbrún, stórkarlalegur himinn, stútfullt ístungl. En hugsanlega „kemur snjódrífa að þekja myrkrið á minningajörð“, og ljóðmælandi rís „upp úr öskustó næturdraumanna // í áttina að dagdraumastéttinni / þar sem sálin upprisin sippar og fer í snúsnú“.
Náttúruljóð
Flestar náttúrulýsingar Steinunnar fela í sér samsömun með náttúrunni, eins og Jón Hallur Stefánsson víkur að í ritdómi. Náttúruljóð hennar eru „óður mannsins í náttúrunni, ekki af því að maðurinn sé hluti af náttúrunni heldur er náttúran hluti af manninum, sálarlífið verður til úr birtu og myrkri árstíðanna, fjallahring og fuglagargi, hestum og rjúpum og rotnandi laufum, grýlukertum og þoku, skýjum og þögn, kúaskít og norðurljósum.“[1]
Orðasmíð Steinunnar er langfjölskrúðugust í náttúruljóðunum. Litarorð eru tiltölulega hefðbundin, með ákveðnum undantekningum þó. Hvíti liturinn gegnir sérstöku hlutverki í síðustu ljóðabók hennar, Dimmumótum (2019): hvítagullfjall, hvítatign, hvítaþoka, snjóhvítar rósir, og þess má geta að þar eru tvö dæmi um nafnorðið bláljós, sem er nýyrði en kemur fyrir sem lýsingarorð hjá Jónasi Hallgrímssyni. Tindar eru bleikfjólubláir, tjörnin bládjúp, hyldýpið heiðblátt, og það reynist vera blátt strik og túrkisljómi kringum Hengilinn. Annars er sólarljósið rautt: rauðabjarmi, brjóstsykursrauður bjarmi, en kvöldsólin er hávaðableik; blóm og akrar eru skærgul, sólgyllt, eldskær, beykitré blóðrauð, tunglið hálfskært, mosinn er regngrænn, og sólarljósið umbreytir túnunum svo þau birtast sem neðansjávargræn sækindalönd; einnig koma fyrir kolaðir skýjabúnkar, bikaður hamar, bikaðar greinar.
Árstíðirnar eru viðfangsefni fjölmargra ljóða, fyrst og fremst í ljóðaflokknum „Veðratími“ í Kartöfluprinsessunni og „Árstíðasöngli“ í Kúaskít og norðurljósum. Jafndægur á vori er „veraldarundur“, „réttlát úthlutun ljóssins“, „andlát skammdegis“. Í júní er sumarið „gert úr snarbjörtum tíma“; þá eru dagar og nætur „jafnaldra leiksystkin“ sem „kútveltast saman í löngum brekkum“, og í júlí er sælan í algleymingi, þegar árstíðaþeginn liggur afvelta í hásumarhrúgu með fyrirfram vetrareyri í vasa. Sólin er „dægravillt, lúsiðin“, vísar „himinbláu blóminu veginn til sjálfrar sín“, gælir við fugla, flugur og fólk. Í Að ljóði munt þú verða er hún persónugerð, skrauthnöttur, buslukolla, skrautbusla sem fæðist upp á nýtt á hverjum degi blaut á bak við eyrun, hangir svo og geispar yfir okkur í annríki dagsins þangað til hún lætur „puðrandi lágt“ laufléttar öldurnar vagga sér í háttastað. Langnættið er skáldinu og ljóðmælandanum hugstætt, en ekki á það alls staðar upp á pallborðið. Í ljóðaflokknum „Brotnar borgir“ í Hugástum er höfuðborg okkar nefnd ýmsum nöfnum, meðal annars hraglandaborg, kófdrykkjuborg, glerbrotanáma, en einnig „Borg óbærilegrar birtu, andvökuljós“ og síðan „borg svefnsins langa í myrkri eftir myrkur“. Því sumarið er á enda áður en nokkurn varir; í minningunni er það eins og einn dagur, jafnvel eitt þrungið andartak.[2]
Það sem skáldið kallar „litförótt líf“ á haustin hefur reyndar sína kosti sem eru tíundaðir í ljóðaflokknum „Framlengdur sumardans fyrir austan fjall“ í Ástarljóðum af landi. Í októbermildinni í þessum lönguskuggamánuði bregður lágfleyg sólin rauðabjarma á landið, og maðurinn uppsker ýmislegt: „feitan rugguþröst / í gisnandi birkitré“, „hvíta jörð og heiðblátt hyldýpi“, glitljósabæi, túrkisljóma kringum Hengilinn. Haustmyndir birtast líka á einni opnu í Hugástum, þar sem sendibílstjórinn er beðinn að senda mikla kyrrð upp úr djúpum hljóðrákum bílanna á þjóðveginum ásamt nýkviknuðum, gagnsæjum stjörnum og kynda undir með brennisteinslykt úr skuggafjalli, og í ljóðinu um fossinn sem „heldur sínu einmana striki“, þraukar sumarlangt stjörnulaus, „það er ekki von á henni fyrr en í haust. // Þá hallar hún sér í brekkunni fyrir ofan fossbrúnina // og vatnshjartað hraðar sér.“
Veturinn getur verið frjósamur á sína vísu. Í „Árstíðasöngli“ er honum alltént lýst í gróðurlíkingum: ávöxtum dökknandi himins, hvítum rósum á lyngi, blómstrandi ást undir sængum, snjó sem grær á greinum. Vorfyglið kemur til að kveða okkur burt úr snjónum í næsta snjó. En „þögnin á öræfum þéttist / meðan jökullinn hækkar sífellt og færist nær“. Og á útmánuðum er svo komið að ljóðmælandi á bágt með að hugsa sér að sumarið eigi nokkurn tíma eftir að koma til baka. „Að skærgul blómin vaxi upp úr vetrarmelum // – að svartar hríslurnar blómstri grænar að nýju“. Lokaljóðin tvö gætu staðið sem mótvægi. Þau lýsa ferðalagi hugans inn á óraunverulegar lendur og höf, þar sem engan snjó festir, en „úrvinda kýr / sleikja heiðgult gras“, öldur springa á „bikuðum hamri“ og „höfrungar liggja við akkeri“ í „margfaldri sól“.
Flokkurinn „Á suðurleið með myndasmið og stelpu“ í Kartöfluprinsessunni er ferðasaga og náttúrulýsing eftir því sem náttúran rís – eða rís ekki – upp úr þokunni. Tónninn er galsafenginn. Ljóðmælandi snýr út úr örnefnum; ekið er eftir „svínslegu hrauninu“ og „hundheiðinni Hellis“, og bíllinn svífur „í lágflugi að gufubraut Hveragerðis“ sem fær einkunnina gróðurhúsavíti. Þokan er þétt og ferðin tekur á sig óraunveruleikablæ: „Bíldraugar í rangsælisbirtu. Göngum aftur!“ Landslagið birtist og hverfur og blandast við alls konar þjóðtrúarminni, um leið og sagan rifjast upp í óskipulegum brotum. Hér kemur við sögu hífoppmál fossanna, sennilega af því að lækir flæða upp í móti í þoku, vindar fara höndum um grashár og landbrjóst, og á einni bringunni, bak við brjóst, leynist bær, svanir þenja vængina upp vindstigann. Í lokin hverfur bjargið með fuglagargi og kindajarmi upp í hvítaþokuna, folaldið í loftfimleikum er dulbúinn engill og kríurnar gogga í hausinn á englum og halda að þeir séu menn.
Gusur um líf og dauða
„Nokkrar gusur um dauðann og fleira“ í lok Hugásta (1999) eru fyrsta ljóðasyrpa Steinunnar þar sem dauðinn kemur við sögu, en þar er fjallað um lífið, fyrst og fremst. Allt sem máli skiptir kemur í hviðum: „Hláturinn / kemur í köstum, / hláturinn yfir engu. Ekkinn / yfir því að hafa til dæmis fæðst.“ Sama er að segja um hugástina sem „liggur niðri á köflum / bólgnar svo upp“, um fæðingar-hríðirnar, sjálfa ævina, æsinguna, sólina sem „rykkist“, „vindur sig niður með hraði, á milli, pompar svo alla leið.“ „Dauðinn er það eina / sem kemur ýmist í gusum / eða í eitt skipti fyrir öll.“ „Útkoman er sú sama hvernig sem aðfarirnar eru: // Hverfur allt, og allt sem kom í hviðum. // Hverfur hugást, sú ódrepandi, vertu sæl. // Hverfur hugsun um upphaf. Timburmenn. Klístur“. Hér er sleginn strengur sem hljómar undir í fjölmörgum ljóðum Steinunnar, eins og Guðni Elísson hefur bent á.[3]
Frá og með Af ljóði ertu komin (2016) gengur Steinunn beinlínis á hólm við dauðann og forgengileika jarðlífsins. Áður hafa allar árstíðir speglast í ljóðunum, en hér í upphafi er haustið ríkjandi, fölnandi gróður, nóvembersól, nóvemberáhlaup, lémagna birki í bækluðum vangadansi. Dauðinn er dreginn fram í dagsljósið í sérstökum flokki, „Um hinstu rök“. Hann er prakkari, fyrirsjáanlegur gaur, óþarfur elskhugi sem vill bara eitt, flagari af gamla skólanum sem lofar gulli og grænum bara ef … Ljóðaflokkurinn „Um allt og ekkert þvert“ fjallar um þverstæður tímans, lífs og dauða. „Allt er undirbúningur. // Undir það sem ekkert er, // Dauðann, þannig séð“. Einhvern tíma verður allt fyrst nema Fæðingin. Hún verður ekki fyrst, heldur einu sinni. Og einhvern tíma verður allt síðast, nema Dauðinn. Ekki síðast, heldur einu sinni. „Og aðeins tvennt verður einhvern tímann fyrst og um leið / síðast. Fæðingin. Dauðinn. Jafnvel Ástin, / sjálf Ástin, ekki einu sinni hún“. Ekkert gerist um leið og það gerist, enda erum við óvitar tímans. Og „Af því að ekkert gerist um leið og það gerist / er lífið samsett úr andartökum sem við missum af.“ Sá sem dó deyr ekki í eitt skipti fyrir öll, heldur deyr hann „daglegum dauða frá okkur … til okkar … frá okkur“. Sérstakur flokkur er helgaður „Dánum vinum“, sem „eru ekki allir / og ekki allir þar sem þeir eru séðir“. Ljóðið Undirbúningur fjallar um lífið sem sífelldan undirbúning undir eitthvað sem verður alltaf öðru vísi en það sem búist er við, þar til kemur að umfangsmesta undirbúningnum undir það sem ekkert er, dauðann.
Í „Öldutralli“, lokasyrpu Af ljóði ertu komin, er fjallað um „framhaldsútlegð“ sálarinnar á „lokadegi síðustu útlegðar“. Nafnið er letrað á legsteininn, en sorgina og söknuðinn er ekki hægt að jarða eða brenna og setja í duftker; „sorgin er nafnlaus, óáþreifanleg, / hvílir ekki. //Liggur í loftinu allar götur // Dreifist ekki með öskunni / yfir æskustaðina: // Blágresisbrekkuna. // Hrauntjarnir“.
Hörfandi heimur
Vandræða nefnist upphafsljóðið í upphafsljóðaflokknum „Upp upp mín uppgjöf“ í Að ljóði munt þú verða (2018), og er nýyrði. Þetta er heimsósómaljóð, beitt og kaldhæðin úttekt á vandræðagangi þess að vera manneskja. Það er vandræðalegt að vera nýfætt barn, „þrumu lostið í móðurkviðshnipri, / organdi framan í kuldavegg geimsins“, vandræðalegt að vera gamall, „Brauðfættur voteygður skræks við einmennings ófögnuð“, vandræðalegt að vera kona á heimleið að kvöldlagi, tvífætt villibráð, „gjóandi angistaraugum / á aðalmenni með veiðileyfin“, vandræðalegt að vera karlkyns, „Í standandi / vandræðum með starfsmanninn stjórnlausa“, vandræðalegt að vera barn, „mænandi upp eftir sleggjuleggjum“, o.s.frv. Ádeiluljóð úr penna Steinunnar er nýlunda. En húmorinn er samur við sig: „Manneskja vildi ég ekki vera. Flissandi í laumi frá vöggu til grafar. // Verður að hafa það.“
Í þessari næstsíðustu ljóðabók Steinunnar er önnur merkileg nýjung á ferðinni. Náttúran hefur verið samofin allri ljóðagerð hennar, unaður í skauti hennar, náttúran í manninum, endurspeglun mannlífsins í árstíðabrigðum náttúrunnar. Í næstu ljóðabók á undan hafði hugsunin um þverstæður lífs og dauða verið áleitin. En hér er hverfulleiki mannlífsins samofinn því sem við höfum haldið vera eilíft í náttúrunni. Allt deyr, menn og dýr, tré og runnar og jökullinn sjálfur, „hvíta birtan alveg úr heiminum horfin“. Í öðrum ljóðaflokki, sem nefnist „Upp upp mín upprisa“, er reynt að slá á bjartsýnni strengi til mótvægis og huggunar: náttúran skartar enn sínu fegursta, manneskjan leitar á vit dagdrauma, himinninn lokkar. En lokatónninn er bölsýnn: Við erum ekki verkamenn í víngarði drottins, ekki góðverkamenn í lífi og dauða heldur skemmdarverkamenn: „við erum ósjálfráðir spillikettir“.
Dimmumót, nýjasta bók Steinunnar, hefur algera sérstöðu meðal ljóðabóka hennar. Hún er margradda; jökullinn er í forgrunni sem fulltrúi ósnortinnar náttúru, sýndur í öllu sínu veldi af mismunandi sjónarhól. En líka yfirvofandi eyðing hans. Það sem brennur á skáldinu er eyðilegging náttúrunnar, orsakir hennar, birtingarmyndir og afleiðingar. Fyrsti ljóðaflokkur bókarinnar, „Það kemur í ljós“, er brot af sjálfsævisögu; brugðið er upp myndum úr uppvaxtarsögu stelpu frá síðustu öld, frá þeim heimum sem hún hrærist í, einkum þeim sem nefnist Pabbasveit undir jökli. Í öðrum flokki taka við „Raddir úr Vatna-jökla-sveitum“ þar sem birtast mismunandi viðhorf sveitafólksins til jökulsins og yfirvofandi eyðingar hans. En yfir og allt um kring hljóma harmatölur og áfellisdómur ljóðmælanda yfir hamfarahlýnun af manna völdum og þeirri skammsýni, hroðgræðgi og heimsku sem hún er sprottin af. Ljóðmælandi óskar þess að hún kynni að gala galdur, til að gala „hvíta litinn til baka inn í heiminn“, gala geimruslið burt og beina óhreinindum og súrnun sjávar burt „frá brothættum ströndum, stórborgum, fiskiþorpum, … forða móðurjörðinni frá því að verða flæðisker.“
Á skærri göngu stelpunnar á dagdraumaleið í kúarekstri í Pabbasveit birtist mynd af fjölbreyttri lifandi náttúru sem jökullinn gnæfir yfir. „Hvítatign himins og jarðar … Eilífðin allt að því ínáanleg“. Í öðrum heimum sem hún gistir beinast hugsanir hennar og draumar að „eilífðarfjalli í ástarlandi // Sem yrði þar alltaf, ekki spurning / framtíðarljóst í okkar augsýn.“ En lokaljóð flokksins nefnist Sjónarsviptir I, og þar blasir tortímingin við.
Jökullinn er í forgrunni og lýsing hans þrungin tilfinningu, hann er „kastali úr snjóhvítum rósum, gljáandi ísfjall, eilífðarfjall, ljósfjall, gullfjall, hvítagullfjall, ístöfrafjall, himinhátt hvel með smáskýjakransi á flökti. En þetta er aðeins draumsýn úr heimi bernskunnar. Það er ekki aðeins að íshjúpurinn sé að hverfa og eftir standi „lamað grjótfjall“, heldur blæðir jöklinum út „og í því glæra blóði mun hálfur heimurinn hrekkjast og drekkjast“. Eyðingaröflin, sem henda ís á klakabrennuna, kynda undir í græðgispotti, erum við, „æruleysingjar, kæruleysingjar“, nánar til tekið homo sapiens, óhugnaðarafkvæmi móður jarðar sem gerum okkur líkleg til að tortíma henni.
Hér hafa komið við sögu nokkur af nýyrðum þessa margbrotna ljóðasafns, þó að mörg hafi orðið út undan. En til frekari glöggvunar fylgir hér á eftir skrá yfir nýstárlegar hliðskipanir orða, sem eru ekki síður fjölbreyttar.
Jákvæðar hliðskipanir: bláljós fjallsins, bláljósa hvel, blómstrandi ábreiða septemberjarðar, brakandi bjart ísfjall, brothættar strendur, daðrandi flúðir, draumkenndir dagar, eldskært lyng, fagurkalt haf, fágæt ljósfjöll, fossandi sól, gljáandi ísfjall, hávaðableik kvöldsól, himinhátt hvel, hægfara draumur, skær ganga, snjóhvítar rósir, spriklandi jökull, svanhvítt logn, útsprunginn hásumarjökull, æskuvegur birtunnar
Neikvæðar hliðskipanir: afplánuð einsemd, andlausir upptyppingar, beygluð flatneskja, bikaðir skuggar, drukknaðar borgir, dægravillt gamalmenni, falskt loftslag, flagnandi jökulskalli, flakkandi jökulár, gribbulegar nípur, hörfandi heimur, kolaðir haugar, lamað grjótfjall, mergsogin móðir, ótínt grjót, rambandi haugur, sjálfdauður snjór.
Steinunn og Jónas og öll hin
Langflest af þeim orðum sem skráð eru á listann teljast nýyrði, eða alltént hef ég sjaldnast fundið hliðstæður í prentuðum heimildum. Um nokkur hafa fundist örfá önnur dæmi, og sum kunna að vera sprottin af áhrifum frá eldri skáldum. Nýyrðasmíð íslenskra skálda er svið sem lítið hefur verið rannsakað. Eina undantekningin virðist vera grein Guðrúnar Kvaran um orðasmíð Jónasar Hallgrímssonar í Skírni 2011 sem Steinunn vísaði til í fyrrnefndum fyrirlestri.[4]
Fróðlegt getur verið að bera saman orðasmíð þessara tveggja skálda. Öll nýyrði Jónasar reynast vera samsett, og sama máli gegnir um langflest nýyrði Steinunnar. En lýsingarorð Jónasar eru fleiri, eða nánast helmingur af nýyrðum hans.[5] Litarorð eru fjölmjög í orðasamsetningum Jónasar, þar sem blái liturinn er yfirgnæfandi. Litarorð koma fyrir hér og þar í ljóðum Steinunnar, eins og rakið hefur verið. En þessi orð eru tiltölulega fá meðal nýyrða hennar. Jónas er fyrst og fremst skáld hinnar sýnilegu náttúru, leggur sig fram um að bregða upp skýrum myndum fyrir augum lesandans, en nýyrði Steinunnar um náttúrufyrirbrigði eru iðulega annars eðlis. Náttúruorð hennar eru fremur huglæg, algengara er að orðasmíðin birti tilfinningar ljóðmælanda gagnvart náttúrunni. En það á svo sem einnig við um orðasmíð Jónasar öðrum þræði. Hér og þar minnir orðasmíð Steinunnar vissulega á Jónas. Sérstaklega er það áberandi í Dimmumótum. Einkunnarorð bókarinnar eru sótt til Hulduljóða Jónasar: „ó hve hann hefir eftir þráð að líta / ástarland sitt með tignarfaldinn hvíta“, og Steinunn bergmálar þau á einum stað. Meðal nýsmíða Jónasar er lýsingarorðið bláljós, en samhljóða nafnorð kemur þrisvar fyrir í Dimmumótum. Nýyrði þar sem gætu minnt á Jónas eru: eilífðarfjall, fegurðardagur, hásumarjökull, hvítagullfjall, ístöfrafjall, skýhnoðrasveimur, smásólarglampar, undrahnöttur.
Nafnorðið alþögn, sem Steinunn notar í Dimmumótum, virðist vera einkaeign hennar í félagi við Einar Benediktsson, sbr. ljóðið Sunna sem er prentað í síðustu ljóðabók Einars, Hvömmum. Í fyrrnefndum fyrirlestri Steinunnar gerir hún því skóna að nýyrðið vatnshjarta kunni að vera ómeðvitað bergmál af fosshjarta Einars í Dettifosskvæði hans. Orðasamsetningin burkni blaðmjúkur kemur fyrir í ljóðinu Hvíslar mér hlynur eftir Jóhann Sigurjónsson, en blaðmjúkir fingur koma hvergi fyrir nema hjá Steinunni. Lýsingarorðið þófamjúkur virðist vera nýyrði Hannesar Sigfússonar í Dymbilvöku, sem kom út 1951. Þess má geta að vorfyglið í Veðratíma felur í sér vísun í Lóukvæði Páls Ólafssonar. Í „Árstíðasöngli“ í Kúaskít og norðurljósum er sólin persónugerð: „dægravillt, lúsiðin“. Um orðið dægravilltur eru aðeins örfá dæmi til á prenti, meðal annars í einu æskuljóði Guðmundar Böðvarssonar, sem hefur haft dálæti á því.
Nokkur dæmi má nefna um hvernig Steinunn snýr upp á hefðbundna orðanotkun. Orðasambandið rammgerð kista kemur víða fyrir í prentuðu máli, en rammgerð glatkista hvergi nema í Ástarljóðum af landi, þar sem hún talar um að þjappa unaðsdögum sumardaganna ofan í hana. Um staðgóða máltíð er oft talað, en staðgott blíðviðri kemur aðeins fyrir hjá Steinunni. Orðið spillikettir kemur fyrir sjónir sem smellið nýyrði í Dimmumótum og Steinunn hefur örugglega talið svo vera; um það er eitt eldra dæmi í ritmálssafni.[6] Þessi sparðatíningur er til vitnis um að langflest þessi nýyrði virðast vera sjálfsprottin í huga skáldsins sjálfs.
Það kemur á óvart að orðasmíð Steinunnar hafi ekki verið meiri gaumur gefinn í ritdómum um ljóðabækur hennar en raun ber vitni. Ein af ástæðum þess kann að vera sú að iðulega verður orðasmíðin svo eðlileg í samhengi ljóðanna að lesandi átti sig ekki á að um nýyrði sé að ræða. Þau reynast hins vegar vera ótrúlega mörg og fjölbreytileg og vitnisburðir um undurnæma máltilfinningu og óþrjótandi hugmyndaflug.
Nýyrði frá Verksummerkjum til Að ljóði munt þú verða
Stofnsamsetningar
aðalmenni, afturúrhlíðar, aldapur, asbestvængur, ágústþungi, árlína, bambusbreiða, barsmiður, birkilengja, blómsturtjörn, brauðfættur, brimlína, brjóstsykurbekkir, dagleiðis, dindilhnykkur, draumleiðis, dúnmosi, dýragrasaugu, eiturspúandi, eyðileið, fossdrottning, frændleiði, grasfaðmur, grashár, hálfskær, hásumarhrúga, hífoppmál, hljóðrákir, hrímveröld, hugást, hvítaþoka, ístjörn, klofstígvélaður, landbrjóst, letimakk, ljósbláklæddur, neftíta, nóvemberáhlaup, nóvembergarður, nóvemberstraumur, nýsjáandi, októbermildi, prinsbíll, raðsyndir, rauðabjarmi, risadindill, silfurslóð, skrautbusla, skrauthnöttur, skuthár, snarbjartur, snarhallur, spillikettir, túrkisljómi, undurgrátt, vindstigi, voglaus, vorfygli, þrælmeyr
Dimmumót: alþögn, fagurkaldur, fátíðnihljóð, hljóðlíf, hreystibrestir, hroðgræðgi, hvítagullfjall, hvítatign, inniteppa, ísaugu, ískálfur, júníkvöldbjartur, jökulbelja, jökulhræ, klórbræla, krúttkrútt, ljósfjall, lúxushellir, löturdýr, plastblóð, regngrænn, silfurhlátur, skrælþurr, smáljótur, smánafna, strýgulur, trjásnigilmynd, túrkisblár, villivötn, þrælsósaður, þurrgrár
Eignarfallssamsetningar
aðfarakoss, aðfarar-fullnæging, aflraunalæri, afstöðulíf, allslitaður, augnhiminn, árstíðaþegi, ástarljós, ástkonuskyldur, boltaskopp, brjóstsykursrauður, dagdraumaprins, dagdraumastétt, dómsdagsdrunur, dótturkríli, elskhugahendur, eyðimerkurbjörn, fagnaðarbylgja, fagnaðarbæn, fagnaðarleiðsla, farþegasál, flagarajakki, flauelshestur, fortíðarlygi, framhaldsútlegð, framtíðarlygi, framvinduvél, furðuvegir, garðskálagluggi, geimverudjöfull, geislaflóðbylgja, glerbrotanáma, gleymskuhöf, glitljósabær, gondólastrákur, gróðurhúsavíti, göngumannsfætur, harðneskjuhraun, hádegiseyja, hádegisströnd, hálendistóm, háttastaður, hávaðafljót, heimspekingskrútt, himnatjald, hraglandaborg, hugardæla, indælishaf, ísjakaskipstjóri, jarðvöðulskríli, jöklasafn, knapadjöfull, kófdrykkjuborg, kuldaveggur, kæruleysisprammi, landbrjóstahóll, landslagskona, leiðindaglíma, ljósaskógur, ljósmyndastelling, loftpressuborg, lönguskuggamánuður, magakisur, miðbæjarmóska, minningajörð, minnislönd, móðurkviðshnipur, myndlistarskonsa, náfingurskjúka, námsmeyjarkrútt, náttkjólasaumakona, neðansjávargrænn, næturaugu, næturhaf, óbyrjuháttur, ómælis-teygja, óþægðarhnoðri, póstkortaleikur, rangsælisbirta, reykelsismóða, rugguþröstur, rugluklæði, samstöðusyrpa, sálnaþjófur, síðdegisglans, sjávarkoss, skammadrífa, skammdegisskógardýr, skáldkonustígur, skáldsögukvikindi, skipstjórahjarta, skuggafjall, skýjabunki, sleggjuleggir, sólarlagsbarn, speglunarafrek, stjörnuverksmiðja, stólaslagsmál, strengjagutl, syndahlé, syndaspeki, sækindalönd, teygjuslöpp, tímagrjót, tískuhóll, trommutrill, unaðshrylla, unglingsrytja, uppáhaldsmunnur, uppeldisvanræksla, uppgötvunarleysi, upphafsöskur, útheimaglans, vatnshjarta, veðratími, velsyndugur, vetrarmelur, víðáttuhraun, vísifingurskjúka, þokugreipar, þokuvatn, þokuþak, þófamjúkur
Dimmumót: allsherjarhola, allsnægtakvenmaður, allsnægtareitur, alvöruævi, anarkistaspor, dagdraumaleið, dauðadansspor, dívusólgleraugu, dulareyja, eilífðarfjall, eilífðarlok, eyðimerkurhaf, framtíðarljóst, framtíðarlok, græðgispottur, hamfarahiti, hamfarahlýnun, hátíðarjökull, hávaðableikur, himnamyrkur, hlébarðajakki, hversdagsfjall, ísfiðrildislíf, ístöfrafjall, jöklakakó, jöklaþramm, klakabrenna, kraftaverkamýkt, Lómagnúpsstál, manndrápsstigi, mosahraunsstrýta, mosaspegill, myndlistargyðja, óhugnaðarafkvæmi, rúsínutá, sjökonutjald, skammdegisdans, skýhnoðrasveimur, smáskýjakrans, smásólarglampar, spóaleggjaður, stórkarlavígi, stúdentahola, súrefnisfullur, tilhlökkunarjökull, útsýnislengja, þreytuþrunginn, æruleysingjar, ömmuleiðangur
Tilvísanir:
[1] Jón Hallur Stefánsson. „Mannleg náttúra. Steinunn Sigurðardóttir: Kúaskítur og norðurljós“. Tímarit Máls og menningar 2, 1992, 101.
[2] Guðni Elísson. „Að hnýsast kringum kjarnann“. Hef ég verið hér áður? Skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur. Reykjavík 2011, 24–25.
[3] „Nærvera dauðans í lífinu er eitt helsta viðfangsefni Steinunnar í Ástarljóðum af landi. Þar sem fyrr renna saman upphaf og endalok, sá sem hefur tapað ástinni sinni sleppir ekki huganum af tíma þegar allt lék í lyndi. Að sama skapi eru ljóðmælendur Steinunnar stundum fylltir beyg yfir því að jafnvel óorðnar sælustundir taki að lokum enda. Sé ljóðaflokkurinn „Upphafsljóð fyrir eilífa byrjendur“ í Ástarljóðum af landi greindur í þessu ljósi, liggur hann ekki ýkja fjarri „Nokkrum gusum um dauðann og fleira“, þó svo að í fljótu bragði mætti ætla að ljóðaflokkarnir tveir mynduðu andstæður. Í fyrstu fundum ljóðmælandans og elskhugans í „Upphafsljóðum“ býr fyrirheit um aðskilnað. Sambandið hefur runnið sitt skeið áður en það hefst, því að endirinn endalausi gleypir að lokum allt og gerir ástríðuna að engu.“ Guðni Elísson. „Að hnýsast í kringum kjarnann“, 33–34.
[4] Guðrún Kvaran. „Vatnareyðar sporðablik, málblíðar mæður og spegilskyggð hrafntinnuþök. Um orðasmíð í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar“. Skírnir haust 2011, 318–342.
[5] Guðrún Kvaran. „Vatnareyðar sporðablik …“, 320–325.
[6] Sjá Velvakanda Morgunblaðsins 9. október 1981.