Um náttúruverndarhugmyndir Guðmundar Páls Ólafssonar

eftir Unni Birnu Karlsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2014

Guðmundur Páll Ólafsson

Guðmundur Páll Ólafsson / Mynd: Einar Falur Ingólfsson

Bókin stóra til varnar hálendinu

Bók Guðmundar Páls Ólafssonar (1941–2012), Hálendið í náttúru Íslands kom út árið 2000 eða fyrir fjórtán árum síðan.[1] Ritið, sem skilgreint var sem fræðirit fyrir almenning, stendur enn upp úr eftir allan þennan tíma sem eitt glæsilegasta og efnisríkasta ritið um hálendi landsins, enda hafði hann á valdi sínu þá marghliða færni og djúpu næmni og virðingu gagnvart viðfangsefninu sem höfundur þarf að búa yfir til að geta skapað slíkt stórvirki sem bókin er. Störf hans, fjölþætt menntun, færni og lífssýn skína í gegn í verkinu, en þar er á ferðinni líffræðingurinn, rithöfundurinn, ljósmyndarinn, náttúruunnandinn og náttúruverndarsinninn. Þetta gerði honum kleyft að skapa frásögn í lifandi texta og vönduðum ljósmyndum með svo áhrifaríkum hætti að hún opnar einstaka innsýn í margbrotna hálendisveröld Íslands. Hann fræðir lesandann um hið smæsta í hálendisnáttúrunni til hins stærsta, um fast og fljótandi, lifandi og dautt, kalt og heitt og allt þar á milli. Verk hans fjallar um hálendið út frá náttúrufari og náttúrugæðum, um náttúruöflin sem sífellt eru að verki við að skapa og móta landið, ekki aðeins ofan við hálendislínu heldur ná áhrif þeirra sköpunarkrafta líka niður láglendið, að ströndum og allt í sjó fram og auka með því auðlegð láglendis og sjávar.

Hann vekur athygli á þessu heildarsamspili náttúrunnar í gagnrýni sinni á þeirri virkjunarstefnu sem réði þá för, með tilheyrandi áformum um að stífla stærstu jökulár landsins. Hann benti á að árnar væru lífæð lands og sjávar. Ef straumur þeirra er rofinn þá slitnar sú æð. Hann dró þannig fram í virkjanaumræðuna það atriði sem lítið sem ekkert hafði verið haldið á lofti áður, þ.e. hversu lítið er vitað um og rannsakað hversu mikilvægur þáttur hálendið sé í heildarvistkerfi Íslands, bæði fyrir landið og landgrunnið umhverfis það. Hann kannaði því ekki aðeins allt hálendið frá ólíkum sjónarhornum heldur velti upp ýmsum stórum umhverfispólitískum spurningum, þar á meðal þeirri sem snertir grundvallarhagsmuni Íslendinga, þ.e. hvort langtímaáhrif virkjana séu m.a. þau að hafa neikvæð áhrif á hrygningarstöðvar úti fyrir ströndum landsins og þar með á lífsafkomu fiskistofnana sem Íslendingar byggja svo mikið á.

Í bókinni um hálendið fræðir Guðmundur Páll okkur ekki aðeins um jarðsögu og náttúrufyrirbæri heldur tengir hann saman sögu lands og þjóðar með því að flétta inn í frásögnina brotum úr skáldskap, þjóðsögum, sögum af goðmögnum og kynjaverum og sögulegum fróðleik um óbyggðirnar, frá því land byggðist og fram til loka 20. aldarinnar, til að sýna að öræfin hafa ætíð verið partur af lífi íslensku þjóðarinnar, með einum eða öðrum hætti. Öræfin eru náttúruarfur íslensku þjóðarinnar og uppspretta stórs hluta af menningararfi hennar og standa ber vörð um þau af þeirri ástæðu. Þau voru skilaboð hans til okkar og hans hjartans ósk. Sú sé ábyrgðin gagnvart komandi kynslóðum íbúa þessa lands en ábyrgðin snýr líka að heiminum öllum, benti hann á, þar eð hálendið sé lítið snortið af mannavöldum og því einstakt á heimsvísu. Hann minnti Íslendinga á ábyrgð sína gagnvart hálendinu og meira en það, hann kallaði þá til ábyrgðar. Íslendingar en ekki aðrir hefðu það á valdi sínu að vernda sitt land eða spilla því.

Með því að draga fram í dagsljósið hinar margþættu hliðar í sögu sambúðar lands og þjóðar og stefna því saman í eina lifandi heild, frásagnir manna og vitnisburð náttúrunnar sjálfrar um sambúð manns og náttúru í aldanna rás, þá tengir hann íslenska náttúru og íslenska þjóð á aldalöngum tímaás. Hann bendir á hvernig einmitt þessi sambúð og þau tengsl Íslendinga við óbyggðirnar sem hún hefur alið af sér sé líka áhrifavaldur í vistkerfi hálendisins, enda maðurinn hluti af náttúrunni og nú á tækniöld í valdsstöðu, jafnvel gagnvart ægivaldi öræfanna, til að spilla þessu vistkerfi, en að sama skapi í aðstöðu til að vernda það í nútíð og framtíð. Það má aldrei gleymast að land er menningararfur, benti hann á og meira til, eða eins og hann orðaði það: „Það er vöggugjöf hvers Íslendings og komandi kynslóða. Í þessum arfi er fólgin frumburðarréttur hvers manns ásamt ábyrgð; að njóta landsins gæða og nýta þau án þess að spilla þeim.“[2]

Þegar bókin um hálendið í náttúru Íslands kom út árið 2000 sagði Guðmundur Páll að hún væri málsvari náttúrunnar.[3] En eins og við munum þá kom hún út á tíma þegar landið logaði í deilum út af virkjanaframkvæmdum á hálendinu. Það stóð yfir barátta fyrir verndun víðfeðmra óbyggða gegn óafturkræfum spjöllum, barátta sem bæði skildi íslensku þjóðina eftir í sárum og gerbreyttu landslagi og vistkerfi á stóru svæði.[4] Eins og aðrir sem haldið hafa sjónarmiðum náttúruverndar á lofti í umræðu um virkjanir á Íslandi þá mótmælti Guðmundur Páll þeim rökum að viðhorf eða hagsmunir virkjanafyrirtækja, eða stóriðnaðar eða nýtingastefnu af hvaða tagi sem er sé rétthærri öðrum sjónarmiðum þegar kemur að því að taka ákvarðanir um hálendisnáttúru Íslands. Hann gagnrýndi hversu óþroskuð náttúruverndarstefna væri hjá íslenskum stjórnvöldum og hversu treg þau hefðu ætíð verið til að friða stór svæði á hálendinu. Það er ekki nóg, benti hann á, að friða stakar náttúruminjar eða afmarkaða staði heldur er það heildin sem skiptir máli og hann vonaði að mönnum lærðist það á Íslandi áður en það yrði of seint. Í því sambandi ítrekaði hann þýðingu þess að stofna þjóðgarða til verndar óbyggðunum því þar sé vistkerfi og náttúrugert landslag einna best varðveitt. Hann benti í því sambandi, eins og svo margir aðrir á árunum í kringum 2000, hversu einstætt tækifæri Íslendingar höfðu þá til að stofna víðlendasta hálendisþjóðgarð í Evrópu norðan Vatnajökuls, þar sem nú er komið Hálslón og fleiri lón og mannvirki og heildarmynd víðernanna rofin.[5]

 

Náttúruvernd undir merkjum djúpsærrar umhverfissýnar

Það sem gerir náttúruverndarbaráttu Guðmundar Páls svo djúpsæja er að hann kennir okkur ekki aðeins svo margt um náttúru landsins heldur beinir líka sjónum okkar að manninum í tengslum við náttúruna. Hann dregur inn í umræðuna þá þætti sem skapa samband manns og náttúru sem menn hafa viljað ógilda sem rök í umræðu um verndargildi náttúru, þ.e. hin svonefndu huglægu rök eins og þau hafa kallast, og þá oft í þeim gildishlaðna tilgangi að stilla þeim upp sem órökvísum og þar eð ómarktækum í samanburði við eitthvað sem menn kalla hlutlæg rök og staðhæfa að séu þar eð skynsamleg. Þessu tvennu var ætíð stillt upp af talsmönnum virkjanagerðar í virkjunardeilum síðustu ára og áratuga sem andstæðum þar sem hið hlutlæga merkti að hafa skynsemina svokölluðu að leiðarljósi í sambúð manns og náttúru. Það þýddi ekki að láta stjórnast af tilfinningum til landslags, sögðu þeir sem studdu og töluðu fyrir virkjanaframkvæmdum.[6]

Þessa flötu þrætubókarnálgun afbyggði Guðmundur Páll sem haldbær rök í málinu. Það væri ekki hægt að aðskilja manninn frá tilfinningum, ekki í tengslum við náttúruna frekar en neitt annað manninum viðkomandi. Eða eins og hann orðaði það „Tilfinningar gagnvart náttúrunni eru ekki aðeins eðlilegar og sjálfsagðar. Þær eru dýpstu rök mannsins í sambúð við hana. Í eðli sínu er tilfinningasambandið ekki ósvipað tengslum barns við móður, foreldra eða ástvini. Rofni þetta samband hættir maðurinn að vera varkár, hann fer um land sitt á öðrum forsendum; verður tillitslaus og umhverfinu varhugaverður eða skaðlegur. Tilfinningasemi gagnvart náttúrunni er dyggð en ekki löstur. Hún er innbyggð og inngróin nærgætni gagnvart landi og þjóð.“ Hið sama ætti við um fegurðarskynið, sagði hann.

Fegurðarskynið er sívakandi, ævinlega að meta það sem fyrir augu ber, hvort sem það er manngert eða náttúrusmíð. Fegurðarskyn er ein kveikjan í nánu sambandi manns og náttúru. Við nálgumst hana, upplifum og metum í gegnum fegurðarskynið, sem á þann hátt eykur innsýn okkar í náttúruna, fær okkur til að horfa á hana og taka afstöðu til hennar. Fegurðarskynið knýr okkur til að horfa eftir fegurð náttúrunnar, af því að við þurfum á henni að halda, lofsömum hana og erum sífellt að meta hana og upplifa. Náttúrufegurð er því ómissandi fyrir manninn, bendir hann á. Um náttúrufegurð sagði Guðmundur Páll einnig að vissulega sé hún breytileg frá einum stað og tíma til annars en hafi hins vegar orðið hálfgert feimnismál á vísinda- og tækniöld þar sem ekkert sé talið til verðmæta nema það sé mælanlegt. Oft sé sagt að fegurð sé afstæð og sú fullyrðing notuð til að réttlæta framkvæmdir sem valdi náttúruspjöllum.

Málið sé hins vegar ekki svo einfalt því að ást og umhyggja, gleði og hryggð séu líka huglægar kenndir og þar með afstæðar í svipuðum skilningi og náttúrufegurð. Þær séu einnig ómælanlegar líkt og fegurðin en án þeirra væri mannlífið óhugsandi. Allar þessar frumkenndir eru afurðir mannlegrar vitundar, sagði Guðmundur Páll, ávextir þess að vera vitsmunavera. Með því að afgreiða náttúrufegurð sem afstæða og þar af leiðandi ógildan mælikvarða, eins og gert væri af þeim sem lentu í þröng afstæðishyggjunnar, þá væri þessu mikilvæga gildi ýtt til hliðar. Það býður ekki aðeins heim vanmati á náttúruauði, að mati hans, heldur sé sjálf vitund og dómgreind mannsins forsmáð.[7]

 

Hálendið í náttúru Íslands

Hálendið í náttúru Íslands (Mál og menning, 2000)

Áherslan á tengsl manns og náttúru

Hann tekst þannig í bók sinni um hálendið á við það flókna verkefni að greina og skilgreina þann veruleika og vitundarþætti sem tengja manninn náttúrunni. Bók hans um hálendið í náttúru Íslands er þess vegna ekki aðeins málsvari náttúrunnar eins og hann kallaði hana þegar hún kom út, heldur líka málsvari mannsins sem hluta náttúrunnar. Hún er málsvari þess að það sé réttur mannsins að gera tilkall til þess réttar síns og þar af leiðandi að gera kröfu um verndun náttúru gegn spjöllum. Náttúruvernd sé þannig líka mannvernd.

Bók hans er málsvari náttúruverndarbaráttu sem heldur þessum sjónarmiðum á lofti sem jafngildum og jafnréttháum öðrum sjónarmiðum sem eru uppi á borðinu þegar rætt er um hvers eðlis samband manns og náttúru skuli vera, ekki síst í umræðu eða deilum um vernd eða nýtingu náttúru. Í því felst kjarninn í þeirri lífssýn og hugmyndafræði sem náttúruverndarhugsjón hans byggir á. Hann hafnaði alræðistilhneigingu stjórnmálamanna og annarra sem valdið hafa eða auðinn og keyra í krafti þess málin áfram á nýtingarstefnu undir merkjum stórvirkjanagerðar og stóriðju, burtséð frá og alveg sama hversu stórvægilegum náttúruspjöllum yrði valdið.

Þeir sem slíku ullu voru í órétti í yfirgangi sínum, sagði hann, ekki aðeins gagnvart náttúrunni heldur líka gagnvart íslensku þjóðinni sem væri hluti þessarar náttúru og tengd henni. Í þessu sambandi hafa óbyggðirnar sérstöðu eða eins og hann orðaði það: „Hálendi Íslands er svo til ómanngert umhverfi og þess vegna ein mesta auðlind Íslendinga. Þetta er mörgum torskilið enn sem komið er, einkum þeim er gera ekki greinarmun á sjálfbærri sambúð við landið og blindri nytjahyggju. Þjóðinni mun aldrei falla sú gæfa í skaut að fara vel með auðæfi hálendisins einblíni stjórnvöld áfram á stíflur og uppistöðulón; […] við það skerðist höfuðstóll auðlindarinnar og íslenskrar náttúru í heild sinni svo alvarlega að ekki verður bætt.“[8]

 

Ákall um breytt gildi og nýjar áherslur í sambúð manns og náttúru

Í bók sinni um hálendið kallaði Guðmundur Páll eftir breyttum vinnubrögðum og öðru gildismati á Íslandi við mat á þýðingu náttúrunnar fyrir manninn. Þar hefði ríkt skaðleg aðskilnaðarstefna byggð á þröngum sjónarmiðum. Hann benti í því sambandi á að listamenn hefðu löngum siglt um huglæga heima á öðrum forsendum en vísindamenn og verið ófeimnir að tjá tilfinningar sínar og dásamað fegurð náttúrunnar um leið og þeir hefðu túlkað umhverfi sitt með ótal blæbrigðum. Þannig höfðu þeir, segir hann, sloppið við þær hremmingar að reyna að varpa frá sér mannlegu eðli, tilfinningum sínum og fegurðarskyni, og væru lausir undan því oki að leggja kalt mat á náttúru og auðæfi hennar eins og margir vísindamenn hefðu neyðst til að taka þátt í vegna vinnu sinnar og sérþekkingar.

Hann varaði við því að hið svonefnda kalda og hlutlæga mat væri blekking. Þá væri listaverk náttúrunnar einvörðungu metið út frá flatarmáli, rammanum sem það er í, efninu og litunum sem það er sett saman úr og hvernig megi fullnýta það í ljósi gefinna efnahagsforsendna. Þegar komið er að gildi listaverkefnisins fyrir vistkerfið og umheiminn, sérstöðu þess og jafnvel hve mikið hnjask það þolir færa vísindamenn sig nær kjarna málsins þótt þeir hafi í raun takmarkaðar forsendur til að meta gildið vegna þess að þeir forðist eins og heitan eldinn að taka á huglægum verðmætum, þeim er snerta fegurð, tilfinningar og listsköpunarkraft umhverfisins. Úr þessu væri reynt að bæta í baráttu fyrir náttúruvernd, sagði hann. Með henni væri gerð tilraun til þess að öðlast yfirsýn yfir gildi náttúrunnar, sjálfs listaverksins, til framtíðar fyrir umhverfið, umheiminn og einstaklinga. Slík vinnubrögð eru listvísindi, sagði Guðmundur Páll, og því enn langt frá því að hafa slitið barnsskónum sem sæist m.a. af því ósamræmi að myndlistarmenn, ljósmyndarar, tónskáld, rithöfundar og ljóðskáld ættu yfirleitt enga fulltrúa þar sem gildi íslenskrar náttúru væri metið og hefðu þeir þó haft meiri áhrif á þroska þjóðarinnar og mat hennar á náttúrufegurð og gildi landslagsins en aðrir hópar landsmanna.[9]

Það er alltaf snúið að reyna að hneppa hugmyndir manna inn í hugmyndaramma eða kenningakerfi en ef staðsetja ætti náttúruverndarskrif Guðmundar Páls innan hugmyndakerfis vestrænnar umhverfishyggju, þá mundi ég fella hugmyndir hans í megindráttum undir visthverfa umhverfishyggju, sem hann samt setur sitt persónulega mark á því hann fléttar nálgun náttúrufræðingsins og fagurfræði rómantískrar náttúrusýnar saman við siðferðisvitund gagnvart náttúrunni í anda visthverfrar umhverfishyggju. Sú síðastnefnda á rætur að rekja til hugmynda ýmissa hugsuða í sögu vistspeki og heimspekilegrar umhverfishyggju og vísindagreinarinnar vistfræði. Visthverf umhverfishyggja byggist á heildarhyggju, á hugmyndinni um mikilvægi þess að viðhalda jafnvægi milli vistkerfa og innan þeirra. Viðhald þessa jafnvægis telst vera fremsta skylda mannsins í umgengni hans við náttúruna.

Það er heildin, vistkerfið, sem áhersla er lögð á að vernda og vistkerfið allt telst búa yfir eiginvirði, enda séu slík náttúruleg kerfi undirstaða lífríkis á jörðinni. Maðurinn sé ekki sjálfskipaður drottnari alls í náttúrunni heldur hluti af vistkerfi hennar og því eiga athafnir hans ekki að hverfast um lífsstíl sem gengur á gæði náttúrunnar með ósjálfbærum hætti heldur ber honum að vernda verðmæti náttúrunnar, fjölbreytileika hennar, jafnvægi og fegurð. Athafnir sem rýra gæði náttúrunnar séu þess vegna röng breytni því samband mannsins við náttúruna felist ekki aðeins í þörf hans og vilja til að nýta hana heldur einnig í þeirri skyldu að vernda hana. Kjarnahugmyndin er sú að það þjóni ætíð hagsmunum mannsins til lengri tíma litið að velja verndun og sjálfbærar leiðir í nýtingu náttúruauðlinda umfram skammtímahagsmuni kalli þeir á ósjálfbæra og spillandi nýtingu. [10]

 

 

 

Tilvísanir

  1. Guðmundur Páll Ólafsson, Hálendið í náttúru Íslands. Rvík 2000.
  2. Guðmundur Páll Ólafsson, Hálendið, bls. 396.
  3. „Málsvari náttúrunnar“, Morgunblaðið 28. sept. 2000, bls. 30.
  4. Um sögu deilu um virkjanir á þessum tíma, sjá t.d. Unnur Birna Karlsdóttir, Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna á Íslandi 1900–2008. Rvík 2010.
  5. Guðmundur Páll Ólafsson, Hálendið, bls. 393.
  6. Sjá t.d. Unnur Birna Karlsdóttir, Þar sem fossarnir falla, bls. 166, 170–172.
  7. Guðmundur Páll Ólafsson, Hálendið, bls. 382–384.
  8. Guðmundur Páll Ólafsson, Hálendið, bls. 396.
  9. Guðmundur Páll Ólafsson, Hálendið, bls. 383–384.
  10. Um hugmyndafræði visthverfrar umhverfishyggju (e: ecocentrism), sjá t.d. Avner De-Shalit, The Environment. Between Theory and Practice. Oxford, 2000, bls. 4.