Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Eftir Þorbjörgu Þorvaldsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2022

 

 

 

Á undanförnum árum hefur umræðan um kynhlutleysi í máli fengið síaukið vægi og fjöldi fólks látið skoðun sína í ljós. Sitt sýnist hverjum, eins og eðlilegt er, en oft hefur mér fundist fólk setja allt sem tengist óhefðbundnari kynjanotkun í máli undir sama hatt. Það sem fallið getur undir hugtakið kynhlutlaust mál er engu að síður af mörgum toga. Sumt kemur málfræðilegu kyni ekki við nema óbeint og annað er í raun viðleitni til þess að kynja málið enn frekar en nú er.

Málfræðilegt kyn er flókið, tungumál eru flókin. Þess vegna er þessi umræða flókin og hefur marga fleti. Tilgangur þessarar greinar er að útskýra á eins aðgengilegan hátt og unnt er um hvað málið snýst, svo lesendur geti áttað sig aðeins betur á umræðunni og jafnvel mátað við sína málnotkun og máltilfinningu.

Ég mun fjalla um tiltekna þætti í þessari grein og hvernig kynhlutlaust mál birtist í hverjum þeirra. Fyrst segi ég frá hinum tvíþætta merkingarkjarna karlkyns í íslensku og hvaða áhrif ég tel að hann hafi á þá togstreitu sem við búum nú við í málsamfélaginu. Þá fjalla ég um notkun á merkingarlegu kyni í samræmi og tek karlkyns starfsheiti fyrir. Einnig mun ég fjalla um tvöfalda merkingu nafnorðsins maður, sem og um óákveðna fornafnið maður.

Ég tek umræðu um hinsegin málnotkun út fyrir sviga og fjalla sérstaklega um notkun nýrra persónufornafna og hvorugkyns til þess að vísa til kynsegin fólks, enda tel ég óæskilegt að sú sértæka umræða blandist að öllu leyti við almenna umræðu um kynhlutleysi.

Ekki er einfalt að setja allar birtingarmyndir kynhlutlauss máls undir einn hatt, þótt sannarlega hafi þær allar sama tilgang þegar þær eru notaðar með meðvituðum hætti: Að auka sýnileika og hlutdeild kvenna og annarra kynja í tungumálinu. Það er ekki ætlun mín að sannfæra lesendur um ágæti kynhlutlauss máls í öllum birtingarmyndum þess, en ég er sannarlega ekki hlutlaus í þessari umræðu og ljóst er að skoðanir mínar á einstökum undirþáttum munu líklega skína hér í gegn þótt ég myndist við að vera nokkuð hlutlæg. Mikilvægast finnst mér þó að lesendur átti sig á að hægt er að hafa sjálfstæða skoðun á hverju og einu efni.

 

Hvers vegna er allt í karlkyni?

Í íslensku eru þrjú málfræðileg kyn: karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn. Öll nafnorð í íslensku hafa málfræðilegt kyn sem birtist okkur fyrst og fremst í setningalegu samræmi. Sjá dæmin í (1) þar sem lýsingarorðin sýna í raun kyn nafnorðanna sem þau standa með:

(1)
a) Þetta er falleg (kvk.) stytta.
b) Þetta er fallegur (kk.) stóll.
c) Þetta er fallegt (hk.) borð.

Í langstærstum hluta nafnorðaforða íslensku virðist skiptingin í  málfræðilegu kynin þrjú vera fullkomlega tilviljanakennd, líkt og dæmið í (1) ber með sér. Þar eru þrjár gerðir dauðra hluta sem innihalda enga skírskotun í kyn utan málfræðinnar, en tilheyra sínu málfræðilega kyninu hvert. Hins vegar, þegar við horfum sérstaklega til orða sem tákna fólk, er skipting nafnorða í málfræðileg kyn síður en svo tilviljanakennd. Gott dæmi um þetta eru starfsheiti sem eiga merkingarlega séð að geta vísað til allra kynja, en eru oftast í málfræðilegu karlkyni.

Íslenska er indóevrópskt tungumál og á því rætur sínar að rekja til indóevrópska frummálsins. Karlkyn í íslensku er talið arftaki hins forna indóevrópska samkyns, sem innihélt í upphafi þau nafnorð sem táknuðu lifandi verur. Kynjakerfi indóevrópsku hafði líka hvorugkyn, en þangað rötuðu orð sem táknuðu dauða hluti.[i] Með öðrum orðum byggði málfræðilegt kynjakerfi indóevrópsku á lifun (e. animacy), þ.e. því hvort orðin táknuðu eitthvað lifandi eða dautt. Upprunalega kerfið var þannig merkingarlegt.

Í íslensku dagsins í dag má enn finna merki þessa kerfis. Málkerfið sem við búum við og höfum flest alist upp við er þannig byggt á því að málfræðilegt karlkyn sé kynhlutlaust í einhverjum skilningi, enda er upprunalegur merkingarkjarni þess einfaldlega ,lifandi’, andstætt hvorugkyninu. Mitt uppáhalds dæmi um einmitt þetta er merkingarmunurinn á því að borða ekki neitt (hk.) og að borða ekki neinn (kk.). Dæmi um karlkynið í hlutleysishlutverki sínu má finna í (2):

(2)
a) Hverjir (kk.) vilja ís?
b) Ég held að allir (kk.) séu komnir.
c) Sumir (kk.) elska drottninguna.
d) (kk.) sem kemur fyrstur í mark fær verðlaun.[ii]

Setningarnar í (2) hafa getað vísað til allra kynja um árhundruð og gera það enn í máltilfinningu margra. Þarna er um að ræða fornöfn sem notuð eru til að tákna óskilgreindan hóp fólks af hvaða kyni sem er.

Fólk sem gerir sér far um að nota hvorugkyn í stað karlkyns myndi í stað dæmanna í (2) nota einhverja útgáfu af (3), þar sem dæmi (3d) er sérstaklega vandasamt. Þar hefur aðeins borið á notkun nýja persónufornafnsins hán sem ábendingarfornafns og ákall hefur raunar verið um að smíða nýtt ábendingarfornafn sem hvorki vísar til karlkyns né kvenkyns:

(3)
a) Hver (hk.) vilja ís?
b) Ég held að öll (kk.) séu komin.
c) Sum (hk.) elska drottninguna.
d) Hán (hk.) sem kemur fyrst í mark fær verðlaun.

Málnotkun á borð við þá sem sést í (3) er almennt ekki viðtekin í málsamfélaginu, þótt hún komi oft fyrir. Margt fólk sem notar kynhlutlaust mál gerir það þó innan þess málkerfis sem fyrir er með því að vísa í hópinn sem er ávarpaður eða umorða með því að bæta inn nafnorði eða fornafni. Dæmi um það má sjá í (4), en viðbæturnar eru undirstrikaðar:

(4)
a) Hver (hk.) ykkar vilja ís?
b) Ég held að þið séuð öll (hk.) komin.
c) Sumt fólk (hk.) elskar drottninguna.
d) manneskja (kvk.) sem kemur fyrst í mark fær verðlaun.

Togstreitan sem íslenskt málsamfélag glímir við nú um stundir og sem fólk sem notar kynhlutlaust mál reynir að leysa með málnotkun á borð við þá í (3) og (4) er sú að íslenska karlkynið hefur, samhliða hinni eldri indóevrópsku merkingu ,lifandi’, annan merkingarkjarna. Sá kjarni er ,karlkyns vera’. Þetta veldur því að merkingartúlkun orða getur verið ólík fólks á milli.

 

Merkingarkjarnar takast á 

Öll málfræðileg kynjakerfi hafa svokallaðan merkingarkjarna (e. semantic core).[iii] Þetta þýðir að hægt er að skipta hluta orðaforðans niður á málfræðileg kyn eftir merkingu eingöngu. Eins og áður sagði hefur íslenska erft leifar indóevrópsku skiptingarinnar í dauða hluti og lifandi verur, sem nær til tiltekins hluta orðaforðans, en einnig er til staðar merkingarkjarni málfræðilegs kyns í íslensku sem inniheldur skiptinguna ,karlkyns vera’ og ,kvenkyns vera’.

Þessi merkingarkjarni málfræðilegu kynjanna birtist glögglega í frændsemisorðunum móðir, faðir, bróðir og systir, sem öll beygjast eins en tilheyra mismunandi kynjum eftir því hvers kyns manneskjan sem orðið á að tákna er: Orðin sem tákna karla eru karlkyns og orðin sem tákna konur eru kvenkyns. Eins hafa öll íslensk mannanöfn þar til á allra síðustu árum verið annaðhvort karlkyns- eða kvenkynsorð og við notum á hverjum degi kvenkynsform 3. persónufornafnsins til að vísa til kvenna (hún), en karlkynsformið til að vísa til karla (hann). Að auki hefur íslenska varðveitt þá nýjung germanskra mála að nota hvorugkyns 3. persónufornafnið í fleirtölu til að vísa til kynjablandaðs hóps (þau).[iv]

Ég hef í fyrri skrifum sett fram töflu (sjá töflu 1) sem sýnir merkingarkjarna kyns í íslensku, en hún gefur nokkuð glögga mynd af stöðunni, þar sem karlkynið er eina málfræðilega kynið sem hefur tvöfaldan merkingarkjarna.

 

Lifun Kyn
kk. lifandi karlkyns vera
kvk. kvenkyns vera
hk. et. ekki lifandi
hk. ft. kynjablandaður hópur
Tafla 1. Merkingarkjarni málfræðilegs kyns í íslensku.[v]

Einstök nafnorð sem falla ekki að þessu mynstri, á borð við hetja og skáld og jafnvel barn, eru ekki nægilega mörg til að hreyfa við kerfinu. Þannig er sannarlega til staðar sterkur merkingarlegur kjarni í málfræðilegu kyni í íslensku, sem ég tel vafalaust að hafi áhrif á merkingartúlkun fólks í daglegri málnotkun. Vandinn er sá að þessir merkingarkjarnar stangast oft á, sérstaklega með karlkynsorðum sem oft eru talin kynhlutlaus í skírskotun sinni. Þannig verður til hvati að merkingarlegu samræmi: að láta merkinguna ráða því hvaða kyn er notað.

 

Eru krakkarnir glöð eða glaðir?

Flest höfum við lært að viðhafa formlegt kynsamræmi í þeim textum sem við sendum frá okkur. Hins vegar er viðleitni til þess að nota merkingarlegt samræmi í stað formlegs samræmis alls ekkert ný af nálinni og dæmi þess má m.a. finna í fornum heimildum.[vi]

Merkingarlegt samræmi birtist víða í málnotkun fólks. Við tökum eftir því þegar nafnorðið sem stýra ætti formlegu kyni tekur með sér samræmi sem vísar merkingarlega í kyn einstaklinganna sem um ræðir. Þannig getur margt fólk sagt krakkarnir eru svöng (hk.ft.), ef barnahópurinn er kynjablandaður, samhliða eða í staðinn fyrir krakkarnir eru svangir (kk.).

Merkingarlegt samræmi er algengt í þeim tungumálum sem hafa málfræðilegt kyn. Það er þó misfyrirferðarmikið, bæði milli tungumála og eftir því hvar í setningu samræmið birtist. Málgerðarfræðingurinn Greville Corbett komst að því, á grundvelli athugunar sinnar á fjölda tungumála, að merkingarlegt samræmi er líklegast til þess að koma fyrir með fornöfnum, þá með sagnfyllingum, en ólíklegast er að ákvæðisorð innan nafnliðar taki merkingarlegt samræmi.[vii] Ef við búum okkur til dæmi um kvenkyns lækni sem rætt er um, þá er líklegast að sjúklingur geti notað merkingarlega samræmið í (5a), öllu ólíklegra er að viðkomandi geti sagt setninguna í (5b) og ólíklegast er að hægt sé að nota setninguna í (5c).

(5)
a) Ég var hjá lækni (kk.). Hún (kvk.) skoðaði mig.
b) Læknirinn (kk.) minn er dásamleg (kvk.).
c) Góða (kvk.) læknirinn (kk.) skoðaði mig.

Fólk sem vill aukið kynhlutleysi í máli, eða öllu heldur minna karlkynssamræmi, hefur í þessu samhengi reynt að nota merkingarlegt samræmi í auknum mæli. Þrátt fyrir að hafa verið lengi í málinu hefur slíkt samræmi yfirleitt mætt andstöðu og t.d. almennt verið leiðrétt í skólum. Þó er ljóst að fleira og fleira fólk notar merkingarlegt samræmi og finnst karlkynssamræmi, þegar vísað er til konu, ganga gegn máltilfinningu sinni.

Þessu nátengt er hið svokallaða stofnanakarlkyn, sem er líklega sú málnotkun sem einna auðveldast er að breyta. Stofnanakarlkynið birtist t.d. í því þegar talað er um að þeir í ráðuneytinu geri eitt og annað. Vilji fólk breyta þessu þarf ekki annað en að minna sig á að yfirleitt er kynjablandaður hópur til staðar og því hægt að nota þau með merkingarlegri skírskotun.

Breytingar í átt að auknu merkingarlegu samræmi ríma vel við athuganir á öðrum málum, þar sem slíkt samræmi virðist vera nokkuð fljótandi fyrirbæri. Í tungumálum eins og rússnesku eru dæmi sambærileg (5c) t.d. fullkomlega eðlileg.[viii]

 

Karlar í öllum stöðum

Þegar horft er til þess hluta nafnorðaforðans þar sem málfræðilegt kyn byggir á merkingarkjarna lifunar eru starfsheiti væntanlega stærsta birtingarmyndin. Málfræðilegt karlkyn er ráðandi í starfsheitum, jafnvel þeim sem hafa mjög sterka kvenkyns staðalmynd eins og hjúkrunarfræðingur (kk.) eða snyrtifræðingur (kk.).

Raunar er upplifun margs fólks af karlkyni sem hlutlausu kyni svo ráðandi að þegar félagasamtök hafa skipt út karlkynsorðinu formaður í því skyni að losna við maður sem seinni hluta samsetningar hefur annað karlkynsorð orðið fyrir valinu: forseti. Túlkun þess virðist því vera kynhlutlaus þrátt fyrir að tilheyra einnig málfræðilegu karlkyni. Þó má hugsa sér að þarna sé tilraun til þess að auka á kynhlutleysi embættisheitisins, en ekki að fólki þyki nýja heitið fullkomlega hlutlaust.

Það er nefnilega upplifun margra að karlkyn á starfsheitum valdi því að merkingartúlkun verði hliðholl karlmönnum. Sálmálfræðilegar rannsóknir á úrvinnslu hlutlausra karlkynsorða í þýsku styðja þá upplifun, en þær benda til þess að fólk túlki slík orð frekar þannig að þau vísi til karla en að túlkunin sé kynhlutlaus.[ix] Þarna er ójafnvægi til staðar og það hallar á konur og kvár.

Sumt fólk hefur viljað breyta starfsheitum og búa til kvenkynsútgáfur af þeim til að auka veg kvenna (sjá umfjöllun Guðrúnar Þórhallsdóttur um kvenvæðingu[x]), eða jafnvel hvorugkynsútgáfu til að ná yfir öll kyn. Dæmi um það fyrra er að tala um framkvæmdastýru (kvk.) í stað framkvæmdastjóra (kk.) þegar kona gegnir stöðunni, en dæmi um það síðara er t.a.m. þegar eitt sinn var auglýst eftir framkvæmdastýri (hk.) hjá Samtökunum ‘78. Þessari aðferð hefur verið beitt kerfisbundið í öðrum tungumálum, t.d. í þýsku, en spurningin er hvaða ávinningi hún skilar í reynd.

Hver málhafi verður að gera upp við sig hvort heppilegt sé að merkja kyn fólks sérstaklega eða hvort hægt sé að sætta sig við það að þótt líklegra geti verið að merkingartúlkun á karlkyns starfsheitum sé sú að karl gegni starfinu, þá megi vinna gegn því með því að brjóta á bak staðalmyndir tiltekinna starfa.

Þrátt fyrir vísbendingar þess efnis að karlkyns starfsheiti ýti undir þá túlkun að um karl sé að ræða, þá hefur viðleitni af þessu tagi frekar verið bundin við samsett orð þar sem síðari hlutinn er maður.

 

Hinn þrefaldi maður

Fjöldinn allur af orðum sem hafa margþætta merkingu eru til í málinu, en þau eru þó misfyrirferðarmikil í opinberri umræðu. Líkt og frægt er orðið og margumrætt hefur nafnorðið maður tvær meginmerkingar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók segir að orðið merki annars vegar ,karl eða kona, manneskja’ en hins vegar merki það ,karlmaður’.[xi] Það má því segja að merkingarkjarni karlkyns kristallist í þessu tiltekna nafnorði. Þegar rætt er um manninn sem dýrategund er merkingarkjarninn ,lifun’ nýttur, á meðan merkingarkjarninn ,kyn’ er undirstaða þess þegar orðið merkir ,karlmaður’. Hér kemur merkingartúlkun fólks því afar sterklega við sögu.

Sálmálfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á að við úrvinnslu orða sem eru margræð virkjast einnig sú merking sem ekki á við í samhenginu.[xii] Þar sem maður í merkingunni ,karl’ er líka algengari merking en ,manneskja’ er ekki óeðlilegt að fólk túlki orð sem enda á maður, líkt og t.d. starfsmaður, ósjálfrátt fyrst þannig að um að karlmann sé að ræða. Samhliða þessu eru svo fyrrnefnd áhrif karlkynsins sjálfs á merkingartúlkun, sem ýtir enn frekar undir karllæga túlkun.

Viðleitni fólks til þess að komast hjá því að nota maður sem síðari hluta samsetningar í starfs- eða embættisheitum á borð við formaður og stjórnmálamaður er töluverð og hefur lengi verið í umræðunni. Almennt eru tvær leiðir farnar. Líkt og komið var inn á hér að ofan hafa ýmis félög brugðið á það ráð að skipta út embættisheitinu formaður fyrir forseti, þ.e. að taka upp annað heiti sem er einnig í karlkyni en inniheldur ekki maður. Seinni leiðin er sú að skipta maður í orðinu út fyrir eitthvað annað sem er meira lýsandi hverju sinni. Hér má nefna dæmi eins og stjórnmálakona eða stjórnmálafólk. Á sama hátt er starfsfólk oft notað í stað starfsmenn og ég hef einstaka sinnum séð kvenvæðinguna starfskona.

Vandamálið við maður og margræða merkingu þess einskorðast þó ekki við nafnorðið. Til er nefnilega óákveðna fornafnið maður, sem almennt er notað í óformlegu máli og oft með óskýrum framburði. Það er annars málfræðilegs eðlis en nafnorðið maður og notkun þess og merking því önnur þótt formið sé það sama. Í dæmunum í (6) er ekki verið að tala um tiltekinn mann, heldur er þarna um að ræða orð sem hefur sams konar vísun og man í dönsku og one í ensku. Mælandi getur verið að vísa til ótilgreindrar manneskju eða með ópersónulegum hætti til sjálfs sín.

(6)
a) Maður verður bjúgaður þegar maður er óléttur.
b) Svona er þetta þegar maður er þreyttur.

Ég hef séð konur sem forðast óákveðna fornafnið maður nota man eða kona í staðinn og hafa þær þá kvenkyns samræmi með. Dæmi um slíkar málsgreinar má sjá í (7):

(7)
a) Man verður svo bjúguð þegar man er ólétt.
b) Svona er þetta þegar kona er þreytt.

Það liggur í hlutarins eðli að flóknara er að skipta óákveðnu fornafni út fyrir eitthvað annað en nafnorði, enda eru fornöfn svokölluð kerfisorð. Engu að síður beitir fólk þessum aðferðum til að komast hjá því að nota maður, þá sérstaklega í undirbúnu máli.

 

Kynsegin nýyrði

Á undanförnum árum hefur mikil gróska verið innan hinsegin samfélagsins á Íslandi við smíð nýyrða sem ná utan um hinsegin tilveru. Aukin samfélagsleg meðvitund um málefni kynsegin (e. non-binary) fólks, þ.e. þeirra sem standa utan kynjatvíhyggjunnar og tilheyra hvorki mengi karla né kvenna, ýtir undir kröfur um að tungumálið sé mótað þannig að það endurspegli raunveruleikann. Krafan um breytingar á málinu í þágu sýnileika og inngildingar (e. inclusion) kynsegin fólks er ný og jafnframt afmörkuð vídd á umræðunni um kynhlutleysi í máli.

Nýyrðasamkeppnir Samtakanna ‘78, Hýryrði 2015 og 2020, hafa gefið af sér tillögur að orðum sem hafa svo í kjölfarið verið kynntar og lagðar í dóm málsamfélagsins sem þær eru smíðaðar fyrir. Nýjustu orðin sem sprottin eru upp úr nýyrðasamkeppni Samtakanna ‘78 eru nafnorðin kvár (kynsegin fullorðin manneskja) og stálp (kynsegin barn) sem eru valkostir fyrir kynsegin fólk í stað orðanna kona og karl, stelpa og strákur.[xiii]

Þótt það sé ekki algilt, þá vill margt kynsegin fólk að vísað sé til sín með málfræðilegu hvorugkyni og nýjum íslenskum persónufornöfnum eins og hán, hín eða . Persónufornafnið hán, sem líklega er þekktasta kynsegin nýyrðið, hefur nú verið í notkun í tæpan áratug.[xiv] Orðið beygist eins og nafnorðið lán og tekur með sér samræmi í hvorugkyni. Í dæmi (8) sést notkun þess og nafnorðsins kvár:

(8) Sam Smith er kvár (hk.) og er heimsfrægt (hk.). Ég fór á tónleika með háni (hk.) í fyrra.

Breytingarnar sem kynsegin málnotkun líkt og í (8) hefur í för með sér eru þær að nú er vísað til tiltekinna einstaklinga með hvorugkyni, sem hefur jafnan ekki verið gert nema í undantekningartilvikum. Í raun og veru snýr þessi breyting að því að færa hvorugkyn eintölu inn í merkingarkjarna kyns, þ.e. þann merkingarkjarna sem aðgreinir fólk eftir kynjum. Líkt og sást í töflu 1 hefur hvorugkyn eintölu hingað til aðeins tilheyrt merkingarkjarna lifunar og haft skírskotunina ,ekki lifandi’. Þetta er ein ástæða þess að fólki finnst oft óþægilegt að vísa til fólks í hvorugkyni, en ljóst er að í íslensku málkerfi er engin önnur leið fær til að tala um fólk sem fellur utan hinna hefðbundnu flokka karla og kvenna.

Mér finnst mikilvægt að aðskilja umræðuna um viðleitni hinsegin samfélagsins til þess að laga málið að veruleika kynsegin fólks og almenna umræðu um kynhlutleysi í máli. Vissulega gagnast aukið kynhlutleysi í hefðbundnum skilningi einnig sýnileika kynsegin fólks, en þessar afmörkuðu breytingar sem sjást í (8) eru aðkallandi mannréttindamál. Ekkert okkar hefur í reynd innbyggða máltilfinningu sem samræmist þessum breytingum, en þær þurfa að verða og við þurfum öll að æfa okkur. Tungumálið er stór hluti réttindabaráttu kynsegin fólks og jákvæð áhrif þess að nota kynsegin nýjungar í orðaforða eru ótvíræð, þar sem röng kynjanotkun er stór hluti þess öráreitis sem kynsegin fólk verður fyrir á degi hverjum.

Kynsegin fólk er jaðarsett í samfélaginu og uppbygging tungumálsins okkar er því miður hluti þeirrar jaðarsetningar. Þess vegna tel ég afar mikilvægt að kynna vel fornafnið hán og nafnorðin stálp og kvár, og að gerð sé skilyrðislaus krafa um notkun orðanna þegar við á, t.d. þegar fjallað er um kynsegin fólk í fjölmiðlum.

 

Að lokum

Tungumálið er flókið kerfi sem við tileinkum okkur flest án beinnar kennslu á barnsaldri. Það er mjög erfitt að breyta máli með handstýringu en mér finnst skipta máli í þessari umræðu að notkun fólks á kynhlutleysi í máli er ekki alltaf meðvituð. Það er t.d. ljóst að upplifun kvenna og kvára á því að karlkyn í hlutleysishlutverki vísi ekki til þeirra á við málfræðileg rök að styðjast. Það er hluti af máltilfinningu fólks. Að sama skapi er margt fólk sem notar karlkyn í hlutleysishlutverki í góðri trú og fylgir þar sinni máltilfinningu, sem hefur um áraraðir verið studd bæði af málstaðlinum og skólakerfinu.

Mismunandi fólk notar ekki sömu aðferðir eða hefur sömu tilfinningu fyrir því hvað er rétt eða æskilegt. Það er nefnilega mjög mikinn breytileika að finna í kynjanotkun, bæði í upplifun fólks og málnotkun þess. Til dæmis má hugsa sér manneskju sem forðast stofnanakarlkyn en notar karlkyn oftast í hlutleysishlutverki, notar merkingarlegt samræmi aðeins í óformlegu máli og finnst ekkert athugavert við að orðið maður komi fyrir í seinni hluta orða sem vísa eiga í öll kyn. Önnur manneskja notar aldrei stofnanakarlkyn, forðast karlkyn í hlutleysishlutverki eins og hægt er innan viðtekinnar málvenju, notar nær alltaf merkingarlegt samræmi í töluðu máli en forðast það í rituðu máli. Sumt af því sem þessir einstaklingar gera er meðvitað, annað ekki.

Þar sem máltilfinning fólks er ólík hef ég verið talsmaður þess að fólk sýni hvert öðru umburðarlyndi er varðar kynhlutlaust mál og leyfi málinu einfaldlega að þróast áfram, jafnvel þótt upp geti komið misskilningur endrum og eins. Stundum má e.t.v. sjá vísbendingar um pólitískar skoðanir út frá málnotkun fólks en mikilvægt er að muna að notkun á tilteknu málfræðilegu kyni er ekki endilega til vitnis um viðhorf til samfélagsins eða til jafnréttis. Einnig skiptir máli að átta sig á því að um er að ræða mörg aðgreind atriði, líkt og farið hefur verið yfir hér.

Hvað varðar hinsegin nýjungar er aðeins ein leið fær að mínu mati: Að taka breytingunum fagnandi og æfa sig í að nota hvorugkyn og ný persónufornöfn. Það er sjálfsagður virðingarvottur við kynsegin fólk.

 

 

 

Tilvísanir

 

[i] Jón Axel Harðarson, 2001.

[ii] Dæmi frá Guðrúnu Þórhallsdóttur, 2008.

[iii] Greville Corbett, 1991.

[iv] Jón Axel Harðarson, 2001.

[v] Þorbjörg Þorvaldsdóttir, 2022.

[vi] Haukur Þorgeirsson, 2018.

[vii] Greville Corbett, 1979.

[viii] Greville Corbett, 1991.

[ix] Misersky, Majid og Snijders, 2019.

[x] Guðrún Þórhallsdóttir, 2008.

[xi] Íslensk nútímamálsorðabók.

[xii] MacGregor, Bouwsema og Klepousniotou, 2015.

[xiii] Samtökin ‘78, 2021.

[xiv] Alda Villiljós, 2013.

 

Heimildir

Alda Villiljós. (2013). Hán – nýtt persónufornafn? Knúz feminískt veftímarit. https://knuz.wordpress.com/2013/09/09/han-nytt-personufornafn/

Corbett, G. G. (1979). The Agreement Hierarchy. Journal of Linguistics, 15(2), 203–224.

Corbett, G. G. (1991). Gender. Cambridge: Cambridge University Press.

Guðrún Þórhallsdóttir. (2008). „Karlkyn eða hvorugkyn? Íslensk málhefð, femínísk málstýring og verkefni þýðingarnefndar.“ Glíman, 5, 103–34.

Haukur Þorgeirsson. (2018). Eðlissamræmi í íslensku að fornu og nýju. Erindi á 32. Rask-ráðstefnunni um íslenskt mál og almenna málfræði.

Íslensk nútímamálsorðabók. (2020). Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. http://islenskordabok.is/

Jón Axel Harðarson. (2001). Um karla og karlynjur: Málfræðilegt samband karlkyns og kvenkyns í íslenzku frá sögulegu og samtímalegu sjónarhorni. Íslenskt mál og almenn málfræði, 23, 253–274.

MacGregor, L. J., Bouwsema, J., og Klepousniotou, E. (2015). Sustained meaning activation for polysemous but not homonymous words: Evidence from EEG. Neuropsychologia, 68, 126–138.

Misersky, J., Majid, A., og Snijders, T. M. (2019). Grammatical gender in German influences how role-nouns are interpreted: Evidence from ERPs. Discourse Processes, 56(8), 643–654.

Samtökin ‘78. (2021). Hýryrði 2020 niðurstöður. https://samtokin78.is/hyryrdi-2020-nidurstodur/

Þorbjörg Þorvaldsdóttir. (2022). Merking, málfræði og mannréttindi. Málfregnir, 20(1), 37–40.