Eftir Einar Kárason
Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2022
„… heldur skuli prenta þær með stafsetningu Wimmers frá þeim tímum, að Íslendingasögur voru útgefnar í Danmörku til að sanna, að þær væru ritaðar á „oldnordisk“ og afsanna, að þær væru ritaðar á íslenzku.“ (Halldór Kiljan Laxness, TMM 1941)
Fyrir nokkrum mánuðum sá ég í sjónvarpinu breskan heimildaþátt um landafundi norrænna manna í Norður-Ameríku nálægt árinu þúsund e. Kr., eða Vínlandsferðirnar svokölluðu. Sjónvarpsmenn skoðuðu meðal annars staðinn þar sem fornleifafræðingar hafa fundið ummerki um búsetu þeirra á norðurströnd Nýfundnalands, einmitt á þeim stað sem fornar íslenskar bækur segja Leif Eiríksson hafa gert sér búðir, og fleiri staði sem sömu heimildir segja leiðangursmenn frá Íslandi og Grænlandi hafa séð og heimsótt. Um margt var þetta ágætlega gerður þáttur, en þó fannst mér undarlegt að heyra þulinn segja (efnislega) að „til forna hafi verið í gangi meðal norrænna manna munnlegar heimildir um heimsóknir til þessa lands í vestri; sögusagnir sem munkar á Íslandi hafi síðar skrifað niður á skinnblöð.“
Það fyrsta sem einhver sem heyrði þessi orð gæti hafa spurt sig væri: Hvað vita hinir bresku sjónvarpsmenn um það hverjir það voru nákvæmlega sem þetta skrifuðu? Vissulega voru sagnir um þessa landafundi samdar á Íslandi, en það hefur aldrei neinn vitað hver eða hverjir það gerðu; hvort það voru munkar eða almennir borgarar, lærðir eða leikir. En það sem gerði mig hugsi er að ég heyrði að þarna endurómar nokkurra alda gömul norræn sjálfshjálparhugmynd um að þeir merkilegu textar sem á Íslandi voru skrifaðir á miðöldum væru mestanpart gamlar sögusagnir, sameign norrænna þjóða sem einhverjir skrásetjarar sem hingað höfðu hrakist settu svo á blað í fásinninu. En vert er þess að minnast að Vínlandssiglingarnar voru um það bil öld eftir að Ísland byggðist, svo að í það minnsta voru sögusagnir um þær ekki eitthvað sem landnámsmenn tóku með sér hingað.
Áðurnefnda fullyrðingu úr þessari sjónvarpsdagskrá, sem handritshöfundar hafa án efa byggt á dönskum eða norskum ritum um efnið, hefði maður varla samt farið að leggja á minnið, hvað þá fjargviðrast yfir á prenti, ef þetta hefði ekki minnt mig á önnur viðlíka ummæli í gegnum tíðina, og um leið á einhvern hátt lokið upp fyrir mér hversu mjög tilraunir nágrannaþjóða, og þá kannski allrahelst Dana, til að eigna sér íslenskar fornbókmenntir, gera þær að sínum eigin menningarverðmætum, hafa mótað og hnoðað helstu fræðikenningar um þær síðustu tvær, þrjár aldir. Og jafnframt orðið undirstaða að kreddum sem menn hafa varla þorað, vegna ímyndaðrar fræðilegrar virðingar, að víkja frá. Og að auki gert ýmsar áhugaverðar nálganir að fræðunum að einhverskonar bannorðum sem alls ekki má ræða, eða sérvisku sem ekki skuli tekin alvarlega.
En það semsagt rifjaðist upp fyrir mér er ég heyrði þessi orð í nefndum sjónvarpsþætti, að í samtölum mínum við norræna kollega eða vini hef ég nokkrum sinnum heyrt þá segja eitthvað í sömu veru. Að þeim hafi verið kennt að fornbókmenntirnar séu samnorrænn arfur, hafi orðið til og varðveist í munnmælum gegnum aldirnar. En seinnameir, og það án þess að staðsetningin skipti stóru máli, þá hafi lúsiðnir munkar á Íslandi skrifað þær niður. Þannig séu handritin kannski íslensk en það sem á þeim standi, sjálfar bókmenntirnar, hinsvegar einhverskonar samstarfsverkefni norrænna þjóða til forna. (Minna má á að frá 1870 og mestalla tuttugustu öld var 350 síðna „Oldnordisk læsebog“ danska fræðimannsins Ludvig Wimmer kennd í öllu framhaldsnámi á Norðurlöndum, en þar er erfitt að sjá að þetta séu íslenskar bókmenntir. )
Líklega hef ég aldrei pælt almennilega í svona ummælum þegar ég hef heyrt þau sögð, þá í og með af því mér hafa fundist þau of fráleit til að taka alvarlega; bara hlegið og beint talinu að öðru. En hef svo í seinni tíð verið að átta mig á að menn meina svona bull í alvöru; þetta eru „sannindi“ sem fólki er kennt að trúa. Og á dögunum, eftir að hafa hnotið um breska landafundaþáttinn, ræddi ég þessi mál við mág minn sem í áratugi hefur búið í Danmörku og starfað þar við háskólakennslu, og hann staðfesti, mér til undrunar, að hann heyri iðulega svona sjónarmið, eða svona kennisetningar, sagðar eins og sjálfsagt mál, meðal annars í sínu akademíska umhverfi, og að við þeim sé greinilega gleypt gagnrýnislaust.
Ef bresku sjónvarpsmennirnir sem gerðu fræðsluþáttinn um Vínlandsfarana hefðu kynnt sér málin almennilega þá hefðu þeir til dæmis getað fræðst um það að ein þeirra sem tók þátt í síðasta og lengsta landkönnunarleiðangrinum í vesturátt frá Grænlandi var Guðríður Þorbjarnardóttir, eiginkona leiðangursstjórans, Þorfinns Karlsefnis. Hún fæddist og dó á Íslandi og var víðförulust allra kvenna svo vitað væri á sinni tíð; ferðaðist sex sinnum á opnum skipum yfir Atlantshafið þvers og kruss, fór um Evrópu allt niður til Rómar, um Ísland og Grænland til Ameríku og þannig fram og til baka. Í umræddum síðasta leiðangri, sem var farinn á nokkrum skipum, mun hafa talið um 160 manns og tók nokkur ár, var siglt suður með austurströnd Norður-Ameríku, og á stað sem leiðangursmenn kölluðu Hóp og margir telja nálægt því þar sem borgin New York síðar reis, jafnvel á sjálfri Manhattan-eyju, fæddist þeim Guðríði og Þorfinni sonur sem fékk nafnið Snorri. Þau hurfu þaðan, meðal annars eftir skærur við innfædda, en Guðríður lifði til elli á Íslandi, á ofanverðri elleftu öld. En börn hennar og barnabörn langt fram á þá tólftu, eða þar til komið var nálægt ritunartíma sagnanna um þessar ferðir. Og Guðríður er manna líklegust til að hafa kunnað sögu þessa leiðangra í þaula, sem þátttakandi að sjálfsögðu, en að auki var hún ekkja eftir bróður Leifs Eiríkssonar, Þorvald, er hún giftist eftir Þorfinni Karlsefni. Enda eru frásagnirnar svo nákvæmar og réttar að enn mætti nota þær sem leiðarvísi þegar siglt er um þessar strendur, og eftir þeirra vísbendingum hófu fornleifafræðingar að grafa sig niður, á hárréttum stað (þar sem nú heitir L’Anse aux Meadows), á árunum í kringum 1960.
Rétt eins og að sú kenning að Vínlandsferðirnar hafi lifað í sameiginlegri munnlegri geymd meðal norrænna þjóða og borist með landnámsmönnum til Íslands stenst enga skoðun, þá gildir í rauninni það sama um stærstan hluta af helstu og veigamestu fornbókmenntunum. Megnið af þeim fjallar um menn sem uppi voru og atburði sem gerðust á Íslandi eftir að það land byggðist, og sumt löngu eftir. Þetta á meira og minna við um allar svokallaðar Íslendingasögur og -þætti, og drjúgan part annan af þeim meira en 300 ritum sem við vitum að hér voru samin á tólftu, þrettándu og fjórtándu öld. Þarna eru sögur um íslenska biskupa og helga menn og samtímaatburði ýmsa, eins og úr hinu mikla Sturlungu-safni um innanlandsófrið á Íslandi á þrettándu öld. Töluvert er skrifað um norræna konunga, aðallega frá Noregi og Danmörku, einnig Orkneyjum, en mikið af því er eftir nafngreinda íslenska höfunda, og sumt það veigamesta, eins og sögur um norsku kristniboðskóngana Ólaf Tryggvason og nafna hans Haraldsson, gerist löngu eftir landám Íslands. Um norræna fornkonunga er auðvitað sitthvað sótt í munnlega geymd en líka er vitað, og hefur verið sýnt fram á af fræðimönnum, að er mestanpart byggt á gömlum dróttkvæðum um hetjudáðir og bardaga umræddra konunga. Menn gætu kannski lengst staðið á samnorrænni munnlegri geymd þegar kemur að uppruna sagna og ljóða um fornan átrúnað, ásatrúna, en þó eru margir fræðimenn farnir að hallast að því að það sem til dæmis Snorri Sturluson skráði hjá sér af slíku kunni að vera hans eigin skáldskapur, enda æsir víða í hans Eddu settir í spaugilegra ljós en tíðkast um slík goðmögn; þrumuguðinn Þór til dæmis færður upp í kvenmannsföt. Þótt hitt sé auðvitað líka ljóst að sum Eddukvæðanna eiga sér upphaf löngu fyrir Íslands byggð.
Á miðöldum virðast íslensk skáld og íslensk bókmenntaverk hafa verið nokkuð þekkt annarsstaðar á norðurlöndum. Íslendingar voru löngum hirðskáld norrænna konunga og jarla; íslenskir höfundar voru fengnir til að skrifa um ævir norskra konunga er þeir komu þangað, til dæmis báðir frændurnir Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson, og sömuleiðis var bróðir þess síðarnefnda, Ólafur hvítaskáld, fenginn til svipaðra starfa við dönsku hirðina, og þar á undan Karl ábóti frá Þingeyrum. Íslenskar bækur eru einnig taldar hafa verið útflutningsvara á þessu tímabili og greiddar háu verði, enda til að mynda skiljanlegt að norskum höfðingjum hafi þótt slægur í því að eiga vegleg rit um sína forfeður og samlanda og notuðu auðvitað sögurnar til að sýna fram á lögmætt tilkall sitt til valda.
En svo gerist það um miðja fjórtándu öld að þessi menningartengsl milli Íslands og Skandinavíu rofna við það að austnorrænu löndin hætta að nota hina sameiginlegu gömlu tungu og taka upp nýja, þá þýskuskotnu sem við síðan köllum norsku, sænsku og dönsku. Þar með varð íslenskur skáldskapur óskiljanlegur og verðlaus í augum nágrannaþjóðanna. Og þær gömlu íslensku bækur sem voru í þeirra eigu sömuleiðis; maður getur skilið að fornar gulnaðar skinnbækur á framandi tungu og letri hafi fljótt fallið í gleymsku og vanrækslu. Enda ekki mikið vitað um slíkt sem varðveist hefur í nágrannalöndunum frá miðöldum.
Eftir upplausn Kalmarsambandsins á árunum uppúr 1520 voru tvö konungsríki á Norðurlöndum, Svíþjóð og svo Danmörk, sem var nokkurt veldi á evrópskan mælikvarða þess tíma; náði yfir töluverð landsvæði þar sem nú er Norður-Þýskaland og suðurhluta Svíþjóðar; konungsríkinu tilheyrði Noregur og svo eyjar í Norður Atlantshafi. Stórveldatilkall og landakröfur konungsríkja sóttu þá ekki síst rök til fornrar frægðar, og auðvitað vissu allir hve mjög Danakonungar höfðu ráðið löndum á blómatíma víkinganna, um Bretlandseyjar og suðureftir Evrópu, og sama gilti um Svía sem höfðu teygt sitt veldi um Eystrasalt og austur í Garðaríki. Til þess að styrkja veldisstöðu var því nokkur nauðsyn að geta vísað til skrifaðrar sögu og fornra heimilda. En þar stóð hnífurinn í kúnni; það var næstum ekkert til; Svíar stóðu algerlega á gati, Danir höfðu að vísu latínubók Saxa, sem náði þó frekar skammt í svona tilliti þótt þar sé að finna margar merkar frásagnir af dönskum fornkonungum. Og bókmenntasaga og skáldfrægð Íslendinga nær öllum gleymd í þessum löndum.
Það var svo eins og menn vita með prenttækninni á sextándu öld sem ferðabækur og lýsingar á fjarlægum og undarlegum stöðum fóru að verða útbreiddar og fóru Íslendingar ekki varhluta af því, hrein níðrit um þetta land, þar sem var að finna opið niður til helvítis, komu á markað og lýstu þrautpíndri villimannaþjóð sem þar hírðist og hafði aldrei komist í samband við neitt sem kallast mætti siðmenning eða menntun. (Frægust þannig bóka á síðari tímum hefur orðið rit Dithmars Blefken.) Slíkum níðpistlum um Ísland svaraði íslenski fræðimaðurinn Arngrímur lærði með sínum skrifum og þekktast þeirra er bókin Crymogea sem gefin var út á latínu í Evrópu 1609, en Arngrímur vísar meðal annars til hinna miklu rita sem Íslendingar sömdu á miðöldum, um atburði hérlendis og erlendis, herfarir og glæsta sigra norrænna sækonunga, til sannindamerkis um að hér hafi ekki bara lifað kúltúrlausir skrælingjar.
Þegar innihald rita Arngríms spurðist út varð uppi fótur og fit. Þarna var þá komið það sem konungsveldin voru á höttunum eftir; hinar skriflegu heimildir sem hafði verið leitað voru semsé til í stórum stíl á Íslandi! Þetta þóttu aldeilis góðar fréttir, og nú voru gerðir út leiðangrar til að sækja þessi skrif. Bæði Danir og Svíakonungur sendu hingað menn til að safna handritum og langmest munaði um söfnun Árna Magnússonar á síðustu áratugum sautjándu aldar og fyrstu áratugum þeirrar átjándu.
Það handritasafn, geysimikið að vöxtum (enda var verkefni hans að safna saman hreinlega öllu af því tagi), var nú komið til Kaupmannahafnar, í eigu konungs og á forræði Kaupmannahafnarháskóla. Og í hendur danskra fræðimanna sem auðvitað áttu að rannsaka málin og skoða hvernig mest og best mætti nýta þau skrif til að varpa ljóma á konungsríkið gegnum aldirnar.
Það verður að viðurkennast að þeim dönsku fræði- og háskólamönnum sem þarna voru allt einu orðnir vörslumenn þessa auðuga bókmenntaarfs og undir nokkurri kröfu um að útskýra hann og kynna fyrir heiminum sem hann væri á einhvern hátt afurð þeirra eigin þjóðar, var að sönnu vandi á höndum. Það skal virða þeim til vorkunnar að þessi geysilegi handritastabbi hefur verið í ærið misjöfnu ástandi; margt fúið og myglað og eflaust sumt illa lyktandi, annað sótugt og skorpið; margt í bútum án upphafs og endis, eða hafði jafnvel verið klippt eða rifið niður. Og það sem verra var: Þetta var á óskiljanlegu tungumáli. Og Íslendingasögurnar sögðu frá löngu liðnum mönnum sem voru öðrum en Íslendingum með öllu ókunnir, og oft um skærur þeirra eða níðingsverk hver á öðrum af lítt skiljanlegu tilefni. Þarna var eitthvað annað á ferðinni en heiðríkja og tærleiki klassískra fornbókmennta, frá til dæmis Grikkjum og Rómverjum (þótt ekki vanti þar heldur níðingsverkin); ritunum sem húmanískum fræðimönnum Evrópu þess tíma var tamara að stúdera.
Þetta var semsagt bæði óárennilegt og óskiljanlegt þessum góðu mönnum, og ef mætti ímynda sér hliðstæðu þá gæti hugsast að Íslendingar hefðu um svipað leyti fengið í hendur, sem sína eign, alla ítalska og þýska barokktónlist, án höfundanafna. En á Íslandi í byrjun átjándu aldar var nær engin tónlistarhefð; hér höfðu aldrei verið til hljómsveitir og varla hljóðfæri eða tónskáld, hvað þá hljómleikasalir eða kórar. Og mætti því vel ímynda sér að okkar fátæklegu fræðimenn á því sviði hefðu látið hvarfla að sér að umrædd verk höfunda, á borð við Händel, Bach og Vivaldi, væru kannski sjálfsprottin uppúr fuglasöng, eða einhverju samevrópsku söngli sem þjóðir og alþýða hefðu í gegnum aldirnar þróað með sér, og þar á meðal kannski ekki síst íslenskum þjóðlagastemmum, og sem lúsiðnir og sístarfandi munkar hefðu loks skráð með nótum á blöð.
Sjálfsagt er að gera ráð fyrir að í röðum hinna gömlu dönsku fræðimanna hafi verið skynsamir og gáfaðir menn sem eflaust hafa látið hvarfla að sér að það gæti verið samhengi á milli þess að í afskekktu og fámennu samfélagi norður í höfum á þrettándu öld, án alls opinbers menntakerfis eða skólastofnana, skyldu vera samin háþróuð og listræn bókmenntaverk, og svo hins að á sama tíma voru uppi í landinu nafngreind stórskáld sem vitað er að voru fær um að skrifa þannig texta; menn á borð við Snorra Sturluson og Sturlu Þórðarson, bróðurson hans og nemanda.
Svo er þess að geta að á Íslandi, þaðan sem þessi verk komu, og fram til þess að handritin höfnuðu í Kaupmannahöfn, var ekki að sjá að menn hafi endilega verið sannfærðir um að engin leið væri að vita hver hefði samið þau. Um eina af mögnuðustu Íslendingasögunum, Grettis sögu, er það til dæmis að segja að þar virðist hafa verið útbreitt álit að tengja hana við höfundinn Sturlu Þórðarson – um það vitna athugasemdir seinni tíma skrifara, og meira að segja Árni Magnússon sjálfur, sem fyrstur kynnti verkin dönskum fræðimönnum, lætur þess getið í skriflegri athugasemd frá því nálægt 1700 að frumgerð Grettis sögu sé eftir Sturlu. (Að sú gerð sem við nú höfum sé „interpóleruð“ úr eldra verki Sturlu, og hann minnist þess að hafa séð „fragment“ af þeirri bók.)
En hefðu nú fræðimennirnir í Kaupmannahöfn á þessum tíma komið með þannig skýringar, að þetta væru einfaldlega höfundaverk tiltekinna íslenskra skálda á miðöldum, eins og eiginlega lá beint við að álykta, þá hefði kannski fljótt farið að sneiðast um opinberar fjárveitingar til þeirra rannsókna. Því að slík speki hefði lítið gagnast til að varpa gloríu og ljóma á danska konungsríkið að fornu og nýju. Og það er trúlega þessvegna sem koma fram kenningar, og sem smám saman verða að einhverskonar viðteknum sannleik, dönsku fræðaforræði, hegemóníu: að þetta sé allt sprottið upp úr sameiginlegum norrænum sagnaarfi; og því sé útilokað að vita hver hafi fyrst sett sögurnar á blað, enda skipti það engu máli. Og jafnframt tekinn upp sá siður að hæðast og hlæja að þeim mönnum sem reyndu að geta sér til um slíkt; það geti aldrei orðið annað en þarflausar ágiskanir, þeir sem festu á blað hafi bara verið nafnlausir skrásetjarar, líklega munkar í klaustrum – sjálfur sá ég gjarnan fyrir mér þegar manni voru kennd þessi fræði í grunnskóla dvergana sjö úr disneymyndinni um Mjallhvíti, syngjandi Hæhó hæhó, við höfum starfað nóg – hver sem er hafi getað skrifað svona niður, og eitt helsta íslenska stórskáld miðalda, eða bara fyrr og síðar, Sturla Þórðarson, hefur fyrir vikið ekki einu sinni fengist kallaður rithöfundur, heldur bara sagnaritari, nokkurskonar sekreter, og er Íslendingum til skammar að hafa verið með í því.
Hér hefur verið rakið hvernig það gerðist að sú túlkun, sem hefur verið viðtekin síðan þá, varð til: að þarna væri varla um að ræða verk íslenskra höfunda, heldur samnorræn munnleg geymd sem tilviljun hafi ráðið að nafnlausir skrifarar á Íslandi festu á blöð.
Kannski væri engin ástæða til að vera að svekkja sig á því þótt góðir grannar vorir vildu trúa þannig kenningum, og auðvitað dugir slíkt ekki til lengdar til að taka heiðurinn af okkar fornu sagnameisturum. En það sem hinsvegar pirrar mig nóg til að setja þessi orð á blað er að þessar kennisetningar hafa æ síðan haft mótandi áhrif á fræðilega umræðu um sagnaarfinn, líka á meðal íslenskra fræðimanna, og það enn þann dag í dag!
Það gerðist auðvitað þannig að þegar handritin voru orðin eign danskrar akademíu og stofnana áttu þeir sem þau rannsökuðu að sjálfsögðu fyrst og fremst framfæri sitt og viðgang undir danska konungsvaldinu. Og liggur að sjálfsögðu ljóst fyrir að þeir urðu jafnframt að gangast inn á þau „undirstöðusannindi“ sem sú akademía gekk útfrá. Að sjálfsögðu voru íslenskir fræðimenn jafnan að störfum í kringum handritin í Kaupmannahöfn, sóttu nám og stunduðu kennslu í fræðunum þar í borg og úr varð það sem kalla má dansk-íslenska norrænuskólann. Hann fór með algert forræði í öllu fræðilegu tilliti þegar kom að rannsóknum og kenningasmíði um þennan bókmenntaarf, og þeir sem ekki féllust á hans grundvallarforsendur áttu sér tæpast viðreisnar von sem fræðimenn; voru ekki taldir viðræðuhæfir. Enda til dæmis með öllu þarflaust að leita höfunda verkanna; hver sem er hefði í rauninni getað punktað það hjá sér sem hann hefði heyrt. Og þetta bitnaði ekki bara á þannig pælingum, heldur ekki síður á því að verkin væru rannsökuð sem þrettándu aldar bókmenntaverk.
Allra grátlegast er þó að þótt miðstöð fræðirannsóknanna færðist frá Danmörku til Íslands þegar líða tók á 20. öld, ásamt með megninu af handritunum, þá fylgdu kreddurnar með. Þetta hélt áfram að vera dansk/íslenskur „norrænuskóli“ – bara í öðru landi. Að vísu gerðist það í sjaldgæfum tilvikum að inn í hann kæmu menn úr öðrum áttum; Dr. Sigurður Nordal stundaði meðal annars háskólanám í Berlín og Oxford og kannski gaf það honum víðsýni næga til að skoða uppruna Grettis sögu og gefa út rit 1938 sem hét „Sturla Þórðarson og Grettissaga“ (og einnig má nefna þekkta ritgerð hans um Hrafnkötlu, þar sem hún er skoðuð sem sjálfstætt þrettándu aldar bókmenntaverk), en eftir því sem hann komst til meiri metorða í fræðaheimi dansk/íslenska skólans viðraði hann minna slíkar hugmyndir. Og ég hef á tilfinningunni að enn sé hugsun hérlendra norrænufræðinga að miklu leyti upp úr gömlu frystikistunni. Fyrir fáeinum árum las ég fína grein eftir ungan og virtan íslenskan fræðimann þar sem hann bar saman manngerðir þriggja sögupersóna úr fornum ritum og sá með þeim líkindi af því tagi sem við almennir lesendur könnumst gjarnan við úr bókum sem eiga sér sama höfund. Þegar ég hitti hann á ráðstefnu og sagðist hafa lesið greinina og vildi bera undir hann þær hugsanir sem hún hefði vakið mér greip hann fljótt fram í og sagði: Ég tek ekki þátt í höfundaleiknum!
Og við þetta má bæta að handritaskólinn hefur leitt til þess að ágætasta fólk hefur eytt jafnvel áratugum í að búa til ættartré handrita og stunda endalausan samanburð á mismunandi uppskriftum án þess jafnvel að spyrja sig um bókmenntagildi verksins sem þannig er rannsakað.
Það má að vísu kallast dálítið undarlegt að þeir góðu fræðimenn sem stúderað hafa málfræði og stundað handritarannsóknir, ásamt ýmsu öðru þarflegu, skuli á þann hátt sem raun ber vitni hafa orðið einskonar hæstaréttardómarar um höfundasögu hinna stóru gömlu listaverka. Því að það er ekkert í þeirra námi eða skólamenntun sem gerir þá bæra til að úrskurða um hvað það útheimtir í reynslu og kunnáttu að búa til jafn viðamikil og margslungin prósaverk eins og til að mynda Njálssögu. Enda stórmerkilegt að þau úr þeirra röðum sem þó hafa, kannski eins og í hálfkæringi, leyft sér að kasta fram tilgátum um höfunda þess mikla epíska stórvirkis hafa yfirleitt staldrað við nöfn einhverra algerra amatöra á því sviði – en auðvitað er það í anda gömlu hugsunarinnar um að hver sem er gæti hafa hripað munnlega sagnarfinn á blað.
Viðbárur fræðimanna hafa gjarnan verið að þar sem aldrei verði hægt að sanna hver hafi skrifað helstu bækurnar sé meiningarlaust að vera að jagast um það, og vissulega er sannleikur í því svo langt sem hann nær. Hinsvegar geta umræður í þeim farvegi getið af sér miklu frjórri pælingar en margt úr hinu þurra hefðbundna stagli. Þannig var það til dæmis þegar Vésteinn Ólason og aðrir fræðimenn tóku að færa sannfærandi rök fyrir því að Snorri Sturluson væri höfundur Egils sögu þá opnaði það leið fyrir mjög skemmtilegar nýjar pælingar og túlkanir á sögunni. Það sama varðar Sturlu og Grettis sögu, eins og til dæmis hvað snertir lykilsetningu þeirrar sögu: „sitt er hvort gæfa eða gjörvileikur“ sem virðist vera ein af höfuðráðgátum sem Sturla glímdi við í sínum þekktustu verkum. Og sama gildir um það sem sýnt hefur verið fram á, að Njálssaga fylgir í efni og formgerð kjarnabók Sturlungusafnsins, og virðist því vera einhverskonar útlegging á stóratburðum 13. aldar – það gefur um margt nýja sýn á þá perlu miðaldabókmenntanna.
Hvað sem því líður: Hinn dýrmæti bókmenntaarfur á það skilið að við brjótum af okkur gömlu danskættuðu grýlukertin.